|
-
Draugasögur.

Hafðu eins dimmt hjá þér og þú
getur meðan þú ert inn á þessari síðu.
|
|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
|
Deila á Twitter
|
|
|

DRAUGAR
BEÐNIR HJÁLPAR
Einum vetri
áður en ég var formaður reri ég hjá þeim formanni er Marteinn hét,
og var það einn dag að við komum innan úr Ólafsvík; var þá veður
allgott en ís lá allt út á Rif því norðanveður höfðu gengið áður. En
þá við komum út á Sand fóru allir að róa; við rérum einnig. En þá
lítið var liðið á daginn tók að kula austan; rak þá ís fyrir landið
allt út á Brimnes, en þegar komið var undir kvöld snéri vindurinn
sér til vestur-útsuðurs og þrengdi ísinn þá enn meir að landinu.
Skip sem ég
var á og tvö önnur komust eftir langa mæðu í Krossavík og var þá
komið undir dagsetur, en hin skipin sigldu í ísinn, en komust ekkert
áfram nema sem vindurinn bar, að ólendingum hingað og þangað. Eitt
af þessum komst að Sandaflögum, en þá fólkið var búið að bjarga sér
ruddist ís svo yfir það svo það fór í spón.
Og annað
skip frá Keflavík komst undir land fyrir innan Höskuldsá. Gátu sex
menn bjargað sér af því, en skipið tók út aftur með þremur mönnum
hverjir allir fóru í sömu búð og eg var. Var formaður sá er Önundur
hét sem nú er dauður fyrir tveimur árum. Hafði hann náð landi milli
Keflavíkur og Höskuldsár. Var þar allmikil ísskör.
Sendi hann
þá til okkar sér til hjálpar, en nær við komum til skipsins var þar
illt til hjálpar nema með mannsöfnuði. Var ég þá sendur inn í
Keflavík að fá fólk til hjálpar. Mjög var liðið á nóttu, en þá ég
kom inn undir Keflavík kom einhver undarleg sjón yfir mig því mér
sýndist margir menn standa fyrir framan mig.
Þótti mér þá
vænkast ráðið; kalla ég því til þeirra og segi: "Piltar góðir,
hjálpið okkur að bjarga skipi hér fyrir utan," en þeir gegndu ekki.
Í annað sinn
talaði ég til þeirra: "Blessaðir piltar verið þið ekki svo óguðlegir
að hjálpa okkur ekki," en þeir þögðu og enn nú segi ég til þeirra:
"Miklir
andskotans menn megi þið vera, að þið viljið ekki hjálpa þegar svo
mikið liggur við og ekki svo mikið þið talið."
Í því leit
ég undan; sá ég þá ekkert nema kolamyrkur; kom þá nokkur ótti í mig.
Fór ég svo til skipsins aftur, hverju við loksins gátum bjargað með
mikilli mæðu.
Einn morgun
þegar ég var formaður á Sandi gekk ég fyrir afturelding ofan á
sjóarbakka að sjá eftir sjóveðri. Sýndist mér þá maður vera í
austurkleifinni á Brekkunum. "Guð gefi þér góðan dag lagsmaður þegar
hann kemur," segi ég, en hann þagði.
"Því ertu
hérna svona snemma á fótum eða heldurðu verði sjóveður í dag?" en
hann svaraði öngvu.
Kom þá
nokkur ótti yfir mig og hljóp heim. En um morguninn þegar bjart var
orðið gekk ég þangað til að sjá hvurt þar væri nokkur för því
lausamjöll var, en þar sáust engin deili til að nokkur hefði verið.
Það skeði og
svo á einum vetri þegar ég var þar að skip frá Gufuskálum varð að
snúa frá lendingu vegna brims. Lenti það á Sandi hvar skipið varð að
bíða í viku vegna óveðráttu.
Eitt kvöld
varð okkur gengið ofan á bakka að gá að hvurt skipum væri óhætt því
hroðaveður var. Ólafur sálugi Þorbjörnsson var einn af þessum. Varð
okkur þá litið til skipanna. Sýndist okkur þá öllum sem þar voru,
níu menn komnir að skipunum. Gengu þeir í kringum hvurt skip og var
sem þeir væru nákvæmlega að gæta að einhverju. Loksins komu þeir að
skipinu frá Gufuskálum. Fóru þeir þar allir upp í og skipuðu sér á
þótturnar.
Eftir það
sótti formaðurinn skip sitt og skömmu þar á eftir fór það í sjóinn í
lendingunni með níu manns.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

DJÁKNINN Á
MYRKÁ
Í fyrri daga
var djákni einn að Myrká í Eyjafirði; ekki er þess getið, hvað hann
hét. Hann var í þingum við konu, sem Guðrún hét; hún átti að sumra
sögn heima á Bægisá, hinum megin Hörgár, og var hún þjónustustúlka
prestsins þar. Djákninn átti hest gráföxóttan, og reið hann honum
jafnan; þann hest kallaði hann Faxa. Einhverju sinni bar svo til
litlu fyrir jól, að djákninn fór til Bægisár til að bjóða Guðrúnu
til jólagleði að Myrká og hét henni að vitja hennar í ákveðinn tíma
og fylgja henni til gleðinnar aðfangadagskvöld jóla. Dagana áður en
djákninn fór að bjóða Guðrúnu, hafði gjört snjóa mikla og ísalög; en
þann sama dag sem hann reið til Bægisár, kom asahláka og leysing, og
þegar á leið daginn, varð áin ófær fyrir jakaferðum og vatnagangi, á
meðan djákninn tafði á Bægisá. Þegar hann fór þaðan, hugði hann ekki
að því, sem skipast hafði um daginn, og ætlaði, að áin mundi enn
liggja sem fyrr. Hann komst yfir Yxnadalsá á brú; en þegar hann kom
til Hörgár, hafði hún rutt sig. Hann ríður því fram með henni, uns
hann kemur fram á móts við Saurbæ, næsta bæ fyrir utan Myrká; þar
var brú á ánni. Djákninn ríður á brúna, en þegar hann er kominn á
hana miðja, brestur hún niður, en hann fór í ána. Morguninn eftir,
þegar bóndinn á Þúfnavöllum reis úr rekkju, sér hann hest með
reiðtygjum fyrir neðan túnið og þykist þekkja þar Faxa djáknans á
Myrká. Honum verður bilt við þetta, því hann hafði séð til ferða
djáknans ofan hjá daginn áður, en ekki orðið var við, að hann færi
til baka, og grunaði því brátt, hvað vera mundi. Hann gengur því
ofan fyrir túnið; var þá sem honum sýndist, að þar var Faxi, allur
votur og illa til reika. Gengur hann síðan ofan að ánni, ofan á svo
kallað Þúfnavallanes; þar finnur hann djáknann rekinn örendan á
nesinu framanverðu. Fer bóndi þegar til Myrkár og segir tíðindin.
Djákninn var mjög skaddaður á höfðinu aftanverðu af ísjaka, er hann
fannst. Var hann svo fluttur heim til Myrkár og grafinn í vikunni
fyrir jólin.
Frá því að
djákninn fór frá Bægisá og til þess á aðfangadaginn, hafði engin
fregn farið milli Myrkár og Bægisár um þessa atburði neina sökum
leysinga og vatnagangs. En á aðfangadaginn ver veður stilltara, og
hafði runnið úr ánni um nóttina, svo að Guðrún hugði gott til
jólagleðinnar á Myrká. Þegar leið á daginn, fór hún að búa sig, og
þegar hún var vel á veg komin með það, heyrði hún, að það var barið;
fór þá önnur kona til dyra, sem hjá henni var, en sá engan úti, enda
var hvorki bjart úti né myrkt, því tungl óð í skýjum og dró ýmist
frá eða fyrir. Þegar stúlka þessi kom inn aftur og kvaðst ekki hafa
séð neitt, sagði Guðrún: "Til mín mun leikurinn gjörður, og skal ég
að vísu út ganga." Var hún þá albúin, nema að hún átti eftir að fara
í hempuna. Tók hún þá til hempunnar og fór í aðra ermina, en fleygði
hinni erminni fram yfir öxlina og hélt svo í hana. Þegar hún kom út,
sá hún Faxa standa fyrir dyrum og mann hjá, er hún ætlaði, að væri
djákninn. Ekki er þess getið, að þau hafi átt orðræðu saman. Hann
tók Guðrúnu og setti á bak og settist síðan sjálfur á bak fyrir
framan hana. Riðu þau þá svo um hríð, að þau töluðust ekki við. Nú
komu þau til Hörgár, og voru að henni skarir háar, en þegar
hesturinn steyptist fram af skörinni, lyftist upp hattur djáknans að
aftanverðu, og sá Guðrún þá í höfuðkúpuna bera. Í þeirri svipan rak
skýin frá tunglinu; þá mælti hann:
-
"Máninn
lýður,
-
dauðinn
ríður;
-
sérðu ekki
hvítan blett
-
í hnakka
mínum,
-
Garún,
Garún?"
En henni
varð bilt við og þagði. En aðrir segja, að Guðrún hafi lyft upp
hatti hans að aftan og séð í hvíta kúpuna; hafi hún þá átt að segja:
"Sé ég það, sem er." Ekki er sagt af samræðum þeirra fleirum né
ferðum, fyrr en þau koma heim að Myrká, og fóru þau þar af baki
fyrir framan sáluhliðið; segir hann þá við Guðrúnu:
-
"Bíddu
hérna, Garún, Garún,
-
meðan eg
flyt hann Faxa, Faxa,
-
upp fyrir
garða, garða."
Að því mæltu
fór hann með hestinn; en henni varð litið inn í kirkjugarðinn. Sá
hún þar opna gröf og varð mjög hrædd, en tekur þó það til bragðs, að
hún grípur í klukkustrenginn. Í því er gripið aftan í hana, og varð
henni þá það að happi, að hún hafði ekki fengið tíma til að fara
nema í aðra hempuermina, því svo var sterklega til þrifið, að hempan
gekk sundur um axlarsauminn á þeirri erminni, er hún var komin í. En
það sá hún síðast til ferða djáknans, að hann steyptist með
hempuslitrið, er hann hélt á, ofan í gröfina opnu, og sópaðist
moldin frá báðum hliðum ofan yfir hann.
En það er
frá Guðrúnu að segja, að hún hringdi í sífellu, allt til þess að
bæjarmenn á Myrká komu út og sóttu hana, því af öllu þessu var hún
orðin svo hrædd, að hún þorði hvergi að fara né heldur hætta að
hringja, því hún þóttist vita, að hún hefði átt þar við djáknann
afturgenginn, þó henni hefði ekki áður komið nein fregn um lát hans,
enda gekk hún úr skugga um, að svo hafði verið, er hún náði tali af
Myrkármönnum, er sögðu henni upp alla sögu um lát djáknans, og hún
aftur þeim af ferðum sínum. Þessa sömu nótt, þegar háttað var og
búið að slökkva ljósið, kom djákninn og ásótti Guðrúnu, og voru svo
mikil brögð að því, að fólkið varð að fara á fætur, og varð engum
svefnsamt þá nótt. Í hálfan mánuð eftir þetta mátti hún aldrei ein
vera, og varð að vaka yfir henni hverja nótt. Sumir segja, að
presturinn hafi orðið að sitja á rúmstokknum hjá henni og lesa í
Saltaranum.
Nú var
fenginn galdramaður vestur í Skagafirði. Þegar hann kom, lét hann
grafa upp stein einn mikinn fyrir ofan tún og velta heim að
skálastafni. Um kvöldið, þegar dimma tók, kemur djákninn og vill inn
í bæinn, en galdramaðurinn hneppir hann suður fyrir skálastafn og
setur hann þar niður með særingum mikum; veltir hann síðan steininum
ofan á, og þar á djákninn að hvíla enn í dag. Eftir þetta tók af
allan reimleik á Myrká og Guðrún að hressast. Litlu seinna fór hún
heim til sín að Bægisá, og er sögn manna, að hún hafi síðan aldrei
orðið söm og áður.

