Endurminningar mannætu

William Auld
Baldur Ragnarsson þýddi

 

Ég sit hér við gluggann minn, aldinn að árum, og virði fyrir mér hræringar borgarlífsins á götunni fyrir neðan. Herbergið mitt er látlaust og lítt búið þægindum, en mér líður vel, reyki pípu mína í makindum og dreypi öðru hverju á glasi með rommi, ég hef ennþá sæmilega sjón og þreytist aldrei á því sjónarspili sem blasir við augum mínum. Og þegar hlé verður á og leikendurnir hafa vikið af sviðinu læt ég hugann reika til fortíðar, til mikilla viðburða og furðulegra ævintýra sem um síðir leiddu mig hingað til þessarar fábreyttu vistarveru þar sem ég nú eyði ævikvöldinu.


Úti fyrir ólgar borgarlífið, sjálf siðmenningin. Þar hreykja sér sjálfumglaðir góðborgarar, hamarshögg steinsmiða skella á götuhellum, kaupmenn braska og bralla, sölumenn bjóða varning sinn með hrópum og köllum og gleðikonur þjónustu sína, verkamenn þramma til og frá vinnu, götustrákar á hlaupum. Hvílík ringulreið! Og manngrúinn óteljandi! Hér á götunni er samankominn meiri mannsöfnuður en í öllum þeim heimi sem ég þekkti og hrærðist í í bernsku. Það er í mesta máta undarlegt hvað þetta hversdagslega sjónarspil er óralangt frá því sem foreldrar mínir og það samfélag sem ég þekkti forðum hefðu getið ímyndað sér. Þar voru engir góðborgarar, engir hellulagningarmenn, engir æpandi götusalar, engin þörf á þjónustu gleðikvenna.


Samt var lífið þar engin paradís. Þótt náttúran væri gjafmild og alltaf nóg til viðurværis, veðráttan mild og lítil þörf á klæðum og fólk elskaðist án þess að blygðast sín, duldist þar samt höggormur eins og í öðrum edensgarði sem ég fékk að kynnast eftir að ég var skírður til kristinnar trúar.


Ég hef víða farið um heiminn. Ég hef séð skóga og eyðimerkur, skotið úlfa á sléttunum og birni í fjöllunum. Ég hef kynnst brúnum mönnum og hvítum, svörtum mönnum og gulum. Ég hef siglt á stórum skipum, komið á margar hafnir og að hafnlausum ströndum. Ég hef barist við sjóræningja og reynt í mér þolrifin í baráttu við óblíð náttúruöfl. Já, ég hef verið maður með mönnum og svo sem einnig meðal kvenna. Með hjálp þess guðs, sem ég hafði ekki heyrt minnst á fyrr en á tuttugasta og sjötta aldursári, hef ég lifað af allar þrautir og að lokum fundið endanlegan verustað í þessu landi sem hefur tekið mig í fóstur.


Loksins hafa þeir eldar slokknað sem hafa logað í æðum mínum. Hvíld og friður virðist nú æskilegra en allir fjársjóðir og það er mér ljóst að lífið eins og sólin sjálf lækkar á himni og hnígur að lokum í djúpið og endalaus nóttin tekur við. Ég bið til Guðs að hann fyrirgefi mér syndir mínar og opni fyrir mér hliðið að eilífu lífi.


Ég fæddist sem villimaður í villtu landi. Ég veit nú að þar var lífið einfalt og óbrotið. Ég lærði snemma að veiða, synda, stýra eintrjáningi, sá og uppskera maískorn og að dansa samkvæmt kröfum helgisiða og eftir því sem andinn blés mér í brjóst í það og það sinnið.


Hvað hefði orðið úr mér ef ég hefði fæðst hér sem sonur þjófs eða kannski lávarðar svo að dæmi séu nefnd? Slíkri örlagagátu er ekki unnt að svara. Á mínum heimaslóðum, sem eru nú svo fjarlægar, hafði sérhver nema auðvitað ekki konur sem ekki höfðu atkvæðisrétt á mannfundum - er svo ekki eins hér? - þar hafði sérhver maður nema höfðinginn og synir hans jafnan rétt til ákvarðana. Allir voru stríðsmenn og allir tóku jafnan þátt í því að éta fallna óvini.

