Jólasíða

 

 

 

Fallegar Jólasögur.

SigfúsSig. Iceland@Internet.is

 

>Meira af jólasögum hér<

 
Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

Fyrst er það saga gerðist fyrir mörgum árum,

Maður nokkur refsaði 3ja ára gamalli dóttur sinni fyrir það að eyða heilli rúllu af gylltum pappír. Ekki var mikið til af peningum og reiddist hann þegar barnið reyndi að skreyta lítið box til að setja undir jólatréð.

 

Engu að síður færði litla stúlkan föður sínum boxið á jóladagsmorgun og sagði: "Þetta er handa þér pabbi". Við þetta skammaðist faðir stúlkunnar sín fyrir viðbrögð sín daginn áður. En reiði hans gaus upp aftur þegar hann áttaði sig á því að boxið var tómt. Hann kallaði til dóttur sinnar, "veistu ekki að þegar þú gefur einhverjum gjöf, þá á eitthvað að vera í henni?"

 

Litla stúlkan leit upp til pabba síns með tárin í augunum og sagði: "Ó pabbi boxið er ekki tómt. Ég blés fullt af kossum í það. Bara fyrir þig pabbi." Faðirinn varð miður sín. Hann tók utan um litlu stúlkuna sína og bað hana að fyrirgefa sér.

 

Það er sagt að mörgum árum seinna, þegar faðir stúlkunnar lést, og hún fór í gegnum eigur hans hafi hún fundið gyllta boxið frá því á jólunum forðum við rúmstokkinn hans, þar hafði hann haft það alla tíð; þegar honum leið ekki vel gat hann tekið upp ímyndaðan koss og minnst allrar ástarinnar sem barnið hans hafði gefið honum og sett í boxið.

 

Í vissum skilningi höfum við allar lifandi mannverur tekið á móti gylltum boxum frá börnunum okkar, fjölskyldum og vinum, fullum af skilyrðislausri ást og kossum. Það getur enginn gefið dýrmætari gjöf.

 

Í dag skaltu gefa þér augnablik og njóta stórrar handfylli af minningum. Og mundu að þær verma hjarta þitt og bráðna þar, en ekki í höndum þínum

 


 

Önnur afar hjartnæm saga, sem einnig gerðist fyrir mörgum árum.

Á Þorláksmessukvöldi þurfti ég að fara í búðir til þess að versla síðustu jólagjafirnar sem ég átti eftir að kaupa . Þegar ég kom inn í fyrstu búðina, féllust mér hendur er ég sá alla ösina sem myndast hafði þar inni. Ég átti nefnilega eftir að fara í fleiri búðir ,,og hér á ég eftir að þurfa að bíða í óratíma", kvartaði ég við sjálfa mig. Það er að verða sífellt meira stress í kringum jólin. ,,Ég vildi að ég gæti nú bara sofnað og vaknað svo þegar jólin eru búin", hugsaði ég áfram. Samt sem áður hristi ég af mér slenið og tók strikið inní leikfangadeildina. Þar byrjaði ég að setja út á rándýr leikföngin og til hvers ætti nú að kaupa svona dýr leikföng, þegar krakkar nú til dags leika sér bara með þau í smátíma og svo er þeim bara fleygt uppí hillu hjá öllum hinum leikföngunum. Á meðan ég stóð þarna, tók ég eftir litlum dreng á að giska 5 ára gömlum sem hélt á brúðu og þrýsti henni að sér. Hann strauk hár brúðunnar og leit út fyrir að vera mjög dapur. Ég velti fyrir mér af hverju hann héldi á brúðunni. Þá snéri drengurinn sér við og leit á gamla konu sem stóð við hlið hans, ,,amma ertu viss um að ég eigi ekki nóg af peningum fyrir þessu"? Gamla konan svaraði, ,,þú veist að þú átt ekki nóg fyrir þessari brúðu, elskan mín". Drengurinn leit dapurlega á brúðuna. Gamla konan strauk honum um vangann og bað hann að bíða í fimm mínútur á meðan hún færi að leita eftir því sem hana enn vantaði.

Litli drengurinn stóð með brúðuna í fanginu og þrýsti henni að brjósti sér. Loks gekk ég til hans og spurði hann, hverjum hann ætlaði að gefa brúðuna. ,,Þetta er brúðan sem hún systir mín hélt mest upp á og langaði svo mikið að fá í jólagjöf. Hún var viss um að jólasveinninn myndi gefa sér hana", sagði hann og leit feimnislega í andlit mitt. Ég sagði við hann að kannski kæmi jólasveinninn eftir allt og gæfi henni brúðuna og hann skyldi ekki hafa ekki áhyggjur af þessu. En hann svaraði dapur í bragði, ,,nei jólasveinninn getur ekki gefið henni brúðuna þar sem hún er núna. Ég verð að gefa mömmu brúðuna svo að hún geti gefið henni hana þegar hún fer til hennar". Augu hans urðu skyndilega afar döpur og lítið tár læddist niður kinn hans. ,,Systir mín er farin til Guðs og pabbi segir að mamma fari bráðum til hans líka, þá getur hún ábyggilega gefið henni brúðuna". Hjartað á mér stöðvaðist næstum þegar ég heyrði þetta, litli drengurinn horfði sorgmæddur á mig og sagði, ,,ég bað pabba að segja mömmu að fara ekki strax og ég bað hann um að biðja hana um að bíða þangað til ég kæmi úr búðinni". Drengurinn seildist ofaní vasa sinn og dró upp afar fallega mynd af sjálfum sér, brosandi á myndinni. Svo sagði hann, ,,ég vil að mamma taki þessa mynd með sér svo að hún gleymi mér ekki. Ég elska mömmu mína og vildi óska þess að hún þyrfti ekki að fara frá mér en pabbi segir að hún verði að fara og vera hjá systur minni". Hann horfði sorgmæddum augum á brúðuna. Ég tók hljóðlega upp veskið mitt og sagði við drenginn, ,,hvernig væri að við myndum athuga einu sinni enn hvort að þú eigir nóg fyrir brúðunni"? ,,Allt í lagi", sagði hann, ,,ég vona að ég eigi nóg". Ég setti peninga í budduna hans án þess að hann tæki eftir því og við byrjuðum að telja. Það var nóg fyrir brúðunni og meira að segja smá afgangur. Litli drengurinn leit upp og andlit hans ljómaði". ,,Takk Guð fyrir að gefa mér nóg af peningum". Hann leit á mig og sagði, ,,áður en ég fór að sofa í gær, bað ég Guð um að gefa mér nægan pening fyrir brúðunni svo að mamma gæti gefið hana systur minni og hann svaraði mér". ,,Mig langaði líka til þess að kaupa hvíta rós handa mömmu, en ég þorði ekki að biðja Guð um það líka. En sjáðu, hann gaf mér nóg til þess að kaupa bæði brúðuna og rósina, veistu, mamma mín elskar hvítar rósir". Nokkrum mínútum seinna kom gamla konan og ég hélt leiðar minnar.

