Ráðgátur á GamanOgalvara

Bakteríur éta Titanic upp til agna
Flakið af hinu víðfræga skipi Titanic, sem liggur á botni Norður-Atlantshafsins, gæti horfið á næstu áratugum. Tiltölulega nýuppgötvaðar bakteríur sem hafa fengið heitið Halomonas titanicae búa á hafsbotninum og nærast á málmi. Kvikindi af þessari tegund hafast við í þessu frægasta skipsflaki sögunnar og munu éta það upp til agna á næstu áratugum. Þetta kemur fram í örverutímaritinu International Journal of Systematic and Evolutionary Microbiology. Það hefur væntanlega verið sem hvalreki fyrir þessar örsmáu verur að finna þennan gríðarlega stóra málmhlunk á hafsbotninum.

Að hverfa
Samkvæmt niðurstöðum nýrra rannsókna mun Titanic hverfa mun hraðar en áður hefur verið talið. Nokkrir vísindamenn hafa vitað af tilvist bakteríanna í nokkurn tíma, en segja nú að þeir hafi áður vanmetið þær.
„Árið 1995 spáði ég því Titanic myndi lifa í þrjá áratugi í viðbót,“ segir Henrietta Mann, prófessor í byggingaverkfræði við Dalhousie-háskóla í Halifax í Kanada. „En skipið er að hverfa mun hraðar núna.“
Mann segir að innan fárra ára muni skipsflakið fræga hverfa. „Á endanum verður ekkert eftir nema ryðgað stál,“ segir hún.

Frægt skip
RMS Titanic lagði af stað í jómfrúarferð sína til New York frá höfninni í Southampton á Englandi hinn 12. apríl 1912. Skipið var við byggingu stærsta hreyfanlega mannvirki heims.
Að kvöldi 14. apríl sigldi risaskipið á borgarísjaka í Norður-Atlantshafinu. Jakinn reif gat á neðanvert skipið. Meira en þúsund manns drukknuðu þá um nóttina þegar skipið sökk.
Þetta er líklega frægasta sjóslys sögunnar og óteljandi bækur hafa verið skrifaðar um atburðinn.
Árið 1997 dustaði heimsbyggðin rykið af sögunni þegar kvikmyndin Titanic eftir James Cameron kom út. Myndin vann til ellefu Óskarsverðlauna en hún skartaði Leonardo DiCaprio og Kate Winslet í aðalhlutverkum.

Naga ryðkerti
Vísindamenn frá Dalhousie-háskóla og Háskólanum í Sevilla á Spáni fundu bakteríuna í svokölluðum „ryðkertum“ (e. rusticles) í flaki Titanic. Það eru ryðmyndarnir sem svipar til grýlukerta eða dropasteinum í hellum að útliti. Ryðkertin myndast þegar smíðajárn oxast í hafinu og eru holótt sem þýðir að sjórinn smýgur í gegnum og þau og tærir hratt. Vísindamenn segja að bakteríurnar vinni svo enn meira á og muni á endanum breyta ryðkertunum í ryk.
„Þetta er auðvitað aðferð móður náttúru, hún endurvinnur járnið og skilar því aftur til náttúrunnar,“ segir Henrietta Mann.

Uppgötvaðist 1985
Menn vissu ekki í rúm 70 ár hvar á hafsbotninum flakið af Titanic lægi. Það var ráðgáta þangað til bandarísk-franskur rannsóknarleiðangur fann flakið árið 1985 en það liggur um 500 kílómetrum suðaustur af Nýfundnalandi. Leiðangursmenn uppgötvuðu að skipið hafði brotnað í tvennt.
Síðan þá höfum við séð ógrynni mynda af skipinu þar sem það liggur á hafsbotni, sem birtust meðal annars í kvikmyndinni frá 1997. Það er auðvitað ekki auðvelt verk að komast niður á þetta dýpi en vonast er til þess að framtíðin leiði í ljós betri tæki og búnað svo að heimsbyggðin geti virt betur fyrir sér botn hafsins. En nú virðist hins vegar stutt í að flakið hverfi okkur alveg.

Tækifæri fyrir vísindamenn
En fátt er svo með öllu illt að ei boði nokkuð gott. Tæring flaksins mun án efa hafa í för með sér mikið og nytsamlegt rannsóknarstarf þar sem vísindamenn munu átta sig betur á bakteríunum. Það gæti orðið mikilvægt til að uppgötva leiðir til að vernda skip í framtíðinni.
„Við ímyndum okkur gjarnan að þessi frægu skipsflök á hafsbotninum séu tímahylki sem liggi frosin í tíma, en í raun eru um að ræða allskonar gerðir af flóknum vistkerfum sem nærast á þeim, jafnvel þarna á botninum á þessu gríðarlega stóra og dimma hafi,“ segir Don Conlin, safnvörður á Atlantshafsminjasafninu í Halifax í Kanada.

Grein af DV.is, birt 13 janúar 2011

 

Ráðgátur á GamanOgAlvara

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

©Sigfús Sig. Iceland@Internet.is