BJARNANESDRAUGURINN
Fyrir nokkru síðan er sagt
að prestur sá hafi verið í Bjarnanesi er Jón hét og var Eiríksson.
Það var sagt að prestur þessi hafi verið svo harður í tekjum og
drottnunargjarn að bændur máttu ei rönd við reisa. Konu átti hann er
Ragnhildur hét; var hún ekki síður en bóndi hennar ágjörn og
yfirgangssöm.
Það var eitt til merkis
hvernig hún var að þegar bóndadætur komu til kirkju og höfðu
hreinlegt silki eða klút á herðum þreif prestkonan það af þeim og
sagði um leið að slíkt hæfði ekki þeim pútudætrum; það hæfði betur
dóttur sinni (því þau hjón áttu eina dóttur barna).
Af þessum ránsgripum var
hún búin að fylla þrjár kistur og hafði enginn þorað að mæla eitt
orð á móti þessu; svo var yfirgangur þeirra búinn að drepa allan
kjark úr sveitarfólkinu.
Einu sinni sem oftar hafði
bóndadóttir ein komið til kirkju og hafði sett á herðar sér
þaraslæðu í silkis stað. Þegar prestkona sér þetta fagra silki
kippir hún í það, en það rifnar fljótt. Verður hún þá byrst og segir
að hún hafi gjört þetta til að narra sig. En móðir stúlkunnar tekur
undir og segir að það verði að tildra því sem til sé; hún sé búin að
sjá fyrir að hún og aðrar hafi ekki skartið.
Einn góðan sunnudag fer
prestkonan með kistur sínar upp á svo kallaðan Taðhól fyrir ofan
flata túnið og tekur nú allt upp úr þeim og ætlar að viðra og
breiðir nú um hólinn; gengur síðan heim og kallar á prest og sýnir
honum þessi þing sín álengdar, en hann lætur þá lítið yfir og segir
að þó hann hafi þókt vondur þá hafi hann þó ekki rænt leppunum af
því - "og brúar mig að þú munir ei lengi njóta".
En hún setur háð í þessar
tölur hans. Nú fella þau talið og ganga heim. En eftir lítinn tíma
fer hún út aftur að vitja muna sinna; en þegar hún kemur upp á
hólinn er þar kominn alrauður kálfur og er búinn að eta allt upp
nema hann hefir seinasta silkið í kjaftinum og nær hún því
hálftuggnu, en í sama bili hverfur kálfurinn og hefir ekki sézt fyrr
né síðar. Nú fer prestkona raunamædd og reið og segir frá óförum
sínum, en prestur segir sig hafa brúað við þessu.
Nú líður og bíður að þau
eru þarna og breyta ei að heldur háttsemi sinni, að prestur verður
einn morgun krankur, en er samt annað slagið á flakki um daginn. En
í úthallinu biður hann konu sína að gefa sér skyr að borða.
Hún sækir þá fullan ask af
skyri og mjólk og lýkur prestur því, en að því búnu segir hann við
konu sína: "Nú vitraðist mér í hvörn staðinn ég fer og mun þess ei
langt að bíða að ég dey."
Nú elnar veikin svo mjög að
hann hefir öngan frið og svo fer að allir hörfa frá honum úr
bæjardyralofti (því þar hafði hann rúm sitt og aðsetur), því bráðum
fóru þeir að heyra hoppað og krafsað út á þekjunni eins og ótal
djöflar væru þar upp á og seinast kvaldi dóttir hans sig yfir honum
þar til hann seint um nóttina dó.
Á venjulegum tíma var
prestur grafinn, og eins og þá var siður með heldri menn að þeir
voru grafnir innan kirkju var hann jarðaður fyrir framan kórdyrnar.
En bráðum fór að bera á því
að prestur þessi lægi ekki kyrr, því menn sáu hann ganga um og á
nóttinni var hann með umgang og bústang í bæjardyraloftinu svo menn
gátu lítt sofið því þar hafði hann helzt haft maura sína.
Á þessum draugagangi bar
stöðugt í Bjarnanesi án þess hann gjörði verulega illt af sér eða að
nokkur sögn sé til um það þar til síra Magnús, afi síra Magnúsar sem
nú er prestur að Kirkjubæ, kom þangað.
Hjá síra Magnúsi var
ráðsmaður sem Ísleifur hét og seinna varð bóndi á Svínafelli í
Öræfum. Hann sagði svo frá að einu sinni þegar hann hefði verið í
Bjarnanesi hefði hann farið út í kirkju og verið að lesa þar í
skruddum sem hann hefði verið gefinn fyrir; hefði hann setið í
kvensæti; þegar hann hefði verið búinn að sitja lítinn tíma hefði
hann gáð að því að fjalirnar úr gólfinu fyrir framan kórdyrnar hefðu
farið að bunga mjög upp og horfir hann á þetta þar til aðrir
endarnir á fjölunum spruttu upp.
Þá grípur hann hræðsla svo
hann stekkur upp og upp á fjalaendana og svo fram, en lítur við
þegar hann er kominn fram fyrir og sér þá hvar mannshöfuð svarthært
er komið upp úr gólfinu. Bíður hann þá ekki lengur því hann þykist
þá vita að þetta muni prestur vera með því hann hafði orðið var hans
áður.
Öðru sinni seinna löngu var
það að Jón sonur síra Magnúsar er síðar var bóndi í Hafnarnesi kom
utan úr Selós í kuldaveðri. Gengur hann þá í kirkju að kistu sem
hann á þar og ætlar að súpa á brennivíni sér til hita, en þegar hann
hefir látið lykilinn í skrána verður honum litið inn í kórinn.
Sér hann þar þá vofu er
gægist fram úr kórdyrunum. Verður honum þá svo bilt við að hann
tekur á rás og út, en dettur í því hann kemur út í garðinn. Sér þá
annar maður til og kemur til hans og fylgir honum inn; en í því hann
sér í ljósið í baðstofunni steinlíður yfir hann og var hann alla
nóttina með þeim öngvitum. Var það sögn að það hefði verið sami
draugur er hann sá.
Það hefir verið haft eftir
madame Önnu ekkju Páls prófasts Thórarinsens að fyrst um vorið þegar
fluttu að Bjarnanesi hafi þau hjón sofið í bæjardyraloftinu áður en
síra Þórarinn var fluttur í burt, að hún hafi ekki getað sofnað eitt
kvöld fyrir einhvörjum ókyrrleik þar til hún hefði farið að heyra
eitthvört þrusk niðri og loksins að gengið var upp í stigann og upp
að pallsnöfinni, en sér þó ekkert.
Heyrir hún þá að dimm og
ófögur rödd segir: "Þú átt ekki að vera hér; vertu inni!"
Hún kvaðst hafa orðið
hálfsmeyk, en svarað þó að hún gæti það ekki meðan hjónin væru.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

