Svefntími bjarndýra

Fjölmargar dýrategundir eru í svefnástandi stóran hluta ársins sökum óhagstæðra aðstæðna í umhverfinu, svo sem fæðuskorts, kulda eða þurrkar. Bjarndýr eru að öllum líkindum kunnasta dæmið um dýr sem leggjast í langan dvala. Algengt er að bjarndýr safni fituforða seint á sumrin og dæmi eru um að brúnbirnir geti safnað allt að 18 kg af fitu á einni viku.

Þegar bjarndýr leggst í dvala verða breytingar á ýmsum þáttum í líkamsstarfsemi dýrsins. Með dvalanum fer starfsemin í nokkurs konar orkusparandi ástand; líkamshitinn fellur um 3 - 7 °C og hjartsláttartíðnin lækkar úr 40 - 70 slögum á mínútu í 8 - 12 á mínútu.

Bjarndýrið skilar engu þvagi eða saur meðan á dvalanum stendur sem stórmerkilegt vegna þess að hjá flestum dýrum myndi uppsöfun þvagefnis í líkamanum fljótt leiða til banvænnar eitrunar. Bjarndýr hafa sérstæðan feril sem nýtir köfnunarefni, sem safnast upp í líkamanum á formi þvagefnis, til að endurnýja prótein í líkamanum.

Mjög breytilegt er milli landsvæða, aldurs, líkamsástands og kyns hversu lengi dvalinn varir hjá bjarndýrum. Brúnbirnir finnast víða í heiminum; mið-Evrópu, Skandinavíu, víða í fyrrum Sovétlýðveldum og á stórum svæðum í Norður-Ameríku, aðallega í Kanada og Alaska.

Þar sem veturinn er lengstur liggja bjarndýrin lengst í dvala. Í barrskógabeltinu í Síberíu er veturinn langur og gríðalega harður og samkvæmt rannsóknum rússneskra vísindamanna liggja brúnbirnir þar meira og minna í dvala frá september og fram í apríl. Í Ussuri skógunum sunnar í Rússlandi eru bjarndýr í dvala í skemmri tíma eða frá október fram í mars. Þessi langi dvali stendur þó ekki alveg stanslaust því með vissu millibili vakna bjarndýrin og kíkja út úr greninu til að losa sig við þvag eða þegar hungur sækir að. Karldýrin vakna yfirleitt fyrst og fara á flakk í fæðuleit snemma á vorin en ólétt kvendýr fara iðulega síðast af stað. Á sumum svæðum þar sem veðurfar á veturna er milt og fæðuframboð nægt leggjast bjarndýrin ekki í dvala.

Bjarndýr eru fjarri því að vera einu dýrin sem sofa af sér óhagstæð skilyrði. Dæmi um spendýr sem gera það eru leðurblökur, íkornar og múrmeldýr. Þessi dýr leggjast í mun dýpri dvala en bjarndýr; líkamshitinn fellur niður í fáeinar gráður og það hægist umtalsvert á öllum efnaskiptum. Tekið getur nokkrar vikur að ná þessu stigi.

Skjaldbökur eiga það einnig til að leggjast í dvala og þá sérstaklega tegundir sem lifa mjög norðarlega. Einnig þekkjast fjölmörg dæmi meðal slanga og fiska.

Hvert þessara dýra liggur lengst í dvala er ekki auðsvarað. Ytri aðstæður leika þar mjög stórt hlutverk. Tilvik eru þekkt meðal snáka þar sem þeir hafa verið í dvala í djúpri holu í meira en heilt ár, án vatns. Á köldum svæðum í Síberíu liggja nokkrar tegundir nagdýra álíka lengi eða lengur í dvala en bjarndýrin þar á slóðum, auk þess að taka sér einhvern lúr á næturnar á sumrin. Því má með réttu segja að þessi dýr sofi stærstan hluta lífs síns. Svipað má segja um fjölmargar aðrar tegundir, þó ómögulegt sé að benda á eina tiltekna tegund sem sefur hlutfallslega mest á sinni ævi og njóti því þess vafasama heiðurs að vera mesta svefnpurkan í dýraríkinu.

marginheight="0">©2007 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is marginheight="0">