Einu sinni var kóngur og drottning í ríki
sínu og karl og kerling í koti sínu. Kóngur var auðugur mjög að
gangandi fé, en ekki átti hann nema eina dóttur barna og bjó hún sér
í veglegri skemmu með meyjum sínum. Karlinn var fátækur; hann átti
ekkert barn, en hafði viðurværi sitt og kerlu sinnar af einni kú sem
þau áttu.
Einu sinni sem oftar fór karlinn til kirkju og lagði presturinn út
af gjafmildinni og fyrirheiti hennar. Þegar karlinn kom heim frá
kirkjunni spurði kerling hvað hann segði sér gott úr messunni.
Karlinn lét ríflega yfir því og var hinn glaðasti, sagði að í dag
hefði verið gott að heyra til prestsins; því hann hefði sagt að sá
sem gæfi, honum mundi gefast þúsundfalt aftur.
Kerlingu þótti þetta æði djúpt tekið í árinni og hélt að karl sinn
hefði ekki tekið rétt eftir orðum prests. En karl var fastur á því
og körpuðu þau um það stundarkorn, en hvort hélt þó sinni ætlan um
þetta.
Daginn eftir tekur karlinn sig til, fær sér fjölda manna og byggir
sér fjós fyrir eina þúsund kúa. Kerling amaðist mjög við heimsku
þessari sem hún kallaði svo, en fékk engu tauti við ráðið.
Að fjósbyggingunni endaðri fer nú karlinn að hugsa um hverjum hann
eigi að gefa kúna sína. Vissi hann nú engan nógu ríkan til þess að
gefa sér fyrir hana þúsund kýr nema ef það væri kóngurinn sjálfur,
en hann kom sér ekki að því að fara til hans. Hann réð þá loksins af
að fara til prestsins því hann vissi af honum vel efnuðum og hélt að
hann mundi og síst láta orð sín til skammar verða.
Fer nú karlinn og teymir kúna sína til prestsins hvernig sem
kerlingin setti sig á móti því. Finnur hann prest og gefur honum
kúna. Prestur undrast það og spyr hverju þetta sæti. Karl segir
honum allan aðdraganda og orsök gjafarinnar.
Prestur brást þurrlega við og sneypir karlinn fyrir ranga eftirtekt
og hártognn orða sinna og rekur hann heimleiðis aftur með kúna. Fer
karl þá og teymir eftir sér kúna og þykir ferðin orðin ill.
En á leiðinni gjörir á hann niðmyrkan norðanbyl með frosti svo hann
villist og sér nú ekki annað en hann muni sjálfsagt missa kúna og
líklegast verða úti sjálfur. En í því hann er að hugsa um þessi
bágindi sín kemur að honum gangandi maður með stóran sekk á bakinu.
Maðurinn spyr karlinn hvernig á því standi að hann sé þar í slíku
veðri með kú á ferð.
Karl segir honum þá allt hvernig á standi. Hinn segir að hann megi
vera viss um að missa kúna og óvíst að hann komist lífs af sjálfur.
"Er þér miklu betra, karl minn," segir hann, "að láta mig fá kúna
fyrir sekkinn sem ég ber; því þú getur vel komist áfram leiðar
þinnar með hann, en í honum er kjöt og bein."
Og hvort sem þeir töluðu um þetta lengur eða skemur þá höfðu þeir
kaupin. Tók maðurinn kúna og fór burt með hana, en karl vasaði á
stað með sekkinn og þótti hann firna þungur.
Komst nú karl heim og sagði kerlingu sinni hvernig farið hefði um
kúna, en lét drýgilega yfir sekknum. Byrstist þá kerling, en karl
bað hana hið skjótasta að setja upp pott með vatni. Setti hún upp
stærsta pottinn í kotinu og fyllti hann með vatni.
Þegar vatnið sauð fór karlinn að leysa frá sekknum og var nú heldur
en ekki hreifingur í honum. En þegar hann var búinn að leysa frá
sekknum hljóp upp úr honum lifandi maður fulltíða í gráum fötum frá
hvirfli til ilja og sagði að þau mundu verða að sjóða eitthvað annað
en sig.
Varð nú karlinn hissa, en kerlingin bálvond og sagði að þarna væri
hann kominn með flónskuna. "Fyrst hefur þú skilið okkur," segir hún,
"við þann eina bjargargrip sem við áttum, svo nú erum við
bjargarlaus með öllu, og þar á ofan bætt á okkur heilum manni til að
fæða."
Jöguðust þau karl og kerling nú góðan tíma út úr þessu þangað til
Grámann segir að ekki tjái þetta, hann skuli fara á stúfana og vita
hvort hann geti ekki útvegað þeim og sér eitthvað að éta því skamma
stund muni þau þrífast á nöldrinu.
Stökk þá Grámann burt út í myrkrið og kom bráðum aftur með gamlan
og feitan sauð og bað þau skera hann og matreiða. Voru þau fyrst
treg til þess því þau þóttust vita að sauðurinn væri stolinn, en þó
gjörðu þau það á endanum. Lifðu þau nú glatt í kotinu á meðan
sauðurinn entist og undireins og hann var búinn sótti Grámann annan
og svo hinn þriðja, fjórða og fimmta. Þótti nú karli og kerlingu
mjög vænt um Grámann fyrir aðdrætti hans og lifðu í allsnægtum á
tómu sauðakjöti.
Nú víkur sögunni heim í kóngsgarð. Sauðamaður konungs fór að taka
eftir því að honum voru smátt og smátt að hverfa sauðir úr
hjörðinni. Hann kunni ekki lag á því og segir nú kóngi frá að sig
vanti fimm sauði sem hafi verið að smáhverfa og hann skilji ekkert í
hvernig farist hafi; þar hljóti að vera þjófar í nágrenninu.
Fór þá kóngur að rannsaka hvort nokkur maður væri nýfluttur inn í
sveitina og komst að því á endanum að maður væri nýkominn til karls
og kerlingar í garðshorni sem enginn vissi nein deili á.
Gjörði hann þá boð eftir manninum að finna sig upp í kóngsgarðinum.
Grámann brá við og fór, en karl og kerling urðu dauðhrædd um að nú
mundu þau missa þenna bjargvætt sinn, því hann mundi nú verða
hengdur fyrir þjófnað.
Þegar Grámann kemur í kóngsgarð spyr kóngur hann hvort hann hafi
stolið frá sér fimm sauðum gömlum sem sér hafi horfið.
Grámann segir: "Já, herra, það hef ég gjört."
Kóngur spurði þá hvers vegna hann hefði gjört það.
Þá segir Grámann: "Ég gjörði það af því að karl og kerling í
garðshorni eru vita bjargarlaus og hafa ekkert til að éta og eiga
ekki neitt til af neinu, en þú, konungur, hefur allsnægtir og átt
miklu meira til en þú þarft á að halda og kemur ekki mat þínum í
lóg. Nú þótti mér þetta miklu jafnara að karl og kerling hefðu
nokkuð af því sem þú þurftir ekki á að halda en að þau brysti, en þú
hefðir ofnóg."
Kóngur varð hálfhissa við orð Grámanns og spyr hvort það sé hans
eina eða hans besta list að stela. Grámann lætur lítið yfir því.
Þá segir kóngur að hann skuli gefa honum upp sökina ef hann geti á
morgun stolið uxa sínum fimm vetra sem hann ætli að senda menn sína
með út á skóginn. En geti hann það ekki, þá skuli hann verða
hengdur.
Grámann segir að þetta sé ómögulegt því hann muni láta passa uxann.
Kóngur segir að fyrir því verði hann sjálfur að sjá.
Fer nú Grámann heim og fagna þau honum vel karlinn og kerlingin.
Grámann segir karlinum að taka til handa sér reiptagl því hann þurfi
að halda á því í bítið á morgun. Karl gjörir það. Sofa þau nú öll um
nóttina.
Snemma um morguninn fer Grámann á fætur, tekur reiptaglið og gengur
í burtu. Gengur hann út á skóg þar sem hann vissi að leið kóngsmanna
með uxann lá um. Snýr hann þar að eik einni stórri skammt frá
veginum, bregður reipinu um háls sér og hengir sig upp í eikina.
Skömmu síðar koma kóngsmenn með uxann. Þeim verður litið við og sjá
hvar Grámann hangir í eikinni. Þá segja þeir að við einhverja hafi
Grámann gletst fleiri en kónginn; því þarna hafi þeir nú einhverir
hengt hann og muni þeir ekki þurfa að óttast piltinn að hann taki af
þeim uxann héðan af. Veittu þeir svo þessu ekki meiri gaum og héldu
áfram sína leið.
Þegar kóngsmenn voru komnir í hvarf fer Grámann niður úr eikinni og
hleypur eftir leynistig um skóginn fram fyrir kóngsmenn og hengir
sig þar aftur upp í eik eina spottakorn frá veginum. Þegar kóngsmenn
koma þar verður þeim litið á hvar Grámann hangir í eikinni.
Kynjar þá nú á þessu og skilja ekki í, hverjum brögðum þeir séu
beittir. "Ætli þeir séu þá tveir til, óræstis Grámennirnir þeir
arna?" segja þeir. "Það væri gaman að forvitnast um það og skulum
við snöggvast skreppa til baka og sjá hvað hinum Grámanninum líður
og vita svo hvort þetta er sá sami," segja þeir.
Binda þeir nú uxann við eik og snúa aftur. En er leiti bar á milli
þaut Grámann niður úr eikinni, leysti uxann og leiddi hann hið
skjótasta heim til sín í garðshorn. Skipaði hann karli og kerlingu
að slátra uxanum í snatri, lét flá belg af honum og steypa tóm kerti
úr tólginni. Var nú heldur en ekki glatt á hjalla í kotinu.
Nú er að segja frá kóngsmönnum. Þegar þeir koma að eikinni sem hinn
fyrri Grámann hékk í var þar enginn Grámann; hlupu þeir þá að hinni
eikinni, en gripu þar eins í tómt því þar var enginn Grámann og
uxinn var horfinn frá eikinni sem hann átti að vera við. Nú sáu
kóngsmenn fyrst hverjum brögðum þeir voru beittir og fóru heim og
sögðu kónginum frá hvar komið var.
Lætur þá kóngur undireins boða Grámann á sinn fund og verða þau
karl og kerling dauðhrædd því nú töldu þau víst að Grámann sinn yrði
miskunnarlaust hengdur. En Grámann kærði sig hvergi og fór þegar á
kóngsfund.
Þá segir kóngur: "Stalstu uxanum mínum, Grámann?"
"Já, herra," segir hann, "ég mátti til til að bjarga lífinu."
Þá segir kóngur: "Ég skal enn gefa þér þessa sök upp ef þú stelur í
nótt rekkjuvoðunum úr rúminu undan okkur, mér og drottningunni
minni!"
"Það getur enginn," segir Grámann, "eða hvernig á ég að komast inn
í kóngsgarðinn og fara að því?"
"Það máttu segja þér sjálfur," segir kóngur, "en líf þitt liggur
við."
Skilja þeir nú og fer Grámann heim í garðshorn; þykjast þau karl og
kerling hafa heimt hann úr helju og fagna honum vel. Hann tekur þá
nokkrar merkur af mjöli og biður kerlingu sjóða graut og hafa hann í
þykkara lagi. Hún gjörir það og þegar grauturinn var búinn lætur
Grámann hann í dálitla skjólu og hefur lok yfir skjólunni svo
grauturinn kólni ekki mikið.
Síðan labbar hann með skjóluna heim í kóngsgarðinn og getur laumast
inn í hann um kvöldið svo enginn varð var við og felur sig síðan
inni í einhverju skúmaskoti. Síðan var kóngsgarðinum rammlega lokað
því nú átti ekki að láta Grámann komast inn í hann.
En þegar Grámann vissi að allir voru sofnaðir inni í kóngsgarðinum
og kóngur og drottning í fasta svefni, þá gengur hann inn að rúminu
þeirra mjög hljóðlega og lyftir ofan af þeim fötunum ofan að miðju.
Síðan lætur hann grautinn drjúpa með hægð úr skjólunni niður í rúmið
milli kóngs og drottningar og hverfur svo frá rúminu út í horn á
herberginu.
Drottning vaknar við þegar grauturinn draup á hana. Henni verður
bilt við, vekur kóng og segir: "Hvað er þetta? Þú hefur gjört í
rúmið, elskan mín."
Kóngur vildi ekki kannast við það og kenndi drottningu um og kýttu
þau um það dálítið. Á endanum réðu þau það af að þau tóku
rekkjuvoðirnar úr rúminu og fleygðu þeim með öllu saman fram á gólf.
Síðan sofnuðu þau aftur.
Tekur þá Grámann rekkjuvoðirnar, vefur þær saman, stingur undir
handkrika sér og labbar með þær heim í kot til karls og kerlingar.
Fær hann þeim rekkjuvoðirnar, segir þeim að hreinsa úr þeim
grautarvelluna og reyna svo að nota þær í bólið sitt.
Morguninn eftir þegar kóngur og drottning vakna sjá þau að
rekkjuvoðirnar eru horfnar. Skilur þá kóngur hvernig á öllu muni
standa, að Grámann muni hafa stolið þeim. Gjörir hann nú boð fyrir
Grámann og nú telja þau karl og kerling víst að hann muni verða
hengdur og kveðja hann vandlega.
Grámann gengur tafarlaust upp í garðinn og kóngur spyr: "Stalstu
rekkjuvoðunum úr rúminu í nótt undan okkur drottningu minni?"
"Já, herra," sagði Grámann, "það gjörði ég; því ég mátti til að
leysa líf mitt."
Þá segir kóngur: "Ég skal gefa þér upp allar þínar sakir við mig ef
þú stelur nú í nótt okkur báðum, mér og drottningunni minni, úr
rúminu okkar. En ef þér mistekst það skaltu vægðarlaust verða
hengdur," segir hann.
"Það getur enginn maður," segir Grámann.
"Sjá þú fyrir því," segir kóngur.
Skilja þeir nú og fer Grámann heim í garðshorn. Fagna þau honum
alúðlega, karl og kerling, og þykjast nú hafa heimt hann úr helju,
hann Grámann sinn.
Um kvöldið þegar myrkt var orðið tekur Grámann feikilega kollháan
hatt og barðamikinn sem karlinn átti, stingur á kollinn á honum gat
við gat og raðar þar í nautstólgarkertunum og svo um börðin öll allt
í kring. Síðan festir hann ótal kerti utan um sig allan kroppinn
hátt og lágt.
Í þessum búningi, með hattinn á höfðinu og uxabelginn í hendinni,
labbar hann nú heim í kóngsgarðinn og inn í kirkju; þar leggur hann
belginn af sér í kórnum. Síðan kveikir hann á öllum kertunum á sér
og gengur svo til klukknanna og hringir.
Vakna þau við klukknahljóðið, kóngur og drottning, og líta út um
gluggann til að sjá hvað um væri að vera. Þau sjá þá ljómandi
mannsmynd standa við kirkjudyrnar og geislaði út af henni á alla
vegu. Kóngur og drottning urðu hissa við sjón þessa og þóttust vita
að hér væri kominn engill af himnum til að boða einhver stórtíðindi
á jörðu. Kom þeim ásamt að fagna slíkum gesti vel, biðja hann
miskunnar og veita honum sæmilega lotningu.
Klæðast þau nú skjótt í kónglegan skrúða og ganga út til engilsins.
Ávarpa þau hann knékrjúpandi og biðja sér miskunnar og
fyrirgefningar á syndum sínum. En hann sagðist ekki veita þeim bæn
þeirra annarstaðar en fyrir altarinu í kirkjunni.
Fylgja þau nú englinum þangað og þegar þar var komið segist hann
skuli fyrirgefa þeim allar þeirra syndir, en þó með vissu skilyrði.
Þau spyrja hvert það skilyrði sé. Hann segir það sé það að þau fari
bæði ofan í belginn sem liggi þarna hjá þeim á kórgólfinu. Þeim
þótti kosturinn góður og skriðu undireins bæði ofan í belginn.
En óðar en þau voru komin það greip engillinn fyrir opið á belgnum
og batt rammlega fyrir. Kóngur spurði hvernig á þessu stæði.
Engillinn segir þá og hristir um leið af sér öll ljósin: "Ég er
enginn engill, kóngur minn," og um leið dregur hann belginn
óþyrmilega fram eftir kirkjugólfinu, "heldur er ég kunningi þinn,
Grámann í garðshorni. Er ég nú búinn að stela þér og drottningu
þinni eins og þú skipaðir mér í gærkvöldi og ætla nú að fyrirgefa
þér syndirnar með því að drepa ykkur bæði nema þú veitir mér
undireins eina bón sem ég ætla að biðja þig um og vinnir mér eið að
því áður en ég hleypi þér upp úr belgnum."
Kóngur sá sér nú ekki annað fært en gjöra allt sem Grámann vildi,
og sór þegar að hann skyldi veita honum hverja bæn sem hann beiddi
sig um. Leysti þá Grámann frá belgnum og hleypti þeim út kóngi og
drottningu.
Segir þá Grámann kónginum að hann ætli að biðja hann að gefa sér
dóttur sína og hálft kóngsríkið með og leyfa sér að hafa karlinn og
kerlinguna í garðshorni hjá sér. Kóngur játti þessu og bundu þeir
það fastmælum.
Síðan fer Grámann niður í garðshorn og hittir karl og kerlingu. Er
hann nú drjúgur yfir sér við þau og biður þau að dubba sig dálítið
upp því þau eigi nú að flytja búferlum.
Það datt ofan yfir karl og kerlingu að heyra þetta og þó gekk enn
meira yfir þau þegar Grámann sagði þeim allt sem til stóð.
Um daginn fór Grámann með karl og kerlingu upp í kóngsgarðinn og
var honum þar vel tekið. Gekk hann þá að eiga kóngsdóttur og tók við
hálfu ríkinu.
En til skemmtunar í brúðarveislu sinni sagði Grámann frá því að
hann væri sonur nágrannakóngsins. Hefði hann orðið áskynja um
ráðabrugg karlsins í garðshorni og tekið sig saman við prestinn
kóngsins að láta orð hans sem karlinn byggði allt á rætast, og
segist hann nú vona að karlinn sé búinn að fá kúna sína þúsundfalt
borgaða.
Lifði Grámann síðan lengi og vel með drottningu sinni og tók við
ríkinu öllu eftir kóngsins daga og stýrði því með snilld og prýði
til elli. En karl og kerling voru hjá honum til dauðadags í góðu
yfirlæti.
Nostradamus og spádómarnir um Ísland eftir Guðmund Sigurfrey
Jónasson hefur að geyma spádóma eins mesta sjáanda allra tíma.
Michel Nostradamus (1503-1566) hefur verið kallaður ,,sagnfræðingur
framtíðarinnar" því sagt er að hann hafi séð fyrir óorðna atburði og
aldir. Spádómar hans hafa vakið furðu og eiga vísindamenn erfitt með
að útskýra framsýni hans. Skömmu eftir útkomu spádómanna fóru ýmsir
þeirra að rætast og í dag er talið að meira en helmingur þeirra hafa
komið fram. Nefna má að í fyrri bókum Guðmundar Sigurfreys um
spádóma Nostradamusar var m.a. sagt fyrir um stjórnarbreytinguna í
Sovétríkjunum, hrun kommúnismans og Persaflóastríðið, mörgum árum
áður en þessir atburðir komu fram. Spádómar Nostradamusar um nánustu
framtíð eru ekki síður nákvæmir. Þeir benda á gjörbreytta tíma fyrir
mannkynið. Í þeim hildarleik gegnir Ísland mikilvægu hlutverki og
þaðan kemur merkur leiðtogi. Í bókinni er jafnframt birtur frumtexti
Nostradamusar, ásamt orðskýringum, þannig að íslenskir lesendur hafa
nú í fyrsta sinn forsendur til að túlka inntak spádómanna upp á
eigin spýtur. Nostradamus og spádómarnir um Ísland segir
ennfremur frá öðrum sjáendum sem einnig hafa skýrt frá mikilvægi
Íslands í heimi framtíðarinnar. Vikið er að spádómi Gamla
testamentisins um Eldeyjuna í vestri og greint frá kínverskum
spádómi um Íslendinga. Einnig er fjallað um spádóma Pýramídans mikla
og á hvern hátt þeir vísa á Ísland.
Það var einu sinni karl og
kerling í koti sínu. Þau voru bláfátæk og höfðu ekkert sér til
lífsbjargar nema þau áttu dall einn sem aldrei þraut grautur í.
Son áttu þau einn, en sagan getur ekki um nafn hans. Þrír menn voru
þess vegna í kotinu og engin kvik skepna önnur. Þó að kotbúum þætti
leiðinlegur grauturinn þá sá karlinn samt að dallurinn var öldungis
ómissandi því hann var það eina sem hélt lífinu í hyskinu.
Einhverju sinni bar svo til að prestur kom í kotið í húsvitjun. Að
afloknu því andlega starfi fer prestur að ræða um hitt og þetta við
karlinn. Meðal annars spyr prestur karlinn að hvernig hann geti
lifað í þessu koti. Karl biður prest að minnast ekki á það, það sé
aumt líf sem þau eigi. Af því karlinn elskaði prestinn sinn hafði
hann ekki getað fengið annað af sér en bjóða presti graut úr dalli
sínum, og segir því við prestinn að það sé einungis þessi dallur sem
haldi þeim við lífið; dallurinn hafi þá náttúru að það þverraði
aldrei grautur í honum þó etið væri úr honum.
Þegar prestur heyrir þetta falar hann dallinn af karlinum og segir
hann skuli ekki hafa skaða á skiptunum. Karl segir að þó sér vilji
leiðast sá sífelldi grautur þá þori hann samt ekki að gjöra nein
kaup í þessu tilliti, en prestur gengur samt svo fast að að karl
lofar að senda dreng sinn með dallinn. Nú fer prestur, en karl og
kerling eru mjög þungbúin út af þessu loforði, samt senda þau að
fáum dögum liðnum drenginn með dallinn.
Í milli kotsins og prestagarðsins var konungsborg; fer nú drengur
fram hjá henni og kemur ekki í bústað konungsins, heldur fer beina
leið til prestsetursins. Drengur afhendir nú presti dallinn, en
prestur fær honum aftur dúk, segir að ekki þurfi annað en breiða
hann á borð og segja: "Hans dúk, Hans dúk, fullt með besta mat," þá
komi réttir á borðið hvað á fætur öðru.
Prestur segir sendisveininum að hann verði að halda beina leið
heim, en megi ómögulega koma í konungsborg. Piltur lofar þessu,
kveður prest og heldur sína leið.
En er hann er kominn nálægt borginni (eða kóngsríkinu) þá tekur
hann að brenna af löngun til að koma í hana, heldur að það muni
lítið saka þó hann skoði sig þar dálítið um og fer inn í borgina.
Þar verður á vegi fyrir honum kóngsdóttir; spyr hún hvað hann sé að
fara. Drengur verður ekki of þagmælskur og segir henni alla sögu.
En þegar hann getur um dúkinn þá biður hún hann fyrir alla muni að
selja sér hann, segist hún skuli margborga honum dúkinn. Við þessar
fortölur linast drengur, afhendir henni dúkinn, en fær í staðinn
skæra skildinga sem honum þykja bæði margir og fallegir, þykist ekki
hafa farið illa að ráði sínu og gengur nú sem fætur toga heim í
kotið.
Karl fagnar ekki svo mjög yfir þessari ferð og heldur að þetta muni
eyðast einhvern tíma.
Þetta varð líka orð og að sönnu; því áður langir tímar liðu verður
hann uppiskroppa og sendir son sinn í annað sinni til prestsins og
biður hann fyrir alla muni að hjálpa upp á sig því nú hafi hann
ekkert til að lifa við.
Drengur fer nú eins og áður til prestsins. Prestur verður
hálfbyrstur við strákinn og segir hann hafi prettað sig og farið inn
í borgina. Piltur segir hið sanna. Prestur kveðst þá verða að hjálpa
þeim dálítið, fer í burt og að lítilli stundu liðinni kemur hann
aftur og teymir eftir sér trippi og segir dreng að ekki þurfi annað
en segja: "Hriss-trippa, hriss-trippa," þá hristi trippið sig og
velti peningarnir út úr því.
Ennþá tekur presturinn drengnum vara fyrir því að koma ekki í
konungsborg og gefur drengur fögur heit í því tilliti.
Nú leggur hann á stað, en er hann nálgast borgina brennur hann í
skinninu af löngun að fara inn í hana. Telur hann sér trú um að hann
muni geta staðið sig þó einhver freisting komi fyrir hann. Í þessu
trausti beygir hann leið sína að borginni og fer inn í hana með
trippið í taumi.
En þegar hann var inn kominn kemur kóngsdóttir móti honum, heilsar
honum vingjarnlega og spyr hvað hann sé nú að ferðast. Drengur
gleymir nú nærri því sjálfum sér og segir henni að það sem hann hafi
fengið áður hjá henni hafi orðið endarjótt svo hann hafi þurft að
fara að finna prestinn, hafi hann hjálpað föður sínum um þetta
trippi sem ekki þurfi annað en segja við: "Hriss-trippa;
hriss-trippa," og þá velti peningar út úr því á allar hliðar.
Nú verður kóngsdóttir öldungis óð og uppvæg, biður drenginn með
mörgum blíðum og fögrum orðum að selja sér trippið hvað sem það eigi
að kosta og lofar honum miklu meira og betra gjaldi heldur en hið
fyrra sinn. Drengur lætur loksins til leiðast, tekur á móti gjaldinu
og fer heim í kot til foreldra sinna og lætur ekki neitt á neinu
bera.
Karl þykist að vísu fá mikið hjá presti, en svo fer sem fyrri að
eigurnar taka að þrjóta, því nú hafði karlinn líka keypt þeim nýjan
og þokkalegan klæðnað þar hann hugsaði að það sem nú kom mundi lengi
duga.
Það er ekki að orðlengja það að karl verður félaus og sendir son
sinn í þriðja sinni til prestsins. Þó að drengur þori ekki að láta
neitt á neinu bera þá verður hann samt mjög smeykur; óttast hann
mjög að klerkur muni verða þungorður við sig og jafnvel gefa sér
skammir fyrir alla frammistöðuna.
Samt herðir hann upp hugann, fer beinlínis til prests, kveður hann
svo kurteislega sem hann getur, biður hann fyrir alla muni að
reiðast sér ekki og greiða eitthvað úr vandræðum sínum, segist hafa
farið móti boði hans inn í borgina og ekki getað komist undan
kóngsdóttur að hún fengi trippið.
Klerkur atyrðir nú ekki drenginn, en fer frá honum, kemur aftur og
hefur með sér kylfu eina ekki alllitla sem hann fær drengnum. Hann
getur ekkert um til hvers hún eigi að brúkast eða hvað hún vinni, en
til þess hún gjöri það sem henni sé ætlað þá eigi að segja: "Upp,
upp, kylfa, upp, upp, þegar þú mátt."
Prestur tekur drengnum engan vara fyrir að koma í konungsborg, en
biður dreng vel að lifa og lætur hann fara á stað. Drengur er nú
allkátur, heldur leiðar sinnar beint í borgina og hugsar að nú skuli
hann finna kóngsdóttur fyrst honum hafi ekki verið tekinn vari fyrir
að koma í þá skrautlegu borg.
Þegar drengurinn er kominn inn í borgina þarf hann ekki að hafa
mikið fyrir að finna kóngsdóttur. Hún hefur augastað á þeim gamla
skiptavin sínum og sér hvar hann fer; hugsar hún nú gott til og fer
að finna hann. Hún spyr hann ennþá hvað hann sé að fara og segir
hann henni eins og var, að hann hafi farið í nauðsyn föður síns til
að finna prestinn sinn og hafi hann hjálpað sér um kylfu þessa sem
ekki þurfi að segja annað við þegar hún eigi að starfa [en]: "Upp,
upp, kylfa, upp, upp, þegar þú mátt."
Kóngsdóttir ímyndar sér nú að það muni vera einhver furðuverk sem
kylfan eigi að gjöra og falar í ósköpum kylfuna. Það fer á sömu leið
sem fyrri, að hann selur kóngsdóttir kylfuna, en fer með borgunina
heim í kot til karlsins föður síns.
Eftir að kóngsdóttir er búin að eignast alla þessa gripi kemur hún
að máli við föður sinn og biður hann að leyfa sér að stofna til
voldugrar veislu. Kveðst hún vilja reyna gripi sína og láta aðra sjá
hvílíka dýrgripi hún eigi. Konungur lætur þetta eftir henni og býður
til veislunnar miklu og mörgu stórmenni.
Boðsfólkið kemur á tilteknum tíma og þegar það er komið er sú stóra
höll konungsins alskipuð. Konungsdóttir kemur á settum og réttum
tíma með dúkinn, óskar nú á hann einum réttinum í þetta sinn, öðrum
í hitt sinnið og svo koll af kolli, bæði vín og vistir, þangað til
enginn þykist geta neytt meiri matar eða drykkjar.
En þegar máltíðinni var lokið og fara átti að skemmta boðsmönnum
sækir kóngsdóttir trippið og leiðir það inn í höllina og segir:
"Hriss-trippa, hriss-trippa," og þá hristir trippið sig, en
peningarnir velta út úr því á allar hliðar.
Þykir mönnum mikils vert um þetta og eru mjög kátir. En nú á samt
að auka fögnuðinn og því sækir kóngsdóttir kylfuna, ber hana inn í
höllina og segir við hana: "Upp, upp, kylfa, upp, upp, þegar þú
mátt." Á sömu stundu tekst kylfan á loft og rotar á svipstundu hvert
mannsbarn sem í höllinni var nema kóngsdóttur.
En þegar karlssonur - sem komið hafði heim í borg til að komast í
einhverjar veisluleifarnar og hafði staðið við hallardyrnar -- sér
þetta hleypur hann inn í höllina, þrífur kylfuna og segir við
kóngsdóttur að hún skuli nú velja um tvo kosti, annaðhvert að ganga
að að eiga sig eða hann skipi kylfunni að rota hana líka.
Kóngsdóttir kveðst mundi kjósa þann fyrri kostinn og þegar tími var
til kominn lét hann prestinn sinn gefa sig í hjónabandið, varð
konungur, tók karl og kerlingu heim í borg til sín og veitti þeim
marga ánægju og gleðidaga; ríkti síðan vel og lengi.
Og svo kann ég ekki þessa sögu lengri.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar
Háskóla Íslands)
Einu sinni var kóngur og
drottning í ríki sínu; þau áttu einn son og eina dóttur. Dóttir
þeirra var væn stúlka og vel að sér, en sonur þeirra var illur í
skapi og hinn mesti óþokki.
Nú liðu tímar og fer konungur að eldast, en syni hans leiðist hvað
hann lifir lengi og loksins tekur hann það fyrir að hann drepur
foreldra sína og systur sína. Kóngssonur fær nú ríkið eftir föður
sinn og vill kvongast, en það gengur honum illa sökum orðstírs þess
er af honum fór. Þó fer svo á endanum að hann fær sér konu þegar
langur tími er frá liðinn. Um samfarir þeirra er ekki getið annað en
það að þau áttu dóttur eina barna sem Ingibjörg er nefnd; hún var
afbragð annara kvenna fyrir sakir fríðleiks og fegurðar.
Svo er frá sagt að móðir hennar leggst eitt sinn mjög veik. Þá
kallar hún Ingibjörgu dóttur sína fyrir sig og mælti: "Svo segir mér
hugur um að ég muni nú deyja. Ekkert get ég hjálpað þér þó ég vildi,
en hér er lindi sem þú skalt jafnan hafa yfir um þig, og meðan þú
hefur hann mun þig ekki mat bresta. Hér er einnig tík sem ég gef þér
því þegar ég er dauð mun faðir þinn vilja sofa hjá þér og mun hann
þá hafa á þér taug og skaltu þá hafa einhver ráð að koma tíkinni í
taugina, en forða sjálfri þér."
Nú deyr drottning. En hið næsta kvöld skipar konungur dóttur sinni
að sofa hjá sér. Hún færist undan, en hann hótar að drepa hana ef
hún ekki hlýði, þá þorir hún ekki að færast undan lengur. Ingibjörg
kvaðst samt þurfa að læsa höllinni áður en hún gangi til sængur.
"Þetta eru ósannindi," mælti konungur, "og þú ætlar þér að sýna mér
pretti."
Ingibjörg lætur ekki af svari sínu að heldur.
Konungur mælti: "Með því einu móti sleppi ég þér frá mér að ég hafi
á þér taug," og það gjörir hann. Nú fer Ingibjörg til hallardyra og
hnýtir þar tíkinni í taugina sem kóngur dregur að sér, en hún forðar
sér út úr höllinni. Myrkur var á úti og gengur hún í myrkrinu alla
nóttina. Um morguninn kemur hún á sjóvarkletta, þar liggur kaupskip
undir. Hún biður kaupmenn hjálpar þannig að hún biður þá að flytja
sig í land nokkurt er hún til tekur. Það gjöra þeir.
