Það var um miðjan dag. Ali lá
á mottunni sinni. Hann hnerraði. Hæna, sem blundað hafði nálægt honum,
gargaði, þaut út úr herberginu og fann sér stað í miðju hringlaga
moldarflagi undir fíkjutrénu. Hann hlýddi um stund á þrumurnar úr
fjöllunum sunnan við bæinn og ákvað að setjast upp, því að hann myndi
ekki geta sofnað aftur fyrr en um miðnættið. Handan við reyrviðarvegginn
var bróðir hans í samræðum við El Medhi, einn mannanna sem óku fólki úr
bænum á vögnum upp eftir. Af verönd kaffihússins mátti renna augum yfir
kvalda, rauða jörðina með eldgömlum ólífutrjám og niður að dimmum
hellunum undir bæjarmúrunum. Yfirleitt þótti ferðamönnum útsýnið
tilkomumikið. Þeir leigðu sér einn af gömlu vögnunum, sem biðu niðri í
bænum, og létu aka sér upp bugðóttan veginn, sem bakaðist allan daginn í
sólskininu. Ferðin upp að kaffihúsinu tók tæpa klukkustund. Þar sátu
þeir undir tíglagrindinni í skugga vínviðarins og drukku te eða bjór.
Ekillinn gaf hestunum vatn, og fyrir ljósaskipti héldu þeir af stað til
baka. Á sunnudögum komu margir vagnar og bifreiðar. Kaffihúsið var fullt
allan daginn. Bróðir hans, sem átti kaffihúsið og gætti
reikningshaldsins og peninganna, sagðist græða meira á sunnudegi en alla
hina daga vikunnar samanlagt. Ali dró það í efa, ekki vegna þess að það
væri svo ólíklegt, heldur vegna þess að bróðir hans sagði það. Það var
óhagganleg staðreynd að bróðir hans var eldri en hann og hafði því erft
kaffihúsið eftir föður þeirra. Andspænis svo hróplegu óréttlæti var
ekkert hægt að gera. Né hafði hann áhuga á nokkru sem bróðir hans hafði
fram að færa. Bróðir hans var eins og veðrið, maður fylgdist með því og
var ofurseldur duttlungum þess. Þetta stóð skrifað, en það var ekki þar
með sagt að ekki mætti breyta því. Hann hallaði sér upp að veggmottunni
og teygði úr sér. Bróðir hans og El Mehdi voru að drekka bjór. Hann var
viss um það vegna þess hvernig þeir lækkuðu róminn í hvert skipti sem
eitthvert hljóð barst að utan. Þeir vildu geta falið glösin í skyndi ef
einhver kæmi nærri dyrunum, svo að þeir hlustuðu grannt meðan þeir
mösuðu saman. Hann hafði andstyggð á þessu barnalega laumuspili, spýtti
á gólfið við fætur sér og hrærði með berri tánni í hvítum hrákanum.
Þruma glumdi við úr suðurfjöllunum, ekki háværari en langvinnari en
fyrr. Það var fullsnemmt að regntíminn hæfist, en þó gæti gert rigningu.
Hann rétti út höndina eftir vatnskrukkunni og drakk vænan teyg. Síðan
sat hann grafkyrr nokkra hríð og horfði á innrammaða mynd af soldáninum
sem hékk á veggnum andspænis honum. Aftur buldi við þruma, enn varla
neitt hærri, en í þetta sinn greinilega nálægari og hljóðið nærgöngulla.
Það var eins og manneskja væri að læðast að laumulega. Lófaklapp
heyrðist utan af veröndinni og karlmannsrödd hrópaði: "Garçon!" Bróðir
hans fór út, og hann heyrði El Medhi svelgja afganginn af bjórnum og
hraða sér síðan á eftir honum. Innan skamms tilkynnti kvenrödd að það
ætlaði að fara að rigna. Þá hrópaði El Medhi "Hott, hott!" á hesta sína,
og það ískraði í vagninum er hann lagði af stað niður veginn. Eftir að
gestirnir voru farnir, hélt bróðir hans kyrru fyrir úti. Ali gekk
hljóðlega að dyrunum og sá hann standa við brjóstvörnina með hendur
fyrir aftan og horfa yfir bæinn. Hinum megin á veröndinni húkti
pilturinn sem þvoði glösin og skúraði gólfið. Hann var með lokuð augu.
Lítið heyrðist neðan úr bænum. Stöku sinnum flaug fugl ofan af hæðinni á
bakvið og stakk sér ofan í dalinn. Himinninn var dökkur. Bróðir hans
sneri sér við og sá hann standa í dyragættinni. "Svafstu?" "Já." "Það er
að fara að rigna."
