Andlát

Saga af gömlum sjómanni

Eftir Einar Ólafsson.

 

Daginn sem gamli Jakob í Brekkubænum dó var aftakaveður. Hann rauk upp síðdegis með roki og rigningu þvert ofan í alla spá. Jakob hafði dottað undir skrafþætti í útvarpinu en fór svo á fætur, slökkti á útvarpinu og staulaðist út að glugganum. Fætur hans voru dofnir af elli svo hann hafði ekki lengur samband við gólf og jörð. Það samband hafði raunar aldrei verið mjög sterkt. Honum líkaði betur að finna kvikan sjó undir fótum sér og enn steig hann ölduna hálfum áratug eftir að hann kom síðast á sjó.

 

Hann settist í gamla stólinn við gluggann og hóstaði þurrum hósta sem hafði plagað hann síðan þau fluttu í nýja húsið fyrir fimm árum, um svipað leyti og kulvísin fór að setjast að honum eftir fimmtíu ára hrakninga á sjó. Hitinn frá rafmagnsofninum undir glugganum gerði ekkert annað en þurrka slímhúð öndunarfæra hans þar sem hann horfði á regnið lemja utan rúðuna. Hann sá ekki lengur út á sjóinn síðan nýja hverfið reis í Brekkubæjartúninu. Krepptum fingrum opnaði hann gluggann, sem var af þeirri tísku að gefa aðeins litla rifu neðst, en það nægði til að regndroparnir náðu inn á hendur hans og báru með sér daufan sjávarilm. Í því kom Jóna tengdadóttir hans inn og spurði með nokkrum þjósti hvort hann ætlaði að forkela sig með gegnumtrekknum, en blíðkaðist svo og bað hann koma inn í eldhús og fá sér kaffisopa. Henni var heldur vel við tengdaföður sinn.

 

Hún var að elda kjötsúpu og sölt angan af kjöti og grænmeti deyfði snöggvast söknuð gamla mannsins eftir sjávarlyktinni. Gufan af súpunni gerði loftið rakt og hann fann til vellíðunar þar sem hann sat við eldhúsborðið andspænis tengdadóttur sinni og sötraði heitt kaffið. Þau sögðu ekkert.

 

Jakob hafði ótal sinnum lent í svona veðri og verra á smákænum. Þessi reynsla hans sjálfs af sjávarháskanum gerði honum á einhvern hátt auðveldara að bægja áhyggjunum frá. Ef til vill var það þó fyrst og fremst sljóleiki ellinnar sem róaði huga hans. Sljóleiki sem tengdadóttir hans naut ekki, hún hafði ekkert til að bægja áhyggjunum frá, aðeins svolitla reynslu í að halda þeim í skefjum.

 

Það var svo sem ekkert óeðlilegt að þeir væru ekki komnir. Þeir höfðu storminn á móti sér og því tæki tímann sinn að komast. Svalur gustur barst inn í eldhúsið þegar börnin komu inn. „Við skulum fá okkur að borða,“ sagði Jóna. Það var orðið nær aldimmt úti. Hún veiddi rófur, kál og kjöt upp úr pottinum og jós í skál. Það rauk af súpunni og móða settist innan á rúðurnar. Börnin tóku hraustlega til matar síns. Gamli maðurinn glamraði með skeiðinni við diskbrúnina og hallaði sér fram svo að styttra yrði að bera hana upp að munninum. Súpan yljaði honum sem snöggvast að innan. Slagviðrið beljaði án afláts á húsinu. Börnin skvöldruðu í kapp við tilkynningalesturinn í útvarpinu, en móðir þeirra hastaði á þau þegar fréttirnar byrjuðu. Fréttir af óveðrinu víða um land. Hún fór að vaska upp. Ósjálfrátt lét hún glamra hátt í uppvaskinu.

    

Og þá heyrði hún raddirnar. Háværar raddir og þrír skuggar gengu fyrir eldhúsgluggann. Þeir hlógu þegar þeir hurfu fyrir hornið. Og svo heyrðust bakdyrnar opnaðar, þeir stöppuðu af sér. Jóna flýtti sér fram. Þeir stóðu í vaskahúsinu þrír veðurbarðir menn. Bleytan rann af þeim, þeir hristu hana af sér og gerðu að gamni sínu. Jóna kyssti bónda sinn feginslega og sagði: „Nú ætla ég að hita kjötsúpuna.“

    

Þeir verkuðu sig og gengu svo til borðs. „Við fáum okkur snaps á eftir strákar,“ sagði Jakob yngri við félaga sína. Hann heilsaði föður sínum sem spurði tíðinda, hvernig hefði fiskast, hvar þeir hefðu verið þegar hann rauk upp. Meðan Jóna bar fram kjötsúpuna fóru þeir að segja frá. Þegar þeir sáu að hann var orðinn roklegur ákváðu þeir að fara að dóla heim heldur fyrr en vant var, en svo hafði hvesst mjög skyndilega. Þeir höfðu storminn á móti og miðaði því mjög hægt en lentu aldrei í alvarlegum vandræðum.

