Á Vísindavefnum segir eftirfarandi:

 
Því miður er ekki fullljóst hvað átt er við með spurningunni. Mennirnir eru ekki "komnir af" þeim tegundum lífríkisins sem lifa á jörðinni núna. Hins vegar er allt líf á jörð komið af einni rót, og því eiga allar lífverur á jörðinni sér sameiginlegan forföður ef rakið er nógu langt aftur í tímann. Tími jarðsögu og þróunar er hins vegar svo óralangur að við eigum erfitt með að gera okkur það í hugarlund.

Hinn sameiginlegi forfaðir manna og apa er ekki ýkja langt undan á mælikvarða þróunarsögunnar. Forfaðir fiska og manna var hins vegar til miklu, miklu fyrr í sögunni. Meðal annars þess vegna erum við miklu "skyldari" og líkari öpum en fiskum. Þetta er svipað því að við erum skyldari þeim sem eiga sama afa og við sjálf heldur en þeim sem eiga bara sama langalangafa og við.

Ef til vill hefur spyrjandi heyrt um það að vatn skipti miklu máli á frumstigum lífs hér á jörðinni, og þess vegna dottið í hug að spyrja sérstaklega um fiska. Fiskar teljast hins vegar til hryggdýra eins og við og því var liðinn langur tími í þróunarsögunni þegar sameiginlegur forfaðir manna og fiska kom til skjalanna. Menn eru þannig mun skyldari fiskum en hryggleysingjum, til dæmis skordýrum.