"Incha' Allah." "Hlustaðu nú." Bróðir hans rétti upp höndina og hann
leit til hliðar. Í fjarska mátti greina óminn af röddum litlu strákanna,
sem hlupu um götur bæjarins og sungu lagið til Sidi Bou Chta, sem þeir
sungu alltaf rétt áður en byrjaði að rigna. "Já." Nú voru þrumurnar yfir
nálægustu fjöllunum. Bróðir hans nálgaðist dyrnar og Ali vék til hliðar
til að hleypa honum framhjá. "Nú lokum við," sagði bróðir hans. Hann
kallaði til drengsins sem tók til við að bera stólana og borðin inn í
herbergið þar sem þeim var staflað. Ali og bróðir hans sátu á
madressunni og geispuðu. Þegar drengurinn var búinn, lokaði hann
dyrunum, setti hengilásinn fyrir. Síðan kom hann inn í herbergið og fór
að blása í glæðurnar með fýsibelgnum. Hann bar þeim svo báðum glas af
tei. "Farðu út í hús. Við borðum snemma," sagði bróðir hans. Drengurinn
fór út. Nú heyrðist þruma beint yfir þeim. Þeir litu hvor á annan. Ali
sagði: "Ég skal loka húsinu. Drengurinn er bjáni." Litla húsið var á
bakvið kaffihúsið, byggt upp við lága klettinn rétt fyrir neðan veginn.
Þegar hann var kominn að fíkjutrénu heyrði hann bróður sinn tala við
einhvern. Hann varð undrandi og nam staðar til að hlusta. Stórir
regndropar tóku að falla víðs vegar ofan í rykið. Það var erfitt að
heyra hvað bróðir hans sagði. Hann gekk inn í húsið. Þarna bjó enginn
nema þeir tveir og drengurinn, sem svaf fyrir utan. Það var aldrei mjög
hreint hjá þeim. Ef bróðirinn hefði nú bara fengist til að kvænast, þá
hefði Ali haft afsökun fyrir að fara burt. En þangað til var það
ómögulegt, því að faðir hans hafði sagt honum að vera kyrr og hjálpa
bróður sínum við kaffihúsið. Allt sem hann fékk að launum var skítugt
herbergi og vondur matur sem drengurinn eldaði handa þeim. Hins vegar
þegar bróðir hans gekk gegnum hverfið í Moulay Abdallah var honum fagnað
af konunum í hverju húsi. Peningarnir fóru í armbönd handa þeim og vín
og bjór handa vinum hans. Fyrir utan þessar konur, sem hann eyddi
flestum nóttum með, var alltaf einhver heiðvirð stúlka sem hann vonaðist
til að geta tælt. Það mistókst yfirleitt, en ósigrarnir æstu bara upp
áhuga hans. Um þessar mundir var það Kinza, dóttir kaupmanns frá Taza,
sem hann var að stíga í vænginn við. Hún hafði veitt honum stutt samtöl
á fáförnum öngstrætum með þjónustustúlku á verði fáein skref frá. Eitt
sinn hafði hann hitt hana í ljósaskiptunum fyrir utan Bab Segma og tekið
utan um hana (eftir að vinnukonan fékkst til að horfa í hina áttina), og
hann hafði meira að segja átt t^ete-Â-t^ete með henni í bakherbergi á
kaffihúsi. Þá hafði hann lyft blæjunni hennar og kysst hana. En hún
hafnaði frekari atlotum og hótaði, ef hann beitti hana valdi, að kalla á
þjónustustúlkuna sem stóð fyrir framan dyrnar. Eftir að hún hafði þegið
fjölmargar gjafir, lofaði hún honum öðrum slíkum einkafundi, svo að hann
lifði enn í voninni. Ali vissi allt um líf bróður síns og um Kinzu, því
að þótt bræður geti ekki rætt slík málefni sín á milli, þá er
fullkomlega eðlilegt að ræða þau við hvern annan sem er. Hann vissi allt
um Kinzu og vonaði að bróður sínum yrði ekkert ágengt með hana. Nú fór
rigningin vaxandi. Hann lokaði gluggunum svo að vatnið kæmi ekki inn.
Síðan, bæði út úr leiðindum og eins af því að hann var langaði að vita
hver væri kominn á kaffihúsið, þá gekk hann yfir opna svæðið sem skildi
að byggingarnar tvær, og læddist aftur inn í bakherbergið. Handan við
skilvegginn var á ný verið að blása eldi í glæðurnar, í þetta sinn var
það bróðir hans sem gerði það. "Ég er mjög hrifinn af teinu ykkar hér í
Marokkó," sagði karlmannsrödd. Þeir töluðu frönsku. Bróðir hans sagði:
"Mér finnst bjór bestur." "Fáðu þér aðra flösku," sagði ókunni maðurinn
rausnarlega. "Skálum fyrir því að rigningunni sloti. Ef hún heldur áfram
kemst ég ekki niður í bæ fyrir myrkur." Ali reyndi að kíkja gegnum
rifurnar til að sjá hvers konar maður það væri sem hefði gengið alla
leið upp að kaffihúsinu. En maðurinn sat í gættinni og horfði út svo að
hann sá aðeins baksvipinn. "Við erum fegnir rigningunni," sagði bróðir
hans. "Hver dropi færir okkur fé. Fellahin sé þökk." "Oui, bien s^ur
sagði ókunni maðurinn án áhuga. Þrumurnar voru liðnar hjá, en það
hellirigndi. Brátt tók þakið að leka og bunaði vatn ofan á moldargólfið
í einu horni herbergisins. Vegna þessa aukna hávaða var erfiðara að
heyra hvað þeir sögðu. Hann lagði eyrað fast við reyrþilið. "Er Belgía
ekki nálægt Frakklandi?" spurði bróðir hans. "Næsti bær við." "Er það
gott land?" "Já, já." Bróðir hans rétti manninum teglas. "Fáðu þér aðra
flösku af bjór," sagði maðurinn. Ali heyrði flösku opnaða og tappa detta
á dyrahelluna. "Hvað er þetta?" spurði bróðir hans, röddin logaði af
áhuga. "Bara töflur. Ef ég er taugaóstyrkur tek ég eina. Þá líður mér
betur. Ef ég get ekki sofnað, þá tek ég tvær." "Og sofnarðu þá?" "Eins
og ungbarn." Nú varð þögn. Síðan spurði bróðir hans: "Myndu þær hafa þau
áhrif á hvern sem er?" Ókunni maðurinn hló. "Auðvitað," sagði hann.
