Ráðgátur á GamanOgalvara

  • Konungur flæðiskóganna

Svarti caiman-krókódíllinn, stærsta rándýrið í Amazon er vísindamönnum enn nokkur ráðgáta. Vísindalega nafn hans er Melanosuchus niger sem þýðir bókstaflega svarti-svarti krókódíllinn og þarf þá enginn að velkjast í vafa um litinn á dýrinu. Hins vegar er lítið vitað um lifnaðarhætti þessarar hlédrægu skepnu sem heldur sig einkum í einangruðum skógartjörnum og síkjum. Í þessari grein um lífríki þessa svæðis segir John Thorbjarnarson frá rannsóknum sínum á þessu dýri.

VEGNA stærðar þessarar kjötætu hefur svarti caiman-krókódíllinn nokkuð slæmt orð á sér, talið var að þeir væru stórhættulegir mönnum en í raun eru skráðar árásir á menn mjög fátíðar. Áður mátti sjá þá víða á Amazon svæðinu en eftir fjörutíu ára stjórnlausar skinnaveiðar er svarti caiman-krókódíllinn í útrýmingarhættu. Nú hefur verið gripið í taumana með stjórnun á skinnaverslun innanlands og utan en síðustu 15 árin hefur verslun með þessi skinn snarminnkað og svarti caiman stofninn hefur því náð sér nokkuð á strik.

Kvíðvænlegt verkefni
Ég byrjaði á vistfræðilegri rannsókn á svarta caiman-krókódílnum í nóvember árið 1993 ásamt Ronis da Silveira, brasilískum nema. Kennari hans, Bill Magnusson, hafði unnið að grunnrannsóknum á tegundum krókódíla í norðurhluta Brasilíu sem tóku meðal annars til svarta caiman. Samt var margt á huldu um ýmsa þætti í lifnaðarháttum hans, sérstaklega í vesturhluta Amazon þar sem talið var að stærstu stofnana væri að finna. Það var ekki laust við að maður bæri kvíðboga fyrir þessu verkefni, að hefja rannsóknir á stóru viðskotaillu næturdýri sem heldur til á svæði sem var nánast ókannað.

En mörg helstu vandamálin voru leyst með Mamirauá verkefninu sem hófst með rannsóknum Márcio Ayres á hinum óvenjulega hvíta uakari apa. Uakari apinn er rauður í framan með mikinn hvítan feld og einu heimildirnar um tilvist hans voru rúmlega 100 ára gamlar og aðeins frá Mamirauá. Márcio hafði áhyggjur af framtíð flæðiskóganna, þar sem fljótin Amazon og Japurtá mætast. Þrátt fyrir að stór hluti svæðisins væri nánast ósnortinn voru fiskveiðar og skógarhögg þegar farin að raska jafnvægi lífríkisins. Þessi nýting á auðlindum svæðisins stjórnaðist af viðskiptahagsmunum utan svæðisins og það var ljóst að langtímaáhrif fyrir íbúa Mamirauá og lífríki þess gátu verið skaðleg. Með stuðningi brasilískra og alþjóðlegra samtaka hóf Márcio samstarf við heimamenn sem er orðið að brautryðjendastarfi í þeirri viðleitni að sameina vernd á náttúruauðlindum og samfélagsþróun í Amazon. Verkefnið kallast Mamirauá, sem er orð yfir kálf sækýrinnar á týndu indíánamáli. Miklar grunnrannsóknir hafa farið fram á lífríkinu sem íbúar svæðisins byggja afkomu sína. Heimamenn eru flestir kynblendingar, afkomendur portúgalskra landnema og indíána og kallast "caboclos" en nokkur samfélög indíana eru þarna einnig.