Ég kláraði að versla inn þennan dag með allt öðru hugarfari en hafði byrjað hann. Og ég gat ekki hætt að hugsa um litla drenginn.

Þá mundi ég eftir grein í dagblaðinu sem birtist fyrir 2 dögum, þar sem sagði frá drukknum ökumanni á jeppa, sem keyrði á unga kona og litla stúlku. Stúlkan lést samstundis en konan var þungt haldin á spítala. Sagt var frá að fjölskylda ungu konunnar yrði að taka ákvörðun um hvort ætti að taka öndunarvélina úr sambandi eða ekki, vegna þess að vitað var að konan átti ekki eftir að komast úr dáinu sem hún var í. Var þetta fjölskylda litla drengsins?

Tveim dögum eftir að ég hitti drenginn las ég í blöðunum að konan hefði dáið. Ég réði ekki við mig og fór og keypti búnt af hvítum rósum og fór þangað sem minningarathöfnin var. Hún lá þarna í kistunni sinni og hélt á fallegri hvítri rós í annarri hönd sinni og með myndina af litla drengnum brosandi og við hlið hennar lá brúðan. Ég yfirgaf staðinn hágrátandi, vitandi það að líf mitt hafði breyst varanlega eftir þessa upplifun. Kærleikurinn sem drengurinn hafði borið til systur sinnar og móður er enn þann dag í dag erfitt að gera sér í hugarlund. Á einu andartaki hafði drukkinn ökumaður svipt hann öllu þessu.

Núna getur þú gert tvennt!

Að vekja athygli annarra á þessari sögu, eða að láta sem sagan hafi ekki snert neina viðkvæma strengi í hjarta þínu.

Ef þú vekur athygli annarra á sögunni, þá gæti það komið í veg fyrir að drukkinn maður eða kona aki bíl.


 

Jólasaga eftir Selmu Lagerlöf

Ég var 5 ára gömul og varð þá fyrir þeirri sorg, að varla hefur önnur þyngri fyrir mig komið síðan. Það var þegar hún amma mín dó. Frá því ég mundi til mín, hafði hún alltaf setið í horninu sínu og sagt okkur sögur.

Mér finnst núna eins og henni entust sögurnar allan liðlangan daginn, og þarna sátum við börnin og hlustuðum á. Engin börn gátu átt eins gott og við. Ég man fremur lítið eftir ömmu minni. Hún var með fallegt silfurgrátt hár, var orðin nokkuð lotin í herðum, og alltaf sat hún með prjónana sína. Eins man ég það, að þegar sagan var búin hjá henni, lagði hún lófann á kollinn á mér og sagði: Þetta er eins satt og þú sérð mig og ég sé þig. Minnst man ég nú af sögunum, sem hún sagði mér,, það er varla nema ein, sem ég man svo vel að ég geti farið með, og það er sagan um fæðingu Jesú.

Amma sagði mér söguna jóladaginn. Allt fólkið var farið til kirkju, en við vorum einar heima. Við höfðum ekki fengið að fara með. Hún var of gömu og ég of ung. Þá kom sagan.

Það var einu sinni maður. Hann fór út um miðja nótt að sækja sér eld. Hann gekk bæ frá bæ og barði að dyrum. Heyrið mig gott fólk, sagði hann. Konan mín var að eiga barn og ég þarf að ná mér í eld til að kveikja upp heima. Konan og barnið eru þar í kuldanum.

En allir voru í fasta svefni. Enginn tók undir við hann. Maðurinn gekk lengi, lengi. Þá sá hann skin af eldi langt í burtu. Hann gekk á ljósið og kom þar að, er eldur brann úti á víðavangi. Í kringum eldinn var hvít sauðahjörð og sauðirnir voru í fasta svefni, en gamall hjarðmaður sat hjá og vakti. Við fætur hjarðmannsins lágu þrír stórir hundar sofandi, vöknuðu þeir við gestakomuna og glenntu upp ginin, til að gelta. En ekkert heyrðist hljóðið. Stukku þeir að komumanni, og skein í hvítar tennurnar við ljósglampann. Maðurinn fann að einn þeirra beit hann í fótinn, annar í höndina og sá þriðji kom með skoltinn að kverkum hans. En ekkert varð úr bitinu hjá neinum þeirra. Þar var bara meinlaust glefs.

Nú vildi göngumaðurinn ná í eldinn en hann komst eigi að fyrir sauðunum. Hann hoppaði þá upp á bakið á sauðunum og stiklaði eftir þeim og komst að eldinum. Og engin kindin vaknaði né hreyfði sig. Þarna tók ég fram í hjá ömmu og spurði hana, hvers vegna kindurnar hefðu ekki hreyft sig. Það færð þú bráðum að vita, sagði amma og hélt áfram sögunni.

Nú var gesturinn rétt að segja kominn að eldinum og þá tók hjarðmaðurinn eftir honum. Hann var gamall maður, leiður á lífinu og lundillur. Greip hann til göngustafs síns og var stafurinn þungur og broddurinn beittur. Kastaði hann vopni sínu að komumanni, stefndi broddstafurinn á manninn miðjan, en geigaði, áður en á hann kæmi og straukst frá hjá og stóð fjarri í jörðu.

Nú greip ég aftur fram í: Því vildi stafurinn ekki fara í manninn, amma? En amma kærði sig ekki um að svara mér, en hélt áfram sögunni: Nú var gesturinn kominn til hjarðmannsins og bað hann vinsamlega að lofa sér að ná eldi. “Konan mín var að eiga barn og ég verð að fá dálitla hlýju fyrir hana og barnið. Efst var nú hjarðmanninum að bregðast illa við þessu, en það var kominn í hann hálfgerður beigur við þennan gest, sem hundarnir unnu ekki á, sauðirnir styggðust ekki við og stafurinn geigaði frá. Taktu eins og þú vilt, sagði hann við manninn. Eldurinn var að mestu brunninn. Það voru bara glóðirnar eftir og gesturinn hafði ekkert ílát til þess að taka þær í. Hjarðmanninum þótti ekki fyrir því og tók upp orðin eins og í glettni: Taktu eins og þú vilt.

