Hér er gengið út
frá því að átt sé við hvenær Homo, ættkvísl manna,
hafi komið fram.
Í svari við spurningunni: Hvar í heiminum er talið að
mannkynið sé upprunnið? eftir Haraldur Ólafsson kemur meðal
annars fram að talið sé að fyrir fimm til sex milljónum ára
hafi verið komin fram í Afríku tegund sem þróaðist til
nútímamannsins. Okkur mundi þó sjálfsagt ekki finnast við
eiga mikið sameiginlegt með þessum fyrstu mannlíku verum.
Elsta tegundin af ættkvísinni Homo er Homo
habilis eða hinn handlagni maður. Tegund þessi lifði í
austurhluta Afríku fyrir 2.5 – 1,8 milljónum ára. Margt í
líkamsgerð þessara frummanna var þó ólíkt nútímamanninum,
þeir voru til dæmis töluvert minni, handleggjalangir og
heilarými þeirra einungis um helmingur þess sem gerist hjá
mönnum í dag. Talið er að þeir hafi búið til og notað
frumstæð verkfæri.
Af öðrum frummönnum má nefna Homo erectus eða hinn
upprétta mann. Hann var kominn fram í Afríku fyrir allt að 2
milljónum ára og breiddist þaðan út til Evrópu og Asíu. Hinn
upprétti maður líktist nútíma manninum aðeins meira en
handlagni maðurinn, var hærri en fyrri mannverur og með
stærri heila. Hann notaði þróaðri verkfæri en forverar hans.
Hinn upprétti maður var enn á ferli fyrir um 200.000 árum og
jafnvel enn síðar.
Nær okkur í tíma er Homo neanderthalensis eða
neanderdalsmaðurinn sem var uppi á árabilinu frá því fyrir
um það bil 120.000 árum og þar til fyrir um 28.000 til
30.000 árum. Mest af leifum neanderdalsmannsins hafa fundist
í Evrópu en einnig í Asíu. Hann var náskyldur nútímamanninum
sem teljumst til, en þó sýna nýjustu rannsóknir að allnokkur
munur er á erfðaefni neanderdalsmanns og nútímamanns eins og
Haraldur Ólafsson kemur inn á í svari við spurningunni:
Hvaða
dýr veiddi Neanderdalsmaðurinn?
Ekki fræðimenn á eitt sáttir um það hvenær nútímamaðurinn,
Homo sapiens sapiens, kom fyrst fram (ekki frekar
en uppruni og þróun fyrri tegunda af mannættkvíslinni eru
óumdeildar) en ein kenningin er sú að hann þróaðist í Afríku
fyrir um 200 þúsund árum. Fyrir rúmum 100 þúsund árum hóf
hann svo útrás sem náði til flestra meginlandanna fyrir um
40 til 50 þúsund árum. Síðast náði hann þó til Ameríku en
þangað kom nútímamaðurinn fyrst fyrir um það bil 20 þúsund
árum. Um þetta er fjallað í svari Kristjáns Mímissonar við
spurningunni:
Hverjir voru krómagnon-menn?
Sú tegund manna
sem kallast venjulega Homo neanderthalensis var uppi
á árabilinu frá því fyrir um það bil 120.000 árum og þar til
fyrir um 28.000 til 30.000 árum. Fræðiheitið er reyndar
H. sapiens neanderthalensis, en þar eð ekki er auðvelt
að greina milli undirtegunda manna þá er oft talað um
Archaic Homo sapiens. Neanderdalsmaður (svo heitið sé
íslenskað) var vissulega náskyldur nútímamanninum, H.
sapiens sapiens, sem við teljumst til, en þó sýna
nýjustu rannsóknir að allnokkur munur er á erfðaefni
neanderdalsmanns og nútímamanns. Þó er ekki víst að sá munur
hafi verið svo mikill að þeir hafi ekki getað átt saman frjó
afkvæmi.
Þegar búið er að ákvarða á hvaða tímaskeiði
neanderdalsmaðurinn var uppi þá er næst að átta sig á hvar
hann hafðist við. Langflestar minjar um hann eru frá Evrópu,
einkum þá Frakklandi suðvestanverðu, en leifar hans hafa
fundist víðar í álfunni, allt frá Vestur-Evrópu austur um
þau svæði sem heyrðu til hinnar gömlu Júgóslavíu. Ennfremur
hafa merkilegar minjar hans fundist í Ísrael og í Shanindar
í Zagrosfjöllum í Íran.
Neanderdalsmaður hefur sem sagt verið uppi á kuldaskeiði og
lifnaðarhættir hans hafa tekið mið af þeirri staðreynd.
Vissulega hefur hann ekki verið í sífelldum kulda við
jökulbreiður, heldur hefur loftslag verið breytilegt því að
á austursvæðinu hefur hitastig verið allmiklu hærra en í
Evrópu á sama tíma. En mataræði neanderdalsmannsins hefur
auðvitað verið háð þeim veiðidýrum sem höfðust við á sömu
slóðum og hann. Það er því sjálfgefið að bein hreindýra eru
mjög algeng í bústöðum hans, sömuleiðis hrossbein og bein úr
nautpeningi. Einnig bein loðfíla, bjarna og nashyrninga.
Hreindýr og önnur hjartardýr hafa verið mikilvægustu
veiðidýrin. Finnast sums staðar merki þess að kjötbirgðir
hafi verið geymdar í steindysjum. Sú geymsluaðferð þekkist
meðal veiðimanna og hirðingja í Noður-Evrópu og Asíu
norðanverðri.
