Grýla og Leppalúði.

 

Gryla chasing children

Grýlu kvæði sungið

GRÝLA  OG  BÆNDUR  HENNAR

 

til eru margar útfærslur af grýlu og Leppalúða.

 

Af öðrum íslenskum jólavættum er Grýla frægasta flagðið en hún er nefnd í Snorra-Eddu og Sturlungu. Grýla hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki í barnauppeldi, þar sem eftirlætismatur hennar er kjöt af óþægum börnum. Í nútímaþjóðtrú er hún hins vegar fyrst og fremst móðir jólasveinanna sem þeir tala um af góðlátlegri virðingu.

 

 


GRÝLA er móðir jólasveinanna en hún er ekki góð. Hún er ljót tröllkerling sem borðar óþekk börn!
Grýla hefur í gömlum frásögnum ýmist þrjá hausa eða þrjúhundruð hausa og þrjú augu í hverjum haus. Einnig hefur verið sagt að hún sé með fimmtán hala og á hverjum hala hundrað belgi og í hverjum belg tuttugu óþekk börn. Hún er með ógeðslegar klær, horn eins og geit, hófa á fótunum, sex eyru og tennurnar eins og ofnbakað grjót!! Oj.. ekki hefur hún nú verið falleg greyið.
Grýla var þrígift, fyrsti eiginmaður hennar hét Boli, næsti hét Gusti en núna er hún gift LEPPALÚÐA sem er pabbi jólasveinanna. Sagt er að Grýla hafi étið fyrstu tvo eiginmenn sína.
Til eru um sjötíu til áttatíu nöfn á börnum Grýlu, einna frægust eru Leppur , Skreppur, Langleggur og Leiðindaskjóða og svo þeir jólasveinar sem við þekkjum í dag.


Grýla hét norn ein gömul; hún var tvígift. Fyrri maður hennar hét Boli. Þau buggu undir Arinhellu. Áttu þau mörg börn saman sem segir víða í Grýlukvæðum. Þau voru bæði mannætur hinar mestu, en þókti þó hnossgæti mest að borða allt ungviði sem skáldið kvað:

Grýla og Boli bæði hjón

börn er sagt þau finni

þau er hafa svæsinn són

til sorgar mömmu sinni.

Og:

Boli, boli bangar á dyr,

ber hann fram með stöngum;

bíta vill hann börnin þau

sem belja fram í göngum.

 

Ætíð þókti meira koma til Grýlu en Bola. Andaðist hann fjörgamall úr ellilasleika eftir það hann hafði lengi legið í kör.

Eftir dauða Bola giftist hún aftur og eignaðist gamlan mann er hét Leppalúði. Þau áttu saman tuttugu börn, en ekki fleiri, því hún stóð á fimmtugu þegar hún átti tvíburana Sighvat og Surtlu sem bæði dóu í vöggu.

Grýla lifði báða bændur sína og varð að amla fyrir þeim lengi karlægum, enda er sagt henni væri óleitt að betla.

(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

 

 

LEPPALÚÐI karlinn hennar Grýlu er fádæma mikill letingi hann gerir allt til þess að forðast húsverkin og annað

Grýlukvæði Stefáns í Vallanesi

Ekki fækka ferðir
í Fljótsdalinn enn,
:,:það sér á að þar búa
þrifnaðar:,:menn.

Það sér á að þeir ala
bæði gangandi og gest,
:,:förumanna flokkarnir
flykkjast þangað:,:mest.

Förumanna flokkarnir
og kerlinga krans,
:,:þó nú taki átján yfir
umferðin:,:hans.

Þó nú taki átján yfir,
ef það er satt,
:,:að þar sé komin Grýla,
sem geta öngvir:,:satt.

Að þar sé komin Grýla
gráðugri en örn,
:,:hún er sig svo vandfædd
hún vill ei nema:,:börn.

Hún er sig svo vandfædd,
hún vill ei börnin góð
:,:heldur þau, sem hafa miklar
hrinurnar og:,:hljóð.

Heldur þau, sem löt eru
á lestur og söng,
:,:þau eru henni þægilegust,
þegar hún er:,:svöng.

Þau eru henni þægilegust,
það veit eg víst,
:,:ef þau þekktu Grýlu
þau gerðu þetta:,:sízt.

Eg þekki Grýlu
og eg hef hana séð,
:,:hún er sig svo ófríð
og illileg:,:með.

Hún er sig svo ófríð
að höfuðin ber hún þrjú,
:,:þó er ekkert minna
en á miðaldra: kú.

Þó er ekkert minna,
og það segja menn,
:að hún hafi augnaráðin
í hverju:,:þrenn.

Að hún hafi augnaráðin
eldsglóðum lík,
:,:kinnabeinin kolgrá
og kjaptinn eins og:,:tík.

