ER VIRKILEGA hægt að
ljósmynda hugsanir? Slarkari nokkur frá Cicagoborg í Bandaríkjunum,
Ted Serios að nafni, fullyrðir að þetta sé unnt – og hann hefur
framleitt slíkar myndir hundruðum saman máli sínu til stuðnings. Hér
er litið á feril þessa dularfulla ljósmyndara, greinagerðir
rannsóknarmanna sem fengist hafa við hann og atlögur efasemdarmanna
til að fletta ofan af honum.
Ted Serios settist niður og beindi Polaroidmyndavél fast að
andliti sínu. Flassið blikkaði – dr. Jule Eisenbud tók myndavélina
umsvifalaust úr höndum hans og dró myndina upp úr henni. En í stað
andlits Teds var þarna komin mynd af einhverri byggingu, að vísu
óskýr en alveg ótvíræð.
Fyrir sídrykkjumanninn Ted
Serios, sem keðjureykti hverja sígarettuna af annarri, var þetta
aðeins ein furðumyndin enn í viðbót við fjöldann allan af hinum
"sálrænu"-myndum hans, sem hann kallar reyndar "hugarmyndir". En í
augum dr. Eisenbud, prófessors í geðlæknisfræði við Colorado-læknaháskólann
í Bandaríkjunum, var þarna um að ræða svo áhrifamikla sýningu á
dulrænum hæfileikum að hann hélt áfram að rannsaka Serios um
nokkurra ára skeið og skrifaði bók um hann.
Þegar dr. Eisenbud flaug til
Chicago til fyrsta móts síns við hinn drykkfellda dularljósmyndara í
apríl 1964, var Eisenbud hér um bil sannfærður um að hann yrði ekki
vitni af öðru en einhvers konar svikabrögðum. Vegna kynna sinna af
dulrænum málefnum vissi hann vel að flett hafði verð ofanaf flestum
svokölluðum dulrænum ljósmyndurum í tímans rás, – venjulega höfðu
þeir verið staðnir að því að káka eitthvað við filmuna. En tilkoma
Polaroidmyndavélarinnar hafði skapað nýja rannsóknarmöguleika á
þessu sviði – hún auðveldaði mjög að fylgjast með tilurð dulrænna
ljósmynda auk þess sem útkoma myndatökunnar verður ljós á nokkrum
sekúndum.
Rannsóknarmenn sem unnið hafa
með Serios hafa jafnan haft meðferðis eigin filmur og myndavélar,
stundum hafa þeir jafnvel tekið myndirnar sjálfir og beint
myndavélinni að hinum dularfulla Chicagobúa – og samt reyndist
myndefnið fullkomlega framandi að töku lokinni. Framandi myndefni
birtist þó ekki á öllum myndum Seriosar; sumar þeirra eru aðeins
yfirlýstar en aðrar mjög dökkar – þó ljósin við myndatökuna og aðrir
umhverfisþættir gefi ekki tilefni til slíkrar útkomu. Stundum hylur
hin dularfulla aðkomumynd allan flöt myndarinnar úr Polaroid-myndavélinni
en oft sýnir hún einnig hluta af Serios eða herberginu þar sem
tilraunin fer fram.
Hólkurinn
grunsamlegi
Getur Serios virkilega fest hugsanir sínar á ljósmyndir? Það er
með ólíkindum að frá upphafi hafa kænleg svikabrögð verið tekin með
í reikninginn, og efasemdarmenn hafa ekki þurft að skyggnast mjög
djúpt í málið til að grunsemdir þeirra hafi vaknað. Í upphafi ferils
síns þurfti Serios aðeins að horfa í myndavélina til að kalla fram
hinar stórfurðulegu ljósmyndir; en síðar tók hann að nota sérstakan
hólk sem hann heldur fyrir framan linsu myndavélarinnar meðan hann
einbeitir sér. Oft notar hann plasthólk sem lokaður er í annan
endann með sellófani en hinn með yfirlýstri filmu, sem sellófan
hefur verið strekkt yfir, – en stundum notar hann aðeins hólk sem
hann býr til á staðnum með því að rúlla upp pappírsræmu.
