Ráðgátur á GamanOgalvara

Útilegumannahreysin við SNJÓÖLDU

(Viðtal við Jón I. Bjarnason ritstjóra)

Það var haustið 1936 að Landmenn voru í leitum á hálendinu fyrir austan Snjóöldu og smöluðu fé inn með Snjóöldufjallgarðinum, að tveir bændanna koma auga á eitthvað /hvítt/ er reis upp við hamar í klettabeltinu á móts við Grænavatn. Annar þeirra tekur á sig krók til að huga að þessu. Reyndust þetta þá vera blásin og veðruð lendabein úr hrossi og þykir honum undarlegt að rekast á þau þarna, svo fjarri mannabyggð. Hann fer þá að svipast betur um þarna og kemur þá auga á hreysi nokkur undir móbergskletti. Kofarnir höfðu verið hlaðnir upp við klettinn sem slútir framyfir sig á þessum stað og sáust því alls ekki fyrr en komið var fast að þeim.

 
Þetta þótti ákaflega merkilegur fundur á sínum tíma. Útilegumannatrúin var búin að lifa sitt fegursta og fengu hreysin því að standa óáreitt. Hefðu þau fundist fyrir síðustu aldamót hefðu þau örugglega verið jöfnuð við jörðu – því þá var trúin á tilvist útilegumanna svo sterk, að sjálfsagt þótti að jafna útilegumannahreysi við jörðu og eyðileggja þau til að gera útilegumönnum erfiðara fyrir að hafast við í óbyggðum.

Jón I. Bjarnason sá hreysin við Snjóöldu fyrst fyrir tveimur áratugum og hefur komið á þennan stað oft síðan. Hann hefur myndað sér ákveðnar skoðanir varðandi þau og telur víst að útilegumenn hafi hafst þarna við fyrr á tímum. Hér er um merkilegar fornminjar að ræða en engar sagnir fara af því hverjir þarna höfðust við eða hvenær.

 

Rúmbálkar hlaðnir úr grjóti
– Það er rétt að ég lýsi hreysunum og staðháttum þarna áður en lengra er haldið, sagði Jón. Hreysin eru hlaðin úr grjóti þannig að einn langveggur þeirra er bergið sjálft. Með þessu hafa þeir, er þarna voru að verki, sparað sér hleðslu. Greinilegt er að menn hafa hafst við í öðru hreysinu. Dyraumbúnaðurinn er enn uppistandandi, rammlega hlaðinn úr grjóti og mikil steinhella lögð yfir – hún var heil þegar ég kom þarna fyrst fyrir tveimur áratugum, en síðan hefur hún sprungið í tvennt en hangir þó ennþá uppi. Inni í rústinni eru rúmbálkar hlaðnir úr grjóti. Í vestra horni hreysisins er eldstæði undir steinboga, og haganlega gert. Greinilegt er að fyrir ofan eldstæðið hefur verið gat upp með berginu og þaðan hefur reykinn lagt út og upp með klettinum. Þarna hefur verið sæmileg aðstaða til að steikja kjöt við eld og þokkaleg eldunaraðstaða, eftir því sem þá gerðist.
Ég gæti trúað að í þessu hreysi hafi fjórir menn getað hafst við með góðu móti. Það verður að hafa í huga, að menn byggðu yfirleitt smátt á þessum tímum – hvað þá útilegumenn. Þeim veitti ekki af að nota hitann af hver öðrum enda brenni af skornum skammti á þessu landsvæði. Þau útilegumannahreysi sem fundist hafa voru öll lítil og þröng. Til dæmis eru til nokkuð góðar lýsingar á hreysi Fjalla-Eyvindar og Hölu í Eyvindarkofaveri, sem þau höfðust við í um tíma. Þar voru þau handtekin, hreysið eyðilagt og þau færð til byggða. Þau struku svo aftur til fjalla, en það er önnur saga.
 

Steinkeraldið
Hitt hreysið, sem er aðeins norðar við klettinn, er stærra. Það tel ég víst að hafi verið notað sem geymsla eða skemma. Þar inni er mikið steinkerald höggvið úr móbergi. Hefur móbergs steinn allmikill verið höggvinn til og síðan holaður að innan. Þetta steinkerald hefur greinilega verið notað sem lekabytta undir ferskvatn, sem stöðugt lekur úr berginu. Það hafa þeir haft til drykkjar, því vatnið í Tungná sem rennur þarna skammt frá er kolmórautt og trúlega ódrekkandi.