Kinnabeinin kolgrá
og hrútsnefið hátt,
:,:það er í átján hlykkjunum
þrútið og:,:blátt.

Það er í átján hlykkjunum,
og hárstrýið hart
:ofan fyrir kjaptinn tekur
kleprótt og : svart.

Ofan fyrir höku taka
tennurnar tvær,
:,:eyrun hanga sex saman
sitt ofan á:,:lær.

Eyrun hanga sex saman
sauðgrá á lit,
:,:hökuskeggið hæruskotið
heilfult:,:af nyt.

Hökuskeggið hæruskotið
og hendurnar þá
:,:stórar eins og kálfskrof
og kartnöglur:,: á.

Stórar eins og kálfskrof
og kolsvartar þó;
:,:nógu er hún lendabreið
og þrifleg um:,:þjó.

Nógu er hún lendabreið
og lærleggjahá,
:,:njórafætur undir
og naglkörtur:,:á.

Njórafætur undir
kolsvörtum kvið,
:,:þessir þykir grálunduð
grátbörnin:,:við.

Þessi þykir grálunduð,
gipt er hún þó,
:,:hennar bóndi Leppalúði
liggur út við:,:sjó.

Hennar bóndi Leppalúði
lúnóttur er,
:,:börnin eiga þau bæði saman,
brjósthörð og:,:þver.

Börnin eiga þau bæði saman
brjósthörð og þrá,
:,:af þeim eru Jólasveinar,
börnin þekkja:,:þá.

Af þeim eru Jólasveinar
jötnar á hæð,
:,:öll er þessi ilskuþjóðin
ungbörnum:,:skæð.

Sagt er þessi ilskuþjóðin
sé hér ekki fjær,
:,:uppi á Dal í Urðarhrauni
er þeirra:,:bær.

Uppi á dal í Urðarhrauni
fjölmenni frá,
:annað bú í Brandsöxl
bölhyskið : á.

Skortur er á börnunum
í Brandsöxlum nú,
:,:kreikar því á verganginn
kafloðin:,:frú.


Hendir úr á vergangi
höfuðbólin fyrst,
:,:henni var sagt að Víðivöllum
væri leiðin:,:styzt.

Úti stóð á Víðivöllum
yfirburðamann,
:,:glotta réð hún Grýla
og heilsaði upp á:,:hann.

Glotta réð hún Grýla
og gerði svo að tjá:
:,:Lánaðu mér barnkorn
mér liggur nú:,:á.

Lánaðu mér barnkorn,
sem leiðindin kann,
:,:mér er sagt hún Sigga litla
syngi tóninn:,:þann.

Mér er sagt hún Sigga litla
syngur og hrín;
:,:eg vil ekki plássbera
piltana:,:þín.

Jeg vil ekki plássbera
jafngóða menn,
:,:þó eg stundum heyra megi
hljóðfærin:,:tvenn.

Þó eg stundum heyra megi
hljóðfærin ný,
:,:þeir munu ei falir vera
það er nú verst í:,:því.

Þeir eru ekki þér falir,
það sagði hann,
:,:og engin heldur ungbörnin
í mínum:,:rann.

Engin þau ungbörnin,
er eg fæði hér,
:,:þú ert nokkuð drós mín
dentug:,:í þér.


Þú ert nokkuð drós mín
dentug og frökk,
:,:farðu burtu héðan
og hafðu minni:,:þökk.

Hvergi fer eg héðan
hún Grýla kvað;
:,:fleiri veit eg brekabörn
ef fara skal í:,:það.

Fleiri veit eg brekabörn,
ef við mig er átt;
:,:semdu við mig, sýslumaður,
svo eg tali:,:fátt.

Fáðu mér í samninginn
fjósamanninn þinn,
:,:hann er rétt mátulegur
munnbiti:,:minn.

Hann er svo sem mátulegur,
mér liggur á,
:,:heldur en eg opinberi
alt það eg:,:má.

Heldur en eg opinberi
alt það ég veit
:,:lofa þú mér eina ferð
um alla þessa:,:sveit.

Lofa þú mér eina ferð
í útvegur mín,
:,:þá máske eg þyrmi heldur
þeim smáu:,:þín.

Þá máske eg þyrmi heldur,
þó eg sjái tvo
:,:leika sér í leyni
og láta svo og:,:svo.

Leika þeir í leyni
svo liðlega nóg,
:,:ekki heldur kvíða þeir
þeim kerlingar:,:róg.


Ekki heldur akta þeir
þitt álygatal,
:,:fara mátt þú ferða þinna
Fljóts suður:,:dal.

Fara máttu ferða þinna
og fást ei við mig,
:,:ekki get eg séð af þeim
svona við:,:þig.

Heldur get eg séð af þeim
sauruga þjón,
:,:en að þú ólmist
sem óarga:,:ljón.

