Uppnuminn.

Pétur vaknaði þegar grá morgunskíman læddist inn um gluggann. Hann umlaði lágt og snéri sér á hina hliðina. Yfirleitt var hann hinn dæmigerði morgunmaður- spratt á fætur eins og stálfjöður, óður og uppvægur að takast á við verkefni dagsins. Upp á síðkastið hafði hann hins vegar verið einkennilega þungur til höfuðsins á morgnana og átt erfitt með að slíta sig úr draumalandinu. Hann mundi draumana samt aldrei, en vaknaði með óljósa óþægindatilfinningu sem hann get ekki fest fingur á.

Hann ætlaði að kúra sig upp að eiginkonunni, en uppgötvaði að hún var þegar farin á fætur. Hann andaði að sér daufum ilminum af líkama hennar og stundi. Hann var hamingjusamlega giftur ákaflega fallegri og góðri konu. Hann skildi reyndar aldrei hvernig stóð á þessari lukku hans. Hann var sjálfur heldur óásjálegur, kominn af léttasta skeiði, farinn að þéttast um miðjuna og hármottan á höfðinu heldur farin að gisna. Penelópa var hins vegar hávaxin, grönn og ljóshærð með silkimjúka, rjómalita húð. Það voru samt augu hennar sem heilluðu Pétur mest. Þau voru í sérkennilegum ljósgrænum lit sem hann hafði aldrei fyrr séð í augum nokkurrar manneskju. Þau voru búin að vera saman í tuttugu ár og gift í tíu. Honum fannst hann alltaf hafa þekkt hana og mundi varla hvernig líf hans var áður en þau kynntust.

Pétur heyrði glamur í diskum í eldhúsinu og skyndilega barst dásamlegur ilmur af nýbökuðu brauði að vitum hans. Hann spratt á fætur, byrjaði að blístra lag sem hann hafði heyrt nokkrum dögum fyrr og losnaði ekki við úr kollinum. Hann náði sér í handklæði í fataskápinn, gekk að baðherbergishurðinni og opnaði dyrnar.

“Pabbi! Er ekki í lagi með þig?”, sagði dóttir hans í forundran þegar hann æddi skyndilega á brókinni inn í herbergið hennar.
Pétur stóð og gapti í nokkrar sekúndur. Hann var handviss um að hafa gengið að baðherbergisdyrunum.
“Er ekki baðherbergið hérna?”, spurði hann aumlega og gerði sér fulla grein fyrir því hvað þetta hljómaði heimskulega.
“Ertað missa vitið”, spurði dóttir hans í gelgjutón sem hann vissi að var aðeins forsmekkurinn að samskiptamáta hennar næstu árin.
“Ég er búin að sofa í þessu herbergi síðan ég var tveggja ára......sem eru þá......látum okkur sjá.......átta ár! Ég meinaða pabbi!”.

“Fyrirgefðu elskan”, sagði Pétur og brosti til hennar. Ég er eitthvað utan við mig”. Hann lokaði hurðinni. Hjartað í honum sló hraðar en eðliegt mátti teljast og ónotatilfinningin sem hann hafði vaknað við var komin aftur. Var hann að missa vitið? Hann leit yfir ganginn að hurð herbergisins sem hann hafði talið vera herbergi dóttur sinnar. Hann opnaði hurðina varlega og gægðist inn.

Við honum blasti baðherbergi. Hann gapti aftur. Þetta var baðherbergi, en ekki baðherbergið hans. Í stað gamla baðkarsins var komið fallegt hornbaðkar, nákvæmlega eins og það sem þau höfðu dáðst að í Húsasmiðjunni helgina áður. Í stað Gustavsberg hásætisins var komið IFÖ klósett með gljálakkaðri eikarsetu. Allt voða fínt, bara augljóslega ekki baðherbergið hans.

