Smásaga eftir
Pjetur Hafstein Lárusson
Hann beið einskis, né heldur vænti hann nokkurs hlutar. Og þó,
auðvitað beið hann þess að tíminn liði, rétt eins og allir gera. En
tíminn líður ekki áfram og svo sem ekki heldur aftur á bak. Þetta
vissi hann. Og honum var einnig ljóst að tíminn líður í hring. Hring
í kringum sjálfan sig.
Segja þeir ekki að sagan endurtaki sig? Hann hefði átt að
vita það, þriggja hjónabanda maðurinn og jafn margra skilnaða.
Einmitt núna sátu þau, börnin hans, sem örlögin höfðu haganlega sett
niður á heimili hér og þar, já einmitt núna sátu þau væntanlega
prúðbúin við veisluborð, án þess svo mikið sem vita, hvar faðir
þeirra væri niður kominn. Fimm börn úr þremur hjónaböndum og eitt
eða tvö að auki.
Jafnan hafði honum þótt notalegra,
þegar jólin voru hvít. Hann ímyndaði sér að því hefði hann átt að
venjast í bernsku. Var samt ekki alveg viss. Þó hlaut það svo að
vera. Í það minnsta hafði hann komið því svo fyrir í minningunni. Ef
til vill var það aðeins hagræðing á sannleikanum. Ekki sú eina, gætu
þeir sagt, sem lítið hafa þanþolið í vængjum hugarflugsins.
Snjónum kyngdi niður. Hann var bjartur og hreinn og þar sem
rafljósin röskuðu ekki gangverki náttúrunnar, varpaði hann birtu mót
svörtum skammdegishimni. Hann hét Kristinn og hann treysti sér ekki
upp á dekk. Hann veigraði sér við að horfa á jólasnjóinn, vildi
heldur kúldrast í káetu sinni. Þar hafði hann ágætan félagsskap af
þeim systrum, eymd og sjálfsvorkunn. Þær veittu honum fúslega
nærveru sína.
Honum voru sveiflurnar tamar. Ýmist blasti hyldýpið
eitt við augum eða þröstur söng á hverri grein. Sæld auðs og
hamingju beið þá handan næsta horns. Það var bara að ganga fyrir
hornið og grípa gæsina. En þegar fyrir hornið kom, var gæsin flogin.
Ekki vissi hann hvert. En skýringar þessa flugs hafði hann jafnan á
reiðum höndum. Og þó gat hann aldrei lært af fenginni reynslu.
Fyrst eftir áföllin, hvort heldur þau voru fjárhagslegs
eðlis eða sprottin af rótum tilfinninga, lagðist hann í þunglyndi.
Þá þótti honum vissara að hafa flösku innan seilingar. Þetta ástand
gat varað í daga eða vikur, stundum jafnvel nokkra mánuði. Þá datt
hann niðir á einhverja snilldarhugmyndina eða rakst á enn eina einu
ástina í lífinu. Eftir það réðu festa og ábyrgð gjörðum hans, ef til
vill ekki alveg þar til næsta áfall skall á, en alla vega þangað til
sælan var orðin svo langvarandi að jaðraði við tilbreytingarleysi.
Þá þótti ástæða til að fagna á viðeigandi hátt. Og þar eð Kristinn
var gleðimaður, eins og alvörugefnir menn með grímu eru oft
kallaðir, þá var sá háttur ævinlega í fljótandi formi.
Togarinn lá við bryggjuna og haggaðist ekki frekar en hús á
þurru landi. Veður var enda ágætt, óveruleg gola en nokkuð kalt. Og
svo þessi líka snjókoma.
Kristinn lá í koju og las. Hann las Einar Ben. Önnur skáld
voru honum ekki hugstæðari, hvort heldur að honum sótti harmur eða
gleði. Þegar hann var barn og á unglingsárunum, hafði hann stöku
sinnum séð höfuðskáldinu bregða fyrir á götu. Og eitt sinn þegar
hringt var á dyrabjöllunni í húsi foreldra hans, og hann fór sjálfur
til dyra; hver skyldi þá hafa staðið í tröppunum nema sjálfur
skáldjöfurinn? Hann átti erindi við föður piltsins. Faðir hans bauð
skáldinu til stofu og lokaði á eftir þeim. Aldrei vissi Kristinn
hvað þeim fór á milli þarna í stofunni, föður hans og skáldinu.
Taldi þó líklegt að það tengdist vinnu þess fyrrnefnda. Hann var
bankastjóri og sem slíkur vanur að sinna erindum manna á skrifstofu
sinni í bankanum. En engin regla er án undantekninga og sjálfur var
Einar undantekning frá þeirri meginreglu, að stutt sé frá hvirfli
til ilja fólks í andlegum efnum. Slíkur maður varð ekki afgreiddur á
kontór eins og hver annar. Þetta skynjaði drengurinn, þótt hann
skildi það ef til vill síður.
