Gamlársdagur / Kvöld / Sigfús Sig. Gamanogalvara

Jólasíða

Gamlársdagur.

SigfúsSig. Iceland@Internet.is

Hér eru þónokkrar upplýsingar um Gamlársdag og áramótin, og þar að auki fleiri en ein útgáfa.

Í öðrum löndum hefur lengi tíðkast að kveikja í bálkesti við ýmis tækifæri, svo sem á hvítasunnu, kyndilmessu, Jónsmessu og allraheilagrasmessu. Hægt er að lesa meira um tvær síðastnefndu hátíðirnar í svörunum Hvers vegna á að velta sér upp úr dögginni á Jónsmessunótt? eftir Símon Jón Jóhannsson og Hverjar eru hefðir og saga hrekkjavöku? eftir Terry Gunnell. Áramótabrennur virðast samt vera séríslenskur siður.

Ekki er vitað til þess að áramótabrennur hafi verið haldnar hér á landi fyrr en á ofanverðri 18. öld. Fyrir þann tíma var timbur og annar eldiviður einfaldlega of dýrmætur til að honum mætti sóa í slíkt. Allra fyrsta dæmið er frá árinu 1791 þegar skólapiltar úr Hólavallaskóla í Reykjavík söfnuðu saman tunnum og öðru timburrusli og kveiktu í á hæð sem þeir kölluðu Vulcan (en vulcan er erlent heiti yfir eldfjall). Hæðin sem um ræðir er sennilega Landakotshæð.

Rúmum 50 árum síðar virðast áramótabrennur (og reyndar þrettándabrennur) vera orðnar nokkuð algengar. Ekki voru þær þó mjög hátíðlegar af lýsingu Klemenz Jónssonar (f. 1862) að dæma og segir hann þar hafa tíðkast mikið fyllerí og ólæti. Á þessum tíma var líka farið að dansa álfadans kringum brennurnar. Sá siður er ættaður frá piltum í Lærða skólanum sem frumsýndu árið 1871 leikritið Nýársnótt þar sem álfar komu við sögu. Þeir tóku sig svo til á gamlárskvöld, ásamt stúdentum þaðan og frá Kaupmannahöfn, og klæddu sig upp sem ljósálfa eða svartálfa, gengu niður að Tjörninni í Reykjavík með blys í hönd, dönsuðu og sungu álfasöngva.

Heimild og mynd

 

Gamlársdagur er svo síðasti dagur ársins 31. desember. Þó við höldum upp á áramót um mánaðarmótin desember janúar þá hafa þau verið breytileg í gegnum tíðina. Hér á Íslandi verður 1. janúar að nýársdegi á 16. öld. Áður fyrr höfðu áramót verið á jólum. Jólanótt var þá líka nýársnótt.

Í aldanna rás hafa áramót verið á mismunandi tímum. Hjá Rómverjum hófst árið til dæmis með marsmánuði. Þar er komin skýringin á því að síðustu fjórir mánuðirnir í okkar ári taka nöfn sín af latneskum töluorðum. September dregur nafn sitt af septem sem þýðir sjö þó september sé í raun níundi mánuður í okkar ári. Október dregur nafn sitt af octo sem þýðir átta, nóvember af latneska orðinu novem sem þýðir níu og desember dregur nafn sitt af decem sem þýðir tíu. Desember var því tíundi mánuðurinn hjá Rómverjum, janúar ellefti og febrúar sá tólfti.

Ýmsar aðrar dagsetningar hafa svo verið notaðar í gegnum tíðina en um það getið þið lesið í bókinni Saga daganna. Í dag eru áramót ekki alls staðar þau sömu.

Jarðarbúar nota heldur ekki allir sama tímatalið. Við miðum við fæðingu Krists og teljum að það séu 2006 ár síðan hann fæddist. Á þessu ári voru áramótin í Kína 29. janúar. Hófst þá Ár hundsins. Í íslam hófst árið 31. janúar með árinu 1427. Hjá gyðingum er nú árið 5767 en það ár hófst 22. september.

Allir krakkar hlakka til gamlársdags og þá sérstaklega gamlárskvölds. Við höldum upp á áramótin með flugeldum, brennum og veisluhöldum af ýmsu tagi.

