Hún starði á tölvuna. Fertugur karlmaður, brúneygður, brúnhærður,
einn og áttatíu á hæð, með óuppgefna þyngd. Vill fara á stefnumót,
vantar félagsskap, hefur gaman af að fara út að skemmta sér, dansa,
hlusta á góða tónlist og ferðast. Hvað gat það eiginlega verið betra?
Þessi lýsing hefði vel getað átt við hennar fyrrverandi nema að
persónuleikinn virtist vera allt annar. Sá vinnualki hafði aldrei
haft tíma fyrir skemmtanir og ferðalög, hvað þá dans eða tónlist.
Líf hennar síðustu tuttugu árin hafði ekki verið neinn dans á rósum.
Kannski fyrstu mánuðina áður en hún varð ófrísk og þau hófu
venjubundið lífsgæðakapphlaup, kaup á íbúð, betri bíl,
innanstokksmunum sem hæfðu fólki eins og þeim, síðan stærri íbúð,
raðhúsi og síðast einbýlishúsinu sem hafði verið stór biti að kyngja.
Það var kannski ekki von að öðruvísi færi.
Þegar hún hugsaði um lífið sem var að baki sá hún að það var ekki að
öllu leyti slæmt. Í upphafi vegar þegar hún var á átjánda ári hafði
ástin vissulega blómstrað hjá þeim. Hennar fyrrverandi var algjör
sjarmör að læra viðskiptafræði og hún sjálf í menntaskóla. Sem betur
fer fyrir þau bæði hafði sambandið ekki rústað náminu svo að hann
kláraði sína viðskiptafræði og hún snyrtifræðina sem hana langaði
svo í. Auðvitað þurftu þau bæði að eignast eigin fyrirtæki og það
hafði tekist. En að eignast fyrirtæki, síðan hús og börn var meira
en venjulegir 24 tímar á sólarhring leyfðu. Þau unnu og unnu uns
lífið varð ein samfelld vinna og rómantísku stundirnar voru horfnar
í tímaleysi hins daglega lífs. Þau voru góð saman, unnu saman,
skiptust á að vera heima með börnin í flensu eða tanntöku, allt gekk,
en neistinn var kulnaður. Þegar hún hugsaði til baka hafði þetta
verið eitt stórt prógramm sem gekk upp, þau efnuðust, komu upp
börnunum og menntuðu þau. Þau voru líka heppin, unglingsárin liðu
hjá afkomendunum án nokkurs rugls sem skaðaði varanlega. Það voru í
raun forréttindi á þessum síðustu og verstu tímum.
Skilnaðurinn hafði verið dálítið sár. Ekki það, þau voru bæði
sammála um að þetta væri eina færa leiðin. Þau áttu fátt
sameiginlegt lengur, börnin farin að heiman og bara betra að lifa
lífinu út af fyrir sig. Það var kannski vaninn sem var sárastur.
Þessi breyting að hafa allt í einu aðeins um sjálfan sig að hugsa
var framandi. Það var ekki lengur þessi rosalega keyrsla, eða pressa
á hvern klukkutíma. Hún einfaldlega kunni þetta ekki. Þau seldu
húsið og hún keypti sér huggulega íbúð í parhúsi, hvorugt þeirra
hafði að gera með risastórt einbýlishús. Hún skipti um bíl, hellti
sér út í endurnýjun á stofunni, fór erlendis til að kynna sér nýjar
línur og gera nýja samninga, stundaði líkamsrækt og reyndi að slaka
á í ljósum. Hún vissi að útlit hennar var mjög gott, miðað við aldur,
en það vantaði eitthvað. Þó að hún og maðurinn hefðu fátt átt
sameiginlegt þá var komið einhverskonar tómarúm sem vinnan og
sjálfsræktin virtist ekki fylla. Vinkonur hennar reyndu að draga
hana út á lífið og á listviðburði. Það var á vissan hátt gaman, en
það vantaði samt eitthvað.
