Ráðgátur á GamanOgalvara

Hákarl stríðir líffræðingum

Hve lengi lifir hann? Hvernig fer mökunin fram? Fæðir hann lifandi afkvæmi? Beinhákarlinn verður 10 metra langur, vegur 4 tonn og í gini hans mætti koma fyrir litlum fólksbíl. En leyndardóma sína upplýsir hann hreint ekki fúslega.

Í mörg herrans ár hafa líffræðingar undrast hvað verði eiginlega um beinhákarlinn yfir vetrartímann. Þessir risavöxnu fiskar verða 10 metra langir og vega 3-4 tonn, en virðast engu að síður geta horfið sporlaust þegar haustar að. Á mörgum stöðum í veröldinni eru þeir algengir á siglingaleiðum yfir sumarið en verða svo allt í einu sjaldséðir og hverfa loks alveg á fáeinum vikum.
Það töfrabragð beinhákarlsins að láta sig skyndilega hverfa leiddi til þess að vísindamennirnir settu fram fjöldann allan af meira eða minna leyndardómsfullum tilgátum. Í fáeinum tilvikum höfðu fiskimenn veitt beinhákarl síðla hausts og þá reyndist vanta í hann þann hluta tálknanna sem gerir honum kleift að fanga svif, hinar svonefndu tálknagildrur. Fyrst skepnan var ekki lengur fær um éta, gat hún eðlilega heldur ekki verið á ferli, hugsuðu menn og töldu þá rökrétt að hákarlinn synti kannski út á dýpra vatn og legðist í dvala yfir veturinn, þar til sólarljósið og líkamsklukkan segðu honum að vorið væri að koma. En nú kveða nýjar rannsóknir þessa tilgátu alveg í kútinn. Sérstakt rannsóknarverkefni sem hófst kringum Bretlandseyjar árið 2001, hefur í fyrsta sinn í sögunni gert kleift að skapa sér einhverja raunverulega hugmynd um hvernig þessir hákarlar verja tíma sínum.

Lifrin er tonn að þyngd
Í þessu verkefni taka þátt líffræðingar frá mörgum rannsóknastofnunum á Bretlandseyjum, m.a. Beinhákarlafélaginu á Isle of Man. Með því að merkja hákarlana með sendum sem ná sambandi við gervihnetti hefur tekist að sannreyna að hákarlarnir yfirgefa hafsvæðið við strendur Bretlandseyja á haustin. Þeir synda nú suður á bóginn og enda flestir á Biscayaflóa.
Á þessum tíma hafa hákarlarnir misst tálknagrindurnar og geta því að líkindum ekki tekið til sín mikið af fæðu. Hér suður frá er sjórinn aftur á móti nokkru hlýrri og það kynni að spara orku. En auk þess eiga hákarlarnir gríðarmikinn fituforða í lifrinni. Í stórum hákarli getur lifrin varðveitt um 1.800 lítra af lýsi í lifrinni sem þá er um tonn að þyngd. Allt þetta lýsi gæti hugsanlega verið eins konar fæðuforði fyrir hákarlana þar til svif tekur aftur að berast um hafið þegar vorar.
Vetrartíminn er þó hreint ekki eini óupplýsti leyndardómurinn varðandi beinhákarlinn. Flest sem honum viðkemur var og er enn óupplýst. Það er út af fyrir sig nokkuð merkilegt því þessa fiska er að finna í miðlungshlýjum sjó víða um heim, m.a. við Ísland að sunnanverðu og austur til Noregs. Sums staðar var beinhákarlinn meira að segja algengur í eina tíð, en hann hefur aftur á móti aldrei verið mjög mikið rannsakaður.