Ýmis þjóðtrú tengist áramótunum, sérstaklega nýársnótt og þrettándanum. Talið er að kýr tali og álfar flytji til nýrra heimkynna. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er líka frásögn af ýmsum kreddum er tengjast áramótunum og veðurfari. En kredda þýðir eiginlega hjátrú. Menn héldu að ef fyrsti dagur í janúar félli á sunnudag, eins og nú, yrði veturinn spakur og staðvindasamur, sumarið yrði þurrt, heyskapur mikill, vöxtur góður í nautum, kerlingadauði, nægð og friður eins og segir í þjóðsögunum. Verra er ef fyrsti janúar fellur á laugardag, þá ferst sauðfé og þá deyja gamlir menn.

 

Önnur útgáfa

Rétt er í upphafi að gera nokkra grein fyrir því, hvenær árið er talið hefjast, en það var ærið breytilegt eftir tímabilum og löndum, og er ekki ástæða til að rekja hér alla þá flækju. Það sem máli skiptir hér, er að árið hófst 1. janúar í Róm frá því 153 f. Kr., þar til karl mikli færði nýársdaginn til 25. mars á 9. öld. Í byrjun 16. aldar var í ýmsum hlutum Þýskalands og á Niðurlöndum árið látið hefjast 1. janúar, öðrum á páskadag og enn öðrum á jóladag, sem kalla mátti rökrétt, þar eð tímabilið var miðað við fæðingu Krists. Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13., að árið skyldi hefjast 1. janúar, og var það boð ítrekað 1691, en því var ekki sinnt í löndum mótmælenda í Norður-Þýskalandi og Danmörku fyrr en árið 1700.

Í Englandi höfðu menn byrja árið á jóladag fram til 12. Aldar, en tóku þá upp 25. mars sem nýársdag og var svo, uns Georg 2. færði hann til 1. janúar árið 1752.
Eftir fornu íslensku tímatali hófst árið á jóladag, en strax á 16. öld virðist 1. janúar árið 1752.

Þangað til 1. janúar varð nýársdagur, hét hann einfaldlega áttundi dagur jóla og var sem slíkur helgari en aðrir ásamt hinum fyrst og hins síðasta. Hann var einnig talinn helgidagur í minningu umskurnar Krists.

Af þessum sökum er ekki að undra, þótt nokkur ruglingur sé á því, hvort tilteknir viðburðir í þjóðtrúnni eigi að gerast á jólanótt, nýársnótt eða jafnvel þrettándanótt, svo sem það, að kirkjugaður rísi, kýrnar tali eða vatn verði sem snöggvast að víni. Á síðari öldum a.m.k. er þetta þó almennast tengt nýársnótt.
 

Eitt þessara atriða var álfareiðin, sem stundum mátti sjá á nýársnótt, því þá var talinn fardagur álfa, ef þeir fluttu búferlum. Á hinn bóginn virðist oftar talið, að álfamessur fari fram á jólanott, þótt það geti einnig gerst á nýársnótt.

Útisetur á krossgötum þóttu og vænlegastar á nýársnótt. Þær töldust í fyrndinni til galdra og fordæðuskapar og lágu bönn við þeim í norskum lögum. En útiseturnar voru a.m.k. bönn við þeim í norskum lögum. En útiseturnar voru a.m.k. síðarmeir mjög tengdar drauga- og álfatrúnni og framdar á svofelldan hátt eftir því sem segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar:

