Uppskriftir - bökunar fisk kjöt villibráð grill smáréttir súpur salad  ofl ofl á GamanOgAlvara

Forsíðan.

Uppskriftir á GamanOgAlvara

Þessar frábæru upplýsingar eru að finna á akureyrrvefnum fa.is

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

 

 Deila á Twitter

 

1. Almennt um næringarfræði

     Almennt

      Næringarfræði fjallar um næringarefnin sem finnast í fæðu og það hvernig líkaminn meðhöndlar þessi næringarefni.  Sem fræðigrein er næringarfræði mjög ung, en óhætt er að segja að margt hafi verið uppgötvað á stuttum líftíma hennar.

Mataræði hefur ávallt átt mikilvægt hlutverk við að viðhalda heilsu.  Rannsóknir næringarfræðinnar áður fyrr snérust um að greina hvaða næringarefni í fæðunni kæmu í veg fyrir algenga sjúkdóma eins og beinkröm og skyrbjúg, sem er skortsjúkdómar af völdum ónógs D – og C – vítamíns.  Á síðari árum eru sjúkdómar sem stafa af skorti á næringarefnum á undanhaldi og rannsóknir í næringarfræði snúa því frekar að sjúkdómum tengdum ofneyslu á orku – og næringarefnum. 

Í dag er ofneysla fæðu, sérstaklega þeirri sem er rík af fitu, eitt helsta heilsufarsvandamál hinna vestrænu þjóða.

 

       Næringarefnin sex – kynning

         Sé matvæli eins og tómatur efnagreindur kemur í ljós að stærstur hluti hans er gerður úr vatni (95%). Mestur hluti fastra efna eru kolvetni, fita og prótín. Einungis lítill hluti tómatsins eru vítamín, steinefni og önnur efni. Önnur efni í matvælum eru trefjar sem eru hluti af kolvetnum en þau eru mikilvæg heilsu okkar.

Líkaminn er svipað samsettur og matvælin sem við borðum. Heilbrigður 80 kg líkami inniheldur 40 kg af vatni og 15 kg af fitu. Restin samanstendur af prótínum, kolvetnum og stein -efnum. Einungis lítill hluti líkamans er vítamín, önnur steinefni og fleira.

     Það er ótrúlegt að líkaminn getur fengið alla þá orku og nauðsynleg byggingarefni sem hann þarfnast til að starfa frá fæðunni sem við innbyrðum.  Svo lengi sem líkaminn fær þau orku– og næringarefni sem hann hefur þörf fyrir þá sér hann um að vinna úr þeim á þann hátt sem æskilegt er til vaxtar og viðhalds.

     Í þessum kafla verða kynnt til sögunnar þau næringarefni sem við fáum með fæðu og fjallað stuttlega um þessi efni.  Næringarefnin má  flokka í sex flokkar, þ.e.

 

·        Kolvetni

·        Fita

·        Prótín

·        Steinefni

·        Vítamín

·        Vatn

 

     Þau næringarefni sem hafa einföldustu uppbygginguna eru steinefnin sem samsett eru úr einu frumefni, sem þýðir að atóm þess efnis eru öllu eins.  Þar af leiðandi breytast þau ekkert við matvælavinnslu eða á ferð sinni um líkaman.

     Vatn er hins vegar samsett úr tveim frumefnum, vetni og súrefni.  Vatn og steinefni eru ólífræn næringarefni þar sem innihalda ekki kolefni.

     Hinir fjórir flokkarnir, kolvetni, fita, prótín og vítamín eru mun flóknari að byggingu.  Til viðbótar við  súrefni og vetni innihalda þau kolefni, frumefni sem finnst í öllum lifandi verum. Þar af leiðandi eru þau kölluð lífræn næringarefni.  Prótín og sum vítamín geta innihaldið nitur og jafnvel fleiri frumefni til viðbótar við þau sem áður eru nefnd. 

 

 

 

       Lífsnauðsynleg næringarefni

         Líkaminn getur myndað sum áðurnefndra næringarefna sjálfur.  Sum efnanna getur hann alls ekki myndað og önnur getur hann myndað, en ekki í því magni sem þörf er á.  Þessi næringarefni verður hann því að fá úr fæðunni.  Þau næringarefni sem fæðan verður að veita eru svokölluð lífsnauðsynleg næringarefni.  Um fjörtíu mismunandi næringarefni teljast til flokks lífsnauðsynlegra næringarefna.

 

       Orkuefnin

      Líkaminn getur nýtt sér efnin sem tilheyra þremur ofangreindum flokkum til orkugjafar, þ.e. fitu, prótín og kolvetni og kallast þau því einu nafni orkuefni. Vítamín, steinefni og vatn gefa aftur á móti ekki orku og nýtast því til annarra hlutverka í líkamanum. Líkaminn verður stöðugt að innbyrða meiri orku í stað þeirrar sem hann eyðir.

      Líkaminn notar orku í allar athafnir, frá því að sofa að því að stunda íþróttir. Öll efnaskipti í líkamanum krefjast orku og efnaskiptin eiga sér stöðugt stað. Súrefni andrúmsloftisins hjálpar okkur við að brenna orkunni sem við fáum úr fæðunni.

           Orkan sem orkuefnin gefa okkur er misjöfn. Fita gefur mesta orku en prótín og kolvetni gefa minni orku en jafn mikla hver. Við mælum orkuna í kílójúlum (kJ) eða kílókalóríum (kkal). 1 gramm af fitu gefur 9 kkal eða 38 kJ en 1 gramm af prótínum og kolvetnum gefur 4 kkal eða 17 kJ hvort. Alkóhól gefur okkur orku en flokkast ekki sem næringarefni. Aðeins lifrin getur nýtt sér orkuna úr alkóhóli og gefur 1 gramm af alkóhóli okkur 7 kkal eða 29 kJ.

            Nánast allur matur inniheldur einhverja blöndu af orkuefnunum þremur auk annarra næringarefna. Ef við innbyrðum meira af orkuefnunum en við þurfum á að halda við dagleg störf geymir líkaminn auka orku á formi fitu. Þannig fitnum við. Allur matur getur því verið fitandi.

     Vítamín og steinefni

Vítamínin eru 13 talsins. Þau gefa okkur ekki orku. Við innbyrðum þau auk þess í mjög litlu magni. Almennt má segja að helsta hlutverk þeirra sé að hjálpa til við efnaskipti í líkamanum. Vítamín eru flókin, lífræn efnasambönd og eru viðkvæm gangvart hita og ljósi. Því eyðileggjast þau gjarnan við matseld.

Steinefni sem nauðsynleg eru líkamanum eru 16. Þau gefa ekki orku frekar en vítamínin og við þurfum á þeim að halda í litlu magni. Steinefni eru stór hluti af beinum og tönnum og gegna að einhverju leyti hlutverki við efnaskipti. Þau eru ólíkt vítamínum einföld, ólífræn efni en geta einnig auðveldlega tapast úr fæðu við matseld.

