Einkennileg sigling
– Hún hlýtur að vera með bilað stýri, tautaði Deveau
stýrimaður.
– Þeir hefðu þá lagt til og gert við það, svaraði Morehouse
skipstjóri stuttur í spuna og seildist eftir kíkinum. Þó að
hann grandskoðaði skipið hátt og lágt kom hann hvergi auga á
nokkra hreyfingu um borð. Er skipið var komið í kallfæri tók
hann kallarann og raust hans barst yfir hafflötinn. En
ekkert svar barst frá aðkomuskipinu.
Eftirvæntingin um borð í Dei Gratia hafði nú breyst í geig
og ótta. Menn voru nú ekki í nokkrum vafa um að þarna færi
skip sem plága hefði komið upp í og væru skipverjar allir
ósjálfbjarga. Er þeir réru yfir á skipsbátnum bjuggust þeir
við hinni versu aðkomu og er komð var að skipshlið kallaði
stýrimaður nokkrum sinnum. Eina svarið sem barst var
dragalegt marr í köðlum og rám. Og nú blasti nafn skipsins
við: Mary Celeste – Boston.
Þeir
réðust nú til uppgöngu ekki lausir við hik, því allt benti
til að þeim mundir mæta óhugnanleg sjón. En á þiljum Mary
Celeste var hins vegar ekkert óvenjulegt að sjá er upp var
komið. Kaðlar voru hringaðir og vel frá öllu gegnið.
Stýrimaðurinn veitti því athygli að tjörupensill lá á
hálftjargaðri fjöl og leit þetta út eins og skipverji hefði
brugðið sér frá verki sínu og kæmi aftur á hverri stundu.
Deveau stýrimaður kallaði aftur og skelkuð rotta hljóp fram
þilfarið. Þetta vakti hjá honum ákveðinn grun. Hann gekk að
borðinu og snerti við tjörunni. Hún var alveg þurr, og
greinilegt að hlaupið hafði verið frá verkinu fyrir mörgum
dögum.
Allt í
stökustu reglu –
en áhöfnin horfin
Nú tóku þeir eftir því að annar lestarhleri skipsins hafði
verið sprengdur upp en farmurinn, sem var eikartunnur
virtist alveg óhreyfður. Ef til vill höfðu hinir ókunnu
skipverjar verið að viðra lestina. Þeir rannsökuðu nú
skipið. Í borðsalnum var dekkað borð og voru matarleifar á
diskum eins og hlaupist hefði verið frá borðhaldinu í miðjum
klíðum. En maturinn var tekinn að rotna. Í klefa skipstjóra
voru barnaleikföng um allt gólf og þar stóð saumavél á
borði. Upp á saumavélinni var fingurbjörg – sem bar þess
glöggt vitni að skipið hafði verið yfirgefið í blíðviðri.
Allt var í stökustu reglu um borð og leiðabókin lá á sínum
stað. Stýrimaður fletti upp í henni og las síðusut færsluna
sem færð hafði verið 25. nóvember – eða níu dögum fyrr . . .
Dei Gratia og Mary Celeste komu til Gíbraltar rétt fyrir
jólin. Hafði Morehouse skipstjóra tekist að sigla báðum
skipunum til hafnar þó þannig yrðu áhafnir í knappasta lagi.
Hann mætti þegar mikilli tortryggni og var spurður í þaula
er hann gaf sjódómnum skýrslu. Orðrómur komst á kreik að
hann hefði staðið að grimmúðlegu sjóráni og látið myrða alla
áhöfn Mary Celeste – menn fundu hreinlega enga aðra skýringu
á hvarfi skipshafnarinnar. Morehouse skipstjóra tókst að
hreinsa sig af þessum hroðalega áburð, sem auðvitað var
alveg úr lausu lofti gripinn. Staðreyndin var að Mary
Celeste hafði siglt mannlaus í tíu sólarhringa og einginn
vissi hvað um áhöfnina hafði orðið. Brátt var nafn skipsins
heimsþekkt en hið einkennilega hvarf skipshafnarinnar
reyndist torleyst ráðgáta.
Margar skýringar hafa verið settar fram um hvað hafi gerst
um borð í Mary Celeste – misjafnlega viturlegar eins og
gengur. Tíu manns höfðu verið um borð í skipinu er lagt var
út höfn: Benjamin S. Briggs skipstjóri, stýrirmennirnir
Richardson og Gilling, fimm hásetar, kona skipstjórans,
Sarah Briggs, og tveggja ára dóttir þeirra, Sophia. Farmur
Mary Celeste var spíritus og olía, og reyndist óhreyfður.
Eigur skipverja voru einnig á sínum stað. Ekkert fannst sem
benti til að um sjórán hefði verið að ræða en greinilegt var
að áhöfnin hafði yfirgefið skipið í skyndingu. Auk
lífbátsins, sem var um borð er áhöfnin af Dei Gratia kom um
borð, hafði léttbátur verið meðferðis í Mary Celeste – en
hann var horfinn. Einnig voru skipsskjöl, sjóúr og sextantur
horfin úr skipinu og má telja nokkuð víst að þetta hefur
Briggs skipstjóri gripið með sér er hann fór frá borði í
léttbátinn.
Sögusagnir og
ólíkindaskýringar
Fjölmargar sögusagnir mynduðust um Mary Celeste og voru þær
gjarnan hafðar eftir einhverjum sem átti að hafa komist af –
en undantekningarlaust fundust þessir ágætu skipbrotsmenn
ekki í áhafnarskrá skipsins. Árið 1029 kom út bók sem að
megninu til byggði á frásögn "skipbrotsmannsins" John
Pemerton, er þóttist hafa verið í áhöfn Mary Celeste, og
varð hún metsölubók beggja vegna Atlantshafsins. Það
sannaðist þó fljótlega að John þessi Pemerton hafði aldrei
um borð í skipið komið, enda var frásögn hans næsta
reyfarakennd. Árið 1884 birtist smásaga í bresku tímariti
eftir ungan lækni, Arthur Conan Doyle, og var þetta einhver
fyrsta ritsmíð hans. [A. C. Doyle varð síðar frægur fyrir
sögur sínar af leynilögreglumanninum Sherlock Holmes – Doyle
varð einnig einn af frumkvöðlum spíritismans] Í sögunni var
lauslega stuðst við heimildir af fundi skipsins, en sagan
var að öðru leyti skáldskapur. Doyle misritaði nafn skipsins
Marie Celeste og hefur sú misritun lengi loðað við síðan.
Menn hafa verið óþreytandi við að finna lausn ráðgátunnar.
Sumir héldu því fram að hræðilegur sæormur hefði sest að
skipinu og gætt sér á áhafnarmeðlimum, einum af öðrum. En
eftir að menn misstu almennt trú á tilvist sæskrímsla hafa
aðrar ólíkinda-skýringar komið fram. Frásagnir eru til þess
efnis að fljúgandi diskar hafi lent á sjónum við hliðina á
skipinu og hreinlega numið áhöfnina á brott. Þá eru þeir
menn til sem fullyrða að Mary Celeste hafi siglt inn í
fimmtu víddina og þar hafi áhöfnin stigið frá borði í
fjarlægri framtíð – eða fjarlægri fortíð.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|