Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 5 okt 1997

Jólasveinninn

­ hinn týndi

sonur Íslendinga

Þótt Bandaríkjamenn geri sér kannski ekki grein fyrir því sjálfir gætu þeir vel hugsað sér að gefa Íslendingum hundraða milljóna jólagjöf á hverju ári, skrifar Mike Handley og spyr hvað lesandanum finnist um þá hugmynd að jólasveinninn færi Íslendingum féð sjálfur? Hann er nú einu sinni íslenskur, eða hvað?

BANDARÍSK börn sem spurð eru hvar jólasveinninn eigi heima svara því nær undantekningalaust að hann búi á Norðurpólnum. Fái þau að velja hvar Norðurpóllinn er nákvæmlega, til dæmis milli Finnlands, Grænlands, Kanada, Danmerkur, Íslands, Noregs og Svíþjóðar er svarið í yfirgnæfandi fjölda tilfella Ísland!

Eins og allir vita, það er bandarísk æska og ég og þú, er jólasveinninn íslenskur. Á því leikur enginn vafi.

Finnar eru hins vegar ötulir við að kynna heimsbyggðinni þá staðreynd að jólasveinninn sé finnskur og eigi heima í Finnlandi. Hugmyndin lætur auðvitað undarlega í eyrum Bandaríkjamanna og Íslendingum finnst hún vafalaust bráðfyndin.

Þeir einu sem ekki er hlátur í hug, eru Finnarnir. Þeim er full alvara með auglýsingaherferðinni: Finnland ­ heimkynni jólasveinsins, og taka auk þess mjög alvarlega fúlgurnar sem jólasveinninn þeirra skilar í ríkiskassann á hverju ári.

Þeir vita líka sínu viti.

Hver er svo tilgangurinn með þessum skrifum? Sem Bandaríkjamaður get ég ekki skilið hvers vegna Íslendingar berjast með kjafti og klóm við Norðmenn fyrir forræði yfir Leifi Eiríkssyni en láta Finna svo stela af sér jólasveininum eins og ekkert sé. Það er álíka mikið í húfi, fjárhagslega.

Hreindýr, heimskautsbaugur og snjór

Eiga Finnar annars eitthvað með að vera að eigna sér Sveinka? Þeir eru að vísu með hreindýr, dálítið af snjó, heimskautsbaug og fullt af hríslum sem líkjast jólatrjám. En sömu sögu er að segja um Noreg og Svíþjóð, og gott ef ekki Rússland líka. Finnar eru hins vegar þeir einu sem taka jólasveininn grafalvarlega.

Fyrir nokkru síðan sóttu 100 jólasveinar frá 10 löndum árlega Sveinka- ráðstefnu í Kaupmannahöfn. Veltu þátttakendur til dæmis fyrir sér spurningunni hver sé hæfur til þess að vera jólasveinn og hvort halda eigi jólin á sumrin. Í alvöru talað, á þing Elvis-eftirherma sem hittast og velta fyrir sér hvar konungurinn sé raunverulega í felum, betur skilið að vera tekið alvarlega.

Getur Íslendingum verið alvara? Vinkona mín hringdi á Skrifstofu Ferðamálaráðs í New York og fékk samband við sam-skandinavískan starfsmann sem sagði honum að engar upplýsingar fengjust um jólasveininn á íslensku. Hann bætti síðan við að upplýsingarnar væru til á finnsku og spurði hvort hún vildi tala við fulltrúa frá Finnlandi.

Finnar hafa lagt mikla vinnu í þykka og glæsilega auglýsingabæklinga um Sveinkapakkaferðir, bæði með litlum ferðaskrifstofum og "Finnair ­ embættisfarkosti jólasveinsins". Póstyfirvöld starfrækja líka útibú við heimskautsbaug, sem nefnt er Aðalpósthús jólasveinsins, til þess að ýta undir bréfaskriftir, og Ferðamálaráðið finnska keppist við að auglýsa Finnland sem land jólasveinsins, allan ársins hring.

Aðalpósthús jólasveinsins er staðsett í grennd við smíðaþorp hans nálægt Rovaniemi og þangað koma hundruð þúsund ferðalanga og ógrynni sjónvarpsfólks á hverju ári. Á síðasta ári sendu börn frá 150 löndum jólasveininum 700.000 bréf, 200.000 bréfum fleira en fyrri ár, þar af voru 80.000 send frá Japan. Þá kom fram í morgunþættinum Góðan dag, Ameríka að bandarískir ferðamenn hefðu eytt um 640 milljónum króna í þorpinu finnska á síðasta ári.

Hvers á aumingja Hveragerði að gjalda?