       Vatn og Trefjaefni

     Flestar trefjar flokkast sem kolvetni en ólíkt kolvetnum fáum við litla eða enga orku úr trefjum. Trefjar eru samt mikilvægar heilsu okkar vegna þess að þær hjálpa til við útskilnað úrgangsefna úr meltingarfærum og bera óæskileg efni úr líkamanum og geta þannig komið í veg fyrir hjartasjúkdóma og krabbamein.

      Meirihluti líkama okkar er vatn. Hver einstaklingur þarf á um 2 lítrum af vatni að halda á dag. Það er 40 sinnum meira en við þurfum af prótínum og tæplega 7 sinnum meira en við þurfum af kolvetnum. Vatn gegnir mikilvægum hlutverkum í líkamanum. Það tekur þátt mörgum efnahvörfum í líkamanum auk þess sem það er stór hluti af öllum flutningsvökvum (flutningsvökvi er t.d. blóð sem flytur næringarefni til frumna og úrgangsefni frá þeim) líkamans.

 

       2. Ráðleggingar um mataræði

 

Ráðleggingar um mataræði eru settar af yfirvöldum út frá þeirri þekkingu sem næringarfræðin hefur fært okkur hingað til um fæðu og sjúkdóma.     

Til eru þrenns konar mismunandi ráðleggingar um mataræði.

 Þetta eru:

1.  Ráðlagðir dagskammtar ( RDS ) – ráðlegga um æskilega inntöku á vítamínum og steinefnum,

2.  Manneldismarkmið – veita ráðleggingar um æskilega samsetningu fæðunnar einkum með tilliti til hlutfalls orkuefnanna,

3.  Fæðuhringur/ fæðupýramídinn – ráðleggingar um æskilega samsetningu eintakra máltíða

       RÁÐLAGÐIR DAGSKAMMTAR ( RDS )

         Ráðlagðir dagskammtar eru það magn nauðsynlegra næringarefna sem talið er fullnægja þörfum alls þorra fólks. Mikilvægt er að athuga að þarfir einstaklinga fyrir næringarefni eru mismunandi og því ekki hægt að setja viðmið sem eiga nákvæmlega við fyrir alla.  RDS eru því frekar notaðir við að meta næringargildi fæðis fyrir hópa fólks eða sem viðmiðunargildi fyrir hollt fæði. Við setningu RDS er tekið mið af aldri og kyni sem er þeir þættir sem hvað mestur skipta þegar hugað er að næringarefnaþörf einstaklinga.                                                       RDS gildin eru nokkru yfir áætlaðir þörf flestra heilbrigðra einstaklinga en samt sem áður er til fólk sem þarf enn meira af næringarefnum en RDS gildin segja til um.                                                                                              Athugið að RDS miðast við þarfir heilbrigðs fólks. Einstaklingar með langvarandi sjúkdóma, fyrirburar og þeir sem þurfa að taka lyf að staðaldri geta haft aðra næringarefnaþörf.  Almennt má samt segja að RDS nái til 98 % þjóðarinnar.                                                                                      Hinir íslensku RDS eru ákvarðaðir hér á landi en eru mjög samhljóða þeim ráðleggingum sem gefnar eru út í nágrannalöndunum.

      Fæðuhringurinn og fæðupýramídinn

        Fæðuhringurinn og fæðupýramídinn eru ráðleggingar sem eru samskonar en settar fram á ólíkan hátt.  Bæði fæðuhringurinn og fæðupýramídinn leggja áherslu mikilvægi kornvara, grænmetis og ávaxta í fæðunni og ætti allt að   70% fæðunnar að koma úr þessum fæðutegundum.

 

       FÆÐUHRINGURINN

         Fæðuhringurinn er vel þekkt fyrirbæri á Íslandi og hefur verið notaður lengi hérlendis til að leiðbeina um æskilegt fæðuval.

Fæðuhringurinn samanstendur af fæðuflokkunum sex.  Sneiðar hringsins eru misstórar sem sýnir að vægi hvers flokks í hollu mataræði er mismikið.  Undirstaða holls mataræðis er fjölbreytt fæði þar sem borðað er úr öllum fæðuflokkum.

Eins og sjá má á hringnum ( mynd 2.1 ) er flokkurinn sem inniheldur brauð og aðrar kornvörur stærstur og eiga fæðutegundir sem honum tilheyra því að vera mikill hluti fæðunnar, þar á eftir kemur flokkur grænmetis, kartaflna og bauna, því næst kjöt – fisk og eggjaflokkur og mjólkurflokkurinn sem eru álíka stórir flokkar, ávextir og ber eru síðan sett í einn flokk og að lokum feitmeti sem er minnsti flokkurinn og því augljóst að sú fæða sem honum tilheyrir skipar ekki stóran sess í heildarsamsetningu fæðunnar.  Sætindi eru ekki hluti af fæðuhringnum enda gefa þau orku án þess þó að með fylgji næringarefni.

 

      FÆÐUPÝRAMÍDINN

        Fæðupýramídinn hefur lítið verið notaður hér á landi en er vel þekktur t.d. í Bandaríkjunum.  Eins og áður sagði byggir hann á svipaðri hugmynd og fæðuhringurinn.

Stærð hvers hluta pýramídans segir til um fjölda dagskammta sem ráðlagðir eru.  Neðsti hluti pýramídanser stærstur og gefur til kynna að kornvörur eigi að vera undirstaða í hollu fæði.  Á næsta stigi koma ávextir og grænmeti sem sýnir að það hefur ekki sama vægi og kornvörurnar en er samt sem áður mikilvægur hluti fæðunnar.  Kjöt og mjólk birtast á næsta stigi þar sem ákveðið magn af þessum fæðutegundum veita mikilvægt næringarefni, s.s. prótín.  Fita, olíur og sælgæti eru svo í efsta, en jafnframt minnsta, hluta pýramídans sem sýnir að þessarar fæðu ætti að neyta í hófi.

 

      Manneldismarkmiðin

Manneldismarkmið eru sett af Manneldisráði Íslands sem er stofnun sem starfar á vegum heilbrigðisráðuneytisins og starfar undir Lýðheilsustöð. Í manneldismarkmiðunum eru settar fram ábendingar um heilsusamlegt mataræði og miðast þau við þarfir alls þorra heilbrigðs fólks frá tveggja ára aldri og taka því ekki til sjúklinga, vannærðra einstaklinga eða ungra barna. Tilgangur með setningu slíkra markmiða er að stuðla að æskilegri þróun í mataræði þjóðarinnar og að efla heilbrigði.

Manneldismarkmiðin eru eftirfarandi:

 

1.       Hæfilegt er að prótein veiti að minnsta kosti 10% heildarorku.

 

2.           Hæfilegt er að fá um það bil 30% orkunnar úr fitu, þar af komi ekki meira en 10% orkunnar úr harðri fitu. (Með harðri fitu er átt við bæði mettaðar fitusýrur og trans-ómettaðar fitusýrur).

