
Hreindýr eru Hjarðdýr
Eitt aðal einkenni hreindýra er að þau
halda sig í hjörðum eða hópum en hjarðirnar eru
misstórar eftir árstíma. Líklegt er að hjarðeðlið
hafi þróast að hluta til sem vörn gegn rándýrum.
Fullorðnir tarfar geta hins vegar verið einfarar þar
til að fengitíma kemur en þá sameinast þeir
hjörðunum.
Stofnstærð
Á Íslandi lifa hreindýr aðallega á austurlandi og þá
einkum við hálendi. Útbreiðsla þeirra er takmörkuð
og virðist vera sem þau geti ekki lifað hvar sem er
á landinu. Þessu til stuðnings má nefna tilraun til
ræktunar hreindýra á suðvestur horni landsins sem
bar ekki árangur einkum vegna fæðuframboðs
landsvæðisins. Svo virðist sem austurland sé
hentugast landsvæðið fyrir hreindýr og þeirra
fæðuval. Í dag telur hreindýrastofninn í kringum
3.5oo dýr.
Á vef
húsdýragarðarins segir:
Fjölskyldugerð: tarfur, kýr, kálfur.
Þyngd: meðaltal: tarfur 80-100 kg.
og kýr 60-75 kg.
Fengitími: september-október.
Meðgöngutími: 7 ½ mánuður.
Fjöldi afkvæma: 1-2 kálfar.
Nytjar: kjöt, horn og skinn.
-
Hreindýr voru flutt til landsins á seinni hluta
18. aldar. Í stofninum eru nú um 3.000 fullorðin
dýr og eru aðalheimkynni þeirra hér á landi á
austurlandi.
-
Öll
hreindýr fella hornin einu sinni á ári.
-
Hreindýr eru með mjög skjólgóðan feld og eins og
hjá refum eru hárin hol að innan sem einangrar
vel.
-
Hreindýr eru jurtaætur og lifa því einungis á fæðu
úr jurtaríkinu. Þeirra uppáhald eru fléttur og
skófir, auk þess finnast þeim sveppir lostæti.
Íslensk hreindýr - Nánari upplýsingar
Ekki gekk áfallalaust að flytja inn hreindýrin á
sínum tíma. Gerðar voru fjórar tilraunir og tókst
loks vel í þeirri síðustu. Hreindýrin komu frá
Noregi og Finnlandi. Upphaflegur tilgangur með
hreindýrainnflutningi var að efla íslenskan
landbúnað. Átti þá að stunda hreindýrabúskap að
hætti hjarðmanna á norðurslóðum. En líkt og komið
hefur fram náðu hreindýrin einungis að draga fram
líf sitt á vissum hluta landsins, þ.e. á
norðausturhluta landsins og þar finnst gnægt af
fléttum, skófum og fjallagrösum. Var þá búið að
flytja inn hreindýr á nánast alla landshluta hér þar
á meðal til Vestmannaeyja!
Hjarðdýr
Hreindýrin eru það sem kallast hjarðdýr það er þau
lifa í hjörðum og þar ræður tarfurinn ríkjum.
Tarfurinn er með nokkurs konar kvennabúr og leggur
mikla áherslu á að vernda hjörð sína fyrir öðrum
törfum. Algengt er að ungir kynþroska tarfar flakki
um og reyni að næla sér í kýr úr öðrum hjörðum. Á
meðan fengitíma stendur fer langmestur tími og orka
tarfsins í að vernda hjörð sína og þá getur jafnvel
komið fyrir að þeir láti lífið vegna næringarskorts.
Hornin

Hreindýr eru af hjartarætt og eru þau einu slíkrar
tegundar þar sem bæði kynin eru hyrnd. Hornin á
fullorðnum dýrum eru mjög stór miðað við horn
annarra hjartardýra.
Þau
vaxa árlega og eru þá klædd floskenndri húð, er
nefnist basthúð, sem er mjög æðarík. Þegar hornin
eru fullvaxin þá flagnar þessi húð af og ekki er
óalgengt að sjá hreindýr éta þessa húð þar sem hún
er full af næringarefnum. Tarfarnir fella hornin í
nóvember-desember, geldar kýr og ungir tarfar í
janúar-mars en kelfdar kýr ekki fyrr en eftir burð í
maí. Til viðbótar að vera jórturdýr sem gjörnýta
fæðuna þá endurnýta hreindýrin hornin sín, naga þau
og fá úr þeim kalk.