Ísland er nátengt Norðurpólnum

Íslendingar gætu auðvitað kært Finna til Interpol fyrir pretti, eða tæmt sjóði ríkisins til þess að standa straum af auglýsingaherferð, en þeim eru að mínu mati nokkrar auðveldari leiðir færar til þess að gera Ísland að hinum sönnu heimkynnum jólasveinsins, eins og vera ber.

Af hverju ekki að nota tækifærið og nýta sér nafngift landsins einu sinni? Ólafur Ragnar Grímsson forseti skaut því að fréttamönnum við Hvíta húsið í sumar að heiti Íslands gerði það að verkum að þangað færu aðeins þeir sem væru staðráðnir í því að koma í heimsókn.

Bandarísk börn tengja Ís-land beint við Norðurpól jólasveinsins og hið sama munu fjölmiðlar gera. Ef Finnar breyta ekki nafni lands síns í eitthvað þeim mun jólalegra geta Íslendingar hæglega skotið þeim ref fyrir rass og kynnt jólasveinalandið sem sitt, með mun minni tilkostnaði.

Umfjöllun fjölmiðla um íslenskan jólasvein er líka kærkomið tækifæri til þess að koma því á framfæri að Ísland sé ekki bara á kafi í snjó og gott heim að sækja allan ársins hring.

Umfjöllun um Ísland nær hámarki öðru hverju í Bandarískum fjölmiðlum og þótt vel gangi sem stendur er langt í land með að Íslendingar hafi nýtt sér fjölmargar, sniðugar og hræódýrar leiðir til þess að næla sér í kynningu. Bandarískir fréttastjórar leita til dæmis dyrum og dyngjum að góðum jólasveinafréttum þegar nóvember og desember ganga í garð og gleypa við hverju sem er ef umbúðirnar eru réttar. Saga um íslenskan jólasvein slær flestu við.

Ekki þar með sagt að Bandaríkjamenn muni flykkjast til Íslands um þessi jól í kjölfarið en börnin munu ábyggilega senda fjölda bréfa merkt Jólasveininum, Norðurpólnum, Íslandi og þar með væri teningunum kastað. Á næsta ári mætti síðan halda uppteknum hætti. Slík auglýsing slær öllu við enda er fátt uppbyggilegra í augum Bandaríkjamanna en sjálfur jólasveinninn.

Það er opinbert leyndarmál að Íslendingar vilja fleiri gesti utan hefðbundins ferðamannatíma og að mínu mati er glaðlyndur karlangi í rauðum fötum með hvítt skegg ákjósanlegur til þess að draga frekari björg í bú. Til allrar hamingju er hann íslenskur líka.

Íslendingar þurfa ekki á fleiri ferðamönnum að halda milli jóla og nýárs og því sting ég upp á því að Hvergerðingar reyni að laða til sín gesti í nóvemberlok. Þá eru flestir Bandaríkjamenn komnir í jólaskap og auðveldara að fá fólk til þess að leggja land undir fót þá en yfir sjálfa jólahátíðina. Mánuðinn fyrir jól gæti Ísland líka orðið nokkurs konar paradís ergilegra gjafakaupenda sem bráðvantar eitthvað frumlegt, og vonandi íslenskt, til þess að pakka inn og gefa þegar heim er komið.

Flugleiðavél í stað hreindýrasleða

Íslendingar þurfa að tala á annarri tungu þegar þeir eiga samskipti við bandaríska ferðalanga og að sama skapi er ekki vitlaust að breyta íslenska jólasveininum örlítið svo hann falli betur í geð. Bandaríkjamenn vilja hefðbundinn jólasvein og sannast sagna minna jólasveinarnir ykkar óþarflega mikið á druslulega New York-róna. Ef myndir af þeim birtust í ferðabæklingum um jólaheimsóknir myndi ekkert sómakært foreldri hleypa barninu sínu til Íslands. Þegar hingað er komið gefast svo næg tækifæri til þess að kynna gestunum klófestu raunverulega, íslenska jólasveinamenningu.

Einhverjir kynnu að spyrja hvort Bandaríkjamenn ætlist ekki til þess að jólasveinninn á Íslandi ferðist milli staða á hreindýrasleðanum sínum. Sveinka-ráðstefnan í Kaupmannahöfn var kannski ekki algalin því þar kom fram að ekki væri hægt að ætlast til þess að hann gæti lagt sleða með sex hreindýrum á húsþök á aðfangadagskvöld þar sem ekki yrði þverfótað fyrir gervihnattadiskum.

Nú er því lag fyrir Flugleiðir að gera vélar sínar að embættissleða jólasveinsins!

Mike Handley er sérfræðingur í málvísindum, fjölmiðlasamskiptum, þulur, Íslandsvinur og stjórnarmaður í Íslensk-Ameríska félaginu í Washington.

MIKE Handley

BÖRN um allan heim myndu skrifa jólasveininum til Íslands.


 

©SigfúsSig. Iceland@Internet.is