Hún starði á tölvuskjáinn. Það var eiginlega undarlegt að hún skildi
svara þessum einkamálapósti. Manninum hafði litist svona fruntalega
vel á hana að nú stóð til að hittast um kvöldið. Það var brjálæði,
en samt var hún spennt. Sjálf vissi hún manna best að stór hluti af
einkamálaauglýsingum var til þess eins að fá einn á broddinn og eins
voru mörg afbrot framin eftir kynni á netinu, nauðganir,
auðgunarbrot og jafnvel morð. Samt hafði hana langað að prófa. Það
var eitthvað svo saklaust og einfalt að sitja heima hjá sér við
tölvuna og svara pósti. Henni datt auðvitað ekki í hug að setja
auglýsingu sjálf en hún hafði nú síðustu vikurnar kíkt á nýju
karlana til að vita hvort nokkur væri að auglýsa á hennar aldri.
Þessi fertugi gaur virtist eitthvað svo fullkominn að hún þorði
varla að hitta hann. Kannski hugsaði hann það sama um hana. Hún var
líka hrædd um að standast ekki væntingar. Það var ekkert auðvelt
eftir öll þessi ár að fara á stefnumót. Hvað átti hún að segja? Um
hvað talaði maður við bláókunnan mann sem maður hafði aldrei séð.
Hún brosti með sjálfri sér. Venjulega átti hún ekki erfitt með að
kynnast fólki eða halda uppi samræðum. Hún var í virkilegri þjálfun
og hafði mjög gott sjálfstraust hvað það varðaði, en það var bara
ekki það sama. Það var annað að fara á stefnumót.
Þessar fáu línur sem þessi einstaklingur hafði skrifað henni, bentu
til þess að hann væri skemmtilegur, fyndinn og jafnvel frumlegur.
Eitthvað sem hún var ekki vön. Það vakti þó óöruggi hennar að vita
ekki nafn hans eða þjóðfélagsstöðu. Hann vissi heldur ekkert um hana.
Þessi staða skapaði óvissu, en var samt dálítið spennandi. Kannski
var hann tvö hundruð kílóa hlunkur sem ók vörubíl. Það lá við að hún
skellti uppúr við tilhugsunina. Hvað með það, þau myndu þá bara
ekkert hittast aftur ef henni félli ekki við hann.
Þau höfðu ákveðið að hittast á veitingahúsi og hvort þeirra sem yrði
á undan myndi setjast við barinn og bíða eftir hinu. Stefnumótið var
klukkan níu. Þetta var dálítið einfalt og þau ættu ekki að geta
farist á mis. Hins vegar hafði hún hugsað sér að hafa þetta öðruvísi.
Hún hafði hugsað sér að mæta dálítið fyrr, fá hornsæti og sjá þá
karlmenn sem kæmu að barnum. Þetta var pínulítið óheiðarlegt, en hún
gat ekki hugsað sér að hanga á barnum og bíða, kannski kæmi hann
ekki eða þá að vinir hennar myndu sjá hana. Þá væri hún í
vandræðalegri stöðu.
Hún tók góðan tíma í að velja sér föt og hafa sig til. Það var
dálítið erfitt. Hún gat á engan hátt ímyndað sér hvernig förunautur
hennar myndi klæða sig, hún vissi ekkert um hann. Þessi hugsun gerði
hana pínulítið órólega, en hún ýtti því frá sér. Úr því sem komið
var ætlaði hún að slá til, það var eitthvað svo niðurlægjandi að
mæta ekki.
Dökkblá buxnadragt gat átt við hvað sem var. Kannski var hún betri
til að fara í á viðskiptafund, en hún treysti sér ekki til að fara í
neinu af kjólunum sínum. Flestir minntu hana um of á hennar
fyrrverandi eða einhver tilefni sem hún hafði klæðst þeim. Dökkblátt
var líka eitthvað svo eindregið, hún yrði ekki áberandi en vissi að
fötin klæddu hana vel. Þetta stefnumót var líka algjör óvissa. Þau
höfðu ekki ákveðið hvort þau ætluðu að borða saman, fara út að dansa
eða bara spjalla. Þetta var algjört óvissustefnumót.
