Pýramídarnir eru tákn Egyptalands og minnisvarðar hinnar lítt
þekktu menningar sem þar blómstraði fyrir þúsundum ára. Þeir
hafa löngum þótt leyndardómsfullar byggingar því allar
samtímaheimildir um byggingu þeirra eru fyrir löngu glataðar.
Enginn veit með vissu hvernig eða hvers vegna Egyptar byggðu
þá en tilgátur um það eru margar til. Í þessari grein er því
fátt um skýr svör heldur verður einungis stiklað á stóru í
sögu pýramídarannsókna og greint frá nokkrum tilgátum.
Elsti pýramídinn
Á valdatíma þriðju konungsættarinnar í Egyptalandi, um 2650 f.
Kr. er álitið að fyrsti pýramídinn hefi verið reistur,
þrepapýramídi Zosers faraós. Hann var byggður nálægt hinni
fornu egypsku höfuðborg Memphis, sem er skammt fyrir sunnan
Kaíró. Álitið er að þessi fyrsti pýramídi sé til vitnis um
fyrstu tilraun Egypta til að byggja grafhýsi úr tilhöggnum
steini því eldri grafhýsi voru gerð úr leirsteinum.
Álitið er að upprunalega hafi þessi pýramídi einungis verið
eitt geysimikið steinþrep, og hafi það verið reist yfir
grafhýsi sem höggvið hafði verið um þrjátíu metra niður í
klettinn sem pýramídinn stendur á. En áður en
byggingameistararnir luku við steinþrepið, er sem þeir hafi
fengið hugmynd sem markaði upphaf pýramídaaldar – þeir bættu
við þrem þrepum og gerðu fjögurra þrepa pýramída. Loks bættu
þeir við fimmta þrepinu og var þessi fyrsti pýramídi þá orðinn
rúmlega 60 metra hár.
Pýramídaöldin
Afkomendur Zosers faraós létu byggja nokkra þrepapýramída áður
en þeir réðust í að byggja fyrsta pýramídann sem hafði slétta
veggi við Maidum, um 65 km suður af Kairó. Þar eru nú rústir
einar en álitið er að þessi pýramídi hafi verið 75 metra hár
og mjög brattur. Til allrar ógæfu var hann byggður á sandi í
stað kletts og hefur því hrunið – hugsanlega áður en lokið var
við hann.
En byggingameistararnir virðast hafa lært af þessu. Sneferu,
fyrsti faraó fjórðu konungsættarinnar (frá um 2500 f. Kr. til
2400 f. Kr.) lét byggja tvo pýramída við Dashur, rétt sunnan
við Saqqara. Síðar voru stóru pýramídarnir þrír við Giza
reistir: hinn mikli Keops-pýramídi, annar álíka mikill sem
kenndur er við Khafre og minni pýramídi sem kenndur er við
Menkaure. Keops-pýramídinn er einstæður vegna þess að inni í
honum eru göng og hvelfingar, en í öllum öðrum egypskum
pýramídum er aðeins einn gangur sem liggur að grafhvelfingu
undir pýramídanum. Hann er jafnframt stærstur allra
pýramídanna. Upphaflega mun hann hafa verið 146 metra hár en
grunnlína hans um 231 metri.
Hvorki fyrr né síðar lögðu Egyptar í að reisa slíka
völundarsmíð sem Keops-pýramídann. Fimmtu og sjöttu
konungaættirnar héldu að vísu áfram að reisa pýramída við
Saqqara og Abu-Sir, en jafnvel í hinum vönduðustu þeirra eru
steinarnir gróflega tilhöggnir og fæstir þessara pýramída hafa
staðist tímans tönn. Um 2189 f. Kr. klofnaði veldi faraóanna í
smáríki og var þá öllum pýramídasmíðum hætt. Þegar ríkið
sameinaðist á ný, frá 2000 f. Kr. til 1750 f. Kr., var að vísu
tekið til við pýramídasmíðar á ný en þeir pýramídar voru bæði
smáir og flestir þeirra gerðir úr leirsteini. Það voru síðustu
pýramídarnir sem Egyptar byggðu.