En maðurinn laut niður að eldinum, tók glóðirnar með berum höndunum og lét í skikkjulaf sitt. Og glóðirnar brenndu hann ekki á höndunum og ekki kom gat undan þeim á skikkjunni. Manninum varð ekki meira fyrir að taka sér glóðirnar en þetta hefðu verið hnetur eða epli. Nú var gripið fram í – og það í þriðja skiptið: Amma! Hvers vegna brenndi maðurinn sig ekki á eldinum? Það kemur bráðum, sagði amma og hélt áfram. Nú varð slæmi hjarðmaðurinn ennþá meira forviða. Þetta var einhver töfranótt. Hundarnir gátu ekki bitið, kindurnar voru ekki hræddar og spjótið hans vildi ekki drepa manninn, og eldurinn brenndi ekki. Hann kallaði á manninn og spurði hann hvernig á þessu stæði og hvað væri um að vera þessa nótt, þegar ekkert vildi öðru granda. Ekki get ég sagt þér það, sagði gesturinn. Þú verður sjálfur að sjá það. Og maðurinn stóð ekki við, hann var að flýta sér heim með eldinn til konunnar sinnar og barnsins.

Hjarðmaðurinn var orðinn forvitinn. Hann fór í humátt á eftir aðkomumanni allar götur heim til hans. Það var þá líka heimkoma. Móðirin og barnið lágu í hellisskúta. Veggirnir voru ekki annað en kaldir og berir veggirnir. Hjarðmaðurinn var eins og áður er sagt, harðgeðja og miskunnarlítill, en samt tók hann það sárt að vesalings litla saklausa barnið yrði að deyja þarna úr kulda, og hann langaði til að gera barninu eitthvað gott. Hann mundi eftir því, að hann bar á sér mjúkt og fallegt lambskinn, mjallhvítt. Hann leysti frá sér og rétti heimamanni skinnið og sagði honum að búa um barnið á því.

En á sama augnabliki sem hann sýndi það af sér að hann gat sjálfur verið miskunnsamur

þá opnuðust augu hans og hann sá það sem hann eigi gat áður séð og heyrði það sem hann gat eigi áður heyrt. Hann kom auga á það að allt í kringum hann voru ofurlitlir englar með silfurvængi.

Þeir léku allir á hörpur og sungu skærum rómi, að í nótt væri frelsarinn fæddur sem frelsa mundi mennina frá syndum þeirra. Og nú gat hjarðmaðurinn skilið að allar skapaðar skepnur voru svo glaðar þessa nótt, að engin vildi annarri granda. Og hjarðmaðurinn sá alls staðar og allt í kring engla. Þeir voru inni í hellinum og þeir sátu uppi á bergskútanum og flögruðu um loftið. Og þeir voru í hópum á gangi fyrir utan, og stóðu við augnablik er þeir komu að hellismunnanum og gægðust inn til barnsins. Gleði og söngur og leikur allt í kring, og dimma nóttin var orðin skínandi björt.

Og allt var honum þetta áður hulið. Honum varð svo hjartanlega glatt við það að augu hans höfðu opnast, að hann féll á kné og bað til Guðs.

Nú var sögunni lokið hjá ömmu. Hún varp öndinni og sagði: En við getum líka séð þetta sem hirðirinn sá. Englarnir eru á ferðinni hverja jólanótt, þó að við verðum ekki alltaf vör við þá. Og amma lagði lófann á kollinn á mér og sagði: Hugsaðu til þess seinna því það er eins satt og ég sé þig og þú sérð mig. Við þurfum ekki ljós né lampa og gætum líka ef á lægi verið án tungls og sólar en það sem á ríður er að við sjálf eigum augu til að sjá dýrð Guðs.


Nóttin sem beljurnar töluðu

Einu sinni var drengur sem hét Helgi og hann var mjög myrkvælinn.

Hann þurfti oft að fara út í fjós að gá að beljunum sem hann hræddist mjög en fór samt fyrir mömmu sína.

Dag einn fór hann að gá að Skjöldu sem var að bera.

Þegar hann kemur inn í fjós heyrir hann beljurnar tala,hann verður hræddur og hleypur heim og segir mömmu sinni að beljurnar séu brjálaðar því þær tali saman.
Mamma hans segir honum að hætta þessu bulli og vera úti í fjósi á meðan Skjalda sé að bera. Helgi hlýðir því. 

Hann fer því aftur út í fjós en er samt mjög hræddur vegna þess sem hann sá út í fjósi rétt áður.

Hann læðist inn en beljurnar sjá hann strax og kalla á hann. Þær segja honum að vera ekki hræddan og vilja segja honum leyndarmál lofi hann að segja engum frá. Helgi lofar því.

Þær segja honum að á Jónsmessunótt sé eina nóttin á ári sem þær tali saman og hafi frá mörgu að segja þess vegna var svona mikill hávaði áðan þegar hann kom að gá að Skjöldu og við svo búið heyrði hann Skjöldu kalla að það væri kominn nýr kálfur í heiminn.
Helgi hljóp heim og náði í mömmu sína sem fór strax út í fjós og Helgi lofaði að segja engum frá því sem hann heyrði þennan dag.

Jón Borgar þorgrímsson

 

 

 

 

Dóttir gestgjafans

Það var mikið að gera í litla gistihúsinu í útjaðri borgarinnar. Þar var hvert herbergi skipað. Rakel hafði verið í stöðugum sendiferðum og snúningum allan daginn. Nú var ofurlítið hlé. Hún gekk upp í herbergið sitt og horfði út um gluggann. Dimmblá rökkurmóða lá yfir landinu umhverfis Betlehem, og veðrið var hlýtt og kyrrt. Rökkrið læddist yfir landið, og tindarnir á Líbanon voru að hverfa. Ávaxtatrén í garðinum drupu höfði og biðu í hljóðri ró eftir hækkandi sól og nýju sumri. Jafnvel þótt veturinn hér í Landinu helga væri mildur, var hann þó biðtími jarðargróðans eftir nýju vori.

Rakel var tíu ára. Hún var einkabarn foreldra sinna og hvers manns hugljúfi. Aðeins eitt skyggði á gleði foreldranna yfir þessu barni sínu. Hún hafði illkynjaðan hörundskvilla á höndum, sem engum hafði tekist að lækna. Mattheus faðir Rakelar, var heiðarlegur og vel metinn veitingamaður. Hann ásamt Söru konu sinni, hafði rekið þetta veitingahús lengi og hafði það gott orð á sér. Ekki voru hjónin auðug en sjálfbjarga. Bæði voru guðrækin og héldu vel lögmálið.

