Ég ákvað að hefja gagnárás – af
öllum lífs og sálar kröftum
ÞAÐ ER hreint ótrúleg saga sem
Garrett Porter frá Topeka, Kansas í Bandaríkjunum hefur að
segja. Þegar hann var níu ára fékk hann heilaæxli sem virtist
ólæknandi. Hér var um slæmt tilfelli að ræða og læknar gáfust
um síðir upp við að lækna hann og sögðu að hann gæti alls ekki
lifað lengur en í hálft ár.
Örvænting
Heilaæxlið var komið á lokastig. Það var farið að hafa áhrif á
jafnvægisskyn drengsins og sjóntaugar. Læknar höfðu m.a. reynt
geislameðferð en heilauppskurður var talinn óframkvæmanlegur
vegna legu æxlisins í heilanum.
Í
örvæntingu sinni snéru foreldrar Garretts sér til hinnar
þekktu Menninger-stofnunar, sem vinnur út frá sálfræðilegum
hugmyndum og þeirri kenningu að fólk geti læknað sig sjálft,
sé sjálfstraustið nógu mikið.
Einn læknir stofnunarinnar, Patricia Norris, tók hinn
dauðsjúka Garrett í meðferð í október 1978, þegar komið var í
ljós að geislameðferðin skilaði ekki árangri. Hún byrjaði
þegar að kenn Garrett aðferð sem byggði m.a. á "biofeedback"-tækni
(samheiti aðferða til að fylgjast með ósjálfráðri
líkamsstarfsemi, t.d. með aðstoð rafeindatækja) . Þessi aðferð
eflir meðvitund um ósjálfráða líkamsstarfsemi og er að þessu
stefnt með það fyrir augum að ná tökum á henni – t.d.
hjartslætti eða breyttum blóðþrýstingi, og jafnframt þeim
geðbrigðum sem henni eru tengd.
Stjörnustríð
Í huganum sá Garrett sjúkdóm sinn fyrir sér sem "stjörnustríð"
– hans eigin líkami var sérstakt sólkerfi en æxlið fjandsamleg
pláneta sem reyndi að ná yfirhöndinni Garrett ímyndaði sér að
hann væri sjálfur foringi flokks vopnaðra geimskipa sem réðust
að árásargeimskipum fjandmannanna. Hann átti í þessu innra
stjörnustríði í hálftíma á hverju kvöldi. Ástand hans hélst
svipað fram í júní 1979. En í október 1979 – ári eftir að
hefðbundinni meðferð var hætt – sagði Garrett dr. Norris að
hann yrði ekki lengur eins áþreifanlega var við "fjandmennina"
í "hugarstríði" sínu.
Hið ótrúlega hafði gerst, að heilsu Garretts hafði farið
töluvert fram. Hann fékk jafnvægisskynið aftur, sjónin batnaði
– og í febrúar 1980 leiddi rannsókn í ljós að æxlið í heilanum
var horfið.
Garrett hefur skrifað bók um sjúkdóm sinn og hvernig honum
tókst að sigrast á honum,
Why me? (Hvers
vegna ég?). Þar segir hann frá því hvernig hann sem barn var í
mikilli óvissu um hve hættulegur sjúkdómur hans væri. Hann
segist hafa verið ógurlega hræddur og angistin hafi aldrei
látið hann í friði. "Eitt kvöldið þegar ég var háttaður sagði
ég við sjálfan mig að ég hlyti annað hvort að gefast upp eða
berjast af öllum mætti. Og ég ákvað að hefja gagnárás af öllum
lífs- og sálarkröftum," segir Garrett Porter.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|