Hann settist á IFÖ djásnið, setti höfuðið milli fótanna og andaði djúpt. Það hlaut að vera einhver rökrétt skýring á þessu. Penelópa hlaut að hafa látið gera þetta án þess að hann vissi af því. Það gat samt varla verið því hann hafði burstað í sér tennurnar kvöldið áður án þess að taka eftir neinu. Hann hristi höfuðið og ákvað að bursta í sér tennurnar og raka sig áður en hann skellti sér undir sturtuna. Kannski myndi það hressa hann við. Hann setti tannkrem á burstann og byrjaði að “skrúbba í sér skoltinn”, eins og pabbi hans hafði kallað það. Um leið og hann leit í spegilinn fékk hann annað áfall dagsins. Á höfði hans var þykkur makki af svörtu hári í stað örþunnu hármottunnar sem hafði prýtt höfuð hans síðustu árin.

Honum varð svo mikið um að hann missti tannburstann í vaskinn og tannkremið rann út um munnvikin á honum og niður á bringuna. Hann renndi fingrunum hægt í gegnum makkann. Hárið var þykkt og gljáandi og ekki nokkur vottur af flösunni sem hafði verið dyggur og pirrandi fylgifiskur hans síðustu árin. Hárið á honum var nákvæmlega eins og það var fyrir tuttugu árum síðan.
Tannkremstaumurinn lak af brjósti hans og niður á maga. Hann leit niður og fékk þá enn eitt áfallið. Í stað bumbunnar var kominn stæltur og rennilegur mallakútur sem hefði sómt sér vel á forsíðu Mens’Health. Honum sortnaði fyrir augum og hann þurfti að setjast aftur á kamarinn.
“Ókey, ég er örugglega að missa vitið”, hugsaði hann. “Þetta er enginn hrekkur, það er alveg á hreinu. Og varla hef ég yngst um tuttugu ár á einni nóttu.” Hann var í of miklu uppnámi til að klára morgunrútínuna. Hann þurrkaði af sér tannkremstaumana, dró djúpt andann og ákvað að fara niður í eldhús og ræða við Penelópu um það sem hafði gerst.

Hann gekk út ganginn að stiganum og gekk niður hann hægum skrefum. Þegar síðasta þrepinu sleppti brá honum verulega í brún. Hann stóð efsti í stiganum og hélt dauðahaldi um handriðið. Það var eins og hann hefði aldrei lagt af stað niður.
Allt hringsnérist fyrir augum Péturs. “Þetta er eins og eitthvað klikkað slönguspil”, hugsaði hann. Svo flissaði hann hátt. Hann var augljóslega að glata glórunni.
Hann byrjaði aftur að feta sig niður stigann. Fætur hans titruðu í hverju skrefi, en hann komst þó klakklaust niður í þessari atrennu. Hann gekk varlega inn í eldhúsið.

Eins og venjulega varð hann uppnuminn af því að líta konu sína augum. Hún sveif um eldhúsið eins og ballerína- virtist vart drepa niður fæti. Hún var að klára að leggja á borðið, sem var orðið hlaðið nýbökuðu brauði og ýmiskonar góðgæti. Hann horfði á hana í augnablik sem virtist vara tímunum saman. Horfði á morgunsólina dansa í hári hennar, þokkafullar hreyfingar hennar, granna ökklana og netta fæturna, ávalar mjaðmirnar sem sveifluðust svo dásamlega þegar hún gekk yfir gólfið.
Hún tók loks eftir honum, sveif yfir gólfið og bráðnaði í fang hans.

“Góðan daginn, svefnpurrka”, kurraði hún og kyssti hann á kinnina. “Fáðu þér nú eitthvað að borða.”
Allar efasemdir hans og þankar um dularfulla atburði morgunsins gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu. Hann var sem dáleiddur af þessari þokkadís sem fyrir einhverja ótrúlega heppni var konan hans.
Hann settist niður. Hún hellti nýlöguðu tei í bollann hans. Hann leit í augu hennar. Hún blikkaði hann glettnislega.
“Ég elska þig”, sagði hann. Rödd hans var bíðleg og brothætt- titraði eftir geðshræringu morgunsins.
“Ég elska þig líka”, sagði hún. “Fáðu þér nú brauð með flargi”.
Hann hristi höfuðið.
“Með hverju!?”
“Flargi, elskan. Þú veist.......það er búið til úr slörfum og flabbi”. Hún talaði blíðlega við hann eins og hann væri þroskaheftur.
Haka Péturs seig niður undir bringu. Hann leit niður á eldhúsborðið og sá þar krukku með einkennilegu bleiku áleggi sem hann var algerlega, fullkomlega, gjörsamlega viss um að hafa aldrei á sinni lífsfæddri ævi séð fyrr.