BJARNA - DÍSA
M aður
hét Bjarni. Hann var Þorsteinsson. Hann var á dögum seint á 18. öld
og fram yfir 1840. Systur átti hann, er Þórdís hét. Hún var um
tvítugt, þegar þessi saga gerðist.
Þórdís var þokkaleg sýnum,
en þótti fremur svarri í geði. Hún hélt sér mikið til í klæðaburði
og apaði það, sem hún gat, eftir dönsku kvenfólki, enda var hún til
vistar í Eskifjarðarkaupstað seinasta árið, sem hún lifði.
Svo bar til, að Bjarni
Þorsteinsson ferðaðist ofan á Eskifjörð. og slóst þá Þórdís í ferð
með bróður sínum og ætlaði með honum til Seyðisfjarðar, og átti
Bjarni þar þá heima.
Er ekki sagt af ferðum
þeirra, fyrr en þau tóku sér gisting á Þrándarstöðum í Eiðaþinghá.
Þetta var fyrri part þorra. Þar voru þau eina nótt. En næsta morgun,
þegar þau vildu ofan yfir Fjarðarheiði, var veður þykkt og snæfall
með talsverðu frosti. Innti þá Bjarni til við systur sína, að hún
skyldi vera eftir, því veður var ótryggilegt, en hún klædd til stáss
en ekki skjóls.
Hún var í einföldum
léreftiskjól og léreftsskyrtu ermalausri fyrir framan olboga. Það
kallaði hún serk og vildi ei sjá öðruvísi snið á skyrtu. Klút hafði
hún á höfði, rauðan og brúnan, og illa klædd til handa og fóta.
Ekki tók Dísa því vel að
sitja eftir. Kvaðst hún fara skyldu með honum, hvort hann vildi eða
ekki. Sló þegar í deilu með þeim, og héldu svo af stað bæði í illu
skapi og lögðu upp á heiðina, þrátt fyrir það þó veðrið versnaði
meir og meir.
Nú kom þar, að Bjarni vissi
ekkert, hvað hann fór, en Dísa mæddist bæði af kulda og þreytu, en
alltaf gat hún nokkuð jagast, uns hana þraut með öllu gang; tók þá
Bjarni til að grafa þau í fönn, en þegar hann var að ljúka við það,
sýndist honum rifa til í mel skammt í burt; sagði þá Dísu, að hann
vildi koma þar og vita, ef hann þekkti melinn. Hún bað hann fara ei
frá sér, en það tjáði ei.
Fór svo Bjarni, en þá
skellti saman veðrið; fann hann svo hvorki melinn né Dísu aftur;
hélt hann samt eitthvað í ráðleysi, uns hann skreiddist í vökulok um
kvöldið að Firði í Seyðisfirði, næstum örmagna, mállaus og mikið
skemmdur á andliti. Hafði hann villst út eftir fjallinu og hrapað
fyrir klungur og kletta, misst af sér höfuðfatið og allt úr góðu
lagi.
Þá bjó í Firði bóndi sá, er
hét Þorvaldur Ögmundsson. Hann var mikill fyrir sér, rammur að afli
og hinn hugrakkasti. Sögðu þeir, sem þekktu hann, að hann kynni ekki
að hræðast. Hann var hreinlyndur og jafnlyndur, eldsnar og hinn
mesti greiðamaður.
Hann tók vel móti Bjarna og
lét hjúkra honum sem mest mátti. En ekki var það fyrri en kvöldið
eftir, að Bjarni varð fær að segja ferðasögu sína; svo var af honum
dregið. Bað hann þá Þorvald styrkja sig til að leita systur sinnar;
en veðrið hélst enn hið sama. Það var útnorðan, mjög hvasst og
dimmt, en frost svo mikið, að varla var fært hraustum karlmönnum
heima húsa á milli. Þar var Bjarni svo aðra nótt, en á fimmta dægri,
eftir að hann skildi við Dísu, rofaði lítið eitt til.
Bjuggust þeir þá til ferða,
Þorvaldur, Bjarni og vinnumaður að nafni Jón Bjarnason, duglegur
maður og drengur góður; héldu svo upp til heiðar og þó nokkuð frá
alfaravegi, því að það var geta Bjarna, að þar mundi Dísu helst að
leita.
Þegar þeir voru komnir
norður fyrir Stafdalsfell, heyrðu þeir öskur svo mikið, að undir
drundi í öllum fjöllum nálægt. Skaut þeim Jóni og Bjarna þá heldur
en ekki skelk í bringu, en Þorvaldur vissi ekki, hvað var að
hræðast. Hélt hann þá í þá áttina, er hljóðið heyrðist frá, uns hann
var í Stafdal austarlega. Voru þá félagar hans farnir að draga sig á
eftir. Frýjaði þá Þorvaldur Jóni hugar að fylgja sér betur.
Þá var dagur þrotinn, en
veður var nokkuð bjart og frostbitra fram úr keyrandi; tunglskin var
á, en skýjarek, svo tíðum dró fyrir það. Þá sá Þorvaldur eitthvað í
skafli, sem hann átti þar ei von, og var hann þar þó vel kunnugur.
Var það hér um bil teigshæð frá þeim.
Þá mælti hann til þeirra:
"Þar mun nú Þórdís vera," og var það sem hann sagði.
Gekk hann svo til hennar.
Var hún þá ei liggjandi, sem hann mundi vænta dauðrar manneskju,
heldur er hún því líkast sem menn eru á setum sínum; léreftskjóllinn
var í göndli um mittið á henni gaddfrosinn og hún ber fyrir neðan og
berhöfðuð, snjóhúsið burt fokið, svo aðeins sást botninn.
Talaði þá Þorvaldur til
félaga sinna, að þeir skyldu ganga nær og hjálpa sér að búa um líkið
á húð, er hann hafði með sér til akfæra. Dröttuðu þeir þá til hans.
Sagði hann þá Bjarna að skera frostgarðinn utan af henni, því hann
vildi færa hana í buxur, sem hann hafði með sér, svo hún væri ekki
nakin í flutningnum. Því hlýddi Bjarni, þó hræddur væri.
Síðan tók Þorvaldur hana
upp í fang sér og ætlaði að færa hana í buxurnar, en í því rak hún
upp svo mikið orghljóð, að fram úr keyrði; hefur Þorvaldur svo sagt,
að það hafi sér þótt óskiljanlega sterkt og mikið.
Hrukku þá félagar hans frá
dauðhræddir, en Þorvaldi brá svo við, að hann skaut Dísu hart niður
og mælti heldur fljótlega: "Ónýtt er þér, Dísa, að sýna mér þessa
hnykki, því þá hræðist ég alls ekki, og haldirðu þeim áfram, skaltu
vita, að ég skal tæta þig taug frá taug og kasta svo hræi þínu fyrir
varga; en þar á móti verðir þú oss venjulega dæl í flutningi og
okkur hankast ekkert með þig ofan, skal ég gera kistu um þig og koma
þér í kristinna manna reit, þó mér ímyndist, að þú sért þess ei
verðug."
Eftir það tók hann hana,
klæddi og bjó um á húðinni, kallaði félaga sína og hélt heimleiðis.
Aðrar sögur segja, að
Þorvaldur hafi brotið Dísu á bak aftur, til þess að hún væri kyrr,
og hætti hún þá að orga. Margar eru fleiri ljótar sagnir um
viðureign þeirra. Þorvaldur var maður vandaður, en með hjátrú eins
og margir á 18. öld, og mun það réttast, sem hann sagði frá sjálfur.
Sögur segja, að þau
Bjarni hafi haft brennivínskút. Mun Dísa hafa verið drukkin og
lifað, en Þorvaldur gert út af við hana í hjátrúaræði.
Það hafði Þorvaldur aðgætt,
að frá bæli Dísu lágu för hennar með þeim hætti, að hún hafði fetað,
svo hvert far var í öðru, hér um bil fjóra faðma burt og stokkið svo
öfug í einu hlaupi jafnfætis aftur í bælið að þessu búnu tvívegis.
Hafði svo sagt Hermann í Firði í Mjóafirði, sem kallaður var
margfróður, að þetta væri vani þeirra, er aftur gengi, og næði þeir
að gera þetta þrisvar, þá væri fullkominn afturgangur, en Dísu
vantaði þriðja sporið.
Nú héldu þeir ofan af
heiðinni; dreif þá yfir veður svo dimmt, að ekki var ratandi; komust
þó klaklaust að Fjarðarseli; er þá stutt bæjarleið út að Firði út
með fjallsbrekkum, og treysti Þorvaldur sér ekki vel að rata upp
fjörð; bað því sér og föruneyti sínu gistingar. En bóndi
þverneitaði; kvaðst hafa orðið var við ónotafylgju þeirra.
Tók Þorvaldur þá til sinna
ráða, setti líkið inn í kofa gegnt baðstofudyrum og gekk svo með
félögum sínum til baðstofu, en bóndi settist með syni sínum á
pallstokk. Hétu þeir hvorir tveggja Björn; tóku þeir sér broddstafi
í hönd og lögðu jafnt og títt fram í dyrnar. Því héldu þeir af
nóttina. Ekki varð Þorvaldi svefnsamt, fór ekki af fötum og gekk
einatt út að líta til veðurs. Eitt sinn um nóttina, þegar hann vildi
hverfa í bæinn, varð Dísa fyrir honum í dyrum, eins og hún vildi
aftra honum inngöngu. En hann veik henni hjá sér og skundaði til
baðstofu.
Með degi rofaði veðrið, svo
þeir komust heim að Firði. Jafnan þótti skráveifur í kofa þeim, er
Dísa var í um nóttina. Nú tók Þorvaldur til kistusmíðis, eins og
hann hét, og lét flytja Dísu að Dvergasteini. Þar var þá prestur
Þorsteinn skáld Jónsson (d. 1800). Hann veitti Dísu greftrun að
kristnum sið. En svo brá við, að næsta morgun eftir var í fótaenda á
leiði Dísu hola undarlega djúp; var hún fyllt, en eins var hún opin
annan morgun. Enn var hún fyllt, en jafnopin var hún þriðja
morguninn sem fyrr. Gekk þá prestur sjálfur til og byrgði fyrir
holuna. Segja menn, að upp frá því hafi hún ekki opnast.
Nú er að segja frá Bjarna,
að ætíð, þá er hann ætlaði að sofna, kom Dísa og vildi taka um
kverkar honum og fór ekki dult með, því jafnt sáu hana óskyggnir sem
skyggnir. Það sögðu menn og, að hún hefði oft sótt að honum, þó að
ljós væri hjá honum. Fór hann þá til séra Þorsteins, sem áður er
getið, og fékk hjá honum einhverjar varnir, svo aldrei vann Dísa á
honum sjálfum.
Þrettán börn átti Bjarni,
og dóu þau öll ung og bráðlega. Hafa menn haft það fyrir satt, að
Dísa hafi flýtt fyrir dauða þeirra allra. Fylgdi hún Bjarna til
dauðadags og gerði þá oft mikið vart við sig, drap skepnur manna, og
stundum réðst hún á menn til átaka, og eru margar smásögur af
brellum hennar, sem of langt yrði hér upp að telja.
Og lýkur svo hér að segja
frá Bjarna-Dísu, og er sagan hér skrifuð eftir því, sem Þorvaldur
sagði hana sjálfur.

BENEDIKT
BECH DRUKKNAR
Þ egar
Benidikt Bekk var sýslumaður í Skagafirði var prestur sá á
Grímstungu er Grímólfur hét. Hann hafði þann sið um sumarið að hann
svaf frammi í skála og lét smaladreng sofa hjá sér til þess að hann
gæti vakið hann í tækan tíma til að smala.
En sunnudagsmorgun einn um
sumarið var það að prestur vakti dreng snemma og biður hann að klæða
sig fljótt og mælti: "Hlauptu fyrir mig til næsta bæjar áður en þú
fer að smala og skilaðu frá mér að ég biðji að orðsending komist
fljótlega um sóknina um að ég sé krankur og geti því ekki messað í
dag."
Síðan hljóp hann út, en
drengur klæddi sig. En er hann kom út sá hann að prestur var
hálfboginn eitthvað að starfa út í kirkjugarði. Hljóp þá drengur
leið sína og lá hún þeim megin kirkjunnar sem prestur var ekki. En
þegar kirkjan bar af þókti dreng gaman að vita hvað prestur væri að
gjöra og fór í kirkjuskjólið.
Heyrði hann þá að prestur
var að tala við einhvern og heyrir að prestur segi: "Hvað ertú
fljótur?"
Var þá svarað: "Eins og
hestur á skeiði."
"Vertu kyr," segir prestur.
Síðan kallaði prestur á
annan og spyr hvað hann sé fljótur. "Eins og fugl á flugi," sagði
sá.
"Vertu kjur," segir
prestur.
Skildi þá drengur að
prestur væri að vekja upp draug.
Kallaði þá prestur á þann
þriðja og spyr hvað hann sé fljótur.
"Eins og hugur manns,"
anzaði sá.
"Komdú upp," segir prestur.
Síðan þegar hann var búinn
að kalla draugsa upp og gera honum til góða og sér undirgefinn
heyrir drengur að draugur spyr: "Hvað á ég að gera?"
Sagði þá prestur: "Þú skalt
fara norður í Skagafjörð því Benidikt sýslumaður verður ferjaður í
dag yfir Héraðsvötnin; skaltu þá vera þar til taks og drekkja
honum."
Beið þá drengur ekki lengur
og hljóp þá hvað af tók að afljúka erindi sínu, en Benidikt
drukknaði í Héraðsvötnunum um daginn.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

