Skuggaverur.

 

Skærir pastellitir glitta í gegnum rifurnar. Lúnar og skítugar hendurnar strjúka yfir fúið timbrið. Þær færast upp og ná haldi á toppi grindverksins. Toga svo gamlan líkamann á fætur.

Hún dregur upp rósóttan silkiklút og strýkur yfir ennið. Á meðan horfir hún friðsælum augum á fugl í fjarska sem hoppar og skoppar um litbrigði himinsins – rétt eins og skuggarnir af höndum bróður hennar vörpuðust á stofuvegginn fyrir mörgum áratugum.

-----
Hundar, leðurblökur og allskyns furðuverur höfðu skemmt henni á köldum vetrarkvöldum. Því fleiri glös af sake sem bróðir hennar drakk, því fleiri verur framleiddi hann með höndunum. Hún hló, horfði og hlustaði á sögurnar þar til faðir þeirra bannaði bróður hennar að drekka meira og sagði henni að fara í háttinn: „Toriko, þótt bróðir þinn sé skemmtilegur með sín kvikindi, ímyndaðu þér þá hvað draumalandið býður upp á.“ Toriko virti föður sinn og hefur oft þakkað honum fyrir hversu hamingjusöm hún hefur verið.
-----

„Amma! Amma! Sjáðu hvað Takeshi gaf mér.“ Kagemi litla hleypur út úr húsinu og út í bakgarðinn, stefnir til ömmu sinnar sem heyrir ekki í henni, heldur starir dreymandi augum til himins. Dökkt hár Kagemi litlu hoppar og skoppar. Með báðum lófum gætir hún að litlu og hvítu fyrirbæri.

Bakgarðurinn er lítill en vel ræktaður, enda reitir Toriko illgresið í hverri viku. Faðir hennar hafði kennt henni að til þess að gróður fái líf verði hann að fá frelsi og ljós, og það sama gildi um manneskjurnar. Þess vegna hefur hún ræktað fjölskylduna á sama hátt og gróðurinn í bakgarðinum. Húsið hennar Toriko stendur í litlu hverfi í miðju borgarinnar.
„Amma Toriko?“ Kagemi litla togar í dökkbláu silkipeysu ömmu sinnar. Toriko lítur hægt við. Vot augun fyllast kærleik og glaðvært bros sprettur í útiteknu andlitinu.

„Hvað segirðu barn? Ég heyrði ekki í þér, var að horfa á fuglinn þarna.“ Toriko lyftir Kagemi litlu og strýkur henni um hárið.

„Hvaða fugl amma? Þetta? Þetta er ekki fugl.“ Kagemi lítur gapandi upp í loftið þangað sem Toriko bendir. Skuggaveran nálgast. Kagemi lítur svo aftur niður á ömmu sína og smellir léttum kossi á hrukkótta og kalda kinnina.
„En sjáðu þetta amma Toriko.“ Kagemi beinir hvíta fyrirbærinu að andliti ömmu sinnar. „Þetta er fugl. Takeshi bjó hann til og gaf mér!“ Röddin er full af þakklæti og monti.

„Hvað var bróðir þinn að gefa þér?“ Toriko tekur varlega við fuglinum, sem er úr pappír, vel samanbrotinn en örlítið krumpaður vegna ákefðar og klaufaskaps Kagemi. Toriko lyftir pappírsfuglinum upp yfir skugga grindverksins. „Sjáðu Kagemi!“ Þær líta báðar niður á vel slegið grasið þar sem skugginn af pappírsfuglinum fellur. Við hliðina fellur svartur flötur skuggaverunnar. Um leið gerir Toriko sér grein fyrir að fuglinn á himninum er flugvél. Toriko leikur fuglinn með tilheyrandi handahreyfingum og flauti. Hún lætur sem svo að skuggi flugvélarinnar sé örn að elta skugga pappírsfuglsins, sem hún segir vera álft. Kagemi litla flissar yfir vitleysunni í ömmu sinni.

„Ég myndi halda að álft myndi léttilega ráða við örn, amma.“ Takeshi stendur í bakdyrunum með krosslagðar hendur og brosir út í annað.

„Ætlaðir þú ekki að fara í skemmtigarðinn með vinum þínum?“ svarar Toriko og setur Kagemi niður á jörðina, sem skoppar í átt að rólunni undir kirsuberjatrénu.

„Ég nenni því ekki. Finnst eiginlega skemmtilegra að vera hérna í heimsókn hjá þér. Vinirnir verða alltaf til staðar.“ Takeshi gengur í átt að rólunni og byrjar að ýta systur sinni. Kagemi syngur lágt og blíðlega, dillar fótunum og strýkur hárið frá andlitinu.

Toriko tekur garðverkfærin saman og gengur í átt að bakdyrunum. Nú heyrir hún í flugvélinni.

„Sjáðu amma!“ Kagemi bendir í átt til flugvélarinnar. „Það kom egg úr flugvélinni. Kannski er þetta bara fugl.“

Skært ljós og hiti fylla himinn og jörð. Takeshi grípur utan um Kagemi og grúfir sig með hana niður á jörðina.

Toriko lítur snöggt til barnabarna sinna, en getur ekki greint þau nema sem svartar verur í ljósadýrðinni. Á meðan skinnið brennur og flagnar af henni grætur hún sjóðandi tárum, teygir sig í átt til þeirra með pappírsfuglinn í hendinni, fuðrandi. Í drununum greinir Toriko eymdaröskur frá rólunni, því hún sér ekkert lengur – augun liggja bráðnuð á jörðinni. Hún hugsar um föður sinn, að hún sé á leið inn í draumalandið til hans. Nú rennur kjötið af beinunum og hitinn og ljósið ná inn í hjartað og heilann. Svo slokknar á hugsuninni.

Þungt högg ríður yfir borgina og bakgarðinn. Líkamar þeirra leysast upp í agnir og brenna inn í eilífðina. Rólan, kirsuberjatréð, pappírsfuglinn – horfið. Toriko og barnabörn hennar verða að skuggum endurminningarinnar.

 

Áður birtar smásögur og  hugleiðingar

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

©2010_SigfúsSig.Iceland@Internet.is