3.           Hæfilegt er að úr kolvetnum fáist 55-60% af orkunni, þar af ekki meira en 10% úr viðbættum sykri.

 

4.           Æskilegt er að fæðutrefjar séu að minnsta kosti 25 grömm á dag miðað við 10 MJ fæði (u.þ.b. 2400 kcal).

 

5.           Æskilegt er að saltneysla sé ekki meiri en 5 grömm á dag.

                                                

      Bæta inn rannsóknum á mataræði Íslendinga

 

 

 

3. Kolvetni

      Nemandi sem situr yfir námsbókum og einbeitir sér veltir því varla fyrir sér að í heilafrumum hans eru milljarðar glúkósaeininga sem brotna niður á hverri sekúndu til að veita honum þá orku sem hann þarfnast til að læra. Nær öll orka sem heilinn notar er á formi kolvetnisins glúkósa. Í heild er helmingur allrar orku sem líkaminn notar á formi glúkósa. Mestur afgangurinn kemur á formi fitu. Menn neyta ekki glúkósa beint með fæðunni heldur kemur hann í kolvetnaríkri fæðu en líkaminn breytir kolvetnunum í glúkósa.

      Mikið hefur verið rætt um að kolvetnarík fæða sé fitandi enda kolvetni stór hluti af daglegri fæðuneyslu okkar. Þetta er misskilningur enda samanstendur kolvetnarík fæða af grænmeti, ávöxtum og kornmeti sem eru fitulitlar fæðutegundir en jafnframt trefjaríkar.

 

Bygging og flokkun kolvetna

     Kolvetnum má skipta í einföld kolvetni og flókin kolvetni. Kolvetni eru einnig kölluð sykrur. Öll kolvetni eru gerð úr einföldum sykrum sem raðast saman í keðjur og ræður fjöldi sykranna því hvort kolvetni flokkast sem einföld eða flókin. Einföld kolvetni innihalda eina eða tvær sykrur en þau flóknu geta innihaldið þúsundir sykra.

      Kolvetni flokkast í einsykrur, tvísykrur og fjölsykrur.

 

Mynd af skiptingu kolvetna

 

Einsykrur

Öll kolvetni eru gerð úr einsykrum. Hver einsykra samanstendur af frumefnunum kolefni (C), vetni (H) og súrefni (O).

Einsykrurnar eru þrjár:

·        Glúkósi

·        Frúktósi

·        Galaktósi

Ein glúkósaeining lítur út eins og sexhyrningur og til einföldunar notum við hann til að tákna eina einingu.

 

Mikilvægasta sykran fyrir líkamann er glúkósi. Eins og áður hefur komið fram notar líkaminn glúkósa sem orkugjafa og breytir öðrum kolvetnum í glúkósa. Glúkósi er ætíð önnur sykran í tvísykrum og fjölsykrur eru eingöngu gerðar úr glúkósa. Mikilvægasti fæðuorkugjafi heims er glúkósi. Glúkósi er ekki eins sætur og venjulegur hvítur, unninn sykur en þó nokkuð sætur. Glúkósi er seldur í apótekum undir heitinu þrúgusykur.

Frúktósi er sætasta sykran og er náttúrulega í ávöxtum og hunangi. Galaktósi kemur sjaldan fyrir stakur í náttúrunni en finnst í tvísykrunni laktósa (mjólkursykri) ásamt glúkósa. Nánast ekkert sætubragð er af galaktósa.

Tvísykrur

Þrjár tvísykrur eru mikilvægar í fæðunni. Þær eru:

  • Súkrósi

  • Laktósi

  • Maltósi

Súkrósi er gerður úr einsykrunum frúktósa og glúkósa. Hann er sá hvíti, unni sykur sem við þekkjum best. Hann er unninn úr safa sykurreyrs og sykurrófa og mulinn.  Hann verður hvítur, brúnn eða flórsykur eftir því hvernig hann er hreinsaður. Laktósi, öðru nafni mjólkursykur er gerður úr galaktósa og glúkósa. Hann er að finna í mjólk og er um 5% af þyngd mjólkur en um 30-50% af orku hennar. Maltósi er gerður úr tveimur glúkósaeiningum. Maltósi verður til þegar fjölsykran sterkja er brotin niður. Þetta gerist við gerjun á korni og við meltingu manna á kolvetnum.

Fjölsykrur

Þrjár gerðir fjölsykra eru mikilvægar fyrir næringu manna. Þær eru:

·        Glýkógen

·        Sterkja

·        Trefjar

Glýkógen er að finna í litlu magni í kjöti og alls ekki í jurtaríkinu. Glýkógen gegnir þó mikilvægu hlutverki í líkamanum. Hann myndar glýkógen úr glúkósaeiningum ef mikið er af þeim í blóðinu og umfram þörf fyrir orku. Glýkógen er aðallega geymt í lifur en einnig að litlu leyti í vöðvum. Seinna, þegar þörf er á orku, brýtur líkaminn glýkógen niður með hjálp ensíms og notar glúkósaeiningarnar til orkugjafar. Jurtir geyma glúkósa á formi sterkju eins og líkaminn geymir hann á formi glýkógens. Eini munurinn á fjölsykrunum tveimur er sá að færri hliðarkeðjur eru í sterkju en glýkógeni. Jurtir geta geymt mun meira af glúkósa en mannslíkaminn og því fáum við mikið af sterkju úr ákveðnum fæðutegundum svo sem kornmat.

Síðustu ár hefur athygli vísindamanna beinst æ meir að trefjum vegna þeirrar staðreyndar að þær virðast geta komið í veg fyrir sjúkdóma af ýmsu tagi eins og hjartasjúkdóma, sykursýki og ýmsa sjúkdóma tengda þörmum. Trefjar flokkast í tvo hópa, vatnsleysanlegar- og óvatnsleysanlegar trefjar:

Vatnsleysanlegar trefjar:

·        Gúmmí og slím

o   Gúmmí vellur úr sári sumra trjátegunda þegar börkur þeirra er skorinn. Þau eru t.d. notuð í sælgætisiðnaðinum.

·        Pektín

o   Finnst aðallega í grænmeti og ávöxtum (mest í sítrusávöxtum og eplum). Gjarnan notað til að hleypa sultur.

    Óvatnsleysanlegar trefjar:

·        Hemisellulósi (getur tilheyrt báðum flokkum)

o   Úr afleiðum einsykra og er aðaluppistaðan í trefjum korns. Hemisellulósi er fjölbreyttur hópur trefja.

·        Sellulósi

o   Er uppbyggingarefni plantna og er úr glúkósaeiningum sem tengjast saman.

 

Trefjar eru fjölsykrur eins og önnur kolvetni. Byggingu sellulósa svipar mjög til sterkju en efnatengin milli glúkósaeininganna í sellulósa eru öðruvísi en í sterkju. Meltingarfæri manna geta ekki brotið niður efnatengin í sellulósa eins og þau gera við sterkju og þar af leiðandi geta menn ekki melt sellulósa á sama hátt og jórturdýr. Einnig eru til trefjar sem flokkast ekki til kolvetna svo sem lignín og tannín.

