Jólasíða

Grýlu þulur og kvæði á Gamanogalvara

SigfúsSig. Iceland@Internet.is

Hvernig á að umgangast rafmagn yfir hátíðarnar?

Jólin eru hátíð ljóssins og þá er kveikt á fleiri ljósum og þau látin loga lengur en aðra daga ársins. Hluti af undirbúningi jólanna á að vera að tryggja að þau ljós og tæki sem á að nota séu í góðu lagi. Óvandaður, skemmdur og rangt notaður ljósa- og rafbúnaður getur valdið bruna og slysum. Stundum kviknar í vegna bilunar en algengara er að gáleysi okkar sjálfra í umgengni við rafmagnið sé orsökin.

Endurnýjum jólaljósin og vöndum valið

Algengt er að fólk haldi upp á gömul og úr sér gengin jólaljós. Sú hirðusemi getur valdið íkveikju eða slysi. Hendum því gömlu ljósunum eða látum fagmann yfirfara þau ef minnsti grunur leikur á að þau séu ekki í lagi. Þegar kaupa á nýtt er ekki til neitt eitt ráð til að ganga úr skugga um hvort jólaljós séu af vandaðri gerð. Vert er þó að hafa í huga að sérlega ódýr jólaljós eru yfirleitt ekki eins vönduð og dýrari ljós af sömu gerð. Gæði og öryggi fara saman í þessu sem öðru.

Notum ljósaperur af réttri stærð og gerð

Aldrei má nota sterkari perur en viðkomandi ljós er gert fyrir. Röng gerð, stærð eða styrkur getur valdið ofhitnun sem getur leitt til íkveikju. Til þess að fá örugglega rétta ljósaperu í jólaljósið er best að taka ljósabúnaðinn með sér í fagverslun þar sem sölumenn eiga að vita hvaða perur henta best. Mikilvægt er að hafa brennanleg efni í nægilegri fjarlægð frá öllum ljósabúnaði. Rafljós geta t.a.m. kveikt í gluggatjöldum engu síður en kertaljós. Sýnum sérstaka varúð gagnvart jólastjörnum og öðru skrauti sem sett er utan um ljósaperur.

Inniljós má ekki nota úti

Jólaljós sem seld eru hér á landi sem inniljós, skulu merkt þannig á íslensku að ekki leiki vafi á að þau séu eingöngu til notkunar innanhúss. Að nota inniljós utandyra getur verið lífshættulegt. Jólaljós utandyra eiga að vera sérstaklega gerð til slíkrar notkunar. Útiljósakeðjur sem ekki eru tengdar við spennubreyti (12V-24V) eiga að vera sérstaklega vatnsvarðar.

Fær unglingurinn raftæki í jólagjöf ?

Vert er að minna á að í unglingaherbergjum nútímans eru oft miklu fleiri raftæki en innstungur í veggjum geta annað. Málinu er bjargað með lausataugum og millistykkjum sem oft getur skapað hættu. Við þessar aðstæður er mjög mikilvægt að skipta um brotnar klær, ganga úr skugga um að allar rafmagnssnúrur séu heilar og að hvergi sjáist í bera víra. Þá er vert að minna á að raftæki geta ofhitnað ef þeim er staflað þétt ofan á hvert annað í lokuðu rými.

Er reykskynjarinn í lagi ?

Að lokum viljum við minna alla húsráðendur á að skipta um rafhlöðu í reykskynjaranum. Það er ódýrasta líftrygging sem hægt er fá.

Gleðileg jól

Þessi ráðgjafi er í boði SART.

 

          

©Sigfús Sig Iceland@Internet.is