Komið hefur í ljós að 3000 ára gömul lík sem fundust í mógröfum á skoskri eyju fyrir áratug eru samsett úr líkamshlutum sex manneskja. Nýjar rannsóknir á nærliggjandi beinum, þar sem reiknað var út hlutfall samsæta og DNA rannsakað leiddu þessar niðurstöður í ljós.
Líkunum var komið fyrir í fósturstellingu um 300-500 árum eftir andlát og varðveittust afar vel í mógröfunum vegna sýrustigsins þar. Vísindamenn drógu þá ályktun af beinunum að þau hefðu verið fjarlægð úr líkunum, sem grafin höfðu verið í mógrafir, og því næst grafin á ný.
Ákaflega sérkennilegur fundur
Vísindamenn áttuðu sig á að eitthvað væri bogið við þennan mjög svo sérstaka fund en líkin fundust undir húsarústum frá 11. öld á eynni South Uist. Í samtali við National Geographic greindi Terry Brown, prófessor við Manchesterháskóla, frá því að kjálki mýrarkonunnar hreinlega passaði ekki við aðra hluta höfuðkúpunnar. Brown bar því saman DNA-sýni úr kjálkabeini, handlegg, höfuðkúpu og fótlegg mýrarkonunnar og í ljós kom að beinin voru af ýmsu fólki sem ekki átti sömu móður. Mýrarkonan var gerð úr líkamshlutum frá einu og sama tímabilinu en mýrarmaðurinn var samsettur úr líkamshlutum fólks sem dó með hundraða ára millibili. National Geographic gekk svo langt að segja að mýrarfólkið minnti einna helst á Frankenstein úr samnefndri sögu eftir Mary Shelley.
Helgisiðir horfinna þjóðarbrota?
Það er vísindamönnum hulin ráðgáta hvers vegna íbúar þorpsins grófu líkin upp og fjarlægðu beinagrindina úr þeim auk þess sem ekki er vitað hvað liggur að baki því að skeyta mörgum líkömum saman í einn. Brown lét sér detta í hug að heimamenn hefðu verið hagsýnir: „Kannski datt höfuðið af einu líkanna og annað var sett á í staðinn," sagði prófessorinn. Önnur tilgáta er sú að samsetning líkanna hafi verið úthugsuð og þjónað þeim tilgangi að skapa áþreifanlegan forföður sem gerður var úr fjölmörgum ættliðum. Sennilegt þykir að hinir sameinuðu líkamar tengdust helgisiðum sem eru óþekktir með öllu í dag.
Nánar er fjallað um rannsóknina á mýrarkonunni í nýjasta tímariti Journal of Archeaological Science.
|