Nashyrningur

Nashyrningar (Rhinocerotidae) tilheyra ættbálki staktæðra hófdýra (Perissodactyla) ásamt hestum (Equidae) og tapírum (Tapiridae). Áður voru ættirnar mun fleiri og má því segja að þessi forni ættbálkur spendýra megi muna fífil sinn fegri.

Steingervingasaga nashyrninga er sæmilega vel þekkt og því hafa vísindamenn getað dregið upp grófa mynd af þróunarsögu þeirra.

Uppruna hófdýra má rekja allt að 60 milljónir ára aftur í tímann eða frá því skömmu eftir að risaeðlur hurfu af yfirborði jarðar. Þá var kominn fram á sjónarsviðið ættbálkur hófdýra sem fræðimenn hafa gefið heitið murningar (Condylarthra). Elsta þekkta hófdýrið nefnist greifill (Hyracotherium). Þetta var forfaðir hestdýra og er stundum nefndur árhestur á íslensku. Hann var þó gjörólíkur hestum nútímans eins og lesa má um í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er hestur? Dýr þetta var á stærð við meðalstóran hund og hafði fimm tær. Þegar fram liðu stundir urðu hófdýr stærri að vexti og eins varð þriðja táin sífellt mikilvægari. Þróunin náði lengst meðal hesta þar sem þriðja táin er ein eftir.

 


Fyrsta þekkta hófdýrið, árhesturinn, var uppi fyrir um 60 milljónum ára.
Á eósen tímanum, fyrir um 35-55 milljónum ára, voru komnar fram margar ólíkar ættir innan ættbálks hófdýra og á míósen tímanum, fyrir um 5-23 milljónum ára, voru staktæð hófdýr ríkjandi grasbítar í Norður- og Suður-Ameríku og Asíu. Það er talið að aukin samkeppni við klaufdýr hafi getað leitt til þess að hófdýr tóku smám saman að víkja fyrir klaufdýrum á stærstu svæðunum. Þetta er þó enn mjög umdeilt meðal fræðimanna og mikið hefur verið rannsakað og ritað um þessa hnignun hófdýra í kjölfar aukinnar samkeppni, en vegna plássleysis verður beðið með að fjalla um það hér.

Talið er að nashyrningar hafi þróast frá dýrum sem nefnd hafa verið hnybbingar (Hyracodontidae). Þetta voru fremur lítil dýr sem komust hratt yfir en talið er að þau hafi ekki getað haldið velli í samkeppninni við frumhesta. Steingervingafræðingar ætla að fyrstu nashyrningarnir hafi komið fram fyrir um 40 milljónum ára. Fyrir nokkrum árum fundust í Wind Cave þjóðgarðinum í Bandaríkjunum steingervingaleifar nashyrnings sem var á stærð við kú og er talinn hafa verið uppi fyrir um 32 milljónum ára. Þessi nashyrningur, sem hefur verið á meðal frumstæðustu nashyrninga, tilheyrði ættkvísl sem kallast Subhyracodon en hún var uppi fyrir 30-39 milljónum ára.

Á löngum þróunartíma nashyrninga hafa komið fram dýr sem eru nokkuð ólík þeim nashyrningum sem nú eru uppi. Sem dæmi má nefna ættina Amynodontidae sem talin er vera hliðargrein út frá nashyrningum. Þessi dýr minntu mjög á núlifandi flóðhesta, voru til dæmis hornlaus og héldu til í vötnum. Þau höfðu talsverða útbreiðslu á norðurhveli jarðar á velmektartíma sínum.

 


Frumstæður nashyrningur af ættinni Amynodintidae sem talinn er hafa þróast frá hnybbingum líkt og nashyrningar nútímans.


Annar hópur útdauðra nashyrninga eru tröllasnar eða beljakar (Indricotherium) sem skera sig frá nútíma nashyrningum í útliti vegna gríðarlegrar stærðar sinnar. Þessir hornlausu nashyrningar gátu orðið allt að 5 metrar á hæð, 7 metrar á lengd og vógu sennilega vel yfir 15 tonn.

Af útdauðum nashyrningum má loks nefna loðnashyrninga (Coelodonta antiquitatis) sem komu fram á síðasta kuldaskeiði ísaldar og náðu mikilli útbreiðslu í Evrasíu.

Í dag eru til alls fimm tegundir nashyrninga sem tilheyra fjórum ættkvíslum og tveimur undirættum. Önnur undirættin er stakhyrningar (Rhinoceratinae) en henni tilheyra tvær tegundir, indverski (eða asíski) nashyrningurinn (Rhinoceros unicornis) og jövu-nashyrningurinn (Rhinoceros sondaicus). Eins og nöfn þeirra gefa til kynna eru báðar þessar tegundir í Asíu. Hin undirættin nefnist tvíhyrningar (Dicerorhinae) og telur hún þrjár tegundir, svarta nashyrninginn (Diceros bicornis), hvíta nashyrninginn (Ceratotherium simum) og súmötru nashyrninginn (Dicerorhinus sumatrensis). Tvær fyrr nefndu tegundirnar lifa í Afríku en sú síðastnefnda í Asíu.

 


Hvíti nashyrningurinn (Ceratotherium simum) er önnur tveggja nashyrningategunda í Afríku.