      Trefjar eru að mestu leyti í sömu matvælum og sterkja þ.e. grænmeti, ávöxtum og kornmat.

 

Melting og frásog kolvetna

        Í stuttu máli meltir líkaminn kolvetni á þann hátt að ensím brjóta langar fjölsykrukeðjur niður í stuttar. Þá eru stuttu keðjurnar brotnar niður í tvísykrur sem að lokum eru klofnar niður í einsykrur. Það gefur auga leið að líkaminn þarf ekki að hafa eins mikið fyrir því að brjóta niður tví- og einsykrur eins og fjölsykrur og trefjar eru ómeltanlegar að mestu leyti.

Melting sterkju og tvísykra

Munnvatnskirtlar seyta vökva í munninn til að mýkja matinn. Í munnvatninu er ensím sem kallast amýlasi. Það brýtur sterkju niður í smærri einingar sem kallast maltósi og samanstendur af tveimur glúkósaeiningum. Fæðan flyst svo eftir vélinda niður í maga. Magasýrurnar og magaensím óvirkja amýlasa og við það stöðvast melting á kolvetnum. Þá fer fæðan niður í smáþarma en þar sem meltingarvökvi sem inniheldur amýlasa sem framleiddur er í briskirtli. Þá hefst melting á sterkju á nýjan leik þar sem fjölsykrur brotna niður í maltósa og maltósi klofnar í tvær glúkósaeiningar. Þarna klofna einnig aðrar tvísykrur niður í einsykrur. Súkrósi klofnar í frúktósa og glúkósa og laktósi (mjólkursykur) klofnar í galaktósa og glúkósa. Í smáþörmunum frásogast einsykrurnar útí blóðið og lifrin sér svo um að breyta frúktósa og galaktósa í glúkósa sem nýtist svo til orkugjafar.

Melting trefja

Eins og kom fram í inngangi kaflans meltast trefjar ekki nema að takmörkuðu leyti. Í munni eru trefjarnar muldar og saxaðar af tönnum og blandaðar munnvatni til að mýkja þær og auðvelda ferð þeirra í gegnum meltingarveginn. Ekkert gerist svo fyrr en í ristli en þar geta bakteríur brotið niður hluta af trefjunum. Ensím sem þær framleiða breyta trefjum í fitusýrur og gas.

 

Hlutverk kolvetna

Meginhlutverk kolvetna, annarra en trefja, er að veita líkamanum orku. Þegar einstaklingur borða næg kolvetni á hann nægar orkubirgðir og líkaminn þarf ekki að leita að orku annars staðar eins og í prótín. Því má segja að kolvetnaneysla spari prótín sem þá nýtast í annað eins og uppbyggingu í líkamanum. Neysla á kolvetnaríku fæðu veitir einnig mikilvægar trefjar auk vítamína og steinefna.

Kolvetni í líkamanum

Geymsla á glúkósa á formi glýkógens

Þegar einstaklingur neytir meira af kolvetnum heldur en þörf er á til orkunotkunar þá stundina grípur lifrin inní og bindur glúkósaeiningar saman í fjölsykruna glýkógen, sem misst var á í upphafi kaflans. Lifrin geymir svo glýkógenið þar til þörf er á orku. Lifrin getur geymt 1/3 af öllu glýkógeni líkamans. Þegar einstaklingur hefur neytt lítið af kolvetnum brýtur lifrin glýkógenkeðjuna niður í glúkósaeiningar og veitir þeim útí blóðið þar sem þær ferðast til þeirra staða þar sem þörf er á orku. Sérstaklega er þetta ferli mikilvægt fyrir heila- og taugakerfið sem geta eingöngu nýtt glúkósa sem orkugjafa. Vöðvar geyma 2/3 af glýkógenbirgðum líkamans en þeir nýta þær eingöngu fyrir sig þegar þörf er á orku en önnur líffæri hafa ekki aðgang að þeim birgðum. Líkaminn er aðeins fær um að geyma lítið magn af glúkósa á formi glýkógens og nemur það orkuþörf einstaklings sem æfir í nokkrar klukkustundir. Ef ekkert hefur verið neytt af kolvetnum í lengri tíma þarf einstaklingur að fá orkuna annars staðar, úr fitu. Kolvetni binda talsvert vatn sem tapast úr líkamanum ef kolvetnið klárast. Fita aftur á móti bindur ekki vatn.

Glúkósi nýttur sem orkugjafi

Þegar glúkósi kemur inní frumuna er hann klofinn í tvennt. Hlutarnir eru svo klofnir enn frekar þangað til eftir er aðeins vatn og koltvíoxíð. Við þetta ferli losnar orka. Á miðju klofningsferlinu geta litlu einingarnar breyst í fitu í stað þess að enda í vatni og koltvíoxíði. Þetta gerist þegar einstaklingur þarf ekki á glúkósa að halda og glýkógenbirgðirnar eru fullar. Þegar einstaklingur borðar ekki nægilegt magn af kolvetnum og glýkógenbirgðirnar klárast þarf líkaminn að leita eftir orku annars staðar. Hægt er að breyta prótínum í glúkósa en líkaminn reynir að forðast það eftir megni því prótín hafa öðrum, mikilvægum hlutverkum að gegna í líkamanum. Nægileg, dagleg neysla á kovetnum kemur í veg fyrir að prótínum sé breytt í glúkósa og því eru kolvetni “prótínsparandi”. Hægt er að nýta fitu eingöngu til orkugjafar en hún dugir skammt því heila- og miðtaugakerfið geta aðeins notað glúkósa til orkugjafar og hann er einnig nauðsynlegur til myndunar á rauðum blóðkornum. Þegar líkaminn þarf að nýta fitu til orkugjafar er glúkósi einnig til staðar. Glúkósi og fita bindast saman og brotna þannig niður og orka losnar. Þegar glúkósann vantar alveg bindast tvær fitueiningar saman og mynda svokallaða ketónkroppa. Ef þeir ná að safnast saman í blóðinu leiðir það til svokallaðrar ketósu sem getur verið banvæn. Til að koma í veg fyrir þetta ástand þarf einstaklingur að neyta um 50 – 100g af kolvetnum á dag sem samsvara um 200 – 400 kkal.

Glúkósi breytist í fitu

Stundum neytir einstaklingur neytir meira af kolvetnum en sem nemur orkuþörf hans og neyslan nær að fylla glýkógenbigðir hans. Þá bregður lifrin á það ráð að kljúfa glúkósaeiningarnar niður og breyta þeim í langlífara geymsluformið fitu. Fitan er svo geymd í fituvef líkamans. Sjaldan kemur fyrir að einstaklingur neyti svo mikils kolvetnis að þetta gerist, helst er það þegar mjög sykurríkra matvæla er neytt eins og sælgætis.

