Núlifandi tígrisdýrum (Panthera tigris) er skipt í fimm deilitegundir sem allar lifa í austanverðri Asíu. Deilitegundirnar eru Bengaltígrisdýrið (Panthera tigris tigris), sem finnst aðallega á Indlandi en einnig að nokkru leyti í Nepal og Bútan og örfá dýr eru á afskekktu svæði í suðausturhluta Kína. Indókínverska tígrisdýrið (Panthera tigris corbetti) finnst á svæði sem kallað er Indókína eða þar sem nú eru Víetnam, Taíland, Malasía, Kambódía og Laos. Suður-kínverska tígrisdýrið (Panthera tigris amoyensis) finnst á afskekktu svæði í suðaustur Kína. Síberíutígrisdýrið (stundum kallað Ussuritígrisdýrið) (Panthera tigris altaica) sem er stærsta deilitegundin lifir í suðausturhluta Síberíu, Mansjúríu og á Kóreuskaganum. Súmötrutígrisdýrið (Panthera tigris sumatrae) lifir á eyjunni Súmötru í Indónesíu.

 

Upprunalega var einnig spurt um hvenær ár tígrisdýrsins var seinast og hve mörg dýr eru í kínverska almanakinu. Þeim spurningum er svarað í lok þessa svars.

Asíubúar eiga aragrúa þjóðsagna um tígrisdýr. All frá Indlandi og austur til Ussuri í Rússlandi, þar sem hið svokallaða síberíska tígrisdýr lifir, finnast sagnir um tígrisdýr. Ennfremur eru þekktar þjóðsögur frá þeim svæðum þar sem tígrisdýr lifðu áður, svo sem frá Jövu og Balí í Indónesíu, Armeníu og Afganistan.



Ein saga frá Indlandi greinir frá því hvernig tígrisdýrið fékk svörtu rendurnar sem prýða feld þess og er hún svohljóðandi:

„Arrrrrrrrr!“ rumdi ógurlega í appelsínugula tígrinum þegar hann elti álfa nokkra upp í tré. Álfarnir höfðu áður málað plönturnar og blómin í skóginum þeim litum sem við þekkjum. Á meðan þeir biðu eftir því að tígrisdýrið færi, þá ákváðu þeir að mála laufblöð trésins. Tígrisdýrið sat sem fastast við tréð og sofnaði loksins. Hugrakkasti álfurinn klifraði þá niður með gljáandi svarta málningu og pensil og málaði svartar rákir á mjúkan feld tígursins. Hálftíma síðar vaknaði tígurinn, leit upp í tréð og sá álfana þar enn. Hann hló að þeim, „vitlausu álfar“ sagði hann, „þið hefðuð getað flúið úr trénu á meðan ég svaf.“ Hann ákvað þá að skilja þá eftir uppi í trénu og gekk að tjörn einni þar skammt frá til að drekka. Þegar hann kom að tjörninni sá hann spegilmynd sína í vatninu og var brugðið. „Ég lít hræðilega út“, sagði hann og reyndi að skola rendurnar af sér en ekkert gekk. Eftir það skammaðist hann sín svo mikið að hann ákvað að halda til í dimmustu hlutum frumskógarins og elti aldrei framar skógarálfana.


Á ensku nefnist þessi þjóðsaga How the tiger got its stripes og hún er indversk að uppruna en er hér í lauslegri þýðingu höfundar þessa svars.

Frá Síberíu eru fjölmargar þjóðsögur um tígrisdýr og eru til ýmsar bækur með söfnum sagna frá þessu svæði. Þó einhverjar séu til á ensku eru þær flestar á rússnesku. Má þar til dæmis nefna rit sem inniheldur fyrst og fremst þjóðsögur Nanaí-fólksins sem lifir aðallega við Amurfljótið í Síberíu. Meðal þessa fólks hefur ekki verið síðri tígrisdýraátrúnaður en meðal þjóðanna á Indlandsskaga.

Udege-fólkið sem er önnur þjóð í hjarta skóganna í Ussurilandi (nú Rússlandi), telur tígrisdýr og skógarbirni vera forfeður sína.

Kóreubúar eiga líka sínar þjóðsögur um tígrisdýr og má til dæmis nefna bók sem tekin var saman og þýdd af Janie Jaehyan Park og nefnist á ensku The Tiger and the Dried Persimmon: A Korean Folk Tale. Í dag lifa tígrisdýr í Norður-Kóeru en voru áður mun algengari á Kóeruskaganum og eiga sér enn ríkan sess í þjóðtrú Kóreubúa.

Ótal þjóðsögur um tígrisdýr eru frá Kína og Indókína. Í mörgum héruðum Kína var til dæmis talið að hið ógurlega afl sem tígrisdýrið hefur, gæti fælt í burtu illa anda. Til vitnis um það voru styttur af tígrisdýrum settar umhverfis grafreit konungsins Ho Lu sem tilheyrði Wu-ættinni milli 513 og 494 fyrir Krists burð.