Þessar tvær þróunarlínur, það er stakhyrningar og tvíhyrningar, eru taldar komnar frá sameiginlegum forföður sem uppi var á ólígósen tímanum fyrir um 30 milljónum ára. Um er að ræða asíska tvíhorna nashyrninga sem síðan breiddust út til Afríku þar sem nú er að finna tvær af þremur tegundum tvíhorna nashyrninga eins og þegar hefur komið fram. Fyrir tæpum 5 milljónum ára voru tegundir í Afríku sem hafa verið nefndar surthyrningar (Diceorhinus) og langhyrningar (Ceratotherium praecox) á íslensku og virðast þær mynda skyldleikabrú á milli hinna tveggja núlifandi afrísku tegunda.

Þriðja tegund tvíhorna nashyrninga, súmötru-nashyrningurinn, þykir minna um margt á hina útdauðu loðnashyrninga og er talinn vera skyldastur þeim af núlifandi nashyrningum, jafnvel af sömu grein og sá loðni.

Af steingervingasögu nashyrninga má ráða að þeir hafa á undanförnum milljónum ára verið á miklu undanhaldi og getur sennilega fátt komið í veg fyrir að þeir muni verða aldauða í nánustu framtíð. Hvort sem það verður maðurinn sem endanlega gerir út af við nashyrninga eða bara framrás þróunarinnar verður ósagt látið, en menn hafa með gengdarlausri ofveiði og búsvæðaröskun flýtt mjög fyrir þróun í þessa átt. Í dag eru allar fimm tegundir nashyrninga í mikilli útrýmingarhættu þó ástandið hafi batnað mjög hjá hvíta nashyrningnum.

 

Indverski nashyrningurinn (Rhinoceros unicornis) er ein fimm núlifandi tegunda nashyrninga í heiminum. Hann er ólíkur stóru afrísku tegundunum að því leyti að hann hefur aðeins eitt horn (líkt og hinar tvær asísku tegundirnar) eins og latneska heitið gefur til kynna. Hann finnst víða á Indlandi, í Bangladess, Nepal og talið er að enn sé einhverja að finna í norðurhluta Pakistan.

Kjörsvæði indverska nashyrningsins eru staktrjáagresjur með góðum aðgangi að vatni, til dæmis feni eða mýrlendi. Hann lætur sér hins vegar önnur búsvæði vel líka eins og misþétta skóga og jafnvel þétta regnskóga. Indverskir nashyrningar vega 1.500-2.000 kg. Bæði kynin eru gráleit með áberandi fellingum á húð. Á hálssvæði karldýranna eru fellingarnar sérstaklega áberandi þannig að þær minna mjög á brynvörn. Hornið getur verið allt að 60 cm á lengd.

Uppistaða fæðu indverskra nashyrninga er gras líkt og hjá frændum þeirra í Afríku, en einnig éta þeir lauf og ávexti. Öðru fremur virðast þeir þó sækja í safaríkur vatnajurtir. Þeir geta valdið bændum miklu tjóni með því að leggjast á kornuppskeru, éta hana og traðka um leið á ökrum.

Ekkert sérstakt æxlunartímabil er hjá nashyrningum heldur æxlast þeir allt árið um kring. Ráðandi tarfur makast við kvendýrin á sínu svæði og hrekur aðkomutarfa í burtu. Mikil læti eiga sér stað í ástarlífinu, eltingaleikir og jafnvel smávægileg átök (sem sýnast mikil þegar dýr af þessari stærðargráðu lenda í stympingum). Meðgöngutími nashyrninga er langur eða um 480 dagar. Kýrin ber einn kálf sem vegur um 70 kg við fæðingu. Hún hefur hann á spena í rúmt ár, jafnvel í allt að 18 mánuði. Kýrnar verða kynþroska við 4 ára aldur en tarfarnir eru seinþroskaðri, ná kynþroska við 9 ára aldur. Ekki er óalgengt að villtir indverskir nashyrningar nái allt að 40 ára aldri.

Indverskir nashyrningar eru að upplagi einfarar. Oft má sjá smáa hópa saman á beit en annars eru einu tækifærin til að sjá samrýmda hópa nashyrninga á fengitíma, og þegar kvendýr eru með kálfa.

Karldýrin helga sér óðöl og merkja sér landareign sína með því að skíta við mörk hennar. En þar sem skilgreind landamörk eru losaraleg, er mikil skörun á þeim. Landamæradeilur tarfanna geta því verið grimmar. Á svæðum þar sem nashyrningar eru þétt saman, drepast yfirleitt nokkur karldýr í slíkum átökum.

Yifr heitasta hluta dagsins halda nashyrningarnir sig í forsælu eða í vatni til að kæla sig. Þeir velta sér oft upp úr drullu til að stemma stigu við ágangi flugna sem geta gerst æði ágengar við þá á ákveðnum tíma árs.



Sennilega telur heildarstofnstærð Rhinoceros unicornis aðeins um 1.700 dýr. Helsta ógnunin við indverska nashyrninga í dag er veiðiþjófnaður. Horn þeirra eru gerð úr hárum og þeim fylgir sú trú að þau búi yfir miklum lækningamætti, séu þau mulin til neyslu. Auk þess sækjast hnífagerðarmenn mjög eftir hornum nashyrninganna sem þykja víða hin mesta gersemi.

Mörg verndunarverkefni eru í gangi á þeim svæðum þar sem indverski nashyrningurinn finnst enn. Náttúrufræðingar eru farnir að flytja dýr inn á svæði þar sem þeim hafði verið útrýmt á, og víða eru þjóðgarðar vel vaktaðir af þjóðgarðsvörðum. Til dæmis er eitt verndarsvæði í Nepal með um 700 vopnaða verði, eða tvo verði fyrir hvert dýr!

 

Upplýsingar af Vísindavefnum.

©2007 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is