Ráðgátur á GamanOgalvara

Rannsóknir á huglækningum

HUGLÆKNINGAR, sem stundaðar eru af svonefndum huglæknum eða lækningamiðlum, hafa löngum vakið forvitni fólks og velta því eflaust margir fyrir sér, hvort huglæknar séu nokkurs megnugir. Töluverður hópur fólks stundar lækningar af þessu tagi hér á landi og taka sumir þessara huglækna gjald fyrir þjónustu sína. Miklar sögur fara af hreinum kraftaverkalækningum hjá sumum þessara huglækna, en skoðanir eru nokkuð skiptar um þær. Sumir leggja dæmið þannig upp að hjá huglæknum læknist fólk fyrir trú eða sefjun – að í þessum tilvikum sé einvörðungu um sefjun að ræða og kaupi viðskiptavinir huglækna því trú sína oft dýru verði. En hvað hafa vísindin til þessara mála að leggja? Fremur lítið er til af rannsóknum á þessu sviði, en nokkrar hafa þó verið gerðar.

Merkilegt fyrirbæri
Einn af brautryðjendum á þessu sviði var ungur líffræðingur, Dr. Bernard Grad við McGill-háskólann í Montreal, Kanada, sem hóf rannsóknir á áhrifum huglækninga um 1960. Dr. Grad leit svo á, að sögusagnir og fullyrðingar um lækningamátt huglækna væru of almennar til að rétt væri að vísa þeim á bug að óskoðuðu máli. Sjálfur taldi hann þetta merkilegt fyrirbæri er krefðist ítarlegrar rannsóknar.

Er Dr. Grad hóf fyrst að skoða þessi mál, fannst honum það eiginlega jafn dularfullt lækningafyrirbærunum sjálfum að enginn hefði staðið að eiginlegri tilraunastarfsemi á þessu sviði áður, sérstaklega þar sem hann taldi engum sérstökum erfiðleikum bundið að nota hefðbundnar lífeðlisfræðilegar rannsóknaraðferðir til að kanna þessa ráðgátu. Skýringuna á sinnuleysi vísindamanna um þetta mál taldi hann vera aðra eða semsé þá að hæfni til huglækninga virtist ekki styðjast við neina sérstaka þekkingu eða lærdóm. Vegna þessa ályktaði hann að eðli þessara lækninga bryti hreinlega í bága við hugsunarhátt vísindaaldar, sem hneigðist til að breyta geysiflóknum tæknilegum aðferðum við lækningar.

Dr. Grad taldi hins vegar ekkert athugavert við að reyna að kanna þessa hluti. Né heldur lét hann það á sig fá, sem margir héldu fram að myndi hindra hann í þessum rannsóknum – að ómögulegt væri að þekkja "ekta" huglækna frá hinum, sem einungis væru að svíkja peninga út úr fólki. Hann leit svo á að ef sá sem teldi sig huglækni gæti raunverulega læknað, ætti það að sjást á niðurstöðum tilrauna sem gerðar væru við strangar tilraunaaðstæður.

Dr. Grad batt miklar vonir við þessar rannsóknir sínar. Hann taldi að á grundvelli niðurstaðna þeirra mætti jafnvel staðla próf er myndu greina einstaklinga með "hæfileika" frá hinum og hugsanlegt væri að þær opnuðu mönnum nýja innsýn í læknisfræði. Þá taldi hann að þær gætu einnig varpað ljósi á eiginleika sefjunar, sem eru t.d. mjög til trafala við lyfjarannsóknir.

Sefjun
Þegar prófanir eru framkvæmdar til að finna út verkanir lyfja er að jafnaði stuðst við hefðbundið tilraunasnið. Tilraunamönnum er skipt í tvo hópa – tilraunahóp og samanburðarhóp. Einstaklingarnir í tilraunahópnum fá lyfið sem prófa skal en þeir í samanburðarhópnum fá gervipillur, sem innihalda ekkert lyf. Að sjálfsögðu er séð til þess að engin tilraunamanna veit sjálfur hvorum hópnum hann tilheyrir. Það einkennilega skeður við rannsóknir af þessu tagi að einstaklingarnir sem fá gervipillurnar sýna oft verulegan bata eða einkenni, einmitt eins og þeir hefðu tekið lyfið sjálft. Svo er að sjá sem sú vænting sem skapast hjá þeim við að taka þátt í tilrauninni, sé þess megnug að kalla fram þessar breytingar á líkama þeirra. Þannig hefur einnig verið sýnt framá það með dáleiðslu að vitundin getur haft ótrúlega mikil áhrif á einstaka vefi líkamans, og er reyndar á huldu hvar takmörkin liggja í því efni.