Trefjar    í Líkamanum

Hlutverk trefja er nokkuð mismunandi eftir því hvort trefjarnar eru vatnsleysanlegar eða óvatnsleysanlegar. Hlutverk vatnsleysnalegra trefja eru:

·        Tefja fyrir tæmingu magans og hægja á ferð fæðunnar gegnum þarmana.

·        Lækka magn kólesteróls í blóði.

Hlutverk óvatnsleysanlegra trefja eru:

·        Flýta fyrir ferð fæðunnar gegnum þarmana.

·        Auka massa hægða.

Sameiginleg hlutverk beggja flokka trefja eru:

·        Hægja á niðurbroti sterkju og frásogi glúkósa í blóðið

·        Meltar af bakteríum í þörmum og myndast við það næringarefni sem líkaminn getur nýtt sér (sjá kaflann um meltingu kolvetna).

Trefjaríkri fæðu fylgir oft efni sem kallast phytic-sýra. Hún er einkum í kornfræjum. Phytic-sýra flokkast ekki til trefja en hún hefur þann eiginleika að bindast steinefnum, eins og járni, sinki, kalki, magnesíumi og kopar, og bera þau með sér útúr líkamanum.

Eins og áður hefur komið fram hafa rannsóknir sýnt fram á að neysla á trefjaríkri fæðu getur minnkað líkur á hjartasjúkdómum, sykursýki og ristilkrabbameini. Ekki er þó búið greina nákvæmlega hvað það er í trefjaríkri fæðu sem veldur þessum æskilegu áhrifum en vitað er að ef trefjaríkrar fæðu er neytt þá minnkar fitu-, sykur-, kólesteról- og saltneysla og heildarorkuneysla verður minni.

Þyngdarstjórnun

Neysla á trefjaríkri fæðu veldur því að inntaka á fitu og sykri verður minni og þar af leiðandi heildarorkuneysla líka. Einnig auka trefjar við þann tíma sem fæða dvelst í maga auk þess sem þær draga til sín vatn og auka þannig rúmmál fæðunnar í maganum. Þannig finnst einstaklingi hann saddari. Þetta veldur því að auðveldara er að stjórna þyngd og minnkar líkur á offitu. Til að takast á við offituvandamál er mun skynsamlegra að velja trefjaríka fæðu eins og grænmeti og ávexti í stað tilbúinna trefja. Rannsóknir hafa sýnt að sú leið er mun áhrifaríkari til þyngdarstjórnunar.

Heilbrigði ristils

Fitusýrur sem baktreríur framleiða úr trefjum virðast hvetja til frásogs á söltum og auka heilbrigði slímhúðar í þörmum. Þetta veldur því að ristillinn er betur í stakk búinn að stjórna frásogi á æskilegum og óæskilegum efnum sem við neytum. Trefjar auka massa hægða og hleypa þeim hraðar í gegnum ristilinn. Þarna gegnir sellulósi meginhlutverki. Þetta kemur í veg fyrir hægðatregðu en hún veldur álagi á veggi ristilsins. Einnig geta stórar mjúkar hægðir komið í veg fyrir gyllinæð því þetta veldur minna álagi á endaþarmsvöðva. Í stuttu máli má segja að trefjarnar haldi vöðvum þarma og ristils við og geri þá styrkari. Talið era ð trefjar geti komið í veg fyrir ristilkrabbamein með því að blanda og þynna út og bindast krabbameinsvaldandi efnum og skila þeim útúr líkamanum.

Lækkun á kólestróli í blóði

Trefjar geta binst galli og óvirkjað það en gall hjálpar til við frásog á fituefnum svo sem kólesteróli. Kólesterólmagn í blóði minnkar svo enn frekar því lifrin notar kólesteról til að framleiða nýtt gall til að koma í stað fyrir það sem trefjarnar óvirkjuðu. Einnig geta afurðir meltingar á trefjum komið í veg fyrir að líkaminn framleiði kólesteról í sama magni og áður. Eins og kom fram í inngangi kaflans veldur trefjarík fæða því að minna er neytt af fæðukólesteróli.

Trefjar og sykursýki

Trefjar hægja á frásogi glúkósa útí blóðið. Þetta veldur því að blóðsykur hækkar hægt og lítið insúlín þarf til að bregðast við. (Nánar verður fjalla um næringu og sykursýki sienna).

Neikvæðar hliðar trefja

Ef of mikilla trefja er neytt er hætta á skaðlegum áhrifum þeirra á líkamsstarfssemina. Of mikil trefjaneysla getur valdið því að einstaklingur neytir of lítillar orku og fær þar af leiðandi ekki þau næringarefni sem hann þarfnast. Þetta getur valdið næringarskorti. Ef einstaklingur eykur magn trefja í fæðunni of hratt getur það veldið óþægindum í meltingarvegi eins og mikilli loftmyndun. Best er að auka magn þeirra hægt og rólega og drekka mikið magn vökva um leið. Trefjar auka hraða fæðunnar gegnum meltingarveginn. Ef of mikilla trefja er neytt getur fæðan farið það hratt í gegn að líkaminn nær ekki að nýta þau næringarefni úr fæðunni sem til staðar eru. Einnig geta trefjar bundist ákveðnum steinefnum og dregið þau með sér útúr líkamanum. Talið er að hæfileg neysla trefja hafi ekki áhrif á frásog á þessum steinefnum.

Kolvetni í fæðu

Samkvæmt manneldismarkmiðum ætti magn kolvetna í fæðu að vera 55-60% af heildarorkuneysla og af því ætti ekki að koma meira en 10% úr viðbættum sykri. Magn trefja ætti að vera um 25g miðað við 2400 kkal (10.000 kJ) fæði.

Segja mætti að kolvetnin komi úr nokkrum fæðuflokkum, kornflokki, mjólkurflokki, sælgætisflokki, grænmetisflokki og ávaxtaflokki. Í kornflokki er sterkja og trefjar, í mjólkurflokki er laktósi eða mjólkursykur, í sælgætisflokki er að mestu viðbættur sykur (tvísykran súkrósi), í grænmetisflokki er sterkja og trefjar og í ávöxtum eru ein- og tvísykrur auk trefja. Allir flokkar nema sælgætisflokkur innihalda svo margskonar vítamín og steinefni sem nauðsynleg eru líkama okkar. Ef við fengjum flest kolvetnin úr sælgæti og kökum myndum við verða af trefjum og ýmsum nauðsynlegum vítamínum og steinefnum. Eins og áður hefur komið fram er líkaminn lengi að brjóta niður sterkju en lítið þarf að melta ein- og tvísykrur. Í sælgæti er að mestu tvísykran súkrósi sem meltist hratt og fer þar af leiðandi hratt útí blóðið. Við þetta hækkar blóðsykurinn hratt og menn fá svokallaða skyndiorku. Að saman skapa klárast sykurinn hratt og blóðsykurinn hrapar. Þetta veldur þreytu og slappleika og svengd. Einstaklingar leita þá gjarnan í sætindi og getur þetta orðið vítahringur sem leiðir til offitu. Önnur kolvetnarík matvæli gefa fyllingu því kolvetnin binda vatn og þeim fylgir sjaldnast mikil fita. Neysla á kolvetnaríkum matvælum er því til þess fallin að koma í veg fyrir offitu frekar en stuðla að henni.