 

 Ég skelf enn þegar ég minnist þess að ég var mannæta. Samt var ekkert eðlilegra í því svartnætti hjátrúar sem þá ríkti meðal okkar. Við trúðum því að við öðluðumst styrk og hugrekki öflugs óvinar með því að éta hann. Hvað myndi húsmóðir mín hugsa ef hún vissi að þeldökkur leigjandi hennar hefði verið mannæta? Hún þekkir mig sem uppgjafa sjómann sem hafi önglað saman nokkrum fjármunum, hætt siglingum og eyði nú hinstu ævidögunum í makindalegri ró í síðustu höfninni. Ef hún vissi að ég hef neytt mannakjöts ætti hún líklega erfitt með svefn á næturnar. Mér liggur við að brosa út í annað munnvikið við þá tilhugsun.


En hvað var nú þetta? Inn um gluggann berast hróp og köll: "Stöðvið þjófinn!" Ég sé hvar unglingsgrey hleypur í krákustígum, bleikur í andliti, augun galopin, og reynir að komast undan höndum vegfarenda sem fálma til hans úr öllum áttum til að grípa hann. Á eftir honum hlaupa strákar sem njóta eltingarleiksins. Auðvitað hefur engu verið stolið frá þeim, hlaupin á eftir þjófnum eru þeim einungis leikur sem er velkomin tilbreyting í hversdagsleikanum. Ég vorkenni þeim sem eltur er. Hann næst sjálfsagt því að göturnar eru fullar af fólki og einhver sjálfbirgingslegur góðborgarinn mun bráðlega bregða fyrir hann fæti svo að hann fellur. Ofsækjendurnir munu stökkva á hann, berja hann og draga hann með sér á lögreglustöðina. Já, það reynist rétt. Hér koma þeir til baka, æpandi villimenn, með fórnarlambið á milli sín, blóðugt og auri atað. Nú, líklega mun hann lifa þetta af, jafnvel í fangelsinu. Ekki verður hann drepinn og étinn.
Sú var tíð að einnig ég var á flótta með ofsækjendur á hælum mér. Og ennþá finn ég skelfinguna sem lét mig hreyfa fæturna hraðar en nokkru sinni. Best að fá sér annað glas af rommi! ...
Þetta er betra. Eins og þú veist var ég þá hundheiðinn villimaður meðal villimanna. Höggormurinn í edensgarðinum okkar var bardagaeðlið. Þótt náttúran sæi okkur öllum fyrir nægum mat, þótt jarðnæði væri meira en margfalt nóg handa hverjum og einum, þótt konur okkar væru ljúfar og ástheitar, þá fann fólk mitt og fólkið í grenndinni öðru hverju til ómótstæðilegrar hneigðar til að berast á banaspjót, tilhneigingar sem ekki var við spornað. Stríð var okkar aðalstarf, ef svo mætti segja. Hvernig var annars hægt að sanna karlmennsku sína, dug og þrek?


Það var venja að þjóna og dýrka með hernaði guð okkar, falsguðinn Benamúkí. Ekki hlýtur slíkt að teljast einsdæmi. Er það ekki rétt sem ég hef heyrt, að Ísraelsmenn hafi með svipuðum hætti heiðrað sinn drottin? Það var ungum mönnum kærkomið ánægjuefni að fá að berjast við fjandsamlega nágranna og að taka þátt í sigurhátíðum.


Mér hefur orðið það æ betur ljóst eftir því sem aldurinn hefur færst yfir, hvernig dauðinn nálgast, hægt og bítandi. Ungur maður leiðir hugann ekki að slíku. Hann heldur að hann komist af í öllum þrautum, sama hve áhættan er mikil. Það var því yfirþyrmandi reynsla fyrir mig þegar fjandmennirnir gripu mig og ég gerði mér grein fyrir að ég yrði drepinn og étinn. Það gerðist í bardaga að ég og félagi minn vorum króaðir af, dregnir niður á ströndina og varpað út í einn eintrjáninginn. Síðan reru fjandmennirnir sem óðast frá landi með miklum fagnaðarlátum. Ég var gripinn biksvartri örvæntingu. Ég var aðeins tuttugu og sex ára gamall og upplifði nú síðustu stundir skammvinnrar ævi.