En að þú ólmist
við ungviðið mitt,
:,:fremdu nú svo friðsamlega
ferðalagið:,:þitt.

Farðu nú svo friðsamlega
ferðunum að.
:,:Sælir, sagði Grýla,
og gekk sig af:,:stað.

Sælir, sagði Grýla,
og gekk út í fjós,
:,:hvessa tók hann Bjarni
sitt hvarmanna:,:ljós.

Hvesti hann Bjarni augun
og hugsaði ei par,
:,:þar fóru ekki sögur af,
hún svelgdi hann:,:þar.

Þar fóru ekki sögur af
því flagðinu fyr
:en hún rak hausinn inn um
Hlíðarhúsa : dyr.

Inn rak hún haus einn
og inn rak hún tvo,
:,:þriðji stendur úti,
og þá mælti hún:,:svo.


Þriðji stendur úti,
þú, Gvendur minn,
:,:hér eru ei þeir hreystimenn
að þriðji þurfi:,:inn.


Hér eru ei þeir hreystimenn,
hindur né ljón,
:,:gefðu mér í bragði
hana Gunnu og hann:,:Jón.

Gefðu mér í bragði
grið, sagði hinn,
:,:læt ég koma í lausnina
lambhrútinn:,:minn.

Læturðu koma í lausnina
lambhrútinn? Hún kvað.
:,:Ekki var eg ofalin
á þessum:,:stað.

Ekki var eg ofalin
að næsta bæ.
:,:Hvað skal eg aðUrðarseli,
ekkert eg:,:fæ.

Ofan gekk hún að Urðarseli
á eyrina þá,
:,:þar sem hann Fúsi
var farinn:,:að slá.

Heill sértu Fúsi
minn fésterki vin,
:,:þú hefur nóga krakkana
að kasta mér í:,:gin.

Nóga hef eg krakkana,
komdu til mín,
:,:vittu hvort eg verð þá ekki
vobeygjan:,:þín.

Vittu hvort eg verð þá ekki
vættunum frá,
:,:sérðu ekki í orfi mínu
albeittan:,:ljá.

Eg sé í orfi þínu
afgamla spík.
:,:Hvort heldurðu, Fúsi,
eg sé fánunum:,:lík?

Hvort ætlarðu, Fúsi,
að fæla mig?
:,:Farðu að með góðu
og friðkeyptu:,:þig.

Farðu að með góðu
við ferðlúinn mann.
:,:Þarna er hann gamli Skjóni,
gefðu mér:,:hann.

Jettu hann gamla Skjóna,
gráðuga snót,
:,:viljirðu trúlofa mér
trygðum á:,:mót.

Lofa eg þér trygðum,
og lofa eg þér því,
:,:og þá var hann gamli Skjóni
gleyptur í:,:því.

 

 

Leppalúði

 

Eignmaður Grýlu er Leppalúði og eru synir þeirra jólasveinarnir, ásamt fleirum, í ljóðinu Grýla kallar á börnin sín eru börn hennar talin; Leppur, Skreppur, Lápur, Skrápur, Langleggur, Skjóða, Völustakkur og Bóla, í þeirri útgáfu af ljóðinu sem kunnari er. Skreppur,  Leppur, Þröstur, Þrándur, Böðvar, Brynki, Bolli, Hnúta, Koppur, Kyppa, Strokkur, Strympa, Dallur, Dáni, Sleggja, Sláni, Djangi, Skotta. Sighvatur og Syrpa, voru talin börn Grýlu í annari gamalli þulu um börn hennar.

Grýla hefur ekki verið vinsæll gestur meðal íslenskra barna eins og auðvelt er að skilja ef lesinn er texti ljóðsins "Grýlukvæði" eftir Jóhannes úr Kötlum.   

Grýla og Leppalúði eru gamlar þjóðsagnapersónur en mikil þjóðtrú tengist jólunum á Íslandi. Grýla kom fram á sjónarsviðið á 13.öld þó hún tæki ekki upp á því að éta börn fyrr en á 17-18 öld. Hún var hrikaleg í útliti af einhverskonar tröllakyni. Hún birtist í kringum jólin og át óþekk börn með bestu lyst, þó er ekki er vitað hvað hún hafði sér til lífsviðurværis á öðrum árstímum. Grýla gat hins vegar ekkert gert við börnin ef voru þau góð og þæg. Reyndar eru ekki til (svo ég viti) sögur þar sem Grýla raunverulega náði einhverjum börnum, heldur voru þau þæg og góð (enda var Grýla öldum saman góð aðferð til að fá börnin til að haga sér vel) eða þeim tókst einhvernvegin að sleppa frá Grýlu.  Jólasveinarnir synir hennar komu til skjalanna á 17 öld og voru þá mjög vondir, algengustu nöfn þeirra nú til dags eru: Askasleikir, Bjúgnakrækir, Gáttaþefur, Giljagaur, Gluggagægir, Hurðaskellir, Kertasníkir, Ketkrókur, Pottasleikir, Skyrgámur, Stekkjastaur, Stúfur, Þvörusleikir. 