Feldur hreindýra
Hreindýrin eru með skjólgóðan og hlýjan feld og eru
hárin hol að innan sem eingangrar vel. Þessi holu
hár þekja ekki allan líkama hreindýranna heldur
einungis á þeim svæðum sem helst þurfa hlýju. Af
þeim völdum eru hreindýrin hér oftast úti við og
fara einungis inn í hús til að ná í fæðu og einstaka
sinnum til að komast í skugga þegar of heitt er í
veðri. Snoppa hreindýranna er alveg loðin og því
tilvalin til þess að krafsa upp fæðu í gegnum þykkt
snjólag án þess að valda þeim óþægindum.
Veiðar og nýtni:
Á hverju ári fer fram talning á hreindýrum til þess
að áætla stofnstærð þeirra. Út frá þeirri talningu
er síðan ákveðið hversu mörg dýr má veiða það árið.
Nú árið 2003 voru veidd 740 dýr af 800 dýra kvóta,
þetta er með meira móti þar sem yfirleitt er gefin
kvóti á um 500 dýr á ári. En á síðasta ári kom í
ljós við talningu að hreindýrin hefðu fjölgað sér
óvenju mikið á einu ári en reynt er að halda
stofnstærðinni í um 3.000 dýrum.
Áður fyrr var kjötið af hreindýrunum yfirleitt
saltað en stundum reykt og þótti geymast vel. Allur
nýtanlegur innmatur var líka hirtur. Feldirnir voru
nýttir í hempur og treyjur, ofan á rúm og sem
hnakksæti. Úr hornunum var smíðað eitthvað smálegt
líkt og uglur, höldur, klyfberaklakki, tóbaksdósir
og nálhús. Nýlega er farið að hefja framleiðslu á
flíkum, húfum, töskum og margt fleira úr
hreindýraskinni og minjagripum úr hreindýrahornum.
Ekki þarf að minnast á hreindýrakjötið sem helst má
finna á jólahlaðborði landans, sem sagt einstaklega
ljúffeng og verðmæt afurð villta stofnsins hér á
landi.
Tilvitnun líkur.
Fróðlegt.
NAT norðurferðir.
Rangifer tarandus
er latneskt nafn þessarar tegundar, sem er af
hjartarætt (cervidae). Rangiferættkvíslinni
tilheyrir ein tegund, sem skiptist í tvo hópa,
túndruhreindýr og skógarhreindýr. Túndrudýrunum er
síðan skipt í 6 undirtegundir og skógardýrunum í
þrjár. Bæði kyn hreindýranna eru hyrnd, sem er
óvenjulegt, því að venjulega eru aðeins tarfarnir
hyrndir. Tarfar hafa stór og sístækkandi horn með
árunum eins og kýrnar, sem hafa mun minni horn.
Hreindýrið er meðal stærri dýra af hjartarættinni,
en lágfættara, loðnara og klunnalegra og ber höfuðið
lágt líkt og nautgripir. Þykkur vetrarfeldurinn ver
vel gegn kulda og gerir dýrin léttari í vatni.
Fengitíminn er oftast í október og meðgöngutíminn er
30-35 vikur. Hver kýr eignast yfirleitt einn kálf.
Burðartíminn er venjulega frá miðjum maí og stendur
í þrjár vikur.
Aðalburðarsvæðin eru í Hálsi, austan Jökulsár á Brú,
í Dysjarárdal, Glúmsstaðadal og Þuríðarstaðaárdal.
Eftir að dýrunum fjölgaði hefur borið meira á burði
á heiðum og stundum niðri í byggð. Þegar kemur fram
í ágúst og September, leita dýrin fram á heiðarnar
og halda sig þar á veturna, nema þar sé
óvenjusnjóþungt, en þá leita þau niður á láglendi.
Ungir tarfar og geldar kýr fella hornin í janúar –
mars og kelfdar kýr eftir burð. Horn tarfanna falla
eftir fengitímann. Þessi hjarðdýr safnast saman
þrisvar á ári, seinni hluta vetrar, eftir burð og
fyrir haustið. Búskapur með hreindýr er víða
stundaður, s.s. á Norðurlöndum, í N-Ameríku,
Grænlandi, Rússlandi og Síberíu.