Hún setti disk í spilarann á meðan hún vandaði sig við að mála sig
og farða. Vissulega gat hún verið ánægð með sjálfa sig. Það voru
litlar hrukkur í kringum augun og munninn en húðin var falleg og
langt frá því að vera veðruð eða gróf. Hún hafði alltaf hugsað vel
um húð, hár og tennur. Það breytti því samt ekki að hún var orðin 38
ára gömul. Galdurinn við að vera ungur var einmitt sá að vera
aldurslaus. Yfir þrítugt var beinlínis hallærislegt að reyna að vera
sextán í útliti, en þó bar að varast að klæða sig fullorðinslega.
Hún virti fyrir sér spegilmyndina. Þrátt fyrir börn á brjósti voru
brjóst hennar enn stinn og líkaminn laus við appelsínuhúð. Það var
passasemi og vinna sem gerði það að verkum, ekki lýtaaðgerðir eða
slíkt. Hún var fullkomlega meðvituð um líkamann án þess að vera með
útlit á heilanum. Það hafði einfaldlega alltaf verið áhersla í
hennar lífi að hlú að líkamanum, hann var eitt af því sem ekki var
hægt að skipta út og hún var líka á móti því sem var gervi. Það var
sama hvað var, viðgerður hlutur var aldrei eins og sá upprunalegi.
Hún var dálítið óstyrk er hún gekk inn á veitingahúsið. Það var
verið að spila rólega tónlist og umhverfið var róandi. Hún leit á
barinn og sá að hann var mannlaus. Það var þó léttir. Hún flýtti sér
að setjast við hornborð og þjónn kom og bauð henni drykk. Hún keypti
sér wiský. Það veitti ekki af að styrkja taugarnar örlítið. Hún beið
róleg og virti fyrir sér umhverfið. Borðið sem hún hafði valið var
nánast rökkvað og hún bjóst ekki við að neinn tæki eftir henni sem
kæmi inn. Það var léttir.
Brúnleitur vökvinn brenndi hálsinn og henni fannst gott að finna
áhrif hans alla leið niður í maga. Hún hafði víst gleymt að borða
þennan daginn. Hún var ekki kona sem alltaf var að sulla í víni.
Henni fannst gott að njóta góðra drykkja en í gegnum tíðina hafði
hún ekki haft mikinn tíma fyrir þannig stundir fremur en annað sem
taldist til slökunar eða skemmtunar. Hún rúllaði glasinu milli
handanna, lét hugann reika og velti fyrir sér stöðu sinni í lífinu.
Hún átti svo sannarlega gott. Hún var enn á góðum aldri, börnin
hennar voru dásamleg og gekk vel og peningar voru ekki vandamál í
hennar lífi. Hún var kona sem kunni að fara með peninga og þeir
höfðu alltaf komið til hennar án mikillar fyrirhafnar. Hún vissi
sjálf að hún hafði viðskiptavit í blóðinu og það koma sér afar vel.
Þegar klukkuna vantaði fimmtán mínútur í níu kom inn maður sem gat
verið um fertugt. Hann settist við barinn og pantaði sér í glas. Hún
starði á hann í laumi úr horninu. Hann var þrekinn, gat kannski náð
einum og áttatíu. Hárið, sem náði niður á herðarnar var ekki brúnt
heldur skollitað og hún sá ekki augun. Ef þetta var hann, þá hafði
hann nú ekki gefið sérlega nákvæmar upplýsingar. Hún var dálítið
vonsvikin. Þetta var enginn draumaprins. Hún skellti í sig úr
glasinu, við hverju hafði hún búist? Hann var í það minnsta
skemmtilegur, eða hafði verið það í bréfunum sínum. Hún ákvað að
doka og sjá til. Kannski var það þess virði að fara og spjalla
aðeins við hann. Þetta var ekki týpa sem hana langaði í rúmið með,
hún hafði líka verið að leita að félagsskap.
Þjónninn kom með annan skammt af drykk og hún ákvað að bíða til níu.
