Ráðskona óskast, má hafa sjónvarp

Smásaga eftir Birgittu H Halldórsdóttur

 

Hann lagði jeppanum við pósthúsið og beið. Rútan var enn ekki komin. Hann kveikti í pípu sinni, en slökkti óðar í henni aftur. Það gat verið að HENNI fyndist pípulykt vond. Hann ákvað að kaupa sér vindla. Sumum konum fannst vindlalykt góð. Hann tók kipp. Þarna kom rútan á rólegri ferð og staðnæmdist rétt hjá jeppanum hans. Þá var sú stóra stund runnin upp. Ráðskonan var komin.
Hann hafði verið lengi að taka þessa ákvörðun. Það var erfitt að vera orðinn 46 ára og fá allt í einu kvenmann á heimilið. En hann hafði hugsað málið niður í kjölinn. Hann var á síðasta snúningi. Og þegar hann hafði tekið þessa mikilvægu ákvörðun, þá var ekkert sem gat haggað því. Inn á heimilið kæmi nú kona og hann ætlaði að gera það sem hann gæti til þess að hún færi ekki þaðan aftur. Margir karlmenn höfðu gifst ráðskonunum sínum. Hvers vegna ekki hann líka?
Hann skimaði í kringum sig. Það var greinilega margt fólk með rútunni þennan dag. Suma þekkti hann. Skólafólk sem var að koma heim eftir langan vetur. Þarna kom læknisfrúin og svo oddvitinn. Þau höfðu verið á einhverjum fundi í Reykjavík. En þetta fólk vakti ekki áhuga hans. Það var annað og meira sem hann beið eftir.
Loks kom hún. Það hlaut að vera hún. Fyrst sá hann langa leggi. Þröngar gallabuxur og bol. Hún hafði spengilegan vöxt. Hún var líka ungleg. Þetta var allt of gott til að geta verið satt. Hann snaraðist út úr bílnum og að rútunni.
-- Sæl, ert þú ekki nýja ráðskonan mín?
Stór himinblá augu störðu á hann og honum fannst hann vera kominn í himnaríki.
-- Fyrirgefðu, maður minn, þú hlýtur að fara mannavilt.
Hann stamaði.
-- Hva, ertu þá ekki að koma til mín?
-- Nei, svo sannarlega ekki. Ég er hárgreiðslukona og er komin hingað til að setja upp stofu hér á staðnum.
Honum fannst himin og jörð hrynja.
-- Fyrirgefðu.
Hún brosti sínu blíðasta og tiplaði léttstíg á braut.
Eitt andartak stóð hann stjarfur. Auðvitað. Þetta hafði verið of gott til að geta verið satt.
-- Góðan daginn, ert þú frá Sámsstöðum?
Hann hrökk við. Fyrir framan hann stóð miðaldra, bústin kona.
-- Jú.
-- Ég er nýja ráðskonan.
Hann var ekki strax búinn að átta sig. Þessi. Jú, það var auðvitað þessi. Hann virti hana fyrir sér. Gildir fótleggir og breiðar mjaðmir. Hún var fremur lág vexti, hárið skolleitt og hékk niður með vöngunum.
-- Komdu sæl. Það er best að við náum í dótið.
Annars hugar tók hann við töskunum hennar og heljarstórum kassa. Hvaða voðalegt drasl var þetta, ætlaði manneskjan að setjast upp eða hvað? Hann áræddi að spyrja.
-- Hvað er þetta?
-- Nú sjónvarpið maður. Þú sagðist ekki eiga sjónvarp. Svo ég tók mitt gamla með.
Það var ágætt, fannst honum. Kannski var hún ekki svo vitlaus. Það gat líka vel verið að hún væri á allan hátt notandi til síns brúks, þó hún liti ekki út eins og þokkadísin sem hann hafði villst á. Hann gekk að bílnum. Konan stansaði.
-- Er þetta þessi fíni bíll, sem þú sagðist eiga. Þessi drusla?
-- Hm, jú.