Pýramídinn mikli
Keops-pýramídinn sem sjá má í dag er ekki hinn sami og
fornmenn litu. Upprunalega var hann allur klæddur hvítum
kalksteini sem endurvarpaði sólargeislunum, enda nefndu
Forn-Egyptar hann Ljósið. Veggbjörgin féllu nákvæmlega saman
svo samskeyti urðu varla greind. Hinn mikli þríhyrningur, sem
gnæfði af gulri sandbreiðunni, hefur verið óvænt sýn og
gagntakandi – hann logaði allur eins og tröllaukin skuggsjá og
hefur sést úr mikilli fjarlægð.
Í lok tólftu aldar hefur kalksteinsklæðning pýramídans mikla
enn verið á sínum stað, því arabíski ferðalangurinn Abdul
Latif skrifar um pýramídann á þessa leið: "Á steinana var
fornletur ritað og er það nú óskiljanlegt. Ég hef engan mann
hitt, á öllu Egyptalandi, sem skilur þetta letur. Og
áletranirnar eru svo margar, að væri eftirrit gert, aðeins af
yfirborði pýramídanna tveggja, myndi það fylla meira en sex
þúsund blaðsíður."
Engar áletranir er framar að finna á veggjum Keops-pýramídans.
Ljóst er að grjótið í veggklæðningu hans hefur verið sótt til
Mokattam-hæðanna, sem eru suð-austur af Kairó. Mikill
landskjálfti varð á Egyptalandi tveimur árum eftir að Abdul
Latif var þar á ferð, og hrundi þá Kaíróborg til grunna. Var
þá ráðist á pýramídana og þaðan tekið byggingarefni til að
reisa hina föllnu borg. Keops-pýramídinn var rúinn nær allri
klæðningu sinni og toppur hans skemmdur þannig að nú er hann
um 137 metrar á hæð. Þessi eyðileggingarstarfsemi stóð
áratugum saman og létu hinar fornu byggingar þá mikið á sjá.
Leiðangur Al Mamouns kalífa
En þar kom að menn réðust til inngöngu og voru þeir að leita
að fjársjóði, sem munnmælasögur hermdu að geymdur væri í
pýramídanum. Árið 820 e. Kr. safnaði kalífinn Al Mamoun
snjöllustu verkfræðingum sínum og húsasmiðum saman ásamt
verkamönnum á hástéttunni við Giezeh, og bauð þeim að opna
Keops-pýramídann.
Þeir höfðu hvorki uppdrætti né vinnuteikningar, en fóru eftir
gömlum sögusögnum um að innganginn væri að finna á norðurhlið
pýramídans. Þess má geta að Al Mamoun kalífi var sonur Harouns
Al Raschid kalífa sem frá er sagt í "1001 nótt". Hann var
ráðinn í að finna hina miklu fjársjóði sem munnmæli hermdu að
faraóarnir hefðu fólgið í pýramídanum.
En þeir, sem byggðu pýramídann, virðast hafa gert ráð fyrir
því að menn myndu reyna að brjótast þar inn. Þess vegna hafa
þeir komið innganginum fyrir nokkrum fetum utar miðjum vegg,
og töluvert hærra uppi en ætla mátti líklegt. Því fór það svo,
að starfsmenn Al Mamouns strituðust við að rjúfa pýramídann í
nokkra mánuði án þess að sjá votta fyrir gangi eða herbergi.
Hefðu þeir ekki haft önnur ráð en að nota hamar og meitil, er
hætt við að starfið hefði enst þeim öll stjórnarár konungs
þeirra og meira til. En þeir voru nógu slyngir til að kveikja
smáelda við veggina, og þegar grjótið var orðið glóandi
skvettu þeir á það köldu ediki, svo það sprakk. Sagt er að
tveir járnsmiðir hafi unnið dag og nótt við að hvetja
meitlana, sem fljótt urðu bitlausir á hinu harða grjóti.
Þannig var hamast á hinni traustu smíð Forn-Egypta vikum
saman. Sagan segir að þegar mennirnir höfðu grafið sig innávið
tæplega þrjátíu metra leið hafi þeir verið að því komnir að
gera uppreist og neita að halda áfram þessu vonlausa erfiði.
En þá heyrðu þeir stein falla – hljóðið kom innan að og aðeins
skammt frá staðnum, þar sem þeir voru að vinna.