Nú stígur hún á skip og skipið siglir leið sína og byrjar
kaupmönnum vel. Þeir koma við land þar sem Ingibjörg hafði til tekið
og skilja hana þar eftir. Hún gengur á land og kemur að litlum
bóndabæ; þar biður hún að lofa sér að vera og fær hún það.
Í landi þessu var ungur konungur og ókvæntur og bjó nærri bóndabæ
þeim sem Ingibjörg var á. Bóndi þessi hafði það starf á hendi að
hann varðveitti föt og skrúða konungs og lét þvo klæðnað hans og
lín. Konungur veitti því athygli að klæðnaður hans var betur
varðveittur en áður og það svo að hann undraðist þá breyting sem á
því var orðin.
Einhverju sinni gjörir hann sér ferð til bónda. Þar sér hann
Ingibjörgu og finnst mikið um fegurð hennar og atgjörvi. Og loksins
fer hann þess á leit að fá hana fyrir konu og tekur Ingibjörg því
vel og kurteislega. Síðan er veisla til reidd og brúðkaup þeirra
haldið með miklum sóma.
Einhverju sinni mælti Ingibjörg drottning við konung: "Ég bið þig
einnar bónar, konungur, að taka engan mann til veturvistar áður en
ég veit af." Konungur lofar henni því.
Nú líða nokkur ár svo að ekki ber til tíðinda. Einu sinni kemur
aldraður maður til konungs og biður hann veturvistar.
"Því vil ég ekki lofa," segir konungur, "fyrr en ég hef talað við
drottningu mína."
"Það er þó ætlan mín," segir aðkomumaður, "að þú megir svo miklu
ráða í ríki þínu sem að taka mann til veturvistar og enda má þykja
lítilmótlegt fyrir kóng að þurfa að spyrja drottningu sína um
þvílíkt; var ég og einu sinni konungur og get því borið um slíka
hluti."
Hann er þangað til að tala um fyrir konungi að hann lofar
aðkomumanni veturvist. Konungur segir drottningu frá þessu, en hún
kvað það miður hafa orðið og tekur því þunglega.
Nú kemur að því að drottning verður ólétt og svo er sagt að þegar
hún leggst á sæng þá getur hún ekki fætt. Konungur lætur kalla til
sín alla hina bestu lækna, en allt verður það árangurslaust.
Konungur leitar ráða til vetrarsetumanns síns og kveðst hann muni
reyna að hjálpa drottningu með því móti að enginn sé viðstaddur
meðan hann sé hjá henni. Það lætur konungur eftir honum.
Vetrarsetumaður hjálpar drottningu og gengur það fljótt. En þegar
barnið er fætt sem var fallegur sveinn þá tekur hann það og kastar
því út um hallargluggann og tekur hvolp og sýnir konungi og segir að
þetta hafi hún fætt af sér.
Drottning verður bráðum ólétt í annað sinn og atvikast allt á sömu
leið með fæðinguna og barnið eins og sagt var um fyrsta barnið.
Nú líður nokkur tími og verður drottning ólétt í þriðja sinn. Þá
vill svo til að konungur fær boð frá Herrauði konungi bróður sínum
svolátandi að hann biður konung að koma sér til hjálpar og hafa með
sér herlið svo mikið sem hann geti því óvinaher sé kominn í ríki
sitt. Konungur vill nauðugur fara og því síður vill drottning að
hann fari, en þó verður það úr að hann fer að hjálpa bróður sínum
sem var hættlega staddur, en biður hinn gamla vetrarsetumann fyrir
drottningu sína.
Þegar konungur er fyrir litlum tíma úr landi farinn fær drottning
jóðsótt og elur fagurt meybarn. Vetrarsetumaður kastar barninu út um
hallargluggann að vanda.
Vonum bráðar kemur konungur úr herferðinni heim í ríki sitt. Er
drottning þá orðin heilbrigð og fagnar vel konungi.
Vetrarsetumaður kemur eitt sinn að máli við konung, færir honum
ótugtarlegan hálfblindan kettling og mælti: "Hér sérð þú, konungur,
afkvæmi það sem drottning þín hefur nú fætt í heiminn og sýnist mér
það ekki samboðið veldi yðar og tign að eiga þá drottningu sem
samlagar sig við auðvirðilegustu kvikindi."
Við þetta verður konungur óglaður mjög og þungbúinn í skapi. Hann
tekur það fyrir að hann lætur smíða tréstokk og er drottning lögð í
hann. Síðan eru um stokkinn spenntar þrjár járngjarðir, borið á hann
hunang og borinn síðan út á skóg. Þar er stokkurinn lagður á meðal
trjánna með drottningu í.
Nú koma villudýr og sleikja þau stokkinn, hrekkur þá ein
járngjörðin í sundur svo að dýrin fælast. Dýrin koma bráðum að
sleikja stokkinn aftur, en þá hrekkur önnur járngjörðin svo þau
hlaupa frá. Þegar lítill tími er liðinn koma dýrin enn að sleikja
stokkinn; hrekkur þá þriðja járngjörðin með svo miklum bresti að
dýrin fælast og hlaupa langt frá út á skóg.
Nú opnast stokkurinn og rís drottning upp og litast um; tekur hún
það þá fyrir að ganga um skóginn. Hún gengur lengi þangað til hún
kemur að litlu húsi nokkru. Þar sest hún niður.
Að lítilli stundu liðinni kemur þar út kona. Hún mælti: "Illa ertu
komin, Ingibjörg kóngsdóttir."
Konan býður drottningu að koma í húsið og það þiggur hún. Þar er
uppbúið rúm í húsinu sem konan býður henni að hvílast í og þegar
konan hefur smurt allan líkama hennar leggst hún fyrir og sofnar
fljótt. Hún sefur vært, en þegar hún vaknar aftur er bjart í húsinu
og sólskin fagurt inn um gluggana.
Konan talar við drottningu og segist nú ekki geta hjálpað henni
eins og hún vildi, "en hvern þann hlut sem þú sérð hér í húsinu
máttu kjósa þér ef þú vilt," segir hún.
Þá veltur þar fram nokkurs konar ófreskja, engum hlut líkari en
gorvömb og mælti: "Kjóstu mig, kjóstu mig, kjóstu mig."
"Á ég að kjósa þetta?" mælti drottning.
"Eigi mun þér það lakara," mælti konan og þá kýs hún sér gorvömb
þessa. En í sama vetfangi hverfur rúmið, húsið og konan, en
drottning er þar ein eftir hjá Gorvömb.
"Nú skaltu elta mig, drottning," mælti Gorvömb.
Hún veltur þá á stað og veltur lengi og langan veg þangað til þær
koma að sjóvarströnd. Þá mælti Gorvömb: "Komdu nú á bak mitt,
drottning, því hér ætla ég yfir um."
Það gjörir drottning. Síðan botnveltist Gorvömb yfir sjóinn þangað
til þær koma við eyju eina. Þar var fjárhús og bú konungs þess er
drottning átti. Þær fara á land og koma að einu fallegu húsi. Þar
fer Gorvömb inn og drottning líka.
"Í þessu húsi verðurðu nú að vera fyrst um sinn," mælti Gorvömb við
drottningu; "ég á það sjálf."
Er drottning þar um nokkurn tíma og lifir í allsnægtum hjá Gorvömb.
Einn dag safnar Gorvömb saman miklum eldiviði og gjörir bál mikið.
Bálið sást frá höll konungs.
Þá mælti vetrarsetumaður til konungs: "Nú eru óvildarmenn komnir í
eyju þína, konungur, og þarf að reka þá á burt."
Konungur fellst á það og leggur vetrarsetumaður af stað á skipi til
eyjarinnar. En þá verður stormur og sjógangur svo mikill að hann má
hverfa til sama lands aftur.
Gorvömb safnar eldsneyti og gjörir bál mikið næsta dag og fer þá
vetrarsetumaður af stað aftur, en allt fer eins og fyrri daginn að
hann má vegna ofsaveðurs hverfa heim við svo búið.
Hinn þriðja dag gjörir Gorvömb bál mikið að nýju og það svo að hirð
konungs og sjálfum honum ofbýður. Gjörir þá konungur út stórt skip
og fer sjálfur með vetrarsetumanni sínum til eyjarinnar. Þeim gengur
ferðin vel og þegar þeir koma til eyjarinnar kemur Gorvömb til
sjóvar.
Þá mælti vetrarsetumaður konungs: "Það mun vera þú sem ert að ræna
og spilla hér í eyju konungsins."
"Við skulum seinna tala um það," mælti Gorvömb.
Gorvömb býður konungi heim til sín og það þiggur hann. Gorvömb
hafði herbergi afsíðis í húsi sínu. Þar lætur hún konung og
vetrarsetumann fara inn og setur konung á gullstól, en
vetrarsetumann á járnstól með hespu sem hún spennir um bringspalir
hans.
"Nú bið ég þig bónar, konungur," mælti Gorvömb, "að þú látir nú
þennan vetrarsetumann þinn segja ævisögu sína."
"Það vil ég gjöra, mælti konungur, en þegar konungur skipar honum
það færist hann undan. Þó byrjar hann loksins að segja frá.
Þá mælti Gorvömb: "Þú segir ekki rétt frá," og herðir á hespunni
sem var svo tilbúin að í henni voru járnbroddar sem stungust inn í
brjóst karlsins. Vetrarsetumaður byrjar í annað sinn.
Þá mælti Gorvömb: "Þú sleppir undan og segir ósatt," og herðir á
hespunni svo karlinn hljóðar. Vetrarsetumaður byrjar í þriðja sinn
og segir langan kafla.
Þá mælti Gorvömb: "Þú bæði skilur eftir og lýgur," og herðir hún þá
járngjörðina svo karlinn emjar hástöfum; hugsar hann þá að hún muni
ætla að kreista úr sér lífið. Hann byrjar þá söguna að nýju og segir
hana til enda.
"Nú er rétt frá sagt," mælti Gorvömb, "og þykir þér ekki konungur
að þessi maður sé búinn að lifa nógu lengi?"
"Jú," sagði konungur og grét.
Þá dró Gorvömb hellu undan járnstólnum; var þar undir sjóðandi
bikketill og féll þar vetrarsetumaðurinn niður í og endaði þar líf
sitt.
"Hvað viltu nú borga mér, konungur," mælti Gorvömb, "ef ég gæti
komið með drottningu þína og börnin ykkar öll?"
"Þá mundi ég vilja gjöra fyrir þig allt hvað ég gæti," sagði hann.
Gorvömb sækir þá drottningu og verður þar sá fagnaðarfundur að þau
föðmuðu hvort annað og grétu gleðitárum. Síðan sækir Gorvömb börnin
þrjú og eykst þá enn meir gleði þeirra.
"Það er þyngri þrautin," mælti konungur, "en þó skal ég leggja mitt
besta til."
Nú fer konungur og drottning og Gorvömb með þeim heim í ríkið;
gjörir þá konungur boð eftir Herrauði bróður sínum, og þegar hann
kemur ber hann upp erindið og gengur allt mjög tregt, en þó verður
það fyrir fylgi konungs og drottningar að Herrauður lofar að eiga
Gorvömb.
Nú er Gorvömb leidd fyrir unnusta sinn og bregður honum þá mjög
við. Þó er nú veisla til reidd og brúðkaup haldið og fer allt fram
með mikilli viðhöfn; er brúðguminn mjög dapur, en Gorvömb hin
kátasta og ræður hún sér varla fyrir gleði.
Nú kemur að því að þau brúðhjón eiga að ganga í eina sæng bæði og
sjá menn þá að brúðguminn kvíðir fyrir því mjög. Þó sænga þau bæði
saman eins og siður er til. Líður nú nóttin.
Um morguninn vaknar Herrauður og sér fyrir ofan sig fagra mær, en
hamurinn af henni er fyrir framan rúmið. Herrauður brennir haminn og
er nú hinn glaðasti. Var mær þessi kóngsdóttir í álögum og hafði
stjúpa hennar lagt á hana. Eftir þetta fer Herrauður og drottning
hans heim í ríki sitt og sátu síðan báðir konungar að ríkjum alla
ævi eftir þetta og fór vel ríkisstjórn þeirra. Endar svo saga þessi.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar
Háskóla Íslands)
Ekki alllangt frá konungsborg
nokkurri bjó bóndi einn vel efnaður. Hann átti þrjár dætur. Var hin
elsta tvítug, en hinar yngri, þó allar gjafvaxta.
Einhverju sinni er þær voru á gangi fyrir utan bæ föður síns þá sjá
þær hvar konungur - er var ógiftur - kom með tveimur fylgdarmönnum;
átti annar þeirra að hafa verið skrifari, en hinn skósmiður.
Þá segir sú elsta: "Ég vildi ekki óska mér meir en ég ætti
skósmiðinn."
Sú næsta henni sagði: "En ég skrifarann."
Þá sagði sú yngsta: "En ég konunginn sjálfan."
Konungur sem heyrt hafði að þær voru eitthvað að tala segir við
fylgdarmenn sína: "Ég vil fara til kvenmanna þessara og vita hvað
þær hafa verið um að ræða; mér heyrðist ein segja: "konunginn
sjálfan"."
Þeir svöruðu að það mundi ekki hafa verið merkilegt sem þær hefðu
haft fyrir umtalsefni. Konungur segir þeir skuli nú til þeirra fara
og ríða þeir nú allir samt til stúlknanna. Konungur spyr hvað þær
hafi verið um að ræða þegar þeir hafi verið komnir nálægt þeim; fer
nú svo að þær segja eins og verið hafði. Þá mælti konungur að svo
skyldi einnig verða sem þær hefðu óskað, og það varð.
En þegar sú yngsta systirin var orðin drottning þá fóru hinar að
líta óvildar- og öfundarauga til hennar og vildu fyrir hvern mun
hrinda henni úr tigninni.
Þegar drottningin varð þunguð og komið var nærri þeim tíma þá hún
skyldi barnið fæða, þá fengu þær því til vegar komið að þær sátu
yfir henni. Þegar hún hafði barnið fætt þá sáu þær um að barnið var
tekið og farið með það á burt, og átti eftir tilætlun þeirra að
kasta því í díki eitt fyrir utan borgina sem haft var til að láta í
saur og annan óþverra úr borginni.
Sá sem sendur var að framkvæma starf þetta lét barnið á bakkann, en
karl einn sem um gekk fann það og bar heim til sín.
Systurnar létu nú í skarðið hjá drottningu hvolp einn sem þær
útötuðu í blóði og sögðu síðan að drottning hefði átt hann. Konungur
varð mjög hryggur við þessi tíðindi, en stillti þó harma sína.
Þannig fór í annað og þriðja sinn sem hún átti barn, og börnin
lentu hjá hinum sama karli; voru það tveir synir og ein dóttir.
Karlinn lét gefa börnunum heiti og kallaði eldri sveininn Vilhjálm,
en hinn Sigurð. Nafn stúlkunnar sem yngst var er óvíst.
Þegar drottning hafði átt þriðja barnið varð konungur afar reiður
og bauð að setja hana í hús nokkurt hvar ljón var látið inni vera,
en í stað þess að það rifi hana í sundur þá gaf það henni ætíð af
því sem því var fært til að éta svo hún tórði þarna hjá því án þess
nokkur þó vissi að hún væri á lífi.
Nú víkur sögunni til karlsins sem fóstraði börnin. Hvern sem hann
hitti eða til hans kom spurði hann hvert hann vissi ekkert um börn
þessi, en allir luku upp sama munni að þeir vissu ekkert.
Börnin uxu upp og voru mjög efnileg, en karlinn tók nú að gjörast
mjög aldraður. Réði hann þá börnunum til að þau skyldu halda sama
vana og hann hefði haft að reyna til að komast eftir ætt sinni.
Eftir þetta andaðist karlinn og gjörðu börnin þá eins og þeim hafði
verið boðið.
Einhverju sinni kom til þeirra gamall maður. Fréttu þau hann hins
sama og aðra; hann kvaðst sjálfur ekki geta sagt þeim neitt um það,
en gæti vísað þeim á þann er það vissi. Hann sagði að nokkurn veg
þaðan í burt væri steinn einn stór og upp á honum sæti fugl sem bæði
skildi og gæti talað mannamáli. Kvað hann þeim mundi best að finna
hann, en þar á væri nokkurt vandhæfi því margir hefðu þangað farið,
en enginn aftur komið. Konungabörn sagði hann að hefðu viljað vita
fyrir forlög sín, en ekkert af þeim er komið hefði hefði haft það
til að bera sem með þyrfti.
Svo sagði hann stæði á að sá sem upp vildi komast á steininn yrði
að vera svo staðfastur að hann liti ekki aftur hvað sem hann heyrði
því hver sem það gjörði yrði að steini og allt það er þeir hefðu
meðferðis. Þessa stillingu kvað hann að hefði vantað hjá öllum, en
væri hún, þá gæti hver og einn upp komist.
Ef nú einhver kæmist upp sagði hann að sá gæti lífgað hitt allt því
á klettinum uppi væri pollur einn og lok yfir, á hverju fuglinn
sæti; leyfði fuglinn hverjum sem til hans kæmist að taka af vatninu
og dreifa því yfir þá sem að steinum hefðu orðið, og við það lifnuðu
þeir aftur og yrðu eins og þeir áður voru.
Þetta virtist börnunum ekki mikil þraut, létu þó bræðurnir
drjúgmannlegast, og þökkuðu þau karli fyrir sögu sína. Litlu þar á
eftir leggur eldri bróðirinn Vilhjálmur á stað, en segir svo bróður
sínum að ef þrír blóðdropar komi á hnífinn hans þegar hann borði
einhvern tíma þá megi hann koma, því þá hafi farið fyrir sér sem
hinum öðrum.
Hann heldur nú sem hann eftir gamla mannsins tilsögn vissi að leið
lá, og er ei getið um för hans, en eftir hér um bil þrjá daga, svo
sem svaraði ferð hans að steininum, þá kom blóðið á hníf Sigurðar.
Honum brá mjög í brún og segir systur sinni að hann verði að leggja
á stað, og gjörir sömu ráð fyrir við hana og bróðir hans hafði
gjört.
Leggur hann nú á stað og fer allt á sömu leið. Þá leggur systirin á
stað, kemur að steininum og sér þar í kring ótölulegan grúa af
steinum alla vega mynduðum, sumir líkir kistlum, sumir skápum
o.s.frv. Hún leggur að steininum og fer að klifrast; heyrir hún þá
mjög mikið mannamál og þar á meðal þekkir hún róm bræðra sinna. Ei
að síður gætir hún þess að líta ekki við og kemst upp á steininn.
Fær hún þá mikið hrós hjá fuglinum fyrir staðfestu sína og heitir
henni að fræða hana um það er hún vilji. Henni verður fyrst fyrir að
vilja lífga steinana og það fær hún. Bendir fuglinn henni á einn og
segir að ef hún vissi hver þar væri þá mundi hún vilja koma af honum
steinhamnum. -- Án þess að orðlengja það lífgar hún alla og þakka
þeir henni lífgjöfina.
Því næst spyr hún fuglinn til hverra þau systkinin hafi ætt sína að
rekja eða hverjir séu foreldrar þeirra. Fuglinn segir að þau séu
börn konungsins í landinu og greinir frá hvernig systurnar hafi að
farið þegar þau fæddust. Líka getur hann um við þau að móðir þeirra
sé ennþá á lífi hjá ljóninu, en sé orðin nær dauða en lífi bæði af
hryggð og skorti á öllu góðu.
Í steini þeim sem fuglinn hafði vísað henni á var hinn tíguglegasti
konungsson. Hann leit strax ástarauga til lífgjafa síns og leist
hverju vel á annað. Hafði hann einkum haft með sér það er var í
hinum kistlamynduðu steinum; voru það kassar fullir með dýrgripi.
Eftir að fuglinn hafði frætt um það er menn girntust að vita, þá
leggja systkinin á stað og þessi eini konungsson með þeim. Þau fara
inn í borgina, fá sér verkfæri og brjóta gat á múrinn á húsi því
hvar ljónið var inni.
Fundu þau þar móður sína í öngviti, því hún hafði hrædd orðið við
aðgang þeirra að brjóta múrinn. Lifnaði hún samt við; færðu þau hana
í almennileg föt og lögðu síðan að konungshöllinni og báðu sér
orðlofs að tala við hann. Þetta veittist þeim, og þá segjast þau nú
vera komin börnin hans með móður sína úr ljónsbælinu og láta hann
vita allt sem fuglinn hafði frætt þau á.
Síðan var haldinn rannsóknarréttur yfir systrum drottningar; kom þá
upp hið sanna. Var þeim þá kastað inn til sama ljónsins sem reif þær
og tætti í sundur.
Drottningin komst nú í tign sína aftur; dóttirin átti þann mikla
konungsson sem með systkinunum fór til borgarinnar og settist að
ríkjum eftir föður sinn. Vilhjálmur giftist og tók við ríki eftir
föður sinn látinn, en Sigurður giftist konungsdóttir úr öðru ríki og
komst þar að eftir föður hennar. Lifðu síðan öll í lukku og
velgengni.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar
Háskóla Íslands)
Einu sinni var kóngur og
drottning í ríki sínu. Þau áttu son sem Sigurður hét. Í garðshorni
skammt þaðan bjó karl og kerling; hann hét Bangsímon. Þau áttu eina
dóttur sem Helga hét. Hún var jafngömul Sigurði kóngssyni og léku
þau sér oft saman í æsku.
Svo bar við að kóngur missti drottningu sína; syrgði hann hana mjög
og sat oft á haugi hennar og sinnti ekki ríkisstjórn. Ráðgjöfum hans
og hirðmönnum þótti svo mikið mein í þessu að þeir gengu fyrir kóng
og báðu hann hætta harmatölum sínum og buðust til að fara og leita
honum kvonfangs. Honum líkaði þetta ráð vel, en bað þá um að taka
hvorki eyjafífl, annesjafljóð né skógarkonu.
Þeir hétu honum góðu um það og bjuggust síðan til ferðar. Fengu
þeir svo hafvillur miklar og sjóvolk og gekk þeim seint ferðin.
Loksins sáu þeir sorta mikinn fyrir stafni og það með að þetta var
eyland. Þeir gengu á land og fóru þangað til þeir komu að tjaldi
einu. Sáu þeir þar fríða konu sem sat á stóli og var að greiða hár
sitt með gullkambi. Hún spurði þá hvert þeir væru að fara og hvert
erindi þeirra væri. En þeir sögðu til hið sanna.
Hún sagði: "Það er þá líkt á komið með kóngi yðar og mér; því fyrir
stuttu hef ég misst mann minn. Hann var yfirkóngur tuttugu smákónga;
víkingar réðust á ríkið, kóngur féll, en ég flýði hingað."
Báðu þeir hennar svo til handa kóngi sínum og tók hún þeim málum
vel. Síðan stigu þau öll á skip og gekk þeim ferðin vel heim.
Þegar kóngur sá til ferða þeirra lét hann aka sér í vagni til
strandar og bauð hann drottningu að stíga í vagninn hjá sér og var
þeim svo báðum ekið heim.
Með því kóngi geðjaðist vel að drottningu þessari hóf hann bónorð
sitt til hennar og tók hún því vel. Lét hann þá efna til mikillar
veislu og drakk brúðkaup sitt til hennar. Sigurður kóngsson skipti
sér lítið af stjúpu sinni og vildi sem minnst eiga saman við hana að
sælda.
Nú líður og bíður þangað til drottning verður veik og þótti kóngi
það illt. Spurði hann þá drottningu hvort þetta mundi verða helsótt
eða skrópasótt. En hún lést ætla að það mundi verða helsótt og bað
hún kóng að gera það fyrir sig að láta Sigurð son sinn vaka yfir sér
þrjár fyrstu næturnar í herbergi því sem hún tók til þegar hún væri
dáin.
Fór nú svo sem drottning gat til að þetta var helsótt og lét kóngur
flytja lík hennar í herbergi það sem hún hafði til tekið og búa um
það eins og hún hafði sagt fyrir. Síðan bað kóngur son sinn að vaka
yfir líkinu, en hann mæltist undan því í fyrstu. Kóngur varð þá
byrstur við hann og skipaði honum það svo Sigurður þorði ekki annað
en lofa að gera það.
En af því hann var bæði myrkfælinn og líkhræddur fór hann til Helgu
karlsdóttur og bað hana að fá Bangsímon föður sinn til að vaka fyrir
sig. Karl var tregur til þess í fyrstu, en lét þó til leiðast og hét
að vaka fyrstu nóttina; fór hann svo heim í herbergi það sem líkið
lá í um kvöldið.
En þegar hann kom þar inn spyr drottning: "Hver er þar?"
"Bangsímon karl í garðshorni," segir hann.
"Svei þér, skömmin þín; ekki átt þú að vaka yfir mér; Sigurður
kóngsson á að vaka yfir mér. Eru fölir fætur mínir?" segir hún.
"Fölir svo sem grasstrá," segir hann.
"Þá er best að bera sig til," segir hún.
Með það reis hún upp af líkbörunum og réðst á Bangsímon og áttust
þau við allt til dags.
Þegar dagur rann lagðist hún fyrir eins og áður, en karl fór heim í
kot sitt. Allt eins fór aðra nóttina og eftir það neitaði karl með
öllu að vaka hjá henni þriðju nóttina, en gerði það þó fyrir
bænastað dóttur sinnar að vera þar þá einu nóttina sem eftir var. En
áður en hann fór sagði hann þeim Sigurði og Helgu að þau mættu
giftast að þremur árum liðnum ef hann yrði ekki kominn aftur innan
þess tíma.
Fór karl svo heim í kóngsríki og í herbergi það sem líkið var í og
fórust þeim drottningu og honum sömu orð í milli og áður og glímdu
síðan til dags.
Þegar dagur rann varð hún að gammi, en hann að flugdreka; flugust
þeir á í loftinu og flugu yfir láð og lög uns þau komu að landi
einu; þar varð drottning undir í skiptunum og ætlaði karl að bíta
hana á barkann. Baðst hún þá friðar og hét karli að launa honum
lífgjöfina þegar hún væri orðin kóngsdóttir í því ríki.
"Hvernig ætlar þú að fara að því?" segir karl.
"Ég ætla að gera mig að dálitlu barni og láta kónginn finna mig
þegar hann fer á dýraveiðar," segir hún.
Karl lét hana þá lausa og fór hún í skóg einn mikinn skammt þaðan.
Næsta dag eftir fór kóngurinn í ríkinu á veiðar og fann í skóginum
frítt meybarn; tók hann það heim með sér og ól það upp sem eigin
dóttur sína því þau kóngur og drottning voru áður barnlaus. Mær
þessi dafnaði svo fljótt að furðu gegndi.
Karlinn Bangsímon hafði komið til kóngshallar og dvaldist þar; var
hann látinn berja fisk og gera annað slíkt.
Þegar fram liðu stundir tók fósturdóttir kóngsins upp á því að bíta
sig í fingurna svo blæddi úr; sagði hún að karlinn sem hérna væri
færi svona með sig. Þótti kóngi og drottningu mjög fyrir við karl;
en þó var hann ekki rekinn burtu að heldur.
Einu sinni þegar kóngsdóttir þessi var á gangi ein sér spurði
Bangsímon hana nær hún ætlaði að launa sér lífgjöfina. Hún lést
mundi gera það þegar hún væri orðin kóngsdrottning þar í ríkinu.
"Hvernig ætlarðu að fara að því?" segir karl.
"Ég ætla," segir hún, "að biðja drottninguna að sýna mér
gripasafnið því hún lætur allt eftir mér. ég ætla að láta hana fara
upp stigann á undan mér sem þangað liggur upp; en sjálf ætla ég á
eftir og þegar hún er komin í efstu stigarimina ætla ég að kippa
stiganum undan henni svo hún hálsbrotni, dysja hana þar undir
stiganum, fara í fötin hennar, og svo ímyndar kóngurinn sér að ég sé
konan hans."
Síðan skildu þau karl.
Fám dögum síðar saknaði kóngur dóttur sinnar og sagði drottning að
líkast væri að fiskakarlinn sem hefði einlægt verið að hrekkja hana
hefði séð fyrir henni. Var karl þá tekinn fastur og átti að leiða
hann á bál og brenna hvernig sem hann bar það af sér að hann hefði
drepið kóngsdóttur.
Var hann síðan leiddur að bálinu og voru þau kóngur og drottning
þar við einnig. En áður en karli væri hrundið á bálið baðst hann
þess að kóngur veitti sér eina bæn og þó ekki líf. Kóngur hét honum
því. Bað karl þá drottningu að segja ævisögu sína. Hún sagði það
væri fljótgert því hún hefði verið kóngsdóttir og síðan hefði hún
gifst kónginum sem hún ætti nú og síðan vissu allir um framferði
sitt.
Karl sagði þá upphátt alla ævi hennar frá því hún kom þar á land.
Brást hún þá í flugdreka líki og flaug á karlinn. En hann tók belg
undan skikkju sinni og kastaði yfir höfuð henni svo hún lenti á
bálinu og brann.
Réð karl þá kóngi til að láta grafa upp hjá stiganum sem lá upp í
gripasafnið. Var það svo gert og fannst allt eins og karl hafði frá
sagt; þakkaði kóngur karli með mörgum fögrum orðum að hann hefði
frelsað sig frá þessari ókind, gaf honum skip og menn á og sigldi
karl síðan heimleiðis.
En ef Sigurði er það að segja að hann hafði misst föður sinn meðan
Bangsímon var erlendis og hafði tekið við ríkisstjórn. Þegar karl
kom heim var Sigurður að halda brúðkaup sitt til Helgu; því þá voru
liðin þrjú ár frá því karl fór að heiman; varð þar því hinn mesti
fagnafundur.
Lifðu þau hjón síðan lengi saman með veg og virðingu og lýkur svo
sögunni af Bangsímon.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar
Háskóla Íslands)
Einu sinni voru karl og kerling í koti
sínu. Þau áttu einn son, en þótti ekkert vænt um hann. Ekki voru fleiri
menn en þau þrjú í kotinu. Eina kú áttu þau karl og kerling; það voru
allar skepnurnar. Kýrin hét Búkolla.
Einu sinni bar kýrin, og sat kerlingin sjálf yfir henni. En þegar
kýrin var borin og heil orðin, hljóp kerling inn í bæinn.
Skömmu seinna kom hún út aftur til að vitja um kúna. En þá var hún
horfin. Fara þau nú bæði, karlinn og kerlingin, að leita kýrinnar og
leituðu víða og lengi, en komu jafnnær aftur.
Voru þau þá stygg í skapi og skipuðu stráknum að fara og koma ekki
fyrir sín augu aftur, fyrr en hann kæmi með kúna; bjuggu þá strák út með
nesti og nýja skó, og nú lagði hann á stað eitthvað út í bláinn.
Hann gekk lengi, lengi, þangað til hann settist niður og fór að éta.
Þá segir hann: "Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á
lífi."
Þá heyrir hann, að kýrin baular langt, langt í burtu.
Gengur karlsson enn lengi, lengi. Sest hann þá enn niður til að éta
og segir: "Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á lífi."
Heyrir hann þá, að Búkolla baular, dálítið nær en í fyrra sinn.
Enn gengur karlsson lengi, lengi, þangað til hann kemur fram á
fjarskalega háa hamra. Þar sest hann niður til að éta og segir um leið :
"Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á lífi."
Þá heyrir hann, að kýrin baular undir fótum sér. Hann klifrast þá
ofan hamrana og sér í þeim helli mjög stóran. Þar gengur hann inn og sér
Búkollu bundna undir bálki í hellinum. Hann leysir hana undir eins og
leiðir hana út á eftir sér og heldur heimleiðis.
Þegar hann er kominn nokkuð á veg, sér hann, hvar kemur ógnarstór
tröllskessa á eftir sér og önnur minni með henni. Hann sér, að stóra
skessan er svo stórstíg, að hún muni undir eins ná sér.
Þá segir hann: "Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"
Hún segir: "Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina."
Hann gjörir það. Þá segir kýrin við hárið: "Legg ég á, og mæli ég um,
að þú verðir að svo stórri móðu, að ekki komist yfir nema fuglinn
fljúgandi."
Í sama bili varð hárið að ógnastórri móðu.
Þegar skessan kom að móðunni, segir hún: "Ekki skal þér þetta duga,
strákur. Skrepptu heim, stelpa," segir hún við minni skessuna, "og sæktu
stóra nautið hans föður míns."
Stelpan fer og kemur með ógnastórt naut. Nautið drakk undir eins upp
alla móðuna.
Þá sér karlsson, að skessan muni þegar ná sér, því hún var svo
stórstíg.
Þá segir hann: "Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"
"Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina," segir hún.