En fleira er matur en feitt kjöt. neanderdalsmaðurinn hefur
einnig aflað sér fæðu úr jurtaríkinu. Leifar ávaxta, hneta
og rótarávaxta finnast í híbýlum hans, og líklegt er að hann
hafi ekki fúlsað við smádýrum sem á vegi hans urðu frekar en
aðrir veiðimenn og safnarar.
H. neanderthalensis er merkileg tegund sem lifði á
svipuðum slóðum og nútímamaðurinn um langan aldur, en svo
hverfur hann úr sögunni fyrir nær þrjátíu þúsund árum. Hvað
olli hvarfi hans? Það veit enginn en kenningarnar eru
margar, og heillandi að kanna hvað veldur því að einn hópur
manna heldur velli og annar hverfur án þess að neitt liggi í
augum uppi um ástæðurnar. Neanderdalsmaðurinn var góður
veiðimaður og þó að tæki hans hafi ekki verið ýkja
fullkominn eru þau samt vellöguð til sinna nota, sterkleg og
hentug. Þessi merkilegi maður hefur líklega verið einna
fyrstur til að velta fyrir sér gátum lífs og dauða, en það
er önnur saga.
Neanderdalsmenn voru uppi frá því fyrir um 130.000 árum og
þar til fyrir rétt innan við 30.000 árum. Þeir voru því uppi
á ísaldarskeiði í um það bil hundrað þúsund ár. Þeir hafa
nokkra sérstöðu meðal yngri tegunda homo og er deilt
um hvort þeir hafi verið hlekkur í þróunarkeðju hans í þeim
skilningi að tegundin hafi þróast í nútímamanninn, það er að
segja okkur sem nú erum uppi. Nýlegar rannsóknir á
erfðamengi hans sem tekist hefur að vinna úr beinum benda
til þess að neanderthalensis hafi verið sérstök
undirtegund sem ekki þróaðist frekar. Þó er ekki loku fyrir
það skotið að einhver blöndun hans við nútímamanninn hafi
átt sér stað.
Auk margs sem er harla forvitnilegt um neanderdalsmanninn er
að hann verður, að því er best er vitað, fyrstur manna til
þess að búa um lík hinna látnu. Neanderdalsmenn bjuggu
gjarnan í hellum, eða réttara sagt: Þar hafa fundist margar
minjar um búsetu þeirra. Víða hafa fundist merki þess að
þeir grófu hina dauðu í hellisgólfinu. Á nokkrum stöðum í
Frakklandi hafa fundist grafir neanderdalsmanna í
hellisgólfum.
Í Krapina í Króatíu hefur fundist heill grafreitur þar sem
greinilega hefur verið búið um líkin og þau lögð í sérstakar
stellingar. Þessar grafir eru 70.000 ára gamlar. Á
Karmelfjalli í Ísrael hefur fundist 60.000 ára gröf
neanderdalsmanns þar sem varðveist hafa mjaðmarbein en höfuð
og fótleggi vantar. Virðist sem þarna hafi verið um að ræða
sið sem sums staðar hefur tíðkast til skamms tíma. Er þá
líkið hlutað sundur, hold skafið af beinum og höfuð þá ekki
grafið með öðrum beinum, heldur varðveitt eða grafið á öðrum
stað. Gæti þetta bent til þess að um þetta leyti hafi
neanderdalsmaðurinn verið farinn að óttast hina dauðu,
viljað sýna þeim sérstaka virðingu eða jafnvel notað bein
þeirra í einhverjum tilgangi, til dæmis töfra. Algengt var
víða um heim að losa höfuð frá bol til að koma þannig í veg
fyrir að hinn látni gengi aftur.
Í Shanindarhelli í Kúrdistan í norðurhéruðum Íraks hafa
fundist grafir níu neanderdalsmanna. Hefur verið búið um
fjögur líkanna. Þar eru einnig blómafræ yfir líkamsleifum og
er engu líkara en að blóm hafi verið lögð í gröfina. Gæti
það bent til þess að þeir sem þar voru að verki hafi trúað á
framhaldslíf, og einnig að þeir hafi syrgt hinn látna og
viljað gera útför hans virðulega.
Hvernig sem því er varið þá er augljóst að neanderdalsmenn
litu öðrum augum á dauðann en þær tegundir manna sem á undan
voru komnar, og að þessu leyti virðist sem þeir séu andlega
skyldir nútímamönnum þótt ekki sé víst að hinn líkamlegi eða
líffræðilegi skyldleiki sé mikill.
Vísindamenn vita því miður lítið um uppruna tungumálsins. Nú
er talið að tungumál hafi orðið til fyrir um 30.000 árum en
elstu heimildir um einhvers konar ritmál eru aðeins 10.000
ára gamlar. Þarna á milli eru þessu vegna 20.000 ár sem
vísindamenn þurfa að geta sér til um, meðal annars með því
að skoða líkamsleifar eins og höfuðkúpur.
Flestir vísindamenn telja að frummenn hafi notað bendingar
og líkamshreyfingar til að hafa samskipti við aðra sinnar
tegundar. Hegðun simpansa bendir meðal annars til þess.
Líklegt er að neanderdalsmaðurinn hafi getað gefið frá sér
hljóð sem voru grunnur að einföldu tungumáli. Þó er víst að
hljóðin sem frá honum komu voru einfaldari en þau sem þarf
til að mynda tungumál eins og við þekkjum þau.
Þetta efni er fengið af vísindavefnum
Send inn af Vigdísi H.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|