Þann 16 okt. 2007 sáum við Guðbjörg Sól leikritið Gosa í Borgarleikhúsinu með Einstökum börnum.

gosifors.jpg

Þessar myndir hér fyrir neðan

eru ekki úr Borgarleikhúsinu.

 

>Gosa litabók<

 

Allir þekkja ævintýrið um Gosa. Leikfangasmiðurinn barnlausi, Jakob, sker út strengjabrúðu á töfrastund og brúðan lifnar við. Þarna reynist vera ótaminn og óstýrilátur strákur, Gosi að nafni. Hann óhlýðnast föður sínum og í stað þess að mæta í skólann stefnir Gosi á vit vafasamra ævintýra sem reka hann á ótrúlegustu staði. Með þátttöku í ævintýrunum skerpist samviska hans, hann lærir, þroskast og í lokin fórnar hann lífi sínu fyrir föður sinn. En vegna ástarinnar sem feðgarnir bera hvor til annars öðlast Gosi nýtt líf, raunverulegt hjarta sem slær og von um innihaldsríka ævi.

Leiksýning fyrir alla fjölskylduna.



 

Hljóð: Magnús H. Viðarsson


Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnardóttir


Dans: Birna og Guðfinna Björnsdætur


Lýsing: Halldór Örn Óskarsson


Búningar: María Ólafsdóttir


Leikmynd: Vytautas Narbutas


Tónlistarstjórn: Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson


Leikstjórn: Selma Björnsdóttir



 

Leikarar:
Gosi: Viðir Guðmundsson með önnur hlutverk fara:
Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Davíð Guðbrandsson, Halldór Gylfason, Jóhann G. Jóhannsson, Jóhann Sigurðsson, Kristjana Skúladóttir, Magnús Jónsson, Pétur Einarsson og Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) auk þess fara 12 börn með hlutverk í sýningunni.

 

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

 Deila á Tweet

 

 

 

Ábendingartákn

Gosi og hvalurinn

Saga tekin af netinu.

Gott er nú að vera kominn heim aftur, sagði Tumi engispretta. Gosi kinkaði glaðlega kolli til samþykkis. Gosi hafði strokið að heiman en til allrar hamingju hafði Tumi fundið hann aftur. Nú stóðu þeir úti fyrir húsi Jakobs en hurðin var læst. Sjáðu, þarna eru einhver skilaboð! hrópaði Tumi. Þetta var bréf frá bláu heilladísinni. Tumi byrjaði að lesa upphátt:

Kæri Gosi.

Ég hef slæmar fréttir að færa.

Jakob fór burt til að leita að þér og nú er

stóri hvalurinn búinn að gleypa hann.

Bestu kveðjur,

Bláa heilladísin

Æ-æ! sagði Gosi. Við verðum að bjarga honum. Komdu, Tumi. Flýtum okkur til sjávar.

Þetta er leiðin, sagði Tumi engispretta og benti með regnhlífinni niður eftir götunni. En það er fjarskalega langt þangað. Það skiptir engu máli sagði Gosi. Það er mér að kenna að hvalurinn gleypti föður minn. Við verðum að flýta okkur, Tumi. Tumi hafði á réttu að standa. Það var óraleið til sjávar. En á endanum sagði Gosi: Nú erum við að verða komnir. Ég finn sjávarlykt.

Snemma næsta morgun komu þeir að háum höfða. Ofan af höfðanum blasti við endalaust haf. O-o, sagði Gosi. Voðalega er sjórinn stór. Sérð þú hvalinn nokkurs staðar, Tumi? En hvorki örlaði á hvalnum né Jakobi. Þá stökkvum við fram af! kallaði Gosi. Úr þessari æð? spurði Tumi skelfdur. Auðvitað! svaraði Gosi. Einn, tveir og þrír! Og þeir hentu sér niður í hyldýpið. Þeir sukku á grængolandi kaf. Hvaða furðufuglar skyldu þetta vera? hugsuðu fiskarnir. Loks féllu þeir mjúklega niður á hafsbotninn. Líttu bara á, sagði Gosi. Ég er syndur eins og selur. Tumi fann sér snigil fyrir reiðskjóta. Því næst fór hann á bak á sæhesti. Hott! Hott! hrópaði hann. Hættu þessu, sagði Gosi. Við verðum að leita að Jakobi.

Gosi rakst á kolkrabba og spurði: Hefurðu séð stóra hvalinn? En kolkrabbinn synti skelkaður burt. Hafið þið séð hvalinn? spurði Gosi smáfiskana. En fiskarnir syntu óttaslegnir með eldingarhraða í allar áttir. Þessi hvalur hlýtur að vera illræmdur, sagði Tumi, úr því að allir eru hræddir við hann. Félagarnir hröðuðu ferð sinni eftir hafsbotninum. Þar iðaði allt í þörungum, kröbbum og krossfiskum.

Innan skamms komu þeir að stórum, dimmum helli. Allt í einu fór hellirinn að hreyfast. Þetta var þá reyndar enginn hellir. Þetta var hvalurinn! Hann flatmagaði á hafsbotninum og hafði fengið sér hádegislúr. Þá er bara að vekja hann, sagði Gosi. Hvernig fer maður að því að vekja hval? spurði Tumi. Honum fannst Gosi ótrúlega fífldjarfur.