Sumar sagnir telja að Grýla hafi átt annan eiginmann á undan Leppalúða og hét sá Boli.

 

 

Jólakötturinn bjó hjá Grýlu og Leppalúða og hafði þann leiða vana að éta þá sem ekki fengu ný föt fyrir jólin. Hann er hinnsvegar yngstur þessa hóps enda kom hann ekki til skjalana fyrr en á 19 öld.

Jólakötturinn er fyrirbæri sem lítið annað er vitað um. Hann er á kreiki í kringum jólin og tekur alla þá sem ekki eiga nýja flík að fara í á aðfangadagskvöld. Sumar sögur segja reyndar að hann taki matinn þeirra sem ekki eiga nýja flík.

Þessi siður er enn við lýði þó engin trúi lengur á jólaköttinn, er vani að allir fái einhverja nýja flík fyrir jólin, þó ekki sé annað en sokkar eða nærföt.

Jólakötturinn á sér ættingja í nautslíki við Eystrasalt og annan af geitarkyni í Noregi.“

 

 

 

 

Hver er Grýla?

Flest íslensk börn kannast við Grýlu og syni hennar jólasveinana. Þau hafa spurnir af illsku hennar og einkennilegri matvendni og vita af henni á sveimi er skyggja tekur þar sem hún skimar og hlustar eftir keipóttum krökkum. Það er ekki laust við að þau furði sig á að jólasveinarnir, þessir glaðhlakkalegu hrekkjalómar sem slá um sig með gjöfum ofan í skó og undir tré séu synir svona ókindar.

Eins og jólasveinarnir hefur Grýla í farteski sínu stóran poka en ólíkt hafast þau að mæðginin: þeir gefa, Grýla tekur, þeir verðlauna, Grýla refsar. Reyndar hafa börnin spurnir af því að nú sé Grýla loksins dauð, hafi gefist upp á rólunum. En hversu vel má svo sem treysta því, þau grunar að jafn máttugur óvættur og samansúrruð illska hvíli ekki í friði.

 

Og víst er grunur þeirra réttur. Jafnskjótt og ein Grýlan er kveðin niður er önnur vakin upp af ótal foreldrum, öld eftir öld, við barn eftir barn. En hvaðan kom hún, hví er hún svona vinsæl eða öllu heldur lífseig, hvernig er hún í útliti og háttum?
 

Aldur og útlit

Grýla er ævagömul. Hún er nefnd meðal tröllkvenna í þulum Snorra Eddu. Grýlukvæði og þulur hafa verið varðveitt í margar aldir en hún var ekki bendluð neitt sérstaklega við jólin fyrr en í kvæði frá 17. öld. Mörg skáld hafa spreytt sig á að kveða um Grýlu, lýst ófrýnileik hennar og voðaverkum, lýst basli hennar og óseðjandi hungri og spurt að leikslokum sem vanalega eru þau að Grýla hefur ekki erindi sem erfiði.

Grýla er alls ekki litfríð og ljóshærð og létt undir brún, nei, hún er andstæða við fegurð og eftirsótt útlit allra tíma. Hún er grá og guggin, með klær og hófa, hornótt, kjaftstór og vígtennt. Öll eru skilningarvit hennar ofvaxin, hún hefur augu í hnakka og eyru út á öxlum, nefið er hlykkjótt og langt. Augun loga sem eldur og úr vitum hennar stendur helblá gufa. Hún er gömul og gengur við staf.


Afkomendur

Mikil ættarkvörn er komin frá Grýlu. Þekktastir barna hennar eru jólasveinarnir þrettán, en auk þeirra átti hún nokkra tugi af öðrum börnum. Af jólasveinunum og Dúðadurti syni hennar eru til sérstakar sagnir en flest eru afkvæmin aukapersónur í kvæðum og sögum,eru talin upp þegar Grýla kallar á börnin er hún fer að sjóða. Bóndi hennar heitir Leppalúði en hún var í tygjum við tvo aðra á árum áður. Af Skröggi stjúpsyni Grýlu og Leppalúða föður hans eru til gömul kvæði.

Breytingar á iðju Grýlu gegnum aldirnar

Grýla S. EldjárnÍ elstu Grýlukvæðum er hún beiningakerling sem fer milli bæja og biður foreldrana um óþekku börnin en hörfar ef hún er leyst út með einhverju matarkyns eða rekin burt með látum. Á þeim tíma virðist hún búa í litlu koti eða vera á vergangi. Í nýrri kvæðum og sögum hefur hún hrakist úr byggð, býr nú gjarnan í helli fjarri alfaraleið og heldur mikið kyrru fyrir. Eldamennskan er líka fyrirferðarmeiri, Grýla er alltaf að sjóða og stússa kringum Lúða og krakkana. Börnin eru mörg hver vaxin úr grasi og jólasveinarnir hafa alveg tekið yfir kaupstaðarferðirnar.

