Guðbjörg Sól Sigfúsdóttir
 
Hópur svartra íkorna réðst á flækingshund í skógi nokkrum í nágrenni þorpsins Lazo í Austur-Rússlandi og bitu hann til dauða. Fólk sem átti leið hjá varð vitni að þessu og sagði það aðeins hafa tekið íkornana tæpa mínútu að drepa hundinn.

Íkornarnir hlupu þá hver í sína áttina og voru margir hverjir með kjötbita í kjaftinum. Lítið hefur verið um furuköngla á svæðinu og gæti það hafa orðið til þess að íkornarnir gerðu árás á hundinn, en vísindamönnum þykir það þó heldur ótrúleg skýring.

Hundurinn mun hafa gelt að íkornunum þar sem þeir höfðust við uppi í tré. Skyndilega réðust þá nokkrir á hann. „Þeir slægðu hundinn bókstaflega,“ sagði blaðamaðurinn Anastasia Trubitsina, í viðtali við rússneska dagblaðið Komsomolskaya Pravda. Dagblaðið hefur áður fyrr greint frá árás jarðíkorna á kött.

Vísindamaður í héraðinu, Mikhail Tiyunov, sagðist aldrei hafa heyrt um slíka árás íkorna áður. Þeir myndu kannski éta unga úr hreiðrum en fáránlegt væri að þeir ætu hund. Ef satt reyndist hlyti ástandið að vera mjög slæmt í skógum þar í héraði. Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

 

Frétt Canis - mbl.is    02 desember 2005

©2007 Globalsig./ Sigfús Sig. Iceland@Internet.is