BRÚÐKAUPSGESTURINN
Á
einum kirkjustað á Íslandi bar það til að lík sálaðs manns skyldi
jarða í kirkjugarði sem vanalegt er, en þar sem gröfin var tekin kom
fyrir - og var mokað upp úr með moldinni - lærleggur úr manni mikið
stór, en einn af þeim sem viðstaddir vóru, ungur maður og kátur, tók
lærlegginn og var að bera hann við sig hvað hátt hann tæki sér og
var að gjöra sér gaman að leggnum hvað stór hann var og spauga um að
gaman væri að sjá þann mann sem svona stór bein hefðu verið í, og
mælti: "Þessa og þvílíka pilta væri gaman að hafa í veislunni sinni,
og ef ég gæti skyldi ég bjóða slíkum í veisluna mína."
Þá var hann spurður af þeim
er hjá stóðu hvert hann mundi þó ekki verða hræddur ef hann kæmi í
veisluna hans, en hann kvaðst hvergi mundi hræðast þó hann kæmi, því
aðra eins gesti mundi bæði fróðlegt og skemmtilegt að hafa í boði
sínu, "og skyldi ég víst segja þann mann velkominn".
Síðan liðu nú ár og dagar
og nýir tímar komu, þar til það kom fyrir að þessi fyrrnefndi ungi
maður ætlaði að giftast og tíðin leið að brúðkaupsdeginum.
En aðfaranótt
brúðkaupsdagsins dreymdi brúðgumaefnið að til sín kæmi maður mikið
stór vexti, skrautbúinn og vel í vexti, tignarlegur í andliti og
alvarlegur á svip. Hann mælti heldur styggur: "Nú ætla ég að koma
til þín á morgun og vitja þess er þú bauðst mér þegar þú varst að
gjöra þér gaman að beininu úr mér; þú manst líklega hvað það var, og
er þér nú ráð að enda vel orð þín, ella mun þér ekki vel duga; líka
læt eg félaga mína fylgja mér."
Að svo mæltu hvarf hann, en
hinn vaknaði og þótti draumurinn ekki góður og iðraðist nú heldur
hvað fjölorður hann hefði verið forðum í að bjóða þeim er beinið
átti, og um morguninn brá mönnum illa við er þeir sáu brúðgumann
mjög óglaðan og sem óttasleginn eða kvíðandi í stað þess er þeir
áttu von á að sjá hann fjörugan, glaðan og gott hugsandi um
brúðkaupið, en enginn vissi hvað slíku mundi valda.
Loksins fór presturinn sem
átti að gefa hann saman við konuna að spyrja hann hví hann væri svo
hnugginn, og þá sagði hann presti að hann ætti von á gestum sem hann
væri hræddvr um að lítil veisluprýði mundi að þykja. Síðan sagði
hann presti alla sögu, hvað hann hefði talað fyr við gröfina og svo
hvað hann dreymdi.
Prestur kvað hann ekki
skyldi það hræðast, "og mun ég," mælti hann, "svo um sjá að þetta
verði þér ekki að meini, og var betur þú sagðir mér hið sanna".
Nú sagði prestur svo fyrir
að tjalda skyldi litla stofu, setja þar borð og bekki og búa vel um.
Síðan lét hann setja þangað flöskur og staup og það fyllti hann af
vígðu vatni. Svo lét hann setja á borðin diska og allt það er til
máltíðar þurfti, skeiðar, hnífa o. s. frv., en diskana fyllti hann
með vígða mold.
Svo var settur til maður að
hafa gát á þegar hinir ókunnu boðsmenn kæmu og vísa þeim til sætis í
fyrnefnda stofu, og í það mund er fólk settist til borða komu tólf
menn stórir vexti og var einn stærstur og gekk sá fyrir, og helst
gengu þeir þar sem skjól var eða skugga bar á.
Var þeim þá vísað til sætis
og það þáðu þeir. Svo var hellt á staup fyrir þá og þeir drukku
vígða vatnið; síðan sátu þeir þar um daginn með glöðu yfirbragði,
borðuðu moldina og drukku vatnið, en ekki töluðu þeir orð, og um
kvöldið stóðu þeir undan borðum, hneigðu sig hæversklega og gengu
burtu, og þókti þessi atburður hinn kynlegasti. En þó sumum þækti
þeir geigvænlegir varð engum þar koma þeirra að meini.
Leið svo kvöldið til þess
fólk fór í rekkjur, þá háttaði brúðguminn hjá brúðinni og sofnaði
sætan eins og þeim mun kunnugt vera er þvílíkt hafa hlotið og reynt,
en um nóttina dreymir hann að fyrnefndi stórvaxni gesturinn kom til
hans með glöðum svip og þakkaði honum alúðlega veitingarnar og
mælti:
"Illa hefði nú farið fyrir
þér, hefðir þú ekki notið að þér vitrari manna; en fyrst að þér
heppnaðist svo vel að enda orð þín þá vil ég nú sýna þér það
vináttubragð aftur á móti að bjóða þér að koma til minna heimkynna
og þiggja veitingar hjá mér nú í nótt."
En er hinn ungi maður
hugsaði hver munur á því væri að hvíla í faðmi hinnar ungu konu í
brúðarsænginni og hinu, að hverfa til bústaða þeirra dauðu í dimmu
grafarinnar þar sem er svo kalt og hart, þá fór um hann
kuldahryllingur; andvarpaði hann þá og mælti: "Hvernin kann ég sem
er lifandi að geta fylgt þér til þinna heimkynna í ríki þeirra dauðu
nema svo aðeins að ég yfirgefi allt sem ég hefi hlotið í lífinu og
einnin lífið sjálft, og hvernin geturðu ætlast til að mér sé það
geðfellt á þessari stundu sem er vordagur yndisins og árstíð
ástarinnar? og bið ég þig þess vegna fyrirgefa mér þó ég hafni þessu
boði þínu."
Þá mælti hinn aðkomni:
"Ekki er annar kostur en þú farir með mér og þiggir boð mitt, og
skal ég ábyrgjast að þig skal í engu saka og skal ég fylgja þér heim
aftur til konu þinnar með heilu og höldnu áður en ljómar af degi."
Sá þá hinn að hann hlaut að fara.
Því næst þykist hann klæða
sig með flýtir og fylgja hinum ókunna manni þangað sem að gröfin var
tekin um árið og stóri leggurinn kom upp úr. Tók þá förunautur hans
í hönd honum og hvarf með hann þar niður í jörðina; liðu þeir svo
gegnum þau myrku fylgsni jarðarinnar þar til þeir komu að húsi einu
fögru, þar leiddi sá stóri maður gest sinn inn. Húsið var fagurt
innan og ljómaði af mörgum ljósum. Þar vóru fyrir ellefu menn og
fögnuðu þeim vel. Var þar vín og vistir á borð borið og var það hin
ágætasta fæða og besta vín.
Settust þeir síðan allir
til borðs og borðuðu og drukku sem þá lysti; vóru þeir allir glaðir
og viðmótsgóðir við gest sinn og þókti honum samkvæmið hið
skemmtilegasta. En er þeir höfðu lengi nætur setið og glatt sig við
vín og vistir, skemmtilegar ræður og frásagnir mælti fyrirmaðurinn
við gest sinn: "Nú vænti ég að þér þyki mál komið að ég fylgi þér
heim til þín; en hvernig hefur þér þótt að dvelja hjá mér?"
Hinn sagði sem var að honum
þókti þar gott að koma og allt fara fram hið besta.
Þá mælti jarðbúinn: "Nú
skal ég fylgja þér heim aftur, en svo þú getir sannað að þetta, er
fyrir þig hefur borið, er meira en draumur þá skaltú hafa þetta með
þér til jarðteikna því valla mun aðra eins síðu að fá í þinni
sveit:"
Tók hann þá sauðarsíðu af
borðinu og fékk honum og var hún mikið þykkri og feitari en þær er
hann hafði áður séð, og stakk hann henni í kápu sína. Því næst
kvaddi hinn ungi maður samsætisfélaga sína og fór svo leiðar sinnar
og hélt í hönd félaga sínum; liðu þeir svo gegnum myrkurin þar til
þeir komu upp á jörðina á sama stað og þeir fóru fyr niður; fóru
þeir svo leiðar sinnar þar til þeir komu til rekkjunnar
brúðhjónanna; kvaddi þá hinn aðkomni brúðguma með vinsemd og hvarf
síðan, en hinn þóktist hátta í öðru sinni hjá konu sinni og vaknaði
ekki fyr en um morguninn í faðmi hennar.
Sagði hann þá frá hvað
fyrir hann hafði borið um nóttina og sýndi sauðarsíðuna og fór hún
víða til sýnis og sást hvergi önnur slík, svo var hún feit og þykk.
Þókti þessi atburður allur saman vera hinn merkilegasti.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

BÓNDI
VEKUR UPP DRAUG
Þ egar
séra Vigfús sem var í Aðalvík, sonur séra Benediktar sem var prestur
í Vestmanneyjum, var stúdent og var til veru á einhverjum kirkjustað
þá hafði það verið venja hans að ganga út í ljósaskiptunum á vetrinn
þegar fólkið svaf í myrkrinu. Torfkirkja hafði verið þar eins og
alstaðar á þeim dögum. Hafði þakið ekki verið slegið um sumarið og
því mikil sina á kirkjunni.
Eitt kvöld í heiðskíru
veðri og tunglskini hafði hann verið að ganga um út á hlaði. Þá sá
hann hvar maður kom ríðandi. Hann furðar það að hann skuli vera
svona seint á ferð og getur ekki vitað hvað hann muni vilja.
Séra Vigfús fer nú inn í
kirkjugarðinn og felur sig í sinunni á kirkjuþakinu. Hann sér þegar
hinn nálægist að þetta er einn sveitarbóndinn. Þegar bóndi er kominn
af baki gengur hann í kirkjugarðinn og skimar sig um hvert hann sjái
nokkurn, og þegar hann sér engan þá fer hann að nusa úr hverju leiði
og loksins kemur hann að einu leiði nýgröfnu. Hann nusar þar af og
að því búnu fer hann að fremja særingarþulur sínar; en ekkert skildi
hann af því sem bóndi fór með af öllum sínum fítonsanda nema það að
hann fór með öfugt faðirvor.
Eftir tímakorn sér hann að
moldin fer að ókyrrast og því næst sér hann að upp úr gröfinni kemur
kista og innan úr henni sprettur upp maður; hann var í línhjúp.
Bóndi færir hann úr hjúpnum og því næst karar hann hann (sleikti
náfroðuna af hönum með tungunni).
Að því búnu ræðst bóndi á
drauginn og eftir harðan atgang þá féll draugsi og að því búnu fara
þeir heimleiðis. En svo hafði bóndi mikið við félaga sinn að hann
gekk sjálfur, en lét draugsa ríða.
Þegar sr. Vigfús kom inn
var hann náfölur, en ekki vildi hann segja hvað hann hefði séð fyrr
en daginn eftir.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