 

 

Nú þegar Grýla fer aldrei af bæ og húkir í helli sínum, fylgist hún ekkert með tíðarandanum og yfir heimilið sveipast sífellt forneskjulegri blær. Grýla er enn ill en synir hennar jólasveinarnir hafa lent í nokkurri siðklemmu. Þeir hafa komist í tæri við nýjan sið gæsku og gjafmildi en hafa samt sem áður gaman af því að hrekkja og rupla.

 

 

 

 grylaNú er svo komið að það eru börnin sem leita Grýlu uppi, fara í ferðalög upp um fjöll og firnindi, reyndar oft til að bjarga einhverjum sem lent hefur í Grýluklóm en ekki síður í trúboðsleiðangur til að boða henni og hyski hennar nýjan fögnuð og snúa þeim til betri vegar.

Á allra síðustu árum hefur Grýla stundum birst sem fyrirmynd annarra kvenna, sterk kona og kvenskörungur sem hlynnir að smælingjum og rís gegn kúgurum. En Grýla hefur líka birst sem einmana öldruð kona, týnd í heimi sem ekki metur gömul gildi, heimi sem breytist svo hratt að þar er engin kjölfesta.

Hvað tákna Grýlusögur?

Í viðleitni okkar til að skilja og skilgreina heiminn leitum við skýringa á Grýlusögnum fyrri tíma. Við skulum skoða hvernig Grýla getur birst í ýmsum myndum og reyna að rýna í hvaða merkingu það getur haft.

Var Grýla tákn grimmra yfirvalda?

Endurspegla Grýla og hyski hennar grimm yfirvöld sem heimtuðu skatt af landslýð? Árni Björnsson getur þeirrar kenningar í bók sinni Saga daganna. Víst er að í sumum eldri Grýlukvæðum segir frá gráðugri afætu sem flakkar milli bæja og heimtar börn eða annað dýrmætt úr búunum. Ef til vill voru sum gömul Grýlukvæði beinlínis samin til að klæða í dulargervi, skopast að og kveða í kútinn veraldlega óvini. Grýlukvæði Eggerts Ólafssonar frá 18. öld er af þeim toga. Því skyldi ekki vera sams konar broddur og vísanir í öðrum gömlum kvæðum þó það fari fram hjá okkur núna?

Í því broti af Grýluþulu sem hér fer á eftir segir frá hvernig Grýla kerlingin lifði hátt á ölmusu um skeið en er nú orðin uppiskroppa og hyggur á nýja beiningaför. Bændur búast við illu einu frá afætunni í næstu aðför.

Brot úr Grýluþulu séra Brynjólfs Halldórssonar (d.1737) :

 

Síðan hefir hún
setið að nægtum
og búið við föng þau,
sem bændur tigluðu
nú er upp sóað
ölmusu þeirri,
lystir því kerling
að leita sér bjargar.
 


 

Það er almæli
eftir sem heyrist
að lítið um batni
lunderni hennar.
Því gjörst hefir hún
svo grimm við ellina
að hún þyrmir nú
engum vætta.
 

 

Er Grýla náttúra og landslag?

Eru Grýlusögur brim sálfræðilegrar undiröldu sem ber með sér ótta við náttúruöflin, skammdegismyrkrið og ókunnan flökkulýð? Ásýnd Grýlu eins og henni er lýst í eldri kvæðum er meira í ætt við hrikalegt landslag og náttúruhamfarir en mennska menn. Er ekki Grýla með úlfgrátt hár og svartar brýr, með tennur eins og ofnbrunnið grjót, augu sem loga eins eldur og granir þar sem úr stendur helblá gufa líkari virkri eldstöð en konu?

Í því broti af gömlu Grýlukvæði sem hér er á eftir þá sjáum við að Grýla var ekki talin mennsk, hún og hyski hennar rennur saman við kletta og landslag og sést ekki nema við sérstakar aðstæður. Kvæðabrotið segir líka frá ljúflingum sem eru frá Grýlu komnir.

Brot úr gömlu Grýlukvæði
 

Grýla kallar á börnin sín
Hlupu í jörð og var það vörnin
við aðgang mennskra þjóða
Skreppur, Leppur, Langleggur og Skjóða.

 

 

Út af liði Lúða og Grýlu
ljúflingsfólkið heita má;
yfir þá sveipar skuggaskýlu,
skyggnir menn það jafnan sjá,

Hljóp þá sumt í hóla og steina
hirti ei þar um mennska drótt
jarðarskrímsli og jólasveinar
jafnan sjást þá dimm er nótt.