Hvaða rök hníga að því að þarna hafi útilegumenn haft búsetu?
– Ég hef grandskoðað þennan stað og tel mig hafa fundið þau ummerki að óyggjandi sé að þarna hafi verið útilegumenn en ekki veiðimenn eins og sumir hafa haldið fram. Þjóðminjasafnið gerði ásamt nokkrum áhugamönnum umfangsmikla rannsókn þarna árið 1937 og voru hreysin þá mynduð og teiknuð upp. Þá fundust þarna slitur af ýmsum veiðarfærum og hafa ýmsir slegið því föstu að þarna hafi verið veiðimenn, er stunduðu silungsveiðar í Veiðivötnum eða jafnvel Stórasjó.
Þegar þessi rannsókn Þjóðminjasafnsins fór fram tel ég að þeim hafi sést yfir þýðingarmikil atriði varðandi berghöldin. Og nú komum við að athyglisverðum hlutum sem ég helda að öllum hafi sést yfir til þessa.
 

Berghöldin
Skammt norðan við skemmuna, sem ég talaði um, er dálítil sléttur völlur þétt upp við bergið, trúlega sléttaður af manna höndum. Þennan völl kalla ég blóðvöllinn, því ég er alveg handviss um að þar hefur verið slátrað stórgripum. Og ég get fært rök fyrir því. Til hliðar við blóðvöllinn, í svo sem eins meters hæð er geisiöflugt berghald, sem mikil vinna hefur verið lögð í að gera. Þetta berghald er í allof lítilli hæð til að skynsamlegt hefði verið að hengja í það matvæli, því þar kæmist tófa auðveldlega að þeim. Það er hins vegar í alveg hæfilegri hæð til að binda við það stórgripi – og þannig held ég að það hafi verið notað.
Í rúmlega seilingarhæð, u.þ.b. þriggja metra hæð upp í berginu yfir blóðvellinum, eru tvö berghöld í sömu hæð með um 70 sentimetra millibili. Þeir sem hafa gert þessi berghöld hafa orðið að standa á einhverju við vinnu sína og hefur það verið margra daga vinna að gera þau. Þessi berghöld hafa verið notuð til að heisa stórgripi upp við slátrun. Reipi hafa verið þrædd í þessi berghöld, endunum brugðið um afturfætur skepnunnar eftir að hún hver verið svæfð og gripirnir síðan hífðir upp eftir því sem þurfti meðan þeir voru flegnir og gerðir til eins og venja er við slátrun.
 

Haugur með túngróðri
Það er fleira sem sannar að þarna hefur verið slátrað í nokkuð stórum stíl. Skammt frá blóðvellinum er sérkennilegur hóll eða haugur u.þ.b. fjórir fermetrar að stærð. Þessi haugur sker sig algerlega úr umhverfinu þarna sem er vikur- og sandauðn svo langt sem augað eygir, því huagurinn er vaxinn gróskumiklum túngróðri að sumrinu. Og hvernig stendur á því að svona vel gróinn hóll skuli vera þarna í einni mestu eyðimörk landsins? Ég tel auðsætt að þarna hafi útlegumennirnir steypt gorinu úr vömbunum að lokinni slátrun. Grösin á haugnum eru einmitt túngróður s.s. língrési, sóley, fífill og annar túngróður. Tilvera þessa haugs sannar að þarna hefur dýrum verið slátrað í stórum stíl – og það hafa engir aðrir gert en útilegumenn.
En nú er staðurinn langt uppi í landi – hefði ekki verið töluvert erfitt að koma skepnum þarna uppeftir?
– Nei, síður en svo. Gripina hafa þeir tekið á afrétti Landmanna og á Veiðivatnasvæðinu, og hefur verið hægur vandi að teyma þá upp með Tungnaá eða um Veiðivatnasvæðið og austur yfir Snjóöldufjallgarðinn. Sauðfé, sem þeir hafa stolið, hafa þeir smalað fram í skörðin austan Grænavatns og hefur verið auðvelt að ná því þar niður.
Telurðu að þeim sem að í rannsókninni, sem þú minntist á hafi, rannsóknarmönnum sést yfir þessa hluti sem þú talar um?
– Þeim hefur ef til vill ekki sést yfir þá en þeir hafa ekki athugað að skoða þá í samhengi, því hefðu þeir gert það hefði niðurstaðan orðið önnur. Við rannsóknina fundust nokkrir munir, aðalega veiðitæki til silungsveiða og hefur það trúlega ýtt undir þá skoðun að þarna hafi verið veiðimenn á ferð en ekki útilegumenn. Þetta afsannar þó síður en svo að þarna hafi verið útilegumannabústaður, því auðvitað hafa útilegumennirnir stundað veiðar í vötnum sem eru þarna alls staðar í kring. Ég held að þeir sem hafa slegið því fram sem staðreynd að þetta sé ekki annað en veiðimanna-bústaður hafi verið full fljótir á sér. Það eitt hversu hreysin eru kænlega falin bendir strax til þess að þarna hafi verið útilegumenn – maður sér þau ekki fyrr en maður er kominn fasta að þeim.
 

Ráðgátur á GamanOgAlvara

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

 

 Deila á Twitter
 

©2008 Sigfús Sig. Iceland@Internet.is