"tími er svipstund ein, sem aldrei
líður,
algeims rúm, ein sjón, einn dýrðarbjarmi".
Kristinn lagði frá sér bókina. Hann spennti
greipar aftur á hnakka og horfði upp undir efri kojuna. Einmitt
svona hafði hann legið í koju sinni tuttugu árum áður, þegar ósköpin
dundu yfir. Það var snemma morguns. Veður var þokkalegt og siglingin
hafði gengið að óskum. Við öðru var heldur vart að búast, jafn
sýnilega og friður var í nánd. Flestum kafbátum Þjóðverja hafði
verið sökkt eða þeir voru króaðir af í sundursprengdum höfnum.
Ferð skipalestarinnar frá New York hafði verið tíðindalaus.
Síðar þennan sama dag yrði lagst að bryggju í Belfast. Eftir það lá
leiðin heim, þar sem nýir tímar biðu starfsfúsra handa stórhuga
æskumanna.
Skyndilega nötraði skipið stafna á milli. Kristinn
vankaðist nokkra stund, spratt því næst á fætur og hentist út úr
káetunni. Hann hljóp upp stiga og út á dekk. Þeir sem lifað höfðu
árásina af, voru ýmist komnir í bátana og á flekana, eða voru á leið
í þá. Einhverjir svömluðu enn í sjónum. Flaut þar ef til vill
einhver hreyfingarlaus? Hann leit snöggt í kringum sig. Allir
björgunarbátar og flekar voru komnir fyrir borð. Það var víst ekki
um annað að ræða, en að láta sig gossa í saltan sjá. En áður en til
þess kæmi, tók hann eftir því, að hann stóð þarna á nærklæðum einum
fata.
Kristinn hafði jafnan verið skartmaður í klæðaburði. Niðri
í káetu hans héngu þrenn jakkaföt af allra fínustu gerð. Hann lét
það að sér hvarfla, að snarast eftir þeim. Gæti hann ekki klætt sig
í þau, hvert utan yfir annað og kastað sér svo í sjóinn? Nei, til
þess vannst ekki tími. Skipið hallaði svo ískyggilega, að það mundi
sýnilega sökkva á örfáum mínútum.
Kristinn var slakur sundmaður. Hann skimaði eftir
björgunarbelti en kom hvergi auga á það. Nú var að hrökkva eða
stökkva. Hann prílaði yfir lunninguna og kastaði sér fyrir borð.
Þegar honum skaut upp, sá hann að nokkur spölur var að næsta
björgunarfleka. Sennilega hefði hann ekki náð að synda þangað. Það
vildi honum því til lífs, að hann náði taki á braki, sem flaut í
sjónum. Hann hélt dauðahaldi í brakið og svamlaði með fótunum.
Þannig komst hann að björgunarflekanum. Og um borð í hann náði hann,
rétt til horfa á eftir íslenska fánanum, sem blakt hafði á lítilli
fánastöng í skuti skipsins, hverfa í regindjúpið. Sog myndaðist á
haffletinum, svo hringlaga gárur. Eftir örskamma stund sáust þess
engin merki, hvar skipið hafði sokkið.
Í heila klukkustund máttu skipsbrotsmennirnir velkjast um á
einum björgunarfleka og í tveimur björgunarbátum, uns Bretarnir komi
og björguðu þeim um borð í vopnaðan togara. Sú stund leið í þögulli
sorg. Svo stutt var milli bátanna og flekans að fólkinu var ljóst,
hverjir höfðu bjargast. Hinn óði stríðsguð hafði krafist fórna
fimmtán manna og kvenna, sem ekki höfðu annað til sakar unnið, en að
vera sjómenn eða farþegar á leið heim að lokinni dvöl í fjarlægu
landi.
En Kristinn lifði. Og þó; morðtilræði mistakast aldrei
alfarið, ekki heldur þótt þau séu tilviljunarkennd eins og þetta. Sá
sem fyrir slíku verður deyr, þótt ekki sé nema að hluta til. Líf
hans verður með vissum hætti stöðug endurtekning á dauða þess manns,
sem lifir þó. Dauði lifandi manns.
Tuttugu ár og þrjú hjónabönd að baki. Hann settist upp,
tróð sér í pípu og naut tóbaksins í bland við einsemdina.
