Ráðgátur á GamanOgalvara

Merzbacher lónið í Tien Shan fjöllunum í Kirgistan

Merzbacher lónið í Tien Shan fjöllunum í Kirgistan myndast úr leysingavatni. Á hverju sumri hverfur vatnið á innan við þremur sólarhringum. Vísindamenn fýsir að komast að raun um hvað veldur.

Á sama tíma ár hvert myndast furðulegt fyrirbæri á landamærum Kirgistan, Kasakstan og Kína en um er að ræða Merzbacher lónið sem myndast úr leysingavatni frá jökli sem kallast Inylchek. Þegar lónið nær hámarki sínu tæmist það skyndilega og meira en 250 rúmmetrar vatns streyma úr því á örfáum dögum. Vatnið rennur undir ísstíflu, sem haldið hafði lóninu í skefjum, og streymir frá jökulsporðinum. Vatnið veldur flóðum í dal einum um nokkurra daga skeið og mörg hundruð kílómetra löngu ferðalagi þess lýkur svo endanlega í Taklamakan eyðimörkinni. Lón, sem tæmast jafn skyndilega og þetta, eru þekkt fyrirbæri á svæðum þar sem jöklar fyrirfinnast. Þessi vatnsflaumur sem minnir einna helst á syndaflóðið forðum er það sem við Íslendingar þekkjum sem jökulhlaup. Að öllu jöfnu er ógerningur að spá fyrir um hvenær hlaup verður og sökum þess að jökulhlaup hrifsa með sér allt sem á vegi þeirra verður hafa þau kostað mörg mannslíf gegnum tíðina. Mannfólkinu hefur þó ekki stafað hætta af Merzbacher jökullóninu til þessa, því flóð af völdum hlaupsins verða á óbyggðum svæðum. Þetta sérstaka hlaup er þó ólíkt öðrum jökulhlaupum að því leyti að hlaupið er mjög reglubundið og á sér stað á stuttu tímabili í júli eða ágúst ár hvert. Fyrir vikið er auðvelt að fylgjast með þessu tiltekna jökulhlaupi.

Vísindamenn frá þýsku jarðfræðivísindastofnuninni, GFZ, hafa sett á laggirnar alþjóðlega loftslagsathugunarstöð, Global Change Observatory, ásamt starfsbræðrum sínum frá Kirgistan og Austurríki, og þar er ætlunin að stunda vísindalegar rannsóknir á þessu fyrirbæri.

Inylchek jökullinn er ríflega 60 km á lengd og hann þekur svæði sem er alls 650 km2 að flatarmáli. Frá jöklinum skríða aðallega tvær jökultungur, önnur úr norðurhuta jökulsins og hin úr suðurhlutanum. Tungurnar skríða sín í hvorum dalnum, sem eru nokkurn veginn samsíða. Jökultungurnar tvær sameinast svo rétt við Merzbacher jökullónið. Norðurhluti jökulsins er á undanhaldi og er jökulsporðurinn í fimm km fjarlægð frá Merzbacher lóninu, hulinn á bakvið háan jökulruðning. Syðri hluti jökulsins hefur mjög mikil áhrif á jökullónið. Hluti af jöklinum skríður þannig í aðra átt en aðalskriðáttin og hreyfist í átt að lóninu. Þar myndar jökulsporðurinn heilan múr af ís, sem stíflar vatnið inni í lóninu og þaðan brotna stór ísbjörg sem falla í lónið. Þó svo að jökullinn í heild sinni sé á undanhaldi skríður hann engu að síður fram.

Jökulhlaup kallast það þegar gífurlega mikið vatn brýst skyndilega undan jökli og streymir til sjávar. Þau eru skilgreind sem skyndileg flóð úr lóni við eða undir jökli. Til eru nokkrar tegundir jökulhlaupa. Það getur verið jökull sem stíflar á og stíflan síðan brestur eða þá jarðhiti sem veldur vökvasöfnun undir jökli og vatnið brýtur sér svo leið undan eða jökulgarður sem fyllist af vatni og brestur. Í jökulhlaupum er mikil orka og rennsli í þeim getur verið tugir þúsunda rúmmetra á sekúndu. Þau eru það kraftmikil að þau geta flutt með sér grjót og ísjaka sem vega nokkur hundruð kíló. Jökulhlaup byrja yfirleitt af miklum krafti og með stuttum fyrirvara. Vísindamenn hafa enn ekki leyst ráðgátuna um Merzbacher lónið. Mælingar hafa leitt í ljós að miðja ísstíflunnar rís um meira en 20 metra þegar lónið fyllist. Ráðgáta er hvernig lónið getur fyllst aftur á einungis einu ári. Vísindamennirnir telja að norðurhluti jökulsins skipti hér sköpum, því þaðan streymir leysingavatn í átt að lóninu en vonir eru bundnar við að jarðfræðirannsóknir í nýju athugunarstöðinni færi svör við þessari spurningu og mörgum öðrum tengdum Merzbacher lóninu.

Þá hafa vísindamennirnir einnig áhuga á að kanna hver áhrif hnatthlýnun hefur á bráðnun jöklanna og sömuleiðis áhrifin á jökullón á borð við Merzbacher lónið.

 

Ráðgátur á GamanOgAlvara

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

 

 Deila á Twitter
 

©Sigfús Sig. Iceland@Internet.is