Í rökkurbyrjun þetta umgetna kvöld, komu ung hjón heim að dyrum gistihússins. Konan reið á asna en maðurinn var gangandi. Þau báðu um gistingu, en Mattheus sagði að hvert herbergi væri fullskipað. “Þetta er síðasta gistihúsið, María”, sagði maðurinn og leit á hana vandræðalegur. “Þá er að taka því, vinur minn, okkur leggst eitthvað til”, sagði hún og sneri asnanum við, án þess þó að vita, hvert halda skyldi. Maðurinn fylgdi henni eftir frá húsinu. Rakel hafði fylgst með þessari gestakomu úr herbergisglugganum sínum. Andlit ungu konunnar blasti við henni. Aldrei hafði hún séð fegurri eða göfugmannlegri konu. En um leið og ókunna konan heyrði svar Mattheusar, var eins og vonarneisti slokknaði í svip hennar. Rakel vissi ekki, hvernig stóð á því. Hana tók svo sárt, að pabbi hennar skyldi vísa þessari konu burt. Og leiftursnöggt kom henni ráð í hug. Hún hljóp til pabba síns og bað hann með miklum ákafa að bjóða hjónunum að vera í fjárhúsunum þeirra, sem stóðu þar skammt frá. Annar endi þeirra var auður. Mattheus kallaði á eftir hjónunum, og þau námu staðar. Hann gekk til þeirra og Rakel með honum. “En ykkur er velkomið að vera í nótt í fjárhúsunum mínum”, sagði hann. “Annar endi þeirra er auður, og það verður hlýrra fyrir ykkur að vera þar en úti.” Konan leit hlýlega til þeirra og sagði: “Við þökkum kærlega fyrir. Þetta skulum við þiggja, Jósef.” Svo sneri hún sér að Rakel og spurði: “Eru þetta þín ráð, blessað barn?” Rakel leit niður fyrir sig og sagði svo lágt, að varla heyrðist: “Já, mér þótti svo leitt að sjá ykkur fara.” “Við þökkum velvildina. Góða nótt”, sagði Jósef. Og svo héldu þau í áttina til fjárhúsanna, en Mattheus hélt aftur inn í húsið að sinna gestum sínum og Rakel með honum. Og nóttin kom og leið. Mikill mannfjöldi var í borginni og fullt í öllum gistihúsum. En það, sem gerðist þessa nótt, og vakti umtal daginn eftir , var þó ekki það sem gerðist í gistihúsunum, heldur hitt, sem gerðist í fjárhúsinu hans Mattheusar.

Þegar Rakel kom á fætur um morguninn, heyrði hún ákafar samræður milli gestanna í stofunni. Hún hlustaði á þær um stund. Svo fór hún inn í eldhús til mömmu sinnar. “Hvað hefur komið fyrir í nótt?” spurði hún. “Það er sagt, að einhverjir hjarðmenn hér úti á völlunum hafi fengið vitrun í nótt um að Messías sé fæddur”, svaraði móðir hennar. “Hvernig þá mamma?” “Þeir sáu skínandi birtu og heyrðu englaraddir, sem sögðu þeim þetta”, svaraði Sara. “Og hvar fæddist þetta barn?” “Það er sagt að hjarðmennirnir hafi fundið það eftir tilvísun englanna í fjárhúsunum okkar. Það gistu þar einhver húsnæðislaus hjón í nótt. En nú er pabbi þinn að líta eftir, hvort þetta sé ekki einhver vitleysa”, svaraði Sara.

Skömmu síðar kom Mattheus heim. Hann sagði þær fréttir að fætt væri lítið barn í fjárhúsunum þeirra. Um nóttina hefðu fáeinir hjarðmenn komið þangað, fagnað yfir fæðingu barnsins og veitt því lotningu. Sjálfur sagðist hann hvorki skilja upp né niður í þessu. “En heldur þú þá að þetta litla barn sé Messías, sem spámennirnir segja frá?” spurði Rakel. “Ég veit ekkert um það góða mín, En allt er þetta eitthvað dularfullt”, svaraði hann.

En nú varð þeim litið út um gluggann og sáu að þrír gráskeggjaðir öldunar komu ríðandi á úlföldum og stefndu að fjárhúsunum. Þeir horfðu við og við upp í himininn, eins og þeir væru að líta eftir einhverju leiðamerki. Þeir fóru af baki við fjárhúsið og gengu inn. Þegar Rakel sá þetta, héldu henni engin bönd. Hún hljóp út að fjárhúsunum. Hún staðnæmdist þar í dyrunum. Þar sá hún gráskeggjuðu öldungana falla á kné fyrir barninu og færa því gjafir. Hún horfði á þetta undrandi og hljóp svo heim aftur. Þar sagði hún frá því, sem hún hafði heyrt og séð. Hún heyrði öldungana tala um einhvern nýfæddan konung, og einhverja stjörnu sem þeir hafi séð. Nú var hún sannfærð um það að hjarðmennirnir hefðu rétt fyrir sér. Mattheus sagði að spámennirnir hefðu spáð því að Messías ætti að taka konungdóm með þjóð sinni. Rakel fór upp í herbergi sitt og hugsaði um alla þessa undarlegu atburði. Hún hafði ekki getað séð barnið úr dyrum hússins. En hún fékk mikla löngun til að sjá það. Hvernig skyldi það líta út? En þá yrði hún líka að gefa því eitthvað eins og öldungarnir. En hvað átti það að vera?

Nú heyrði Rakel, að nábúar þeirra komu til að spyrja eftir atburðum næturinnar. Foreldrar hennar leystu úr þessu eftir getu, en flestum þótti saga þeirra ótrúleg. Sara bjó sig til að færa hinum ungu hjónum einhverja næringu. Og þegar Rakel frétti það, bað hún um að fá að vera með. En meðan Sara bjó sig að heiman braut Rakel heilan um, hvað hún ætti að gefa barninu. Loks ákvað hún, hvað það skyldi vera. Hún ætlaði að gefa því perlufestina sína. Það var það fallegasta sem hún átti. Hún tók festina úr kassanum sínum, virti hana fyrir sér og fól hana svo í lófa sínum. Hún vildi ekki láta aðra vita að hún ætlaði að gefa litla barninu hana.