Hvað var hann annars að gera um borð í þessum togara? Hafði
hann ekki verið fjölskyldumaður og bóndi nokkrum vikum áður? Ekki
vissi hann betur. Stórbóndi, meira að segja; í það minnsta verðandi
stórbóndi. Hann hafði keypt eina grösugustu kostajörð landsins til
að hefja þar kúabúskap með slíkum hætti, sem ekki hafði áður þekkst
á landi hér. Víst hafði hann fyrr reynt fyrir sér á þessu sviði, án
þess að eftir gengu björtustu vonir. En þá var hann ungur og
óreyndur. Nú var betri tíð með blóm í haga.
Jörðin var nýbýli. Hann hafði þegar reist viðeigandi
húsakost, íbúðarhús, fjós, hlöðu og verkfærahús. Aðeins var eftir að
kaupa búpening. Allar höfðu þessar framkvæmdir verið kostaðar með
lánum, sem vitanlega þurfti að framlengja eins og gengur. Í slíkum
stórræðum varð ekki staðið austur í sveitum. Hann varð því að dvelja
langdvölum í bænum. Konan og börnin, tveir kornungir synir, voru
fyrir austan. Bankastjórann, sem hann átti viðskipti við, hafði hann
þekkt frá blautu barnsbeini. Þó það nú væri, þeir báðir
Vesturbæingar í húð og hár. En þeir kumpánar áttu fleira
sameiginlegt en það, að hafa slitið barnsskónum á mölinni vestur í
bæ. Báðir voru þeir gefnir fyrir sopann. Kristinn taldi vissara að
halda bankastjóranum við efnið á viðeigandi hátt. Þeir eyddu því
löngum stundum yfir skálum glóandi eðalvíns, bæði á heimili
bankastjórans, hótelherbergi Kristins og á öldurhúsum borgarinnar.
Og taldist ekki viðeigandi að bankastjórinn borgaði brúsann.
Jú, þetta virtist ætla að liðka fyrir viðskiptunum, enda
ekki annað meira rætt, meðan vínið flaut rétta leið, en glæst
framtíðaráforn Kristins, sem stórbónda með láði. Inn á milli var svo
smokrað bernskuminningum úr Vesturbænum og nokkrum perlum Einars
Ben. og annarra góðskálda, þegar hæfa þótti. Það féll í hlut
Kristins að leiða ferðir um ríki andans, enda var bankastjórinn
kunnugri þeim verðmætum, sem hægt er að slá tölu á, en hinum, sem
lyfta sálinni til hæða. Þegar líða tók á haustið virtust viðskiptin
vera í höfn. Bankastjórinn átti aðeins eftir að sannfæra bankaráðið
um nauðsyn þess að skuldum Kristins yrði breytt í langtímalán og
honum auk þess veitt lán til að kaupa bústofn. Ekki dygði annað en
að bankinn yrði rausnarlegur við stórhuga mann, sem var í þann
veginn að koma á laggirnar stærsta kúabúi landsins.
En þá dundu ósköpin yfir. Það var seint á þriðjudagskvöldi.
Daginn þann hafði bankastjórinn tekið sér frí frá daglegu amstri í
bankanum. Raunar hafði umrætt frí staðið dulítið lengur eða frá
föstudagsmorgni. Ekki hafði hann þó dregið sig úr hringiðu
viðskiptalífsins. Fjarri fór því. Allan tímann hafði hann setið á
herbergi Kristins á Hótel Sögu og þarf vart að nefna umræðuefnið,
sem blandað var, að því er virtist hæfilegri drykkju guðaveiga. Og
þá gerðist það, á fimmta degi drykkjunnar, að bankastjórinn þoldi
ekki meira. Og það sem verra var; hann yfirgaf hótelið hvorki á
fjórum fótum né tveimur, heldur á sjúkrabörum. Einhverra orsaka
vegna sáu læknarnir á sjúkrahúsinu ekki ástæðu til að útskrifa hann
með hraði, heldur lögðu þeir hann í fúla þurrkví. Vart hefði þetta
komið að sök, ef svo illa hefði ekki viljað til, að við bankann
störfuðu tveir bankastjórar og eins og við mátti búast, tók hinn við
verkefnum síns útbrunna félaga, meðan sá lá á sjúkrahúsinu. Því
miður fyrir Kristin voru bankastjórarnir að því leyti til ólíkir
menn, að meðan bernskuvinur hans var svona í blautara lagi, þá
skrjáfaði í hinum. Auk þess var það vafamál að hann þekkti Einar
Ben., nema þá af afspurn. Í stuttu máli sagt; lán féllu - ,
skýjaborgir hrundi. Og í stað þess að Kristinn kæmi á bú sitt með
kostaríkar mjólkurkýr, þá forðaði konan sér þaðan með drengina.
Slíkar urðu lyktir þess fjölskyldulífs.