Tilganginn með notkun
sívalningsins segir Serios aðeins vera að koma í veg fyrir að fingur
hans myrkvi linsuna meðan á myndatöku stendur. Efasemdarmenn líta
hins vegar svo á að hólkurinn hafi annan og verri tilgang. Þeir
benda á að hann geti auðveldlega hulið svikatól sem innihéldi mynd
eða litskyggnu – og í þeirra augum er þetta hjálpargagn jafn
tortryggilegt og hattur sjónhverfingamannsina.
Tveir blaðamenn, Charles
Reynolds og David Eisendrath, settu saman smágert tæki, sem hægt var
að hylja í litlum pappírshólk, og tókst þeim að ná með því svipuðum
árangri og fram kemur hjá Serios. Greinargerð þeirra, sem birtist í
tímaritinu Popular Photography, færði efasemdarmönnum þann
"vitnisburð" sem þeir töldu sig þurfa um sviksemi Serios.
Tilraunaaðferðir
sem útiloka svindl
En dr. Eisenbud og fleiri rannsóknarmenn eru hins vegar
sannfærðir um að hólkurinn sem Serios notar innihaldi ekki
hjálpartæki af neinu tagi. Þeir vita vel af tilgátunni um falda
litskyggnu og segjast hafa komið sér upp tilraunaaðferðum sem
útiloka alveg svindl af því tagi. Serios er venjulega ekki fenginn
hólkurinn fyrr en hann finnur sig reiðubúinn að kalla fram
yfirskilvitlega mynd. Um leið og myndinni hefur verið smellt af er
svo hólkurinn tekin af honum og rannsakaður nákvæmlega. Hólkurinn er
þannig oftast ekki í höndum hans lengur en s.s. 15 sekúndur í einu,
en er þó undir ströngu eftirliti allan þann tíma einnig.
Við myndatökurnar er Serios
venjulega í stutterma skyrtu eða ber niður að mitti, sem gerir honum
óneitanlega óhægt um vik að fela nokkuð nálægt höndum sínum. Þar að
auki benda rannsóknarmenn á að þeir séu það nálægt þegar Serios
segir þeim að smella af, að þeir geti raunverulega séð í gegn um
hólkinn allan tímann og þannig gengið úr skugga um að hann innihaldi
engan svikabúnað.
Þá segja þeir að í fjölmörg
skipti hafi dularfullar myndir komið fram þegar einhver annar en
Serios hefur haldið á hólkinum og myndavélinni, og þar með verið fær
um að rannsaka hvort tveggja að vild.
Tveir kunnir amerískir
dularrannsóknamenn, dr. J.G. Pratt og dr. Iaw Stevenson, sem
framkvæmdu fjöldann allan af tilraunum með Serios, hafa gefið
eftirfarandi yfirlýsingu: "Við höfum sjálfir fylgst náið með Ted í
um það bil 800 skipti sem yfirskilvitlegar myndir hafa verið teknar
í návist hans, en höfum aldrei séð neitt grunsamlegt til hans,
hvorki fyrir né eftir myndatöku." Og alveg fyrir utan þá staðreynd
að Serios hefur aldrei verið staðinn að neinum leyniaðgerðum
varðandi myndatökurnar, þá bendir dr. Eisenbud á að eðli myndanna
sem Serios kallar fram útiloki allar þær svikatilgátur sem komið
hafa fram til þessa.
Serios bauð rannsóknarmönnum
sínum oft að koma með myndir í lokuðum umslögum sem hann reyndi
síðan að herma á Polaroid-myndir með sínum dulræna hætti.
Í fyrsta sinn sem dr.
Eisenbud sá Serios kalla fram yfirskilvitlega ljósmynd hafði
prófessorinn meðferðis tvær myndir af Kremlbyggingunum, og voru þær
í þykkum svörtum umslögum sem hann bar á sér. Ein af myndunum sem
Serios kallaði fram við þetta tækifæri var af háum turni, sem einn
nærstaddra bar samstundis kennsl á sem Vatnsturninn í Chicagoborg –
nokkuð sem hlaut að vera kunnuglegt í augum Serios.
Einkennilegar myndir
Þótt þetta væri nokkuð annað en Kremlbyggingarnar sem myndir dr.
Eisenbuds voru af, varð hann mjög hrifinn, þar sem þessi mynd var
ekki ósvipuð þeim formum sem hann hafði í huga þegar hún var tekin.
