Piparkökurnar hennar Maríu.
Einu sinni var lítill drengur sem hét Jójó. Reyndar hét hann nú Jóhann, en þegar hann fór að tala, tók hann upp á því að kalla sjálfan sig Jójó, og smám saman fóru aðrir að gera það líka.

Það var hálfur mánuður til jóla og tjörnin var lögð fallegum glærum ís. Jójó var að renna sér á nýju skautunum sínum. Hann renndi sér í hringi á ísnum og myndaði fallega boga. Þá veitti hann því allt í einu athygli að það blikaði á eitthvað í snjónum milli þúfna. Það var piparkökumót. Það var svo óvanalega skínandi og fallegt og glitraði í sólinni eins og lítil silfurstjarna. Jójó tók það upp og hljóp heim á leið til þess að sýna mömmu sinni það. „Nei, sjáum nú til“ sagði mamma við Jójó. „Þetta er nú aldeilis fínt piparkökumót. Og gott að þú skyldir finna það einmitt í dag. Ég var að hnoða deig í piparkökur sem ég ætla að baka á morgun“.
„Má ég þá baka með þér ?“ spurði Jójó.
„Alveg áreiðanlega, þú ert alltaf vanur að hjálpa mér“ sagði mamma.

Jójó bar piparkökumótið á sér allan daginn. Honum þótti gaman að handfjatla það og leika sér að því. „Þetta er kökumótið mitt“ hugsaði hann með sér. Og þegar komið var kvöld, gat hann ekki hugsað sér að skilja það við sig, heldur tók það með sér í háttinn. Stjörnurnar á himninum lýstu niður til hans í gegnum gluggann, en honum fannst að litla piparkökustjarnan hans væri miklu fallegri en þær. Þegar mamma hans kom inn til hans, til þess að laga sængina hans og segja góða nótt, sagðist hann ekkert skilja í því hvaðan kökumótið væri komið og því í ósköpunum það hefði hafnað í snjónum á milli þúfnanna.
„Það er ómögulegt að segja til um það“ sagði mamma.
„Við skulum giska á það“ sagði Jójó. „Ég giska á, að það hafi dottið niður úr himninum. Hvað giskar þú á ?“
„Ég giska á, að þú hafir rétt fyrir þér“ sagði mamma.
„En til hvers nota þeir piparkökumót þarna uppi ?“ spurði Jójó.
Mamma hans þagði svolitla stund. „Ja, nú skaltu heyra“ sagði hún. Og síðan sagði hún honum frá því, hvernig henni kæmi í hug að þetta hefði borið til. Og á meðan hún sagði frá, hélt Jójó piparkökumótinu upp að auganu og horfði í gegn um það á stjörnurnar sem eru raunverulega á himninum.
Þá gerðist dálítið einkennilegt. Hann gat séð! Hann gat séð einmitt það, sem gerst hafði þarna uppi í himninum rétt áður en litla mótið datt niður á jörðina. Og hann gat líka séð hvers vegna það hafði dottið niður.
Það var eins og herbergið hans hætti að vera til, jörðin hyrfi og hann gæti séð beint inn í himininn í gegnum litla piparkökumótið. Það varð allt jafn greinilegt og það væri í herberginu hans. Hann gat meira að segja hlustað og fundið lykt í gegnum stjörnuna! Þetta var engin smáræðis sjónauki - heimsins besti kíkir! gæti maður sagt. Jójó fór að geispa í tómri undrun yfir þessu öllu.
Hann sá Maríu meyju standa þarna í stóra fína eldhúsinu í himnaríki. Hún var í bláum kjól með hvíta svuntu framan á sér. Hún var svo elskuleg og falleg að Jójó hugsaði strax með sér, að þetta hlyti að vera góð kona. Hún var einmitt rétt í þessu að fletja út stórt piparkökudeig með kökukefli.
Fyrir utan gluggann voru litlu englarnir tveir, Aríel og Móríel. Þeir voru ekki beint mikið klæddir. En þeir voru með litla fallega vængi á bakinu. Jójó mundi vel eftir þeim af myndinni sem hékk fyrir ofan rúmið hans. Amma hafði keypt hana á Ítalíu þegar hann var lítill. Amma sagði að myndin héti sixtínska Madonnan, en hann kallaði hana bara englamyndina. Það var mynd af Maríu mey með Jesúbarnið. Neðst niðri á myndinni voru tveir englar sem studdu hendi undir kinn. Jójó fannst þeir ágætir og hann lofaði ömmu sinni að finna nöfn á þá. Jójó og mömmu hans fannst ágæt nöfnin Aríel og Móríel. Stundum þegar hann var einmana talaði hann við þá og svaraði svo sjálfur fyrir þá með því að breyta röddinni og vera svolítið skrækur. Þetta var ágætis þykjustu-leikur. En nú voru englarnir þarna beint fyrir framan hann og hann sá hvernig þeir þrýstu sér upp að rúðunni svo að nefin á þeim flöttust út. Þeir góndu með löngun og eftirvæntingu á baksturinn.