Þá ætlaði hún að gefa sig fram og láta slag standa. Mínúturnar
siluðust áfram og sá við barinn skellti í sig vodka að minnsta kosti
þremur glösum. Henni leist ekki alveg á þetta. Kannski var hann
óstyrkur eins og hún. Wiskýið gaf henni kjark og hún var að róast
niður.
Þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í níu kom annar maður inn og
gekk að barnum, hann bað um wiský. Hjarta hennar hætti að slá og
mest langaði hana að gufa upp. Þetta var hennar fyrrverandi. Þvílíkt
klúður. Síðast af öllu vildi hún að hann kæmist að því að hún væri á
netstefnumóti. Hún vonaði að hann myndi skella drykknum í sig og
fara út. Hún vissi hreinlega ekki hvað hún gat gert. Hún lét fara
eins lítið fyrir sér í horninu og hún gat og benti þjóninum
hljóðlaust að bæta á glasið. Í huganum bölvaði hún í sand og ösku.
Hve oft höfðu þau ekki talað um þessa hálfvita sem væru svo kynlífs
þurfi að þeir vöfruðu um á netinu í von um að finna bólfélaga. Hún
vissi sko alveg hvaða skoðun hann hafði á slíku og hún ætlaði sko
ekki að láta hann komast að því að hún væri ein af þeim. Aldrei í
lífinu. Ekki það að honum kæmi það við heldur bara að henni fannst
það of niðurlægjandi. Hún hafði byrjað nýtt líf, líf sem hann átti
ekkert að vita um.
Klukkan stóð nánast kyrr. Skolhærði folinn var orðinn ókyrr og hún
bjóst við að hann myndi gefast upp og fara þá og þegar. Það gerði
ekkert til, það hafði þá farið fé betra. Hún hét því að fara aldrei
framar á óséð stefnumót. Djöfuls klúður.
Hún var að klára úr þriðja glasinu er rauðhærð, hnellin kona kom
inn. Hún var á hlaupum, móð og másandi. Sá skolhærði varð allur eitt
bros, tók hana í fang sér og síðan kom vænn koss, sem hefði hæft
ágætlega blárri mynd. Það var auðséð að sá skolhærði hafði verið að
bíða eftir henni. Þau tóku hvert utan um annað og hurfu út í kvöldið.
Hún sat sem lömuð. Loksins rann sannleikurinn upp fyrir henni.
Brúnhærður, brúneygður, 1.80 á hæð. Skemmtilegur, fyndinn, fyrir
dans, ferðalög og skemmtanir. Einmitt sá sem hún hafði gifst fyrir
tuttugu árum. Hann hafði verið þannig þá og ef til vill var það
einmitt það sem hann hafði alltaf þráð. Hún fann fyrir ósegjanlegum
sársauka sem fyllti brjóstið. Hvað hafði hann svo lesið um hana í
svarinu? Lýsingu á konunni sem hann hafði gifst en hafði síðan týnt
sjálfri sér. Hana langaði mest til að gráta. Hún drakk síðustu
dreggjarnar af wiskýinu, þetta var of sárt til að vera satt.
Hún horfði á sinn fyrrverandi skima út um gluggann að götunni. Hann
var vissulega myndarlegur, maður sem flestar konur myndu falla fyrir.
Eftir hverju var hann að leita á netinu? Hún vissi það. Hann var að
bíða eftir ljóshærðri, bláeygðri konu, 1.68 á hæð, skemmtilegri,
fyndinni, með ferðalög, skemmtanir, dans og listir að áhugamáli.
Konu sem aldrei kæmi, konunni sem hafði horfið. Hún fann
tilfinningarnar flæða fram, eftirsjána, vonleysið og vonbrigðin. Af
hverju? Við því hafði hún engin svör.
Stuttu seinna þegar hann skrapp á salernið smokraði hún sér úr
horninu, borgaði og hraðaði sér á braut út í rökkvað kvöldið. Ein.
Höfundur: Birgitta H Halldórsdóttir
Birt hér með leifi höfundar

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|
|