Árið 1960 var sett veiðibann á fíla í stórum hluta Afríku. Þá tók hins vegar við stórfelldur og skipulagður veiðiþjófnaður þannig að bannið hafði ekki tilætluð áhrif. Slælegt veiðieftirlit og spilling voru helstu ástæður þess að ólöglegar veiðar blómstruðu. Mjög erfitt hefur reynst að sporna við þessu og enn þann dag í dag eru fílar mikið veiddir. Sem dæmi er talið að árið 2006 hafi rúmlega 20 þúsund fílar verið felldir. Á sumum svæðum eru veiðarnar svo gengdarlausar að þær eru langt umfram þolgetu þessara stofna og þeir eru í stöðugri rénun. Á öðrum svæðum, einkum vel stýrðum verndarsvæðum, hefur hins vegar orðið mikil offjölgun á fílum, jafnvel svo að þurft hefur að lóga tugum dýra til að koma í veg fyrir gróðurhnignun.
Ein helsta ástæða mikilla veiða undanfarin ár er aukin eftirspurn eftir fílabeini, en hátt verð er greitt fyrir beinin á svörtum markaði. Megnið af fílabeinunum er selt til Asíu og getur uppgangur á ákveðnum svæðum Asíumarkaðar að hluta til skýrt þessa auknu eftirspurn.
Fílabein er ein helsta ástæða veiðiþjófnaðar á fílum.
Þetta listaverk er til dæmis gert úr fílabeini.
Asíska fílnum hefur einnig fækkað umtalsvert. Við upphaf
síðustu aldar var heildarstofnstærðin um 200 þúsund dýr en
nú eru stofnstærðin aðeins á bilinu 35-40 þúsund dýr.
Önnur meginskýring á fækkun fíla er sú að gengið hefur á
búsvæði þeirra og á það sérstaklega við um fíla í Asíu.
Meira en 20 þúsund fílar lifa innan landamæra Indlands og
eru tíðir árekstrar milli fíla og manna þar í landi, enda
eru báðar þessar tegundir ansi plássfrekar. Því miður verða
slíkir árekstrar sífellt alvarlegri og minna þeir oft frekar
á hernaðarátök með tilheyrandi dauðsföllum bæði manna og
fíla.