Jólasíða

Grýlu þulur og kvæði á Gamanogalvara

SigfúsSig. Iceland@Internet.is

 

 

Aðventa

 

Orðið aðventa er dregið af latnesku orðunum Adventus Domini, sem þýða "koma Drottins". Aðventan hefst með 4. sunnudegi fyrir jóladag, sem að þessu sinni ber upp á 2. desember. Þessi árstími var löngum - og er reyndar víða enn - kallaðar jólafasta, sem helgast af því að fyrr á öldum mátti þá ekki borða hvaða mat sem var, t.d. ekki kjöt.

Aðventukransinn, sem víða ber fyrir augu um þessar mundir, byggist á norður-evrópskri hefð. Hið sígræna greni táknar lífið, sem er í Kristi. Logandi kertin benda til komu meistarans, ljóssins sem aldrei slokknar. Fyrsta kertið nefnist spádómakertið; það minnir á fyrirheit spámanna Gamla testamentisins, er höfðu sagt fyrir um komu frelsarans. Annað kertið nefnist Betlehemskertið; athyglinni er hér beint að þorpinu, sem Jesús fæddist í, og þar sem ekkert rúm var fyrir hann. Þriðja kertið nefnist hirðakertið; snauðum og ómenntuðum fjárhirðum voru sögð tíðindin góðu, á undan öllum öðrum. Fjórða kertið nefnist síðan englakertið, og minnir okkur á þá, sem báru mannheimi fregnirnar.

Fyrir marga er aðventan kærkomin tilbreyting frá amstri hversdagsins, og þeir reyna af fremsta megni að umvefja þennan boðskap hennar um frið og góðan hug til samferðamannanna, með því að sækja helgistundir og róa sig þannig niður fyrir sjálfa hátíð ljóssins. En aðrir eru í sífelldu kapphlaupi við tímann og efnið, og kannski aldrei meira en einmitt núna.

Til er saga um gamla konu á Ítalíu, sem hét La Befana. Sagt er að vitringarnir þrír frá Austurlöndum - Kaspar, Melkíor og Baltasar - hafi komið við hjá henni forðum, og boðið henni að slást með í förina til Betlehem, að sjá nýfædda konunginn. En hún sagðist ekki hafa neinn tíma, hún væri að gera hreint í bústað sínum. Og vitringarnir héldu því sína leið, einir.

Það var ekki fyrr en löngu seinna, að gamla konan áttaði sig á boði þeirra félaga, hvað það í raun merkti. Og hún tók á rás á eftir þeim, með svuntuna blaktandi eins og fána í vindi, og sópinn á annarri hendi. En það dugði ekki til. Hún fann hvorki vitringana né Jesúbarnið. Og það er sagt, að hún reiki enn um götur borganna og leiti.

Og önnur saga, þessari lík, en úr nútímanum, er til. Aðventan er komin í öllu sínu veldi, og það er verið að undirbúa komu jólabarnsins. Lítill drengur horfir á foreldri sín vera að þvo og pússa í sífellu, og hraðinn er gífurlegur og spennan yfirþyrmandi. Hann biður þau um að lesa fyrir sig jólasögu. En fær þau svör, að það sé enginn tími. Jólin séu að koma. Vill hann ekki bara setjast niður og teikna? Jesú, til dæmis? Og honum er fengið blað og litir.

Eftir drykklanga stund er myndin tilbúin. Og aftur spyr hann pabba og mömmu, hvort þau vilji nú ekki lesa fyrir sig. En svarið er eins og fyrr. Elsku vinurinn, það er verið að undirbúa jólin. Vill hann ekki teikna aðra mynd? Jólaundirbúninginn, til dæmis? Nokkur stund líður, og myndin er tilbúin. Og aftur reynir drengurinn að fá þau til að lesa fyrir sig. En allt er við það sama. Og við hverja spurningu og neitun festist ný mynd á blaðið.

Loks kemur að því, að mamma og pabbi taka sér pásu, úrvinda af þreytu, og nota þá tækifærið og biðja um að fá að sjá, hvað drengurinn sé búinn að teikna og lita. En þau reka upp stór augu, er þau sjá blaðið. Þar er urmull lítilla mynda, hver um aðra þvera: mamma að sópa, pabbi að negla, mamma að skúra, pabbi að skipta um ljósaperu, mamma að ryksuga, pabbi að fara út með ruslið, mamma að vaska upp, pabbi að leggja sig...

"Já, en hvar er myndin af Jesú?" er spurt. Og drengurinn svarar: "Ja, sko, hún lenti undir öllum hinum. Ég byrjaði á því að teikna hann, en svo teiknaði ég aðra mynd, og svo fleiri, og allt í einu var Jesús horfinn."