„Sá sem ætlaði sér að sitja úti til frétta þurfti að búa sig út á gamlárskvöld og hafa með sér gráan kött, grátt gæruskinn, rostungshúð eða öldungshúð og öxi. Með þetta allt skyldi særingarmaður fara út á krossgötur sem lægju allar hver um sig beina leið og án þess að slitna til fjögurra kirkna.
Á gatnamótunum sjálfum skal særingarmaður liggja, breiða vel yfir sig húðina og bregða henni inn undir sig á allar hliðar svo ekkert standi út undan henni af líkamanum. Öxinni skal hann halda milli handa sér, einblína í eggina og líta hvorki til hægri né vinstri hvað sem fyrir hann ber né heldur ansa einu orði þó á hann sé yrt. Í þessum stellingum skal maður liggja grafkyrr til þess dagur ljómar morguninn eftir.
Þegar særingamaður var búinn a búa um sig á þenna hátt hóf hann upp særingaformála og fyrirmála, sem hlýddu til að særa dauða. Eftir það komu til hans ættingjar hans ef hann átti nokkra grafna við eina eða fleiri af hinum fjórum kirkjum sem krossgöturnar liggja að og sögðu honum allt sem hann fýsti að vita, orðna hluti og óorðna um margar aldir fram. Ef særingamaðurinn hafði staðestu til að horfa í axareggina og líta aldrei út af og tala ekki orð frá munni hvað sem á gekk mundi hann ekki einungis allt sem hinir framliðnu sögðu honum, ,heldur gat hann hvenær sem hann vildi eftir það leitað frétta af þeim að ósekju um alla hluti sem hann girnti að vita með því að sitja úti.
Af því það hefur veirð almenn trú hér á landi að huldufólk flytti búferlum á nýársnótt átti að velja þá nótt til að sitja á krossgötum einmitt til þess að verða á vegi fyrir því. Kemur það þá ekki ferð sinni fram fyrir þeim sem á götunum situr og býður honum mörg kostaboð, gull og gersemar, kjörgripi og kræsingar alls konar. Þegi maðurinn við öllu þessu, liggja gersemarnar og kræsingarnar eftir hjá honum og má hann eignast þær ef hann þolir við til dags. “

Fáir komust klakklaust frá því að liggja á krossgötum. Þekktust er sagan um manninn, sem hafði þraukað af nær alla nóttina þrátt fyrir boð um gull og silfur, góð klæði og dýrustu rétti. Þegar skammt var til dagrenningar, kom loks til hans huldukona með heitt flot í augu og bauð honum, en það þótti honum öllum mat betra. Varð honum það þá að gjóa augun á ausuna og mæla hin fleygu orð: “Sjaldan hef ég flotinu neitað”, og varð þar með af öllum gersemunum og ráðlaus og rænulítill í þokkabót alla ævi. Slíkar sögur myndast hjá soltinni þjóð, sem skortir feitmeti og hitaeiningar.

Þá var það lengi siður í alvöru eða gamni að bjóða álfum heima á gamlárskvöld eða aðfangadagskvöld, því þegar þeir flutti sig búferlum, gat verið að þeir litu inn á bæjunum. Sópaði þá húsmóðirin bæinn horna á milli og setti ljós í hvern krók og kima, svo að hvergi bæri skugga á. Gekk hún síðan út og í kringum bæinn þrem sinnum svo segjandi: “Komi þeir sem koma vilja, veri þeir sem vera vilja, fari þeir sem fara vilja mér og mínum að meinalausu.”

Ljós var oft látið loga í öllum hornum alla nóttina. Og mjög lengi þótti sjálfgert að láta a.m.k. eitt ljós lifa í húsi á jóla – og nýársnótt. Þá eru til sagnir um húsmæður, sem báru mat á borð handa álfum á afviknum stað á þessum nóttum. Átti það ævinlega að vera horfið að morgni, þótt ekki sé grunlaust um, að mennskir búálfar hafi þar tekið ómakið af hinum.

Siður þessi er líklega leifar af eldfornri fórnfæringu til hólbúa og annarra náttúruvætta.
Búrdrífan var merkilegt fyrirbæri, en hún átti að vera hrím það, sem féll á nýársnótt inn um búrgluggann, sem var látinn standa opinn. Það líktist lausamjöll, smáget og bragðsætt, en sást hvorki né náðist nema í myrkri, og var allt horfið á nýársmorgun, nema eitthvað væri við gert. Höfðu kænar húsfreyjur það ráð að sejta pott á búrgólfið og vera sjálfar í búrinu alla nýársnótt, meðan búrdrífan féll. Þegar potturinn var orðinn fullur, létu þær krosstré yfir hann, og þá komst drífan ekki upp úr honum. En búrdrífunni átti að fylgja einstök búsæla og búdrýgindi.