Þær Sara og Rakel fóru nú út í fjárhúsin. Þar voru ungu hjónin með litla barnið sitt. Þau ljómuðu af ánægju og barnið hvíldi við brjóst móður sinnar. Sara færði þeim mat og drykk, sem þau tóku við með þökkum. Rakel færði sig smátt og smátt nær. Hún starði á litla barnið. En hvað það var yndislegt. Hún tók festina og lét hana yfir höfuð barnsins. María horfði brosandi á litlu stúlkuna. “Ætlar þú að gefa honum þessa fallegu festi. En hvað þú ert góð.” “Hann má eiga hana. Hann er svo yndislegur”, svaraði Rakel. “Langar þig að taka hann?” “Já, má ég það?” “Það er ekki of mikið fyrir gjöfina og hvað þú lést þér annt um okkur í gær.” Svo tók Rakel litla barnið í fangið. En hvað augun hans voru fögur. Hún fann gleðistraum fara um sig alla. Eftir dálitla stund rétti hún móðurinni drenginn aftur. Svo kvöddu þær mæðgur ungu hjónin og héldu aftur heim að gistihúsinu. En þegar Rakel kom heim, tók hún eftir nokkru einkennilegu. “Sjáðu, mamma. Mér er batnað í höndunum.” Sara horfði undrandi á dóttur sína og sá að hrúðrin voru horfin af höndunum, en falleg, heilbrigð húð komin í staðinn. “Sannarlega er þetta barn Guðs sonur, fyrst að þessi snerting hefur læknað jafn illkynjaðan sjúkdóm. Farðu nú til föður þíns og sýndu honum þetta. En gleymdu ekki að þakka Guði þessa dásamlegu lækningu.”

 

Höf. ókunnur. (kirkjan.is)


Kertið hennar ömmu

Það dimmir snemma á Þorláksmessu þegar loftið er þungt af snjó svo að hvergi sér í bláa rönd af himni og svo var þennan dag.

Sveinn í Bjarnarey var léttur í spori þegar hann var að smala saman mönnum sínum en ekki eftir því léttur á brúnina. Það var ekki svo fljótlegt að finna þá í þorpinu en nú vildi hann fara að komast af stað og það undir eins. Það var byrjað að skyggja, útlitið ófagurt, sjórinn úfinn og löng leið fyrir höndum en heim vildi hann komast í kvöld. Konan sat ein heima með lasið barnið og lítið um glaðning til jólanna. Hann hafði lofað litlu stúlkunni að gefa henni kerti og það vildi hann efna en ekki var víst að eftir betri tíma væri að bíða. Nágrannarnir voru svo sem vísir til að hjálpa með ráðum og dáð, eftir því sem efnin leyfðu, en hann vissi að lítið var til jólanna, og svo vonaðist litla stúlkan hans eftir honum. Loks voru mennirnir fundnir, allt tilbúið, bátnum var ýtt frá landi, undið upp segl. Sveinn settist undir stýri og nú var lagt á flóann. Það var ágætt leiði og báturinn skreið drjúgum en eftir því sem utar kom í flóann þyngdi sjóinn og lá við ágjöfum, en bæði stjórnandi og bátur voru góðir. En nú komu nokkur snjókorn og svo fleiri, það hvessti líka í élið og bráðum sást ekkert nema hríðarmökkurinn og æðandi, snjóhvítar öldurnar sem steyptust yfir bátinn, reiðubúnar að keyra hann niður í djúpið dökka. Sveinn kreppti höndina fastar utan um stýrissveifina. Nú varð hann að duga, úr þessum bardaga varð ekki flúið og undir kröftum hans og ratvísi var líf þeirra allra komið. Hann treysti sér til að finna eyjuna og hann treysti Guði fyrir bátnum sínum. Það var aðeins að finna lendinguna og þar mátti svo litlu muna því skerin voru báðum megin við innsiglinguna og hún aðeins ein beint fram undan bænum hans. Og þegar inn í voginn var komið var hlé fyrir öllum vindum.

Heima í litla bænum beið konan með litlu stúlkunni sinni. Hún hafði nóg að gjöra; hún var að hreinsa til í bænum og svo þurfti hún að sinna kúnum en nú var komið langt fram á kvöld og hún settist inn á rúmið sitt með prjónana sína, litla stúlkan var sofnuð og hún kveikti ekki til þess að spara olíuna. Hún var nærri búin en Sveinn ætlaði að koma með olíu, en hún bjóst ekkert við honum fyrr en á morgun. Hún vissi að í mörgu var að snúast hjá sumum af þeim sem með honum höfðu farið og dagurinn var svo stuttur.

Allt í einu vaknaði litla stúlkan og reis upp í rúminu. “Mamma, mamma,” hrópaði hún, “kveiktu fljótt ljós, það er engill að koma til mín, kveiktu, kveiktu” og litla stúlkan fór að gráta af því að henni fannst mamma ekki vera nógu fljót að ná í týruna og kveikja og þegar mamma setti týruna á borðið þá sagði hún. “Nei, settu það út í glugga svo að engillinn sjái það og rati til mín, en mamma hefurðu ekki meira ljós? Kveiktu heldur á lampanum.” “Það get ég ekki, elskan mín, lampinn er þurr og ég á enga olíu nema þá sem er á týrunni,” sagði mamma. En litla stúlkan fór að gráta, “Mamma, hjálpaðu mér, kveiktu meira ljós. Engillinn sér ekki svona lítið ljós, mamma, góða mamma, áttu ekkert sem þú getur kveikt á?” Mamma var orðin hrædd við ákafann í litlu telpunni. Hún hélt að henni væri að versna. Hún stóð upp og fór ofan í kistuna sína og eftir dálitla leit tók hún upp stórt og fallegt kerti. “Sjáðu, elskan mín,” sagði hún, “ég ætla að kveikja á þessu kerti og setja það út í gluggann, þá hlýtur engillinn að sjá ljósið og þá kemur hann til þín, og svo skal ég líka segja þér sögu, einmitt um þetta kerti ef þú verður góð stúlka og leggst niður.”

Mamma leit út um gluggann um leið og hún setti kertið þar. Allt kvöldið hafði verið stormur og kafald og kominn nokkur snjór en nú var að stytta upp. Svo settist hún á rúmstokkinn og horfði á kertaljósið.

“Ætlarðu að segja mér söguna, mamma mín?” sagði litla stúlkan. Hún var nú orðin rólegri. “Sagan er ekki löng. Ég var lítið eldri en þú ert núna, aðeins níu ára og varð að fara að heiman frá henni mömmu minni. Við vorum mörg systkinin og pabbi og mamma fátæk. Ég var lánuð til snúninga hjónum sem bjuggu skammt frá. Þau voru ekki slæm við mig og enginn á bænum en eiginlega skipti sér enginn neitt af mér nema til þess að senda mig eitthvað eða segja mér eitthvert verk. Æ, hvað mér leiddist og hvað mig langaði heim til pabba, mömmu og systkina minna. Ég held að ég hafi aldrei farið að sofa ógrátandi. Svona leið nú samt sumarið og haustið og jólin voru að nálgast. Mig langaði svo til að fara heim um jólin en ég þorði ekki að biðja um það. Svo á Þorláksmessu kom maður af næsta bæ og var með böggul til mín. Ég vissi að hann var frá mömmu, enginn annar sendi mér böggul og ég ætlaði ekki að opna hann fyrr en á aðfangadagskvöld, en um kvöldið sofnaði ég ekki grátandi því að ég var með böggulinn í fanginu. Kvöldið eftir þegar ég opnaði hann voru í honum bryddaðir sauðskinnsskór, sokkar og svo þetta kerti, og svo bréf frá mömmu. Ég gat stafað mig fram úr því og ég man að hún sagði: “Þú mátt muna það elskan mín að pabbi og mamma elska þig en svo er líka einn enn sem elskar þig, og hann er alltaf vakandi og verndar þig, það er góður Guð.” Þetta jólakvöld vaknaði vonin og gleðin í hjarta mínu en ég tímdi ekki að kveikja á kertinu mínu. Mér fannst að á meðan ég ætti það gæti ég fundið kærleika móður minnar og kærleika Guðs en það var barnaskapur því að allt sem við sjáum minnir okkur á kærleika Guðs. En eftir það hætti mér að leiðast og ef mér var þungt í skapi fór ég og skoðaði kertið mitt og hugsaði um hana mömmu sem alltaf elskar mig. Síðan hefur kertið alltaf fylgt mér og það er einmitt á því sem ég kveiki núna til að hugga þig litla stúlkan mín.”