María mey kom auga á þá og fór að brosa. Hún benti þeim að koma inn og gaf þeim báðum svolítinn hluta af deiginu og sagði, að þeir yrðu bara að gæta þess að vera ekki fyrir henni. Ef þeir vildu, mættu þeir alveg fá lánuð tvö kökumót hjá henni. Og hvort þeir vildu! Það þurfti nú ekki að bjóða þeim það tvisvar. Aríel fékk kökumót sem var í laginu eins og stjarna en Móríel fékk lánað mót sem var í laginu eins og hjarta. Svo tóku þeir til óspilltra málanna.
Þeir urðu að bragða á deiginu á meðan þeir voru að baka. Það var miklu betra á bragðið en útlitið gaf til kynna. Það ranghvolfdust í þeim augun þegar þeir stungu því upp í sig - svo gott var það á bragðið. Fyrst borðuðu þeir agnarlítið af deiginu, svo meira og meira. Deigið minnkaði sífellt og áður en þeir vissu af var það búið. Það sem eftir var nægði ekki einu sinni í köku á stærð við hnetu. Þeir reyndu að sníkja svolítið í viðbót, en María vildi ekki hlusta á þá. „Það er bráðum kominn morgunmatur“ sagði hún „og maginn á ykkur er belgfullur af kökudeigi svo þið borðið líklega ekki allan englamatinn ykkar.“
„Englamatur eina ferðina enn“ sagði Aríel fýlulega og fitjaði upp á litla nebbann sinn.
„Aldrei neitt annað að borða“ tuldraði Móríel og pillaði litla fjöður úr vængnum á Aríel.
„Æ, þú meiðir mig!“ sagði Aríel og hrinti Móríel.
„Svona, svona ekki fljúgast á“ sagði María mey. „Hegðið ykkur nú skikkanlega. Hugsið ykkur ef hann sankti Pétur heyrði til ykkar, þá fengjuð þið aldeilis orð í eyra.“ Síðan sendi hún þá út.
„Iss, við fengum ekki einu sinni að prófa að baka“ sagði Aríel og hengdi haus.
„Og það er einmitt svo skemmtilegt að fá að baka kökur“ sagði Móríel. Hann var líka daufur í dálkinn.
„Sjáðu Aríel, hérna er ég með piparkökumótið. Hún María gleymdi að taka það af mér.“
Já en þetta er mótið mitt, hrópaði Aríel upp yfir sig. „Það var ég sem fékk að hafa stjörnuna.“ Hann reyndi að hrifsa til sín kökumótið, en Móríel vildi ekki láta það af hendi. Þeir réðust hvor á annan og fóru að fljúgast á svo að fjaðrirnar fuku í allar áttir.
María mey heyrði ábyggilega í þeim, en hún bara hló og hélt áfram að fletja út ilmandi degið. „Strákar eru alltaf sjálfum sér líkir“ sagði hún við sjálfa sig. „Þeir verða að fá að reyna á kraftana. Þeir verða orðnir vinir aftur fyrr en varir.“
Móríel reif sig lausan og stökk af stað með mótið. Eltingarleikurinn barst alla leið inn í hátíðarsalinn í himnaríki en þar voru einmitt nokkrir englar að ryksjúga stóra, bláa flauelsteppið. Efst í salnum sat Drottinn sjálfur í hásætinu sínu, en englarnir litlu hvorki sáu hann né heyrðu í öllum æsingnum. Að lokum voru þeir orðnir svo sveittir og móðir að þeir gátu ekki lengur flogist á og sömdu því frið.
„Þú mátt fá mótið lánað“ sagði Móríel rausnarlegur.
„Við getum skipst á um að hafa það“ sagði Aríel, sem ekki vildi vera minni maður. „Þú mátt hafa það fyrst.“
„En til hvers eigum við að nota það ?“ spurði Móríel. „Við eigum ekkert deig.“
Aríel velti vöngum yfir þessu nokkra stund. Síðan hrópaði hann upp yfir sig: „Ég veit það, ég veit það, húrra, ég fékk stórkostlega hugmynd!“
Það lifnaði heldur betur yfir Móríel. Alltaf þegar Aríel hrópaði svona upp yfir sig var eitthvað skemmtilegt í aðsigi.
