Hærra hærra.

Ó hve ljúft er að ganga um engið á sætum sumardegi, þegar fuglarnir kveða lífinu lofsöng og sólin af gjafmildi sinni varpar birtu á fjöllin. Þau eru há og í fjarlægð blá. Þangað held ég! Ó hvað ég vildi að maðurinn, þessi suðupottur afla og tilfinninga, segði fyrir fullt og allt skilið við hina myrku undirheima þjáningarinnar. Ég hlakka til þess dags er maðurinn flýgur hærra en sá Guð er hann sjálfur skóp sér, og þegar mennirnir í sameiningu tilbiðja gleðina og frelsið, jörðina og friðinn!”

 

Svona lét ég hugann reika meðan ég gekk upp fjallsstíginn og naut þess hvernig sólin lýsti upp dalinn; hinn höfðinglega gestgjafa blóma og dýra. En skyndilega féll skuggi á fjallið og kaldur vindgustur næddi um líkama minn. Andspænis mér stóð ógnarstór dreki sem breiddi út vængi sína. Það var eins og þeir loguðu af hatri og grimmd, hroka og fyrirlitningu. Máttvana féll ég til jarðar. Þá gekk drekinn að mér, gnæfði yfir mér í öllu sínu veldi og hló illskuhlátri. Augu hans voru sem botnlaust hyldýpi, og þegar hann leit á mig var eins og hann horfði í gegnum höfuð mitt. Um mig læstist nístandi sársauki og brennandi hiti – slíkar vítiskvalir efast ég um að nokkur maður hafi áður liðið! Loks hóf drekinn upp raust sína:

 

,,Þú dyggðum prýddi boðberi frelsis og friðar. Réttast væri að þú hlýddir á orð mín, því í raun er ég uppspretta allra þinna hugsjóna! Ég er þjáningin og hatrið, drottnunarviljinn og grimmdin! Án mín væri engin sönn ást eða hamingja til í þessum heimi! Því hvað væri dagurinn án næturinnar? Ævintýrið án illmennanna? Eða lífið án dauðans? Öldum saman hafið þið mennirnir hatað, barist og drepið. Þið hafið öfundað og fyrirlitið, kúgað og verið kúgaðir. Hin mikla þjáning, togstreita og barátta; það var hún sem skapaði fjarlægðir og víðáttur mannsandans! Þú lætur þig dreyma um útrýmingu þjáningarinnar, en skilurðu ekki að listina og sköpunarþróttinn eigið þið henni að þakka?”

 

Ég reis á fætur, leit til himins og hrópaði: ,,Til eru þeir sem grafa sér eigin gröf! Með því að leysa úr læðingi frelsisþrá og sköpunarkrafta mannsins ertu valdur að eigin dauða! Því í nánd eru betri tímar; maðurinn sigraðist á fáfræðinni og drap Guð, en nú á hann aðeins eftir að steypa hinu veraldlega valdi og reisa sér kristalshöll, þar sem sköpunarkraftar allra eru nýttir í þágu heildarinnar.”

 

Drekinn hló hrossahlátri og hvæsti: ,,Þú hlægilega frelsishetja. Leyf mér að sýna þér hvernig framtíðin yrði ef þú fengir vilja þínum framgengt!” Og samstundis var eins og dalurinn missti lit sinn og töfra. Hann fylltist úrkynjuðum verum sem engdust af kvölum og hrópuðu upp til mín í kór:

 

,,Líttu á okkur! Þú ætlaðir að breyta okkur í guði en nú erum við aðeins dýr! Við kunnum hvorki að elska né hata, lúta eða stjórna, því drifkraftinum var stolið frá okkur. Mismunur mannanna er með öllu afmáður, nú eru þeir allir sömu ógeðslegu hjarðdýrin! Færðu okkur aftur stéttakerfið og valdið áður en við sökkvum ofan í jörðina!”

 

Við þessa sjón skildi ég fáránleik hugsjóna minna, féll á kné og brast í grát. ,,Skilurðu nú,” sagði drekinn ,,að ég er forsenda alls þess sem gerir lífið þess virði að lifa því? Gakktu til liðs við mig; vertu þjónn myrkursins, og í skiptum býð ég þér öll þau veraldlegu gæði sem hugur þinn girnist!” Ég horfði í hið botnlausa hyldýpi augna hans, og fann samstundis fyrir takmarkalausri sjálfsfyrirlitningu. Það rann upp fyrir mér að ég var aðeins hlægileg persóna á stóru leiksviði jarðarinnar, að hugsjónir mínar voru aðeins hjóm í samanburði við hið stóra samhengi tilverunnar. Loks mælti ég: ,,Fyrst vil ég að þú sýnir mér hvernig framtíðin yrði ef þínar óskir rættust til fulls.”

 

Þá vísaði drekinn mér að dyrum er gengu að fjallinu, og þegar ég gekk inn um þær blasti við mér risastór salur fullur af tölvuskjám. Við þá sátu stífir og sviplausir menn, sem gáfu mér engan gaum, og frá loftinu ómaði vélrænn taktur. Ég virti fyrir mér skjána; þeir sýndu hreyfimyndir af fólki í alls kyns erindagjörðum. Einn skjárinn sýndi mann að horfa á sjónvarpið, og annar niðurdregna unglingsstúlku að sprauta sig með nál. Ég stóð inni í kjarna eftirlitssamfélagsins! Sviplaus maður í einkennisbúningi, merktum Öryggismiðstöð Evrópusambandsins, dró mig þangað sem starfsfélagi hans fylgdist með svipmyndum úr lífi mínu renna yfir tölvuskjá. Ég kúgaðist af viðbjóði, og hörfaði lengra inn í fjallið þangað til ég kom að dyrum sem lágu að öðru herbergi. Þetta virtist vera einhvers konar fundarsalur og þarna sátu stórir og sterklegir menn, klæddir jakkafötum. Þeir litu á mig og hrópuðu allir í kór:

 

,,Líttu á mátt okkar og mikilfengleik! Í nafni frjálshyggju og hnattvæðingar höfum við lagt heiminn að fótum okkar! Með skefjalausri afþreyingarmenningu höfum við bælt niður mennina, slævt þá og einangrað hvern frá öðrum. Við blésum upp fjarstæðukennda hryðjuverkaógn, grófum þannig undan trausti milli manna og kölluðum yfir þá eftirlitskerfi og lögregluríki. Græðum, arðrænum og kúgum! Sprengjum, rústum og drepum! Öld höfðingjanna er risin!”

 

Og mennirnir stigu trylltan dans, hlógu og góluðu. Fas þeirra og látæði var þó með þeim hætti að ég skynjaði að gleði þeirra kom ekki frá hjartanu. Úr augum þeirra skein sektarkennd og ég fékk á tilfinninguna að innan við vöðvastælta líkamana byggju aðeins gráðugir og sjúkir vesalingar. 

 

Ég tók á rás út úr fjallinu og hélt af stað upp eftir fjallshlíðinni. Fyrir aftan mig heyrði ég fnæsið í hamstola drekanum. Ég hljóp og hljóp. Hærra, hærra.

Sent inn af Jónu Reykjavík 20 janúar 2010

 

Áður birtar smásögur og  hugleiðingar

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

 

©SigfúsSig.Iceland@Internet.is