Mjög smár heili
Á hinn bóginn hefur beinhákarlinn verið mikið veiddur, fyrst og fremst vegna lýsisins sem vinna má úr lifrinni. Á 19. öld komust menn að því að í lýsinu er mikið af A-vítamíni. Ilmvatnaiðnaðurinn var ekki í neinum vandræðum með að nýta sér þessa fyrirtaks olíu og hún var líka einkar heppileg sem smurolía, t.d. í flughreyfla. En veiðarnar tóku stóra tolla af stofnunum. Við Achill-eyjar undan strönd Írlands veiddust um 2.000 beinhákarlar á ári um 1950 en tíu árum síðar var aflinn kominn niður í 100 fiska. Nú er beinhákarl aðeins veiddur í mjög takmörkuðum mæli. Enginn veit hve mikið er eftir af beinhákarli en vísindamennirnir telja að stofnarnir við Bretlandseyjar og Noreg séu nokkur þúsund fiskar hvor.
Hinar miklu veiðar hafa gefið mönnum allgóða innsýn í líffærafræði beinhákarlsins. Augljósustu einkennin eru gríðarstór kjaftur og löng og djúp tálkn sem skera sig upp og niður líkamann aftan við hausinn. Heilinn - eða kvarnirnar - er aftur á móti mjög smávaxinn, jafnvel í samanburði við aðra hákarla. Langmestur hluti heilahvelsins er reyndar fylltur með bandvef.
Höfuðlagið er sérstaklega aðlagað að þeirri staðreynd að hákarlinn lifir á svifi. Með því að synda hægt um með ginið galopið getur beinhákarlinn síað um 9.000 lítra af sjó á tímann. Vatnið þrýstist út um tálknin þar sem smálífverur verða eftir í tálknagrindunum á hliðum tálknaboganna. Þegar nægur matur hefur safnast á tálknagrindurnar, lokar hákarlinn kjaftinum. Um leið þrýstist fæðan úr tálknunum inn í kjaftinn. Beinhákarlinn kyngir munnfyllinni og opnar því næst gin sitt að nýju.

Eintómar ráðgátur
En þótt líffærafræði beinhákarlsins sé sem sagt vel þekkt, er ekki unnt að segja hið sama um ævi hans og atferli. T.d. eru hákarlar þannig byggðir að þeir geta farið töluvert hratt á sundi. Líkaminn er straumlínulagaður og þakinn þykku - og reyndar illa þefjandi - lagi af slími sem dregur enn frekar úr vatnsmótsstöðunni. En engu að síður síður ná beinhákarlar sjaldan meira en 3 - 4 km hraða. Jafnvel þegar beinhákarl hefur veri skutlaður, eykur hann ekki hraðann, heldur syndir áfram í rólegheitum og getur dregið talsvert stóra báta á eftir sér.
Félagslíf beinhákarla er einnig óleyst ráðgáta. Yfirleitt sést aldrei nema einn í einu en þó stöku sinnum tveir eða kannski í hæsta lagi þrír. Ekkert bendir til að nein félagsleg tengsl ríki milli þeirra. Þetta gæti þó að einhverju leyti skýrst af því að veiðarnar á síðustu öld hafi höggvið svo stór skörð í stofninn. Það eru nefnilega til margra alda gamlar lýsingar á stórum torfum þessara hákarla, en slíkar torfur hafa þó ekki sést síðan í byrjun 19. aldar.

Kannski þörf á friðun
Og vísindamenn hafa heldur aldrei orðið vitni að mökun beinhákarla svo víst sé. Það er mönnum enn ráðgáta hvort þeir hrygna eða eignast lifandi afkvæmi. Það eina sem e.t.v. væri unnt að byggja á í þessu efni er lýsing frá árinu 1776 þar sem segir að beinhákarl hafi gotið 5-6 eins metra löngum afkvæmum í þann mund sem skepnan var dregin úr sjó.
Sú tilgáta hefur verið sett fram að beinhákarlinn eignist nokkur lifandi afkvæmi í einu. Svo undarlega vill þó til að kvendýrin framleiða margar milljónir eggja í eggjastokkunum en hugsanlegt er þó að þessi egg gegni hlutverki fæðu fyrir ungana meðan þeir þroskast í móðurkviði.
En þetta eru þó aðeins tilgátur og það er því meira en nóg til enn af ósvöruðum spurningum fyrir vísindamennina. Bresku líffræðingarnir gera sér nú vonir um að geta með rannsóknum sínum varpað ljósi yfir ævilengd dýranna og hve hratt þau fjölgi sér. Þetta getur nefnilega gefið mönnum nokkuð ljós hugmynd um hversu miklar veiðar stofnarnir þoli og þar með orðið grundvöllur veiðistjórnunar. Tegundin er víða í útrýmingarhættu og kannski er ekki um annað að ræða en alfriðun hennar ef við viljum geta haldið áfram að sjá beinhákarla silast um sjóinn með galopið ginið í framtíðinni.


Lifandi Vísindi (17. tbl. 2004)

 

Ráðgátur á GamanOgAlvara

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

 

 Deila á Twitter
 

©2010_Sigfús Sig. Iceland@Internet.is