Mamma og pabbi litu hvort á annað, og gáfu sér nú loksins tíma með drengnum sínum, og lásu fyrir hann jólasöguna.

Ég held að við getum auðveldlega séð okkur í þessum fullorðnu persónum þremur: hinni ítölsku La Befana í byrjun 1. aldar, og svo mömmu og pabba við upphaf 21. aldarinnar, jafn upptekin við fánýta hluti og við í raun erum jafnan. Auðvitað er nauðsynlegt að snurfusa heimilið, ryksuga og þvo og skúra, en það má ekki koma niður á hinum meiri gildum lífsins og sannari verðmætum.

Megi þessar sögur tvær búa í huga okkar nú í upphafi jólaföstunnar og síðan áfram um jólin og yfir, svo við gleymum nú ekki hinu raunverulega tilefni þessa mikla umstangs, þ.e.a.s. fæðingu Jesú.

 

Aðventuhugleiðing

sr. Þór Hauksson sóknarprestur Árbæjar og Grafarholtssafnaðar

Það var búið að segja mér að ég fengi að fara í þau næstu jól.  Ég hafði margoft stolist til að kíkja á þau inni í fataskápnum hjá pabba og mömmu.  Þau voru sveipuð dýrðarljóma.  Fyllt sögum eldri bræðra minna hversu fínir þeir voru í þeim og nú var röðin komin að mér.  Silfruð flautan var á sínum stað í silkiofnum kaðli ofan í litlum hliðarvasa.  Fötin voru svört með hvítum röndum.  Skórnir voru geymdir í snjáðum kassa, þeir voru hvítir.  Ég hafði um haustið fengið að máta þá.  Þeir voru of stórir en mamma sagði að ég yrði að vera duglegur að stækka svo að þeir pössuðu á mig um jólin.   Hvað ég gerði ekki til að fæturnir stækkuðu.  Eldri bræður mínir voru hjálplegir við að standa á ristinni og fram á tábergið.  Þeir voru eldri og vitrari og sannfærðu mig fimm ára guttann um að þannig væri farið að því að stækka fætur.  Ég trúði öllu því sem þeir sögðu - til sjö ára aldurs.

Stóra stundin rann upp aðfangadagur jóla.  Ilmur eftirvæntingar lá í lofti um alla borgina.   Ný baðaður og fínn með strokið hárið var ég færður í dýrðina - matrósufötin og hvítu skóna sem smell pössuðu.  Stóru bræðurnir stóðu hjá hreyknir af visku sinni kinkuðu kolli og sögðu “við vissum það.”  Og ég trúði því.  Það kom þeim heldur ekki á óvart að silfraða flautan var ekki á endanum á silkibandinu bláa og hvíta þegar það var dregið upp úr vasanum.   Tilfinning vonbrigða sótti að og settist í ungan huga.   Eiga jólin ekki vera gleðileg, hugsaði ég í þá mund sem rafmagnið sló út.   

“Á jólum á að vera friður og kyrrð” sögðu stóru bræðurnir spekingslega eins og vel æfður kór undir skyni kertaljósa.   Svo samtaka voru þeir í þessari visku sinni.   Kyrrð og ró hverskonar fyrirbæri er það? hugsaði ég með mér.   Ég efast um að þá hafi þeir bræður mínir haft hugmynd um það fyrirbæri.  Þeir höfðu heyrt þessi orð og fannst þau fín til að nota á litla bróður.    Kyrrð og ró var eitthvað sem fullorðna fólkið klæddist eða borðaði ýmindaði ég mér.    “Þú og flauta eru ekki samnefnari fyrir ró og kyrrð”sögðu þeir og rafmagnið kom á aftur.  Þeir toguðu í hvít bláa borðann til að leggja áherslu á orð sín.  Bara hún væri þarna í litla vasanum framan á jakkanum.  Litlir grannir fingur rótuðu til í vasanum þegar engin sá til.   Það var aldrei að vita nema að flautan leyndist þarna einhversstaðar í myrkvuðum vasans.  

Jólin gengu í garð með fjarstýrðum bílum og vélmennum sem gengu á vegg og gáfu frá sér hljóð sem minnti á allt annað en ró og kyrrð jólanna.  Bræður mínir voru þá búnir að gleyma visku sinni um ró og kyrrð.  Það var álíka líklegt að að þau orð og sú hugsun sem bjó að baki þeim fyndist í rökkvuðum huga þeirra eins og flautan í vasanum mínum.  Í kjölfarið var kyrrðinni pakkað niður með jólapappírnum.  Mamma lagði áherslu á að fara vel með pappírinn - það yrði hægt að nota hann næstu jól.  Þá væntanlega kæmi ró og kyrrðin aftur í leitirnar, hugsaði ég með mér.  