Hann gerir það. Þá segir Búkolla við hárið: "Legg ég á, og mæli ég
um, að þú verðir að svo stóru báli, að enginn komist yfir nema fuglinn
fljúgandi."
Og undir eins varð hárið að báli.
Þegar skessan kom að bálinu, segir hún: "Ekki skal þér þetta duga,
strákur. Farðu og sæktu stóra nautið hans föður míns, stelpa," segir hún
við minni skessuna.
Hún fer og kemur með nautið. En nautið meig þá öllu vatninu, sem það
drakk úr móðunni, og slökkti bálið.
Nú sér karlsson, að skessan muni strax ná sér, því hún var svo
stórstíg.
Þá segir hann: "Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"
"Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina," segir hún.
Síðan segir hún við hárið: "Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að
svo stóru fjalli, sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi."
Varð þá hárið að svo háu fjalli, að karlsson sá ekki nema upp í
heiðan himininn.
Þegar skessan kemur að fjallinu, segir hún: "Ekki skal þér þetta
duga, strákur. Sæktu stóra borjárnið hans föður míns, stelpa!" segir hún
við minni skessuna.
Stelpan fer og kemur með borjárnið. Borar þá skessan gat á fjallið,
en varð of bráð á sér, þegar hún sá í gegn, og tróð sér inn í gatið, en
það var of þröngt, svo hún stóð þar föst og varð loks að steini í
gatinu, og þar er hún enn.
En karlsson komst heim með Búkollu sína, og urðu karl og kerling því
ósköp fegin.
Einu sinni var karl og kerling í
garðshorni; þau áttu þrjár dætur; þær hétu Sigríður, Signý og Helga.
Karli og kerlingu þótti vænt um Sigríði og Signýju, en ekkert þótti
þeim vænt um Helgu, og lá hún ávallt í öskustó.
Það er mælt, að karl og kerling ættu engan grip í eigu sinni nema
kú eina, sem Búkolla hét. Hún var sá dánumannsgripur, að þó hún væri
mjólkuð þrisvar á dag, þá mjólkaði hún ekki minna en fjörutíu merkur
í hvert sinn. Karl reri til fiskjar á degi hverjum og reri alltaf á
keraldi, og á hverjum degi flutti Sigríður dóttir hans honum mat á
fiskimið og flutti hann einnig á keraldi.
Það bar einu sinni til í garðshorni, að kýrin Búkolla hvarf, svo
enginn vissi, hvað af henni varð. Ræða þau nú um það karl og
kerling, hvað úr skuli ráða, og verður það, að Sigríður er send á
stað að leita og látin hafa nesti og nýja skó.
Hún gengur lengi, þar til hún kemur á einn hól; þar borðar hún og
mælti: "Baulaðu, kýrin Búkolla, ef ég á að finna þig."
En ekki baular kýrin.
Nú gengur hún á annan hól, borðar þar og mælti: "Baulaðu, kýrin
Búkolla, ef ég á að finna þig."
En ekki baular hún að heldur.
Hún gengur á þriðja hólinn, borðar þar og mælti síðan: "Baulaðu,
kýrin Búkolla, ef ég á að finna þig."
Þá baular kýrin langt frá uppi í fjalli. Sigríður gengur upp í
fjallið, þar til hún kemur að hellisdyrum. Hún gengur í hellinn. Þar
sér hún, að eldur logar á skíðum, kjötpottur er yfir eldi og kökur á
glóðum. Þar er og Búkolla og stendur við töðustall og er bundin með
járnhlekkjum.
Sigríður tekur köku af eldi og kjötbita úr pottinum og snæðir. Hún
ætlar að leysa Búkollu, en getur ekki, og sest hún þá undir kverk
hennar og klórar henni.
Að litlum tíma liðnum fer hellirinn að skjálfa, og kemur
tröllskessa mikil í hellinn. Hún mælti: "Þú ert þá komin hér,
Sigríður karlsdóttir, þú skalt ekki lifa lengi, þú hefur stolið frá
mér."
Skessan tekur hana þá, snýr úr hálsliðnum og hendir búknum í gjótu
í hellinum.
Víkur nú sögunni heim í garðshorn. Karl og kerlingu fer að lengja
eftir Sigríði og ætla hún muni nú dauð. Þau ráða þá af að senda
Signýju að leita að Búkollu, og fer hún af stað. Verða nú forlög
hennar eins og Sigríðar að öllu leyti, og seinast drepur skessan
hana í hellinum.
Nú biður Helga karl og kerlingu að lofa sér að leita að Búkollu. En
þau halda það verði til lítils, þegar hinar góðu gulldætur sínar
hafi ekki getað fundið hana og séu nú líklegast dauðar.
Það verður þó, að Helga fær að fara. Hún fær skrápskinnsskó á
fæturna og í nestið fær hún bræðing, roð, ugga og skófir.
Hún gengur nú lengi, þangað til hún kemur á hól nokkurn. Þá mælti
hún: "Hér hafa systur mínar borðað, hér skal ég borða líka."
Fer hún nú að naga úr nesti sínu. Síðan mælti hún: "Baulaðu, kýrin
Búkolla, ef ég á að finna þig."
En ekki baular kýrin.
Nú gengur hún á annan hól og fór eins að og á fyrra hólnum.
Hún gengur á þriðja hólinn. Þá mælti hún: "Hér hafa systur mínar
borðað, hér skal ég borða líka."
Þegar hún hefur borðað, mælti hún: "Baulaðu, kýrin Búkolla, ef ég á
að finna þig."
Þá heyrir hún, að Búkolla baular uppi í fjalli. Hún gengur upp í
fjallið á hljóðið. Loksins kemur hún að hellisdyrum. Hún gengur í
hellinn. Þar stendur kjötpottur yfir eldi, og kökur eru á glóðum.
Hún hagræðir kökunum, snerpir á undir pottinum, en tekur ekkert og
sest síðan hjá Búkollu, sem þar stendur við töðustall.
Litlu síðar heyrir hún hark úti, og hellirinn fer að skjálfa. Síðan
kemur tröllskessa í hellinn, mikil vexti og ærið fasmikil. Hún mælti
til Helgu: "Þú ert þá komin hér, Helga karlsdóttir; þú skalt nú
lifa, því þú hefur engu stolið frá mér."
Líður nú nóttin, og gefur skessan Helgu mat.
Nú ætlar skessa út á skóg til veiða um daginn; þá mælti hún til
Helgu: "Þú skalt nú vinna nokkuð í dag: þú skalt sækja brjóstnál,
sem ég átti, þegar ég var heimasæta hjá Daladrottningu systur
minni."
Helga spurði, hvar hún væri.
"Það máttu segja þér sjálf," mælti skessan, "og ef þú verður ekki
komin með hana í kvöld, þá drep ég þig."
Fer nú skessan, en Helga er ráðalaus og sest nú fram í hellisdyr og
grætur.
Þá kemur til hennar maður, æði-ófrýnilegur á að líta. Hann var í
skorpnum skinnstakki, sem náði á ristar að framan, en á herðablöð að
aftan. Horinn náði úr nefinu og niður á tær. Hann spyr, af hverju
hún gráti. Hún kvað það vera til lítils að segja honum það, hann
mundi lítið geta úr því bætt.
"Ég veit, hvað að þér gengur," segir hann, "og ef þú vilt kyssa mig
í kvöld, þá skal ég hjálpa þér að ná nálinni."
Hún kveðst skuli gera það. Helga spyr hann að nafni, en hann kvaðst
heita Dordingull. Þau ganga nú bæði frá hellinum, þangað til þau
koma að litlu húsi. Við dyrnar á húsinu er páll og reka. Þá segir
Dordingull: "Páll, sting þú; reka, moka þú."
Þá taka þau páll og reka til starfa, þangað til þau koma niður að
nálinni. Tekur þá Dordingull hana upp og segir, að hér sé nú nálin,
og spyr Helgu, hvort hún vilji nú ekki kyssa sig; en það segist hún
ekki geta.
Fer nú Helga heim í hellinn og leggur brjóstnálina í rúm skessu. Um
kvöldið kemur skessa heim og spyr, hvar nálin sé.
"Hún er í rúmi þínu," segir Helga.
"Vel er unnið," mælti skessa, "en varla muntu hafa verið ein í
ráðum."
Næsta morgun segir skessa: "Verk hef ég ætlað þér í dag, Helga: þú
skalt sækja tafl, sem ég á hjá Daladrottningu systur minni; hef ég
lengi viljað fá það, en ekki fengið."
Helga spyr, hvar Daladrottning sé.
"Það máttu segja þér sjálf," mælti skessa, "og ef þú kemur ekki með
taflið, skal ég drepa þig."
Fer nú skessa burt, en Helga situr eftir ráðalaus og sest í
hellisdyrnar og grætur.
Þá kemur þar Dordingull og kveðst muni hjálpa henni, ef hún kyssi
sig í kvöld. Helga kveðst fegin vilja ganga að þeim kostum og þó
meira væri.
Síðan ganga þau frá hellinum og ganga nú lengi, þangað til þau sjá
höll mikla nokkuð langt frá. "Í þessari höll," segir Dordingull,
"býr nú Daladrottning. Skaltu nú fara þangað, og mun hún taka þér
vel og fá þér taflið. Hún mun bera fyrir þig mat, en þú skalt engan
bita borða, en þrjá bita skaltu taka og stinga í vasa þinn, og vel
skaltu signa borðbúnaðinn, þegar þú ert setst undir borð. Þegar þú
ert komin á stað, mun hún senda á eftir þér þrjá varga, og skaltu þá
fleygja sínum bitanum í hvern."
Fer nú Helga til hallarinnar. Daladrottning tekur henni vel og ber
fyrir hana mat á borð. Kveðst hún vita, í hvaða erindum hún sé.
En þegar allt er á borð borið, segir Daladrottning: "Skerðu hana,
gaffall, sting þú hana, hnífur, og gleyptu hana, dúkur."
Þá svaraði hnífurinn, gaffallinn og dúkurinn: "Við getum það ekki,
hún Helga signdi okkur svo vel."
Nú fór Daladrottning frá Helgu um stund; tekur hún þá þrjá bita og
stingur þeim í vasa sinn, en ekkert borðaði hún sjálf.
Daladrottning fær nú Helgu taflið, og fer hún síðan af stað. Þegar
hún er komin nokkuð frá höllinni, koma þrír vargar á eftir henni, og
telur hún víst, að þeir muni eiga að ráða sér bana. Helga tekur
bitana og kastar fyrir þá, en vargarnir éta sinn hver og detta þegar
dauðir niður.
Helga fer nú leiðar sinnar og í hellinn og leggur taflið í rúm
skessunnar.
Um kvöldið kemur skessan heim og spyr Helgu, hvar taflið sé. Hún
segir það sé í rúminu.
"Vel er unnið," mælti skessan, "en það grunar mig, að þú sért ekki
ein í ráðum."
Næsta morgun kveðst skessan hafa ætlað Helgu starf í dag. "Þú
skalt," segir hún, "elda fyrir mig, búa um rúmið mitt og hella úr
koppnum mínum og vera búin í kvöld, ella mun ég drepa þig."
Helga kvað þetta hægt verk vera. En þegar skessan er farin, ætlar
Helga að fara að búa um rúmið, en þá eru fötin föst, og þegar hún
ætlar að taka pottinn, þá er hann fastur, og koppurinn er líka
fastur.
Nú sest hún í skáladyrnar og grætur. Þá kemur Dordingull og bauð
henni hjálp, ef hún kyssti sig í kvöld. Hún lofar því.
Fer Dordingull að búa um og elda, og er allt laust fyrir honum.
Hann lætur sjóðandi bikketil undir rúm hennar og segir Helgu, að í
ketilinn muni hún detta, þegar hún setjist á rúmið, því í kvöld muni
hún verða þreytt og éta mikið, en undir kodda hennar sé fjöregg, sem
hún skuli brjóta á ásjónu hennar, í því hún falli í ketilinn, og þá
skuli hún nefna sig, ef hún vilji.
Dordingull fer nú burt. Þegar skessan kemur heim um kvöldið, segir
hún, að vel sé unnið, en undarlegt sé, ef hún sé ein í ráðum. Hún
sest á rúmið og fellur í ketilinn. Helga sprengir þá eggið á ásjónu
hennar og nefnir Dordingul. Hann kemur þegar.
Skessan lætur þar líf sitt, og brenna þau hana upp. Verða þá dynkir
miklir, svo Helga verður hrædd og kyssir Dordingul þrjá kossa; segir
hann, að Daladrottning sé nú að drepast líka, því þær hafi átt sama
fjöreggið báðar.
Dordingull og Helga sváfu nú saman um nóttina, en um morguninn varð
Helga þess vör, að fríður kóngsson var fyrir ofan hana í rúminu, en
hamurinn þar hjá. Hún dreypir á kóngsson, en brennir haminn; hafði
Dordingull verið kóngsson í álögum. Hann átti nú Helgu fyrir konu.
Þau tóku það, sem fémætt var í hellinum, og þar á meðal Búkollu;
svo tóku þau líka allt fé úr höll Daladrottningar, sem var býsna
mikið. Þau fóru síðan utan, Dordingull og Helga, og settust að í
ríki föður hans, en að honum önduðum erfðu þau ríkið.
Þau lifðu lengi eftir þetta, og var sambúð þeirra hin besta; og
lýkur svo þessari sögu.
Það var einu sinni að kóngur og
drottning réðu fyrir ríki sínu. Þau voru rík og mektug og vissu
varla aura sinna tal. Þau áttu eina dóttur; hún ólst upp sem flest
önnur sögubörn. Þar bar hverki til titla né tíðinda, frétta né
frásagna í þann tíð nema logið væri.
Karl og kerling bjuggu í garðshorni. Þau áttu sjö syni og eina kú
til bjargar; hún var so væn að hana þurfti að mjólka þrisvar á dag
og gekk hún sjálf heim úr haganum um miðdegið.
Það var einu sinni að kóngur reið á jagt með sveina sína; þeir riðu
hjá nautaflokki kóngs; þar var kýr karls saman við.
Kóngur talaði til og sagði: "Væna kú á ég þarna."
"Ekki er það yðar kýr, herra," sögðu sveinarnir, "það er kýr karls
í kotinu."
Kóngur sagði: "Hún skal verða mín." Síðan reið kóngurinn heim.
En þegar hann var setstur til drykkju talaði hann til um kúna og
vildi senda menn til karls að fala hana fyrir aðra. Drottningin bað
hann að gjöra það ekki því þau hefði ekki neitt annað til bjargar.
Hann hlýddi því ekki og sendi þrjá menn að fala kú karls. Karl var
úti og börn hans öll; þeir skiluðu fyrir kónginn að hann vildi kaupa
kú hans fyrir aðra.
Karl sagði: "Mér er ekki mætari kýr kóngs en mín."
Þeir leituðu fast á, en hann lét ekki af þangað til þeir drápu
hann. Þá tóku öll börnin til að gráta nema sá elsti sonurinn sem hét
Brjám. Þeir spurðu börnin hvar þau hefði tekið sárast; þau klöppuðu
öll á brjóstið nema Brjám, hann klappaði á rassinn á sér og glotti.
Þeir drápu öll börnin sem á brjóstið klöppuðu, en sögðu það gilti
einu þó hitt greyið lifði því hann væri vitlaus.
Kóngsmenn gengu heim og leiddu með sér kúna, en Brjám gekk inn til
móður sinnar og sagði henni tíðindin; hún bar sig illa. Hann bað
hana að gráta ekki, þau tæki ekki mikið upp á því; hann skyldi bera
sig að gjöra svo sem hann gæti.
Það var so einu sinni að kóngur var að láta smíða skemmu dóttur
sinni og hafði hann fengið smiðunum gull að gylla hana bæði utan og
innan. Brjám kom þar með fánahátt sinn.
Þá sögðu kóngsmenn: "Hvað leggur þú hér gott til, Brjám?"
Hann sagði: "Minnki um mælir mikinn, piltar mínir," og so gekk hann
í burt.
En gullið sem þeim var fengið til að gylla með minnkaði so það
dugði ekki meir en til helminga.
Þeir sögðu kóngi til; hann hélt þeir hefði stolið því og lét hengja
þá. Þá fór Brjám heim og sagði móður sinni.
"Ekki áttirðu so að segja, sonur minn," sagði hún.
"Hvað átti ég þá að segja, móðir mín?"
"Vaxi um þrjá þriðjungana! áttirðu að segja."
"Ég skal segja það á morgun, móðir mín."
Hann fór so heim um morguninn eftir, mætti þeim sem báru lík til
grafar.
Þeir sögðu: "Hvað leggur þú hér gott til, Brjám?"
"Vaxi um þrjá þriðjungana, piltar mínir!" sagði hann.
Líkið óx so þangað til þeir felldu það niður. Brjám fór heim og
sagði henni frá.
"Ekki áttirðu so að segja sonur minn," sagði hún.
"Hvað átti ég þá að segja, móðir mín?" sagði hann.
"Guð friði sál þína hinn dauði! áttirðu að segja," sagði hún.
"Ég skal segja það á morgun móðir mín," sagði hann.
Hann fór so heim um morguninn að kóngsríki og sá hvar einn rakkari
var að hengja hund; hann gekk til hans.
"Hvað leggur þú hér til gott, Brjám?" sagði hann.
"Guð friði sál þína hinn dauði!" sagði Brjám.
Rakkarinn hló að, en Brjám hljóp heim til móður sinnar og sagði
henni.
"Ekki áttirðu so að segja sonur minn," sagði hún.
"Hvað átti ég þá að segja?" sagði hann.
"Hvört er þetta þjófsgreyið kóngsins að þú fer núna með? áttirðu að
segja."
"Ég skal segja það á morgun móðir mín."
Hann fór so heim um morguninn; þá var verið að aka drottningunni í
kringum borgina. Brjám gekk til þeirra.
"Hvað leggur þú hér til gott?" sögðu þeir.
"Er þetta nokkuð þjófsgreyið kóngsins, sem þið farið núna með
piltar mínir?"
Þeir skömmuðu hann út, drottningin bannaði þeim og sagði þeir
skyldi ekki leggja neitt til drengsins. Hann hljóp heim til móður
sinnar og sagði henni frá.
"Ekki áttirðu so að segja, sonur minn," sagði hún.
"Hvörninn átti ég þá að segja móðir mín?" sagði hann.
"Er þetta nokkuð heiðurslífið kóngsins þið farið núna með? áttirðu
að segja."
"Ég skal segja það á morgun, móðir mín," sagði hann.
So fór hann heim um morguninn og sá tvo menn sem voru að birkja
kapal. Hann gekk til þeirra.
"Hvað leggur þú hér gott til Brjám?" sögðu þeir.
"Er þetta nokkuð heiðurslífið kóngsins þið farið núna með piltar
minir?" sagði hann.
Þeir sveiuðu honum; hann hljóp heim til móður sinnar og sagði henni
frá.
"Farðu ekki þangað lengur," sagði hún, "því ég veit aldrei nær en
þeir drepa þig."
"Ekki drepa þeir mig móðir mín," sagði hann.
Það bar til einu sinni að kóngur skipaði mönnum sínum að róa til
fiski; þeir ætluðu so að róa á tveimur skipum. Brjám kom til þeirra
og bað þá að flytja sig; þeir sveiuðu honum í burt og hæddu hann; þó
spurðu þeir hann að hvörnin hann ætlaði veður myndi verða í dag.
Hann horfði ýmist upp í loftið eða ofan í jörðina og sagði: "Vind
og ei vindi! vind og ei vindi! vind og ei vindi."
Þeir hlógu að hönum og reru so fram á mið og hlóðu bæði skipin
full, en þegar þeir fóru heimleiðis gjörði storm. Drukknuðu bæði
skipin.
Þá bar ekkert til tíðinda fyrri en kóngur hélt veislu öllum sínum
vinum og vildarmönnum. Brjám bað móður sína að lofa sér heim að vita
hvað fram færi í veislunni.
Þegar allir voru setstir gekk Brjám út í smiðju og fór að smíða
spýtur. Þeir sem komu spurðu hvað hann ætlaði að gjöra með þær.
Hann sagði: "Hefna pápa, ekki hefna pápa."
Þeir sögðu: "Þú ert ekki óþesslegur." So fóru þeir í burt.
Hann stálsetti spýtur sínar allar í oddinn og læddist so inn í
höllina og negldi niður fötin allra þeirra sem við borðin sátu og
fór so í burt; en þegar þeir ötluðu að standa upp um kvöldið, þá
voru allir fastir og kenndi hvör um öðrum, þangað til hvör drap
annan so ekki varð móður manns barn eftir.
Þegar drottningin heyrði það harmaði hún og lét grafa þá dauðu.
Brjám kom heim um morguninn og bauð sig til að verða þénari
drottningar; hún varð því fegin því hún átti ekki mörgum á að skipa.
Hönum fór það dáindis vel og varð það so af að hann átti kóngsdóttur
og varð so kóngur og settist þar að ríki og lagði af allan gapahátt;
og ekki kann ég þessa sögu lengri.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar
Háskóla Íslands)
"Þau fóru með hálft ellefta svín
þangað og ætluðu að gæta þeirra." -
"Með hálft ellefta svín," segir Rauðskeggur, "það er ómögulegt.
Annaðhvort hafa þau hlotið að vera tíu eða ellefu. Eða hvernig getur
þú fullvissað mig um það, sonur góður, að það hafi verið hálft
ellefta svín, sem þau fóru með?" -
"Ég segi þér það ekki, nema þú lofir mér að vera í sjö ár enn hjá
móður minni," segir Báráður.
"Það má ég alls ekki," mælti Rauðskeggur, "því að þá verður þú
orðinn mitt ofurefli."
Hvort sem þeir þráttuðu lengur eða skemur um þetta, þá fór svo að
lokum, að Rauðskeggur lofaði Báráði að vera sjö ár enn hjá móður
sinni, ef hann segði sér, hvernig það væri lagað með svínin. Báráður
er þá ekki seinn á sér, hleypur inn í svínastíuna, tekur hálfa
svínið, fleygir því í Rauðskegg og segir: "Þarna er hálft svín, hinn
helminginn batt ég á bak á einu lifandi svíni, svo að þau fóru með
hálft ellefta svín út í skóginn." -
"Ó, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át. Hvorki ætlaðist
ég til, að í þér yrði aflið né vitið," segir Rauðskeggur og rýkur af
stað.
"Blessuð veri móðir mín fyrir það," segir Báráður og sat nú inni,
þar til karl og kerling komu heim. Urðu þau mjög glöð, þegar þau sáu
Báráð og spurðu, hvort enginn hefði komið. Hann sagði þeim sem var
og það með, að Rauðskeggur ætlaði að lofa honum að vera hjá þeim sjö
ár enn. Gleði þeirra karls og kerlingar var ósegjanlega mikil yfir
þessu óvænta láni.
Skammt frá kotinu var kóngsríki. Þangað gekk Báráður oft, því að
honum þótti dauflegt heima. Bar þar margt fyrir augu, sem honum
þótti gaman að sjá, en sérstaklega hafði hann gaman af að líta eftir
öllu smíði, einkum húsasmíði.
Einu sinni fór hann til kóngsins og bað hann að gefa sér spýtur.
Kóngur spurði, hvað hann ætlaði að gera með þær. Báráður kvaðst ætla
að reyna að smíða hús úr þeim. Konungur gaf honum þá eins mikinn við
og hann vildi í húsið og smíðatól. Tekur Báráður þá að flytja viðinn
heim að kotinu og byrjar á hússmíðinni. Er hann að þessu smíði í sjö
ár. Húsið var fremur óbrotið og lítið, með einum glugga, og lágu
stigar tveir upp í hann, annar inni í húsinu, en hinn úti, og náðu
þeir saman uppi í glugghúsinu.
Þegar þessi sjö ár eru liðin og afmælisdagurinn kemur, þegar
Báráður er #21 árs, segir hann við karl og kerlingu: "Nú verður
sjálfsagt ekkert undanfæri. Ég verð að fara með Rauðskegg, þegar
hann kemur. Ég held, að það sé bezt, að þið séuð heima í dag, því að
í sjálfu sér gildir það einu, hvort þið sjáið mig fara eða ekki."
Þau kváðust það gera mundu fyrir hans orð og óskuðu nú af heilum
hug, að hann þyrfti ekki að fara frá þeim. Þau sitja nú öll inni og
bíða átekta.
Áður langt er liðið á daginn, er barið. Báráður fer til dyra og
sér, að Rauðskeggur er kominn. "Heill sértu, sonur góður," segir
hann.
"Það sértu einnig, en ég er ekki þinn son, því að ég er sonur karls
og kerlingar," segir Báráður.
"Já, svei kerlingunni, sem soðið drakk og beinin át. Hvorki
ætlaðist ég til, að yrði í þér aflið né vitið." -
"Blessuð veri móðir mín fyrir það," segir Báráður.
"Ósköp ertu búinn að smíða þarna fallegt hús, sonur góður," segir
Rauðskeggur.
"Og ekki held ég það geti nú heitið," segir Báráður. "Ég hef verið
að dunda við þetta að gamni mínu." -
"Hvað ætlarðu annars að gera með húsið?" segir Rauðskeggur.
"Ég ætla að hafa það til þess að tala við hálfan inni og hálfan
úti," segir Báráður.
"Tala við hálfan inni og hálfan úti. Hvernig ferðu að því, sonur
góður?" -
"Það skal ég sýna þér. Gáttu hérna upp stigann," segir Báráður við
Rauðskegg, en hljóp sjálfur inn í húsið og upp stigann, sem inni
var, og var fljótari upp en karl. Þegar karl kemur upp í gluggann,
beygir hann sig inn í húsið. En þá höggur Báráður með öxi þvert um
bakið, svo að sundur tók manninn í miðju, en sinn veg féll hvor
hlutinn. "Svona er nú farið að tala við hálfan inni og hálfan úti,"
segir Báráður.
Eftir það fór hann inn og sagði karli og kerlingu, hvernig komið
var, og bað þau að hjálpa sér að brenna karlinn. Þau urðu glöð við
þetta og þökkuðu Báráði mjög vel fyrir verkið. Var síðan gert bál
mikið og Rauðskeggur á það lagður og brenndur upp til kaldra kola.
Síðan fréttist þetta um kóngsríkið og kom til eyrna konungi. Honum
þótti þetta svo snjallt af strák, að hann býður honum heim til sín
og lætur kenna honum allt það, sem þá þótti fróðleikur í. Gekk það
allt vel. Féll konungi mjög vel við Báráð, og svo fór, að hann gaf
honum dóttur sína. Báráður tók svo við ríkisstjórn eftir tengdaföður
sinn og ríkti vel og lengi. Þau kóngshjónin unnust hugástum, áttu
börn og buru, og svo kann ég ekki þessa sögu lengri.
Eitt sinn réð konungur nokkur löndum;
hann var kvæntur og átti tvö börn við konu sinni, son og dóttur; hét
sonur hans Ásmundur, en Signý dóttir; þau voru mannvænlegust
kóngabarna er menn höfðu spurn af á þeim tíma og voru þeim kenndar
allar listir sem konungbornum börnum hæfði að kunna; ólust þau upp
hjá föður sínum í miklu eftirlæti.
Kóngur gaf Ásmundi syni sínum eikur tvær sem stóðu úti á skógi og
hafði hann það að skemmtun að hola þær innan og búa til Í þeim alls
konar herbergi; gekk Signý oft með honum og dáðist að eikunum og
vildi hún eiga þær með honum. Það lét hann eftir henni og bar hún
þangað alls konar gimsteina og dýrgripi sem móðir hennar gaf henni.
Eitthvert sinn bar svo við að faðir þeirra fór í hernað, en á meðan
tók drottning sótt og andaðist. Þá fóru systkinin út á skóg og
settust í eikurnar; höfðu þau með sér nægan ársforða handa sér.
Nú er frá því að segja að í öðru landi ríkti kóngur einn; hann átti
son er Hringur hét. Hringur hafði heyrt um vænleik Signýjar og
ásetti sér að biðja hennar sér til handa; fær hann hjá föður sínum
eitt skip til ferðar; gaf honum vel byri og kom við land þar sem
Signý átti heima.
En sem hann ætlaði að ganga til hallar sér hann konu koma á móti
sér forkunnar fríða og þóttist hann aldrei slíka séð hafa. Hann
spurði hver þar færi, en hún kvaðst vera Signý kóngsdóttir. Hann
spurði hana því hún færi ein. Hún sagði að það væri af sorg eftir
móður sína, faðir sinn væri ekki heldur heima.
Kóngsson kvaðst hafa erindi til hennar fyrst svona væri komið, og
væri það á þá leið að leita ráðahags við hana. Hún tók því vel, en
bað hann til skipa ganga því hún kvaðst ætla lengra inn í skóginn;
gengur hún nú til eikanna og rífur þær upp með rótum, leggur síðan
aðra í bak, en aðra í fyrir, og ber þær til sjávar og veður með þær
á skip út.
Gjörir hún sig fagra sem fyrri og segir kóngssyni að farangur sinn
sé kominn; segist hún ekki annað fé eiga. Sigla þau nú heim og fagna
foreldrar hans og systir honum vel. Hann fær Signýju fagran kastala
og lætur setja eikurnar fyrir framan gluggana.
Eftir hálfan mánuð kemur hann út til hennar og segist innan fjórtán
daga vilja gifta sig henni og fær henni um leið mjög vandað efni til
brúðfata handa þeim báðum og skyldi hún sauma þau.
En er hann var burtu genginn kastar hún klæðunum á gólfið, ólmast
svo og umsnýst; er hún þá orðin að versta flagði og segist ekki vita
hvað hún eigi að gjöra við slíkt skart sem aldrei hafi á neinu snert
nema að éta mannakjöt og bryðja hrossabein; ólmast hún nú enn meir
og segist mega úr hungri deyja, því aldrei komi Járnhaus bróðir sinn
með kisturnar eins og hann hafi lofað sér.
En í sama bili spretta þrjár fjalir upp úr kastalagólfinu og kemur
þar upp jötunn með afarstóra kistu. Þau rífa bæði upp kistuna og er
hún full með mannabúka; rífa þau það í sig og fer svo bróðir hennar
niður aftur sama veg og sér engin vegsummerki á gólfinu. Þegar hún
er búin að seðja sig ólmast hún enn meira en áður og þrífur klæðin
og ætlar að rífa þau í sundur.
Nú er að segja frá kóngsbörnunum að þau eru í eikunum og hafa séð
allar þessar aðfarir; biður þá Ásmundur Signýju að ganga út úr
eikinni og ná klæðunum heldur en að heyra þessi óargalæti dag og
nótt.
Signý gjörir það; saumar hún nú fötin á sex dögum sem best hún má,
gengur síðan út með þau og kastar þeim á borðið. Skessan verður glöð
við það.
Nú kemur kóngsson til hennar og fær hún honum fötin; dáðist hann að
handbragði hennar og skildu þau með blíðu.
Skessan aðhefst nú allt hið sama sem fyrri þangað til Járnhaus
kemur; sér nú Ásmundur allan þennan aðgang og gengur til fundar við
kóngsson og biður hann að horfa um daginn á leik einn sem gjörist í
kastala hinnar nýkomnu kóngsdóttur; verður honum flent við að heyra
þetta um unnustu sína.
Þeir ganga nú báðir og fela sig á milli þilja þar sem þeir geta séð
inn til hennar. Hamast hún nú sem fyrr og segir við Járnhaus þegar
hann kemur: "Þegar ég er búin að eiga kóngsson skal ég lifa betur en
nú, þá skal ég drepa allt pakkið í höllinni og koma með ætt mína, og
þá held ég tröllin gleðji sig við mig og mann minn."
Verður kóngsson svo reiður við þetta að hann kveikir í kastalanum
og brennir hann til kaldra kola. Ásmundur segir honum nú allt um
eikurnar og undrast hann mjög fegurð Signýjar og þess sem þar inni
var. Biður hann nú Signýjar systur Ásmundar, en Ásmundur systur
Hrings; fara þau brúðkaup bæði fram. Ásmundur fer nú heim og til
föður síns. Tóku þeir mágar ríki eftir feður sína og ríktu til
ellidaga. Og lýkur svo þessari sögu.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar -
Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar
Þú munt víst þekkja stækkunargler,
svona kringlótt sjóngler, sem gerir alla hluti hundrað sinnum stærri en
þeir eru? Þegar maður tekur það og heldur því fyrir auganu og horfir á
vatnsdropa úr tjörninni þarna úti, þá sér maður þúsundmörg undarleg dýr,
sem maður sér annars aldrei í vatninu, en þau eru þar, og það er alls
engin missýning. Það er líkast til að líta eins og diskur, fullur af
marþvörum, sem stökkva hverjir innan um aðra. Þeir eru svo glefsandi og
slíta kræklur og lappir, totur og skækla hverjir af öðrum, en eru þó
glaðir og ánægðir eftir sínum hætti.