„Heyrðu“ sagði Aríel, „við skulum í þykjustunni láta teppið hérna vera risastórt piparkökudeig.“
„Það skulum við gera“ sagði Móríel, „og svo látum við eins og englarnir hafi í þykjustunni verið að fletja út deigið með ryksugunni.“
Aríel lagðist á hnén og þrýsti fallega litla silfurstjörnumótinu djúpt niður í flauelsteppið. Hann lyfti því upp aftur. „Nei, sérðu“ sagði hann og var dálítið brugðið, „það kom gat á teppið! Gat sem lítur út alveg eins og stjarna.“
„Auðvitað kemur gat á deigið þegar maður er að baka kökur “ sagði Móríel og var skemmt. „Ég kann líka að búa til göt. Sjáðu mig!“
Báðir gleymdu nú allri varkárni og gleymdu alveg hvað María hafði minnt þá á. Þeir voru frá sér numdir af ákafa. Þetta var nú eitthvað alveg nýtt og skemmtilegt. Þeir höfðu aldrei fundið upp á jafn skemmtilegum leik áður. „Ég er að baka“ sungu þeir og bjuggu til piparkökur úr öllu teppinu. Þeir sungu og skríktu af kátínu svo að heyrðist alla leið inn í vaktstofu himnaríkis, þar sem heilagur Pétur sat og var að lesa í laugardagsblaði Vetrarbrautarinnar. Hann lagði við hlustir. Hann gerði sér far um að hafa vakandi auga með smáenglunum og reyna að halda þeim á mottunni. Nú virtist vera full þörf á að tala við þá í gegnum hrútshorn. Hann ýtti gleraugunum upp á ennið og spratt á fætur til þess að gera smáenglunum tiltal. Þegar hann kom inn í hátíðarsalinn og sá upp á hverju þeir höfðu tekið, varð hann í senn bæði reiður og furðulostinn!
„Hvað eruð þið að gera ormarnir ykkar!“ hrópaði hann með strangri röddu og hristi þá til. „Þið eruð búnir að eyðileggja fallega teppið hans Drottins vors. Búnir að skera út ósköpin öll af gægjugötum niður á hana gömlu, leiðu jörð. Ég skal svei mér láta ykkur fá fyrir ferðina! Og hún jómfrú María sem er að leita að fínasta piparkökumótinu sínu, - hvar eruð þið búnir að fela það? Svona, út með það!“
„Æ, æ, æ“ snökti í litlu syndaselunum. „Ææææææ!“ „Það datt niður í gegnum síðustu piparkökuna, áááááá„.
Heilagur Pétur kraup á kné á teppinu og gægðist niður um eitt gatið.„Svo sannarlega„ sagði hann, „þarna sé ég hvar það dettur niður. Það var nú aumanið. Þið gerið mig alveg gráhærðan á uppátækjunum í ykkur.“
Aríel og Móríel litu hvor á annan og gátu ekki varist brosi. Í raun var heilagur Pétur nauðasköllóttur, þótt hann mætti ekki heyra á það minnst. Sá, sem er hárlaus á höfðinu getur auðvitað ekki orðið gráhærður. Hefði hann hins vegar sagt að hann væri að verða gráskeggjaður, þá gegndi öðru máli. Annars var skeggið á honum hvítt eins og snjór og gat því ekki orðið grárra.
„Vogið þið ykkur að flissa að mér á bak“ sagði heilagur Pétur og var nú orðinn verulega reiður. „Af stað með ykkur undir eins! Farið þið til hennar Maríu meyjar og biðjið hana afsökunar! Síðan verðum við að segja Drottni vorum frá framferði ykkar og vita hvað hann hefur um málið að segja. Hann verður sjálfsagt ekki náðugur.“
„Já en okkur langar svo til að fá að horfa í gegnum fallegu götin“ sagði Aríel og reyndi að malda í móinn.
„Já, af því að það vorum við sem bjuggum þau til“ sagði Móríel.
„Sveiattan! Burt með ykkur“ þrumaði heilagur Pétur reiðilega. Englunum skildist nú að honum var full alvara og flugu á dyr eins fljótt og þeir gátu.
Heilagur Pétur rétti þunglamalega úr sér og andvarpaði um leið og hann virti fyrir sér götin í teppinu. „Nú er víst ekki annað ráð en að kalla á englana og láta þá koma með stoppunál“ sagði hann áhyggjufullur.
„Ertu nú viss um að það væri svo skynsamlegt ?“ spurði Drottinn vor blíðlega. Heilögum Pétri brá svo við, að hann hentist upp og það hringlaði í lyklakippunni hans. Hann hafði ekkert tekið eftir Drottni vorum sem sat þarna í hásætinu. Það er einmitt svo oft þannig, að maður gleymir alveg að veita Drottni athygli, þótt hann sé nærri. Hann bara er þarna þótt maður taki ekkert eftir honum.