Mamirauá er gríðarstórt svæði með vötnum, síkjum og fenjum en á regntímabilinu hækkar vatnsborðið um rúma 10 metra og færir allt í kaf. Rannsóknarstöðvar vísindamannanna eru í flothýsum á víð og dreif um flæðiskóginn, en þau eru einnig notuð af heimamönnum til að takmarka aðgang að vötnum sem hafa verið friðuð til verndar hrygningarstofnum. Cauaçu heitir flothýsið þaðan sem caiman-krókódíllinn er rannsakaður en það er jafnframt heimili Ronis da Silveira. Það er staðsett á Mamirauá vatninu sem er jafnframt eitt stærsta stöðuvatn svæðisins. Flothýsið er bundið við nokkur tré á strandlengjunni svo að það reki ekki í burtu í tíðum hitabeltisstormum.

Risaeðla nútímans
Svarti caiman-krókódíllinn nær mestri stærð af fimm tegundum caiman-krókódíla. Í morgunskímunni má sjá þessa nútíma risaeðlu lóna framhjá flothýsinu en ólíkt ameríska krókódílnum er fátt vitað um hann og margir grunnþættir í æviferli þessa krókódíls eru huldir myrkviðum frumskógarins. Það er erfitt að segja til um hámarksstærð þessarar tegundar, dýr sem eru yfir fjögurra metra löng sjást reglulega á Mamirauá svæðinu og af hauskúpum má dæma að sum dýr hafa orðið rúmir fimm metrar að lengd. Til eru heimildir um sex metra skepnur en þær eru óstaðfestar. Eins og hjá öllum tegundum krókódíla eru það karldýrin sem verða stærst en kvendýrin verða sjaldan mikið lengri en þrír metrar. Langflestir caiman-krókódílarnir sem sjást í Mamirauá eru ung og hálffullorðin dýr, yfirleitt um einn til tveir metrar að lengd.

Árlegu flóðin færa skóginn í kaf og trjástofnarnir hverfa ofan í djúpin þar sem höfrungar, fiskar og einstaka sækýr synda um. Krókódílarnir dreifast um svæðið og erfitt er að finna þá. Hins vegar er hægt að beita fornri aðferð veiðimanna og herma eftir kalli krókódílanna, þeir svara yfirleitt um hæl og stundum svarar tilkomumikill kór falinna krókódíla úr öllum áttum. Þegar flóðin sjatna og skógarbotninn kemur úr kafi safnast krókódílarnir og önnur lagardýr í síki og vötn á svæðinu. Þegar þurrkatímabilið stendur sem hæst verður útsýnið yfir hluta Mamirauá-vatns eins og maður gæti ímyndað sér að lífið á jörðinni hafi verið á forsögulegum tíma, þar sem þúsundir svartra caiman-krókódíla flatmaga hlið við hlið. Þegar ferðast er um vötnin að næturlagi endurkastast ljósin af luktunum á höfðum okkar í augum krókódíla. Á sumum svæðum eru glitaugun svo mörg að það er líkast því að upplýst stórborg sé í fjarska. Þessi sýn getur verið ógnvekjandi í dimmri nóttinni í Amazon en fyrir líffræðing sem ætlar sér að læra eitthvað um lifnaðarhætti svarta caiman-krókódílsins er þetta eins og himnasending og býður upp á endalausa rannsóknarmöguleika.

Svartagull
Staðir eins og þeir sem við rannsökum í Mamirauá eru torfundnir. Svartir caiman voru áberandi þangað til 1940 þegar viðskipti hófust fyrir alvöru með skinn þeirra. Verðið var svo hátt að veiðimenn drógu kanóa sína yfir margra kílómetra þurrlendi til að komast í vötn þar sem enn mátti finna þessar skepnur. Næstu áratugi höfðu veiðimenn ferðast um afskekktustu hluta Amazon í leit að þessu nýja svarta gulli. Í útflutningsskýrslum má sjá að yfir 7,5 milljónir skinna voru fluttar frá borginni Manaus og mikill fjöldi frá öðrum borgum. Svæðin sem sluppu við þessa veiði voru fá og þessi skepna sem eitt sinn var einkennandi fyrir votlendissvæði í Amazon var nánast horfin. Skinnaveiðum var hætt árið 1970 en í sumum hlutum Amazon er svarti caiman veiddur vegna kjötsins sem er selt á nokkrum mörkuðum. Veiðar á caiman eru nú bannaðar í Brazilíu og í Mamirauá er nokkuð um ólöglegar veiðar. Þrátt fyrir þessar veiðar er gnægð krókódíla á flestum stöðum í friðlandinu.