“En, elskan!”, byrjaði hann, en á sömu stundu byrjaði eldhúsglugginn að breyta um lögun. Hann varð kringlóttur og byrjaði svo að herpast saman eins og hringvöðvi. Á sömu stundu bráðnaði eldhúsinnréttingin og varð að mjólkurlitum polli á miðju gólfinu. Svo byrjuðu allir litir að dofna. Pétur leit skelfingu lostinn í græn augu konu sinnar og sá þau fölna þar til þau voru orðin grá. Þegar allt var orðið grátt byrjuðu gráu tónarnir að dökkna.
“Elskan”, gat hann naumlega stunið upp. Hann horfði í algjörri örvæntingu á heittelskaða eiginkonu sína verða sífellt óskýrari í rökkrinu. Hún sagði ekkert, horfði bara á hann með angurvært bros á vör. Hún veifaði. Veifaði þar til myrkrið gleypti hana og þann heim sem hann þekkti.

“Frá!” Bzzzzzzzzzt.

“Hækka í 360. Frá!” Bzzzzzzzzzzzzzzt.

“Púls! Við erum með Púls!

Pétur greip andann á lofti og opnaði augun. Lokaði þeim svo strax aftur. Birtan var blindandi. Litirnir æpandi. Hann andaði djúpt og ræksti sig svo. Hann reyndi að koma upp orði, en ekkert gerðist. Hann var þurrari í munninum en hann hafði nokkru sinni áður verið. Loksins tókst honum að stynja upp orði.
“Vatn”, hvíslaði hann lágt.
“Hann er með meðvitund! Guð minn góður, hann er með meðvitund! Hringið í konuna hans”.
Svo gleypti myrkrið hann aftur.

Hálftíma síðar kyssti einhver hann á kynnina.
“Pétur minn. Ertu vaknaður?”
Hann hætti á að láta rifa í augun.
“Hann þolir ekki ljósið. Má ekki draga fyrir?”
Pétur prófaði aftur að opna augun. Við rúmið stóð hugguleg ung kona, kannski rétt rúmlega tvítug. Við hlið hennar stóð á að giska þriggja ára gamall drenghnokki og starði á hann. Pétri fannst hann kannast við þau.
“Hver ert þú?, spurði Pétur konuna.
Hún táraðist og svaraði lágt:
“Ég er konan þín......Anna........þú......þekkirðu mig ekki?”
Hann þagði smástund en spurði svo:
“Hvað kom fyrir mig?”
“Þú ert búinn að liggja hér í heilan mánuð. Þú varst að ganga með hundinn uppi á Álfhól þegar þú misstir meðvitund. Við vissum ekkert hvað hafði orðið af þér og kölluðum út björgunarsveitina. Þeir fundu þig sem betur fer fljólega, en þú náðir aldrei meðvitund, fyrr en nú. Læknarnir vissu ekkert hvað var að þér. Það sáust engin merki um neinn skaða á sneiðmyndunum. Þér hrakaði samt stöðugt og núna áðan hætti hjartað í þér að slá. Svo vaknaðir þú”

Pétur horfði á ungu fallegu konuna og drenginn, hugsaði um Penelópu með grænu augun og byrjaði að gráta með djúpum ekkasogum.

 

Höf: ókunnur, sent inn 2 febrúar 2010

 

Áður birtar smásögur og  hugleiðingar

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

©SigfúsSig.Iceland@Internet.is