Kristni var skilnaðurinn þungbær. Hann bar sig þó
karlmannlega og ákvað að vinna sér inn skotsilfur með því að fara á
sjóinn. Vinur hans einn gerði út togara og honum var ljúft að ráða
Kristin sem kokk. Áhöfnin þurfti ekki að kvarta undan þeirri
ráðstöfun, enda lék matargerðarlistin í höndum hans. Eiginlega hafði
túrinn verið ein allsherjar veisla, þar sem hver máltíð var
áhöfninni ljúfasta sæla. Það var nú ekki aldeilis verið að velja
kokkinum nein smánarheiti. Þvert á móti, hann var aldrei nefndur á
nafn nema með virðingu og hlýhug. Meira að segja mestu slordónar
áhafnarinnar létu það ekki að sér hvarfla að setjast til borðs,
öðruvísi en skrúbbaðir, stroknir og kemdir.
Veiðin var svo sem ekkert umfram það, sem kallast mátti
þokkalegt. Hitt var þó öllu lakara að togarinn kom ekki að landi,
fyrr en langt var liðið á aðfangadag. Kristinn, sem hafði ætlað að
heimsækja frænda sinn einn, í þeirri vissu að honum yrði þá boðið að
eyða jólunum með fjölskyldu hans, hafði sig ekki í þá heimsókn þegar
á hólminn var komið. Hann kunni ekki við að birtast fyrirvaralaust
þegar jólasteikin væri komin í ofninn. Hann hafði ekki orðið sér úti
um húsnæði áður en hann fór á sjóinn og á hóteli vildi hann ekki
dvelja. Nóg var komið af slíku í bili. Hann beið því um borð þar til
vaktmaðurinn kom. Sem vænta mátti varð sá feginn því að vera sendur
heim. Kristinn tók ekki annað í mál en að standa fyrir hann vaktina.
Og nú sat hann sem sagt í koju sinni og horfði á tóbaksreykinn
liðast upp úr pípunni.
Þetta var eins og að lesa ævisögu sína í reyk. Eftir því
sem reykurinn reis hærra, varð mökkurinn þynnri, uns hann hvarf,-
minntist við loftið; varð hluti þess. Þannig mundi Kristinn sjálfur
kveðja þetta auma jarðlíf. Sál hans mundi liðast um loftið, uns hún
hitti fyrir Guð sinn og hirfi í einingu hans. Þá en ekki fyrr gæti
hún öðlast þann frið, sem misskildum mönnum er meinaður hér megin
grafar.
Það hafði hvinið í sjónum seinustu andartökin áður en
tundurskeytið sprakk. Svo varð allt hljótt; örskotsstund. Þegar hann
áttaði sig á því, sem gerst hafði, var hann ekki samur maður.
Öldurnar vögguðu flekanum líkt og barni í móðurörmum. En hér voru
engir móðurarmar, aðeins magnþrota fólk, sem skildi ekki grimmd
þeirra örlaga, sem félagar þess höfðu mátt þola.
Hvað Kristin áhrærði var áhyggjuleysi æskunnar að baki.
Hann hafði mátt reyna grimmd heimsins á eigin skinni. Þeir sem
björguðust, jafnt farþegar sem sjómenn, voru fluttir til Skotlands.
Þaðan var fólkið sent heim skömmu síðar. En Kristinn kom ekki heim;
ekki allur. Það var sem hluti hans hefði sokkið með skipinu og hinum
látnu í svalar öldur Írlandshafs. Frá þessari stundu var gleði hans
aldrei sorginni fjarri. Og trú hans á lífið var blönduð beiskum
geig.
Tuttugu ára leiksýning þar sem þess var freistað, að
sveigja munnvikin að kinnbeinunum, fremur en láta þau síga niður á
höku. Verða menn ekki að halda andlitinu? Hann reis upp úr kojunni
og settist við borðið. Dró penna úr skúffu. Nú skyldi þess freistað
að meitla líf hans stuðlum og höfuðstöfum, enda þótt sú reglufesta,
sem slík iðja krefst, hefði óneitanlega ekki markað vegleið hans.
Hann starði lengi á autt blaðið, en hugurinn reikaði víðar en svo,
að af yrkingum gæti orðið. Nær og fjær.
Nei, það var ekki langt síðan allt benti til þess, að hann
mundi eyða þessum jólum í faðmi fjölskyldunnar; stórbóndi á
kostajörð. Nú jæja. Mikið var það annars hugulsamt af vaktmanninum,
að koma aftur um borð, rétt til að gauka að honum flösku af þessu
líka úrvals viský.
Birt með leifi höfundar:
Höf:: Pjetur Hafstein Lárusson

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|