“Þakka þér fyrir söguna, mamma mín, og kertið líka. Nú veit ég að engillinn sér bæinn okkar.”

En hvaða skrölt heyrðist neðan úr vörinni? Gat það verið að þeir væru komnir? Allra snöggvast flaug henni í hug að ef til vill hefði ljósið lýst þeim. Skömmu seinna heyrðist gengið um bæjardyrnar. Það var Sveinn, hann var kaldur og votur af ágjöfum en það var gleðiglampi í augum hans og bros á vörum hans þegar hann heilsaði konu sinni og dóttur. “Þakka þér fyrir ljósið,” sagði hann. “Það bjargaði lífi okkar. Þegar hríðinni var að létta vorum við komnir að eyjunni. Ég heyrði það á brimhljóðinu en það var eftir að finna vörina í myrkrinu, en þá kom blessaða ljósið og þá var ég viss því þetta er eini glugginn sem snýr í þessa átt.” “Það er litlu stúlkunni þinni að þakka og svo kertinu hennar mömmu,” sagði kona hans.

Breiðfirsk sjóferðasaga eftir Láru Kolbeins. Úr kennsluleiðbeiningum við námsbókina Ljósið.
 

 

Músin sem breytti jólunum

FRANZ Xaver Grüber burstaði snjóinn úr dökku hári sínu þegar hann gekk inn í Sánkti Nikolai-kirkjuna í Oberndorf í Austurríki, norðan við Salzburg, 24. desember árið 1818. Hann var kominn til að æfa sig á orgel kirkjunnar fyrir miðnæturguðsþjónustuna. Franz settist við orgelið, opnaði það, steig á fótstigið og byrjaði að spila. En ekkert heyrðist.

Rétt í því kom aðstoðarpresturinn, Jósef Mohr, inn í kirkjuna. Organistinn leit á hann og sagði hálf undrandi:

„Jósef, hvað skyldi hafa komið fyrir orgelið?“

Mennirnir tveir lituðust nú um á bak við orgelpípurnar. Þar fundu þeir svarið. Hungruð mús í leit að einhverju ætilegu hafði þá um nóttina komist á bak við pípurnar og nagað gat á leðurbelgina, er sáu orgelpípunum fyrir lofti. Það nart hafði gjörsamlega þaggað niður í hljóðfærinu og það einmitt nú á jólunum! Þeir litu angistarfullir hvor á annan.

„Er einhver möguleiki á að fá gert við orgelið í dag?“ spurði Franz.

„Nei, það er ég hræddur um ekki,“ svaraði Jósef.

„En hvernig eigum við að fara að því að hafa miðnæturmessu án tónlistar?“ spurði þá organistinn.

Mennirnir tveir stóðu þögulir og veltu fyrir sér hvað til bragðs skyldi taka. Allt í einu rauf Jósef, ungi presturinn, þögnina og sagði feimnislega:

„Heyrðu, Franz ...; ég hef ort kvæði.“

„Og...“ sagði Franz.

Jósef varð ákafari, þegar hann svaraði: „Jú, þú ert svo mikill hæfileikamaður á sviði tónlistar. Þú gætir samið lag við kvæðið og spilað undir á gítar. Síðan getum við tveir sungið það með barnakórnum ...“

„Leyfðu mér að sjá kvæðið, Jósef, en ég veit ekki hvort ég get samið lag við það fyrir miðnæturmessuna,“ sagði Franz.

Jósef beið meðan Franz las kvæðið, en það var í sex erindum, og organistinn smitaðist nú af ákafa prestsins, greip hatt sinn og þaut mót kirkjudyrunum.

„Ég kem eins fljótt og ég get,“ kallaði hann. „En ég er nú ekki eins viss með gítarinn. Fólk verður ekki hrifið af gítartónlist í kirkjunni.“ Svo var hann rokinn á braut.

Franz gekk til næsta þorps, Arnsdorf, þar sem hann starfaði við kennslu. Enginn veit hvað nákvæmlega gerðist í herbergi organistans næstu stundirnar, en hann var mættur til kirkjunnar í Oberndorf á réttum tíma. Þar biðu nokkrir drengir og stúlkur eftir að læra nýja jólasönginn.

Guðsþjónustan nálgaðist. Kirkjan var prýdd kertaljósum og grenigreinum. Fljótlega tóku kirkjugestir að tínast inn. Aldrei þessu vant heyrðu þeir enga orgeltónlist og gengu í þögninni inn eftir kirkjugólfinu. Fólk leit spyrjandi hvert á annað.

Á ákveðnum tímapunkti gekk fram lítill hópur barna, ásamt prestinum og organistanum.

„Það kom smá óhapp fyrir orgelið í nótt...“ byrjaði Jósef. Svo beið hann þangað til kliðurinn hafði dáið út.

„En við erum samt með dálítið, sem okkur langar að syngja fyrir ykkur,“ bætti hann þá við.

Og við gítarundirleik hófu þeir og börnin nú að syngja „Hljóða nótt“, sem við á Íslandi þekkjum raunar betur undir nafninu „Heims um ból“.

Þannig er í fáum dráttum ein útgáfa sögunnar af tilurð þessa einfalda en jafnframt mikilfenglega jólasálms.

Jósef Mohr fæddist 11. desember árið 1792 í Salzburg og mun hafa ort kvæðið góða í bænum Mariapfarr árið 1816. Hann andaðist 4. desember árið 1848, í Wagrain, 56 ára gamall, í sárri fátækt. Jarðneskar eigur hans voru þá engar að sögn nema einn messuserkur, gítar, pípa og tóbaksskjóða. Hann var jarðsettur í grafreit snauðra manna þar í bæ.