Nú var einu sinni gamall karl; almenningur kallaði hann Iða-Skriða,
enda var það nafn hans. Hann vildi ætíð hafa það, sem bezt var úr
hverjum hlut, og þegar það vildi ekki heppnast, þá hafði hann það með
göldrum.
Nú situr hann einn dag og heldur stækkunarglerinu fyrir auganu og
rýnir í vatnsdropa; hann var tekinn úr polli, sem stóð úti í skurðinum.
En hvað iðaði og skreið í honum, því trúir enginn; öll þessi þúsund
smádýr hentu sér og hoppuðu, rifu og toguðu hvert í annað og átu hvert
annað.
"Já, -en þetta er, sannast að segja, viðbjóðslegt," mælti Iði-Skriði
gamli. "Getur maður þá ekki fengið dýrin til að lifa í friði og gegna
sínu?" Og hann var að hugsa um þetta, en komst enga leið, og var þá ekki
annað fyrir en að galdra. "Ég verð að setja á þau lit, svo þau geti
komið greinilega í ljós," sagði hann og lét eins og dálítinn dropa af
rauðleitu víni í vatnsdropann, - en það var galdrablóð af langfínasta
tagi á tvo skildinga, þá urðu öll þessi kynjadýr rósrauð á skrokkinn, -
það var tilsýndar eins og heil borg, sem naktir villimenn bjuggu í.
"Hvað hefurðu þarna?" spurði annar gamall galdrakarl, sem hafði það
til síns ágætis, að hann var nafnlaus.
"Takist þér að geta í kollinn, hvað það er," sagði Iði-Skriði, "þá
skal ég láta þig fá það að gjöf, en það er ekki auðgetið, þegar maður
veit það ekki."
Og galdrakarlinn nafnlausi horfði á í gegnum stækkunarglerið. Það var
sannarlega eins og heil borg, þar sem allir voru á hlaupum allsberir.
Það var hryllilegt, en það var ennþá hryllilegra að sjá, hvernig þeir
rysktust og rifust, bitust og toguðu hver í anna. Það, sem neðst var,
átti að verða efst, og það, sem efst var, átti að verða neðst. Sko, sko!
þarna er einn, sem er fótlengri en ég; svei! fótinn af honum! Þarna er
einn með ofurlítinn nabba bak við eyrað, en nabbinn kvelur hann, og þá
skal hann kverjast af honum enn meir; og þeir hjuggu í hann og þeir
toguðu hann og átu hann vegna nabbans. Einn sat þarna, hægur og stilltur
eins og jómfrú, og óskaði einskis annars en að mega vera í friði og ró,
en það fékk jómfrúin ekki, það varð að draga hana fram, og þeir toguðu í
hana og rifu hana í sig.
"Þetta er ódáði skemmtilegt," sagði galdrakarlinn.
"Já, en hvað heldurðu að það sé?" mælti Iði-Skriði. "Geturðu ráðið þá
gátu?"
"Hún er auðráðin," svaraði hinn, "Það er Kaupmannahöfn eða einhver
önnur stórborg, þær eru allar hver annarri líkar. En stórborg er það."
Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu
Steingríms Thorsteinssonar
Vér stöndum á hausttíma á
kastalavíggarðinum og horfum út á sjóinn og eru þar fjöldamörg skip á
siglingu. Vér horfum yfir til Svíastrandar hinum megin við sundið, þar
sem hyllir undir hana í bjarma kvöldsólarinnar. Að baka til við oss er
virkisbrekkan snarbrött og allt umhverfis oss eru stórvaxin tré, og
gulnað laufið hrynur af greinunum, en fyrir neðan brekkuna standa
skuggaleg hús með stauragirðingu og í kring og fyrir innan, þar sem
varðmaðurinn spígsporar fram og aftur, er dimmt og þrengslalegt, en þó
er enn dimmra í svartholinu með grindagluggunum fyrir. Þar fyrir innan
sitja fjötraðir fangar, hinir verstu óbótamenn.
Einn geisli frá sólinni, sem er að setjast, skín inn í tómlegan
fangaklefann. Sólin skín jafnt yfir vonda og góða. Fanginn horfir
svipdimmur og hörkulegur á kaldan geislann og augnaráðið er ljótt.
Dálítill fugl kemur fljúgandi að gluggagrindinni. Fuglinn syngur jafnt
fyrir réttláta og rangláta, hann kvakar stuttlega: "ví, ví," situr kyrr
um stund við grindina, reytir af sér eina fjöður og ýfir á sér fiðrið um
háls og bringu - og vondi maðurinn hlekkjaði horfir á það, og mýkist þá
svipurinn nokkuð, þó harður sé og ófrýnn. Það rennur upp bjartari hugsun
í brjósti fangans, sem hann getur ekki sjálfur gert sér grein fyrir. En
sú hugsun á eitthvað skylt við sólargeislann, sem skein inn í klefann
til hans gegnum grindina, eitthvað skylt við ilminn af fjólunum, sem
spretta svo grózkulega á vorin utan í virkisbrekkunni. Í þessu gellur
við veiðihornsþytur. Fuglinn flýgur frá grindaglugga fangans,
sólargeislinn hverfur, og aftur verður dimmt í klefanum, dimmt í hjarta
vonda mannsins. En allt um það, sólin hefur náð að skína þangað inn, og
fuglinn hefur náð að syngja þangað inn.
Hljómið áfram, fögru veiðihornstónar! Kvöldið er unaðsblítt og hafið
kyrrt og spegilfagurt.
Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar
Einu sinni var prins. Hann vildi fá
prinsessu fyrir konu en það átti að vera sönn prinsessa. Hann ferðaðist
því um veröld víða til þess að finna eina slíka, en alls staðar var
eitthvað að. Nóg var af prinsessum, en hvort það væru sannar prinsessur,
það gat hann ekki almennilega komizt fyrir, því að alltaf var eitthvað,
sem ekki stóð alls kostar heima. Kom hann svo heim aftur úr þessu
ferðalagi og var hnugginn mjög, því hann vildi svo gjarnan eignast sanna
prinsessu.
Eitt kvöldið gerði vonzkuveður og gengu þrumur og eldingar. Það
rigndi eins og hellt væri úr fötum. Það var afskaplegt. Þá var barið á
borgarhliðið, og gamli kóngurinn fór ofan sjálfur til að ljúka upp.
Það var prinsessa, sem stóð fyrir utan. En hvílík ósköp voru að sjá
hana, eins og hún var til reika af rigningunni og illvirðinu! Vatnið
rann niður úr hári hennar og fötum, það rann inn um tána á skónum hennar
og út um hælinn og samt sagðist hún vera sönn prinsessa.
Já, við skulum nú ekki vera lengi að ganga úr skugga um það, hugsaði
drottningin gamla með sér, en sagði ekki neitt. Fór hún svo inn í
svefnherbergið, tók öll sængurfötin upp úr rúminu og lét baun ofan á
rúmbotninn, tók síðan tuttugu dýnur og lagði ofan á baunina, og í tilbót
tuttugu dúnsængur og hlóð þeim ofan á dýnurnar.
Þar átti nú prinsessan að hvílast um nóttina.
Um morguninn spurðu þau hana, hvernig henni hefði sofnazt.
"O, tarna var ljóta nóttin," sagði prinsessa. "Mér hefur varla komið
dúr á auga alla nóttina. Hamingjan má vita, hvað hefur verið í rúminu!
Ég hef haft eitthvað hart undir mér, svo ég er bæði blá og marin um
allan kroppinn. Þvílík skelfing!"
Nú gátu þau séð að þetta var sönn prinsessa, þar sem hún hafði orðið
vör við baunina í gegnum tuttugu dýnur og tuttugu dúnsængur. Svo
hörundsár gat engin verið nema sönn prinsessa.
Prinsinn gekk að eiga hana, því að nú vissi hann, að hún var sönn
prinsessa, og baunin var látin í gersemasafnið og þar er hún enn til
sýnis, nema ef einhver skyldi hafa tekið hana.
Jæja, börnin góð! Þetta er nú áreiðanlega sönn saga.
Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu
Steingríms Thorsteinssonar
Einu sinni bjuggu í
þorpi nokkru tveir menn samnefndir. Báðir hétu Kláus, en annar
þeirra átti fjóra hesta og hinn ekki nema einn. Til þess nú að
greina þá í sundur, kölluðu menn þann, sem fjóra hestana átti, stóra
Kláus, en hinn litla Kláus, sem átti ekki nema einn hestinn. Nú
skulum við heyra, hvernig þeim farnaðist báðum, því þetta er sönn
saga.
Liðlanga vikuna varð litli Kláus að plægja fyrir stóra Kláus og
lána honum eina hestinn, sem hann átti; þar kom á móti, að stóri
Kláus hjálpaði hinum með öllum sínum fjórum, en það var ekki nema
einu sinni í viku, - á sunnudögunum. Það kynni nú að vera, að hann
litli Kláus léti keyrið smella duglega yfir öllum fimm hestunum; það
gat svo heitið, að þetta væru hans hestar á þeim eina degi. Sólin
skein svo yndisfagurt, og allar klukkur í kirkjuturninum hringdu til
messu. Fólkið var prúðbúið, og hver maður gekk með sálmabók undir
hendinni í guðshús til að heyra prestinn prédika, og allir horfðu á
litla Kláus, sem var að plægja með fimm hestum. Og hann varð þá svo
hróðugur og ánægður, að hann smellti aftur með keyrinu og kallaði:
"Hott, hott, allir mínir hestar!"
"Svona máttu ekki tala," sagði stóri Kláus, "Það er ekki nema einn
hesturinn, sem þú átt."
En jafnharðan er einhver gekk aftur fram hjá á leið til kirkjunnar,
þá mundi litli Kláus ekki eftir, að hann mátti ekki segja þetta, og
kallaði: "Hott, hott, allir mínir hestar!"
"Já, nú ætla ég að biðja þig að hætta þessu," sagði stóri Kláus,
"því ef þú segir þetta einu sinni enn, þá slæ ég hestinn þinn í
ennið, svo að hann skal liggja dauður eftir."
"Svei mér þá ef ég skal segja það oftar", sagði litli Kláus. En
þegar svo einhverjir gengu fram hjá og heilsuðu honum með því að
kinka til hans kolli, þá varð hann svo ofurfeginn og fannst það
eitthvað svo mannalegt, að hann hafði fimm hesta til að plægja með,
og gerði þá smell með keyrinu og kallaði: "Hott, hott, allir mínir
hestar!"
"Ég skal hotta á hestana þína," sagði stóri Kláus og tók
tjóðurhnallinn og laust þennan eina hest, sem litli Kláus átti, svo
mikið högg í ennið, að hann byltist til jarðar og var steindauður.
"Æ, nú á ég engan hest framar!", sagði litli Kláus og fór að gráta.
Síðan fláði hann hestinn, tók hána og lét hana hanga úti, þangað til
hún var vel vindþurrkuð. Síðan tróð hann henni í poka, kippti honum
á bak sér og sneri á leið til borgarinnar til að selja þar hána.
Það var löng gönguleið sem hann átti fyrir höndum, og lá um skóg
nokkurn mikinn og dimman, og nú gerði hræðilegt illviðri. Hann
villtist alveg af leið, og áður en hann komst á rétta götu aftur,
var orðið kvöldsett og lengra en svo til borgarinnar eða heim til
hans aftur, að hann gæti komizt það áður en náttaði.
Rétt við þjóðgötuna stóð bóndagarður mikill; þar var stofuhús og
útihlerar fyrir gluggum, og lagði út birtu innan frá að ofan til.
"Hér get ég líklega fengið að vera," hugsaði litli Kláus og drap
högg á dyr.
Bóndakonan lauk upp, en þegar hún heyrði, hvað hann vildi, þá sagði
hún honum, að hann gæti farið sína leið, maðurinn sinn væri ekki
heima og hún tæki ekki á móti gestkomendum.
"Nú, þá verð ég að liggja úti," sagði litli Kláus, og bóndakonan
skellti dyrunum harkalega aftur beint framan í hann.
Rétt hjá stóð stóreflis heystakkur, en í sundinu milli hans og
hússins hafði verið byggður dálítill skúr með flötu hálmþaki.
"Þarna uppi get ég legið," sagði litli Kláus, þegar hann sá þakið;
"það er ágætt rúm. Líklega flýgur storkurinn ekki ofan til að bíta
mig í fæturna." Uppi á þakinu stóð sem sé storkur, því hann átti þar
hreiður.
Nú skreiddist litli Kláus upp á skúrinn, lagðist þar fyrir og
hagræddi sér, svo að sem bezt færi um sig. Gluggahlerarnir luktu
ekki fyrir að ofanverðu, og gat hann því séð beint inn í stofuna.
Þar var lagt á borð, og var á því vín og steik og fyrirtaks
fiskréttur. Bóndakonan og djákninn sátu við borðið, en ekki nokkur
maður annar, og hún hellti í glasið fyrir hann, og hann tók til sín
af fiskinum, því fiskur þótti honum mata beztur.
"Æ, nú væri gaman að komast með í þetta góðgæti," sagði Kláus og
teygði höfuðið allt inn að glugganum. En sú sælgætiskaka, sem hann
sá framreidda á borðinu! Þvílíkt gildi! það mátti nú segja.
Nú heyrir hann hófdyn, og kemur einhver ríðandi eftir þjóðveginum
að húsinu. Það var maðurinn húsfreyjunnar, bóndinn sjálfur, sem var
að koma heim.
Bóndi þessi var mesti gæðamaður, en honum fylgdi sá undarlegi
kvilli, að hann gat aldrei þolað að sjá djákna; sæi hann djákna,
ætlaði hann hreint að ganga af göflunum. Það var líka þess vegna,
sem djákninn hafði farið inn, til þess að bjóða konunni góðan
daginn, að hann vissi, að bóndinn var ekki heima, og bar hin góða
kona á borð fyrir hann allan þann ágætasta mat, sem hún átti í eigu
sinni. Þegar þau nú heyrðu, að maðurinn kom, þá urðu þau svo logandi
hrædd, og beiddi konan djáknann að skríða niður í stóra, tóma kistu,
sem stóð úti í horni, og það gerði hann, því hún vissi, að
manntetrið þoldi ekki að sjá djákna. Konan faldi í snatri allar þær
ljómandi krásir, og vínið einnig, í bakstursofninum sínum, því hefði
bóndinn séð það, þá mundi hann víst hafa spurt, hvað þess konar ætti
að þýða.
"Æ!" sagði Kláus mæðilega uppi á skúrnum, þegar hann sá allan
matinn hverfa.
"Er nokkur þarna uppi?" sagði bóndinn og gægðist upp fyrir sig til
litla Kláusar; "því liggurðu þarna? Komdu heldur með mér inn í
stofu."
Litli Kláus sagði honum eins og var, að hann hefði villzt af leið,
og beiddi hann að lofa sér að vera þar um nóttina.
"Já, það er nú sjálfsagt," sagði bóndinn, "en fyrst verðum við að
fá okkur eitthvað að borða."
Konan tók þeim báðum mjög vingjarnlega, breiddi dúk á langt borð og
setti fyrir þá stórt fat fullt af graut. Bóndinn var svangur og át
með góðri lyst, en Kláus gat ekki annað en verið að hugsa um
steikina góðu, fiskinn og kökuna, sem hann vissi, að stóð inni í
ofninum.
Pokann með hrosshánni í hafði hann látið undir borðið; hána hafði
hann, svo sem fyrr er á vikið, ætlað að selja í borginni. Grauturinn
gat alls ekki smakkazt honum; steig hann þá á pokann sinn, og
skrjáfaði við það allhátt í þurri hrosshánni.
"Þei, þei!" sagði litli Kláus við pokann sinn, en steig óðara á
hann aftur, svo að skrjáfaði enn hærra en áður.
"Hvað er það, sem þú hefur í pokanum þínum?" spurði bóndi.
"O, það er galdrakarl," sagði litli Kláus, "hann segir, að við
eigum ekki að éta graut, því hann hefur galdrað allan ofninn fullan
af steik og fiski og köku."
"Hvað ertu að segja?" mælti bóndi, opnaði í skyndi ofnhurðina og sá
nú allan þann ágætismat, sem kona hans hafði falið, og trúði hann nú
statt og stöðugt, að galdramaðurinn í pokanum hefði galdrað þetta
til þeirra. Konan þorði ekki að segja neitt, heldur setti matinn
orðalaust á borðið, og neyttu þeir nú báðir af fiskinum, steikinni
og kökunni. Steig nú litli Kláus enn á poka sinn, svo skrjáfaði í
hrosshánni.
"Hvað segir hann núna?" spurði bóndi.
"Hann segir," svaraði litli Kláus, "að hann hafi sömuleiðis galdrað
til okkar þrjár flöskur af víni; þær standa líka inni í ofninum." Og
nú varð konan líka að taka fram vínið, sem hún hafði falið, og drakk
bóndinn og varð hinn hreifasti; svona galdrakarl eins og þann, sem
hann litli Kláus hafði í pokanum, sagði hann, að sig stórlangaði til
að eiga.
"Getur hann líka galdrað fram djöfulinn?" spurði bóndi. "Djöfsa
þætti mér nú gaman að sjá, því nú liggur vel á mér."
"Já!" sagði litli Kláus, "galdrakarlinn minn getur allt það, sem ég
bið hann um. Er það ekki satt kunningi?" bætti hann við og steig á
pokann, svo að skrjáfaði. "Heyrirðu? hann segir já. En fjandinn er
svo afskræmislega ljótur, það er betra að sjá hann ekki."
"O, ég er hvergi hræddur. Hvernig er hann þá útlits?"
"Alveg eins og djákni, þar skal enginn mun á milli sjá."
"Ú!" sagði bóndi; "þá var ekki á verra von, því það skuluð þér
vita, að djákna þoli ég ekki að sjá, en nú má það standa á sama; úr
því ég veit, að það er djöfullinn, þá get ég betur sætt mig við það.
Nú er ég óbilugur, en hann má ekki koma of nærri mér."
"Nú skal ég spyrja galdrakarlinn minn," sagði litli Kláus, steig á
pokann og lagði við eyrað.
"Hvað segir hann?"
"Hann segir, að þú getir farið til og lokið upp kistunni, sem
stendur þarna úti í horni; þá munir þú sjá fjandann, hvernig hann
húkir í kistunni, en þú verður að halda í lokið, svo hann sleppi
ekki út."
"Viltu þá hjálpa mér að halda í það?" mælti bóndi og gekk að
kistunni, sem konan hafði falið í djáknann. Kúrði djákninn þar
lafhræddur undir lokinu.
Bóndinn lyfti því dálítið upp og gægðist undir það. Æpti hann þá
upp yfir sig og hrökk til baka. "Jú, nú sá ég hann; hann er alveg
eins í sjón og djákninn okkar. Það er hræðilegt!"
Ofan á þetta þurfti nú að drekka, og drukku þeir svo langt fram á
nótt.
"Þú verður að selja mér þennan galdrakarl," sagði bóndinn, "þú
getur sett upp á hann, hvað sem þú vilt; já, meira að segja, ég skal
þegar í stað gefa þér eina skeppu af peningum fyrir hann."
"Nei, það get ég ekki," sagði litli Kláus, "gáðu að því, hvað mikið
gagn ég get haft af þessum galdrakarli."
"Æ, mér er svo skrambi hugleikið að fá hann," sagði bóndinn og
linnti ekki á bæninni.
"Jæja þá," sagði litli Kláus loksins, "fyrst þú hefur verið svo
vænn að hýsa mig í nótt, þá ætla ég að gera það fyrir þig. Þú skalt
fá galdrakarlinn fyrir eina skeppu af peningum, en ég vil hafa hana
kúfmælda."
"Það skaltu fá," sagði bóndinn, "en kistuna þarna verðurðu að taka
með þér, ég vil ekki hafa hana stundu lengur í mínum húsum. Það er
ekki að vita, nema hann sitji í kistunni enn."
Litli Kláus lét bóndann fá pokann sinn með hrosshánni í og fékk
eina skeppu af peningum í staðinn og hana kúfmælda. Bóndinn gaf
honum í tilbót stórar hjólbörur til að aka burt peningunum og
kistunni.
Hinu megin við skóginn var mikið og djúpt vatnsfall. Það beljaði
fram með svo stríðu falli, að varla voru tiltök að synda móti
straumnum; hafði nýlega verið gerð yfir það stór og stæðileg brú.
Litli Kláus nam staðar á henni miðri og sagði upphátt, til þess að
djákninn í kistunni skyldi heyra það:
"Nei, hvað á ég annars að vera að burðast með þessa bannsettu
kistu? Hún er eins þung og hún væri full af grjóti. Ég verð
dauðuppgefinn að aka henni. Ég ætla því að steypa henni út í ána;
reki hana svo heim til mín, þá er það gott, og verði það ekki, þá
stendur mér alveg á sama."
Nú tók hann kistuna með annarri hendi og lyfti henni dálítið, eins
og hann ætlaði að varpa henni niður í straumiðuna.
"Æ, nei, gerðu það ekki," kallaði djákninn í kistunni, "lofaðu mér
að komast út fyrst."
"Hú!" sagði litli Kláus og lét eins og sér yrði bilt við; "hann
situr þá í henni enn. Það er þá eins gott, að ég fleygi henni nú
þegar út í ána, svo að hann drukkni."
"Æ, nei, æ, nei!" sagði djákninn, "ég skal gefa þér eina skeppu af
peningum, ef þú sleppir mér."
"Nú, þá er allt öðru máli að gegna," sagði litli Kláus og lauk upp
kistunni. Djákninn skreið óðara upp úr henni, hratt henni tómri út í
ána og gekk heim til sín. Fékk litli Kláus þar eina skeppu af
peningum, og eina var hann búinn að fá áður hjá bóndanum. Hann hafði
nú eignazt af peningum eins og komst á hjólbörurnar. "Sjáum við það,
þann hest fékk ég dável borgaðan," sagði hann við sjálfan sig, þegar
hann kom heim í stofuna sína og hvolfdi niður öllum peningunum í
stóra hrúgu á gólfinu. "Mikil raun verður stóra Kláusi að því, þegar
hann fréttir, hversu mikinn auð ég hef haft upp úr þessum eina hesti
mínum, en ekki ætla ég samt að segja honum það með berum orðum."
Nú sendi hann dreng heim til stóra Kláusar til þess að fá mæliker
að láni.
"Hvað skyldi hann ætla að gera við það? hugsaði stóri Kláus með sér
og rauð tjöru á botninn, til þess að eitthvað tylldi við það af því,
sem mælt yrði, og það varð líka, því þegar hann fékk mælikerið
aftur, þá loddu eftir í því þrír nýir silfuráttskildingar.
"Hvað er þetta?" segir stóri Kláus, hleypur til litla Kláusar og
segir: "Hvaðan hefurðu fengið alla þessa peninga?"
"O, það var fyrir hrosshúðina mína, ég seldi hana í gær."
"Það var, svei mér, vel borgað," segir stóri Kláus, hleypur heim,
tekur öxi, dauðrotar alla hestana sína fjóra, birkir þá síðan og
ekur svo með húðirnar inn í borgina.
"Húðir, húðir! Hver vill kaupa húðir?" kallaði hann í sífellu, er
hann ók um strætin.
Allir skóarar og sútarar komu hlaupandi og spurðu hvað hann vildi
hafa fyrir húðirnar.
"Eina skeppu af peningum fyrir hverja", sagði stóri Kláus.
"Ertu vitlaus?" sögðu þeir allir, "heldurðu að við höfum peninga
svo skeppum skiptir?"
"Húðir, húðir! Hver vill kaupa húðir?" kallaði hann aftur, og öllum
sem spurðu, hvað húðirnar kostuðu, svaraði hann: "Eina skeppu af
peningum hver húð."
"Hann er að gera háð og narr að okkur," sögðu þeir allir, og
skóararnir tóku lærólar sínar og sútararnir skinnsvunturnar sínar og
fóru að lemja á stóra Kláusi.
"Húðir, húðir!" æptu þeir að honum og skældu sig framan í hann,
"Já, við skulum fá þér húð, sem snýtir rauðu. Burt með hann úr
borginni!" Og stóri Kláus varð að flýja eins og fætur toguðu og
hafði aldrei fengið slíka barsmíð fyrr á ævi sinni.
"Nú, nú!" sagði hann, þegar heim kom, "þetta skal litli Kláus fá
borgað; ég skal drepa hann."
Nú stóð svo á heima hjá litla Kláusi, að amma hans gamla var dáin.
Hún hafði reyndar verið geðstirð og vond við hann, en samt tregaði
hann hana mjög, tók hana andaða og lagði hana í sængina sína
glóðvolga, ef svo mætti verða, að kerling lifnaði við aftur. Þar
ætlaði hann að láta hana liggja alla nóttina, en sitja sjálfur úti í
horni og sofa á stól, eins og hann hafði stundum gert áður.
Og sem hann situr þar um nóttina, þá er upp lokið dyrum, og inn
kemur stóri Kláus með öxi sína. Honum var vel kunnugt, hvar rúm
litla Kláusar stóð, og gekk hann beint að því og hjó í enni ömmu
gömlu, því hann hélt að þar væri litli Kláus. "Búið er það," sagði
hann, "ekki gabbar hann mig oftar." Og þar með fór hann heim aftur.
"Þetta er ljóti maðurinn, þetta er illmenni," sagði litli Kláus,
"þarna ætlaði hann að drepa mig. Það var lán fyrir ömmu gömlu, að
hún var dauð áður, annars hefði hann banað henni."
Nú færði hann ömmu gömlu í sparifötin hennar, fékk hest að láni hjá
nábúa sínum og beitti hann fyrir vagninn. Síðan setti hann ömmu
gömlu í baksætið og bjó svo um, að hún gæti ekki oltið út, þegar
hann æki. Skokkuðu þau síðan af stað sem leið lá í gegnum skóginn,
og um morguninn, í sólarupprás, voru þau komin að stóru gistihúsi.
Þar lét litli Kláus staðar numið og fór inn til að fá sér hressingu.
Gestgjafinn var stórríkur maður, og þar til valmenni, en hann var
nasbráður, eins og eldur og funi, þegar í hann fauk.
"Góðan daginn," sagði hann við litla Kláus, "snemma hefur þú farið
í sparifötin þín í dag."
"Já," sagði litli Kláus, "ég er á leið til borgarinnar með henni
ömmu minni gömlu, hún situr þarna úti á vagninum, ég fæ hana ekki
til að koma með mér inn í stofu. Viltu ekki færa henni eitt staup
mjaðar, en þú verður að tala hátt, því hún heyrir ekki vel."
"Ég skal minnast þess," sagði gestgjafinn og fór út með fullt staup
mjaðar til ömmunnar dauðu, sem sat upprétt í vagninum.
"Hérna er fullt staup mjaðar frá syninum," sagði gestgjafinn, en
konan dauða sagði ekki orð, heldur sat steinþegjandi.
"Heyrirðu ekki?" kallaði gestgjafinn eins hátt og hann gat, "hérna
er fullt staup mjaðar frá syninum."
Og einu sinni enn kallaði hann, og enn einu sinni, en þegar kerling
hreyfði sig alls ekki úr stað, þá varð hann reiður og grýtti
staupinu beint framan í hana, svo að mjöðurinn rann niður um nefið,
en hún valt aftur á bak, því hún hafði aðeins verið reist upp, en
ekki bundin.
"Heyrðu maður!," kallaði litli Kláus, stökk fram úr dyrunum og
greip fyrir kverkar gestgjafanum, "þarna hefurðu drepið hana ömmu
mína. Líttu á, það er stórt gat á enninu."
"Æ, mikil ógæfa!" æpti gestgjafinn og skellti saman höndunum, "allt
þetta kemur af fljótlyndi mínu. Elsku litli Kláus minn! ég skal gefa
þér eina skeppu af peningum og láta jarða hana ömmu þína, eins og
hún væri mín eigin amma, en þegiðu fyrir alla muni, því annars
höggva þeir af mér höfuðið, - og það er svo viðbjóðslegt."
Með þessum hætti fékk litli Kláus eina skeppu af peningum, og
gestgjafinn jarðaði ömmu gömlu, eins og hún hefði verið amma hans
sjálfs.
Þegar nú litli Kláus var kominn heim með þessa miklu peninga, þá
sendi hann drenginn sinn yfrum til stóra Kláusar til þess að biðja
hann að ljá sér mæliker.
"Hvernig segir fyrir þessu?" mælti stóri Kláus, "hef ég þá ekki
drepið hann? Að því verð ég að gá sjálfur," og fór hann svo með
mælikerið til litla Kláusar.
"Nei - hvar hefurðu fengið alla þessa peninga?" sagði hann og
glennti upp augun, þegar hann sá allan þennan auð, sem við hafði
bæzt.
"Það var hún amma mín, en ekki ég, sem þú drapst," sagði litli
Kláus. "Ég hef nú selt hana og fengið fyrir hana eina skeppu af
peningum."
"Það var sannarlega vel borgað," sagði stóri Kláus og flýtti sér
heim, tók öxi og drap ömmu sína gömlu þegar í stað, lét hana svo upp
í vagn og ók til borgarinnar, þar sem lyfsalinn bjó, og spurði,
hvort hann vildi kaupa dauða mannskepnu.
"Nú, hvaða mannskepnu? og hvar hefurðu fengið hana?" spurði
lyfsalinn.
"Það er hún amma mín," sagði stóri Kláus, "ég drap hana til þess að
fá eina skeppu af peningum."
"Guð varðveiti okkur," sagði lyfsalinn, "þú mistalar þig, segðu
ekki annað eins og þetta, svo þú vinnir þér ekki til ólífis." Og nú
sagði hann honum eins og satt var, hvílíkt illvirki hann hefði
framið og hvílíkt illmenni hann væri, og hlyti hann því að sæta
refsingu. Þá varð stóri Kláus svo skelkaður, að hann stökk beint úr
lyfjabúðinni upp í vagn sinn, sló upp á hestana og ók heim í skyndi,
en lyfsalinn og allir aðrir hugðu hann vera brjálaðan og lofuðu
honum að aka hvert sem hann vildi.
"Þetta skaltu fá borgað," sagði stóri Kláus, þegar hann var kominn
á þjóðbrautina, "já, þetta skaltu fá borgað, litli Kláus!" - Og
jafnskjótt sem hann var kominn heim til sín, tók hann stærsta
pokann, sem hann gat fundið, fór yfrum til Kláusar og mælti: "Nú
hefurðu gabbað mig í annað sinn; fyrst drap ég hestana mína og þar
næst ömmu mína. Það á ég allt upp á þig, en nú skaltu ekki gabba mig
oftar." Að svo mæltu þreif hann yfir um Kláus, tróð honum í pokann
sinn, kippti honum á bak sér og sagði: "Nú fer ég með þig og drekki
þér."
Það var langt nokkuð, sem hann þurfti að ganga áður en til árinnar
kæmi, og síður en svo, að litli Kláus væri létt byrði. Leiðin lá
fram hjá kirkjunni; var þar inni leikið á orgel og fagur
safnaðarsöngur. Setti þá stóri Kláus niður pokann sinn, með litla
Kláusi, rétt við kirkjudyrnar, og hugsaði með sér, að ekki væri úr
vegi að fara inn og hlýða fyrst á einn sálm, áður en hann héldi
lengra áfram; ekki væri hætt við því, að litli Kláus slyppi út, og
allir væru í kirkju. Fór hann því inn í kirkjuna.
"Æ,Æ!" sagði litli Kláus stynjandi í pokanum, en hvernig sem hann
sneri sér og bylti sér til í honum, þá gat hann ekki leyst bandið.
En í sama bili kom gamall kúasmali með snjóhvítt hár og stórt
gönguprik í hendi; hann rak á undan sér heilan rekstur kúa og nauta,
og varð pokinn fyrir þeim og valt um.
"Æ, æ!" sagði litli Kláus, "ég er enn svo ungur og á nú svo fljótt
að fara í himnaríki."
"Og ég veslingur," sagði kúasmalinn, "ég er orðinn svona gamall og
fæ ekki að komast þangað."
"Leystu frá pokanum," kallaði litli Kláus, "skríddu í hann í minn
stað, þá kemstu óðara í himnaríki."
"Já, það vil ég allshugar feginn," sagði kúasmalinn og leysti frá
fyrir litla Kláusi, og stökk hann þá óðara upp úr pokanum.
"Vilt þú nú gæta nautgripanna?" sagði gamli maðurinn og skreið í
pokann, en litli Kláus batt fyrir og fór svo leiðar sinnar með allar
kýrnar og nautin.
