Í vinnslu. 
Niðjatal úr Eyjafírði BÆKUR Ættfræði KROSSAÆTT

Eftir Björn Pétursson.

 

Niðjar Gunnlaugs Þorvaldssonar og Þóru Jónsdóttur á Hellu á Árskógsströnd. Mál og mynd, 1998, 2 bindi, 1.114 bls. KROSSAÆTT, kennd við bæinn Krossa á Árskógsströnd í Eyjafirði, en þaðan var ættmóðirin, tekur til niðja þeirra Gunnlaugs Þorvaldssonar frá Ingvörum í Svarfaðardal og Þóru Jónsdóttur konu hans.

Gunnlaugur var fæddur 1772 og lést 1831.

Þóra fæddist 1780 og andaðist 1862. Átta voru börn þeirra og eignuðust sjö þeirra afkomendur. í efnisyfirliti í upphafi fyrra bindis er listi yfir þrjá fyrstu ættliðina og gefur það góða yfirsýn. Þá eru niðjar barnanna sjö afmarkaðir hver frá öðrum með sérstöku titilblaði.

 

Höfundur þessa mikla rits, Björn Pétursson kennari, er fimmti maður frá ættforeldrum. Hann ritar að sjálfsögðu formála að verkinu og gerir þar skilmerkilega grein fyrir tildrögum þess og ýmsu öðru er það varðar. Að ósekju hefði kannski formálinn mátt vera svolitlu lengri. Sjálft er niðjatalið með hefðbundnu sniði og vandlega staðlað og skortir hvergi á dagsetningar, ártöl, fæðingarstað og búsetu.

Ánægjulegt er að sjá, að börn eru hér ávallt talin í réttri aldursröð hvort sem þau eru fædd í hjónabandi eða utan þess. Er sú leiða venja að telja hjónabandsbörn á undan vonandi niður kveðin. Geysimikill fjöldi mynda er í ritinu, bæði af niðjum og mökum þeirra, svo og af gömlum bæjum og stöðum. Segir mér svo hugur, að sumar þeirra séu fáséðar. Enda þótt niðjatalið sjálft sé mjög staðlað og því þurrt aflestrar mörgum vegur vel á móti mikill fjöldi innfelldra greina og smákafla úr prentuðum bókum. Er það fróðlegur og gagnlegur lestur.

Fyrir þá sem ættfræðisýsl er hugleikið er þetta niðjatal góður fengur.

Niðjatöl úr Eyjafirði eru sárafá og fyllir þetta því í skarðið. Elstu ættliðirnir hafa mikið haldið sig út með firði að vestan, í Svarfaðardal, Dalvík, Björn Pétursson Ólafsfirði, Árskógsströnd og þar í grennd. Drjúgur hluti ættarinnar heldur sig enn þar nyrðra, þó að auðvitað hafi yngri kynslóðir dreifst vítt og breitt um landið, og raunar lengra.

Hér gefur að líta miklar fylkingar fólks í Vesturheimi og er þar þó ekki öllu til skila haldið, sem varla er von. Jafnan hef ég gaman af að skoða hvaða mannanöfn sérkenna ættir. Þessi ætt er engin undantekning þar á. Af karlmannsnöfnum ber talsvert á nöfnunum: Þorvaldur, Gunnlaugur, Baldvin, Loftur og Anton.

Þá má til gamans geta þess að fjórtán bera nafnið Kristján Eldjárn. Af kvenmannsnöfnum staldrar maður helst við Snjólaugarnafnið og þegar kemur að Laxamýrargrein ættarinnar bætist við nafnið Líney. Skiptast þau einatt á og sumar konur heita raunar báðum nöfnum.

Þetta er mikið niðjatal. Hvort tveggja er að barnafjöldi er oft mikill í hverri fjölskyldu og niðjar eru nú komnir í níunda lið frá ættforeldrum þar sem lengst er fram gengið.

Svo er að sjá sem Krossaættin sé á marga lund mikil fyrirmyndarætt.

Þar er margt gildra bænda, harðduglegra sjósóknara og útgerðarmanna og margir eru þar, sem hafa látið að sér kveða í þjóðlífinu. Af myndum að dæma er fríðleikur algeng ættarfyigja-

Mér varð hugsað til þess, er ég fletti blöðum þessa mikla rits, að oft er látið í veðri vaka, að íslendingar séu einstaklega einsleit þjóð, lítt blönduð öðrum þjóðum. Hafa þeir, sem slíku halda fram, aldrei skoðað niðjatöl? í þessu niðjatali, eins og flestum öðrum, hafa margir af ættinni gifst útlendingum, svo að óneitanlega er blöndunin orðin nokkur og fer áreiðanlega vaxandi. Enda væri annað óeðlilegt og bæri vott um undarlega einangrun á tímum síaukinna samskipta við aðrar þjóðir. Þetta niðjatal er hið vandaðasta og myndarlegasta að öllu leyti. Brotið er stórt, svo að myndir njóta sín vel.

Texti er í þremur dálkum á blaðsíðu og þar sem hann er mikið brotinn af myndum hefur umbrot líklega verið nokkuð vandasamt og hætt við að texti geti fallið niður. Sýnist mér það hafa orðið einu sinni. Ég gat að sjálfsögðu ekki athugað hvort villur eru í ártölum, en að öðru leyti sá ég sárafáar prentvillur og engar sem ekki má auðveldlega lesa úr.

I lok niðjatalsins eru raktar nokkrar framættir og ritinu lýkur á geysimikilli nafnaskrá. Sigurjón Björnsson

 


GamanOgAlvara SigfúsSig. iceland@internet.is ©SigfúsSig.Iceland@Internet.is