 

 


 

 

 

 

Er Grýla er ranghverfan á móðurinni?

Er hrjúf og viðskotaill Grýla sem barnið hræðist tákn fyrir móðurina? Sér barnið móður sína í þessarri ófreskju? Í greininni Þjóðsagan og barnið eftir Ólínu Þorvarðardóttur skýrir hún hvernig nornir ævintýranna geta staðið fyrir verri hliðar móðurinnar, hliðar sem barnið skilur ekki og vill ekki tengja móður sinni svo sem þegar það þarf að taka út refsingu eða skammir. Það er ekki Grýla sem elur börnin upp, nei það gerir góða mamman og pabbinn, það hins vegar Grýla sem refsar fyrir óhljóð, óþekkt og vonda siði. Það er líka Grýla sem alltaf er sjóða og kalla á börnin sín og það er Grýla sem alltaf að skammast og getur aldrei leyft manni að leika sér í friði:

Gömul jólavísa

Jólasveinar ganga um gátt,
með gildan staf í hendi.
Móðir þeirra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi.

 

 


 

 

Grýla und Leppalúði; Rechte WDR (TV-Bild)

Er Grýla uppeldistæki?

Grýla og hyski hennar hafa alltaf verið handbendi uppalenda, einföld leið til að vara við hættum og hræða börn til réttrar breytni. Hræðsluáróður um Grýlu kom í staðinn fyrir fræðandi langlokur og rökleiðslur sem ekki var víst að barnið skildi nokkuð í hvort sem var. Í gömlu Grýlukvæði er sagt frá Klóalangi sem venur börn á siði og sóma. Þessi vættur með nafn sem minnir á klípitöng er sérstakt verkfæri, alltaf tiltækur þegar börnin hrína:

 

Góðar konur gjöra hann geyma,
geðstóran hjá rúmum sín,
á hverju býli á hann heima
og hlustar til þá barnið hrín
og með upsum sést hann sveima,
svipþungur að ætlan mín.
 

 

 

Grýla á 20. öld

Gamanmál og grá alvara

Svo virðist að Grýla hafi blíðgast og útlit hennar heflast á þeirri öld sem nú líður hjá. Synir hennar jólasveinarnir hafa næstum runnið saman við Santikláus, tekið upp háttu hans og eiga lítið eftir af upphaflegum einkennum nema nafn og hrekkvísi. En er allt sem sýnist?

 

Mynd eftir Selmu Jónsdóttur

Vissulega er útlit hennar ekki eins ferlegt og áður. Í máli og myndum hefur hún breyst úr óargadýri í gamla skorpna konu á fornum hversdagsbúningi. Á öldum áður flakkaði hún um sveitir og það voru poki og hungur sem sterkast lýstu verkum hennar og tilgangi. Nú birtist Grýla oftar í helli í óbyggðum og hrærir í potti. Grýlukvæði hafa alltaf verið gráglettin í huga þeirra fullorðnu sem ekki trúðu en börnin hafa líka sótt í hryllinginn ef marka má háttarlag nútímabarna. Grýlukvæði voru skemmtan og dægrastytting því oft fýsti eyrun illt að heyra eins og stendur í Grýluþulu séra Brynjólfs Halldórssonar frá 18. öld en hann skýrir svona tilurð þulunnar:

 

Langt er skammdegi
en skemmtan mjög lítil.
Það er nauðsynlegt
að nýta, hvað fást kann,
grunnsópað hef ég
gjörvallar hirslur
og fann þar síðast,
sem fylgir hér eftir.
 

Það er ekki nýtt að Grýlukvæði séu fyndin. Það hefur á öllum tímum verið herbragð að skopast að óvininum og gera lítið úr honum. Það er hins vegar nýtt að Grýluheimur hverfist í átakalaust jólasveinaland þar sem illskan á ekkert athvarf. Sú Grýla sem er óður til óttans er þar þögguð niður og heiminum lýst sem löndum eilífrar bernsku.

 

Grýla á 20. öld - Grýlukvæði

Grýla S. Eldjárn
Grýlumynd eftir Halldór Pétursson frá 1946 og eftir Sigrúnu Eldjárn frá 1992

 


Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum

 

Mynd eftir Tryggva Magnússon

Í elsta kvæðinu, Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum frá 1932 býr Grýla í hömrum og raular sultarsöng. Hún er handstór og hölt, eltir börn uppi og stingur í poka. Grýla er stundum mögur og stundum feit. Þegar börnin fengu buxur og kjóla og voru góð um tíma þá veslaðist hún upp og dó. Það er freistandi að sjá í kvæði Jóhannesar afkomuhræðslu fyrri tíma, sjá hlutskipti öreiga að nýlokinni heimskreppu, sjá hvernig hættunni er bægt frá ef ekki skortir fæði og klæði og allir breyta rétt.