Litlu síðar kemur stóri Kláus út úr kirkjunni og tekur aftur pokann
á bak sér; finnst honum reyndar, að hann hafi létzt mikið, því
kúasmalinn var allt að því helmingi léttari en litli Kláus. "En hvað
hann er orðinn léttur að bera! já, það mun nú koma af því, að ég
hlýddi á sálminn." Fór hann svo til árinnar, en hún var bæði mikil
og djúp, og fleygði hann út í hana pokanum með gamla kúasmalanum í
og kallaði á eftir honum, því hann vissi ekki betur en að það væri
litli Kláus: "Hana! búið er það, ekki skalt þú gabba mig oftar."
Eftir það gekk hann heimleiðis, en þegar þangað kom, sem vegirnir
skiptust, þá mætti hann litla Kláusi með allan nautgripareksturinn.
"Hvað er þetta?" sagði stóri Kláus, "drekkti ég þér ekki?"
"Jú!", sagði litli Kláus, "þú fleygðir mér út í ána fyrir hálfri
stundu."
"En hvar hefurðu fengið allt þetta ljómandi fallega nautfé?" spurði
stóri Kláus.
"Það eru sjávarnautgripir," sagði litli Kláus, "og skal ég nú segja
þér upp alla söguna, og hafðu kæra þökk fyrir, að þú drekktir mér.
Nú er mér óhætt úr þessu, - Já, nú er ég verulega kominn í álnir,
því máttu trúa. Ég var svo hræddur, þegar ég lá þarna, innibyrgður í
pokanum; vindurinn hvein um eyru mér, þegar þú kastaðir mér niður í
kaldan strauminn. Ég sökk undir eins til botns, en meiddi mig
ekkert, því ég kom niður á dúnmjúkt gras, sem vex þar neðra, og í
sama bili var pokinn opnaður, og kom til mín yndislegasta yngismey í
snjóhvítum klæðum og með grænan krans um rennvott hárið. Tók hún í
höndina á mér og sagði: "Ert þú þarna, litli Kláus! Þarna er nú, til
að byrja með, nokkuð af nautgripum, sem þú mátt eiga, en einni mílu
ofar á veginum stendur í viðbót heill rekstur, sem ég ætla að gefa
þér." Ég sá nú, að áin var breiður þjóðvegur sæbúanna. Niðri á
botninum komu þeir gangandi og akandi beint utan að úr sjónum og
héldu inn í landið alla leið ána á enda. Þar var mesta auðlegð af
indælustu blómstrum og safamikill grasvöxtur, og fiskarnir, sem þar
syntu, þutu fram hjá eyrum mínum, alveg eins og fuglarnir hérna í
loftinu. en hvað fólkið þar var laglegt! Og þá var ekki minna vert
um búpeninginn, sem gekk þar um grund og haga!"
"En því varstu þá að koma hingað upp til okkar aftur?" sagði stóri
Kláus. "Það hefði ég ekki gert, fyrst svo ljómandi fallegt er þar
neðra."
"Jú," sagði litli Kláus, "það gerði ég nú einmitt af klókindum, og
taktu nú eftir því, sem ég segi þér. Sækonan sagði, að mílu vegar
þaðan uppi á veginum - en með veginum meinar hún ána, því aðra leið
getur hún ekki komizt, - þar sé enn heill rekstur, sem mér er
ætlaður. En ég veit, að áin rennur í alls konar bugðum, ýmist þar og
ýmist hér, það er ekki smáræðis krókur; nei, þá er betra að stytta
sér leið þegar maður getur, að koma hér upp á land og reka þvert
yfir til árinnar aftur. Með því spara ég næstum hálfa mílu og kemst
fljótara til sjávarnautgripanna minna."
"Ó, mikill lánsmaður ertu" sagði stóri Kláus, "heldur þú, að ég fái
líka sjávarnautgripi, þegar ég kem niður á árbotn?"
"Já, það mundi ég ætla," sagði litli Kláus, "en ég get ekki borið
þig í pokanum til árinnar. Mér þykir þú heldur þungur, en ef þú vilt
ganga þangað sjálfur og skríða svo í pokann, þá skal ég með mestu
ánægju fleygja þér út."
"Þakka þér fyrir" sagði stóri Kláus, "en fái ég ekki
sjávarnautgripi, þegar niður kemur, skal ég lúberja þig."
"Æ, vertu ekki svona vondur," sagði litli Kláus, og gengu þeir nú
til árinnar. Nautféð var þyrst, og þegar það sá vatnið, hljóp það
eins hratt og það komst til þess að geta fengið að drekka.
"Sko, hvað það flýtir sér," sagði litli Kláus; "það langar aftur
niður á botninn."
"Já, hjálpaðu mér nú fyrst," sagði stóri Kláus, "ef þú vilt ekki,
að ég berji þig." Skreið hann svo í pokann stóra, en áður hafði
pokinn legið um þvert bak á einu af nautunum.
"Láttu stein í pokann, því annars er ég hræddur um, að ég sökkvi
ekki," sagði stóri Kláus.
"Það mun óhætt um það," sagði litli Kláus, en lét samt stóran stein
í pokann, reyrði fast fyrir opið og hratt honum svo út; plump! Stóri
Kláus var kominn í ána og sökk í sama vetfangi til botns.
"Ég er hræddur um, að hann finni ekki nautkindurnar," sagði litli
Kláus og hélt svo með rekstur sinn heim á leið.
Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu
Steingríms Thorsteinssonar
Það var altítt í einni stórborginni, að þegar kvölda
tók og sólin rann og skýin glóðu sem gull á milli efstu reykháfanna,
þá heyrðu hinir og þessir í smástrætunum eitthvert undarlegt hljóð,
eins og eim af kirkjuklukku, en það heyrðist ekki nema rétt í svip,
því vagnaskröltið og hrópið á strætunum tók yfir og truflaði. "Nú er
verið að hringja kvöldklukkunni," sögðu menn, "nú gengur sólin
undir."
Þeir, sem voru á gangi fyrir utan borgina, þar sem húsin stóðu
strjálar innan um trjágarða og smáekrur, sáu kvöldhimininn í enn
meiri fegurðarljóma og heyrðu betur klukkuhljóðið. Það var eins og
hljóðið bærist frá einhverri kirkju úr innstu fylgsnum hinna ilmandi
skóga, og fólkið horfði þangað eins og gagntekið af einhverjum
hátíðlegum anda.
Nú leið og beið, og stundum sögðu menn sín á milli: "Ætli það sé
kirkja í skóginum þarna út frá? Þessi klukka er svo hljómfögur, að
það gegnir undrum. Eigum við að gera okkur ferð þangað og skoða hann
betur?" Og nú fór ríka fólkið akandi og fátæka fólkið gangandi, en
það teygðist svo undarlega úr veginum, og þegar komið var þangað,
sem pílviðir nokkrir stóðu í þyrpingu við skógarjaðarinn, þá var
setzt niður og horft upp í trjágreinarnar langar og laufmiklar, og
kunni fólkið sér ekki læti af feginleik yfir því að vera komið út í
græna sumardýrðina. Sætabrauðsbakari nokkur kom þangað úr borginni
og reisti upp sölutjaldið sitt, og svo kom annar sætabrauðsbakari og
hengdi upp klukku rétt andspænis móti tjaldinu sínu, og meira að
segja, það var klukka, sem var bikuð, til þess að hún skyldi þola
regn og vætu, en kólfinn vantaði. Þegar nú fólkið fór heim aftur, þá
sagði það, að þetta hefði verið svo dásamlega fagurt. Það voru
einhverjir þrír, sem staðhæfðu, að þeir hefðu komizt í gegnum allan
skóginn, og alltaf hefðu þeir heyrt undarlega hljóðið til
klukkunnar, en þeim hefði látið svo fyrir eyrum, sem það kæmi úr
borginni. Einn þeirra orti um það heilt kvæði og sagði, að klukkan
hljómaði eins og móðurrödd við skýrleiks óskabarn, og ekkert sönglag
væri fegra til en ómur klukkunnar.
Þessi tíðindi komu nú einnig fyrir keisarann í þessu landi, og hét
hann því, að hver sá, sem með sönnu fengi uppgötvað, hvaðan hljóðið
kæmi, hann skyldi fá þá nafnbót, að vera kallaður "heimshringjari",
og það enda þó svo reyndist, að klukkan væri ekki til.
Eftir það fóru margir þessa erindis til skógarins, en það var ekki
nema einn, sem kom heim aftur með einhvers konar skýringu
leyndardómsins. Það hafði sem sé enginn brotizt nógu langt inn í
skóginn, og hann þá ekki heldur, en svo mikið kvaðst hann þó vita,
að klukkuhljóðið kæmi frá uglu nokkurri stórri sem byggi í holu tré,
og það væri eins konar vísdómsugla, sem alltaf lemdi hausnum í tréð,
en hvort hljóðið kæmi úr kolli hennar eða holum tréstofninum, það
þóttist hann ekki geta sagt með áreiðanlegri vissu. Fyrir þetta var
hann skipaður "heimshringjari", og samdi hann síðan á ári hverju
eina vísindalega ritgerð um ugluna, en jafnfróðir voru menn eftir
sem áður.
Það var nú einhvern dag, að börn voru fermd. Presturinn hafði
haldið fagra og hjartnæma ræðu, og börnin höfðu viknað svo innilega,
þetta var líka merkisdagur á ævi þeirra, því að nú áttu þau úr
börnum að verða fullorðin svna allt í einu, og það var eins og
barnssálin myndaði sig til að taka þessari breytingu. Það var
glaðasólskin; fermingarbörnin gengu út úr borginni, og klukkan mikla
og ókunna ómaði nú með undrasterkum hljómi úr skóginum. Þau urðu
þegar í stað svo óðfús að komast þangað, öll þrjú. Eitt, sem var
stúlka, varð að fara heim til að máta á sér danskjólinn sinn, því
það var ekki vegna nokkurs annars en kjólsins og dansins, að hún var
fermd í þetta skipti; hún hefði annars verið látin bíða. Annað
barnið var fátækur drengur, sem hafði orðið að fá fermingartreyjuna
sína og stígvélin að láni hjá syni húseigandans, þar sem hann átti
heima, og átti hann að skila því aftur á tilteknum tíma. Þriðja
barnið, sem líka var drengur, sagðist aldrei fara á nokkurn ókunnan
stað, nema því aðeins að foreldrar sínir færu með. Hann hefði alténd
verið hlýðið barn, og það ætlaði hann sér einnig að vera eftir
ferminguna, og eiga menn ekki að gera gys að slíku, en það gerðu
menn nú samt.
Þessi þrjú fóru því ekki með, en hin örkuðu af stað. Sólin skein í
heiði, og fuglarnir sungu, og fermingarbörnin sungu með og héldust í
hendur, því enn sem komið var höfðu þau ekki fengið embætti og voru
öll saman fermingarbörn fyrir guði.
En skammt var þess að bíða, að tvö minnstu börnin urðu þreytt, og
sneru þau þá bæði aftur til borgarinnar. Tvær smámeyjar settust
niður og fóru að knýta blómkerfi; ekki komust þær heldur með; en
þegar hin börnin voru komin að píltrjánum, þar sem
sætabrauðsbakarinn hafði búð sína, þá sögðu þau: "Skoðum til, nú
erum við komin hingað. Klukkan er í rauninni ekki til, hún er ekki
annað en einhvers konar hugarburður."
Eftir Hans Christian Andersen - í þýðingu
Steingríms Thorsteinssonar
Úti á landsbyggðinni var
gamalt höfuðból og á því bjó gamall herramaður, sem átti tvo sonu.
Þeir voru svo gáfaðir, að það var nú sitt hvað. Þeir ætluðu sér að
biðja dóttur kóngsins, og það máttu þeir, því hún hafði látið
kunngjöra, að hann mundi hún kjósa sér að eiginmanni, sem henni
þætti bezt koma fyrir sig orði.
Þessir tveir voru nú að búa sig undir í átta daga; það var lengsti
fresturinn, sem þeir gátu haft til þess, en það nægði líka, því þeir
voru vel að sér undir, og slíkt kemur alténd í góðar þarfir. Annar
þeirra kunni alla latnesku orðabókina spjalda á milli og þrjá
árganga af fréttablaði bæjarins, og það bæði afturábak og áfram.
Hinn hafði kynnt sér öll iðnaðarfélagalög og allt, sem hver
iðnaðarstjóri þurfti að vita; hann þóttist því geta rætt um landsins
gagn og nauðsynjar, og í annan stað kunni hann axlabandaútsaum, því
hann var laghentur og fingrafimur.
Ég fæ kóngsdótturina," sögðu þeir báðir hvor um sig, og faðir
þeirra gaf þeim sinn hestinn hvorum, og voru það prýðisfallegir
hestar; sá, sem kunni orðabókina og fréttablaðið, fékk brúnan hest,
en hinn, sem var iðnaðarfélaga-fróður og útsauminn kunni, fékk
hvítan; báru þeir síðan lifrarlýsi í munnvikin til þess að gera þau
liðugri. Allt vinnufólkið var niðri í garðinum til að sjá þá stíga á
bak, en í þeim svifum kom þriðji bróðirinn, því þeir voru þrír, en
engum kom til hugar að telja hann með sem bróður, því hann hafði
ekki lærdóminn hinna tveggja, og kölluðu þeir hann aldrei annað en
"Hans klaufa".
"Hvert ætlið þið, fyrst þið eruð komnir í stássfötin?" sagði hann.
"Til hirðarinnar, til þess að kjafta út kóngsdótturina; hefurðu
ekki heyrt það, sem trumbað er um í öllu landinu?" Og nú sögðu þeir
honum allt, hvers kyns var.
"Hæ, hæ, þá má ég líka vera með," sagði Hans klaufi. "Það er kominn
í mig giftingarhugur. Taki hún mér, þá tekur hún mér, og taki hún
mér ekki, þá tek ég hana engu að síður."
"Bull og vitleysa!" sagði faðirinn; "þér gef ég engan hest. Þú
hefur sem sé engan talanda. Nei, bræðurnir, það eru karlar í
krapinu."
"Fái ég engan hestinn," sagði Hans klaufi, "þá tek ég geithafurinn;
hann á ég sjálfur og hann getur vel borið mig." Og þar með settist
hann klofvega upp á hafurinn, rak hælana í síður honum og þeysti svo
hvað af tók eftir þjóðveginum. Það var sem kólfi væri skotið. "Hér
er ég," sagði Hans klaufi, og söng við, svo að glumdi í honum.
En bræðurnir riðu í hægðum sínum á undan og mæltu ekki orð. Þeir
voru að bollaleggja með sjálfum sér alla þá fyndni, sem þeir ætluðu
að koma með; það átti nú allt að vera svo undur kænlega hugsað.
"Hæ, hæ!" kallaði Hans klaufi, "hér kem ég; sko, hvað ég fann á
veginum!" Og um leið sýndi hann þeim dauða kráku, sem hann hafði
fundið.
"Klaufi!" sögðu þeir, "hvað ætlarðu að gera við krákuna?"
"Ég ætla að færa kóngsdótturinni hana að gjöf."
"Já, gerðu það," sögðu þeir hlæjandi og riðu áfram.
"Hæ, hæ! hér kem ég; sko, hvað ég fann; annað eins finnur maður
ekki hvern dag á götu sinni."
Og bræðurnir sneru sér við til að sjá hvað það var.
"Klaufi!" sögðu þeir, "þetta er gamall tréskór, sem efri hlutinn er
dottinn af; á kóngsdóttirin líka að fá hann?"
"Já, hún á að fá hann," sagði Hans klaufi, og bræðurnir riðu
hlæjandi frá honum og urðu langt á undan.
"Hæ, hæ, hér er ég," kallaði Hans klaufi; "nei, nú versnar og
versnar; hæ, hæ, það er alveg makalaust!"
"Hvað hefurðu nú fundið?" sögðu bræðurnir.
"O!" sagði hans klaufi, "minnumst ekki á það! Hvað hún mun verða
fegin, kóngsdóttirin!"
"O, svei!", sögðu bræðurnir, "það er forarleðja, sem mokað hefur
verið upp úr gryfjunni."
"Já, það er það reyndar," sagði Hans klaufi, "og það af fínasta
tagi; maður getur ekki haldið á henni." Það var orð að sönnu, og því
lét hann í hana vasann.
Bræðurnir riðu svo hart sem hestarnir gátu farið og urðu því heilli
klukkustund á undan. Stigu þeir af baki við borgarhliðið, og var
biðlunum þar raðað eftir númerum, sem þeim voru fengin jafnóðum og
þeir komu. Stóðu sex í hverri röð, og var þeim skipað svo þétt, að
þeir gátu ekki hreyft handleggina, en það var vel farið, því annars
hefðu þeir skaðskemmt bökin hver á öðrum, einungis af því, að einn
stóð öðrum framar.
Allir hinir aðrir landsbúar stóðu umhverfis höllina alla leið að
gluggunum til þess að sjá kóngsdótturina taka á móti biðlunum. Í
hvert skipti sem einhver biðlanna kom inn í stofuna, þá brást öll
orðkingin, og stóð í honum.
"Ekki dugir hann," sagði þá kóngsdóttirin; "burt með hann!"
Þá kom sá bróðirinn, sem kunni orðabókina, en úr henni mundi hann
ekkert, og kom það af því að hann hafði orðið að híma svo lengi í
röðinni. Það marraði í gólfinu, og loftið var úr spegilgleri, svo að
hann sá sjálfan sig á höfði; við hvern glugga stóðu þrír skrifarar
og einn iðnaðarfélagsstjóri, og skyldu þeir skrifa upp allt, sem
sagt var, svo að það gæti óðara komið í fréttablaðið og orðið selt
fyrir tvíeyring á strætamótum. Það var ljóta gamanið, og þar við
bættist, að ofninn hafði verið kynntur svo gríðarlega, að pípan var
orðin eldrauð.
"Það er ljóti hitinn hérna inni," sagði biðillinn.
"Það er af því, að hann faðir minn steikir kjúklingana núna í dag,"
sagði kóngsdóttirin.
Be! Þarna stóð hann klumsa; þeim orðum hafði hann ekki búizt við.
Hann gat ekkert sagt, því eitthvað skemmtilegt hafði hann ætlað sér
að segja. Be!
"Dugir ekki!" sagði kóngsdóttirin; "Burt með hann!" Og svo varð
hann að fara. Nú kom hinn bróðirinn.
"Hérna er voðalegur hiti," sagði hann.
"Já, við erum að steikja kjúklinga í dag," sagði kóngsdóttirin.
"Hvað þá? ha!"
"Dugir ekki!" sagði kóngsdóttirin; burt með hann!"
Nú kom Hans klaufi og reið á hafrinum beint inn í stofuna. "Mikill
steikjandi hiti er þetta!" sagði hann.
"Það kemur af því, að ég er að steikja kjúklinga," mælti
kóngsdóttirin.
"Það var ágætt," sagði Hans klaufi, "þá get ég líklega fengið kráku
steikta."
"Það er guðvelkomið," sagði kóngsdóttirin, "en hefurðu nokkuð til
að steikja hana í, því ég á hvorki pott né pönnu?"
"Það hef ég," sagði Hans klaufi; "hérna er suðugagn með tinkeng,"
og í því vindur hann fram tréskónum gamla og lætur krákuna í hann.
"Það er nóg til heillar máltíðar," sagði kóngsdóttirin, "en hvar
fáum við ídýfu?"
"Hana hef ég í vasanum," sagði Hans klaufi; "ég hef svo mikið, að
einu gildir, þó dálítið fari niður," og um leið hellti hann niður
dálitlu af forarleðju úr vasa sínum.
"Tarna líkar mér," sagði kóngsdóttirin, "þú lætur ekki standa á
svörum, þú kannt að koma fyrir þig orði, og þig kýs ég fyrir
eiginmann. En veiztu það, að hvert orð, sem við segjum og sagt
höfum, er skrifað upp og kemur út í fréttablaðinu á morgun? Við
hvern glugga standa þrír skrifarar, eins og þú sérð, og einn
iðnaðarfélagsstjóri, og iðnaðarfélagsstjórinn er verstur, því hann
er skilningslaus," - en þetta sagði hún til þess að gera Hans
hræddan. Og allir skrifararnir hvíuðu við og slettu blekklessu á
gólfið.
"Sá mun húsbóndinn vera," sagði Hans klaufi, "og verð ég þá að gefa
iðnaðarfélagsstjóranum það, sem bezt er." Og í því sneri hann um
vösunum og sletti leðjunni beint framan í hann.
"Það var laglega af sér vikið," sagði kóngsdóttirin, "þetta hefði
ég ekki getað gert, en sjálfsagt mun ég komast upp á það."
Og nú varð Hans klaufi konungur, fékk konu og kórónu og settist í
veldisstól, - og höfum vér tekið þetta beint úr blaði
iðnaðarfélagsstjórans, en það er nú ekki sem allra áreiðanlegast.
Einhverju sinni er það sagt, að
Skagfirðingar margir saman fóru skreiðarferð vestur undir Jökul, og
er ekki sagt af ferðum þeirra, fyrr en þeir komu vestur og tjölduðu
skammt frá bæ einum og slepptu hestum sínum á gras. Þeim hafði verið
sagt, að bóndi sá mundi geta selt mikið af fiski. En um morguninn,
þegar bóndi kom á fætur og sá tjaldið, fór hann að hitta ferðamenn.
Gengu þeir svo allir ásamt heim að bænum, og voru þeir að spjalla
við hann að selja sér fisk. Lá leið þeirra um, þar sem hestar
ferðamanna voru á beit. Var bóndi að gamni sínu að hyggja að
hestunum. Einn þeirra hafði þar rauðskjóttan hest afbragðsfallegan,
svo hann bar langt af öllum hestunum.
"Ef þið viljið selja mér hestinn þann arna," mælti bóndi, "þá skal
ég láta ykkur hafa fisk fyrir hann." En eigandinn sagði, að þó sér
þætti gott að fá keyptan fiskinn, "þá fer ég heldur fisklaus heim
aftur," mælti hann, "en láta hestinn."
Ól bóndi samt á við hann að selja sér hestinn, en þess var enginn
kostur. Sagði þá bóndi: "Þér mun þá verða meira úr honum." Hinn
kvaðst ekki um það hirða.
Síðan keyptu þeir skreið hjá bónda og fóru svo að taka hesta sína.
Lá þá fallegi hesturinn dauður. En þar sem þeir stóðu hjá hestinum
og eigandinn var að tala um, að hann mundi mega ná af hestinum
skinninu, kom að þeim stúlka hér um bil tíu eða ellefu vetra, sem
var að reka kýr í haga. "Illa er nú komið fyrir þér," mælti hún við
eiganda hestsins, "betra hefði þér verið að selja honum föður mínum
hestinn þinn. Eða hvað viltu gefa mér til að lífga hann aftur?" Hann
hélt hún mundi nú ekki geta það, "en þægja vildi ég þér, ef þú gætir
það," mælti hann.
Gekk hún þá þrisvar rangsælis í kringum hestinn og tautaði eitthvað
fyrir munni sér. Spratt þá hesturinn á fætur. Hló hún þá og mælti:
"Hann var ekki dauður. Amma mín hefur kennt mér nokkuð líka."
Launaði bóndi henni vel vikið og átti hest sinn lengi síðan.
Tveir smiðir vóru samtíða í
Biskupstungum sem báru langt af öðrum í þeirri íþrótt. Annar var
Eiríkur Melkjörsson bóndi á Bergsstöðum. Hann smíðaði mynd eftir
sólkerfinu, en deyði áður en hann hafði fullgjört gangverk það sem
átti að koma öllu á rás.
Hinn var Illhugi bóndi á Drumboddsstöðum. Hann var manna hagastur á
járn, en þó einkum tré. Hann brúkaði aldrei hefil, en felldi allt
saman með smíðaöxinni.
Einu sinni var hann nótt á bæ og þar var þá líka lærður sniðkari.
Þeir voru beðnir að smíða mjólkurtrog um kvöldið um vökuna. Illhugi
hafði engin tól nema öxi sína og nafar. Sniðkarinn hafði öll þau tól
sem siður er að brúka. Þeir kepptust og varð sniðkarinn litlu fyrri.
Síðan var vatni hellt í trogin og lak trog sniðkarans, en Illhuga
trog hélt.
Illhugi var fenginn til að smíða allt vandað smíði sem smíða þurfti
í Skálholti. Er sagt hann hafði smíðað viðaraxir úr öxinni Rimmugýgi
er Skarphéðinn átti. Hafði hún seinast verið brúkuð fyrir
réttunaröxi í Skálholti. Sumir segja Illhugi hafi gjört úr henni
tólf axir, aðrir segja þær hafi verið færri og er það líklegt. Enn
segja nokkrir að öxin hafi verið látin sigla héðan af landi seinast
allra vopna.
Illhugi var einhvur mesti skipasmiður á sinni tíð, en mjög var hann
efnisvandur og þótti sjá nokkuð fram í veginn. Einu sinni kom hann
þar að sem menn vóru að smíða skip. Þá sagði hann: "Ekki eruð þið
efnisvandir að hafa vindeik í skipið."
Þeir gáfu því engan gaum. Það skip fauk og brotnaði í spón.
Einu sinni sem oftar var hann fenginn til að smíða skip og þegar
honum var fengið kjalarefnið, sagði hann: "Þetta er blóðeik; ég vil
ekki smíða skip úr því tré."
Þessu var ekki sinnt og varð hann að brúka tréð. Þá sagði hann:
"Þetta skip verður manndrápsbolli, en við því skal ég gera að aldrei
skal það af kjölnum fara." Það skip klofnaði á sjó.
Illhugi sagðist ekki vita þann kirkjugarð á Íslandi sem hann vildi
síður liggja í en á Stað í Grindavík, en það sagði hann mundi þó
liggja fyrir sér. Og einu sinni var hann fenginn að smíða skip í
Grindavík og sagðist hann gjöra það nauðugur.
Sagði hann þar til væri þrjár orsakir: hin fyrsta að skipið yrði
manndrápsbolli; önnur að það yrði seinasta skipið sem hann smíðaði;
hina þriðju sagði hann ekki. Þegar skipið var algjört tók hann sótt
og dó og var grafinn á Stað. Spá hans sannaðist um skipið.
Son Illhuga var Jörundur faðir Þorsteins bónda á Brúnavallakoti,
sem Gottsveinn Gottsveinsson skar á höndina, föður Einars á
Mýrarhúsum (eða Pálshúsum) á Seltjarnarnesi og bræðra hans. Þeir eru
nú vaxnir menn og smiðir miklir og svo voru þeir langfeðgar allir.
Einu sinni voru hjón á bæ; þau áttu
mörg börn, en fátt höfðu þau vinnufólk og þurftu litlu til þess að
kosta, enda voru þau vel við álnir, en bóndinn þótti í meira lagi
aðsjáll. Hann hafði þann sið að hann tók til allan mat og skammtaði
konu sinni út á pottinn í það og það sinnið; þar eftir var annað og
var konunni mikil raun að nirfilskap hans.
Einhverju sinni bar svo við að bóndi lést þurfa að fara að heiman
og vera burtu tvo daga. Þegar hann er farinn burtu segir húsfreyja
smalanum að reka heim féð; segist hún ætla að taka úr því besta
sauðinn, slátra honum og taka með því hungursmál úr börnunum og
fólkinu. Smalinn gerir svo og er sauðurinn skorinn og lagður í
pottinn og borðaður um kvöldið með góðri matarlyst.
Þegar búið er að borða og koma öllu fyrir er barið. Konan veit ekki
hvaðan á sig stendur veðrið að þar skuli vera kominn næturgestur því
það var ekki vani. Hún hugsar að það muni vera best að hún fari til
dyranna. En áður en hún lýkur upp hefur hún þó þá varúð við að hún
spyr hver úti sé. Segir þá bóndi til sín heldur dræmt. Lýkur hún þá
upp bæjarhurðinni og segir að hann hafi verið fljótari í ferðum en
hann hafi ætlað sér. Bóndi gegndi því engu en snarast innar hjá
henni og þegar hann kemur inn í baðstofu gætir hann nákvæmlega að
öllu, en finnur enga nýlundu á neinu.
Barn þeirra hjóna gekk með hjá rúmi þeirra; það hélt á kroppuðu
sauðarrifi. Bóndi tekur rifið af barninu, skoðar það í krók og í
kring og segir: "Af hverju er rifið að tarna?"
Konan segist ekki vita það hvar barnið hafi fundið það, undir
rúminu eða á bak við það. Bóndi segir að það sé frá um það að rifið
hafi ekki legið lengi í sorpi, það sé glænýtt. Ekkert segist konan
vita um það; býður hún svo manni sínum að borða.
Hann sinnir því ekki, en segir: "Af hverju er þá rifið?"
En konan bað hann að stagast ekki lengur á rifinu, því hann stríddi
sjálfum sér mest með því að vilja einkis neyta; býður hún honum þá
að fara og hvíla sig. En hann hefur allt á hornum sér og alltaf sama
viðkvæðið við allt sem hún býður honum:
"Af hverju er þá rifið?"
Þó drattast hann til að hátta um síðir.
Morguninn eftir fer hann ekki á fætur, liggur með háhljóðum nokkra
daga og deyr svo. Sendir þá húsfreyja smalann eftir presti og
hreppstjóra og fleiri nefndarbændum í sveitinni að segja þeim að
bóndi sinn sé látinn og biðja þá að koma til hennar því hún þurfi að
tala við þá um útförina.
Smalinn fór og mennirnir komu sem hún hafði sent eftir. Húsfreyja
bauð þeim inn í baðstofu, þangað sem líkið var, og sagði að hún yrði
nú að biðja þá að gera svo vel að hjálpa sér að koma manninum sínum
sem fyrst í jörðina því þar væru lítil húsakynni svo hún ætti örðugt
með að hafa líkið lengi í bænum. Hún bað þá og að standa fyrir allri
útförinni og spara ekkert til hennar svo að maðurinn sinn yrði
sómasamlega grafinn og sjálfir skyldu þeir setja fullt upp á fyrir
ómak sitt, því svo væri fyrir þakkandi að þau hefðu nóg efni til
þess. Komumennirnir hétu henni liðsemd sinni og höfðu nú hraðann á
borði svo að bóndi yrði kistulagður og líkið flutt til kirkju.
Prestur hélt yfir honum ræðu og svo var líkið borið til grafarinnar.
En þegar kistan er komin niður í gröfina gengur húsfreyja að
gröfinni, hefst upp úr eins manns hljóði og segir: "Hvern andskotann
hugsarðu, maður, að láta kviksetja þig lifandi?"
Gegnir þá bóndi úr kistunni og segir: "Af hverju er þá rifið?"
Var kistan svo dregin upp aftur og opnuð og bóndi hresstur við, því
æðimikið var af honum dregið. Taldi svo prestur og aðrir nefndarmenn
um fyrir honum að hann skyldi ekki láta nápínuskapinn ráða svo fyrir
sig að hann gerði bæði sér og þeim sem hann ætti best upp að inna
lífið leitt.
Við þessa skráveifu tók bóndi stakkaskipti og varð allur annar
maður og bar aldrei konu sína ofurráða um nokkurn hlut. Eftir það
lifðu þau saman glöð og ánægð og þóttu mestu sómahjón. Bóndi spurði
aldrei um rifið framar þangað til hann dó í annað sinn skaplega og
skikkanlega.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar
Háskóla Íslands)
Nauthvelið á að vera
stærst allra illhvela að undanteknum lyngbak; það heitir og "fjósi".
Nauthveli er það kallað af því að það öskri sem naut bæði úti á rúmsjó
og eins þegar það fer með landi fram og heyrir kýr baula baular það á
móti; en við org þess verður beljunum svo um að þær ganga á hljóðið og
hlaupa í sjóinn og hafast aldrei aftur.
Lyngbakur er alkunnur hvalur úr fornsögum og ekki
er trútt um að ekki fari enn sögur af honum í munnmælum; flestallar eru
þær sniðnar eftir hinum eldri. Hann á að vera stærstur allra hvala í sjó
og því sýnist hann vera eyja er hann er ofansjávar og hefur mönnum sýnzt
sem þar á sé vaxið lyng og því er hann kallaður lyngbakur.
Sverðfiskurinn er og vondur fiskur; hann liggur á því
lúalagi að leggjast í kjalfar skipa á sjó og elta þau og grandar þeim ef
hann nær til þeirra. Nafn sitt dregur hann af því að upp úr bakinu á
honum er ýkjahátt bægsli og þunnt sem líkist sverði til að sjá. Með því
ber hann sjóinn til beggja hliða þegar illt er í honum.
Rauðkembingur heitir illhveli eitt; er það sagt að
hann hafi rauð hár eftir hryggnum og þaðan sé dregið nafn hans; engar
sögur þekki ég um hann.
Þá er enn náhvalurinn. Bæði Konungsskuggsjá og
Eggert Ólafsson segja að hann sé svo ómannskæður að hann forðist menn.
Að vísu hef ég ekki heyrt þess getið að hann grandi skipum á sjó, en
hitt telja menn víst að hann leggist á nái þar sem menn hafa farist í
sjó og því heiti hann náhvalur eða náhveli. Úr þeim fiski er hin
nafntogaða náhvalstönn.