Rétt í þessu synti stór fiskatorfa hjá. Hvalurinn opnaði aðra glyrnuna græðgislegur á svip. Hann glennti upp hvoftinn… og allir fiskarnir soguðust inn í hann. Gosi og Tumi engispretta lentu líka í innsoginu. Eltu mig Tumi! kallaði Gosi til vinar síns. Kannski við finnum Jakob loksins. Sjórinn fossaði niður í víðan kvið hvalsins. Gosi, Tumi og allir fiskarnir bárust nauðugir viljugir með straumnum.

Lengst inni í kviði hvalsins lá lítill fiskibátur við stjóra og vaggaði hægt á vatnsfletinum. Gamli maðurinn sat við borðstokkinn og sýndist dapur í bragði. Hann hélt á langri veiðistöng í hendinni. Ég veit að þú ert glorhungraður, Klói minn, sagði hann við köttinn sem mjálmaði eymdarlega. Ef hvalurinn gleypir ekki fljótlega fiskatorfu óttast ég að það sé úti um okkur. Skyndilega fór báturinn að taka dýfur, öldurnar skullu á borðstokknum og sjórinn varð krökkur af fiski. Jakob dró hvern fiskinn á fætur öðrum. Ja, hver þremillinn! Sá er aldeilis ólmur, sagði Jakob og rykkti í færið af öllum kröftum. Það munaði mjóu að hann missti stöngina þegar hann sá að það var Gosi sem hékk á önglinum. Elsku Gosi minn, ert þetta þú? hrópaði Jakob. Hann hló og grét í senn og faðmaði drenginn að sér. Ég iðrast þess að hafa strokið, sagði Gosi. En nú er ég komin að bjarga þér. Það verður enginn hægðarleikur, sagði Jakob alvarlega. Við verðum með einhverju móti að fá hvalinn til að opna ginið, sagði Gosi við föður sinn. Þeir veltu þessu fyrir sér drykklanga stund.

Loks flaug Gosa ráð í hug! Ef við getum komið hvalnum til að hnerra, sagði Gosi, þá tekst okkur að sleppa. Fyrst verðum við að smíða okkur traustan fleka. Svo kveikjum við í bátnum. Þá myndast mikill reykur og hvalurinn verður að hnerra. Reykurinn barst nú óðfluga um kvið hvalsins svo að þar varð kolamyrkur. Og smátt og smátt tók reykjarlopi að liðast út á milli skolta hvalsins. Fyrst snörlaði í hvalnum. Síðan hóstaði hann. Og loks hnerraði hann. A-A-AAAAAATJÚ-Ú-Ú! Hann hnerraði svo ákaft að flekinn þeyttist út um ginið á honum. Haldið ykkur fast! æpti Gosi. En nú var hvalurinn orðinn reiður, öskuþreifandi vondur. Hann kom æðandi á eftir þeim með opinn hvoftinn og sjórinn ólgaði umhverfis hann. Hann ætlaði að gleypa þá aftur.

Gætið ykkar! Flekanum hvolfir! hrópaði Jakob. Þeir komu engum vörnum við. Litli flekinn þeira hófst hátt á loft og þeir féllu allir útbyrðis, Jakob, Gulli gullfiskur, Gosi, Klói og Tumi engispretta. Syndið eins og þið eigið lífið að leysa! kallaði Gosi. En aumingja Jakob þreyttist fljótt. Reyndu bara að bjarga sjálfum þér, stundi hann og saup hveljur. En nú hugsaði Gosi ekki um sjálfan sig. Hann hélt Jakobi á floti og synti í áttina til lands. Það var þolraun fyrir lítinn dreng.

Þegar Gosi náði landi tókst honum með naumindum að draga Jakob upp úr flæðarmálinu. Þá voru kraftar hans þrotnir og hann hné í ómegin af þreytu. Vesalings Gosi minn, hvíslaði Jakob þegar hann raknaði við sér. Þú bjargaðir lífi mínu! Hann tók Gosa gætilega í fangið og bar hann heim. Jakob háttaði Gosa niður í rúm og breiddi ofan á hann hlýja ábreiðu. Gosi lá með lokuð augu og bærði ekki á sér. Blessaður litli Gosi minn, sagði Jakob og táraðist. Allt í einu birti í stofunni og gamli maðurinn heyrði blíðlega rödd. Bláa heilladísin var komin. Dísin snart Gosa laust með töfrasprota sínum. Vegna þess hvað þú varst hugrakkur og ósérhlífinn, sagði hún, ætla ég að breyta þér í alvörudreng. Gosi settist upp í rúminu. Sjáðu pabbi! Ég er ekki lengur spýtustrákur. HÚRRA! Nú er ég orðinn alvörudrengur af holdi og blóði. Jakob þakkaði dísinni og hún brosti við. Hún vissi að Jakob hafði alltaf langað til að eignast alvörudreng. Jakob og Tumi engispretta byrjuðu að leika fjörugt lag og Gosi bauð kettinum Klóa upp í dans.

Pinocchio og hvalen, Íslensk þýðing Sigrúnar Árnadóttur á frá 1990. Byggt á hugmyndum úr sögu Charles Collodi um spýtustrákinn Gosa. Vaka-Helgafell gaf út.

 

©2007 Globalsig./SigfúsSig. Iceland@Internet.is