Þar sem Dr. Grad var hugfanginn af þeim heimildum sem hann taldi sig hafa undir höndum um árangur huglækninga, ákvað hann að setja upp tilraun sem leiddi í ljós hvort einhvers konar samband væri milli huglæknis og sjúklings. En rétt eins og sefjunaráhrif valda erfiðleikum í lyfjarannsóknum, liggur í augum uppi að þau hljóta að valda skekkju varðandi mat á árangri huglækninga. Dr. Grad komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að með því að nota fólk til tilraunanna myndi verkefnið verða óleysanlegt – það væri með öllu útilokað að meta áhrif sefjunar á niðurstöður. Hann afréð því að nota eingöngu dýr og plöntur við tilraunir sínar og útiloka þannig sefjunarþáttinn.

Huglæknirinn
Huglæknirinn sem hann valdi til starfa með sér að þessum tilraunum var Oskar Estebany ofursti frá Ungverjalandi. Estebany ofursti hafði fyrst orðið var við hæfileika sína til huglækninga er hann sinnti riddaraliðshestum eftir að hann var kominn á eftirlaunaaldur. Síðar tók hann að beita hæfileikum sínum við fólk og fullyrtu margir að þeir hefðu fengið bót sjúkdóma sinna fyrir hans atbeina. Með tímanum urðu huglækningar hans aðalstarf en hann tók aldrei gjald fyrir þessa starfsemi sína eða fullyrti neitt um gagnsemi hennar. Hann flutti frá Ungverjalandi til Kanada og lagði þar stund á huglækningar.

Fyrsta tilraun þeirra Dr. Grads fór þannig fram að teknar voru 48 mýs og lítil húðpjatla fjarlægð af baki þeirra undir deyfingu. Síðan voru þær vigtaðar og stærð sáranna mæld nákvæmlega. Eftir að þessu hafði farið fram var músunum skipt niður í þrjá hópa sem komið var fyrir í aðskildum vírbúrum. Estebany veitti einum hópanna "meðferð" með því að halda höndum um búrið nokkra stund dag hvern, án þess þó að snerta nokkurn tíma mýsnar sjálfar.

Annar hópurinn, samanburðarhópur I, fékk nákvæmlega sömu meðhöndlun hvað varðaði allan aðbúnað – en fór á mis við handayfirlagninguna. Þriðji hópurinn, samanburðarhópur II, fékk sama aðbúnað og hinir tveir, nema músunum í þessum hóp var yljað með hitun jafn mikilli og mældist frá höndum huglæknisins, til að ganga úr skugga um hvort hitinn einn hefði einhver áhrif á hvernig sárin gréru. Nú voru sárin mæld reglulega um 20 daga tímabil svo framvindu batans mætti reikna út og hægt væri að gera samanburð á hópnum eftir því hvernig sár þeirra gréru.

Niðurstöður
Niðurstöður urðu í stuttu máli þær að mýsnar sem yljað hafði verið með tækjum sýndu engan marktækan mun varðandi bata miðað við samanburðarhópinn. Mýsnar í hópnum sem hlaut meðferð hjá Estebany gréru hins vegar miklu hraðar sára sinna en mýsnar í hinum hópunum tveimur, og var munurinn í heild miklu meiri en svo að líkindi væru til að tilviljun hefði ráðið. Þótt þessar niðurstöður væru forvitnilegar og lofuðu góðu fyrir huglækna, var ekki hægt að líta á þær sem neina sérstaka uppgötvun. Rétt eins og gildir um allar vísindarannsóknir hlaut endurtekning sömu tilraunar að skera úr um áreiðanleikann.

Samantekt: Bragi Óskarsson

 

Ráðgátur á GamanOgAlvara

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

 

 Deila á Twitter
 

©Sigfús Sig. Iceland@Internet.is