BEINAGRIND
STAÐARVINNUMANNSINS
Þ að
bar til á Vestfjörðum að gengið var á reka sem tilheyrði kirkju að
fannst samtengdin öll af mannsbeinagrind og tunga heil í höfði. Var
hún tekin og flutt heim að staðnum og látin á hurðarbaki í kirkju,
en þar næst er grafið var var hún látin í gröfina, en morguninn
eftir var hún komin upp úr gröfinni og lá ofan á leiðinu og var það
reynt þrisvar þá grafið var, að láta hana í gröfina, en allténd fór
á sömu leið. Var þetta svo gefið frá sér og hún látin liggja á
hurðarbaki í kirkjunni.
Svo kom að því að prestur
sama staðar lét prófast sinn taka sig til sakramentis. Fór þá
heimaprestur að segja prófasti frá þessum atburðum. En þegar
prófastur heyrði það vildi hann fyrir hvern mun fá að sjá
beinagrindina og biður prest að láta einhvern af heimafólki sínu
sækja hana, en af því myrkt var orðið vildi engi verða til þess nema
ein vinnukona.
Hún tók lykilinn og fór út
í kirkju, greip beinagrindina kom með hana og kastaði henni á
gólfið, en þegar prófastur sér hana verður hann dauðhræddur, biður
að taka hana sem fljótast frá augum sér. Bað svo húsbóndi
vinnukonunnar hana að fara með hana aftur út í kirkju.
Hún svaraði: "Ég lofaði
einungis að sækja hana, en ekki að fara með hana aftur."
Samt gjörði hún það fyrir
bón prestsins því ekki var til annara að flýja.
En þegar hún var komin
miðja leið sagði beinagrindin á herðum hennar: "Berðu mig, dragðu
mig ekki."
Þá segir stúlkan: "Krepptu
þig þá."
En þegar hún kemur að
sálarhliðinu segir beinagrindin við stúlkuna: "Ég bið þig að standa
við meðan ég segi þér frá mér."
Hún gjörði það. Þá sagði
beinagrindin: "Ég var fyrir eina tíð vinnumaður á þessum stað hjá
presti nokkrum er dóttur átti. Fór þá svo að ég átti barn við henni.
Af því varð prestur svo reiður að hann mátti ekki sjá mig. Varð ég
svo að fara frá honum því bæði var það að hann vildi mér það aldrei
fyrirgefa, enda mátti ég ekki vera á sama heimili og barnsmóðir mín.
Nokkrum tíma þar eftir drukknaði ég í sjó og hefi ei getað rotnað
meira en þetta.
Nú þegar þú kemur í
kirkjuna muntu sjá sönghús kirkjunnar fullt með fólk; muntu þar sjá
mann með rauða húfu. Bið ég þig þá að kalla til hans þessum orðum:
Þú þarna með rauðu húfuna, viltú ekki fyrirgefa hinum framliðna það
sem hann hefir þér á móti gert? - Hann mun því ekki gegna. Skaltú
svo kalla í annað sinn sömu orðum. Mun þá koma stans á hann og líta
utar eftir og svo skaltu í þriðja sinn kalla eins og fyrr. Mun hann
þá segja já.
Að því búnu skaltú fara út,
en forðast að líta aftur. Líka bið ég þig að sjá svo til að ég verði
grafinn næst þegar grafið verður; mun ég þá liggja kyrr. Hér
vestarlega í túni er þúfa. Taktú nú vel eftir hvernig ég lýsi henni
svo þú getir fundið hana. Í henni eru peningar sem engi hefir gagn
af. Skaltú þá taka og hirða fyrir fyrirhöfn þína á mér. Muntú verða
gæfukvenmaður."
Þegar stúlkan kemur í
kirkjuna sér hún eins og beinagrindin sagði að allt sönghúsið er
fullt af fólki og einn með rauða húfu. Hún kallar og segir: Viltu
ekki fyrirgefa etc. -, en rauðhúfumaður veitti því engi andsvör.
Svo kallaði hún í annað
sinn; fór þá eins og beinagrindin hafði fyrir sagt og eins í þriðja
sinn. Svaraði þá rauðhúfumaður já.
Að fengnu því svari sneri
stúlkan sér við. En þegar hún ætlar að ganga út heyrir hún á baki
sér að sagt er: "Sjá þú í mín augu hve rauð þau eru."
Þá flettir hún upp um sig
að aftan utanhafnarpilsi og segir: "Sjá þú í minn rass hve svartur
hann er."
Svo gengur hún inn í stað
og lætur engan vita hvað gjörst hafði.
Þegar næst var grafið
leggur hún sín orð til að reynt sé að grafa beinagrindina og bar
ekki á henni upp frá því.
Hún fann þúfuna eftir
ávísun beinagrindarinnar og þar mikla peninga. Síðan giftist hún og
eignaðist efnilegan mann, bjó í sókninni til ellidaga og varð mesta
lánskona.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

BEINAGRINDIN
OG RAUÐKLÆDDI MAÐURINN
Þ að
bar til á einum kirkjustað að þar fannst einu sinni samanhangandi
mannsbeinagrind ofanjarðar, liggjandi í kirkjugarðinum.
Þegar jarðað var næst eftir
lét prestur leggja hana í gröfina, en ekki leið langt áður en hún
kom upp aftur. Prestur lét þó reyna nokkrum sinnum að jarða hana og
kom hún alltaf upp aftur. Þá var hætt að reyna það og var hún þá
lögð undir bekk í kirkjunni og lá þar lengi síðan.
Það var einu sinni á
gamlaárskvöld að prestur ætlaði að fara að lesa. Þá mundi hann að
Grallarinn hans var úti í kirkju síðan hann messaði næst áður.
Þá segir hann: "Er nú
nokkur svo ómyrkfælinn að geta sókt fyrir mig Grallarann út í
kirkju?"
Vinnukona hans gegndi til
og sagði það væri hægt að gera. Hún fór og sókti Grallarann, og bar
ekkert til tíðinda.
Þá segir prestur: "Ekki
ertu myrkfælin, en þá skal ég fyrst hrósa því hvað huguð þú ert ef
þú getur sókt beinagrindina út í kirkju."
Hún sagði það væri ekki
meira en mannsverk og fór og sókti beinagrindina og bar hana inn til
prestsins.
Hann sagði þá: "Huguð ertu,
en farðu nú með hana út aftur."
Hún fer, en þegar hún kemur
í bæjardyrnar þá heyrir hún að beinagrindin fer að tala og segir:
"Þegar þú kemur út í kirkjuna mun hún verða full af fólki og við
altarishornið mun sitja rauðklæddur maður með rauða húfu á höfði, og
ef þú getur komið mér í sátt við hann muntu verða mesta auðnukona."
Hún hélt síðan áfram út í
kirkju, og var það eins og henni var sagt að kirkjan var full af
fólki. Henni brá ekki við það og gekk inn að kórstafnum, hvessti
augun á rauðklædda manninn og sagði við hann alvarlega: "Láttu
beinagrindina þá arna vera í friði héðan af í jörðinni."
"Nei," segir hann, "það get
ég ekki fengið af mér."
"Ef þú gjörir það ekki,"
segir hún, "þá skulu allir árar að þér sækja og láta þig hvurgi hafa
frið né ró."
Þá dofnaði í honum hljóðið
og sagði: "Fyrst svo mikið er við lagt, þá mun það verða svo að vera
að ég láti beinagrindina í friði héðan í frá."
Þá fór hún með
beinagrindina þangað sem hún hafði verið og lagði hana þar. Þeir sem
þar voru fyrir gáfu henni rúm.
Síðan fór hún út aftur, en
þegar hún kom utar á mitt kirkjugólf kallaði rauðklæddi maðurinn á
eftir henni og sagði: "Sjáðu í mitt glóðarauga."
Hún hugsaði að ef hún liti
aftur mundi hún aldrei út komast. Hún lyfti þá upp pilsi sínu að
aftan upp á bak og sagði: "Sjáðu í minn svartan rass."
Og svo fór hún út og inn í
bæ og lét ekki á neinu bera, og sá enginn að henni hefði brugðið.
Nokkru seinna var jarðaður
maður á þessum kirkjustað og þá sagði vinnukonan að reyna skyldi að
grafa beinagrindina. Presturinn vildi það ekki og hélt það væri til
lítils. Hún sagði það væri litlu til kostað og varð það úr að
beinagrindin var jörðuð og kom hún aldrei síðan upp aftur.
Eftir þetta sagði
vinnukonan frá sögunni og þótti hún mikils verð. Litlu síðar giftist
vinnukonan efnilegum yngismanni og varð mesta lukku- og sómakona.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

BARÐSGÁTT
E inu
sinni kom kaupamaður sunnlenzkur að Barði í Fljótum. Kom hann þar
seint um kvöldtíma og var vísað til að hátta í skála þar frammi.
Sváfu vinnumenn líka í skálanum. Kaupamaðurinn var ráðinn að Barði
til sumarvinnu.
"Hvað heitir prestskonan
hérna?" spyr hann um kvöldið.
"Hún heitir Gátt," segja
vinnumennirnir.
Um morguninn kemur
prestskonan inn í skálann. "Sælar verið þér, Gátt góð," segir
kaupamaðurinn.
Vinnumennirnir fóru að
hlæja, en hún segir: "Guð blessi þig, en ég heiti ekki Gátt."
"Kannske þið fáið aðra Gátt
að hlæja að að ári," segir kaupamaðurinn við vinnumennina.
Nú líða tímar til næsta
vors, þá er það eina nótt um það bil kaupamenn komu, að draugstelpa
kemur í skálann á Barði og drepur þar tvo vinnumennina.
Stelpa þessi gekk svo
bersýnilega að hana sáu skyggnir sem óskyggnir og var hún kölluð
Barðsgátt. Loks kom kunnáttumaður henni fyrir í mannslegg og gróf í
Barðskirkjugarði.
Liðu nú langir tímar og var
saga þessi að mestu fallin í gleymsku og í öllu falli ætluðu menn
Barðsgátt útdauða.
Þá er það eitt sinn í tíð
síra Sigurðar, um eða litlu eftir 1760, að verið er að grafa í
Barðsgarði. Meðal annara beina sem upp koma er mannsleggur með tappa
í.
Kippir einn maðurinn
tappanum úr og kemur þar út gufa sem svo hverfur. Eftir þetta fór að
verða vart um Barðsgátt; drap hún skepnur séra Sigurðar og sókti á
þá sem í skálanum sváfu, einkum í vinnumannarúminu gamla.
Tekur þá séra Guðmundur
kapelan föður síns sig til og háttar í rúminu og hefir hjá sér
rauðskeftan hníf.
Nú líður fram um miðnætti.
Finnur hann þá að þrifið er til rúmfatanna; rekur hann þá frá sér
hnífinn og finnst hann koma í eitthvað, og tekur það svo hart
viðbragð að hann missir hnífinn.
Morguninn eftir er leitað
að hnífnum og finnst hann hvergi. En nokkrum dögum seinna fannst
hann út og upp á Gerði. Stóð hann þá fastur í mannsherðarblaði.
Síðan hefir ekki orðið vart við Barðsgátt.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