Trefjar fylgja flestum kolvetnaríkum matvælum en ólíkir flokkar trefja finnast í mismunandi matvælum. Hægt að miða við þá reglu að vatnsleysanlegar trefjar finnist að mestu leyti í ávöxtum, höfrum, byggi og baunum. Óvatnsleysanlegar trefjar eru í meira mæli í grænmeti, korni og hveiti. Frá þessu eru þó undantekningar.

4. Prótín

       Prótín og vöðvar hafa verið samfléttuð hugtök í gegnum tíðina. Þeir sem sækjast eftir miklum vöðvastyrk borða gjarnan prótínríka fæðu til að styrkja vöðvana og þá er kjöt ofarlega á lista yfir prótínríkar fæðutegundir en einnig ýmsar tilbúnar duftvörur. Rétt er kjöt og bætiefni innihalda mikið af prótínum en það gera margar aðrar fæðutegundir einnig og mætti þar nefna mjólk, egg, korn og grænmeti auk þess sem neysla á prótínum á formi tilbúinna drykkja er ekki gallalaus. Í þessum kafla verður varpað ljósi á prótín sem orku- og næringarefni. Prótín eru líkamanum mikilvæg en þau eru aðeins eitt af mörgum næringarefnum sem líkaminn þarfnast.

     Bygging og flokkun Prótína

       Prótín hafa mjög sérstaka byggingagerð sem veitir þeim fjölbreyttari hlutverk í líkamanum heldur en fitu og kolvetnum. Prótín innihalda sömu frumefni og kolvetni og fita þ.e. súrefni (O), vetni (H) og kolefni (C) en þar að auki köfnunarefni eða nitur (N).  Þessi atóm tengjast saman og mynda svokallaðar amínósýrur sem eru byggingareiningar prótína.

       Prótín flokkast í samsett og einföld prótín. Einföld prótín eru aðeins gerð úr amínósýrum sem raðast saman í röð en samsett prótín eru gerð úr amínósýruröðum og einhverju öðru efni eins og fitusýru.

     Amínósýrur

      Prótín eru byggð úr 20 mismunandi amínósýrum, sú einfaldasta heitir glýsín. Líkaminn getur búið til meirihluta amínósýranna sjálfur en nokkrar eru lífsnauðsynlegar. Þær eru Ísóleusín, leusín, lýsín, meþíónín, fenylalanín, þreónín, tryftófan og valín. Auk þess er histidín lífsnauðsynleg fyrir ungbörn. Aðrar amínósýrur eru glýsín, alanín, arginín, asparagín, aspartic sýra, systín, glútamic sýra, glútamín, glýsín, prólín, serín og týrósín.

       Amínósýrur mynda prótín

        Amínósýrur geta tengst saman á þúsundir mismunandi vegu og myndað þannig þúsundir ólíkra prótína. Þessu má líkja við þegar margar glúkósaeiningar tengjast saman og mynda fjölsykrur nema að því leyti að glúkósaeiningarnar eru allar eins. Þegar færri amínósýrur en 50 tengjast saman kallast keðjan fjölpeptíð en þegar þær eru orðnar fleiri en 50 tölum við um prótín. Amínósýrur geta verið frá nokkrum tugum uppí nokkur hundruð í einnig keðju. Dæmi um lítið prótín í líkamanum er insúlín sem inniheldur 51 amínósýru. Mannslíkaminn inniheldur 10 – 15.000 ólík prótín að talið er og aðeins um 1000 þeirra hafa verið skilgreind.

Mynd 1. Insúlín

insulin2

Myndin sýnir amínósýrubyggingu insúlíns.

En þessi útskýring á byggingu prótína dugir ekki til að skilja ólíka virkni prótína því fleira kemur til. Það er ekki aðeins röð amínósýranna í keðjunni sem skiptir máli heldur einnig hvernig lögun keðjunnar er. Þær geta verið beinar, gormlaga og kúlulaga.

Við ákveðna meðhöndlun geta prótínin óvirkjast og stundum er ferlið óafturkræft. Dæmi um þetta er þegar eggjahvíta harðnar við hitun eða stífnar við þeytingu. Eins þegar mjólk hleypur í kekki við að súrna.

      Melting og frásog

       Melting prótína hefst í munni eins og melting annarra orkuefna með því að tennur kljúfa matinn niður og munnvatn mýkir hann. Í maganum virkjar saltsýra ensímið pepsín auk þess sem hún vindur utan af prótínunum. Pepsín brýtur prótínin niður í smærri einingar. Í smáþörmum eru einingarnar brotnar enn frekar niður, jafnvel í stakar amínósýrur. Þarna eru þær svo frágogaðar útí blóðið.

     Hlutverk prótína í líkamanum

      Prótín gegna margvíslegum hlutverkum í líkamanum.

·        Byggja upp og lagfæra vefi og vöðva

·        Hluti af ensímum

·        Hluti af hormónum

·        Taka þátt í vökva- og sýru-, basajafnvægi líkamans

·        Hluti af mótefnum ónæmiskerfisins

·        Taka þátt í blóðstorknun

·        Taka þátt í að flytja efni um líkamann sem flutningsprótín

·        Hluti af sjón

Vöðvar og vefir

Prótín eru aðalbyggingarefni vöðva og vefja líkamans en einnig beina og tanna. Líkaminn býr t.d. til net úr pótíninu kollageni og í það setjast svo steinefni sem herða netið og mynda bein og tennur. Líkaminn er í stöðugri endurnýjun og myndar fjölda nýrra frumna á hverjum sólarhring. Sumar frumur lifa ekki nema í 3 sólarhringa og þá þarf að skipta þeim út. Líkaminn er stöðugt að byggja upp nýja vöðva og vefi og því er nauðsynlegt að nóg sé af lífsnauðsynlegum amínósýrum en þær þurfa að koma úr fæðu. Ef eina lífsnauðsynlega amínósýru vantar í fæðu en hún er mikilvæg til að byggja upp vef eða vöðva kallast sú amínósýra takmarkandi amínósýra því hún takmarkar uppbyggingu tiltekins vefs eða vöðva.

Líkaminn notar einnig kollagen til að byggja upp rifna húð eða vöðva og myndar þannig ör milli sárabarmanna. Líkaminn er stöðugt að brjóta niður og byggja upp ný prótín. Flestar amínósýrur sem til verða við slíkt niðurbrot, nýtast aftur, en aðrar tapa köfnunarefni sínu og eru nýttar sem orkuefni. Köfnunarefnið er skilið útúr líkamanum sem hluti af þvagi.