Ráðist til inngöngu
Eftir það var unnið af kappi og ánægju, og var brátt opin leið
inn í hinn upprunalega inngang. Að því loknu var tiltölulega
auðvelt að komast upp ganginn og finna leynihurðina sem engum
hafði tekist að finna utanfrá. Hurð þessi var hugvitsamlega
gerð steinhella, sem í engu skar sig úr á yfirborði
pýramídans. Þegar ýtt var á hana hallaðist hún út og kom þá
inngangurinn í ljós. Steinhellan var í fullkomnu jafnvægi og
lék á ás en lóð voru notuð til að vega upp á móti hinni miklu
þyngd. Tíu hurðir hindruðu komumenn á ganginum upp í
konungsherbergið, en það voru allt tréhurðir nema ein
leynihurð úr steini, sem opna mátti með sama hætti og
steinhelluna við innganginn.
Menn Al Mamouns kalífa sáu þó fljótt, er þeir voru loks komnir
inn í hinn upprunalega inngang, að ekki mundi allt erfiði
þeirra á enda. Ganginum var algerlega lokað af heljarstóru
granítbjargi. Ekki þótti líklegt, að gangurinn hefði verið
gerður í þeim tilgangi að láta hann enda í sjálfheldu – þeir
reyndu því að höggva sér leið, brjótast gegnum þennan ægilega
farartálma, en það mistókst. Pýramídasmiðirnir virðast hafa
leitað um allt Egyptaland að harðasta grjóti, sem þar var að
finna, áður en þeir völdu þetta granítbjarg.
Það vildi þó innrásarmönnunum til happs, að byggingarefnið til
hliðar við granítbjargið var hvítur kalksteinn. Er sú
steintegund miklu mýkri og því auðveldari viðfangs. Þeir
hjuggu því göng samhliða granítbjarginu og brutu sér leið um
fáein fet – og komust þannig framhjá granítklettinum og inn í
önnur göng. Ljóst er, að innganginum í innri göngin hafði að
ásettu ráði verið lokað með þessari tröllauknu neglu. Hún var
keilumynduð, margar smálestir á þyngd og stóð nákvæmlega heima
í munnanum á göngunum.

Göng og herbergi í
Keops-pýramídanum
Hæð (upprunaleg) 147
metrar
Lengd grunnlínu 230 metrar
Massi byggingarefnis 6,5 milljón tonn
Flatarmál grunflatar 5,3 hektarar
Pýramídarnir í Egyptalandi eru sígild
ráðgáta. Ekki eru allir sammála því að þessar stórkostlegu
byggingar hafi verið byggðar í þeim tilgangi að verða grafhýsi
– því hefur verið haldið fram Keops-pýramídinn hafi gengt
lykilhlutverki í starfsemi hinna fornu launhelga Egyptalands
og þar hafi farið fram vígslur. Sjáendur hafa fullyrt að enn
séu ekki öll kurl komin til grafar og í pýramídanum, eða undir
honum, séu salir sem geyma dulvísindaleg leyndarmál, þar sé að
finna löngu gleymdar heimildir og þekkingu frá dögum hins
forna Atalntis.
Hið forna Atlantis.
Á síðari tímum hafa hafa verið settar
fram ýmsar hugvitssamlegar kenningar sem tengjast pýramídanum.
Dulspekingurinn Adam Ruterford áleit t.d. að spásögn um sögu
mannkyns væri sett fram í lengdareiningum ganga og herbergja
inni í pýramídanum með táknrænum hætti og rökstuddi þessa
kenningu sína af miklu andríki.
Göngin framundan lágu uppávið með
svipuðum halla og fyrri göngin lágu niður á við. Foringjar Al
Mamouns og starfsmenn hans skriðu upp ganginn, sem var minna
en fjögur fet á hæð og litlu meira en þrjú fet á breidd. Við
ljósið frá blysum sínum sáu þeir ekki nema bera veggina,
þangað til þeir komu þar sem göngin urðu lárétt. Þarna voru í
rauninni gangaskil, því nú tók við ranghali, mjög hár undir
loft, sjö sinnum hærri en gangurinn, en hins vegar mjótt op,
líkast námuopi, sem lá niður í undirdjúp pýramídans.
