Afstaða
til bjarndýra, einkum bjarndýrsunga, breyttist
stórlega í upphafi þessarar aldar. Þá var uppi maður
að nafni Theodor Roosevelt (1858-1919) sem
var forseti Bandaríkjanna 1901-1909. Theódór þessi
var meðal annars frægur veiðimaður og fór í
sérstakar ferðir til Afríku til að skjóta þar ljón
1911 og 1913. Hann sérhæfði sig sem sagt í
rándýradrápum og skaut margan björninn í
Norður-Ameríku. Hann var frægur og sérstæður
persónuleiki og slúðurfréttamenn þess tíma eltu hann
hvert fótmál, honum til ánægju. Eitt sinn stóð hann
frammi fyrir bjarndýrsunga, miðaði á hann byssu
næstum því af eðlishvöt en horfði um leið í stór og
óttaslegin augu ungans. Hann lagði byssuna til
hliðar og sagði: "Látum bjarndýrsungann í friði." Af
því að maðurinn var stórtækur beitti hann sér fyrir
því að friðun bjarndýrsunga gilti um fleiri
veiðimenn en sig.
Fréttamenn komu sögunni um bjarndýrsungann fyrir á
forsíðum blaða og nú var þessi gamli skotmaður
bjarndýra orðinn sérstakur verndari þeirra.
Bjarndýrsungar hlutu nafnið "Teddy bears", en
Teddy var gælunafn Theódórs Roosevelts. Ekki leið á
löngu uns leikfangaframleiðendur fóru að búa til
eftirlíkingar af "Teddy bears". Þessi leikföng urðu
fljótt afar vinsæl, svo vinsæl að nafnið yfirfærðist
á þessar nýju tuskudúkkur. Dúkkur í líki bjarnarunga
höfðu þann kost að vera ókynbundnar og nú gátu
litlir drengir líka fengið dúkkur til að hafa hjá
sér í rúminu um nætur. Vinsældir bangsans
eins og "Teddy bear" heitir á íslensku urðu miklar
og ekki er séð fyrir endann á þeim vinsældum ennþá.
Heimild: Vísindavefurinn.
Að
undirlagi PR hóps norrænna bókasafna 1998 hafa
bókasöfn á Norðurlöndum haldið Bangsadaginn
hátíðlegan síðan 1998. Árið 2001 var því fjórða árið
sem dagurinn var haldinn hátíðlegur. Það er einkar
viðeigandi að tengja bangsa og bókasöfn á þennan
hátt því bangsar eru söguhetjur margra vinsælla
barnabóka. Auk þess eru bangsar eitt vinsælasta
leikfang sem framleitt hefur verið og flestir eiga
góðar minningar tengdar uppáhalds bangsanum sínum.
Einnig eru bangsar tákn öryggis og vellíðunar í huga
okkar á sama hátt og bækur og bókasöfn eru vonandi.
Dagurinn
sem bangsavinir hafa valið sér er 27.október,
afmælisdagur Theodore (Teddy) Roosevelt fyrrverandi
Bandaríkjaforseta. Roosevelt var mikill
skotveiðimaður og sagan segir að eitt sinn þegar
hann var á bjarnarveiðum hafi hann vorkennt litlum,
varnarlausum bjarnarhúni og sleppt honum lausum.
Washington Post birti skopmynd af þessu atviki sem
vakti mikla athygli. Búðareigandi einn í Brooklyn,
New York varð svo hrifinn af þessari sögu að hann
bjó til leikfangabangsa sem hann seldi sem "Bangsann
hans Teddy" (Teddy's bear). Það má segja að þetta
hafi verið upphaf af sigurgöngu leikfangabangsans
sem er orðinn vinsæll félagi barna (og fullorðinna)
um allan heim.
Heimildir : Bókasafnsvefir Snæfellsbæjar.