Enn eru jólin að koma.  Matrósuföt fortíðar án silfraðar flautu, fjarstýrðir bílar og vélmenni kallast á við raunveruleika nútímans eða eins og einhver sagði.  Nútíminn er leiðinlegur, fortíðin skemmtileg og framtíðin spennandi.    Vissulega má segja að framtíðin ef við tölum um næstu daga og vikur séu á margan hátt spennandi.  Það er kitlandi eftirvænting sem kallar fram brosmildar minningar eins og þá sem ég hef sagt frá.  Eflaust má ef grannt er skoðað greina þar trega sakleysis.  Trega eftir því sem var og mun ekki aftur verða.  Þess vegna er framtíðin spennandi, nútíðin leiðinleg og fortíðin skemmtileg. 

Framtíðin felur í sér von.   Framtíðin er gestur sem við eigum í sífellu von á.  Helst viljum við ekki láta hann koma okkur að óvörum.   En alltaf skal henni takast það.  Framtíðin felur í sér von um að það sem er núna þarf ekki að vera á morgun.  Hvernig sem þetta augnablik sem við köllum nútíð sækir að okkur í raun og eða gleði þá er eitthvað sem segir okkur að við höfum eitthvað um það að segja.  Kannski ekki hvað hinn ytri veruleika varðar.  Miklu frekar hvernig við tökum á móti gestinum innra með okkur.

Í gær tók aðventan hús á okkur.   Aðventan er gestur sem stoppar stutt hjá okkur.  Það er hinn ytri veruleiki sem við könnumst við.  Það er sem allt breyti um ásýnd hvað hið ytra varðar.  Hvernig skyldi okkur líða innra með okkur.  Er eitthvað sem vantar?   Erum við; meðan engin sér til, að leita af einhverju, en getum ekki skilgreint?

Brátt heyrir aðventan fortíðinni til og tekur á sig allt aðra mynd en nútíðin gefur af henni.  Eða er það svo.  Aðventan er eilíf hún á sér hvorki fortíð né nútíð aðeins framtíð.  Því hún felur í sér von í hrjáðum heimi.  Aðventa, þýðir koma, eða tilkoma.   Aðventan er ferðalag Jesú til mannheims, fæðing í heim sem brennur í stríðum, heim sem er fullur af baráttu góðs og ills, reiði og gleði, sorgar og fagnaðar.  Hann er að koma og aðventan er tækifæri til að undirbúa komu hans.  

Með komu aðventunnar er kallað á okkur úr öllum áttum.   Það sem mestur varðar í þeim efnum eru hin hljóðlátu köll sem sigrast á launsátri þeirra sem hæst láta í nútíðinni og eru dæmd til að leiðast í myrkum vasa þess sem gæti aðeins verið ef vel er leitað.

Eitt af mörgu sem kallar á okkur hljóðlátlega í myrkri veruleika okkar er jólatréð sem lifir af vetrarkuldann og er því tákn lífsins.  Það er höggvið og “fórnar þannig lífi sínu” fyrir mannfólkið.  Græni litur jólatrésins er litur vonarinnar.   Á hverri grein er krossform sem er tákn kærleikans.  Ljósin minna okkur á Jesú sem er ljós heimsins.   Stjarnan á toppnum er Betlehemsstjarnan.  Jólakúlurnar eru ávextir trúarinnar.  

Þegar maður er fimm ára er eilífðin heill dagur.   Að bíða heilt haust og langan desembermánuð að þessi jól kæmu þannig að ég mætti klæðast matrósufötunum sem eldri bræður mínir voru vaxnir upp úr var margföld eilífð sem brotin var upp með því að fara með pabba og þeim bræðrum í Alaska og kaupa jólatré.   Ég sagði engum frá áhyggjum þeim að stjörnurnar í bikasvörtu loftinu fyrir ofan gætu fallið á mig þar sem við gengum í svölu vetrarloftinu því þær héngu í bláþræði sem gæti slitnað hvenær sem var.  Þann fróðleik hafði ég eins og annað á þeim árum frá mínum eldri bræðrum.  Hversu fegin ég var að komast heim án þess að fá stjörnu í höfuðið að ég hélt og mamma tók á móti okkur með heitt kakó og ég tók ekki eftir því að ég var með stjörnublik í augum.  

Ég vissi ekki þá og ekki heldur bræður mínir að tréð hafði gefið sitt líf fyrir okkur.  Þannig að við mættum gleðjast.  Ég var um of upptekinn að vita hvað leyndist í pökkunum sem lúrðu leyndardómsfullir undir slútandi grænum greinum trésins sem ég hafði sótt og fært heim.  Ég vissi ekki þá að það talaði til mín og allt það skraut sem prýddi það átti sína tungu sína sögu að segja.