Hann varð dálítið niðurlútur. Það gat vel verið að hann hefði ýkt örlítið í símann, er hann talaði við hana. Þá hafði hann verið ölvaður af hugsuninni um að fá konuna. Hann setti farangurinn inn. Dæsandi kom konan sér fyrir í framsætinu á jeppanum. Hún fussaði og reyndi að sitja sem fremst í sætinu. Hann sá strax eftir að hafa ekki verkað bílinn. En það hafði verið svo mikið að gera hjá honum og hann varð að flytja rollurnar á jeppanum. Það var líka sauðburður hjá honum ennþá.
Hann keyrði greiðlega. Bíllinn hoppaði til á veginum með tilheyrandi drunum. Hún skyldi fá að finna hvað jeppinn kæmist. Það var ekki víst að hún kallaði hann druslu eftir þetta. Konan ríghélt sér í mælaborðið en hann blístraði glaðlega.
-- Hvað er að þér maður, Ætlarðu að drepa okkur?
Hann hægði á. Það var víst ekki gott að gera þessum borgardömum til hæfis. Leiðin heim að Sámsstöðum var ekki löng og brátt voru þau komin á leiðarenda.
--Jæja, velkomin í Sámsstaði.
Konan sat hreyfingarlaus og sagði ekki orð. Hún starði með undrun á litla húsið. Það var auðséð að það hafði ekki komist í snertingu við málningu síðustu árin. Svo hristi hún höfuðið og steig út úr bílnum.
Þau gengu inn í húsið. Hann á undan, hún á eftir. Hundurinn Sámur gelti vinalega og konan klappaði honum á hausinn.. Hún greip andann á lofti. Lyktin sem kom á móti þeim var kæfandi.
-- Hvað er eiginlega langt síðan hefur verið þrifið hér?
-- Ja, sko. Ég sópaði fyrir jólin í fyrra. En það er alltaf svo mikið að gera á vorin. Svo þegar ákveðið var að þú kæmir, þá fannst mér ástæðulaust að taka til. Konur hafa mikið betra vit á svoleiðis hlutum.
-- Ég segi nú bara SVEI. Þú ert þokkapiltur. Lokkar mig alla leið hingað í þessa svínastíu. Ertu kannski búinn að gleyma því sem þú sagðir í símann? Sagðist eiga nýlegt einbýlishús með öllum þægindum, flottan bíl og stærðar bú. Mig minnir að þú hafir líkt því við stóran búgarð. Og hvað skeður svo? Ekkert af þessu er satt. Skíturinn er vaðandi alstaðar og bíllinn að hrynja. Mér finnst heldur ekki veita af að skrúbba fleira en húsið. Og þetta er maðurinn sem sagðist eiga allt nema sjónvarp.
Hún leit með vandlætingu á hann og hann varð vandræðalegur. Það var óþarfi af henni að dylgja um að hann væri skítugur. Hann sem hafði farið í kaupstaðafötin til að sækja hana. Auðvitað hafði hann ekki haft tíma til að baða sig, en hann hafði þó sett á sig rakspírann sem systir hans hafði gefið honum í jólagjöf. Meira að segja hálfan baukinn. En hún þarf ekki að ímynda sér að hann hafi ekkert annað að gera en að liggja í baði.
-- Ég skal sýna þér herbergið þitt.
Þau fóru inn í lítið herbergi. Þar var fátæklegt af húsgögnum. Rúm, borð og einn stóll.
-- Jæja, svo þetta er dýrðin.
Konan setti töskurnar á gólfið, en gerði sig ekki líklega til að taka uppúr þeim. Hann vissi ekki almennilega hvað hann átti að gera.
-- Ég verð að fara að sinna skepnunum.
Svo fór hann út. Það var betra að hún jafnaði sig á þessu í ró og næði. Hún var sjálfsagt skapmikil, en það gerði ekkert til. Skjóna hans var það líka, þó hún væri nú eitt af bestu reiðhrossum sveitarinnar. Já, það mætti örugglega temja þessa líka. Hann gekk rólega niður túnið í átt að fjárhúsunum. Sámur skoppaði við hlið hans.
Hann kom ekki heim fyrr en liðið var að kvöldmat. Hann var búinn að dunda í húsunum allan daginn. Nú hlaut að vera óhætt að koma heim. Það hlaut að vera farið mesta loftið úr konunni.