Það sem annars hefur sett einna mestan svip á áramótin eða gamlárskvöld um langa hríð eru áramótabrennur og álfadans. Því skal um leið skotið inn, að orðin gamlársdagur og gamlárskvöld sjást með einni undantekningu ekki á prentaðri bók fyrr en í Þjóðsögum Jóns Árnasonar 1862 og ekki í neinu almanaki fyrr en 1897. Áður var hann yfirleitt kenndur við Sylvester páfa eða nefndur síðasti dagur ársins, dagurinn fyrir nýársdag og þess háttar. Einhverntímann á öldum áður hefur hann þó myndast í munni fólks, líklega til samræmis við nýársdag, sem er bókfestur þegar árið 1540, en kemur þó ekki fyrir í almanaki fyrr en 1817 hjá Oddi Hjaltalín.

Elsta dæmi um áramótabrennu, sem fundist hefur, er frá árinu 1791, og eiga þá piltar í Hólavallaskóla í Reykjavík hlut að máli. Sveinn Pálsson segir svo frá:
„Á aðfangadagskvöld jóla skreyta skólapiltar skólann ljósum með ærnum kostnaði eftir efnahag þeira. Alls eru sett upp um 300 kerti í tvöfalda röð meðfram hluggum og í ljósahjálma í loftinu. Sérstaklega er kennarapúltið skreytt með ljósum, lagt silki og öðrum slíkum útbúnaði. Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum, sem þeir kalla Vulkan. Er brennan svo stór, að hún sést úr margra mílna fjarlægð.”

Hæðin Vulkan hefur að líkindum verið Landakotshæð. Úti í Evrópu hafa árlegar brennur verið alþekktar um aldaraðir. Þær eru bundnar við ýmsa daga eftir löndum og héruðum svosem kyndilmessu, páskadag, Valborgarnótt, hvítasunnu, Jónsmessu, Ólafsvöku allraheilagramessu, en mjög fátítt er, að þær séu haldnar um áramótin og síst í löndum nálægum Íslandi. Okkar dagsetning virðist því vera sjálfstæð uppfinning, enda á hún vel við.

Þótt ekki sé loku fyrir það skotið, að brennur hafi tíðkast fyrr en seint á 18. öld. Þá er hitt einkar sennilegt. Í eldiviðarleysinu og timburskortinum var hvert snifsi, sem brunnið gat, lengstum of dýrmætt til að eyða því í soddan leikaraskap. Auk þess var hvergi um margmenni að ræða, sem er eins og þurfi að fara saman við brennu.
Í Reykjavík hafði tvennt gerst undor lok 18. aldar: komið var dálítið þéttbýli með skólasveina sem unggæðislegan kjarna, og líklega hefur verið farið að falla til eitthvað rusl, t.d. frá innréttingunum, sem mátti brenna.

Enn í dag eru áramótabrennur okkar einskonar sorphreinsun. Frá miðri 19. öld er einnig vitað um blysfarir í Reykjavík með álfadansi og skrípabúningum á Tjörninni eða við Hólavelli. Og á síðari hluta 19. aldar fer siðurinn að breiðast út um allt land. Fyrst stingur hann sér niður í þorpum og bæjum, en þegar fyrir aldamót er vitað um áramótabrennur á einstökum sveitabæjum. Þá var því reyndar svo til hagað, að kveikt var í brennum á sama tíma á öllum bæjum í sama byggðarlagi, þar sem hver sá til annars. T.d. var þetta gert á eyjum í Breiðafirði, Barðaströnd og Skarðsströnd, og á Suðurlandsundirlendinu. Venjulega var kveikt í kl. 6.
Í þorpum og bæjum var yfirleitt ekki kveikt í fyrr en eftir kvöldmat, enda kom fólk þar saman og dansaði kringum bálið, sumt í gervi álfa, púka eða trölla, líkt og alsiða er enn í dag. En brennum á einstökum sveitabæjum mun mjög hafa fækkað, enda er nú auðvelt að aka til brennunnar í næsta kaupstað.

Úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.