Franz Xaver Grüber fæddist 25. nóvember árið 1787 í Hochburg, Innviertel. Hann andaðist 6. júlí árið 1863 í Hallein, 76 ára að aldri. Gröf hans er í kirkjugarðinum framan við húsið, þar sem hann bjó í 30 ár. Hin upprunalega gítarútsetning hans er ekki lengur til, en hins vegar nokkrar útsetningar fyrir hljómsveit. Handrit Jósefs Mohr að sálminum, frá því um 1820, inniheldur gítarútsetningu og er hún talin komast næst þeirri upprunalegu, sem flutt var í miðnæturguðsþjónustunni í kirkju heilags Nikolai í Oberndorf í Austurríki á jólum árið 1818. Í Oberndorf var byggð minningarkapella árið 1938, í stað áðurnefndrar kirkju, sem eyðilagðist í flóði árið 1899.

Hinn ódauðlegi sálmur þeirra félaga er löngu orðinn þekktur um allan heim og er haft fyrir satt, að til séu af honum þýðingar á meira en 300 tungumálum. Þar af hafa a.m.k. fimmtán ljóðskáld glímt við að koma honum í íslenskan búning í gegnum tíðina og er þar ýmist um að ræða þýðingar eða frumyrkingu.

En það vita fæstir að kveikjan að þessu öllu var lítil, hungruð mús fyrir næstum 200 árum síðan.

Ritað af Sigurði Ægissyni


 

Ég veit að mamma grætur á jólunum

Það er frostbitur desember dagur fyrir 24 árum. Norðanæsingur þeytir snjórenningi niður Strandgötuna á Akureyri. Þótt skammdegismyrkrið sé alrátt er mér nokkuð létt í sinni. Ég er að bíða eftir jólablaði þess vikublaðs er ég veiti forstöðu og því innan fárra daga verð ég komin heim í kyrrð dalsins míns ! Brátt rennur sendibíll prentsmiðjunnar að gangstéttinni – og í sömu mund kemur drengurinn hann Nonni, sem ber út blaðið í miðbæinn . Ég tek fljótt eftir því að Nonni er ekki eins og hann á að sér að vera, glaður og hressilegur. Nú minnir hann frekar á gamlan mann , álútan og svifaseinan, líkt og þung byrði sé á herðum hans sem hann er nær kominn að kikna undan. Óbeðinn hjálpar hann mér að bera blöðin upp í skrifstofuna og fer síðan þegjandi að telja þau blöð er komu í hans hlut að bera út. Ég fylgdist áhyggjufullur með þessum 10 ára vini mínum og fann til löngunar að nálgast hann, vita hvað þjáði hann ef ske kynni að ég gæti úr bætt. Mér fannst ég ekki geta séð á eftir honum út í myrkrið svona á sig kominn. Til að tefja tímann svolítið á meðan ég væri að átta mig á hvað gera skyldi, spurði ég hann hvort hann vildi hjálpa mér að telja blöðin til hinna krakkanna. Hann kinkaði kolli og án orða fór hann að telja er ég fékk honum lista yfir nöfn krakkanna og tölu þeirra fjölda blaða er hvert þeirra átti að fá. Til að reyna að rjúfa þagnarmúrinn milli okkar spurði ég í hálfgerðum vandræðum; "Hlakkar þig til jólanna ?" " Nei " var svar hans kalt og hranalegt. "Hvers vegna ekki ?" spurði ég og var kominn í hálfgerða varnarstöðu. "Ég veit að mamma fer að gráta eins og á jólunum í fyrra ". "Hvers vegna ?" hraut af vörum mér. Það kom andartaks hik á drenginn en svo kom svarið og tóntegundin var hin sama hörð og næstum hatursfull. " Þig varðar ekkert um það". Með þessu svari fannst mér Nonni hafa mátað mig gersamlega. Við erum búnir að telja blöðin. Snögglega stendur drengurinn á fætur og býst til ferðar, grípur sinn blaðabunka og snýr til dyra. Þegjandi legg ég peningana í lófa hans . Ég finn að hönd hans er ísköld og hann skelfur. Eitthvað innra með mér mótmælir því að ég láti drenginn svona á sig kominn fara frá mér út í nepjuna og myrkrið. Hugdettu skýtur upp í kollinum "Heyrðu Nonni minn. Viltu ekki hjálpa mér að keyra út blaðinu svo ég verði fljótari ?" Og útskýri hálf flaumósa hvernig hann geti flýtt fyrir, að ég beri blöðin úr bílnum til krakkanna en hann verði með peningaumslögin til þeirra. Hann hikar litla stund en kinkar síðan kolli, sem ég tók sem jáyrði við bæn minni. "En viltu ekki hringja heim fyrst og segja mömmu þinni að þér seinki vegna þess að þú sért að hjálpa mér ?" "Mamma er ekki heima hún er að skúra". "En pabbi þinn. Er hann ekki kominn heim úr ...." Ég sé strax að við þessa spurningu mína þyngist byrðin til muna á ungum herðum hans. Hann lútir höfði og drjúglöng þögn hefur völdin – en svo kemur svarið kreist út á milli samanbitinna tanna : "Pabbi er fullur einhverstaðar fyrir sunnan", síðan koma nokkur ekkasog og á eftir þrúgandi þögn. Ég spyr ekki meir en legg hönd yfir axlir hans og teygi mig í símann og hringi á leigubíl. Svo hjálpumst við án orða að bera blöðin niður stigann. Brátt flautar bíll fyrir utan innan stundar erum við lagðir af stað. Við þurfum að koma við á átta stöðum víðsvegar um bæinn. Ég afhendi krökkunum blöðin en Nonni bréfin eins og um var samið. Ég óska börnunum gleðilegra jóla og taka þau glaðlega undir, en litli ferðafélaginn minn var þögull sem gröfin. Eftir rúman hálftíma erum við aftur komnir niður í Strandgötu. Við göngum hlið við hlið upp stigann að skrifstofunni og nú var aðeins eftir að bera blöðin hans Nonna út í miðbæinn.. "Jæja Nonni. Nú hjálpa ég þér við við útburðinn" segi ég hressilega "En fyrst fáum við okkur eitthvað í svanginn ". Á leið okkar um bæinn hafði ég keypt nokkrar pylsur og kók í sjoppu er leið okkar lá framhjá. Yfir andlit hans færðist dauft bros. Keyptirðu þetta handa mér ? " og það var furða í rödd hans. "Handa okkur báðum. Þeir sem vinna þurfa að borða karl minn" er svar mitt. Ég fann gleðitilfinningu fara um mig. Skyldi mér auðnast að rjúfa þagnarmúrinn sem hann varði sig með ?