Inni í pýramídanum
Hinir óboðnu gestir héldu áfram för sinni og þokuðust
kengbognir inn láréttu göngin. Þá komu þeir loks í stórt
herbergi en það urðu þeim hin mestu vonbrigði að herbergið var
alveg tómt. Veggirnir voru alltaf sléttir og áletrunarlausir,
og ekkert benti til þess að í pýramídanum væri fjársjóð að
finna.
Þeir snéru aftur að gangaskilunum og hófu rannsókn á hinum
mikla og háa ranghala, sem á síðari árum hefur hlotið nafnið
"Svalirnar miklu". Þakið var einkennilegt – það var hallandi
og í sjö hlutum, og slútti hver hluti fram yfir þann næsta.
Mennirnir tóku nú að feta sig upp eftir sléttu og hálu
gólfinu, milli fægðra granítveggja. Gólfið hækkaði jafnt og
þétt upp í hundrað og fimmtíu fet og voru lágar, grópaðar
steingirðingar beggja vegna. Þar sem svalirnar tóku enda, var
hátt steinþrep og varð það þeim Þrándur í Götu. Þeir klifruðu
yfir þrepið og kom þar inn á slétt, lárétt gólf í löngum og
þröngum gangi og þaðan inn í forsal. Þeir gengu aðeins fáein
spor enn, smeygðu sér undir sterklega grindahurð, sem varð á
vegi þeirra, og komu þá í stórt herbergi, sem er ofarlega í
miðjum pýramídanum. Þetta herbergi hefur síðar verið nefnt
konungsherbergið, en herbergið sem þeir komu fyrst inn í,
hefur verið nefnt drottningarherbergið (Sjá mynd).
Konungsherbergið er fóðrað með dökkum granítbjörgum,
geipistórum. Í loftinu eru níu risastórir bitar úr sama efni,
og er nú vitað, að þeir eru stærstu björgin í öllum
pýramídanum. Vegur hvert þeirra um 70 smálestir. Erfitt er að
gera sér í hugarlund hvernig smiðirnir hafa farið að því að
koma þessum björgum á sinn stað.
Enn urðu Al Mamoun kalífi og menn hans fyrir miklum
vonbrigðum. Konungsherbergið var tómt. Í því var ekkert að
finna nema opna steinkistu. Og í kistunni var ekkert nema ryk.
Ranghalar neðanjarðar
Þeim fannst ótrúlegt að Forn-Egyptar hefðu byggt slíkt
völundarhús án þess að hafa ætlað því einhvern tilgang. Þeir
hófu æðisgengna leit – rifu upp gólfið í konungsherberginu,
grófu holu í einu horninu, hjuggu árangurslaust í hina sterku
veggi og leituðu í ofsa að hinum leynda fjársjóði en urðu loks
frá að hverfa.
Enn áttu þeir eftir að rannsaka tvo staði: Það var
neðanjarðargangur í beinu framhaldi af hinum upprunalega
inngangi og hið djúpa þrönga op, námuopið. Eftir
neðanjarðarganginum komust þeir í mjó jarðgöng. Þar sem þau
enduðu var lítill klefi, höggvinn út í bergið og var það lágt
til lofts, aðeins seilingarhæð. Gólfið var grýtt og
ógreiðfært. Þeir nefndu klefann "Djúpið" og þar var ekkert að
finna nema lausagrjót og dust. Við vegginn fjær þessum
inngangi voru líka mjó göng höggvin í bergið. Þeir urðu að
skríða á maganum eins og ormar til þess að komast inn í þau,
og andlit þeirra voru aðeins fáa þumlunga frá gólfinu. En í
þeim neðanjarðargöngum var heldur ekkert að finna og þau
lokuðust skyndilega við klettavegg. Eftir var þá aðeins
námuopið. Það var næstum lóðrétt og ekki hægt að rannsaka það
nema með því að síga í það, og voru menn, einn og einn, látnir
síga niður í kolsvart myrkrið. Þegar komið var niður um sextíu
fet, varð fyrir þeim úthöggvinn klefi, óvandaður að gerð, og
var hann aðeins útvíkkun á námuopinu. En í gólfi klefans var
áframhald af opinu. Það var eins og djúpur brunnur á að líta
og kom mönnum saman um að brunnur mundi það vera en þeirri
rannsókn luku þeir aldrei. ("Brunnurinn" var síðar kannaður og
reyndist enda við botn pýramídans.)
Þýtt og endursagt:
Bragi Óskarsson

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|