 

 

Á vísindavefnum má finna eftirfarandi lýsingu á áramótunum.:

Mjög breytilegt er og hefur verið um heim allan hvenær haldið er upp á áramót. Sem dæmi má nefna að Kínverjar hafa eigin áramót sem lúta allt öðrum reglum en hér á Vesturlöndum.

Í Evrópu var byrjun ársins lengi vel einnig mjög á reiki. Rómverjar höfðu í öndverðu látið árið hefjast 1. mars og mánaðarheitin bera þess enn merki; október þýðir í raun 8. mánuður ársins, nóvember 9. og desember 10. mánuður ársins. Frá fyrstu öld fyrir upphaf tímatals okkar létu Rómverjar svo árið byrja 1. janúar. Fyrstu páfarnir héldu sér við þá dagsetningu enda var ekki enn búið að ákvarða hinn opinbera fæðingardag Jesú Krists (sjá Af hverju höldum við jólin í desember ef sagt er að Jesú hafi fæðst í júlí? eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson). Í Austrómverska ríkinu ákvað Konstantínus mikli hins vegar að árið skyldi hefjast 1. september, og sumir páfar fylgdu þeim sið.

Um 800 fyrirskipaði Karl mikli að í ríki sínu skyldi árið hefjast á boðunardegi Maríu meyjar 25. mars. Englendingar tóku snemma upp jóladag sem nýársdag og héldu sér við hann fram á 12. öld, en þá færðu þeir hann einnig yfir á 25. mars. Á næstu öldum gat opinber byrjun ársins verið ólík eftir ríkjum, héröðum og jafnvel hertogadæmum.

 

Alllengi hefur tíðkast hér á landi að halda upp á áramót. Til að mynda eru þekkt dæmi um áramótabrennur á Íslandi allt frá því á 18. öld.

Íslendingar tóku jóladag sem nýársdag eftir ensku kirkjunni eins og fleira, og héldu sér við hann fram til siðaskipta. Dæmi um þetta er í Réttarbót Hákonar konungs Magnússonar frá 1314:
 
Sá maður skal eigi mega játa arfi undan sér sem hann er yngri en tvítugur, en sá er tvítugur sem hefir tuttugu jólanætur.
Árið 1582 fyrirskipaði Gregoríus páfi 13. að upphaf ársins skyldi aftur fært á 1. janúar. Innocentius páfi 12. ítrekaði þetta boð rúmri öld seinna, árið 1691. Lengi vel sinntu mótmælendur að sjálfsögðu ekki boðum páfa. Þeim mun samt um síðir hafa þótt óhentugt að hafa ekki sömu tímaviðmiðun í suður- og norðurhluta álfunnar. Í norðurhluta Þýskalands, Danmörku og Noregi var því 1. janúar tekinn upp sem nýársdagur árið 1700. Englendingar fylgdu ekki í kjölfarið fyrr en árið 1752, en Svíar reyndust allra þjóða fastheldnastir og gerðu 1. janúar ekki að nýársdegi fyrr en árið 1783.

Íslendingar virðast í þessu efni hafa verið langt á undan öðrum þjóðum hins lúterska rétttrúnaðar og reyndar á undan sjálfum páfanum. Í Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar frá 1540 stendur nýársdagur við 1. janúar. Sama er að segja um þýðingu Gissurar Einarssonar Skálholtsbiskups á kirkjuskipan Kristjáns konungs 3. árið 1537. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup gerði slíkt hið sama í nokkrum bóka sinna kringum 1600.

Meðan Íslendingar héldu áramótin á sama tíma og jólin hét 1. janúar ekki annað en áttundi eða átti dagur jóla. Greinilegt er þó að hann hefur verið meiriháttar veisludagur. Um Gissur Þorvaldsson segir til dæmis árið 1241 að „hann hafði fjölmennt jólaboð og bauð vinum sínum að hinum átta degi. Þar var mjöður blandinn og mungát heitt.“

Um Guðbrand biskup Þorláksson á Hólum er sagt að hann hafi verið vanur að hafa mannfagnað á nýári og bjóða til helstu mönnum nærsveitis. Seinna á 17. öld er þess getið að síra Þórður Jónsson í Hítardal og Helga kona hans hafi jafnan haldið nýársveislu. Frá því um 1740 er til gamankvæði eftir síra Gunnar Pálsson um Jón Hjaltalín sýslumann í Reykjavík sem Gunnari þótti ærið veisluglaður. Eitt erindið er svona:
 