Þegar inn kom lagði á móti honum matarlykt. Þetta lofaði góðu. Hann fór inn á baðherbergið og skolaði það mesta af höndunum á sér. Konan stóð með hendur á mjöðm og horfði á hann. Hún var sveitt og rósótt svuntan sem hún hafði sett framan á sig var orðin blettótt.
-- Sérðu ekki að ég var að þrífa?
Hann jánkaði.
-- Þá væri lágmarks tillitssemi að dusta mesta heyið af fötunum áður en þú kemur inn. Það er heyslóðin eftir þig. Svo eru handklæði til að þurrka sér á þeim en ekki til að þurrka skítinn í.
Hann leit á handklæðið í höndum sér. Einmitt. Hún hafði endilega þurft að setja hvítt handklæði. En það var ekki lengur hvítt. Nú var það blettað sauðataði.
-- Jæja, það var ekki mikið til af matvælum, en ég gerði það sem ég gat.
Þau fóru í eldhúsið. Hann fann að loftið inni var ferskara og sá að hún hafði tekið til hendinni. Mesta draslið var horfið. Það var blessun að fá svona duglega konu. Þau borðuðu og hún þvoði leirtauið.
Eftir matinn settust þau inn í stofuna. Hún hafði ekki haft tíma til að ræsta hana, en hafði sópað gólfið.
-- Hvernig var með þetta sjónvarp?
Konan dæsti.
-- Já, það er líklega best að koma því í gang.
Hún rogaðist inn með kassann og eftir töluvert brölt var komin mynd á skjáinn. Maðurinn varð dolfallinn. Þetta hefði átt að koma á Sámsstöðum fyrir löngu. Sjónvarp, það var nú meiri blessunin.. Það voru fréttir og þarna sá hann alþingismanninn sinn. Sá var orðinn feitur og herralegur. Hann sá ekki eftir að hafa kosið hann síðast.
Þegar dagskrá sjónvarpsins var lokið og þau höfðu drukkið kvöldkaffi, fór konan í háttinn. Hann sat eftir, hugsi. Ætti hann að þora? Jú, vinir hans höfðu sagt honum að ef hann ætlaði að halda konunni hjá sér, þá þýddi enga hálfvelgju. Hann yrði að taka hana með áhlaupi. Eftir nokkra íhugun áræddi hann að banka létt á herbergishurðina.
-- Já, hvað var það?
-- Hm. Mér datt í hug, hérna þú. Er ekki hlýrra ef við kúrum í sama rúmi. Það myndi spara kyndinguna.
Konan spratt upp úr rúminu. Hárið stóð út í loftið og eldur logaði úr augum hennar.
-- Þú ert geðslegur eða hitt þó heldur. Hvað heldur þú eiginlega að ég sé? Ég er heiðvirð kona skal ég segja þér og ég kom hingað sem ráðskona. Ekki til að vera hjásvæfa fyrir þig. Skítinn get ég þolað en ekki svona framkomu í minn garð. Ég ætla að láta þig vita það hér með að ég fer á morgun.
Hann stóð kyrr og starði undrandi á hana. Gat verið að hún meinti þetta? En þá færi meira en hún.
-- Ertu ákveðin í að fara?
-- Já, það fær mig enginn ofan af því.
-- En sjónvarpið?
Konan var greinilega orðin voðalega reið.
-- Sjónvarpið. Það gat verið að þú hugsaðir fyrst um það. Þú mátt hafa sjónvarpið. Ég get skilið það eftir, mér er alveg sama. Það er hvort eð er svart-hvítt og orðið hálf lélegt. Góði hirtu það.
Hann hörfaði fram á ganginn og hún skellti hurðinni.
Niðurlútur gekk hann út úr húsinu og niður túnið. Sámur trítlaði við hlið hans. Honum fannst húsbóndinn hálf dapurlegur.
-- Svona fór um sjóferð þá, Sámur litli. Kannski var það best. En við höfum þó sjónvarpið. Ætli við auglýsum nokkuð aftur fyrr en það er orðið ónýtt.

 

Áður birtar smásögur og  hugleiðingar

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

©SigfúsSig.Iceland@Internet.is