Ég veit ekki hve langur tími leið en þar kom að bátunum var lagt að strönd annarrar eyju og þeir dregnir upp í fjöruna. Á meðan nokkrir í óvinaliðinu söfnuðu saman eldivið og kveiktu bál þar sem átti að steikja okkur stóðu aðrir vörð umhverfis okkur félagana. Við skulfum báðir af hræðslu þótt við reyndum að láta ekki á því bera. Þeir völdu félaga minn fyrst til fórnar og felldu hann til jarðar með einu kylfuhöggi. Síðan tóku þeir strax til við að lima hann sundur þótt hann væri ennþá með lífsmarki. Meðan á þessu stóð og athygli þeirra var bundin við vesalings félaga minn tók ég undir mig stökk án þess að gera mér meðvitað grein fyrir viðbragði mínu, losnaði frá þeim tveim sem gættu mín og hljóp af stað eins hratt og mér var unnt í áttina að runnum sem uxu ofan við fjöruna.


Þetta gerðist svo hratt að óvinir mínir áttuðu sig ekki strax og fékk ég þannig þegar nokkurt forskot. En þrír þeirra tóku fljótt á rás á eftir mér. Blind skelfingin knúði mig áfram, fætur mínir voru sem stæltar vagnfjaðrir og mér tókst að lengja nokkuð bilið á milli mín og þeirra. En ég vissi ekki hvert ég gæti flúið og möguleikarnir á að sleppa frá þeim eða að fela mig voru líklega engir. En ég hugsaði ekki um það, heldur hljóp og hljóp af öllum lífs og sálar kröftum.
Allt í einu sá ég litla vík fram undan. Ég hljóp þangað viðstöðulaust og stökk út í sjóinn og tók til sunds. Ég var mjög vel syndur og komst fljótlega yfir á ströndina hinum megin. Þar hætti ég á að líta til baka. Einn eltingarmannanna hafði gefist upp en hinir tveir voru á sundi yfir voginn í áttina til mín. Ég hlaut því að halda hlaupunum áfram þótt ég væri lafmóður og nær aðframkominn af þreytu.


En einmitt þegar ég hafði nær misst alla von og fann að ég var í þann veginn að hníga niður og gefast þannig örlögum mínum á vald sá ég mannveru birtast skyndilega í skógarjaðrinum vinstra megin við mig. Sú bar kylfu í hendi. Ég var furðu lostinn en sá þá að maður þessi stefndi ekki í áttina til mín. Í staðinn veifaði hann til mín og hljóp á móti þeim sem nú voru á hælunum á mér. Hann hljóp rakleiðis að þeim sem fyrri var og felldi hann til jarðar með einu kylfuhöggi. Sá síðari nam þá staðar og losaði boga sinn af öxlinni. Á meðan hann lagði ör á streng gerðist nokkuð furðulegt. Sá ókunni lagði kylfu sína að öxlinni og beindi henni að bogmanninum. Þá kvað við hár hvellur og bogmaðurinn féll til jarðar og hreyfðist ekki.
Auðvitað hef ég fyrir löngu vanist byssum, en þú getur rétt ímyndað þér hvílíkt undur þetta var mér þá.


Þessi ofjarl óvina minna gekk nú í áttina til mín. Hann gaf mér til kynna með handahreyfingum að hann væri mér vinveittur og hefði engan hug á að vinna mér mein. Ég varpaði mér til jarðar, í senn óttasleginn og fullur lotningar, skreið til hans og tók um annan fót hans og lagði á höfuð mér til merkis um algera undirgefni mína.


Þannig bar að fyrsta fund minn og herra míns. Á þrjú ár dvöldumst við saman á þessari eyju áður en okkur tókst að komast þaðan og hefja för okkar um hin ólíku lönd heimsins. Ég man vel, að á þessum fyrsta degi, þegar hann bjargaði lífi mínu, þá kenndi hann mér fyrstu orðin í máli sínu, þau voru já og nei. Jafnframt gerði hann mér skiljanlegt að ég skyldi ávarpa hann Herra og mig nefndi hann Frjádag, - þar sem svo hét sá dagur þegar við hittumst fyrst eins og ég síðar fékk að vita.


Það er því að þakka mínum góða herra og húsbónda, Róbinson Krúsó, að ég sit hér nú gamall maður í borginni Jórvík á því herrans ári 1740, reyki hér pípu mína og drekk mitt romm og nýt sjónarspils hins siðmenntaða lífs eins og það birtist mér fyrir utan gluggann á herberginu mínu

 

Áður birtar smásögur og  hugleiðingar

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

©SigfúsSig.Iceland@Internet.is