Við heyrum aðeins og skynjum ef við eitt augnablik leggjum við hlustir.   Það augnablik er meira en tilbúið til að hitta okkur og eiga kyrrláta stund hjá hverju og einu okkar.   Vill segja okkur.

Já,  Jesú kemur!

Hver eru viðbrögð okkar við komu hans?  Hvaða móttöku fær hann hjá mér og þér?  Hvað verður um aðventuna í ár er ákvörðun okkar, hvers og eins.  Spyrjum okkur hvað við viljum gera, hvað við ætlum að gera.  Hvaða sess látum við Jesú skipa í lífi okkar og dagskrá, önnum og væntingum?  Enn fáum við að undirbúa jólin, horfa fram til hvíldar og gleði, samfélags og margskonar gæða. 

Aðventan minnir okkur líka á þau sem búa ekki við sama öryggi og við í sambandi við mat og klæði, húsnæði, vatn og eiga foreldri er geyma matrósuföt í klæðaskáp. Foreldri sem bíður heima með heitt kakó.  Eiga öruggt skjól fyrir fallandi stjörnum himinhvolfsins, að eiga ekki stjörnublik í vondaufum augum.  Á það minnir Hjálparstarf kirkjunnar með sinni árlegu jólaföstu söfnun sinni.

Megi góður Guð gefa þér og þínum gleðiríka aðventu og jólahátíð.

 

 

Aðventusaga
Palli var kominn í jólafötin sín, lítill fimm ára snáði. Hann stóð við sófaborðið og horfði á ljósin fjögur, sem loguðu á aðventukransinum. Hann var að hugsa um það, þegar mamma kveikti á fyrsta kertinu og um það, að í vikunni þar á eftir bökuðu þau saman piparkökur, hann og mamma. Ó, hvað þær voru góðar. Þær voru líka ennþá betri af því að hann hafði fengið að móta úr þeim karla og kerlingar. Annan sunnudaginn í aðventu kveiktu þau á öðru kerti, og fóru síðan saman í kirkjuskólann. Hann mundi ekki vel hvað presturinn sagði, en þó mundi hann vel eftir því, að hann sagði frá því, að í Betlehem, borginni sem Jesús fæddist í, hefðu fjárhirðar verið að gæta sauða og þá hefði engill komið til þeirra og sagt þeim, að hann væri að boða þeim mikinn fögnuð.

Palli mundi líka vel þegar mamma kveikti á þriðja kertinu og því fjórða. Nú horfði hann á öll fjögur kertin um leið og allar þessar hugsanir rifjuðust upp fyrir honum. “ Páll, Páll!” Það var mamma sem kallaði á hann. Hún var komin í fínan kjól og pabbi í nýju gráu jakkafötin sín.
“Komdu, við erum að fara í kirkju.”

Þegar þau voru komin í kirkjuna, hafði Palli orð á því við pabba, hvað allir væru brosandi og fínir, og hann spurði pabba hvers vegna. Pabbi sagði, að það væri vegna þess, að jólin væru gengin í garð. Palli hlustaði mjög vel á það sem presturinn sagði. Hann sagði frá því þegar Jesús fæddist. Hann sagði, að María og Jósef hefðu ekki fengið neina gistingu nema í fjárhúsi.

Palli hugsaði mikið um það, að fæðast í fjárhúsi eins og amma og afi áttu í sveitinni. Það komu tár í litlu barnsaugun. Litla barnið var sett í jötu. Aldrei hafði Palli getað ímyndað sér, að barn hefði fæðst í kindakofa. Mamma hafði sagt honum, að hann hefði fæðst á fæðingardeild. Þetta var því erfitt að skilja fyrir lítinn dreng. Presturinn sagði líka, að Jesús væri jólagjöf Guðs til okkar.

Og hann minnti líka á, að þegar við opnuðum jólagjafirnar við jólatréð, þá skyldum við minnast þess, að Jesúbarnið væri stærsta jólagjöfin.

Um kvöldið þegar þau þrjú, mamma, pabbi og Palli höfðu lokið við að borða jólamatinn og sungið jólasöngvana, settust þau við jólatréð og opnuðu pakkana undir trénu. Nokkrir pakkar voru frá ömmu og afa í Reykjavík og nokkrir pakkar frá ömmu og afa í sveitinni og svo fékk Palli pakka frá mömmu og pabba. Ó, hvað hann var glaður yfir öllum pökkunum. Hann gleymdi þó ekki stærstu jólagjöfinni, sem er Jesús. Hann gleymdi ekki heldur að þakka Guði fyrir þessa gjöf, og fyrir það, að hún var handa honum.
 

www.kirkjan.is

 

 

Share on Facebook

 

© SigfúsSig. Iceland@Internet.is