ÁTJÁN
DRAUGAR ÚR BLÖNDU
Á rni
sá sem nú lifir á Ásbúðum á Skaga, yfir áttrætt, bjó áður fyrri á
Blálandi í Hallárdal og fór þaðan einu sinni fram í sveit og hafði
tvo til reiðar.
En er hann kemur að Blöndu
á Hrafnseyri var orðið hálfrökkvað. Hann ríður út í ána, en er hann
kemur í hana miðja stingur hann fótum fyrir, frýsar og vill ekki
lengra fara. Og er Árni kemur honum ekki úr sporum veit hann að
hesturinn muni sjá eitthvað það er hann ekki sá sjálfur, og tekur
hann klútinn af hálsinum á sér og bindur fyrir augu hestinum og hélt
hann þá áfram, en hinn hesturinn kippti þá af honum taumum og snéri
við til sama lands.
Heldur nú Árni áfram þangað
til hann er að kalla kominn yfir um. Þá sér hann átján manns á
bakkanum og heyrir að einn segir: "Hafið þið hljótt, hann Árni
frændi minn á Blálandi kemur."
Árni heldur upp á bakkann
og veik sér að þeim er hann heyrði kalla sig frænda sinn, heilsar
honum og spyr hvernig á frændsemi þeirra standi. Hann kvaðst hafa
heitið Þorvarður Hallsteinsson og rakti saman ættir þeirra.
Árni biður hann þá að sækja
yfir um fyrir sig hestinn því sér hefði ekki tekist að koma honum
yfir um ána. Draugurinn gjörði það, en á meðan dreifðust hinir svo
þeir hvurfu allir.
Árni spurði þá hinn er yfir
um kom hverjir þessir hefðu verið.
Hinn kvað: "Það erum við
sem drukknað höfum í Blöndu."
Síðan hélt Árni leiðar
sinnar fram undir Sauðanes; þar var þá konan, Sigríður, nýdáin.
Þegar hann sá til bæjarins
sýndist honum hann allur í loga, en þó hélt hann heim, og er hann
kom á hlaðið hvarf loginn. En er hann ætlaði að bæjardyrum stóð þar
kvenmaður fyrir og bandar honum frá. Hann spyr hver hún sé. Hún
kveðst vera húsfreyjan hérna.
Árni gengur hratt að og
segir: "Lofaðu mér að, ég ætla að berja," og þá hvarf hún.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

ÁTJÁN
DRAUGAR ÚR BLÖNDU
Á rni
sá sem nú lifir á Ásbúðum á Skaga, yfir áttrætt, bjó áður fyrri á
Blálandi í Hallárdal og fór þaðan einu sinni fram í sveit og hafði
tvo til reiðar.
En er hann kemur að Blöndu
á Hrafnseyri var orðið hálfrökkvað. Hann ríður út í ána, en er hann
kemur í hana miðja stingur hann fótum fyrir, frýsar og vill ekki
lengra fara. Og er Árni kemur honum ekki úr sporum veit hann að
hesturinn muni sjá eitthvað það er hann ekki sá sjálfur, og tekur
hann klútinn af hálsinum á sér og bindur fyrir augu hestinum og hélt
hann þá áfram, en hinn hesturinn kippti þá af honum taumum og snéri
við til sama lands.
Heldur nú Árni áfram þangað
til hann er að kalla kominn yfir um. Þá sér hann átján manns á
bakkanum og heyrir að einn segir: "Hafið þið hljótt, hann Árni
frændi minn á Blálandi kemur."
Árni heldur upp á bakkann
og veik sér að þeim er hann heyrði kalla sig frænda sinn, heilsar
honum og spyr hvernig á frændsemi þeirra standi. Hann kvaðst hafa
heitið Þorvarður Hallsteinsson og rakti saman ættir þeirra.
Árni biður hann þá að sækja
yfir um fyrir sig hestinn því sér hefði ekki tekist að koma honum
yfir um ána. Draugurinn gjörði það, en á meðan dreifðust hinir svo
þeir hvurfu allir.
Árni spurði þá hinn er yfir
um kom hverjir þessir hefðu verið.
Hinn kvað: "Það erum við
sem drukknað höfum í Blöndu."
Síðan hélt Árni leiðar
sinnar fram undir Sauðanes; þar var þá konan, Sigríður, nýdáin.
Þegar hann sá til bæjarins
sýndist honum hann allur í loga, en þó hélt hann heim, og er hann
kom á hlaðið hvarf loginn. En er hann ætlaði að bæjardyrum stóð þar
kvenmaður fyrir og bandar honum frá. Hann spyr hver hún sé. Hún
kveðst vera húsfreyjan hérna.
Árni gengur hratt að og
segir: "Lofaðu mér að, ég ætla að berja," og þá hvarf hún.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

ARNLJÓTUR
HULDUMAÐUR
Þ að
var einu sinni ekkja sem átti sér eina dóttur eftir manninn sinn og
bjuggu þær mæðgur tvær saman í einu koti og var þar ekki annað fólk.
Móðirin hafði matseldina á hendi og snúningana heima við, en
dóttirin hirti fénaðinn sem raunar var ekki mikill.
Einu sinni þegar hún var að
smala kom að henni maður stórvaxinn og alskeggjaður. Hún spyr hann
að heiti; hann sagðist heita Arnljótur. "Gjörðu svo vel," segir
hann, "og komdu heim til mín og hjálpaðu konunni minni. Hún liggur á
gólfi og getur ekki fætt, en þú skalt hafa gott af því ef þú gerir
þetta."
"Hvað ætli ég hafi gott af
því?" segir hún. "Þú ert ekki mennskur maður og mun vera meira illt
en gott hjá þér að hafa, og fer ég hvurgi."
Hann hryggðist við og fór
frá henni, en hún fór heim og sagði móður sinni ekki frá þessu.
Og morguninn eftir fer hún
að smala og þá kemur Arnljótur aftur og biður hana innilega að koma
með sér og hjálpa konunni og sagði að hún þyrfti ekki að óttast það.
"En svo er ástatt," segir hann, "að hagur konu minnar getur ekki
greiðst nema stúlka af mennsku kyni hjálpi henni."
Hún lét ekki leiðast til að
heldur og fór hann enn jafnnær frá henni.
Þriðja morguninn smalar hún
enn og kemur Arnljótur enn til hennar og segir að nú sé farið að
draga af konu sinni og ef hún komi nú ekki muni verr fara. En daginn
áður hafði hún sagt móður sinni frá því sem fyrir hafði komið, og
varð hún æfar reið og sagði: "Ef hann kemur í þriðja sinni og þú fer
ekki með honum, þá skal ég reka þig frá mér svo þú skalt ekki koma
fyrir mín augu framar," og því þorði hún nú ekki annað en fara með
Arnljóti.
Hann gekk á undan að einum
kletti. Þar sá hún opnar dyr og fóru þau þar inn og komu í dálaglega
baðstofu. Þar sér hún konu Arnljóts liggja á gólfinu og hjálpar
henni strax. Hún fæddi þríbura.
"Betur hefði farið," segir
Arnljótur, "ef þú hefðir komið fyrsta morguninn sem ég bað þig, en
þó mun ég verða að borga þér yfirsetukaupið," segir hann og fékk
henni þrjá kostgripi og sagði: "Farga þú aldrei þessum gripum og
þegar einhvur falar þá af þér þá segðu: "Ekki vill Arnljótur minn að
ég fargi þeim." Mundu þetta hvað sem í boði verður."
Hún fer nú heim til móður
sinnar og sýnir henni gripina, en trúði henni þó ekki fyrir að geyma
þá og hafði þá með sér morguninn eftir þegar hún fór að smala. Þá
kemur til hennar ókenndur maður og falar gripina, en hún sagði:
"Ekki vill Arnljótur minn að ég fargi þeim."
Hann fór svo búinn frá
henni, en annan morguninn kemur hann aftur, og fór á sömu leið.
Þriðja morguninn gleymdi hún að hafa gripina með sér. Og nú kemur
þessi maður til móður hennar og falar gripina og býður henni fyrir
þá svo mikið gull að hún réði það af að selja honum þá.
Þegar dóttirin kom heim og
frétti þetta varð henni svo illt við að hún sat með gráti allan
daginn. Um kvöldið fór hún fram að loka bænum.
Þá kemur enn að henni
ókenndur maður og segir: "Illa hefir Arnljótur farið með þig, því þú
mátt trúa því að það var hann sem keypti út gripina því hann unni
þér ekki að njóta þeirra."
"Ekki mun hann hafa verið
það," segir hún.
Þá tekur hann upp
gullskjöld stóran eins og keraldsbotn og sagði: "Þetta vil ég gefa
þér, því það er gustuk að gleðja þig eftir gripamissirinn."
Hún þáði það ekki og lokaði
sem fastast bænum, en maðurinn fór burt. Hún smalar morguninn eftir
og þá kemur Arnljótur til hennar og segir: "Stöðug getur þú verið ef
þú værir þar eftir gæfusöm. Ég hefi verið það allt saman sem til
ykkar kom, og ég hafði gripina hjá móður þinni og hefi ég verið að
reyna þig með þessu," segir hann. "Nú má ég gjalda þess að þú
gjörðir svo seint bón mína því nú er kona mín dauð, en komdu nú heim
með mér og signaðu börnin mín og lestu yfir þeim faðirvor."
Hún fer með honum og þegar
hún kemur inn sér hún að öll börnin liggja í einu rúmi. Hún leggur
sig upp í hjá þeim og signaði þau og las faðirvor yfir þeim, en svo
tókst óheppilega til að hún lagðist ofan á eitt barnið og kæfði það
af ógáti.
Arnljótur varð var við það
og sagði: "Satt er það að þú ert ekki gæfusöm, en þó skal ég reyna
til enn; taktu nú við gripum þínum, en gjörðu þá bón mína að vera
hjá mér hér eftir og vera kona mín."
"Nei," segir hún, "það vil
ég vinna til að sjá þessa gripi aldrei oftar að þú biðjir mig ekki
um þetta."
Arnljótur sagði þá: "Ekki
verður þér við hjálpað, það fylgir þér svo mikil ógæfa. Ég get ekki
við því gjört þó svo fari að enginn vilji hafa þig og þú verðir
alstaðar út rekin, en það skaltu af mér hljóta að í lengstu lög
skaltu hafa uppeldi af yfirsetudæmi."
Hún fór nú heim til móður
sinnar og sagði henni frá öllu sem farið hafði. Hún átaldi hana
mikið fyrir þetta.
Næsta morgun kemur
Arnljótur þar og er erindi hans að biðja kerlingar sér til konu. Hún
tók því vel og fór með honum. Hún spurði hvurt dóttirin mætti fylgja
sér.
Arnljótur sagðist ekki þora
það því ógæfa mundi af henni standa. "Hún er velkomin að koma til
okkar þegar hún vill," segir hann, "en aldrei mun ég lofa henni að
vera þar um nótt."
Þau gáfu henni búið í
kotinu eins og það var og fóru svo í burt, og kom kerling aldrei til
mennskra manna upp frá því.
Dóttirin kom oft að finna
móður sína og þáði góðgjörðir hjá henni, því hún mátti vel þar sem
hún var nú komin, en dóttirin eyddi búinu sínu á stuttum tíma og
flakkaði svo milli manna og fékk hvurgi inni því enginn vildi hafa
hana af því það stóð svo mikið ólán af henni, og alltaf þegar hún
kom að einhvurjum bæ sótti hún svo illa að að annaðhvurt dó kýr eða
manni varð illt eða eitthvað þvílíkt, en hjá Arnljóti og móður sinni
sótti hún ekki illa að og ekki heldur þegar hún kom til að sitja
yfir konu, og það heppnaðist henni alltaf vel og lifði hún á því
lengst ævi sinnar því allir borguðu henni það vel.
Svo lauk ævi hennar að hún
varð úti milli bæja. Og úti er sagan.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