    

Þeir borðuðu súpuna og feitt kjötið með velþóknun og nutu ylsins í eldhúsinu. Veðrinu linnti ekki, það færðist frekar í aukana. Þegar þeir höfðu lokið máltíðinni stóð Jakob yngri upp og sótti vodkaflösku: „Við fáum okkur út í kaffið, strákar.“" Jóna setti þrjá bolla á borðið til viðbótar við bolla gamla mannsins og hellti í alla fjóra. Maður hennar fyllti á með brennivíninu, síðast hjá föður sínum. Það krimti í gamla manninum þegar hann ýtti bollanum móti flöskunni. Þeir skáluðu og Jakob yngri spurði konu sína hvort hún vildi ekki líka. Hún tók kókflösku út úr ísskápnum og blandaði í glas. Hún lét það standa hjá sér meðan hún þvoði upp.

    

Þeir sátu kringum borðið og sötruðu kaffið. Konan stóð við  eldhúsvaskinn og sneri baki við mönnunum. Þeir sáu hana út undan sér vinna rólega en hratt, aðeins handleggirnir á hreyfingu og smáhreyfingar í öxlunum, mittið, breiðar mjaðmirnar og fæturnir í kyrrstöðu nema þegar hún þurfti að setja eitthvað inn í skáp.

    

Þeir rifjuðu upp sögur af sjónum og annarri vinnu sem þeir höfði stundað. Þeir rifjuðu upp hvernig oft hafði legið við slysi. Þeir lýstu aðstæðum, nefndu til þá sem komu við sögu, oftar en ekki þekktu þeir þá allir nema um aðkomumann væri að ræða eða atburðurinn hefði gerst þegar þeir sóttu vinnu í öðrum landshlutum. Meðan þeir rifjuðu upp sögur af mönnum sem höfðu eða næstum höfðu farið fyrir borð eða lent í spili eða við vinnu í landi rétt sloppið við að fá steypusíló í hausinn og þar fram eftir götunum, lauk Jóna við uppþvottinn, leit til barnanna sem horfðu á sjónvarpið í stofunni, sótti kók fram í geymsluna og kom svo aftur inn í eldhúsið, settist á stól við eldhúsbekkinn og kveikti sér í sígarettu. Það var blandað í kók og reykt. Jakob gamli dreypti á brennivíninu og tók í nefið. Vindurinn hvein á glugganum og frá stofunni barst lágvært hljóð frá sjónvarpinu, tal, tónlist, ískur í bifreiðum og skothvellir. Í eldhúsinu var haldið áfram að segja næstumslysasögur lágum rómi.

    

Atli sat við hlið Jakobs gamla. Hann blés þykku reykskýi útí loftið. Hann reykti þessa sterku dönsku vindla sem fást í hverri sjoppu á Íslandi. Hann rifjaði upp þegar hann var á bát fyrir sunnan og togvírinn slitnaði og slengdist með heljarafli við höfuðið á skipsfélaga hans, en strauk bara kinnina og fleyðraði hana, „þetta gerðist svo snögglega að drengurinn kastaði sér aldrei frá heldur strauk ósjálfrátt yfir kinnina með blautum sjóvettlingnum og sveið ofboðslega. En fleiðrið var gróið eftir tvo daga.“ Atli þagnaði og bældi niður í minni sér hitt slysið tveim árum fyrr – þegar togvírinn lenti í höfðinu á Óla vini hans. Og í huga gamla mannsins rifjuðust upp atvik – þegar bátnum hvolfdi og allir félagar hans fórust en honum tókst að halda sér á kili þar til honum skolaði upp í fjöru, eða þegar þeir lentu í brimgarðinum en komust allir í land nema einn sem lamdist í hel við klettana. Hann þagði. Gegnum reykjarsvæluna fann hann vínlyktina, angan kjötsúpunnar sem enn sat í loftinu og sætan ilminn af uppþvottaleginum – það var eins og allt það skyn sem honum virtist horfið hefði safnast saman í lyktarskynið – og gegnum alla þessa lykt fann hann enn daufa sjávarlykt af ungu mönnunum. Eða var þetta aðeins lykt sem sat í honum frá því öldurnar skoluðust yfir hann á bátskilinum, í brimgarðinum, þessa mannsævi á sjó.

    

Honum var mál að pissa. Hann ýtti við Atla sem stóð upp og hleypti honum fram fyrir. Hann fór fram í vaskahúsið og á klósettið þar. Það var styttra. Við klósettdyrnar hékk sjógalli mannanna á snaga, bleytan hafði safnast í lítinn poll. Þeir voru farnir að tala um hvort veðrið færi ekki að ganga niður. Konan fór fram í stofuna og slökkti á sjónvarpinu sem stóð þögult og myndlaust. Börnin voru sofnuð.

    

Hann var lengi að pissa. Það var ellin. Enginn undraðist um hann fyrr en eftir dágóða stund. Þá var hann reyndar búinn að ljúka sér af. Hann lá í pollinum undir sjógallanum. Hann varð bráðkvaddur.

 

 

Áður birtar smásögur og  hugleiðingar

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

 

©SigfúsSig.Iceland@Internet.is