Nú
er Gunna á nýju skónum,
nú eru að koma jól.
Siggi er á síðum buxum,
Solla á bláum kjól.
Mamma er enn í eldhúsinu
eitthvað að fást við mat.
Indæla steik hún er að færa
upp á stærðar fat.
Pabbi enn í ógnarbasli
á með flibbann sinn.
„Fljótur, Siggi, finndu snöggvast
flibbahnappinn minn“.
Kisu er eitthvað órótt líka,
út fer brokkandi.
Ilmurinn úr eldhúsinu
er svo lokkandi.
Á borðinu ótal bögglar standa,
bannað að gægjast í.
Kæru vinir, ósköp erfitt ,
er að hlýða því.
Jólatréð í stofu stendur,
stjörnuna glampar á.
Kertin standa á grænum greinum,
gul og rauð og blá.
Loksins hringja kirkjuklukkur,
kvöldsins helgi inn.
á aftansöng í útvarpinu,
allir hlusta um sinn.
Mamma ber nú mat á borð
og mjallahvítan dúk,
hún hefur líka sett upp svuntu,
sem er hvít og mjúk.
Nú er komin stóra stundin,
staðið borðum frá,
nú á að fara að kveikja á kertum,
kætast börnin smá.
Ungir og gamlir ganga kringum,
græna jólatréð.
dansa og syngja kátir krakkar,
kisu langar með.
Leikföng glitra, ljósin titra,
ljómar stofan öll,
klukkur hringja, krakkar syngja
kvæði og lögin snjöll.
Stelpurnar fá stórar brúður,
strákurinn skíðin hál,
konan brjóstnál, karlinn vindla,
kisa mjólkurskál.
Síðan eftir söng og gleði
sofna allir rótt,
það er venja að láta ljósin
loga á jólanótt.
Ragnar Jóhannesson

|