Brot úr Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum:

 

Svo var það eitt sinn um einhver jól,
að börnin fengu buxur og kjól.

Og þau voru öll svo undurgóð,
að Grýla varð hrædd og hissa stóð.



 

Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar

Mynd eftir Halldór Pétursson

 

Í næstelsta kvæðinu, Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar býr Grýla stórbúskap í helli, hefur mikið umleikis og notar sleggju, járnkarl og steypuhrærivél við matargerð og étur með skóflu. Hár hennar er eins og ryðgað víradrasl. Þessi Grýla sveltur ekki, hún hefur tekið tæknina í sína þjónustu, hún eldar og umbreytir einu efni í annað og framleiðir vörur ofan í hyski sitt. Endurspeglar þessi Grýla óttablandna lotningu á framkvæmdum, stóriðju, virkjun fallvatna og beislun manna á náttúrunni? Má þekkja óvættinn á ryðguðu víradrasli?


Brot úr Grýlukvæði eftir Ómar Ragnarsson:

 

Já matseldin hjá Grýlu greyi
er geysimikið streð.
Hún hrærir deig, og stórri sleggju
slær hún buffið með.
Með járnkarli hún bryður bein
og brýtur þau í mél
og hrærir skyr í stórri og sterkri
steypuhrærivél.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.
 


Grýlukvæði Þórarins Eldjárns

 

Grýla Eldjárn

Mynd eftir Sigrúnu Eldjárn

Í yngsta kvæðinu, Grýlukvæði Þórarins Eldjárns frá 1992 fer Grýla aftur á stjá en núna ekki til að elta börn heldur í endurhæfingu og leit að lífsfyllingu og nýju hlutverki. Reyndar er hlutverk hennar að hluta til það sama, að aga börn og siða en nú þarf til þess prófgráðu. Þegar börnin eru farin að heiman fara Grýla og Leppalúði í nám, fyrst í öldungadeild og svo í háskólanám í uppeldis- og kennslufræði.

Endurspeglar þessi Grýla óttann við ellina, óttann við að lenda utangarðs í samfélagi sem hampar þeim sem taka þátt í atvinnulífinu, eru í suðunni í Grýlupotti? Skín í gegn hræðsla við nýja siði og nýja tækni, hræðsla um að fyrri reynsla verði úrelt og einskis metin?

Brot úr Grýlukvæði Þórarins Eldjárns:

 

Er börnin uxu upp og burt
ellimóð þá sátu um kjurt
veslings Grýla og Leppalúði.
Á lífið hvorugt þeirra trúði.
 

Ofanritaðir kaflar birtust inn á Ísmennt.is í desember 1996

 

Grýlukvæði 

(Jóhannes úr Kötlum / Ingibjörg Þorbergs

Grýla hét tröllkerling
leið og ljót
með ferlega hönd
og haltan fót.

Í hömrunum bjó hún
og horfði yfir sveit,
var stundum mögur
og stundum feit.

Á börnunum valt það,
hvað Grýla átti gott,
og hvort hún fékk mat
í sinn poka og sinn pott.

Ef góð voru börnin
var Grýla svöng,
og raulaði ófagran
sultarsöng.

Ef slæm voru börnin
varð Grýla glöð,
og fálmaði í pokann sinn
fingrahröð.

Og skálmaði úr hamrinum
heldur gleið,
og óð inn í bæina
- beina leið.

Þar tók hún hin óþekku
angaskinn,
og potaði þeim
nið'r í pokann sinn.

Og heim til sín aftur
svo hélt hún fljótt,
- undir pottinum fuðraði
fram á nótt.

Um annað, sem gerðist þar,
enginn veit,
- en Grýla varð samstundis
södd og feit.

Hún hló, svo að nötraði
hamarinn,
og kyssti hann
Leppalúða sinn.

Svo var það eitt sinn
um einhver jól,
að börnin fengu
buxur og kjól.

Og þau voru öll
svo undurgóð,
að Grýla varð hrædd
og hissa stóð.

En við þetta lengi
lengi sat.
Í fjórtán daga
hún fékk ei mat.

Þá varð hún svo mikið
veslings hró,
að loksins í bólið
hún lagðist - og dó.

En Leppalúði
við bólið beið,
- og síðan fór hann
þá sömu leið.

Nú íslensku börnin
þess eins ég bið,
að þau láti ekki hjúin
 


Ó Grýla

(Ómar Ragnarsson)

Grýla heitir grettin mær,
Í gömlum helli býr,
hún unir sér í sveitinni
við sínar ær og kýr.
Hún þekkir ekki glaum og glys
né götulífsins spé
og næstum eins og nunna er,
þótt níuhundruð ára sé.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Hún sinnir engu öðru
nema elda nótt og dag,
og hirðir þar um hyski sitt
með hreinum myndarbrag.
Af alls kyns mat og öðru slíku
eldar hún þar fjöll.
oní 13 jólasveina 
og 80 tröll.
Ó Grýla, ó Grýla, Ó Grýla
í gamla hellinum.

