Jólasíða

Grýlu þulur og kvæði á Gamanogalvara

SigfúsSig. Iceland@Internet.is

Annar sunnudagur í aðventu: Frelsarinn kemur

Lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd. Lk. 21.28

Kollekta

Vek þú, Drottinn hjörtu vor, að þau greiði einkasyni þínum veg og oss veitist að þjóna þér hreinum huga vegna komu hans sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía Jes. 35.1-10

Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja.
Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd Drottins og prýði Guðs vors.
Stælið hinar máttvana hendur, styrkið hin skjögrandi kné!
Segið hinum ístöðulausu: Verið hughraustir, óttist eigi! Sjá, hér er Guð yðar! Hefndin kemur, endurgjald frá Guði! Hann kemur sjálfur og frelsar yður.
Þá munu augu hinna blindu upp lúkast og opnast eyru hinna daufu.
Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur og tunga hins mállausa fagna lofsyngjandi, því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum.
Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.
Þar skal verða braut og vegur. Sú braut skal kallast brautin helga. Enginn sem óhreinn er, skal hana ganga. Hún er fyrir þá eina. Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar.
Þar skal ekkert ljón vera, og ekkert glefsandi dýr skal þar um fara, eigi hittast þar. En hinir endurleystu skulu ganga þar.
Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.

Pistill Hebr.10.35-37

Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.

Guðspjall Mark. 13. 31-37

Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða. En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.

Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka.

Vakið því, þér vitið ekki, nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi, þegar hann kemur allt í einu.

Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!

 
Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

© Sigfús Sig. Iceland@Internet.is