Nóttina fyrir nýársdaginn
nokkuð trúi ég haft sé við
fellur mönnum flest í haginn
fullum upp með gamanið.
Þá er á ferðum enginn aginn
allir ráða gjörðum sín
- hjá honum Jóni Hjaltalín -.
Fagur kyrtill, fullur maginn
fallega þeir sér ansa.
Allan veturinn eru þeir að dansa.
Árið 1791 segir Sveinn Pálsson læknir þannig frá skólapiltum í Hólavallaskóla í Reykjavík:
 
Á gamlárskvöld halda þeir brennu á hæð einni skammt frá skólanum sem þeir kalla Vulkan. Er brennan svo stór að hún sést úr margra mílna fjarlægð.
Þorvaldur Thoroddsen segir einnig frá því um 1870 að á gamlárskvöldi hafi skólapiltar blysfarir með álfadansi og skrípabúningum á Tjörninni eða Hólavelli.

Af öllu þessu má ráða að ærið lengi hafi verið haldið upp á áramótin á Íslandi.
 

Tilv. lokið.

 

 

Á vef námsgagnastofnunarinnar segir um Gamlárskvöld.:

Sumir segja að krossgötur séu þar, til dæmis á fjöllum eða hæðum, sem sér til fjögurra kirkna. Elsta trúin er sú að menn skyldu liggja úti á jólanótt, því þá væru áraskipti, og lengi töldu menn aldur sinn eftir jólanóttum. Sá var til dæmis kallaður fimmtán vetra sem hafði lifað fimmtán jólanætur. Síðar færðu menn ársbyrjunina á nýársnótt.

Þegar menn sitja á krossgötum þá koma álfar úr öllum áttum og þyrpast að manni og biðja hann að koma með sér, en engu má gegna. Þá bera þeir að manni alls konar gersemar, gull og silfur, klæði, mat og drykk, en ekkert má þiggja. Þar koma álfkonur í líki móður og systur manns og biðja mann að koma, og allra bragða er leitað. En þegar dagur rennur á maður að standa upp og segja: „Guði sé lof, nú er dagur um allt loft“. Þá hverfa allir álfar, en allur álfaauður verður eftir og hann á þá maðurinn. En svari maður eða þiggi boð álfa þá er maður heillaður og verður vitstola og aldrei síðan mönnum sinnandi.

Maður sem Fúsi hét sat úti á jólanótt og stóðst lengi þangað til ein álfkonan kom með stóra flotskildi og bauð honum að bíta í. Þá leit Fúsi við og sagði það sem síðar er að orðtæki haft: „Sjaldan hef ég flotinu neitað“. Beit hann þá bita úr flotskildinum og trylltist og varð vitlaus.

Þjóðtrú

Ýmis þjóðtrú tengist áramótunum, sérstaklega nýársnótt og þrettándanum. Talið er að kýr tali og álfar flytji til nýrra heimkynna. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er líka frásögn af ýmsum kreddum er tengjast áramótunum og veðurfari. En kredda þýðir eiginlega hjátrú. Menn héldu að ef fyrsti dagur í janúar félli á sunnudag, eins og nú, yrði veturinn spakur og staðvindasamur, sumarið yrði þurrt, heyskapur mikill, vöxtur góður í nautum, kerlingadauði, nægð og friður eins og segir í þjóðsögunum. Verra er ef fyrsti janúar fellur á laugardag, þá ferst sauðfé og þá deyja gamlir menn.

Skemmtileg áramótaljóð

Öll þekkjum við söngvana sem sungnir eru í tengslum við þessa daga eins og Stóð ég út í tunglsljósi sem heitir reyndar Álfareiðin, Nú er glatt í hverjum hól, kvæðið um Ólaf liljurós, Nú er glatt hjá álfum öllum og Máninn hátt á himni skín.

Tilv. lokið

Jólasíða

SigfúsSig. Iceland@Internet.is

© 2006 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is