Já matseldin hjá Grýlu greyi
er geysimikið streð.
Hún hrærir deig, og stórri sleggju
slær hún buffið með.
Með járnkarli hún bryður bein
og brýtur þau í mél
og hrærir skyr í stórri og sterkri
steypuhrærivél.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Hún Grýla er mikill mathákur
og myndi undra þig.
Með malarskóflu mokar alltaf
matnum upp í sig.
Og ef hún greiðir á sér hárið,
er það mesta basl,
því það er reitt og rifið
eins og ryðgað víradrasl.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Og hjá þeim Grýlu og Leppalúða
ei linnir kífinu,
þótt hann Grýlu elski alveg
út úr lífinu.
Hann eltir hana eins og flón,
þótt ekki sé hún fríð.
Í sæluvímu sama lagið
syngur alla tíð:
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla,
ég elska bara þig.


Grýlukvæði

Lag og ljóð: Hrekkjusvín

Nú er hún Grýla dauð.
Hún gafst upp á að róla sér á róluvöllunum.
Það vildi enginn gefa henni brauð
og hún fékk engan frið fyrir öskuköllunum.

Sem tæma allar öskutunnur
svo tómur er Grýlumunnur
sem tæma allar öskutunnur
svo Grýla fær ekki neitt.

Á endanum hún tók til bragðs að róla endalaust
hærra og meira en nokkur annar má.
Og þegar hún var komin ofsa ofsa hraða á
þá sleppti hún taki og flaug um loftin blá.

Grýla hún lenti upp í Esju
og núna er hún bara til í barnabókunum.
Líka í leiðurum blaða
til að hræða fólk frá hærri og meiri kaupkröfum.

Grýla gamla er steindauð
og Leppalúði líka.
Krakkar og öskukallar
ráku þau á braut.

Á endanum hún tók til bragðs að róla endalaust
hærra og meira en nokkur annar má.
Og þegar hún var komin ofsa ofsa hraða á
þá sleppti hún taki og flaug um loftin blá.



Grýla kallar á börnin sín þegar hún fer að sjóða til jóla:

Grýla eftir Kristínu Karólínu"Komið hingað öll til mín,
ykkur vil ég bjóða
Leppur, Skreppur,
Lápur, Skrápur,
Langleggur og Skjóða,
Völustakkur og Bóla.
og Leiðindaskjóða."

En fleiri nöfn eru til á börnin hennar og hefur þjóðháttafræðingurinn Árni Björnsson tekið þau saman:
Askur, Ausa, Bikkja, Bokki, Bolli, Botni, Brynki, Bútur, Böðvar, Dallur, Dáni, Djangi, Dúðadurtur, Flaka, Gráni, Hnúta, Hnútur, Hnyðja, Hnýfill, Höttur, Jón, Kleppur, Knútur, Koppur, Kútur, Kyllir, Kyppa, Láni, Lápur, Leppatuska, Ljótur, Loðinn, Loki, Lúpa, Mukka, Mösull, Nafar, Nípa, Nútur, Næja, Poki, Pútur, Sighvatur, Sigurður, Skotta, Skráma, Skrápur, Sláni, Sleggja, Sóla, Stampur, Stefna, Stefnir, Sikill, Strokkur, Strítur, Strumpa, Stútur, Surtla, Syrpa, Tafar, Taska, Típa, Tæja, Völustallur, Þóra, Þrándur, Þröstur.

Leppalúði er þriðji eiginmaður Grýlu og saman eiga þau hina alræmdu jólasveina sem koma til byggða um jólin. Leppalúði er óskaplegt letiblóð og fara ekki sögur af honum öðruvísi en bíðandi eftir að Grýla færi honum mat í helli þeirra í fjöllunum.

Enginn veit hvaðan Grýla er upprunnin en hennar er fyrst getið í Snorra-Eddu á 13. öld sem leiðir líkum að því að hún hafi komið með landnámsmönnum frá Noregi til Íslands … en um það veit enginn fyrir víst.

 

 

 

 

  • Myndir á síðunni koma td. frá:

  • Grýlumynd úr jólablaði Æskunnar 1925

  • Grýlumynd Tryggva Magnússonar í Jólin koma

  • Grýlumynd Halldórs Péturssonar í Vísnabókinni

  • Grýlumynd Sigrúnar Eldjárn í Heimskringla

  • Grýlumynd Selmu Jónsdóttur á jólasveinakortum

  • Grýlumynd Hlínar Gunnarsdóttur í Barnanna hátíð blíð

 

SigfúsSig. Iceland@Internet.isJólasíða