Í Mamirauá friðlandinu eru tvær tegundir caiman-krókódíla. Gleraugna-caiman verður sjaldnast mikið lengri en 2,5 metrar. Hann finnst víða í Mið- og Suður-Ameríku en skinnið á honum er ekki jafnverðmætt og á svarta-caiman. Á svæðum þar sem svarta-caiman var útrýmt er stundum hægt að sjá marga gleraugna-caiman. Rannsóknir okkar hafa einkum beinst að svarta-caiman en í leiðinni höfum við reynt að fræðast um gleraugna-caiman og útskýra sambýli þessara tegunda.

Við grunnrannsóknir á krókódílum eru notaðar margvíslegar rannsóknaraðferðir, meðal annars næturtalningar með vasaljósum og sleppingar á merktum krókódílum. Einnig eru notaðar sérhæfðari aðferðir eins og þegar magar þeirra eru skolaðir með vatni til að kanna magainnihaldið en einnig eru senditæki fest á halana til að fræðast um ferðir þeirra. Í Mamirauá höfum við beitt öllum þessum aðferðum og frá árinu 1996 hefur Ronis búið á svæðinu ásamt konu sinni, bókstaflega umkringdur verkefnum. Hann þarf aðeins að stíga út úr flothýsinu með kaffibrúsa og sigla af stað til að hefjast handa. Ef rannsaka á afskekktari hluta svæðisins er notast við eitthvað af hinum flothýsunum. Ronis býr í Mamirauá allt árið en ég vinn með honum tvo til þrjá mánuði á ári og þá er athyglinni beint að varpi og hreiðurgerð krókódílanna. Áður en rannsóknir okkar hófust var vitað, að líkt og aðrar tegundir krókódíla, verpir svarti caiman-krókódíllinn eggjum sínum í haug af rotnandi gróðurleifum sem kvendýrið hrúgar saman. En hvar og hvenær var ekki vitað. Þar sem eggin eru tvo til þrjá mánuði að klekjast út hlaut staðsetningin og árstíminn að skipta gríðarlega miklu máli í flæðiskógunum vegna flóðanna. Við byrjuðum fljótlega að leita að hreiðrum og nutum þar aðstoðar heimamanna.

Mataræði fólks í Amazon er mjög breytilegt, sérstaklega milli hópa indíána en einnig í einsleitum samfélögum kynblendinga. Í miðhluta Amazon, þar á meðal í Mamirauá er krókódílakjöt yfirleitt ekki borðað, það er talið lágstéttarfæða. En upp með fljótinu og neðar eru þeir étnir og ólöglegar veiðar í Mamirauá byggjast á því að saltað krókódílakjöt er selt í skip á leið upp fljótið. Hins vegar éta kynblendingar í Mamirauá krókódílsegg (þau þykja sérstaklega góð í kökubakstur) og í samvinnu við fiskimenn fundum við fljótlega hreiðurstæði krókódíla.

Hulin hreiður
Flest hreiðrin sem við fundum við vatnsrásir og á öðrum aðgengilegum stöðum voru hreiðurstæði gleraugna-caiman. Við fundum einnig mörg í skógarþykkninu, stundum mörg hundruð metra frá vatnsbakkanum, á hæstu punktum flæðiskógarins. Ef leitað var umhverfis hreiðrið fannst kvendýrið stundum, 1­2 metra langt í felum undir föllnum laufum eða trjádrumbi. Mörg hreiðrin höfðu verið opnuð af rándýrum. Við vorum hissa vegna þess að þetta var á eyju sem er í kafi í vatni mánuðum saman ár hvert og því ættu venjulegir hreiðurræningjar eins og refir og þvottabirnir ekki að finnast þarna. Það var ljóst að í sum hreiðrin höfðu komist tegus-eðlur, en þær eru stórar svartar og hvítar eðlur sem sjást víða í flæðiskógunum. En þegar heimamenn fullyrtu að þetta eða hitt hreiðrið hefði verið opnað af jagúar fórum við að efast. En þegar við sáum fleiri ummerki eins og fótspor og för eftir klær á trjástofnum fórum við að trúa sögum þeirra. Að lokum fundum við fjölmörg tilvik þar sem þessir stóru kettir höfðu drepið og étið krókódílinn á hreiðrinu. Hefðbundin bráð jagúara lifir ekki á þessum slóðum og þess vegna hafa jagúarar snúið sér að eggjum og í sumum tilfellum krókódílunum sjálfum.