Ensím og hormón

Ensím geta haft margskonar hlutverk. Þau brjóta niður fæðu í meltingarveginum, byggja upp ný efni í líkamanum og flytja eitt efni til annars. Öll ensím eru prótín. Í stuttu máli þarf því prótín til að byggja upp prótín í líkamanum. Sum hormón eru einnig prótín. Hormónið insúlín sér t.d. um að koma einsykrunni glúkósa inní frumur þar sem það er nýtt sem orka.

     Prótín  í lÍkamanum

Líkaminn getur búið til þær amínósýrur sem hann þarf á að halda úr öðrum amínósýrum og glúkósa, nema þessar lífsnauðsynlegu. Líkaminn getur einnig búið til önnur nauðsynleg efni úr amínósýrum. Sem dæmi getur hann notað amínósýruna tryptofan til að búa til vítamínið níasín og taugaboðefnið serotonin. Að auki getur líkaminn nýtt amínósýrur sem orku. Þegar glúkósi er ekki til staðar getur  líkaminn breytt amínósýrum í glúkósa til að veita heila- og taugafrumum orku. Ef of mikið er af prótíni í fæðu, breytir líkaminn umframmagninu í fitu og geymir hana í fituvöðvum. Áður en þetta er gert þarf þó að losa köfnunarefni frá amínósýrunni en því er skilað út með þvagi eins og áður hefur komið fram.

     Prótínskortur og ofneysla á prótínum

        Prótín-orkuskortur (PEM)

       PEM er algengasta form næringarskorts í heiminum. Talið er að allt að 500 milljónir barna í Afríku, Mið-Ameríku, Suður-Ameríku og Austurlöndum nær og fjær þjáist af PEM. Afleiðingin er sú að börnin stækka ekki eðlilega og  tapa þyngd. Oft er erfitt að greina PEM þar sem börn sem eru lítil eftir aldri af völdum prótínskortsins líta oft eðlilega út að öðru leyti. PEM er sjaldgæfara meðal fullorðinna en barna þar sem þau eru að stækka og þurfa þar að leiðandi mikið prótín. PEM hefur þó sést meðal alnæmissjúklinga, krabbameinssjúkra, anorexíusjúklinga o.þ.h. PEM skiptist í tvenns konar sjúkdóma, marasmus og Kwashiorkor.

        Marasmus

      Kemur oftast fram meðal barna á aldrinum 6-18 mánaða sem borða mest þunna korngrauta. Þeir innihalda litla orku og prótín með lágt lífgildi. Einkenni sjúkdómsins eru að börnin líta út eins og gamalmenni, aðeins skinn og bein. Afleiðingarnar eru einnkum þær að með of lítilli næringu rýrna vöðvar og veikjast þar á meðal hjartavöðvinn. Heilinn þroskast ekki eðlilega og líkamshitinn er lágur. Nánast engin fita er undir húðinni til að halda á börnunum hita. Þau bregðast við þessu ástandi með því að nota eins litla orku og mögulegt er. Þau gráta jafnvel ekki af hungri. Líkaminn lætur hjarta, heila og lifur njóta forgangs um allt prótín sem barnið innbyrðir. Þannig hægist á vexti barnanna og þau líta út eins og tveggja ára við fjögurra ára aldurinn. Húð barnanna missir teygjanleika sinn og þornar upp. Hún skorpnar og sár myndast sem gróa seint. Meltingarensím eru fá, því þau eru jú gerð úr prótínum. Meltingarvegurinn missir hæfileika sinn til að melta mat. Barnið getur því síður melt þann litla mat sem það þó fær. Starfsemi ónæmiskerfisins raskast því það er að mestu byggt upp af prótínum og börnin verða viðkvæm fyrir sýkingum. Niðurgangur er afleiðing af sýkingu í þörmum og börnin geta enn síður melt matinn sem þau fá. Hægt er að bjarga þessum börnum með réttri næringarmeðferð. Þeim er smám saman gefinn meiri matur sem inniheldur prótín, kolvetni, vítamín og steinefni. Þegar meltingarkerfið hefur jafnað sig er þeim svo gefin fita.

     Kwashiorkor

     Ekki eru menn á eitt sáttir hvort kwashiorkor sé seinna stig marasmus sjúkdómsins eða hvort hann sé önnur gerð prótínskorts. Þá er átt við að fórnarlömbin fái næga orku úr fæðunni en að í henni sé ekki nægjanlegt magn prótína til að svara þörf líkamans. Önnur hugmynd er sú að sjúkdómurinn sé af völdum matareitrunar þar sem hann kemur aðeins fram á vissum svæðum í heiminum. Ekki ber á honum í sumum löndum þar sem hungursneyð er algeng. Eitur sem kallast aflatoxín og getur t.d. fundist í hnetum og mygluðu korni kemur í veg fyrir nýmyndun prótína og er talið geta verið orsök kwashiorkors. Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að sjúklingurinn tapar ekki mikilli líkamsfitu. Prótín og hormón (sem mörg eru gerð úr prótínum) sem áður stjórnuðu vökvajafnvægi líkamans tapast, vökvi safnast saman í maga og sjúklingur fær vömb. Einnig myndast fitulifur (skorpulifur) þar sem prótín sem sjá um að flytja fituna frá lifur eru ekki til staðar.

      Ofneysla prótína

      Kaldhæðnislegt er að þegar almenningur í vanþróuðu löndunum á í erfiðleikum með að útvega nægilega prótínríka fæðu þá hafa Vesturlandabúar aðgang að of miklu prótíni úr fæðunni. Ekkert er að græða á því að borða of mikið af prótínum. Það getur auðveldlega valdið offitu þar sem matur sem inniheldur mikið af prótínum inniheldur oft mikið af fitu líka. Einnig er hætt við að ef of mikið prótín er innbyrt þá verði ávextir og grænmeti útundan í fæðuvali. Þá getur ofneysla prótína valdið því að of mikið álag verður á nýru og lifur þar sem þessi líffæri sjá um að losa okkur við köfnunarefni (N) sem prótínin innihalda. Vitað er einnig að ofneysla á prótínum getur valdið því að kalk losnar úr líkamanum. Það skiptir þó máli hvaðan prótínin koma. Mun meira kalk losnar út með þvagi ef neytt er tilbúins prótíns en ef það kemur úr náttúrulegum matvælum. Því er hætta á beinþynningu meðal þeirra sem taka inn of mikið prótín á fomi t.d. prótíndrykkja. Magn prótína sem æskilegt er að sé innbyrt fer eftir einstaklingum t.d. hve nýrun starfa hratt. Ráðlagt er að ekki sé neytt minna en það magn sem manneldismarkmiðin segja til um og ekki meira en tvöfaldur sá skammtur.

     Prótín í fæðunni

Samkvæmt manneldismarkmiðum ættu prótín að vera a.m.k. 10% af heildarorkuneyslu. Prótín finnast mjög víða í fæðu og bæði í jurta- og dýraríkinu. Helstu prótíngjafar í dýraríkinu eru:

·        Kjöt og fiskur

·        Mjólkurvörur

·        Egg

Helstur prótíngjafar úr jurtaríkinu eru:

·        Baunir

·        Hnetur

·        Kornvörur

Prótín sem fást úr dýraríkinu, sérstaklega kjötvörum myndu teljast með “hátt lífgildi” því þau innihalda rétt hlutfall lífsnauðsynlegra amínósýra fyrir manninn.

