Flóðhestar
(Hippopotamus
amphibius) eru stórhættuleg
dýr og valda fleiri dauðsföllum
í Afríku en nokkur önnur
spendýr. Tölulegar upplýsingar
um hversu margir láta lífið af
völdum flóðhesta á hverju ári er
á reiki, en talið er að það geti
verið allt að 400 manns.
Þótt flóðhestar virðist
silalegir eru þeir afar
árásargjarnir og þola mjög illa
óviðkomandi einstaklinga nærri
hjörðinni. Langflestir þeirra
sem láta lífið af völdum
flóðhesta eru fiskimenn sem fara
of nærri flóðhestunum á litlum
bátum sínum.
Mörgum finnst sætt að sjá
flóðhesta "geispa". Þetta er þó
ekki geispi heldur ógnun þar sem
flóðhesturinn sýnir öflugar
tennurnar.
Vaxandi mannfjöldi í álfunni
hefur orðið til þess að sífellt
fleiri árekstrar eiga sér stað
milli flóðhesta og manna. Þetta
hefur leitt til aukins manntjóns
þar sem farið er þrengja
verulega að búsvæðum flóðhesta á
stórum svæðum víða í álfunni.
Ferðamenn sem heimsækja
þjóðgarða álfunnar er venjulega
varaðir við því að tjalda við
árbakka þar sem flóðhestar halda
sig, en þeir eiga það til að
labba beint yfir tjöld og annað
sem verður á vegi þeirra þegar
þeir fara af beitarhögum á
kvöldin.
Í Afríku
lifa tvær tegundir flóðhesta,
fljótaflóðhesturinn (Hippopotamus
amphibius), stundum
kallaður Nílarflóðhesturinn og
dvergflóðhesturinn (Choeropsis
liberiensis). Sá
fyrrnefndi er mun stærri eða
allt að 3 tonn að þyngd.
Dvergflóðhestar vega aftur á
móti aðeins frá 160 til 280
kg. Flóðhestar eru algengir nú
á dögum á verndarsvæðum og
þjóðgörðum í sunnanverðri
Afríku. Áður fyrr voru þeir
hins vegar algengir um alla
álfuna og einnig í Asíu og
Evrópu.
Flóðhestar eru mjög vel
aðlagaðir að lífi í vatni.
Eyru, augu og nasir eru
staðsett efst á hausnum þannig
að dýrið getur haldið þeim upp
úr vatninu. Þegar dýrin kafa
lokast eyru og nasir dýrsins
til að hindra að vatn flæði
inn. Þrátt fyrir mjög svo
klunnalega líkamsbyggingu eiga
þeir auðvelt með allar
hreyfingar í vatninu.
Flóðhestar eru næturdýr. Að
næturlagi fara dýrin upp á
bakka fljóta og vatna til að
éta jurtir. Fullvaxið karldýr
getur étið allt að 70 kg af
jurtum á einni nóttu! Húð
dýranna er viðkvæm fyrir
þurrki og til að verjast honum
seyta kirtlar í húð dýranna
bleiklituðu efni sem heldur
húðinni rakri.
Ein kenningin er sú að fyrir
tugþúsundum eða jafnvel
hundruðum þúsunda ára hafi
flóðhestar eða forfeður þeirra
leitað í vötn og fljót til að
vernda sig og ungviði sitt
gegn rándýrum. Í fyllingu
tímans hafi dýrin aðlagast
þessu vota búsvæði sífellt
betur, eins og yfirbragð
dýranna gefur til kynna. Ekki
eru allir vísindamenn sammála
þessari kenningu. Sumir hafa
haldið því fram að flóðhestar
(eða forfeður þeirra) hafi í
árdaga leitað í vatnið til að
verjast hinum mikla hita sem
er yfir daginn. Dýrin notuðu
þá svalasta tíma
sólarhringsins til að fara upp
úr vatninu og næra sig. Á þeim
tíma eru rándýr eins og ljón
og hýenur hvað virkust. Í Asíu
þar sem flóðhestar voru áður
mjög útbreiddir voru það
tígrisdýr og hlébarðar sem
höfðu líkamlega burði til að
drepa flóðhestakálfa.