Gæludýraeigendur:

Um áramótin og á þrettándanum

 verðum við að huga að dýrunum virkilega vel.

 

Dýrin þarfnast öryggis um áramót.


Á meðan flugeldar og tívolíbombur lýsa upp litríkt himinhvolfið og fólk fagnar nýju ári engjast mörg gæludýr sundur og saman af hræðslu enda eru dæmi um að dýr hafi tryllst og dáið úr hræðslu. Daglegt líf leitaði til Dýralæknastofu Dagfinns við Skólavörðustíg þar sem Anna Jóhannesdóttir dýralæknir varð fyrir svörum þegar spurt var hvernig best væri að vernda hunda, ketti og hesta gegn ljósagangi og sprengigný áramótanna.

Hundar leita í öryggið.
Á gamlársdag, gamlárskvöld, nýársdagskvöld og þrettándanum er æskilegt að halda hundum inni við. Gott er að útbúa fyrir þá aðstöðu eða skjól í einhverju rými sem þeir þekkja og finna til öryggistilfinningar. Hafið hjá þeim dót sem þeir þekkja. Gott er að útbúa fyrir þá skjól undir einhverju traustu, t.d. borði þar sem þeir geta haft dýnuna sína eða teppið sitt. Gætið þess að það sé ekkert í rýminu sem hundurinn getur slasað sig á og skemmt. Ef þú átt búr þar sem hundurinn er reglulega er gott að hafa hann í því. Gott er að draga fyrir glugga á gamlárskvöld og hafa opið fyrir útvarp þannig að hvellir og ljósagangur að utan hafi minni áhrif. Sumir hundar leita í fangið á eigendum sínum og þá er mikilvægt að ekki sé ýtt undir hræðsluna hjá hundinum með því að veita honum mikla athygli eða vorkenna honum. Það er allt í lagi að leyfa hundinum að vera hjá eigandanum en eigandinn þarf líka að passa að sýna með sínu látbragði að sprengingarnar séu eðlilegar og ekkert þurfi að óttast.

Einungis í mjög slæmum tilfellum er ástæða til að gefa hundinum róandi lyf. Ef eigandi telur að hundurinn þurfi róandi lyf þarf að leita tímanlega til dýralæknis og ráðfæra sig við hann.

Einnig er til á markaðinum svokölluð hunda-ferómón sem er lyktarefni unnið úr litlum kirtlum. Þau eru við spenana á tíkum og veita hvolpum öryggistilfinningu. Rannsóknir hafa sýnt að ferómón virkar á fullorðna hunda líka og hefur þar af leiðandi mjög róandi áhrif á flesta hunda.

Nú mæla mjög margir dýralæknar með því að þetta sé reynt áður en farið er að gefa róandi lyf því ferómónið er algjörlega hættulaust og án aukaverkana. Það fæst í úðakló og næst bestur árangur ef úðaklóin er sett upp um það bil tveimur vikum fyrir áramót.

Hræðsla við flugelda getur aukist með árunum, en það er vel hægt að venja hunda við hljóðið af flugeldum, til dæmis með því að spila hljóðupptöku af sprengingum og hækka styrkinn smám saman. Þetta verður þó að athuga tímanlega, ekki seinna en í október. Til eru á markaðinum góðir geisladiskar með leiðbeiningahandbókum fyrir þá sem hefðu áhuga á svona meðferð.

Sumir hundar leita í fang eigandans þegar þeir verða hræddir en aðrir vilja vera einir. Ef hundurinn leitar sjálfur skjóls er best að leyfa honum að vera í friði og ekki reyna að draga hann fram. Ef hundurinn virðist ekki mjög hræddur má fara með hann út fyrir, en bara í taumi, þar sem hann getur orðið hræddur og hlaupið frá eigandanum.

Útvarpstónlist fyrir kettina.
Á gamlársdag, gamlárskvöld, nýársdagskvöld og þrettándanum er æskilegt að halda köttum inni við. Gott er að útbúa fyrir þá aðstöðu, skjól í einhverju rými sem þeir þekkja og finna til öryggistilfinningar. Kettir sækja gjarnan í dimm skot, til dæmis undir rúm eða inn í skápa. Það er mikilvægt að passa að kötturinn sé inni allan daginn á gamlársdag þar sem margir virðast byrja að sprengja strax eftir morgunmatinn. Gott er að draga fyrir glugga í herberginu þar sem kötturinn er og hafa opið fyrir útvarp þannig að hvellir og ljósagangur að utan hafi minni áhrif. Ekki er ráðlegt að gefa köttum róandi lyf um áramót, nema í undantekningartilfellum. Til að fá róandi lyf fyrir köttinn þarf að leita tímanlega til dýralæknis.

Til er katta-ferómón sem unnið er úr lyktarkirtlum sem eru við veiðihárin á köttunum en þessi lyktarefni hafa róandi áhrif á köttinn og gefa til kynna vinsamlega stemningu. Ráðlegt er að setja upp katta-ferómón tveimur vikum fyrir áramótin sjálf.

Eftirlit þarf með hrossum.
Best er að hafa hestana sem mest inni í hesthúsum á gamlársdag og á þrettándanum, ekki lausa úti í gerðum og alls ekki eftirlitslausa. Gott er að líta eftir hrossunum eftir miðnætti þegar mesti atgangurinn er yfirstaðinn. Gott er að byrgja rúður í hesthúsum á gamlárskvöld og hafa opið fyrir útvarp þannig að hvellir og ljósagangur að utan hafi minni áhrif. Hestamenn eru hvattir til að hafa sérstakan vara á þegar farið er í útreiðatúra á þessum árstíma. Þeir, sem eiga ekki hesta eða gæludýr, átta sig margir ekki á því að hvellir og ljós geta fælt skepnur. Bændum og þeim, sem eiga hross eða stóð í nágrenni við þéttbýli eða sumarhús, er bent á að gera ráðstafanir og smala hrossum heim eða hafa eftirlit með þeim á meðan mestu lætin ganga yfir.

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

 

 Deila á Twitter