Það var svo ekki fyrr en
tveim árum síðar að dr. Eisenbud áttaði sig á nokkru í sambandi við
Kremlbyggingarnar – nefnilega Ivans-bjölluturninum, sem sást aðeins
að hluta á annarri mynd hans en var áberandi á hinni. Þá fyrst
uppgötvaði hann að þessum turni "svipaði mjög til" Vatnsturnsins í
Chicago – þannig að Serios virtist hafa hitt á rétt eftir allt
saman.
Og ennþá einkennilegri myndir
hafa komið fram í návist Serios. Í maí 1965 kallaði hann fram 11
mismunandi tilbrigði af einhverju sem virtist vera veslunar- eða
skrifstofuhúsnæði og var skiltið mjög áberandi á myndunum. Á tveim
þeirra er nafnið "The Old Gold Store" læsilegt á stórum blokkstöfum.
Tveim árum síðar voru borin kennsl á staðinn sem ferðamannaverslun í
Central City, Colorado. Nafni verslunarinnar hafði þá verið breytt í
"Old Wells Fargo Express Office". Nafnbreytingin, segir Eisenbud,
hefur ekki verið framkvæmd síðar en 1958 og trúlega fyrr, en
rannsóknarmönnum hefur þó ekki tekist að grafa upp neinar ljósmyndir
af versluninni frá fyrri tíð.
En þó hinar yfirskilvitlegu
ljósmyndir Serios séu eins og verslunin að öllu leyti nema hvað
varðar nafnið hafa undarleg umskipti orðið á stöfum á einni
myndanna, þannig að stafurinn "W" er þar í stað "O": "The Wld Gold
Store" - og stafurinn "W" er nákvæmlega þar sem hann myndi hafa
verið ef "Wells Fargo" hefði staðið á skiltinu. Svipað fyrirbæri
kemur fram á mynd sem sýnir tveggja hæða byggingu og áletrunina "Air
Division – Cainadain Moun –". Konunglega kanadíska riddaralögreglan
(The Royal Canadian. Mounted Police) bar kennsl á bygginguna sem
eitt af flugskýlum flugdeilda sinna, en bentu á hina einkennilegu
stafsetningarvillu sem rannsóknarmenn höfðu reyndar þegar tekið
eftir.
Tilraun
til að
ljósmynda fortíðina
Hafi Serios notað einhvers konar faldar litskyggnur til að kalla
fram myndir sínar þá hlýtur hann að hafa kákað við upprunalegu
myndirnar með afar kunnáttusamlegum hætti til að ná svo furðulegri
útkomu. Önnur mynd Serios, sem er mjög skýr, sýnir byggingu gegnt
óperuhúsi Central City, Colorado, en á myndinni hefur orðið
einkennileg brenglun. Tígulsteinaveggir hússins eru umbreyttir – á
mynd Serios virðast þeir vera úr hlöðnum múrsteini en byggingin er
raunverulega öll úr tígulsteini. Þá er einnig múrað fyrir alla
glugga á hinni yfirskilvitlegu mynd.
Vegna mynda sem þessara, sem
þóttu benda til að Serios væri að ljósmynda fortíðina (auk brenglaðs
raunveruleika), settu dr. Eisenbud og nokkrir meðrannsóknarmenn hans
upp tilraunaröð er fram fór á Náttúrusögusafninu í Denver,
Bandaríkjunum. Í nálægð hinna fornu hluta þar var vonast til að öfl
þau sem stóðu að ljósmyndum Serios myndu ná til einhvers sem væri
nokkurra þúsunda ára gamalt.
Serios var sjálfur hinn
bjartsýnasti og byrjaði á því að gera tilraun til að kalla fram
hugmynd er hann fékk af fornmanni sem var að kveikja eld.
Einkennilegar fígúrur birtust á nokkrum myndanna sem teknar voru við
þetta tækifæri, og sýnir sú áhrifamesta Neanderdalsmann í krjúpandi
stellingu.. En til nokkurra vonbrigða kom fljótlega í ljós að
myndavélin hafði síður en svo sótt þetta efni aftur til grárrar
forneskju. Einn viðstaddra, prófessor H. Marie Wormington, áttaði
sig þegar á að myndin var af líkani afhópi Neanderdalsmanna í fullri
stærð, sem er á Náttúrugripasafni Chicagoborgar.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|