Þetta eru þau illhveli sem ég hef orðið var að sjómenn
eru helzt hræddir við og kemur mér þá jafnframt til hugar að sú hjátrú
standi í sambandi við hættu þá sem sjómönnum er búin af illhvelum að
ætíð skyldi kirkja standa opin meðan á sjó er verið og allra helzt ef
presturinn sjálfur var á sjó; þó má vel vera að það hafi átt að vera
vörn við því að hvessti svo presturinn kæmist að landi eins og önnur
hégilja sýnist benda enn ljósara á, sú nefnilega að ekki mætti viðra
bækur meðan á sjó var verið því þá átti hann að bálrjúka eins og vant er
ef bækur eru látnar út eða það kemur steypiregn.
Einu sinni fyrir langa
löngu var uppi maður sem hét Jónas. Hann var spámaður. Guð sagði Jónasi
að hann ætti að fara til staðar sem hét Níneve og segja fólkinu sem þar
bjó að hætta að hegða sér svona illa og hlýða Guði.
Jónas vildi ekki fara og hélt að hann gæti komist undan
því með að þykjast ekki heyra það sem Guð sagði. Jónas tók skip og
sigldi til Tarsis, þannig reyndi hann að flýja Guð. Á leiðinni sendi Guð
storm og minnstu munaði að skipið brotnaði. Skipverjar urðu hræddir og
Jónas sagði þeim að stormurinn hefði komið vegna þess að hann hefði ekki
hlýtt Guði. Jónas sagði mönnum að henda sér út í sjóinn svo að storminn
mundi lægja.
Þeir hlýddu Jónasi og vindinn lægði. Guð sendi
stóran hval til Jónasar sem gleypti hann. Jónas var í maganum á hvalnum
í þrjá sólarhringa og bað á meðan til Guðs og bað hann að fyrirgefa sér
óhlýðnina. Á þriðja degi lét Guð hvalinn spýta Jónasi á þurrt land. Þá
fór Jónas til Níneve og prédikaði það sem Guð hafði sagt honum að
prédika. Hann sagði fólkinu að snúa sér til Guðs því annars myndi borgin
farast eftir 40 daga.
Einu sinni fóru menn frá
Miðnesi á Suðurnesjum fram í Geirfuglasker. Varð þá eftir af þeim einn
maðurinn sem þeir ekki gátu náð vegna brims; var hann nú talinn af.
Maður þessi hét Gísli.
Árið eftir fóru menn í Geirfuglasker. Var þá sami
maðurinn þar fyrir í skerinu heill og lifandi. Fór hann með þeim til
lands, en sagði fátt um ársdvöl sína þó hann væri að spurður. Þó varð
einhver þess vís af honum að hann hefði verið hjá konum tveim og að sú
yngri væri ólétt eftir hann.
Skömmu síðar var hann við kirkju á Hvalsnesi; var þá
messufólk margt. Um messutímann vill það til að kona kemur inn á
kirkjugólfið og setur þar barnsvöggu með barni í, og var yfir vöggunni
rautt klæði. Fer hún síðan út. Eftir messuna spyr prestur alla í
kirkjunni hvort nokkur kannist við barn þetta eða hvort nokkur vilji
láta skíra það, en enginn gefur sig fram. Snýr þá prestur sér beinlínis
að Gísla sem í skerinu hafði verið og spyr hann hvort hann kannist ekki
neitt við barnið eða vilji láta skíra það. Maðurinn neitar því harðlega.
Í sama bili kemur kvenmaðurinn sem með vögguna kom inn og
er þá mjög reiðugleg. Átelur hún manninn harðlega þar sem hann eigi
henni lífið að þakka, hafi verið hjá henni árlangt og eigi með henni
barn þetta, að hann skuli vera sá níðingur að vilja ekki kannast við
barnið né láta skíra það. Lagði hún það á að hann í staðinn skyldi verða
að þeim versta illfiski á Faxaflóa.
Nú ætlaði prestur að hafa meira viðtal af konu þessari,
en hún greip í sama bili barnsvögguna og gekk með hana úr greipum þeim.
Sást hún ekki framar, en rauða klæðið varð eftir og var haft fyrir
altarisklæði í kirkjunni.
En það er að segja af Gísla að honum varð svo við að hann
hljóp í sjóinn, varð að illhveli og grandaði bátum á Faxaflóa; urðu að
því mikil vandræði. Loks fengu menn kraftaskáld eitt til að kveða
hvalinn upp á land. Kvað hann hann þá upp í Hvalvatn og sést hann þar
ekki nema þegar veit á harðindi eða einhver önnur stórtíðindi.
"Árið 1775, nóttina milli 23. og 24. júlím., fór ég á
báti út úr Veiðileysufirði í þoku og þykkviðri og stóð það þangað til
morguninn eftir kl. 8 ½, að sólskin kom og dreifði snögglega þokunni svo
að vel sást um alla byggðina nema aðeins í fjarðarmynninu. Þar var að
sjá skrokk einn kolsvartan ofan á sjónum sem tók yfir tvo þriðjunga af
fjarðarbreiddinni, en hann er nærhæfis hálf vika sjávar á breidd. Skepna
þessi líktist mikið stórhveli og hvarf stundum að nokkru í sjó niður, en
stundum rétti hún sporðinn upp í loftið og bægslin og stundum hausinn
allan.
Þó blæjalogn væri urðu þeir sem með mér voru lafhræddir
og ætluðu fyrir fullt og fast að þetta væri illhveli og einkum
lyngbakurinn sem svo er frá sagt í fornum sögum að sé eins og eyja
tilsýndar og þurfi ekki að éta oftar en þriðja hvert ár, en þá hámi hann
í sig allt sem að kjafti kemur, fiska og fugla, sædýr og annað þess
konar. Við héldum því að landi og gengum upp á hæð nokkra; þaðan sáum
við sömu sjón og áður, ekki lengra að en fjórðung mílu frá sjónum, og
virtist okkur það vera reglulegur hvalur.
Hóf hann stundum nokkuð af skrokknum frá sjónum hér um
bil álnarhátt, en lá þó í sjónum að öðru leyti. Sýndist okkur hann nú
miklu ljósari álits en áður. Loksins hvarf hann okkur sjónum allt í einu
um kl. 9."
Vestanvert við Skagafjörð
er stórt fjall og afar hátt; það heitir Tindastóll, en að fornu
Eilífsfjall. Gengur það allt í sjó fram og skilur Laxárdal hinn ytra og
Reykjaströnd. Fyrrum voru ferðir alltíðar milli sveita þessara og fóru
menn þá jafnan með sjó fram, því það hefur verið skemmstur vegur sem sjá
má af afstöðu fyrrnefndra byggðarlaga, en undirlendi eða fjörumál var þá
allstaðar nokkurt undir Stólnum. Að vísu hafa þá þó verið til fleiri
leiðir sem enn eru tíðkaðar og liggur ein þeirra út Laxárdalsheiði.
Einhverju sinni bar svo við að hval rak á Reykjafjöru;
norðan undir Tindastól; var þá gerður mannsöfnuður á Reykjaströnd til
hvalskurðar. Þegar Laxdælir fréttu hvalrekann og skurðinn gjörðu þeir og
mannsöfnuð og gekkst mest fyrir því presturinn í Hvammi og djákninn því
þeir vildu eigna Hvammskirkju allan reka á því sviði og fóru á fund
Reykstrendinga er voru að hvalskurðinum. Slóst þar í illdeilur með þeim
er hvorir tveggja þóttust eiga hvalinn, en hvorugir vildu vægja fyrir
hinum. Þó kom svo fyrir umtölur góðgjarnra manna að Laxdælir skyldu mega
sanna með eiði ef þeir treystust að þeir ættu land það, er hvalurinn var
á rekinn og skyldu þá Reykstrendir ekkert af honum hafa. Gengu Laxdælir
svo að hvalnum og unnu eiða að því að sú jörð er þeir stæðu á væri
Hvammskirkju eign á Laxárdal; enda var svo að jörð sú er var í skóm
þeirra var eign Reykja á Reykjaströnd; því þeir höfðu rist grassvörð
fyrir íleppa í skó sína í Hvammskirkju landi, aðrir segja í
kirkjugarðinum í Hvammi, áður en þeir fóru norðan.
Þegar þeir höfðu unnið eiðinn, létu Reykstrendir rekann
af hendi og fóru heim síðan, því þeir hugðu allt falslaust af hinna
hendi, en Laxdælir tóku til skurðar. En er þeir höfðu skamma stund
skorið hvalinn féll skriða úr Stólnum yfir þá og hvalinn svo þeir
týndust þar allir nema drengur einn sem ekki hafði unnið eiðinn; hann
komst aðeins undan að flytja Laxdælum tíðindin sem gerst höfðu í för
hans. En skriðan huldi ekki einungis hvalinn og mennina, heldur tók hún
gjörsamlega af veginn er verið hafði allt til þess norðan undir
Tindastól; sú skriða heitir síðan Hvalurð. Það er sögn manna, að
hvítklæddur maður hafi sézt uppi á fjallinu áður en skriðan losnaði;
hafi hann átt að hafa sprota í hendi og lostið honum á fjallið þar sem
skriðan tók sig upp.
Gott er nú að vera kominn
heim aftur, sagði Tumi engispretta. Gosi kinkaði glaðlega kolli til
samþykkis. Gosi hafði strokið að heiman en til allrar hamingju hafði
Tumi fundið hann aftur. Nú stóðu þeir úti fyrir húsi Jakobs en hurðin
var læst. Sjáðu, þarna eru einhver skilaboð! hrópaði Tumi. Þetta var
bréf frá bláu heilladísinni. Tumi byrjaði að lesa upphátt:
Kæri Gosi.
Ég hef slæmar fréttir að færa.
Jakob fór burt til að leita að þér og nú er
stóri hvalurinn búinn að gleypa hann.
Bestu kveðjur,
Bláa heilladísin
Æ-æ! sagði Gosi. Við verðum að bjarga honum. Komdu, Tumi.
Flýtum okkur til sjávar.
Þetta er leiðin, sagði Tumi engispretta og benti með
regnhlífinni niður eftir götunni. En það er fjarskalega langt þangað.
Það skiptir engu máli sagði Gosi. Það er mér að kenna að hvalurinn
gleypti föður minn. Við verðum að flýta okkur, Tumi. Tumi hafði á réttu
að standa. Það var óraleið til sjávar. En á endanum sagði Gosi: Nú erum
við að verða komnir. Ég finn sjávarlykt.
Snemma næsta morgun komu þeir að háum höfða. Ofan af
höfðanum blasti við endalaust haf. O-o, sagði Gosi. Voðalega er sjórinn
stór. Sérð þú hvalinn nokkurs staðar, Tumi? En hvorki örlaði á hvalnum
né Jakobi. Þá stökkvum við fram af! kallaði Gosi. Úr þessari æð? spurði
Tumi skelfdur. Auðvitað! svaraði Gosi. Einn, tveir og þrír! Og þeir
hentu sér niður í hyldýpið. Þeir sukku á grængolandi kaf. Hvaða
furðufuglar skyldu þetta vera? hugsuðu fiskarnir. Loks féllu þeir
mjúklega niður á hafsbotninn. Líttu bara á, sagði Gosi. Ég er syndur
eins og selur. Tumi fann sér snigil fyrir reiðskjóta. Því næst fór hann
á bak á sæhesti. Hott! Hott! hrópaði hann. Hættu þessu, sagði Gosi. Við
verðum að leita að Jakobi.
Gosi rakst á kolkrabba og spurði: Hefurðu séð stóra
hvalinn? En kolkrabbinn synti skelkaður burt. Hafið þið séð hvalinn?
spurði Gosi smáfiskana. En fiskarnir syntu óttaslegnir með eldingarhraða
í allar áttir. Þessi hvalur hlýtur að vera illræmdur, sagði Tumi, úr því
að allir eru hræddir við hann. Félagarnir hröðuðu ferð sinni eftir
hafsbotninum. Þar iðaði allt í þörungum, kröbbum og krossfiskum.
Innan skamms komu þeir að stórum, dimmum helli. Allt í
einu fór hellirinn að hreyfast. Þetta var þá reyndar enginn hellir.
Þetta var hvalurinn! Hann flatmagaði á hafsbotninum og hafði fengið sér
hádegislúr. Þá er bara að vekja hann, sagði Gosi. Hvernig fer maður að
því að vekja hval? spurði Tumi. Honum fannst Gosi ótrúlega fífldjarfur.
Rétt í þessu synti stór fiskatorfa hjá. Hvalurinn opnaði
aðra glyrnuna græðgislegur á svip. Hann glennti upp hvoftinn… og allir
fiskarnir soguðust inn í hann. Gosi og Tumi engispretta lentu líka í
innsoginu. Eltu mig Tumi! kallaði Gosi til vinar síns. Kannski við
finnum Jakob loksins. Sjórinn fossaði niður í víðan kvið hvalsins. Gosi,
Tumi og allir fiskarnir bárust nauðugir viljugir með straumnum.
Lengst inni í kviði hvalsins lá lítill fiskibátur við
stjóra og vaggaði hægt á vatnsfletinum. Gamli maðurinn sat við
borðstokkinn og sýndist dapur í bragði. Hann hélt á langri veiðistöng í
hendinni. Ég veit að þú ert glorhungraður, Klói minn, sagði hann við
köttinn sem mjálmaði eymdarlega. Ef hvalurinn gleypir ekki fljótlega
fiskatorfu óttast ég að það sé úti um okkur. Skyndilega fór báturinn að
taka dýfur, öldurnar skullu á borðstokknum og sjórinn varð krökkur af
fiski. Jakob dró hvern fiskinn á fætur öðrum. Ja, hver þremillinn! Sá er
aldeilis ólmur, sagði Jakob og rykkti í færið af öllum kröftum. Það
munaði mjóu að hann missti stöngina þegar hann sá að það var Gosi sem
hékk á önglinum. Elsku Gosi minn, ert þetta þú? hrópaði Jakob. Hann hló
og grét í senn og faðmaði drenginn að sér. Ég iðrast þess að hafa
strokið, sagði Gosi. En nú er ég komin að bjarga þér. Það verður enginn
hægðarleikur, sagði Jakob alvarlega. Við verðum með einhverju móti að fá
hvalinn til að opna ginið, sagði Gosi við föður sinn. Þeir veltu þessu
fyrir sér drykklanga stund.
Loks flaug Gosa ráð í hug! Ef við getum komið hvalnum til
að hnerra, sagði Gosi, þá tekst okkur að sleppa. Fyrst verðum við að
smíða okkur traustan fleka. Svo kveikjum við í bátnum. Þá myndast mikill
reykur og hvalurinn verður að hnerra. Reykurinn barst nú óðfluga um kvið
hvalsins svo að þar varð kolamyrkur. Og smátt og smátt tók reykjarlopi
að liðast út á milli skolta hvalsins. Fyrst snörlaði í hvalnum. Síðan
hóstaði hann. Og loks hnerraði hann. A-A-AAAAAATJÚ-Ú-Ú! Hann hnerraði
svo ákaft að flekinn þeyttist út um ginið á honum. Haldið ykkur fast!
æpti Gosi. En nú var hvalurinn orðinn reiður, öskuþreifandi vondur. Hann
kom æðandi á eftir þeim með opinn hvoftinn og sjórinn ólgaði umhverfis
hann. Hann ætlaði að gleypa þá aftur.
Gætið ykkar! Flekanum hvolfir! hrópaði Jakob. Þeir komu
engum vörnum við. Litli flekinn þeira hófst hátt á loft og þeir féllu
allir útbyrðis, Jakob, Gulli gullfiskur, Gosi, Klói og Tumi engispretta.
Syndið eins og þið eigið lífið að leysa! kallaði Gosi. En aumingja Jakob
þreyttist fljótt. Reyndu bara að bjarga sjálfum þér, stundi hann og saup
hveljur. En nú hugsaði Gosi ekki um sjálfan sig. Hann hélt Jakobi á
floti og synti í áttina til lands. Það var þolraun fyrir lítinn dreng.
Þegar Gosi náði landi tókst honum með naumindum að draga
Jakob upp úr flæðarmálinu. Þá voru kraftar hans þrotnir og hann hné í
ómegin af þreytu. Vesalings Gosi minn, hvíslaði Jakob þegar hann raknaði
við sér. Þú bjargaðir lífi mínu! Hann tók Gosa gætilega í fangið og bar
hann heim. Jakob háttaði Gosa niður í rúm og breiddi ofan á hann hlýja
ábreiðu. Gosi lá með lokuð augu og bærði ekki á sér. Blessaður litli
Gosi minn, sagði Jakob og táraðist. Allt í einu birti í stofunni og
gamli maðurinn heyrði blíðlega rödd. Bláa heilladísin var komin. Dísin
snart Gosa laust með töfrasprota sínum. Vegna þess hvað þú varst
hugrakkur og ósérhlífinn, sagði hún, ætla ég að breyta þér í
alvörudreng. Gosi settist upp í rúminu. Sjáðu pabbi! Ég er ekki lengur
spýtustrákur. HÚRRA!
Nú er ég orðinn alvörudrengur af holdi og blóði. Jakob þakkaði dísinni og
hún brosti við. Hún vissi að Jakob hafði alltaf langað til að eignast
alvörudreng. Jakob og Tumi engispretta byrjuðu að leika fjörugt lag og
Gosi bauð kettinum Klóa upp í dans.
Pinocchio og hvalen, Íslensk þýðing Sigrúnar
Árnadóttur á frá 1990. Byggt á hugmyndum úr sögu Charles Collodi um
spýtustrákinn Gosa. Vaka-Helgafell gaf út.
Það er í sögnum haft að
einn tíma eftir það að kristni var komin á Ísland og kirkjur almennt
settar sóttu Suðurnesingar á tólfæringi út til Geirfuglaskers að afla
sér geirfugls svo sem þeir áttu vanda til á hverju vori. En ei er þangað
fært nema í logni og ládeyðu; er það haft til marks að þá sé leggjandi
að skerinu er ekki lóar á steini við Stafnessurð.
Þeir fengu gott leiði til skersins, en er þeir höfðu
dvalist þar skamma hríð tók veður að ganga upp af landaustri og gjörði
þegar brimsúg allmikinn svo að skipverjar komust nauðuglega út á skip
sitt, og vantaði þá einn manninn; hafði hann dvalist eftir í skerinu. En
sökum brims og stórsjóa treystust þeir eigi að bíða lengur eður ná
manninum og héldu til lands við svo búið. - Töldu allir það víst að hann
myndi þar bana bíða í skerinu, en gátu þó ei að gjört.
Annað vor eftir héldu Suðurnesingar enn út til skersins
og fengu nú gott leiði. En er þeir koma í skerið er félagi þeirra þar
fyrir heill á húfi og vel klæddur, og sá engi maður að hann hefði skort
liðið. Þeir fréttu hann eftir með hverjum hætti hann hefði framfærst þar
í eyðiskeri jafnlangan tíma, en hann svaraði þar fáu um, en lét þó að
sér hefði allvel liðið. Fór hann síðan í land með þeim og duldi alla um
veru sína í skerinu.
Hvítasunnudag hinn næsta flutti prestur embætti að
Útskálum (sumir segja það væri að Hvalnesi); en er hann gengur í kirkju
sér hann að þar er komin barnsvagga fyrir kirkjudyrnar með ágætum
umbúnaði og hvílir barn nýfætt í vöggunni, en dýrleg ábreiða er breidd
yfir hana.
Prestur spyr söfnuðinn þegar hvort engi sé þar kominn, er
vili kannast við barn þetta og árna því skírnar, en því neita allir. Þar
var þá og kominn með öðrum mönnum maðurinn, sá er í skerinu hafði verið;
víkur prestur sér nú að honum og gengur fast á hann og biður hann segja
sér ef hann eigi barn þetta og vili beiðast að það sé skírt. Maðurinn
neitar því þverlega.
Undarlegt þótti presti þetta að engi skyldi vilja kannast
við barnið, en kveðst þó allt að einu mundu veita því skírn, lét það
auðsætt að í því skyni mundi það vera til kirkjunnar komið. Því næst er
barnið skírt og að því búnu lætur prestur leggja það niður aftur í
vögguna og búa um sem áður.
Litlu síðar kemur þar kona ókennd að kirkjudyrum og
verpir orðum á manninn þann er dvalið hafði í skerinu, og mælti: "Illa
gerðir þú það er þú vildir eigi gangast við faðerni barns þessa né beiða
að það væri skírt svo sem ég bað þig; skaltu nú og taka þess nokkur
gjöld. Læt ég það um mælt að þú hverfir í sjó og verðir að hinu versta
illhveli og grandir bæði mönnum og skipum. En ábreiðu þessa skal kirkjan
eignast í minningu þess er prestur skírði barn mitt."
Kastaði hún þá ábreiðunni innar í kirkjuna og hvarf síðan
á brott með vögguna. Höfðu menn það fyrir satt að þetta hefði huldukona
verið. En ábreiðan var lengi síðan höfð fyrir altarisklæði að Útskálum
og þótti fágætur gripur.
En það er frá manninum að segja að honum brá svo við orð
konunnar að hann gengur þegar inn á Hólsberg og steypir sér þar fram af
í sjó niður. Er það sögn manna að klettur sá er Stakkur er nefndur og
stendur við Hólsbjarg hafi sprungið undan honum þá er hann hljóp fyrir
bjargið; en klæði hans fundust þar eftir á berginu. - Hann varð nú að
illhveli og lagðist inn í Hvalfjörð, er síðan er við hann kenndur, og
staðnæmdist þar um hríð.
Illhveli þetta grandaði bæði mönnum og skipum og þótti
hinn mesti vogestur. Eitt sinn drekkti hann tveim sonum ekkju nokkurrar
er bjó á Bjarteyjarsandi, hinum efnilegustu mönnum. Þeir sátu að fiski,
því þá var einatt gott til afla á firðinum. Ekkjunni féll þungt
sonamissirinn. Hún var haldin margkunnug.
Tekur hún nú til fornra fræða og stefnir illhvelinu úr
firðinum og upp í vatn eitt á Botnsheiði er síðan heitir Hvalvatn, og
kveður hún hann þar dveljast skulu og granda eigi fleirum. - Er svo sagt
að þar hafi um margar aldir síðan sést leifar af hvalbeinum uppi við
vatnið. Lýkur svo þessari sögu.
Forðum daga bjó seiðkona að Hólmum í
Reyðarfirði. Hún gekk með þá grillu í kollinum að einhvern
tímann myndu sjóræningjar reyna að ráðast á Reyðfirðinga og þess
vegna bað hún um að vera grafin þar sem hún sæi best yfir
fjörðinn. Hún lofaði að vernda Reyðarfjörð fyrir árásum á meðan
enn væri nokkurt bein sitt órotið. Þegar hún dó var hún grafin á
utanverðum Hólmahálsi, sem nú stendur miðja vegu á milli
Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Þar gefur enn að líta grænan blett
og sá blettur er leiði völvunnar.
Nú leið og beið og ekkert gerðist, en nokkru síðar urðu þeir
skelfilegu atburðir sem ganga undir nafninu Tyrkjaránið, en þá
komu ræningjar sunnan úr hafi, rændu og rupluðu um landið allt
og tóku meira að segja fólk í gíslingu og seldu það í þrældóm
suður í löndum. En þegar þessir ræningjar ætluðu að sigla inn
Reyðarfjörðinn gerði svo hvassan vestanvind að fjörðurinn varð
snjóhvítur af roki. Þá sýndist ræningjunum að fjörðurinn stæði í
ljósum logum og hættu við sigla inn fjörðinn.
Aftur leið og beið, en löngu síðar, þegar öll Evrópa logaði í
stríði um miðja tuttugustu öld, þá fór ekki hjá því að áhrifanna
gætti líka á Reyðarfirði. Þetta var í heimsstyrjöldinni síðari,
en þá höfðu bæði bresk og bandarísk herlið aðsetur á þessum
slóðum. Á meðan styrjöldin stóð yfir komu stundum þýskar
flugvélar flúgjandi inn fjörðinn og það kom meira að segja fyrir
að þær vörpuðu sprengjum á Reyðarfjörð. En aldrei slasaðist
neinn af þessum árásum. Sumir vilja þakka völvunni að ekki fór
verr, hún haldi ennþá verndarhendi yfir Reyðfirðingum úr
völvuleiðinu sínu á Hólmahálsi.
Í þjóðtrúnni eru ýmis skrýtin og hættuleg
kvikindi sem við rekumst ekki á dags daglega – sem betur fer.
Þetta eru ókindir sem heita einkennilegum nöfnum, eins og
finngálkn, skoffín, skuggabaldur og urðarköttur.
Finngálkni er svo lýst að það sé maður fyrir ofan mitti en dýr
að neðanverðu, með langan hala, klær og vígtennur. Skoffín er
afkvæmi kattar og tófu. Þegar skoffín er nýfætt smýgur það ofan
í jörðina og er þar í þrjú ár. Þegar það kemur upp aftur er
augnaráð þess svo banvænt að allt sem það horfir á dettur dautt
niður. Skuggabaldur er afsprengi hunds og kattar og augnaráð
þess er jafn eitrað eins og skoffínsins.
Sama máli gegnir um urðarköttinn. Hann lítur alveg eins og út og
venjulegur köttur, en hann er ólíkt grimmari. Urðarkettir grafa
sig í jörðu í kirkjugörðum og leggjast á lík og éta þau, en
þegar þeir koma upp þá er augnaráð þeirra svo illt að það drepur
allt sem fyrir verður. En eitt er það sem þessar ókindir þola
illa og það er að sjá sjálfar sig í spegli. Á sama hátt og þær
drepa önnur dýr með augnaráðinu einu saman, þá bíða þær bana af
því að horfast í augu við sjálfar sig.
Sagan segir að á bæ einum hafi köttur einhverju sinni komist í
lík. Eftir það var hann svo grimmur að hann lagðist út og drap
bæði kindur og kýr. Síðan gróf kisi sig niður í nærliggjandi
kirkjugarði og var þar þrjú ár. En bóndinn sem upphaflega átti
köttinn lét byggja speglasal yfir þar sem hann fór niður, því
þar myndi hann koma upp aftur. Þegar þar að kom, að
urðarkötturinn kom upp á yfirborðið, var spegilmyndin það fyrsta
sem hann sá og eitrað augnaráðið í speglinum. Þá datt kisi
dauður niður og menn urðu ekki fyrir frekari vandræðum af hans
völdum.
Í fyrndinni voru þrjú tröll á Vestfjörðum
sem tóku sig til og ætluðu að grafa Vestfirði frá afgangnum af
Íslandi með því að moka sund á milli Gilsfjarðar og
Kollafjarðar, þar sem styst er á milli Breiðafjarðar og
Húnaflóa. Til þess að hleypa í sig eldmóði ákváðu þau að koma í
kapp um hver gæti búið til flestar eyjar úr grjótinu og moldinni
sem þau mokuðu úr sundinu. Þau skiptu liði þannig að það voru
karl og kerling saman í Breiðafirðinum, en ein kerling hinum
megin í Húnaflóa.
Karlinn og kerlingin mokuðu eins og þeim lægi lífið við og
moksturinn gekk miklu betur hjá þeim heldur en kerlingunni enda
er Breiðafjörðurinn grynnri heldur en Húnaflói. Eyjarnar sem
liggja eins og ber í skyri út um allan Breiðafjörð eru
afraksturinn af mokstri þessara trölla. Það gekk hins vegar allt
miklu hægar hjá tröllskessunni í Húnaflóanum. Húnaflóinn er líka
miklu dýpri, þannig að flest grjótin sem hún kastaði frá sér
urðu að blindskerjum sem náðu ekki upp úr vatninu en eru mjög
hættuleg fyrir skip sem sigla um flóann.
Tröllin voru að moka alla liðlanga nóttina og gættu ekki að sér
fyrr en birti af degi. Þá tóku þau til fótanna, því að þegar
sólin skín á tröll þá verða þau að steini. Tröllin í
Breiðafirðinum hlupu eins hratt og þau gátu yfir Steinadalsheiði
og ætluðu að fela sig í Kollafirði. En þegar þau komu á
sjávarbakkann kom sólin upp og þau urðu bæði að steinum. Þar
standa þau hlið við hlið enn þann dag í dag, í Drangavík rétt
innan við Kollafjarðarnes. Annað steintröllið er meira um sig að
ofan og mjókkar niður, og það er karlinn, en kerlingin er mjórri
að ofan og feitari að neðan og það má jafnvel sjá móta fyrir
maga og pilsi á henni neðanverðri.
En kerlingin sem mokaði ein í Húnaflóanum varð líka sein fyrir
og gáði ekki að sér fyrr en farið var að birta. Þá stökk hún í
hendingskasti yfir Steingrímsfjörð og staðnæmdist hjá
klettabelti sem þar gengur fram í sjó og heitir Malarhorn. Þegar
hún leit þaðan yfir Húnaflóa sá hún að eftir allt stritið hafði
henni ekki tekist að mynda eina einustu almennilega eyju, bara
fáeina varphólma og smásker. Þá varð hún svo reið að hún náði
ekki upp í nefið á sér. Í bræði sinni lamdi hún skóflunni í
Malarhornið um leið og sólin skein á hana. Þá sprakk úr
klettunum eyja sem enn er á Steingrímsfirði og heitir Grímsey.
Rétt við Grímsey er háreistur klettur líkur nauti í laginu, enda
er hann kallaður Uxi. Þann uxa átti tröllkerlingin. Hann hafði
staðið á eynni þegar hún sprakk fram á fjörðinn, en uxann dagaði
þar uppi þegar sólargeislarnir teygðu sig til hans. Kerlingin
sjálf varð hins vegar að steindranginum sem þorpið Drangsnes er
kennt við.
Sæmundur fróði var lærðastur allra
Íslendinga á sínum tíma. Hann sigldi utan og fór í Svartaskóla,
sem sumir segja að sé í Þýskalandi en aðrir segja að sé í París.
Í Svartaskóla lærði Sæmundur alls kyns listir og galdra. Það var
engan kennara að sjá í skólanum, en allt sem nemendur vildu vita
þegar þeir fóru að sofa, lágu frammi bækur um þegar þeir
vöknuðu, eða þá að það var skrifað á vegginn. Það var á allra
vitorði að skólastjórinn væri enginn annar en skrattinn sjálfur.
Yfir dyrum Svartaskóla stóð stórum stöfum: „Inn máttu ganga,
töpuð er sálin.“ Þau lög voru í skólanum að hver sem þangað kæmi
skyldi læra þar í þrjú ár og ekki stíga út fyrir dyr á meðan.
Þegar menn yfirgáfu svo skólann, gerðu það allir í einfaldri
röð, hver á eftir öðrum. Skrattinn mátti eiga þann sem gekk
síðastur út. Til að skera úr um hver yrði svo óheppinn að ganga
síðastur, vörpuðu nemendurnir hlutkesti. Þegar Sæmundur hafði
lokið námi, féll honum til að ganga seinastur út af sínum
árgangi. Hann brá á það ráð að hafa kápu sína lausa á öxlunum,
en þegar hann gekk út um dyrnar kom hönd upp úr gólfinu og greip
í kápuna og tók til sín. Sæmundur slapp út, en kápan varð eftir.
Þegar Sæmundur var sloppinn úr Svartaskóla var laust
prestsembættið í Odda á Suðurlandi og Sæmundur bað danska
kónginn að veita sér það, en á þessum tíma réði danski kóngurinn
lögum og lofum á Íslandi. En þannig vildi þá til að tveir aðrir
prestar höfðu sóst eftir sama embættinu og allir voru
umsækjendurnir býsna fjölkunnugir, sumir myndu segja
rammgöldróttir. Kóngurinn vissi dável við hverja hann átti og
kvað upp úr um að sá þeirra skyldi fá Oddann sem fljótastur yrði
að komast þangað. Fer þá Sæmundur undir eins og kallar á kölska
og segir: „Syntu nú með mig Íslands, og ef þú kemur mér þar á
land án þess að bleyta kjóllafið mitt í sjónum þá máttu eiga
mig.“ Kölski samþykkti þetta, brá sér í selslíki og fór með
Sæmund á bakinu. En á leiðinni var Sæmundur alltaf að lesa í
sálmabók sem kölluð var Saltarinn. Eftir smástund voru Sæmundur
og selurinn komnir undir land á Íslandi. Þá slær Sæmundur
Saltaranum í hausinn á selnum svo hann sökk, en Sæmundur fór í
kaf og synti til lands. Með þessu missti kölski kaupið sitt, því
Sæmundur blotnaði í gegn. En Sæmundur komst í Oddann á undan
hinum umsækjendunum og þjónaði þar sem prestur alla ævi.