AÐ
HVERJUM ANDSKOTANUM ERTU AÐ LEITA?
Þ egar
ég var á 17. árinu (ca. 1838) átti ég heima í Hvammi í
Möðruvallasókn. Bóndinn þar hét Þórður Þórðarson.
Þá var það eina nýársnótt
að við stúlkurnar tvær vöktum æði lengi fram eftir; þar vakti og
sonur hjónanna, Þorsteinn að nafni, og var að skrifa. Var hann
vakandi þegar við sofnuðum.
Eftir það fór hann að hátta
og slökkti ljósið, en sofnaði ekki strax, heldur lá vakandi í rúmi
sínu. Þegar lítil stund er liðin sér hann hvar ljósgeislar koma inn
með hurðinni, og síðan er lokið upp. Kemur þar þá inn ókunnug kona
prúðbúin með fléttað hárið.
Var hún svo fríð að hann
sagði það hefði verið fallegasti kvenmaður sem hann hefði séð. Kona
þessi hafði stórt og skært logandi kerti í hendi; gekk hún beint inn
að hjónarúminu. Þar var himinn uppi yfir og ýmislegt á. Fer hún nú
að lýsa og leita á himninum.
Var þá drengur hræddur um
hún ætlaði að taka eitthvað og segir: "Að hverjum andskotanum ertu
að leita?"
Gekk þá konan fremur
snúðugt út.
Um morguninn sagði drengur
frá þessu. Hélt hann þetta hefði verið prestkonan huldufólksins og
iðraðist eftir bráðræði sínu, enda fundu og foreldrar hans að því
við hann.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

DRAUGASKIPIÐ
F yrir
mörgum árum fórst skip undir Eyjafjöllum með 14 mönnum. Þrír komust
á kjöl og kölluðu á hjálp því að fjöldi manna stóð á sandinum -
skipinu barst á skammt undan lendingu - en brimið var svo mikið að
ómögulegt var að hjálpa þeim.
En er mennirnir voru allir
dauðir og drukknaðir þá snerist skipið við og kom sjálft í land eins
og því væri stýrt. Stóð það svo uppi í fjörunni og snart enginn við
því fyrr en veturinn eftir er það var sett á ís yfir Holtsós og upp
að Steinahelli. Vildi enginn róa því framar því að geigur stóð
mönnum af skipinu.
Þegar það var sett á ísnum
upp að hellinum stóðu fjármenn frá Steinum, sem er næsti bær við
hellinn, uppi undir fjallinu yfir fé. Sáu þeir þá að öll dauða
skipshöfnin gekk á eftir skipinu þegar það var sett og var ófrýn á
að sjá. Eftir það stóð skipið í djúpri laut sem er öðrum megin við
hellinn.
Skömmu seinna reið þar um
bóndi utan af Rangárvöllum er Þorkell hét og bjó á Rauðnefsstöðum.
Ætlaði hann austur undir Fjöll. Þetta var í svartasta skammdegi og
reið Þorkell bóndi um hjá hellinum því þar liggur alfaravegur.
Lítill lækur fellur ofan að vestanverðu við hellinn. Þegar Þorkell
er kominn yfir lækinn mætir honum maður er hann bar eigi kennsl á og
segir sá við hann:
"Settu með okkur,
lagsmaður!"
Þorkel grunar ekkert því að
skipið sást ekki af götunni og tekur hann vel undir þetta. Ekki
mælti maður þessi fleira en snýr við og bendir Þorkeli að koma á
eftir sér. Þorkell ríður svo á eftir honum en það þótti honum
skrýtið að hestur hans var alltaf að frýsa og virtist nauðulega
vilja elta manninn.
Nú koma þeir í lágina þar
sem skipið stóð og sér Þorkell þá 13 menn standa í kringum skipið og
voru svaðalegir álitum. Þá man Þorkell fyrst eftir skipreikanum
undir Fjöllunum um haustið og þykist hann þarna þekkja þá sem
drukknað höfðu. Verður hann þá skelkaður mjög og slær upp á klárinn.
Tekur hann til fótanna en Þorkell heyrir draugana kveða vísu þessa
um leið og hann reið upp úr lautinni:
-
Gagnslaus stendur gnoð í
laut,
-
gott er myrkrið rauða.
-
Halur fer með fjörvi
braut,
-
fár er vin þess dauða,
-
fár er vin þess dauða.
Þorkell nam vísuna. Reið
hann nú allt hvað af tók og náði að Steinum um kvöldið. Eftir það
fór Þorkell bóndi aldrei einn um þennan veg og lét alltaf einhverja
fylgja sér þótt albjartur dagur væri.
Skipið var loks höggvið
niður í eldinn en áður höfðu menn oft heyrt högg og brak í því
einkum er kvölda tók.
(Bj.Bj.:
Sagnakver. -- Hr. Lárusar stúd. Halldórssonar.)

DRAUGSSONURINN
Það var einu sinni
prestur sem bjó á kirkjustað eins og gerist. Hann átti dóttur unga
og efnilega. Hennar bað maður þar úr sókninni, en prestur neitaði
honum, því honum þótti stúlkan of ung og líkaði ekki heldur
maðurinn. Manninum gramdist þetta og sagðist þó skyldi komast yfir
hana, ef ekki lifandi, þá dauður. Nokkru síðar dó hann og var
jarðaður.
Það var ekki löngu eftir
það að ókenndur maður kom og bað um að lofa sér að vera og gerði
prestur það.
Vinnumaður var hjá presti,
aðgætinn og duglegur, og hélt prestur mikið upp á hann. Hann varð
var við um nóttina að einhvur hreyfing var í rúmi stúlkunnar. Hann
hafði heyrt hvurju biðillinn hafði heitið, en leist ekki á þenna
ókennda mann um kvöldið og grunaði hvað vera mundi.
Hann klæddi sig og fór út í
kirkjugarð og sér að gröfin biðilsins er opin. Þá tekur hann snæri,
bindur stein í endann og hengir ofan í gröfina og heldur í endann og
bíður þangað til hinn kemur, og þegar hann kom að gröfinni segir
hann við vinnumanninn: "Hvað ert þú að vilja hingað um nótt?"
Vinnumaðurinn sagði það
væri ekki meira fyrir sig en hann, - "því þú ert líklega maður,"
segir hann.
"Harðast stendur það,"
segir draugurinn, "ég var að sönnu maður, en nú er ég heldur andi en
maður. Lofaðu mér nú ofan í gröfina mína."
"Nei," segir vinnumaður,
"ekki nema þú segir mér hvað þú varst að fara."
"Það skal vera," segir
draugsi; "ég var að komast yfir dóttur prestsins. Ég lofaði að
komast yfir hana dauður, ef ekki lifandi."
"Hvað mun leiða af þessu?"
segir vinnumaður. "Hún mun verða barnshafandi," sagði draugur, "og
ala sveinbarn."
"Segðu mér forlög hennar og
barnsins," sagði vinnumaður. "Þú fær ekki að fara ofan í gröfina
fyrr en þú ert búinn að því."
"Það verður að vera," segir
draugsi. "Stúlkuna mun ekki saka og hún mun seinna verða kona þín."
"Það þykir mér leitt,"
segir vinnumaður, "að taka rökin eftir draug."
"Svo mun verða að vera,"
segir draugur, "og mun það ekki saka þig."
"Hvurnig fer fyrir
barninu?" segir vinnumaður.
"Það verður," segir
draugur, "hinn mesti gáfumaður sem landið hefir borið. Það hefir
hann af mér, því ég er andi og veit miklu meira en menn vita. Hann
mun verða settur í skóla og mun honum ganga vel að læra, og hann mun
verða prestur, en þegar hann snýr sér við fyrir altarinu fyrsta
sinni mun kirkjan sökkva með öllu sem í henni er, nema einhvur verði
svo hugaður að ganga að honum og reka hann í gegn þegar hann ætlar
að snúa sér við. Þá mun ekkert verða eftir af honum nema herðarblað
og blóðlifur; það eitt er frá móðurinni. Segðu nú engum frá þessu
sem ég hefi sagt þér fyrr en það er fram komið. Þar skal líf þitt
við liggja."
Vinnumaður lofaði því og
hleypti honum síðan ofan í gröfina og bað hann að fara aldrei oftar
á flakk. Hann sagði að ekki þyrfti að óttast það. Gröfin luktist, en
vinnumaður fór inn og lagðist í rúmið sitt og lét ekki á neinu bera,
og þegar fólk kom á fætur var ókenndi maðurinn í burt og þótti það
undarlegt.
Nú liðu stundir og að
hæfilegum tíma liðnum fæddi stúlkan sveinbarn og kenndi ókennda
manninum. Prestur ól upp sveininn, og bar snemma á gáfum hjá honum.
Hann kom honum í skóla, og var hann þar fá ár og útskrifaðist með
besta vitnisburði og vígðist síðan kapellán til afa síns.
Þegar hann messaði fyrsta
sinn hlökkuðu allir til að heyra til þessa mikla gáfumanns og
safnaðist múgur og margmenni til kirkjunnar. Þar var móðir hans og
vinnumaðurinn; hann settist í kór nálægt grátunni og var undarlegur
á svip, og þegar prestur ætlar að snúa sér við fyrir altarinu stóð
vinnumaðurinn allt í einu upp, brá saxi og lagði í gegnum prestinn.
Hann hné þar niður.
Allir þustu upp; sumir tóku
vinnumanninn og héldu honum, aðrir tóku til líksins og færðu það úr
messuklæðunum. Þeim fannst það verða að engu í höndum sínum og fóru
að gæta að, og var þá ekkert líkið nema vinstra herðarblað og
blóðlifur, aðrir segja þrír blóðdropar.
Þetta undrar alla og kemur
stans á fólk. Þá tekur vinnumaðurinn til máls og segir öllum
söfnuðinum hátt og skilmerkilega alla söguna um viðurtal sitt við
drauginn og allt þar að lútandi.
Þeir voru í kirkjunni sem
mundu eftir að þeir höfðu heyrt biðilinn lofa að komast yfir
stúlkuna, ef ekki lifandi, þá þó dauður. Þóttist fólk þá vita að
vinnumaðurinn sagði satt.
Gamli presturinn þakkaði
vinnumanninum þessa hjálp sem hann hafði áunnið öllum söfnuðinum, og
elskaði hann enn meir eftir en áður. Og skömmu seinna gifti hann
honum dóttur sína. Fóru þau að búa og unntust vel og lengi og urðu
mestu gæfuhjón til dauðadags.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