„Nú það er víst allt og sumt sem hægt er að gera“ sagði heilagur Pétur. „Að minnsta kosti þurfum við þá ekki að horfa upp á þessi hræðilegu göt.“
„Þú átt við þessu fallegu göt,“ sagði Drottinn og brosti til gamla mansins, vinar síns. „Finnst þér stjörnur ekki fallegar?“
„Já, en þetta eru nú ekki stjörnur“ sagði Pétur með vandlætingarsvip. „Stjörnurnar lýsa og sindra en upp um þessi göt kemur bara myrkur og leiðindi frá henni gömlu, ljótu og skorpnu jörð. “
En þá bandaði Drottinn vísifingrinum að Pétri og sagði: „Kæri góði sankti Pétur, ertu ekki ennþá búinn að læra að allir hlutir hafa tvær hliðar? Í gegnum þessi göt berst örlítið af dýrð himnaríkis niður til jarðarinnar. Geturðu ekki skilið hvað smáenglarnir hafa gert?“
„Nei og aftur nei, annað get ég ekki sagt“ sagði heilagur Pétur, „áttu við að þessir englaormar hafi verið að búa til nýjar stjörnur?“
„Já, sankti Pétur, það voru þeir einmitt að gera.“
„Að hugsa sér“ sagði heilagur Pétur og var forviða, „aldrei hefði mér sjálfum komið það í hug.“
„Nei, enda er ekki svo auðvelt að láta sér detta það í hug“ sagði Drottinn vor og hló.
„O jæja, en þeir eru nú engu að síður búnir að koma þessu piparkökumóti fyrir kattarnef og það verður ekki aftur tekið“ sagði heilagur Pétur og bar sig nú aftur valdsmannslega. „Ég ætla bara að vona að hún María mey láti þá heyra það - almennilega. Það er ekki til neins að sýna svona pjökkum nokkra linkind.“ Svo snerist hann á hæl og arkaði af stað mikilúðlegur í fasi til þess að gegna einhverjum áríðandi erindum.
Á leið sinni gekk hann framhjá eldhúsglugganum hennar Maríu og varð litið inn. Og hvað sá hann? Haldið þið ekki að hún María hafi verið að gefa þeim Aríel og Móríel þeim, ekki bara obbulítið, svona rétt til að fá gott bragð á tunguna, þeir bókstaflega belgdu sig út af piparkökum.
„Að sjá þetta“ sagði heilagur Pétur önugur. „Það verður hringt í morgunmat rétt bráðum. Og hún sem sagðist vera svo eyðilögð yfir að hafa týnt kökumótinu. Nei, það hefði nú verið nær að hún flengdi þá en að gefa þeim kökur. Ég hef nú bara aldrei vitað annað eins.“
Þau voru að tala saman þarna inni og hann staldraði við og lagði við hlustir. „Vitið þið hvað?“ sagði María. „Ég er ekki neitt leið lengur. Þau mega svo gjarnan eiga mótið mitt þarna niðri á jörðinni. Það er ekki svo margt sem þau geta glatt sig við þarna nú um stundir og sjálf á ég nóg af mótum.“
Heilagur Pétur skammaðist sín svolítið. Ilminn af nýbökuðum kökunum lagði út um opinn gluggann. Hann fékk vatn í munninn. Hann bankaði á rúðuna. „Er nokkur von til þess að ég fái að smakka svo sem eins og á einni köku?“ spurði hann auðmjúkur. „Eða helst tveimur og með smjöri á milli?“
Á meðan þetta gerðist hélt lítill skínandi hlutur áfram að falla niður í átt til jarðarinnar. „Piparkökumótið hennar Maríu meyjar!“ hvíslaði Jójó og pírði aftur augun syfjulega þar sem hann lá í rúminu í skyninu frá stjörnunum. „Að hugsa sér, að það skyldi vera ég sem fann það! Já, svona hlýtur þetta að hafa gerst, því ég sá það sjálfur.“
Mamma kinkaði kolli og sagði, að aldrei hefði hún séð stjörnubjartari himinn en einmitt nú í kvöld.
„Það er ábyggilega vegna þess að Drottinn hefur farið og kveikt á öllum lömpunum sem eru í hátíðarsalnum þarna uppi, bara til þess að nýju stjörnurnar nytu sín sérstaklega vel núna“ sagði Jójó.
Og svo var hann sofnaður.

Smásaga eftir Edith Unnerstad
Flóki Kristinsson sneri úr norsku

Áður birtar smásögur og  hugleiðingar

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

©2010_SigfúsSig.Iceland@Internet.is