Einhver hættulegasti kaflinn á
Keflavíkurvegi liggur um Kúagerði, en þar hafa orðið hræðilega
mörg bílslys á undanförnum árum og áratugum. Þar hefur verið
reistur kross til minningar um þá sem látið hafa lífið á þessum
vegarkafla.
Það hefur heyrst að stundum þegar illa viðrar standi ung stúlka
við vegarkantinn í Kúagerði. Hún er niðurrignd og heldur
þumalfingrinum útréttum í átt að veginum til þess að biðja um
far í bæinn. Þeir sem hafa tekið hana upp í segja að hún sé
fremur fámál, en horfi mest út um gluggann. Aðspurð um hvert
eigi að skutla henni, þá segist hún vera á leið í
Hafnarfjörðinn, að ákveðnu heimilisfangi sem hún tilgreinir.
Ekki er hún hins vegar vön að segja nokkuð fleira.
Þegar ekið er inn í Hafnarfjörð, fram hjá kirkjugarðinum sem
stendur við Keflavíkurveginn, bregður hins svo við að unga
stúlkan hverfur úr bílnum. Bílstjórunum sem tóku hana upp í
verður auðvitað mjög bilt við og margir hafa víst stöðvað bílinn
og leitað að henni, en án árangurs. Hún er alltaf horfin
sporlaust. Svo er sagt, að einhverjir bílstjórar hafi brugðið á
það ráð að aka að heimilisfanginu í Hafnarfirði sem stúlkan
hafði tilgreint og hringja þar á bjöllunni. Þar taka miðaldra
hjón á móti bílstjóranum og þegar hann hefur sagt þeim alla
sólarsöguna, þá segja hjónin honum að þetta sé dóttir þeirra og
að það hafi margir aðrir komið til þeirra á undanförnum árum sem
hafi líka tekið hana upp í. Hún hafi nefnilega dáið í bílslysi í
Kúagerðinu fyrir nokkrum árum og sé grafin í kirkjugarðinum. Hún
sé nú samt alltaf á leiðinni heim í foreldrahús, blessuð
stúlkan, en kemst aldrei á leiðarenda, því áður en þangað er
komið hverfur hún alltaf ofan í gröfina sína í kirkjugarðinum.
Sá siður var hafður á í gamla daga að þegar
einhver dó á heimilinu var vakað yfir líkinu þangað til það var
kistulagt, sem oft var nokkrum dögum síðar. Ef næturnar voru
ekki albjartar, þá var kveikt á kerti, svo ekki þyrfti að vaka
yfir líkinu í myrkri. Einu sinni dó galdramaður, sem var forn í
skapi og erfiður viðureignar. Ekki var hlaupið að því að finna
einhvern til að vaka yfir líkinu, því enginn vildi gefa sig í
það. Þó fékkst loks til þess maður sem var mikið hraustmenni og
hvergi banginn. Fyrstu næturnar gekk þetta vandræðalaust hjá
honum. En nóttina áður en átti að kistuleggja, slokknaði á
kertinu rétt fyrir dagrenningu. Þá reis líkið upp og mælti:
“Skemmtilegt er myrkrið.” En vökumaðurinn var snöggur að svara:
“Þess færð þú ekki að njóta”, og kvað svo vísu:
Alskínandi er nú fold,
út er runnin gríma.
Það var kerti, en þú ert mold,
og þegiðu einhvern tíma.
Síðan stökk vökumaðurinn ofan á líkið og braut það á bak aftur
með miklum hamagangi og látum. Líkið var svo kyrrt, það sem
eftir var nætur.
Einu sinni var lítil stúlka sem hét
Rauðhetta. Hún átti ömmu sem henni þótti voðalega vænt um og
amman átti heima úti í skógi. Einhvern tímann var amma hennar
lasin. Mamma hennar Rauðhettu tók saman ýmis meðul og maltöl og
bakkelsi til að gleðja gömlu konuna. Hún setti þetta allt ofan í
körfu og bað Rauðhettu að fara út í skóg og færa ömmu þennan
glaðning. En hún bað Rauðhettu að fara mjög varlega og alls ekki
að fara út fyrir göngustíginn, því það væri úlfur í skóginum og
eins gott að gæta sín vel á honum. Rauðhetta lofaði öllu fögru
og lagði af stað út í skóg með körfuna, í fallegri rauðri kápu
með rauða hettu.
Þess var ekki langt að bíða að Rauðhetta yrði úlfsins vör. Þegar
úlfurinn kom auga á Rauðhettu stökk hann undir eins á bak við
næsta runna og reyndi að fela sig fyrir henni. En Rauðhetta lét
ekki gabba sig. Hún gekk niður fyrir stíg og kíkti á bak við
runnann. Svo spurði hún úlfinn: “Af hverju ertu með svona stór
augu?” Úlfurinn var felmtri sleginn í fyrstu, en tók svo á sig
rögg og reyndi að bera sig úlfslega: “Stór augu? Nú, það er til
þess ég sjái þig betur!” Rauðhetta lét það gott heita og hélt
áfram göngunni eftir stígnum, á leið til ömmu sinnar. En ekki
leið á löngu þar til hún varð aftur var við úlfinn. Aftur stökk
úlfurinn á bak við næsta tré til að fela sig, en Rauðhetta tölti
niður fyrir stíginn og vatt sér að úlfinum: “Af hverju ertu með
svona stórt nef?” Aftur kom á úlfinn, en hann reyndi að láta sem
ekkert væri og svaraði: “Stórt nef? Nú, það er svo ég finni
betur ilminn af þér!” Jæja þá, Rauðhetta tók þetta gott og gilt
og gekk aftur upp á stíginn og síðasta spölinn heim til ömmu
sinnar. En þegar þangað kom, sá hún að úlfurinn var að læðast
fyrir utan. Hann reyndi að fela sig bak við hús, en Rauðhetta sá
við honum og kom honum í opna skjöldu: “Af hverju ertu með svona
stór eyru?”, spurði hún hann þegar síst varði. Og nú var úlfinum
nóg boðið: “Stór eyru? Stór eyru?”, kveinaði hann, “hva, hefurðu
séð Megas?”
Sagt er að einhvern tímann í fyrndinni hafi
kona gefið dóttur sinni hring úr gulli. Það er gamall siður að
láta orma liggja á gulli svo það stækki og af því að stúlkan
vissi þetta, þá lagði hún hringinn undir lyngorm sem hún hafði
fundið. Hún setti bæði lyngorminn og hringinn ofan í lítið
skrín. Í skríninu uxu síðan gullið og ormurinn. Þegar stúlkan
leit í skrínið nokkrum dögum síðar var ormurinn orðinn svo stór
að skrínið var farið að gliðna í sundur. Stúlkan varð hrædd,
þreif upp skrínið og grýtti því út í Lagarfljót með öllu saman
í.
Svo leið langur tími án þess nokkuð drægi til tíðinda. Þó kom að
því að ormurinn tók að bæra á sér og það með svo miklum látum að
hann drap bæði menn og skepnur sem fóru yfir Lagarfljótið.
Stundum teygði hann sig líka upp úr fljótinu og spjó eitri á
bakkana. Enginn kunni nokkurt ráð til að bæta úr þessum
vandræðum. Loks voru fengnir tveir galdramenn á Fljótsdalshérað
til að bjarga málum. Þeir steyptu sér í fljótið og gátu bundið
ókindina niður að framan og aftanverðu. Sumir segja aftur á móti
að það hafi verið gamall biskup, Guðmundur góði, sem batt orminn
fastan á haus og hala.
Þó kemur ennþá fyrir að ormurinn reki kryppuna upp úr
Lagarfljótinu og þeir eru til sem þykjast hafa séð hann, meira
að segja á allra síðustu árum. Það er líka sagt að ormurinn sé
enn að stækka og að hann muni halda áfram að vaxa og að
hlykkjast um botn Lagarfljótsins alveg fram að heimsendi, en þá
á Lagarfljótsormurinn að losna og leggja allt Fljótsdalshérað í
eyði.
Fyrir nokkru var mikið rætt um hvort flytja
ætti inn norskar kýr til að bæta íslenska kúastofninn. En sumir
segja að sá stofn hafi áður verið bættur og að það hafi gerst á
Akranesi fyrir löngu síðan.
Þannig er, að samkvæmt gömlum sögnum búa verur í mannslíki á
hafsbotninum í kringum Ísland, ekki ósvipaðar huldufólki.
Kvenfólkið er ýmist kallað margýgar, hafgúur eða hafmeyjar, en
karlarnir eru nefndir marmennlar eða marbendlar. Þetta
neðansjávarfólk hefur búskap, eins og mennirnir, og stöku sinnum
ganga nautgripirnir þeirra á land. Nautin heita sænaut, en
kýrnar eru kallaðar sækýr og þykja þetta hinir mestu
kostagripir. Þeir eru gráir eins og sjórinn og að því leyti
ólíkir öðrum nautgripum að þeir hafa blöðru á milli nasanna.
Sænaut og sækýr eru miklar óhemjur og menn geta einvörðungu náð
þeim á sitt vald ef þeim tekst að sprengja þessa blöðru.
Einhverju sinni voru nokkrir menn á ferð meðfram sjónum nærri
Akranesi og urðu varir við sækúahóp þar skammt frá. Þegar þeir
höfðu áttað sig á því hvers kyns var, hlupu þeir eins og fætur
toguðu til að komast í veg fyrir kýrnar áður en þær færu aftur í
sjóinn. Einn þeirra, Gunnar að nafni, varð fljótastur og komst
fram fyrir öftustu kúna. Honum tókst að sprengja blöðruna milli
nasanna á henni, en þá komst kýrin ekki aftur í sjóinn.
Hinar kýrnar í hópnum sluppu hins vegar allar með tölu áður en
til þeirra náðist. Gunnar fór með sækúna sína heim í fjós á
Akranesi til annarra kúa. Hún þótti gefast ákaflega vel og
mjólkaði meira en nokkur önnur kýr. Frá henni eru komnar margar
kýr á Akranesi og þær þykja hafa yfirburði yfir aðra gripi, því
bæði mjólka þær betur og eru stærri.
Kolbeinn Grímsson, sem kallaður var
jöklaskáld, var uppi á 17. öld og bjó í Einarslóni undir Jökli
og að Fróðá á Snæfellsnesi. Það er sagt af honum, að hann væri
latur bóndi og lélegur, en mikið og gott skáld. Hann gat kveðið
dýrara en flestir aðrir menn, og því til sönnunar eru enn til
ýmis ljóð eftir Kolbein.
Þegar Kolbeinn bjó að Fróðá, gerði hann eitt sinn samning við
kölska. Samningurinn hljóðaði upp á að kölski skyldi vinna fyrir
Kolbein allt sem erfiðast væri af bústörfum í þrjú eða fjögur
ár, en að þeim tíma liðnum mætti hann svo eiga Kolbein. Kolbeinn
setti þó það skilyrði að kölski yrði fyrst að geta botnað allar
vísur sem Kolbeinn kastaði fram. Skyldu þeir kveðast á að
samningstímabilinu loknu til þess að skera úr um þetta. Ef
kölska brygðist skáldskapargáfan, þá skyldi Kolbeinn aftur á
móti sleppa undan samningnum og vera laus allra mála.
Kölski fór nú í vist til Kolbeins og tók að vinna baki brotnu,
svo að Kolbeinn þurfti ekki einu sinni að stinga hendinni í kalt
vatn. Þessi nýji vinnumaður sagði engum hvað hann héti, og aðrir
kölluðu hann sín á milli „ókunna manninn“. Orð fór af því, að
hann væri ekki kirkjurækinn, en svo mikill vinnumaður var hann
bæði til lands og sjávar, að hann bar af öllum öðrum. Konu
Kolbeins og öðrum heimamönnum þótti hinn ókunni maður mjög
erfiður og leiðinlegur, enda var hann afar vandlátur og bölvaði
og ragnaði ef hann þótti einhver koma of nálægt sér. Styggastur
var þessi ókunni maður við konu Kolbeins, því að hún var
guðhrædd, og kölska var því mjög lítið um hana gefið.
Þegar vistartími kölska var liðinn og komið að því að þeir
Kolbeinn skyldu reyna með sér kveðskapinn, þá sótti kölski
Kolbein eina tunglbjarta nótt og fór með hann með sér fram á
sjávarhamra. Þeir settust fram á bjargbrúnina og hengdu fæturna
fram af. Nú tók Kolbeinn að yrkja fyrri hluta af vísum, en
kölski botnaði vísurnar jafnan viðstöðulaust. Svona gekk þetta
lengi nætur, Kolbeinn kastaði fram fyrripörtum, en kölski kom
með seinnipartinn jafnóðum. En þá er skammt var til dags, þreif
Kolbeinn hníf upp úr vasa sínum, sneri egginni á hnífnum upp og
kvað:
Horfðu´ í þessa egg, egg
undir þetta tungl, tungl.
Þá mælti hinn ókunni maður: „Nei, Kolbeinn, það er ekki hægt að
botna þetta.“ En þá hélt Kolbeinn áfram og botnaði vísuna
sjálfur með þessum seinni hluta:
Eg spyrni þér með legg, legg,
lið sem hrærir ungl, ungl.
Um leið og hann sagði þetta, þá spyrnti Kolbeinn við ókunna
manninum og steypti honum fram af bjarginu. Þar með var hann
laus allra mála við kölska.
Einu sinni bjó maður nokkur á bænum Reyni í
Mýrdal. Hann átti að sjá um að koma þar upp kirkju, en eitthvað
gekk illa að fá timbur til byggingarinnar. Þegar komið var fram
yfir mitt sumar, en ekki enn búið að fá smið í verkið, þá fór
bóndi að kvíða fyrir því að kirkjan yrði ekki tilbúin fyrir
veturinn.
Dag einn var hann að reika út um tún í þungu skapi. Þá kom maður
til hans og bauð honum að smíða fyrir hann kirkjuna. Að
verklaunum vildi hann aðeins þetta: Annað hvort segði bóndi
honum nafn hans, áður en smíðinni væri lokið, eða, ef hann gæti
það ekki, þá skyldi bóndi láta af hendi við hann einkason sinn,
sex ára gamlan. Um þessa skilmála tókst samkomulag.
Aðkomumaðurinn tók nú til verka og skipti sér ekki af neinu nema
smíðum sínum, enda vannst verkið furðulega fljótt. Bóndi sá að
kirkjan myndi von bráðar verða tilbúin. Þá tók hann að ógleðjast
mjög og sá eftir öllu saman, en hann átti ekki annarra kosta völ
en að standa við samninginn sem hann hafði gert við smiðinn. Um
haustið, þegar kirkjan var nærri fullsmíðuð, ráfaði bóndi út
fyrir tún. Hann lagðist ofan á hól þar í grenndinni til þess að
hugsa ráð sitt. Þá heyrði hann sungið í hólnum, eins og móðir
væri að syngja fyrir barnið sitt:
“Senn kemur hann Finnur,
faðir þinn frá Reyn
með þinn litla leiksvein”
Þetta var sungið aftur og aftur. Bóndinn hresstist nú allur við
og gekk heim og rakleiðis inn í kirkjuna. Þá var smiðurinn í
þann veginn að festa síðustu spýtuna yfir altarinu. Þá sagði
bóndinn: “Þá er þetta að verða búið hjá þér, Finnur minn.”
Smiðnum varð svo bilt við þessi orð að hann missti fjölina og
hvarf. Síðan hefur ekki sést til hans.
Á undanförnum árum hefur Kópavogsbær óðum
verið að breiða úr sér í Smárahvammslandi og byggjast saman við
Breiðholtið og Garðabæinn. Þar eru að rísa risastórt
verslunarhverfi, atvinnusvæði og íbúðarbyggð. Í Leirdal í
Smárahvammslandinu er gert ráð fyrir framtíðarkirkjugörðum
höfuðborgarsvæðisins. Þó að Smárahvammslandið sé út af fyrir sig
á miðju Stór-Reykjavíkursvæðinu, þá hefur það til skamms tíma
verið utan alfararleiðar og þess vegna alveg fengið að vera í
friði. En nú hefur borgin líka teygt anga sína þangað og alla
leið inn í Leirdal. Til þess að undirbúa Leirdalinn undir hið
nýja hlutverk sitt sem kirkjugarður fluttu trukkar fullfermi af
jarðvegi þangað og svo tóku ýturnar við, óku moldinni til og
sléttuðu úr henni. Á meðan þessi undirbúrningur stóð yfir, fyrir
fjórum árum síðan, áttu sér þarna stað atburðir sem mörgum þóttu
mjög dularfullir. Framkvæmdirnar í Leirdalnum rötuðu í algerar
ógöngur og grunur lék á að álfar eða huldufólk ættu þar hlut að
máli.
Þannig var, að ákveðinn hóll í dalnum olli ýtunum ómældum
vandræðum. Ýtumaðurinn segir svo frá að þegar hann fór nálægt
hólnum á ýtunum, þá fóru þær bara að spóla, þótt það væri sama
sem engin fyrirstaða fyrir ýtutönninni. Hann fann fyrir
einhverri einkennilegri tilfinningu þegar hann kom nálægt
hólnum, „ekki neinum ónotum, en svona einhverri smá hræðslu.“
Síðan frétti ýtumaðurinn af því að það var til gömul þjóðsögn um
að álfar eða huldufólk ættu heima í þessum hól. Fyrr á öldinni
hafði verið bóndabær og búskapur í Smárahvammslandi og þá mun
hafa verið gott samband á milli ábúendanna á bænum og íbúanna í
hólnum. Bændur í Smárahvammslandi höfðu líka alltaf passað sig
að slá ekki hólinn eða meiða hann með nokkrum hætti. Það kom
líka á daginn, að þegar farið var að eiga við hólinn með ýtunum,
þá biluðu þær æ ofan í æ. Þá vildi líka henda að það dræpist á
vélinni í vörubílum sem keyrðu að hólnum og í eitt skipti þurfti
að draga vörubíl 200-300 metra í burtu áður en hann fór í gang
aftur.
Eins og von var, kvisaðist fljótt út að álfar og huldufólk léki
menn grátt í Leirdal og þess var skammt að bíða að fjölmiðlar
flykktust á vettvang. Þegar fréttalið Stöðvar 2 ætlaði að mynda
hólinn vildi hins vegar ekki betur til en svo að upptökuvélin
virkaði ekki þegar henni var beint að hólnum. Ef þeir aftur á
móti gengu spölkorn í burtu virtist allt vera í lagi. Þessu lauk
með því að þeir gáfust upp og fóru með sjónvarpsmyndavélina upp
á verkstæði Stöðvar 2, en þar var þeim hins vegar sagt að vera
ekki með neina vitleysu, því það væri ekkert að þessari vél.
Þeir fóru þá aftur niður í Leirdal og ætluðu að hefjast handa,
en það var sama sagan og ekkert gekk. Það var svo ekki fyrr en
þeir sóttu nýja myndavél, sem það loksins hafðist að mynda
þennan merkilega hól.
Þeir sem unnu að framkvæmdunum í Leirdal og þeir sem höfðu
umsjón með þeim fyrir hönd Kópavogsbæjar sáu að þetta var ekki
einleikið, öll þessi vandræði sem hlutust af því að vera að eiga
við hólinn í Leirdal. Þeir hölluðust helst að því að í hólnum
væri eitthvað dularfullt sem þeir gætu ekki útskýrt, helst álfar
eða huldufólk.
Þar kom að mönnum þótti tími til kominn að gera hlé á verkinu.
Það þótti rétt að láta reyna á hvort ekki væri hægt að ná sáttum
við álfana með því að færa sig um set í einhvern tíma. Og það
var eins og við manninn mælt, að þegar ýturnar sneru aftur að
hólnum eftir þetta hlé voru öll vandræði úr sögunni. Ýtumaðurinn
fann ekki lengur fyrir þessari óþægilegu tilfinningu sem áður
hafði sótt að honum nálægt hólnum og ýturnar urðu ekki fyrir
neinum skakkaföllum. Hvað sem að hafði verið þarna í hólnum,
álfar eða huldufólk, var greinilega búið að sætta sig við
framkvæmdirnar í Smárahvammslandinu. Þegar hlé hafði verið gert
á verkinu, sætti það færis og fluttist á brott.
Það verða sem sagt engir álfar í nýja kirkjugarðinum í Leirdal.
Enginn veit hvert þeir fóru, en sennilega hafa þeir leitað út
fyrir borgarmörkin, þangað sem enginn ónáðar þá í bili, a.m.k.
þangað til borgin verður búin að breiða svo mikið úr sér að hún
bankar aftur að dyrum í hólnum hjá þeim og krefst þess að fá
lóðina þeirra undir bílastæði.
Herjólfsdalur í Vestmannaeyjum er nefndur
eftir manni sem þar bjó til forna og hét Herjólfur.
Herjólfsdalur er vestan til á Heimaey og hann er umkringdur háum
fjöllum á þrjá vegu. Bær Herjólfs stóð í vestanverðum
Herjólfsdal undir háu og snarbröttu hamrafjalli. Hann var sá
eini af eyjarbúum sem hafði gott vatnsból nærri bæ sínum og því
komu margir til hans að biðja um vatn. Hann vildi aftur á móti
engum gefa vatn, bara selja það.
Svo er sagt að Herjólfur hafi átt eina dóttur sem hét Vilborg,
en hún var mjög ólík föður sínum. Hún var góð og gjafmild bæði
við menn og dýr, en henni þótti karl faðir sinn vera nirfill og
nánös að selja nágrönnunum vatnið. Hún stalst oft til þess í
skjóli nætur að gefa mönnum vatn á meðan karlinn svaf.
Einhverju sinni bar svo við að Vilborg sat úti nálægt bænum og
var að laga eina skóparið sitt. Þá kom hrafn til hennar, kippti
öðrum skónum úr höndunum á henni og flaug burt með hann. Hún var
miður sín að missa skóinn, stökk á fætur og hljóp á eftir
hrafninum. En þegar hún var komin spölkorn frá bænum varð
grjóthrun í fjallinu og gríðarstór skriða féll niður yfir bæ
Herjólfs. Ólíkt dóttur sinni, var Herjólfur staddur inni í
bænum. Hann varð undir skriðunni og lét þar lífið. En hrafninn
bjargaði lífi Vilborgar með því að teyma hana burt með skónum.
Segir sagan að hrafnarnir hafi verið að launa henni greiða, því
hún hafði svo oft vikið góðu að þeim.
Síðan reisti Vilborg bæ í Herjólfsdalnum sem er kallaður
Vilborgarstaðir. Í túninu vestan við þennan bæ á Vilborg að vera
grafin, en leiði hennar er kallað Borguleiði. Við Vilborgarstaði
er líka tjörn sem Vilborg gaf nafnið Vilpa. Um leið lagði hún
svo á með góðgaldri að engum skyldi nokkurn tímann verða meint
af að drekka vatnið úr Vilpu, enda sóttu Eyjamenn vatn í þessa
tjörn til skamms tíma. Við ofanverða grjóthrúguna sem féll á bæ
Herjólfs er jafnframt tær vatnslind sem aldrei þrýtur þó alls
staðar annars staðar verði vatnsskortur. Þessi lind hefur oft
svalað þorsta heimamanna þegar önnur vatnsból hafa gengið til
þurrðar.
Forðum daga var djákni á Myrká í Eyjafirði,
sem er gamall kirkjustaður innarlega í Hörgárdal. Það fylgir
ekki sögunni hvað djákninn hét, en hann var í tygjum við konu
sem hét Guðrún og var þjónustustúlka á bænum Bægisá, hinum megin
við Hörgána. Djákninn átti gráföxóttan hest sem hann kallaði
Faxa.
Einhverju sinni bar svo til litlu fyrir jól að djákninn fór til
Bægisár að bjóða Guðrúnu í jólaveislu að Myrká og lofaði að
sækja hana á tilsettum tíma á aðfangadagskvöld og fylgja henni
til veislunnar. Þegar djákninn sneri aftur heimleiðis höfðu
orðið miklir vatnavextir í Hörgá og hann reið meðfram henni, uns
hann kom að brú nærri bænum Myrká. Djákninn reið á brúna, en
þegar hann var kominn út á hana miðja, brotnaði hún undan honum
og hann fór í ána.
Morguninn eftir, þegar bóndinn á Þúfnavöllum þar rétt hjá reis
úr rekkju, sér hann hest með reiðtygjum fyrir neðan túnið, allan
votan og illa til reika, og þykist þekkja þar Faxa, hest
djáknans á Myrká. Honum verður bilt við þetta, því hann hafði
séð til ferða djáknans daginn áður, en ekki orðið var við að
hann færi til baka. Hann gengur því ofan að ánni og þar finnur
hann lík djáknans. Bóndinn fer þegar til Myrkár og segir
tíðindin. Djákninn var mjög skaddaður á hnakkanum er hann
fannst. Hann var fluttur heim til Myrkár og grafinn í vikunni
fyrir jólin.
Vatnagangurinn hélt áfram alveg frá því að djákninn fór frá
Bægisá og fram á aðfangadag. Þar sem enginn komst yfir Hörgána
fréttist það ekki til Bægisár að djákninn væri drukknaður. En á
aðfangadaginn hafði mesta vatnið runnið úr ánni og Guðrún
hlakkaði mikið til að fara í veisluna að Myrká. Þegar leið á
daginn, fór hún að búa sig, og þegar hún var vel á veg komin með
það heyrði hún að það var bankað. Fór þá önnur kona til dyra, en
sá engan úti, enda óð tunglið í skýjum svo það var hvorki bjart
né myrkt. Þegar konan kom inn aftur og kvaðst ekki hafa séð
neitt, sagði Guðrún: “Til mín mun leikurinn gerður. Það er víst
best að ég svari þessu.” Þá var hún tilbúin, nema að hún átti
eftir að fara í hempuna. Hún teygði sig í hempuna og fór í aðra
ermina, en fleygði hinni erminni yfir öxlina.
Þegar hún kom út sá hún Faxa standa fyrir dyrum og mann hjá, sem
hún taldi víst að væri djákninn. Hann tók Guðrúnu og setti hana
á bak og settist síðan sjálfur fyrir framan hana. Svo riðu þau
um hríð án þess að tala saman. En þegar hesturinn hrasaði
lítillega við lyftist hattur djáknans upp að aftanverðu. Í sömu
svipan rak skýin frá tunglinu og Guðrún sá glampa á bera
hauskúpuna undir hattinum. Þá mælti djákninn:
“Máninn líður, dauðinn ríður.
Sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?”
Henni varð bilt við og þagði. En svo er sagt að draugar geti
ekki tekið sér orðið “Guð” í munn og þess vegna hafi djákninn
kallað Guðrúnu “Garún”. Síðan segir ekki af samræðum þeirra fyrr
en þau koma heim að Myrká. Þar fóru þau af baki fyrir framan
sáluhliðið. Þá segir djákninn við Guðrúnu:
“Bíddu hérna, Garún, Garún,
meðan ég flyt hann Faxa, Faxa,
upp fyrir garða, garða.”
Að því mæltu fór hann með hestinn, en henni varð litið inn í
kirkjugarðinn. Þar sá hún opna gröf og varð mjög hrædd, en tekur
það þó til bragðs að grípa í klukkustrenginn. Í því er gripið
aftan í hana. Þá varð henni til happs að hún hafði ekki fengið
tíma til að fara nema í aðra ermina á hempunni, því það var
togað í hana af svo miklum krafti að hempan rifnaði í sundur. En
það sá hún síðast til djáknans, að hann steyptist ofan í opnu
gröfina með hempuslitrið í höndunum og moldin sópaðist yfir hann
frá báðum hliðum.
En það er frá Guðrúnu að segja, að hún hringdi í sífellu
kirkjuklukkunni, alveg þangað til bæjarmenn á Myrká komu út og
sóttu hana. Hún var orðin svo hrædd að hún þorði hvorki að
hreyfa sig eða að sleppa klukkustrengnum, því hún þóttist vita
að nú hefði hún átt við djáknann afturgenginn. Þessa sömu nótt,
þegar allir voru farnir í háttinn á Myrká og búið að slökkva
ljósin, kom djákninn og ásótti Guðrúnu. Þessum ásóknum fylgdu
svo mikil læti að fólkið á bænum varð að fara á fætur og engum
varð svefnsamt þá nótt. Í hálfan mánuð eftir þetta mátti hún
aldrei vera ein og það varð að vaka yfir henni hverja nótt.
Nú var fenginn galdramaður vestan úr Skagafirði til þess að
setja niður drauginn. Þegar hann kom, lét hann grafa upp stein
einn mikinn fyrir ofan túnið og velta honum heim að bænum. Um
kvöldið, þegar dimma tók, kemur djákninn aftur og vill fara inn
í bæinn, en galdramaðurinn nær honum við bæjargaflinn og setur
hann þar niður með miklum særingum. Síðan veltir hann steininum
ofan á hann og þar á djákninn að hvíla enn í dag. Eftir þetta
linnti draugaganginum á Myrká og Guðrún fór að hressast. Litlu
seinna fór hún heim til sín að Bægisá, en hún jafnaði sig víst
aldrei alveg á þessum reiðtúr með djáknanum.
Fyrir 200 árum var prestur á Húsavík sem
hét Helgi Benediktsson. Hann var fróðari heldur en gerist og
gengur. Hann skildi hrafnamál, spáði fyrir um óorðna hluti og
sumir segja meira að segja að hann hafi verið rammgöldróttur.
Einhvern morguninn sagði Helgi prestur konunni sinni frá því að
sig væri farið að dreyma hvað eftir annað að það kæmi til sín
maður og bæði hann um að hjálpa sér. Maðurinn var með
barðastóran hatt á höfðinu og það var greinilegt að hann var
drukknaður. Hann sagði Helga presti frá því hverjir hefðu fundið
sig og kvartaði sáran undan því hvernig þeir fóru með sig.
Eftir að prestinn hafði dreymt sama drauminn nokkrum sinnum tók
hann sér ferð á hendur út á Tjörnes. Þar heimsótti hann bændurna
að Máná og á Bangastöðum og spurði hvar maðurinn væri sem þeir
hefðu fundið. Fyrst könnuðust þeir ekki neitt við neitt, en
presturinn gekk á þá þangað til þeir sögðu honum sannleikann.
Þeir höfðu fundið bát og við bátinn hafði verið bundinn dauður
maður. Þeir sögðust hafa slegið eign sinni á bátinn og stolið
fötunum af manninum, en falið líkið svo að ekki kæmist upp um
þá.
Prestur lét þá þessa þjófa lofa sér því að grafa upp líkið og
flytja það að Húsavík, en á móti lofaði hann að hjálpa þeim að
hola því niður í kirkjugarðinn svo að lítið bæri á. Næstu nótt
fluttu þjófarnir líkið í poka yfir heiðina. Helgi prestur hitti
þá við kirkjuna og saman jörðuðu þeir drukknaða manninn í
kyrrþey í Húsavíkurkirkjugarði. Eftir þetta lét maðurinn Helga í
friði, enda var Helgi búinn að veita honum þá aðstoð sem hann
bað um.
Presturinn lenti í mörgum ævintýrum eftir þetta og dó í hárri
elli, en sögurnar af honum voru skrifaðar niður eftir einu af
barnabörnunum hans. Til drukknaða mannsins hefur hins vegar oft
sést síðan þar sem hann læðist um Húsavík og nærliggjandi
sveitir. Þessi draugur er kallaður Barði vegna þess að hann er
alltaf með sama barðastóra hattinn á höfðinu. Og hver veit nema
Barði sé enn á sveimi og spóki sig á götum og torgum Húsavíkur.
Það var á bæ einum um sumar, að fólk allt
var á engjum nema húsfreyja; hún var heima og gætti bæjar með syni sínum
á þriðja eða fjórða árinu. Sveinn þessi hafði vaxið og vel dafnað til
þess tíma; altalandi var hann orðinn, skýr og efnisbarn eitthvert hið
mesta. En með því konan átti um ýms bæjarstörf að annast auk sveinsins,
varð hún að víkja sér frá honum litla hríð og fór út í læk, er var
skammt frá bænum, að þvo mjólkurtrogin. Skildi hún barnið eftir á meðan
í bæjardyrunum, og segir ekki af því, fyrr en konan kom aftur eftir
drukklanga stund. Þegar hún yrðir á það, hrín það og æpir illilegar og
ámáttlegar en hún átti von á, því áður var barnið mesta spektarbarn,
þýðlynt og þægt. En nú fær hún ekki af því nema óhljóð ein og illhrinur.