Að loknum snæðingi hófum við blaðburðinn og mér fannst hann ekki eins þungstígur og áður er hann gekk niður stigann. Líkt og byrðin á herðum hans hefði örlítið lést. Úti var enn napurt og renningskóf og án andmæla leyfði hann mér að draga loðfóðraða hanska á hendur hans. Við tókum á sprett undan kófinu og gekk blaðburðurinn hratt og vel fyrir sig og innan stundar vorum við aftur komnir heim á skrifstofukompuna. Ég sá að bragði að það þyrmdi aftur yfir félaga minn – og með óstyrkri hendi seildist hann eftir umslaginu sínu, ég vildi ekki sleppa honum strax. Þrá mín til að vinna traust hans varð æ heitari. "Hvíldu þig aðeins áður en þú ferð út í kuldann á ný". Hann settist þegjandi eins og hann væri bíða einhvers. Vænti hann kannski hjálpar frá mér ? Ég fann til vanmáttar. Var ég þess megnugur að lyfta okinu af herðum hins unga drengs og svartnættinu úr sál hans ?   Þögnin í litlu skrifstofunni var orðin löng og þrúgandi. En allt í einu fannst mér birta til – mér fannst ég finna til nálægðar móður minnar og sem í leiðslu hvíslaði ég til drengsins "Kanntu að biðja , Nonni ?" Hann hrökk við og við horfðumst í augu og svo kom svar hans. "Já mamma og pabbi kenndu mér það. " Hálf feiminn spyr ég aftur; "Viltu biðja með mér um að mamma þín þurfi ekki að gráta um jólin og að pabbi þinn komi heim og öðlist þrek til að hætta að drekka ?" Hann stóð hikandi upp og rétti mér höndina og hlið við hlið krupum við niður við borðið. Einhver ósegjanlegur friður gagntók mig og ég skynjaði einnig að hinn ungi vinur minn var einnig á valdi heitra tilfinninga. Hve lengi við krupum og báðum veit ég eigi en er við stóðum upp kom Nonni í fang mér og tár sem tærar perlur runnu niður vanga hans. Ég leyfði honum að gráta og strauk sem annars hugar ljósu lokkana á kolli hans.

Nokkru síðar vorum við aftur komnir út í hríðarkófið og leiddumst hönd í hönd uns við vorum komnir heim til hans. Við kvöddumst á tröppunum en um leið og hann opnaði hurðina hvíslaði hann í eyra mér í barnslegri einlægni: "Ég ætla að biðja mömmu líka að biðja með mér áður en við förum að hátta" að svo búnu lokaði hann hurðinni hljóðlega á eftir sér. Á leiðinni til baka fóru efasemdir að sækja að mér. Hafði ég raunverulega gert rétt með framkomu minni ? Hafði ég ekki vakið falsvonir í huga drengsins - og því yrði sársaukinn enn óvægnari er hann stæði frammi fyrir því að bænastund okkar saman var aðeins haldlaust hjóm og blekking - en samt þetta kvöld ríkti friður innra með mér og ég sofnaði óvenju fljótt er ég hallaði mér á koddann.

Daginn fyrir Þorláksmessu var för mín ákveðin heim í dalinn. Dálítið annars hugar var ég að taka nokkurt dót saman til fararinar . Dagana á undan hafði ég oft verið kominn að því að hringja heim til Nonna , en ávallt brostið kjarkur. Ég lít á úrið og sá að aðeins var klukkutími uns rútan leggði af stað til Dalvíkur. Ég geng um gólf til að drepa tímann. Ég hrekk við er bankað er að dyrum í flýti opna ég. Fyrir utan stendur Nonni og heldur í hönd manns sem er mér ókunnur. "Þetta er pabbi " hrópar drengurinn. " Hann er kominn heim " og augu vinar míns geisluðu af gleði - "og hann er hættur að drekka " bætir hann við og hleypur í fang mér ör og kátur. Faðir hans réttir fram höndina og handtak hans er fast og hlýtt . Ég horfi í augu hans. Þau eru að vísu döpur en samt finnst mér örlítil geislablik gefa þeim líf . Þeir feðgar hjálpa mér með dótið á brottfararstað rútunnar. Á þeirri göngu eru þeir hinir sterku að mé finnst, en ég hinn veikburða.

Oft varð mér hugsað til Nonna yfir jólin. Skyldi faðir hans standast ofurvald vínguðsins ? ótti og von toguðust á í huga mér.Á leiðinni til Akureyrar að jólaleyfi loknu ákvað ég að það skyldi verða mitt fyrsta verk er ég kæmi í bæinn að hringja í Nonna. Er ég dró upp lykillinn að skrifstofunni blasti við mér hvítt blað límt á hurðina og þar gaf að lesa Sigurjón komdu í kaffi strax og þú kemur í bæinn og undir orðsendingunni stóð með stórum stöfum NONNI. Ég mun aldrei gelyma því heimboði. Ást, friður og hamingja ríkti í litla húsinu. Faðir Nonna var kominn í fasta vinnu og stóð sem sigurvegari í glímunni við Bakkus konung.

Allan þennan vetur og næsta sumar var ég hálfgerður heimagangur hjá Nonna og foreldrum hans. Þau góðu kynni veittu mér oft frið og hvíld frá erli starfsins. En að haustdögum rofnuðu að mestu tengslin. Ég hætti blaðamennsku og nokkru síðar flutti fjölskyldan í annan landshluta. Nú eru báðir foreldrar Nonna dánir en hann virtur kennari á höfuðborgarsvæðinu.

Það var eitt sinn ætlun mín að skrifa ævisögu móður minnar og vorum við bæði búin að leggja nokkur drög að henni - og nafn bókarinnar var löngu ákveðið. Bænin var minn styrkur, það var nafnið. En snöggt og óvænt var mamma kölluð á braut og því bókin um hana óskráð. Þessi minningarbrot vil ég henni og lífssögu hennar, sem vörðuð var af kjarki, mildi og kærleika og síðast en ekki síst af æðri trú og handleiðslu.

Senn líður enn að jólum, fæðingarhátíðar mannvinarins mikla. Það er einlæg bæn mín og von að ekkert barn kvíði komu jólanna altekið ótta um að mamma þess gráti um jólin.

Ég bið þess að sjúkir, syrgjendur og þeir sem einmana reika öðlist styrk, frið og hvíld, frá þeim er fórnaði lífi sínu í baráttunni geng grimmd og hatri. Reynum að vera boðberar kærleikans. Minnist þess að jafnvel þétt handtak og hlýtt bros getur varpað ljósi inn í myrkvaða sál. Ég óska lesendum hvíldar og friðar um heilög jól.

S.J


 

©SigfúsSig. Iceland@Internet.is