DRAUGUR
DEYR
Á þeirri tíð þegar síra
Þórsteinn var prestur á Dvergasteini bar það þar til eitt kveld að
barið var að dyrum og strax var gengið til dyra, en enginn sást
kominn. En er sá var kominn inn sem til dyranna gekk var aftur barið
og aftur gengið til dyranna, en enginn varð séður að heldur; en
þegar maðurinn var aftur kominn í bæinn var barið í þriðja sinn, og
þá sagði prestur að sá sem gengi til dyranna skyldi segja þegar út
kæmi hátt og skýrt: "Ef nokkur er kominn sem vill finna prestinn þá
gangi hann inn."
Sá sem út gekk gerði svo,
og þá kom maður stór vexti með bjart hár og skinnfataður og gekk
snúðugt inn og upp í hús þar sem prestur var, en meðan hann var að
berja hafði prestur klæðst messufötum og beið hans svo, og þegar
hann kom inn vísaði prestur honum til sætis þar í bekk. Síðan spyr
prestur hann hvaðan hann sé og hvað hann ætli að fara.
Þá mælti hinn aðkomni: "Ég
er vestan af Vesturlandi, undan Jökli; ég var þar á sjó í dag, en
skipið sem ég var á tapaðist og allir menn drukknuðu, en ég sem var
formaður skipsins barst að landi aðeins ódauður, en þar sem ég lá
máttþrotinn í flæðarmálinu kom að mér maður og hleypti í mig illum
anda og skipaði mér að fara austur hingað og drepa þig."
Síðan þagnaði hann. En
prestur spurði hann þá hvert hann vildi ekki láta skrifta sér og
þiggja svo hjá sér sakramenti, og það þekktist hann.
Síðan skriftaði prestur
hönum og veitti honum sakramenti og alla þjónustu sem öðrum kristnum
manni, en þegar það var búið var sem hann sofnaði snögglega og
fannst þá ekkert lífsmark með honum framar.
Var hann svo flettur klæðum
og búið um líkið eftir siðvenju og síðan greftraður og þannig að
öllu meðhöndlaður sem hver annar maður sem kristilegan viðskilnað
öðlast.
(Þjóðsagnasafn
Jóns Árnasonar)

DRAUGUR SVIKINN
E itt
sinn vóru tveir bræður á Austurlandi sem hétu Jón og Sigurður. Þeir
heitstrengdu að hvorugur skyldi giftast, hinum óvitandi, en svo bar
til að prestsefni að austan þurfti að ríða til vígslu norður að
Hólum. Fékk hann Sigurð til fylgdar sér og ferðast síðan norður.
En meðan prestur dvaldi þar
komst Sigurður í kunningsskap við stúlku þar nyrðra og þar kom að
þau trúlofuðust. Neyddi hún hann til að fara ei austur aftur, en
hann sagði henni frá hvað þeir bræður höfðu við mælst og gaf henni í
skyn að bróðir sinn Jón væri margvitur; hún kvað það ei saka. Síðan
giftast þau og fóru að búa.
Það þóttist Sigurður vita
að bráðum ætti hann von á sendingu frá bróður sínum. Það var og einn
dag að hann sótti svo mikill svefn og ógleði að hann lagðist upp í
rúm, en konan settist á rúmstokkinn. Leið svo dagur að kvöldi.
Er þá barið eitt högg á dyr
og sendir konan mann til dyra, en sá varð engis var. Segir hún þá
öllum að leggjast litla stund til svefns, en hún kveikti ljós og
kveðst atla að vaka. Og að lítilli stundu heyrir hún að skellt er
hurðum.
Þar næst sér hún að draugur
ferlegur kemur upp á pallinn og nemur staðar frammi fyrir konunni.
Hún mælti þá: "Hvernig er þér háttað? Þú heilsar ei upp á nokkurn
mann."
Hann mælti: "Ég er ekki
sendur nema til bónda þíns og vil ég þú standir upp svo ég geti
fundið hann."
"Þér liggur nú ekki á því,"
mælti konan, "þú verður nú að leika dálítið fyrir mig áður."
Síðan biður hún drauginn að
bregða sér í allra kvikinda líki og það gjörir hann; hrósar hún
honum fyrir þetta og spyr hann hvað lítill hann geti nú orðið.
"Sem mýfluga," mælti
draugurinn.
Hún tekur þá upp úr vasa
sínum ofurlítið glas og biður hann að fara ofan í það í flugulíki.
Draugsi var lengi tregur til þess og kvað hana mundi svíkja sig, en
hún lofar að gjöra það ekki. Og með fagurmælum sínum telur hún svo
um fyrir honum að hann bregður sér í flugulíki og skríður ofan í
glasið er stóð í keltu hennar, en jafnsnart rekur hún tappa í það og
bindur kapalskæni ofan yfir, stingur því síðan í vasa sinn.
Eftir þetta vekur hún
manninn og sýnir honum fluguna í glasinu og kvað aumt fyrir hann að
hræðast slíkan yrmling. Eftir það geymir hún glasið í þrjú ár og
sendir síðan drauginn aftur Jóni, og drap draugsi hann samstundis.
En upp frá þessu þorði
draugurinn aldrei að heimsækja konu Sigurðar aftur því hann óttaðist
litla glasið hennar og kapalskænið ofan yfir því.

DRAUGUR
RAK SIG Á HNÍF
S ímon
Teitsson var húsmaður í Vatnagarði hjá Snorra Jónssyni langafa mínum
hér um bil 1780.
Hann fór inn að Miðhúsum
til Björns er þar var þá bóndi, með flatningshnífinn sinn til að
leggja hann á stein því Björn var smiður. Lá leið hans fyri austan
kirkjugarðinn á Útskálum. Þetta var um vökuna.
En er hann kom að
kirkjugarðinum sér hann mann framundan kirkjugarðinum og er sá að
spíkspora þar. Hann skilur ekki hvað hann muni vera að gera, en
forvitnar þó að bíða, gengur að kirkjugarðinum og leggur handlegginn
upp á garðinn svo að hann lá á honum með almbogann og hnífinn í
þeirri hendinni svo að upp stóð oddurinn.
Að stundu liðinni gýs
moldargusa upp úr einu leiðinu og fylgir þar með maður. Sá spyr hvað
hann vili sér. "Þú skalt fara norður í land og drepa þar stúlku."
Tilgreinir hann bæinn og
stúlkuna. Sendingin á stað og stefnir beint á Símon, en hann líður í
óvit. En er hann vissi af sér sér hann hvergi drauginn, en
mannsherðablað er á hnífnum, en maðurinn stendur þarna í
kirkjugarðinum.
Símon gengur til hans og
tekur heldur en ekki ómjúkt á honum fyri þetta sitt tiltæki; sýnir
honum samt herðablaðið. Maðurinn viknar við, þakkar honum þetta og
segir hann hafi ekki einasta frelsað stúlkunnar líf heldur og sitt
og lofar að gera það ekki oftar.
- Þetta var sjómaður á
Útskálum norðlenskur.

GÁRÚN,
GÁRÚN, GRÁTT ER MÉR UM HNAKKA
E inu
sinni bjuggu hjón á bæ nokkurum og er hvorki getið um heiti þeirra
né bæjarins. Þau héldu tvö hjú, vinnumann og vinnukonu; hét hann
Sigurður, en hún Guðrún.
Sigurður
hafði lagst á hugi við Guðrúnu og beðið hennar, en hún vildi með
engu móti þýðast hann. Einn vetur fóru þau bæði til kirkju jólaaftan
og höfðu einn hest til reiðar er húsbóndi þeirra léði þeim, og riðu
þau stundum tvímenning.
Og sem þau
riðu þannig tók Sigurður til orða og mælti til Guðrúnar: "Hvort
munum við ríða svona saman annan jólaaftan?"
Hún sagði að
það myndi eigi verða. Þau þráttuðu síðan nokkuð um þetta þangað til
hann mælti: "Við skulum ríða saman jólaaftan að vetri, hvort sem þú
vilt eða ekki."
Eftir það
felldu þau talið og er eigi getið að fleira yrði til tíðinda í ferð
þeirra.
Þenna vetur
hinn sama á útmánuðum tekur Sigurður sótt þá er hann leiddi til
bana, og var hann færður til kirkju og greftaður.
Nú líða þau
misseri fram til jóla veturinn eftir. Og er kemur jólaaftann búast
þau hjónin til kirkju og bjóða Guðrúnu að fara líka, en hún vill það
ekki og sagðist mundi heima vera, og svo varð.
Nú sem þau
eru farin þá sópar hún bæinn og kemur öllu fyrir sem henni þótti
best fara; því næst kveikir hún á kerti, tekur síðan kvenhempu og
leggur yfir herðar sér, en fer ekki í ermarnar; að því búnu sest hún
niður og fer að lesa í bók.
Þegar hún
hefir lesið litla stund þá heyrir hún að það er barið að dyrum. Hún
tekur ljósið í hönd sér og gengur til dyra; hún sér einhvern dólg
standa úti í mannslíki og hest með reiðtygjum, og þekkir hún, að það
er reiðhestur prestsins.
Komumaður
kastar á hana orðum og segir að nú skuli hún koma og ríða með sér.
Hún þykist kenna að þar sé kominn Sigurður kunningi hennar. Hún
setur nú frá sér ljósið og gengur út. Hann spyr hvort hún vili að
hann láti hana á bak; hún segist eigi þurfa hans hjálp til þess og
fer sjálf á bak hestinum, en hann er þegar kominn upp fyrir framan
hana.
Stefna þau
nú á leið til kirkjunnar og hefir hvorigt orð við annað; en er þau
hafa riðið um hríð þá tók hann til orða og mælti: "Gárún, Gárún,
grátt er mér um hnakka."
Hún svarar:
"Þegiðu smánin þín og haltu áfram."
Eigi er þess
getið að þau mæltist fleira við uns þau koma til kirkjunnar. Hann
nemur staðar einhvers staðar við kirkjugarðinn og fara bæði af baki.
Þá mælti hann:
-
"Bíddu,
bíddu, Gárún, Gárún,
-
meðan eg
flyt hann Faxa, Faxa
-
austur
fyrir garða, garða."
Því næst
hverfur hann með hestinn, en hún fleygir sér inn yfir kirkjugarðinn
og að kirkjudyrunum, en í því hún vildi inn í kirkjuna þá er þrifið
aftan í hana og í hempuna, en hempan var laus á herðum henni og
hafði sá hempuna er í kippti, en Guðrún slapp inn í kirkjuna og féll
þegar áfram á kirkjugólfið og seig að henni ómegin.
Þetta var í
það mund er messa stóð sem hæst. Nú þusti fólk að og fór að stumra
yfir Guðrúnu; var hún borin inn í bæ og dreypt á hana; raknaði hún
þá við um síðir og sagði allt sem farið hafði um þangaðkomu sína.
Var þá farið
til hesthúss að vitja um hest prestsins; fannst hann þar dauður og
brotið í honum hvert bein, en hrygglengjan rist í burt. Fyrir
kirkjudyrum fundu menn leifar af hempunni; var hún öll tætt í sundur
og lágu slitrin víðs vegar.
Síðan var
gert að leiði Sigurðar svo hann lá kyrr eftir það.

Upp aftur
|