Líður svo nokkuð hér frá, að barnið mælir ekki orð frá munni, en var
ákaflega keipótt og rellið, svo konan kunni ekkert lag á þessum
háttaskiptum; það vex og ekki og lætur fíflslega mjög. Konan varð mjög
angruð af þessu og tekur það ráð, að hún fer að hitta grannkonu sína, er
þótti vera hyggin og margfróð, og segir henni frá hörmum þeim, sem sig
hafi hent. Konan innir hana grannt eftir, hvað langt sé síðan, að barnið
hafi tekið þessa fásinnu, og hvernig hún ætli það hafi atvikast. Móðir
sveinsins segir henni allt af létta, eins og gengið hafði. Þegar
grannkonan hin fróða hafði heyrt alla málavöxtu, segir hún: „Heldurðu
ekki, góðin mín, að sveinninn sé umskiptingur? Því það er ætlun mín, að
um hann hafi skipt, meðan þú gekkst frá honum í bæjardyrunum.“ „Ég veit
ekki,“ segir hún, „eða geturðu ekki kennt mér ráð til að komast eftir
því?“ „ Það mun ég geta,“ segir konan; „skaltu einhverntíma skilja
barnið eftir eitt saman og láta einhverja nýlundu bera fyrir það, og mun
það þá eitthvað mæla, er það sér engan í kring um sig. En þú skalt hlera
til og vita, hvað því verður að orði. Þyki þér þá orðtök sveinsins
undarleg og ískyggileg, skaltu strýkja hann vægðarlaust, unz eitthvað
skipast um.“ Að svo mæltu skildu þær talið, og þakkaði móðir sveinsins
grannkonu sinni heilræðin og fór heim síðan.
Þegar konan er heim komin, setur hún höldupott lítinn á mitt
eldhúsgólf; síðan tekur hún sköft mörg, bindur hvert við enda annars,
svo að efri endinn tók allt upp í eldhússtrompinn, en við hinn neðri
batt hún þvöruna og lét hana standa í pottinum. Þegar hún hafði veitt
þennan umbúnað í eldhúsinu, sótti hún sveininn og lét hann þar einan
eftir verða; gekk hún þá úr eldhúsinu og stóð á hleri þar, sem hún sá
gegnum dyragættina inn í eldhúsið. Þegar hún var fyrir litlu burtu
gengin, sér hún, að barnið fer að vappa í kringum pottinn og virða hann
fyrir sér með þvörunni í og segir síðan: „Nú em eg svo gamall sem á
grönum má sjá, átján barna faðir í álfheimum, og hef eg þó aldrei séð
svo langan gaur í svo lítilli grýtu.“ Fer þá konan aftur inn í eldhúsið
með vænan vönd, tekur umskiptinginn og kaghýðir hann lengi og óvægilega.
Æpir hann þá ógurlega. Þegar konan hefur strýkt sveininn um hríð, sér
hún, að ókunnug kona kemur inn í eldhúsið með sveinbarn á handlegg sér,
fagurt og frítt; lét hún vel að því og segir við konuna: „ Ójafnt
höfumst við að; eg dilla barni þínu, en þú berð bónda minn.“ Að svo
mæltu setur hún af sér sveininn, son húsfreyju, og verður hann þar
eftir, en hefur karl sinn burtu með sér, og hurfu þau þegar. En
sveinninn óx upp hjá móður sinni og varð efnismaður.
Einu sinn var karl og kerling í koti sínu.
Þau voru svo snauð, að þau áttu ekkert fémætt til í eigu sinni nema snúð
einn af gulli á snældu kerlingar.
Það var siður karls, að hann fór dag hvern á veiðar eða til fiskifanga
til að afla þeim lífsbjargar. Skammt frá koti karls var hóll einn
mikill. Það var trú manna, að þar byggi huldumaður sá, er kallaður var
Kiðhús, og þótti hann nokkur viðsjálsgripur.
Einu sinni sem oftar bar svo við, að karl fór á veiðar, en kerling sat
heima, eins og hún var vön. Af því gott veður var um daginn, settist hún
út með snældu sína og spann á hana um hríð. Brá þá svo við, að
gullsnúðurinn datt af snældunni og valt nokkuð til, svo að kerling
missti sjónar á honum. Hún undi þessu allilla og leitaði dyrum og
dyngjum. En allt kom fyrir ekki, hún fann hvergi snúðinn.
Eftir það kom karl heim, og sagði hún honum ófall sitt. Karl kvað
Kiðhús hafa tekið snúðinn, og væri það rétt eftir honum. Bjóst karl enn
að heiman og segir kerlingu, að hann ætlaði að fara og krefja Kiðhús um
snúðinn eða eitthvað fyrir hann. Við það brá heldur af kerlu.
Karlinn gengur nú sem leið lá að hólnum Kiðhúss og ber þar lengi á
óþyrmilega með lurk. Loksins svarar Kiðhús:
Hver bukkar mín hús?
Karl segir:
Karl er þetta, Kiðhús minn,
kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn.
Kiðhús spurði, hvað hann vildi hafa fyrir snúðinn. Karl bað hann um kú,
sem mjólkaði fjórðungsfötu í mál, og veitti Kiðhús honum þá bæn. Fór svo
karl heim með kúna til kerlingar.
Daginn eftir, er hún hafði mjólkað kúna um kvöldið og morguninn og
hafði fyllt alla dalla sína með mjólk, kom henni til hugar að búa til
graut, en þá man hún eftir því, að hún á ekkert ákast í grautinn. Fer
hún þá til karls og biður finna Kiðhús og biðja hann um ákast.
Karl fer til Kiðhús, ber á hólinn með lurknum sem fyrr. Þá segir
Kiðhús:
Hver bukkar mín hús?
Karl segir:
Karl er þetta, Kiðhús minn,
kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn.
Kiðhús spyr hann, hvað hann vilji. Karl biður hann að gefa sér út á
pottinn, því þau kerling sín ætli að elda sér graut.
Kiðhús gaf karli méltunnu. Fór svo karl heim með tunnuna, og gerir
kerling grautinn. Þegar grauturinn var soðinn, settust þau að honum,
karl og kerling, og átu, eins og í þeim lá. Þegar þau höfðu étið sig
mett, áttu þau enn mikið eftir í pottinum.
Fóru þau þá að hugsa sig um, hvað þau ættu að gjöra við leifarnar.
Þótti þeim það tiltækilegast að færa þær sankti Maríu sinni. En fljótt
sáu þau það að ekki var auðhlaupið upp þangað, sem hún var.
Þeim kom því ásamt um að biðja Kiðhús um stiga, sem næði upp til himna,
og héldu, að snúðurinn væri ekki ofborgaður fyrir því.
Karl fer og ber á hólinn hjá Kiðhús. Kiðhús spyr sem fyrr:
Hver bukkar mín hús?
Karl svarar enn:
Karl er þetta, Kiðhús minn,
kerling vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn.
Við það byrstist Kiðhús og segir: "Er þá snúðskömmin aldrei borgaður?"
Karl bað hann því meir og kvaðst ætla að færa Maríu sinni grautarleifarnar
í skjólum. Kiðhús lét þá til leiðast, gaf honum stigann og reisti hann
upp fyrir karl.
Varð þá karl glaður við og sneri heim til kerlingar. Bjuggu þau sig svo
til ferðar og höfðu með sér grautarskjólurnar. En er þau voru komin æði
hátt upp í stigann, tók þau að sundla. Brá þeim þá svo við, að þau duttu
bæði ofan og sprengdu sundur í sér höfuðskeljarnar.
Flugu þá heilasletturnar og grautarkleimurnar um allan heim. En þar sem
heilaslettur karls og kerlingar komu á steina urður úr þeim hvítar
dröfnur, en úr grautarkleimunum urðu hinar gulu, og sjást hvorar tveggja
enn í dag á grjóti.
Jóhann Magnús
Bjarnason fæddist að Meðalnesi í Fellum á Fljótsdalshéraði 24. maí árið
1866.
Níu ára gamall
fluttist hann vestur um haf, þar sem foreldrar hans námu land í fylkinu
Nova
Scotia í Kanada.
Jóhann gekk í skóla í Winnipeg og útskrifaðist sem kennari árið 1900.
Varð
kennslan hans
ævistarf og þótti hann góður kennari. Samhliða kennslunni var Jóhann
afkastamikill og
fjölhæfur rithöfundur, en eftir hann liggja fjölmörg kvæði, greinar um
bókmenntir og
menningarmál, yfir 20 leikrit, þrjár langar skáldsögur, fjöldi smásagna
og um
eitt hundrað
ævintýri. Voru bækur hans gefnar út í Kanada, á Íslandi og í Danmörku.
Af
þekktum verkum
eftir Jóhann má nefna sögurnar ,,Brasilíufararnir", ,,Vornætur á
Elgshæðum",
,,Eiríkur Hansson" og kvæðin ,,Litla stúlkan" og ,,Grímur frá Grund".
Jóhann
lést árið 1945 og
hafði þá aldrei borið Ísland augum eftir að hann fyrst fór þaðan.
Mér hefir æfinlega
þótt sérlega vænt um blaðadrengi, og ef til vill mest vegna þess,
að ég var sjálfur
blaðadrengur um eitt skeið, en síðan ég varð fullorðinn, hef ég ekki
komist í náin
kynni við þá, að undanteknum aðeins einum. - Hann var Íslendingur í
húð og hár, og hét
Egill. En hvers son hann var, man ég ekki.
Ég kynntist Agli í
Vancouver, sumarið 1912. Hann var þá á ellefta árinu. Seldi hann
dagblöð, bæði kvölds og morgna, og stundaði það starf með dæmafáum
dugnaði og atorku. Hann gekk í skóla á vetrum, og seldi þá blöð aðeins á
kvöldin.
Egill átti engan
bróður, en hann átti tvær systur; var önnur fimm árum eldri en hann, en
hin tveimur árum yngri.
Móðir þeirra var
ekkja, og bjó með börnum sínum í dálitlu húsi í Grant stræti, skammt
fyrir austan Victoria Drive. Hún gekk út í vinnu fimm daga í hverri
viku. Eldri stúlkan var í búð niðri í bæ, en hin yngri hugsaði um
húsverkin, þegar
hún var ekki í skóla, en Egill seldi dagblöð og gekk þó í skóla
alla skóladaga.
Þannig vann þessi fjölskylda fyrir sér á meðan ég þekkti til. En ég var
í nágrenni við
hana sjö eða átta mánuði.
Egill var stór
eftir aldri og fallegur í vexti, kringluleitur með spékoppa í kinnum,
hörundsbjartur og
ljóshærður. Augun voru himinblá, fjörleg, gáfuleg, góðleg og
ljómuðu af kæti.
Heilsan var sterk, og hann réð sér varla fyrir eðlilegu fjöri. Fáir af
jafnöldrum hans,
sem við hann reyndu, stóðu honum á sporði. Hann bar jafnan
hærri hlut, var
harðsnúnastur í ryskingum og allra drengja fóthvatastur. Og enginn
blaðadrengur í
allri Vancouver-borg hafði sterkari lungu, né snjallari róm en hann.
Hann vissi ætíð
upp á hár, hvaða fréttir voru markverðastar í blöðunum, sem hann
seldi, og hann
sagði frá þeim í örfáum, vel völdum orðum. Hann kallaði ekki mjög
hátt, þegar hann
hljóp með blöðin, en orð hans heyrðust vel og skýrt, og vöktu
ósjálfrátt
eftirtekt. Og blöðin hans gengu út einkennilega fljótt.
Ég sá Egil iðulega
sumarið 1912, bæði niðri í bænum, og eins heima hjá móður hans.
— Einn dag, skömmu
eftir að ég kynntist honum, sá ég hann í ryskingum við dreng,
sem var mikið
stærri en hann. Það var rétt fyrir utan prentsmiðju kvöldblaðsins „The
Vancouver World.“
Ég man það, að Egill var mjög reiður, og tók hann auðsjáanlega
á öllu sínu afli,
og beitti öllum brögðum til þess að bíða ekki lægra hlut. Enda fóru
leikar svo, að
hann vann sigur að lokum. Var hann þá ákaflega móður, og föt hans öll
í óreiðu, og húfan
hans langt úti á strætinu. — En á næsta götuhorni stóð lítill og
veiklulegur,
svarthærður drengur, sem horft hafði kjökrandi og kvíðafullur á áflogin.
Hýrnaði sýnilega
yfir honum, þegar hann sá, að Egill hafði borið hærra hlut. — Í
sama bili bar þar
að lögregluþjón, og talaði hann eitthvað til blaðadrengjanna, sem
biðu þar fyrir
utan prentsmiðjuna, og urðu þeir þá allir undur þögulir og siðprúðir.
Ég gekk til Egils,
þar sem hann var að laga á sér treyjuna og gjöra að öðru
axlabandinu.
„Eru þeir vondir
við þig?“ sagði ég á íslensku.
„Nei,“ sagði Egill
og brosti, „þeir eru ekkert vondir við mig, en það er litla greyið,
sem þeir láta
aldrei í friði.“
Og hann benti um
leið á litla, veiklulega drenginn, sem stóð á götuhorninu á móti.
„Er það bróðir
þinn?“
„Nei, hann er
enskur,“ sagði Egill. „Hann er bara sjö ára gamall, og mamma hans er
dáin. Hún dó í
vetur. En stóra greyið drekkur og er aldrei heima.“
„Stóra greyið?“ át
ég eftir. „Hver er hann?“
„Það er pabbi
hans. Hann heitir Mr. Grey. Við köllum hann stóra greyið á íslensku.
Og Dan köllum við
litla greyið, þegar við tölum um hann okkar á milli. Þeir eiga
heima í næsta húsi
við okkur.“
„Selur hann líka
blöð, svona ungur?“ sagði ég.
„Nei,“ sagði
Egill, „hann eltir mig bara alltaf, því enginn er til að líta eftir
honum.
Stóra greyið er
ekki heima, nema svörtustu nóttina, og kemur oftast heim býsna
drukkinn, og þá er
litla greyið hræddur við hann, og flýr til okkar, og er oft hjá okkur
á nóttunni, en
eltir mig allan daginn. Hann er hræddur við allt, auminginn, — nema
mig og mömmu mína.
Hann er góður í sér samt, og það er ljótt af drengjunum að
stríða honum.“
„Var það út af
honum, að þú flaugst á við stóra drenginn áðan?“
„Já, hann var að
stríða aumingjanum litla, þangað til hann fór að gráta, og þá varð ég
reiður.“
„Og þarftu oft að
taka málstað hans?“
„O, nei. Ekki oft.
Bara stundum. En það gjörir mér ekkert til, þó ég fljúgist á við þá.
Ég er ekkert
hræddur.“
Hann kallaði á
litla drenginn, sem stóð á götuhorninu á móti.
„Komdu hingað,
Dan. Þér er alveg óhætt,“ sagði hann á ensku.
Litli, veiklulegi
drengurinn hljóp yfir strætið til okkar. Hann var grátbólginn og
flóttalegur, en
leit þó brosandi til Egils og tók í treyjuna hans.
„Þú þarft ekkert
að vera hræddur,“ sagði Egill. „Hann meiðir þig ekkert. Hann er
farinn.“
„Hann sagði þó, að
hann skyldi láta Kínaköttinn taka mig,“ sagði Dan.
„Það er enginn
Kínaköttur til,“ sagði Egill.
„Ég veit það. En
samt er ég hræddur við hann.“
„Hvernig geturðu
verið hræddur við það, sem ekki er til?“
„Ég er bara
hræddur við einhvern kött.“
„Hvaða vitleysa er
þetta! Það er enginn köttur til, sem tekur drengi. Hann Bill var
bara að hræða þig.
Og ég barði hann fyrir það."
,,Ég er samt
hræddur," sagði Dan og hélt dauðahaldi í treyjuna á Agli.
Litlu síðar kom
kvöldblaðið út. Egill keypti eins mikið af því og hann gat borið undir
annarri hendinni.
Hann rétti litla Dan tvö eða þrjú blöð. Og svo hlupu þeir af stað
austur
Penderstræti. En mjög var Dan litli Agli til tafar, því að Egill þurfti
svo oft að
bíða eftir honum.
Nokkrum kvöldum
síðar heyrði ég á tal þeirra heima hjá móður Egils. Þeir sátu á
tröppunum fyrir
framan húsið. Það var sunnudagskvöld — í kringum klukkan
ellefu. Tunglið
var hátt á lofti og óð í skýjum. Það var í fyllingu.
,,Sérðu ekki
manninn í tunglinu?" sagði Dan og horfði upp í loftið. ,,Hann horfir á
okkur."
,,Það er enginn
maður í tunglinu," sagði Egill.
,,Bob sagði það
þó. Hann segir, að maðurinn í tunglinu taki stundum litla drengi,
sem hafa svart
hár."
,,Bob fer með
þvætting."
,,Sérðu ekki að
tunglið hleypur? Sjáðu, hvað það hleypur hratt. Hefir tunglið fætur?"
,,Tunglið er
hnöttur."
,,Veltur það þá?"
,,Það snýst."
,,Getur það ekki
dottið ofan á Vancouverborg? — Ofan á okkar hús? Það gæti brotið
heilt hús."
,,Hvaða vitleysa!
Það getur ekki dottið."
,,Sérðu ekki,
hvernig það hleypur fram hjá svarta skýinu núna? Það er bráðum komið
yfir okkar hús. Ég
er hræddur um, að það detti ofan á okkar hús!"
,,Hættu þessari
vitleysu, Dan! Ég er oft búinn að segja þér, að tunglið getur ekki
dottið."
,,Hver heldur þá í
það?" '
,,Guð." Nú varð
löng þögn.
,,Heyrðu," sagði
Dan allt í einu. ,,Sástu ekki manninn á himninum í morgun?"
,,Á himninum?"
,Já, þarna á
himninum fyrir norðan Burrardfjörðinn. Hann gægðist yfir Rjúpufjall.
Hann rétti stórar,
svartar hendur upp á himininn, og teygði út kræklótta fingur. Og
það var langt bil
milli fingranna. — Óttalegt!"
,,Hvaða vitleysa
er nú í þér, Dan litli! Það hefir verið ský. Skýin taka á sig alls konar
skrítnar myndir.
En þau eru samt alltaf ský."
,,En ég var samt
óttalega hræddur, þó það væri ský."
,,Enginn þarf að
vera hræddur við ský."
,,Það var alveg
eins og maðurinn í myndabókinni. Ég horfði á hann lengi, lengi.
Hann færði síg
hægt og hægt áfram austur á fellið þarna — þar sem hótelið er - stóra
hótelið." Hann
benti norður til fjallanna.
,,Það er ekkert
hótel þarna," sagði Egill. ,,Það eru bara klettar."
,,Það sýnist alveg
eins og hótel. Og maðurinn á himninum fór þangað inn. Heldurðu
ekki að hann hafi
farið þangað inn til að drekka vín?"
,,Þig er að
dreyma, Dan minn góður," sagði Egill. ,,Það var ský, sem þú sást á
loftinu,
en enginn maður.
Þú mátt trúa mér til þess. Ég skrökva aldrei að þér. — Ég er reiður
við alla, sem
skrökva að þér. — Ég segi þér alveg satt, að það var ský, sem þú sást.
Þau eru stundum
alveg eins og menn í myndabókum."
,,En hver býr til
skýin?"
,,Guð."
,,Ó?"
Og aftur varð löng
þögn. —
Þannig mun samtal
þeirra Dans og Egils hafa verið oftast nær. — Egill reyndi af
fremsta megni að
útrýma ótta og kvíða úr hinum ímyndunarríka huga hins litla og
veiklulega,
móðurlausa drengs. Egill var í raun og veru kennari hans, verndari hans
og einlægur vinur
hans, og meira en það: hann gekk honum í föður- og móður stað.
— Og Dan bar
ótakmarkað traust til Egils, og mátti ekki af honum sjá eitt einasta
augnablik. Í hans
augum var Egill konungur allra blaðadrengja, göfugur og
hreinhjartaður,
hugprúður kappi, sem vissi alla skapaða hluti, og ætíð sagði satt, og
allt gjörði rétt,
og ætíð mátti treysta í blíðu og stríðu.
Einu sinni gekk ég
á eftir þeim upp Grantstræti.
Það var seint um
kvöld og orðið dimmt. Þeir
gengu hægt og
leiddust, og voru alltaf að tala
saman.
,,Það gjörir
ekkert til, Dan, þó þú týndir
blaðinu," heyrði
ég að Egill sagði. ,,En hlauptu
aldrei framar yfir
strætið, þegar slökkvivélin er á
ferðinni."
,,En ég var svo
hræddur við slökkvivélarnar,"
sagði Dan.
,,Og samt hljópstu
yfir strætið, þegar þú sást þær
koma."
,,Af því þú varst
hinum megin. Ég vildi vera hjá
þér. Ég var
hræddur að vera þar, sem ég var.
Slökkvivélarnar
stefndu á mig og einhver
kallaði: Burt!
Burt!"
,,En týndirðu ekki
fimm sentunum, sem ég gaf
þér?"
,,Nei. — Ég var
búinn að kaupa fyrir þau brjóstsykur. Ég var svo ósköp svangur."
,,Þú hefðir heldur
átt að kaupa þér brauðsneið, fyrst þú varst svangur. Maður borðar
ekki brjóstsykur
við hungri."
,,En það er svo
gott á bragðið. Og svo er svo mikið af alveg spánnýjum brjóstsykri í
búðargluggunum
niðri í bæ. Sumir eru í laginu eins og fuglar og lömb. Hefirðu ekki
séð það?"
,Jú, ég hef séð
það. En það er ekki allt gott, sem er sætt. Brjóstsykur er óhollur."
,,En það er gaman
að því, þegar það er í laginu eins og fuglar og lömb og fiskar."
,,Það er látið
vera svona í laginu, til þess að krakkar kaupi það frekar. En það er
samt
ekki eins gott og
sumt annað en brjóstsykur. — Þegar ég er svangur, og er niðri í bæ,
þá kaupi ég mér
brauð, eða mjólk, fyrir fimm sents."
,,Ég ætla að gjöra
eins næst, þegar þú gefur mér fimm sents," sagði Dan.
,,En ekki þó nema
að þú sért svangur. Maður á að fara vel með þau sents, sem maður
eignast. Þá verður
maður, ef til vill, milljónaeigandi á endanum."
,,Og þá getur
maður keypt bifreið."
,,Já, og — margt
og margt."
,,Þá þarf maður
ekki að ganga. — Ég er orðinn lúinn að ganga."
,,Það er von, að
þú sért orðinn lúinn, auminginn," sagði Egill. ,,Þú hefir alltaf hlaupið
á eftir mér, síðan
klukkan þrjú í dag. En þú hefðir heldur átt að bíða mín á horninu
hjá myllunni,
meðan ég fór suður strætið, þá hefðir þú ekki verið alveg eins lúinn
núna."
,,En það var
drukkinn maður skammt frá myllunni. Hann horfði á mig. Ég er
fjarskalega
hræddur við drukkna menn. Þeir ætla alltaf að detta, — þeim er óttalega
illt."
,,Lögregluþjónn er
alltaf á gangi skammt frá myllunni," sagði Egill. ,,Þú þarft ekki að
vera hræddur við
lögregluþjóna. Enginn þarf að óttast þá, nema vondir menn."
,,Ég veit það. En
samt verð ég ofurlítið hræddur, þegar þeir horfa á mig. — Þeir vita
ekki fyrir víst,
hvort ég er góður drengur. — Hvernig eiga þeir að vita það?"
,,Þeir sjá það á
manni."
,,Á? — En ég er
óttalega lúinn! — — Ég vil hvíla mig, áður en við förum upp
brekkuna."
,,Nei, Dan, nei!"
sagði Egill. ,,Ég vil flýta mér heim. Ég er orðinn svangur. Og þú ert
líka svangur. — Ég
skal bera þig þennan spöl, sem eftir er. Komdu upp á bakið á
mér.
Hann beygði sig
niður, og Dan litli skreið með miklum erfiðismunum upp á bakið á
honum.
,,Svona!" sagði
Egill og hélt áfram með Dan á bakinu. ,,Nei, Dan, þú ert ekkert
þungur. — Nei,
nei, ég er ekkert lúinn. Ég er bara dálítið svangur. — Það er von, að
þú sért orðinn
uppgefinn, auminginn. Þú ert svo ungur. — Já, þú verður einhvern
tíma stór og
sterkur. Þú ert frískari en sumir stóru drengirnir. — En, góði Dan, þú
mátt ekki sofna á
bakinu á mér, eins og seinast, þegar ég bar þig upp brekkuna, því
þá ertu svo
þungur."
,,Nei, ég skal
ekki sofna," sagöi Dan og geispaði. ,,Ég skal reyna að vaka."
Ég gaf mig nú
fram.
,,Komið þið sælir,
drengir," sagði ég. ,,Ég skal bera hann Dan fyrir þig, Egill minn."
,,Ég er ekkert
lúinn," sagði Egill. ,,En hann er að sofna. Auminginn er alveg
uppgefinn."
Ég tók Dan litla í
fang mér, og bar hann upp brekkuna og heim að húsi ekkjunnar. —
Þá var hann
sofnaður.
Þegar kom fram á
haustið, veiktist Dan litli alvarlega, og var fluttur á sjúkrahúsið.
Hann lá þar tvær
eða þrjár vikur, og honum hnignaði alltaf. Egill vitjaði hans, eins oft
og hann mátti, og
gjörði allt, sem í hans valdi stóð, fyrir hinn sjúka vin sinn.
En Dan litli dó.
Egill fylgdi honum
til grafar. Þann dag var glaða sólskin og blíða.
Eftir hádegið
seldi Egill kvöldblaðið, eins og hann var vanur. En enginn heyrði hann
hrópa og kalla,
eða geta um fréttirnar.
Allir
blaðadrengirnir, sem þekktu hann, litu til hans viðkvæmnislega þann dag.
Á sum blöðin, sem
Egill seldi, höfðu tárdropar fallið.
,,Af hverju er
íslenski drengurinn svo hnugginn í dag?" var sagt við margan
Sagan af Genji
eftir kínversku skáldkonuna Murasaki Shikibu hefur af sumum verið
talin fyrsta
skáldsagan sem skrifuð hefur verið. Sagan gerist við hirð Japanskeisara
og þykir gefa
mikla innsýn inn hirðlífið í Japan á ,,Heian” tímanum. Hún segir frá
ástum og örlögum
Genji, sem var sonur uppáhalds eiginkonu keisarans.
Murasaki Shikibu
fæddist árið 973 að talið er og var dóttir héraðsstjóra Japanskeisara
í Kína. Snemma bar
á óvenju miklum gáfum hjá henni og þrátt fyrir að ekki tíðkaðist
í þá daga að konur
hlytu neina bóklega menntun leyfði faðir hennar, sem einnig var
fræðimaður, henni
að sitja í tímum með bróður sínum. Þegar Murasaki var komin á
tvítugsaldur var
hún látin giftast fjarskyldum ættingja. Eignuðust þau eina dóttur
sem fæddist árið
999. Tveimur árum síðar lést maður hennar þegar plága gekk yfir
landið. Var
Murasaki þá boðið til hirðarinnar og fékk hún starf sem ein af
fylgdarstúlkum keisaraynjunnar Aiko.
Af dagbókum hennar
frá þessum tíma má ráða að lífið við hirðina hafi ekki alls kostar átt
við Murasaki og hún reyndi þess í stað gleyma sér við vinnu og skriftir.
Fannst henni hún vera utangátta í þessum framandi heimi eins og sést á
eftirfarandi dagbókarbroti:
,,Snotur og
óframfærin, hrædd við athygli, ófélagslynd, unnandi gamalla sagna,
drýldin, svo upptekin af kveðskap að ekkert annað kemst að, lítandi
niður á allt og alla í kringum mig – þannig sér fólk mig. En þegar það
kynnist mér nánar segir það að ég sé blíð á minn sérstaka hátt, ekkert
lík því sem það
hafði gert sér í
hugarlund. Ég veit að fólk lítur
niður á mig eins
og hvert annað úrhrak, en ég er vön því og segi við sjálfa mig: Eðli
mitt er það sem
það er.”
Með seiglu og
þolinmæði hélt Murasaki áfram að skrifa söguna af Genji, en almennt
er talið að fyrsta
bindi sögunnar hafi verið lokið árið 1004. Í sögunni virðist hún oft á
tíðum nota
aðalpersónuna, Genji, sem málpípu fyrir eigin skoðanir eins og þegar hún
lætur hann segja:
,,Rithöfundur verður að skrifa til að tjá sterkar tilfinningar sem
hann getur ekki
lengur haldið huldum í hjarta sínu.”
Sagan er mjög löng
og skrifuð eins og framhaldssaga, en einstakir kaflar hennar voru
gefnir út við
hirðina og látnir ganga manna á milli. Varð hún strax mjög vinsæl.
Ekki er vitað hvað
varð um Murasaki eftir að hún lauk við söguna, en hún er talin
hafa látist árið
1025.
Strax frá því að
menn kynntust sögu hennar hefur hún verið tilefni margra
listamanna til
myndverka allt fram á daginn í dag.
Einu sinni var
bóndi á Balkanskaga, sem átti stóran og fallegan búgarð. Bóndinn sem
var orðinn gamall
hafði misst konu sína fyrir nokkrum árum og hafði ekki lengur
áhuga á að fást
við búskap. Hann átti tvo syni, sem auðvitað hefðu hæglega átt að
geta tekið við
búinu, en því miður samdi bræðrunum svo illa að gamli maðurinn
óttaðist hvernig
færi, ef hann léti þá eina um búskapinn. Það blessaðist allt meðan hann
gat sjálfur haft umsjón með öllu. Föðurnum var mikil raun af sífelldum
rifrildum og átökum milli bræðranna, en vissi ekki hvernig myndi fara ef
hann léti þá eina um
allt? Hann braut
heilann um þetta vandamál sitt, en fann enga lausn á því. Dag nokkurn
fór hann því til góðs vinar síns, sem átti jörð í nágrenninu
og bar undir hann
þetta vandamál sitt.
,,Jæja," sagði
vinurinn, ,,láttu strákana skipta jörðinni, hún er nógu stór til
þess. Þá geta þeir
ráðið og ríkt, hvor á sínum jarðarparti, eftir eigin geðþótta.
,,Mér hefir
margoft dottið þetta í hug," sagði gamli bóndinn. ,,En ef ég ákveð nú,
hvað hvor skal fá,
munu þeir áreiðanlega fara að rífast og báðir segjast hafa borið
minna úr býtum."
,,Láttu þá sjálfa
skipta jörðinni." ,,Nei, þá verður það ennþá verra.
Þeir geta aldrei
orðið sáttir um það."
,,Mér dettur ráð í
hug” sagði vinurinn, þegar hann hafði hugsað málið um hríð, og
sagði svo gamla
bóndanum, hvað sér hefði dottið í hug. Þegar gamli maðurinn
heyrði það
andvarpaði hann af feginleik og gekk raulandi heim til sín.
Daginn eftir
kallaði hann á syni sína og sagði þeim að nú hefði hann að lokum
ákveðið að láta þá
taka við búskapnum. Hann væri orðinn of gamall og þarfnaðist
hvíldar og þess
vegna ætlaði hann að flytja í litla húsið við skógarjaðarinn, sem hann
hafði látið reisa
til að eyða ellinni í. En þar sem þeir gætu aldrei verið sammála, vildi
hann stinga upp á
að þeir skiptu með sér jörðinni.
Þetta var
bræðrunum mjög að skapi, en óðara fóru þeir að rífast um, hvernig best
væri að skipta
jörðinni. En faðir þeirra greip strax fram í fyrir þeim.
,,Það er ég, sem á
að ákveða það," sagði hann.
Synirnir þögnuðu
nú og hlustuðu með eftirvæntingu.
,,Karl, sem er
eldri, á að skipta jörðinni," sagði gamli maðurinn.
Karl brosti,
ánægður á svipinn og horfði drembilega á bróður sinn, sem var náfölur
af bræði og ætlaði
að fara að mótmæla þessu ranglæti. En áður en hann fengi sagt
nokkuð, hélt faðir
þeirra áfram.
,,En til að þér
finnist þú ekki vera beittur ranglæti, Níels, átt þú að velja þann
jarðarpartinn, sem
þér líst best á, þegar bróðir þinn hefir skipt jörðinni jafnt að sínu
áliti."
Svona hafði vinur
bóndans verið ráðsnjall og nú voru báðir aðilar ánægðir með sitt,
en gamli bóndinn
gat eytt ellinni í ró og næði.
Annie Lennox
Erased
I'm
gonna put it all behind me Like nothing ever happened between us Nothing ever took place between you and me... Yes Nothin' ever happened And if you se me walkin' down the street I won't even recognise you I'll just erase you from my memory Put it all behind me Because you are erased All erased...
you'll be sittin' on someone else's couch You'll be eatin' off a stranger's plate Everything is gonna get wiped out Like a new start Like a brand new fresh clean slate Well here I go remembering again All the anger and the blame... People in glass houses shouldn't throw those stones but ... something just flew through my window pane
My my my my ... (oh mama did it touch you well?)
I'll be in a brand new pair of running shoes And you'll be walking on down different street in a brand new suit and a fresh clean shirt Makin' telephone calls... Keepin' in time with someone else's feet Keepin' in time with someone else's feet