5. Fita

       Fita hefur á sér neikvætt orð. Hún er tengd offitu og ýmsum sjúkdómum sem henni fylgir. Margir verða því hissa þegar þeir komast að því að fita gegnir margvíslegum, nauðsynlegum hlutverkum í líkamanum og manneldismarkmiðin segja til um að fita skuli vera um 30% af daglegri orkuneyslu okkar. Það er aðeins þegar við neytum allt of mikillar eða allt of lítillar fitu sem hefur neikvæðar afleiðingar. Fita gefur fæðunni mýkt, bragð og lykt sem fáir standast og freistingin er mikil að borða fitu í of miklu magni þegar nóg er í boði eins og er svo sannarlega víða í heiminum.

 

Bygging og flokkun Fitu

Fita eða lípíð flokkast í fimm flokka:

·        Fitusýrur

·        Þríglýseríð (sem eru að hluta til gerðar úr fitusýrum)

·        Fosfórlípíð (sem eru einnig að hluta úr fitusýrum)

·        Steról

·        Önnur fituefni (svo sem fituleysanlegu vítamínin)

95% af allri fitu sem við innbyrðum í matnum er á formi þríglýseríða og er því sú fita sem við þekkjum úr mat.

     Fitusýrur eru gerðar úr frumefnunum kolefni (C), vetni (H) og súrefni (O) eins og kolvetni og prótín (nema prótín hafa köfnunarefni (N) þar að auki. Í samanburði við prótín og kolvetni inniheldur fita þó hlutfallslega meira af kolefni og vetni heldur en súrefni. Fita gefur því meiri orku en hin orkuefnin tvö. 

     Fitusýrur eru keðjur af kolefnisatómum, mislangar. Mikilvægastar fyrir næringu manna eru fitusýrur með 18 og 20 kolefnisatóm í röð. Keðjurnar geta þó innihaldið frá 2, 4 og 6 kolefnisatómum og uppúr en aldrei er um að ræða oddatölufjölda. Á öðrum enda keðjunnar er svokallaður methylhópur (CH3) en á hinum endanum er sýruhópur (COOH). Dæmi um fitusýru: steraic sýra:

     Fitusýrur geta verið mettaðar og ómettaðar. Þetta táknar að þær eru annað hvort mettaðar af vetnisatómum eða ómettaðar af vetnisatómum. Ef myndin af stearic sýrunni hér að ofan er skoðuð sést af öll kolefniatómin hafa 4 tengi. Þannig er það alltaf með kolefnisatóm. Fitusýran hér að ofan telst vera mettuð því öll kolefnisatómin eru mettuð af vetnisatómum þ.e. eins mörg vetnisatóm eru til staðar eins og hægt er. Ef tvö vetnisatóm yrðu fjarlægð hafa kolefnisatómin aðeins 3 tengi. Sjá myndina hér að neðan.

Til að fá aftur 4 tengi bregðast kolefnisatómin við með því að mynda svokölluð tvítengi. Fitusýran væri orðin ómettuð af vetnisatómum. Hér að neðan er dæmi um ómettaða fitusýru, línolic sýru:

Ómettaðar fitusýrur geta verið fjölómettaðar og einómettaðar. Fjölómettaðar fitusýrur hafa fleiri en eitt tvítengi en einómettaðar fitusýrur hafa eitt tvítengi.

    Mettun eða ómettun fitusýranna í fitunni ræður því hvort fitan er hörð eða fljótandi. Fljótandi fita (olíur) inniheldur mikið af ómettuðum fitusýrum en hörð fita inniheldur mikið af mettuðum fitusýrum. Annar þáttur í byggingu fitusýranna stjórnar einnig að einhverju leyti áferð fitunnar en það er lengd fitusýrukeðjunnar. Ef mikið er af löngum fitusýrum í fitunni verður hún frekar hörð og ef mikið er af stuttum fitusýrum í fitunni verður hún frekar fljótandi.  Eins og flestir vita er dýrafita oftast hörð og jurtafita oftast fljótandi sbr. smjör sem kemur úr dýraríkinu og ólífuolía sem kemur úr jurtaríkinu. Á þessu eru undantekningar því að kókosfeiti og kakósmjör eru harðar fitur úr jurtaríkinu og lýsi er olía úr dýraríkinu.

Dýrafita

Jurtafita

Eintengi í meirihluta

Tvítengi í meirihluta

Mettaðar fitusýrur í meirihluta

Ómettaðar fitusýrur í meirihluta

Oftast hörð

Oftast fljótandi

Fitusýrur hafa mismunandi áhrif í líkamanum en mettaðar fitusýrur hafa slæm áhrif á hjarta- og æðakerfið en fjölómettaðar eru hlutlausar og einómettaðar hafa góð áhrif. Þess vegna er ráðlagt að stilla neyslu dýrafitu í hóf en velja frekar jurtaolíur í matargerð. Ólífuolía inniheldur t.d. mikið af einómettuðum fitusýrum. Langar fitusýrur teljast æskilegri fyrir líkamann en stuttar.

Þegar fita skemmist þránar hún. Þá ræðst súrefni andrúmsloftsins á tvítengin í fitusýrunum og myndar við það illa lyktandi efnasambönd. Fljótandi fita sem inniheldur mikið af tvítengjum er því viðkvæmari fyrir þráunun en hörð fita sem inniheldur meira af eintengjum.

Stundum er fljótandi fita hert með ákveðinni matvælavinnslu sem kallast fituhersla. Vetni er þá þrýsti inní ómettaðar fitusýrukeðjur. Við það brotna tvítengin upp í keðjunum og eintengi myndast. Þá verður fljótandi fita hörð. Dæmi um herta fitu er smjörlíki. Við þessa vinnslu geta myndast svokallaðar trans-ómettaðar fitusýrur en þær þykja mjög óhollar fyrir líkamann. Þær eru aðeins til í örlitlu magni í náttúrunni.

90% af allri fitu sem við fáum úr mat eru á formi þríglýseríða. Þríglýseríð eru gerð úr glýseróli og þremur fitusýrum.

Fosfórlípíð eru nánast eins og þríglýseríð af byggingu, eini munurinn er sá að á einni fitusýru er svokallaður fosfórhópur. Hlutverk fosfórlípíða í líkamanum er aðallega í frumuhimunum en fosfórlípíð eru mikilvægur hluti frumuhimnanna.

Steról er samheiti yfir ýmis efni svo sem kólesteról, ýmis nýrnahettuhormón svo sem karlhormónið testósterón o.fl.

Önnur fituefni eru gerðar úr frumefnunum

Melting og frásog

Hlutverk FITU í líkamanum

Fituskortur og ofneysla á fitu

Fita í fæðunni

 

©SigfúsSig. Iceland@Internet.is