Samkvæmt takmörkuðum rannsóknum á fæðuvali
hreindýra, bíta þau helzt í hálfþurrum hálfgras- og
sefmóum og í grasvíðisdældum og miklu síður í mýrum
og flóum. Þau bíta mest af gras- og grávíði og
bláberjalyngi auk grasa. Þau bíta lítið af fléttum
seinni hluta sumars, enda lítið af þeim í
sumarhögum. Líklega bíta þau fléttur mest síðla
vetrar auk sauðamergs, beitilyngs, beitieskis,
slíðra- og tjarnastarar. Dýrin éta líka sveppi og
mosa.
Árið 1771 voru fyrstu hreindýrin, 13 eða 14 dýr,
flutt til Íslands frá eyjunni Sørø í grennd við
Hammerfest í Noregi. Tvær kýr og einn tarfur
lifðu og voru flutt að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Að
fimm árum liðnum voru þau orðin 11 og urðu flest
16. Allir kálfarnir, sem fæddust, voru tarfar.
Þessi dýr voru horfin skömmu eftir móðuharðindin.
Árið 1777 komu 6 tarfar og 24 kýr sem gjöf frá
norskum kaupmanni í Hammerfest. Tuttugu og þrjú
lifðu ferðina af og var sleppt á Hvaleyri við
Hafnarfjörð. Þessum dýrum fjölgaði verulega næstu
árin.
Árið 1784 var 35 dýrum, gjöf frá séra Ólafi
Jósefssyni í Kautokeinó í Finnmörku, sleppt á
Vaðlaheiði við Eyjafjörð. Þau dreifðust um
Þingeyjarsýslur og fjölgaði ört. Innflutningi lauk
með 35 dýrum árið 1787, 5 törfum og 30 kúm, sem var
sleppt við Vopnafjörð (gjöf frá Per Jensen í
Avjovarre í Finnmörku). Núverandi stofn er kominn
af dýrunum, sem voru flutt til Austurlands. Ekki er
útilokað að hluti dýranna frá Eyjafirði hafi
blandast þeim. Hámarki náði stofninn líklega í
upphafi 19. aldar, en minnkaði stöðugt fram á hina
20. og náði líklega lágmarki kringum 1940, en þá er
talið að aðeins 100 dýr hafi verið eftir á
Austurlandi. Einna flest urðu þau 1976, 3600.
Árið 1787 voru hreindýrin alfriðuð, 1790 var
takmörkuð veiði leyfð í Eyjafirði, 1794 var
takmörkuð veiði leyfð í Þingeyrar- og Múlasýslum,
1798 var leyft að veiða tarfa án takmörkunar, 1817
var leyft að veiða öll dýr nema kálfa, 1849 var
friðun aflétt, 1882 voru dýrin friðuð frá 1. janúar
til 1. ágúst, 1901 voru dýrin alfriðuð til 1925,
1927 var friðun framlengd til 1935, 1937 var friðun
framlengd til 1945, 1939 voru veiðar leyfðar undir
eftirliti og einungis tarfar voru veiddir, 1954 urðu
veiðar undir eftirliti víðtækari.
Hreindýrin hurfu á Reykjanesi og í
Þingeyjarsýslum og náðu sér á strik á Austurlandi,
þar sem mörk útbreiðslunnar hafa verið
Hornafjarðarfljót og Jökulsá á Fjöllum. Dýra hefur
þó stundum orðið vart utan þessa svæðis. Kjörsvæði
þeirra er á Brúaröræfum, austur að Snæfelli.
Innflutningur hreindýra átti að styðja og efla
íslenskan landbúnað, en úr því varð ekki og því hafa
dýrin lifað villt á landinu frá upphafi. Leyfi til
veiða þeirra byggðust oftar en ekki á kvörtunum
þeirra, sem töldu þau rýra haga sauðfjár, en síðustu
ár beinast þær að því að grisja stofninn og halda
honum í skefjum. Törfum fækkaði um of á tímabili,
þannig að veiðistýring og eftirlit var aukið. Hin
síðari ár hafa bændur kvartað undan ágangi dýranna í
löndum þeirra og skógræktarfólk lítur þau hornauga. |