Þrátt fyrir að fjölmörg hreiður gleraugna-caiman hefðu fundist sáust hvergi hreiður svarta-caiman. Það var ekki fyrr en við komumst í kynni við heimamenn sem vissu af vötnum í torfærustu afkimum flæðiskógarins að við fundum helstu varplendi þeirra. Til að komast að þessum vötnum þurfti að stjaka sér gegnum gróðurfyllta læki eða draga bátinn gegnum þykkan skóginn.

Við vissum frá upphafi að ein leið krókódíla til að halda eggjum og hreiðrum fyrir ofan vatnsborðið var að verpa á fljótandi gróðurþekjur. Mikið er af slíkum þekjum eru á þessu svæði, allt frá þunnum mottum úr fléttuðu grasi að þykkum mókenndum hellum þar sem tré geta skotið rótum. Við komumst að því að vissulega verpa sumir á slíkum þekjum en flestir verpa á landi við vatnsbakkann. Við komumst að því að í sumum vötnum var vatnshæðin ekki í tengslum við vatnshæð í Amazon fljótinu vegna sérstakrar staðsetningar þeirra. Þegar vatnshæð í Amazon fljótinu og vötnum tengdum því hækkaði eða féll, héldu þessi vötn óbreyttri vatnshæð vegna þess að þéttur gróðurinn hægir á aðrennsli og frárennsli. Þessi vötn mynda kjöraðstæður fyrir hreiður svarta caiman-krókódílsins. Þau eru oftast lítil og full af gróðri og krókódílum. Sú hætta er samt alltaf fyrir hendi að hreiður fari í kaf vegna mikillar rigningar en vatnsborðið nær fljótlega fyrri stöðu og egg svarta caiman-krókódílsins virðast þola skammvinn flóð.

Vonandi er að stofnar svarta caiman-krókódílsins nái sér á strik í öðrum svæðum Amazon, eins og þeir hafa gert í Mamirauá, og að stærsta rándýrið í heimsins stærsta fljóti muni ná fyrri styrk. Í náinni framtíð munum við halda áfram rannsóknum okkar á þessum konungi flæðiskóganna.

Höfundur er bandarískur vísindamaður af íslenskum ættum. Andri Snær Magnason sneri á íslensku.

JOHN Thorbjarnarson (annar frá hægri), höfundur greinarinnar ásamt samstarfsmönnum við hreiður caiman krókódíls. SENDITÆKI eru sett á nokkur dýr til að hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra. Þetta er svartur caiman, fjögurra metra langt karldýr sem verður fylgst með næstu árin. RONIS da Silveira með handfylli af svörtum caiman krókókódílum sem eru nýskriðnir úr eggjum. LOFTMYND af einangruðu vatni í skóginum, þar sem helstu varplendi svarta caiman krókódílsins eru. EFRI krókódíllinn er svarti caiman en sá neðri er gleraugna caiman. Nafn sitt fær gleraugna caiman af beini á milli augnanna sem veldur því að þeir virðast vera með gleraugu. Þessar tegundir finnast víða í Mamirauá. GLERAUGNA caiman sem var drepinn af jagúar.

 

Egni tekið af Mbl.is

 

Ráðgátur á GamanOgAlvara

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

 

 Deila á Twitter
 

©Sigfús Sig. Iceland@Internet.is