Í kínverska dagatalinu var ár tígrisdýrsins seinast árið 1998. Alls eru 12 dýr í kínverska almanakinu. Fyrir utan tígrisdýrið þá eru það rottan, uxinn, kanínan, snákurinn, hesturinn, sauðkindin, apinn, haninn, svínið og hundurinn. Eitt dýr í almanakinu er goðsögulegt, það er drekinn. Með því að smella hér hér má fræðast nánar um kínverska almanakið.

 

Líklega yrði ekki neitt vistfræðilegt hrun þótt tígrisdýr hyrfu þar sem þau lifa á tiltölulega afmörkuðum og litlum svæðum. Ef tígrisdýr yrðu útdauð færu áhrifin væntanlega eftir aðstæðum á þeim svæðum þar sem þau lifa nú.

Þar sem tígrisdýrum hefur fækkað hefur öðrum stórvöxnum afræningjum fjölgað og háttarlag þeirra breyst þótt þær breytingar séu ekki miklar í grundvallaratriðum. Á Indlandi eru það hlébarðar (Panthera pardus) og villihundar (Cuon alpinus) sem helst keppa við tígrisdýr um bráð og í Síberíu eru það aðallega úlfar (Canis lupus) og gaupur (Lynx lynx). Þegar síberíutígrisdýrinu fækkaði niður í nokkra tugi dýra í Ussurilandi (í Rússlandi) um miðja síðustu öld þá fjölgaði úlfum og gaupum. Vísindamenn hafa einnig tekið eftir því að á þeim svæðum þar sem tígrisdýr hafa horfið sökum veiðiþjófnaðar hefur háttarlag hlébarða breyst á þann hátt að þeir halda sig meira á jörðinni og éta bráð sína frekar þar en að bera hana upp í tré.


 

Síberíutígrisdýr (Panthera tigris altaica).


Ef tígrisdýrin væru einu stóru rándýrin á svæðinu myndi málið horfa öðru vísi við. Þá er líklegt að afleiðingar þess að þau hyrfu yrðu þær að veiðidýrum fjölgaði, jafnvel óhóflega, sem gæti að lokum leitt til ofbeitar og í kjölfarið hnignunar í gróðurfari. Nokkur dæmi eru þekkt þar sem stór rándýr hafa horfið, svo sem víða í Bandaríkjunum þar sem fjallaljón (Puma concolor) og úlfar (Canis lupus) hurfu af stórum svæðum, og í kjölfari fjölgaði dádýrum óhóflega.

Í ljósi reynslunnar má því gera ráð fyrir að öðrum stórum rándýrum sem hafa sambærilega vistfræðilega stöðu og tígrisdýr farnist vel við brotthvarf tígrisdýra. Ef það eru enginn önnur rándýr sem hagnast á brotthvarfinu þá gæti það leitt til offjölgunar grasbíta sem í kjölfarið myndi leiða til ofbeitar á svæðinu.

Hins vegar eru rökin fyrir því að reyna að bjarga tígrisdýrum frá því að deyja út ekki eingöngu vistfræðileg heldur ekki síður menningarleg, þar sem tígrisdýr hafa merkingu fyrir fólk. Tígrisdýr er meðal annars þjóðardýr Indlands auk þess að vera héraðsdýr nokkurra héraða í Asíu svo sem í Primorye sýslu í austurhluta Rússlands.

 

Líkt og aðrir kettir eru tígrisdýr afar spretthörð en ekki sérlega úthaldsgóð og geta því aðeins haldið hámarkshraða í fáar sekúndur. Rannsóknir benda til þess að tígrisdýr nái allt að 56 km hraða á klukkustund. Þegar þau hlaupa stökkva þau jafnframt og geta þessi stökk orðið allt að þriggja metra löng.



Vegna takmarkaðs úthalds kjósa tígrisdýr, eins og aðrir kettir, að læðast að bráðinni og ráðast á hana úr launsátri. Þannig reyna þau að forðast mikinn eltingaleik því slíkt er ávísun á misheppnaða veiðiferð. Reyndar er það svo að langflestar veiðitilraunir tígrisdýra misheppnast, en talið er að aðeins ein af hverjum tíu tilraunum beri árangur.

Það er því ekki að undra að tígrisdýr líkt og aðrir kettir (nema blettatígur) velji sér næturhúmið til veiða, því líkurnar á að komast nálægt bráðinni áður en hún verður vör við aðsteðjandi hættu eru mun meiri í náttmyrkri en í dagsljósi.

 

Upplýsingar fengnar af Vísindavefnum.

SigfusSig 2007. Iceland@Internet.is