"Sumir gætu þurft að taka þrjár, aðrir bara eina." "Hvað sefur maður
lengi af þeim?" "Alla nóttina." "Ef einhver kæmi við mann, myndi maður
þá vakna?" "Ha? Já." "En ef maður tæki fjórar eða fimm?" "Oh,lÂ,lÂ!" Þá
gætir hestur troðið á mér án þess að ég yrði var við. Það er of stór
skammtur." Nú varð löng þögn, og Ali heyrði aðeins hávaðann í
rigningunni allt í kring. Vatnið sem lak gegnum þakið var búið að ryðja
sér farveg yfir moldargólfið fram að bakdyrunum. Öðru hverju ómuðu
fjarlægar þrumur frá hæðunum í norðri. Loftið sem barst inn um dyrnar
var svalt og þrungið jarðarlykt. Skyndilega sagði bróðir hans: "Það er
að verða dimmt." "Ég býst við að þú viljir fara að loka." "Oh, ne t'en
fais pas!" sagði bróðir hans hlýlega. "Vertu kyrr þangað til hættir að
rigna." Ókunni maðurinn hló. "Það er fallega boðið, en ég er hræddur um
að ég verði hvort sem er blautur, því að það styttir ekki upp." "Nei,
nei!" æpti bróðir hans, kominn ákefðarhljómur í rödd hans. "Bíddu
fáeinar mínútur. Það styttir bráðum upp. Svo þykir mér gaman að spjalla
við þig. Þú ert ekki eins og Frakki." Maðurinn hló aftur. Hann virtist
ánægður með hrósið. Þá heyrði Ali bróður sinn segja feimnislega: "Þessar
töflur, hvar gæti ég fengið glas af þeim?" "Ég fékk þær hjá lækninum
mínum í Belgíu, en ég ímynda mér að þú gætir fengið lækni hér til að
skrifa þau út á lyfseðli." "Nei," sagði bróðir hans í vonleysistón.
"Hvað ætlar þú að gera við þær? Þú lítur ekki út fyrir að eiga við
svefnleysi að stríða." Bróðir hans tyllti sér við hlið ókunna mannsins.
"Það er ekki það," sagði hann og hvíslaði næstum. Ali rýndi milli
reyrstilkanna og reyndi að lesa af vörum bróður síns. "C'est une fille.
Ég gef henni allt mögulegt. Hún segir alltaf nei. Ég var að hugsa um, ef
ég gæti . . ." Maðurinn greip fram í fyrir honum: "Ef þú gefur henni
nógu margar af þessum, þá getur hún ekki sagt bofs." Hann hló
illkvittnislega. "Hérna. Komdu með lófann." Tautandi einhver óskiljanleg
þakkarorð reis bróðir hans á fætur, líklega til að sækja dós eða umslag
undir töflurnar. Ali flýtti sér út um dyrnar, gegnum rigninguna og yfir
í hitt húsið, þar sem hann skipti um skyrtu, breiddi þá blautu á púða og
kveikti á lampanum. Síðan fór hann að lesa, með nokkrum erfiðismunum,
dagblað sem gestur hafði skilið eftir daginn áður. Nokkrum mínútum síðar
kom bróðir hans inn, ánægður á svip og dálítið ábúðarfullur. Það rigndi
mestalla nóttina. Í dögun, þegar þeir fóru á fætur, var himinninn samt
orðinn heiður. Bróðir hans drakk kaffið sitt í flýti og fór út. Hann
kvaðst mundu koma aftur um hádegisbil. Tvenn hjón komu á kaffihúsið
þennan morgun, en þar sem þau pöntuðu bjór þurfti drengurinn ekki að
kveikja eldinn. Nokkru eftir tólf kom bróðir hans aftur. Ali leit upp á
andlit hans þegar hann kom inn um dyrnar og sagði við sjálfan sig: "Nú
hefur eitthvað gerst." En hann lést ekki hafa tekið eftir neinu og sneri
sér undan eftir að hafa heilsað honum eins og ekkert hefði í skorist.
Hann vissi að bróðir hans myndi ekki segja honum neitt, hvað sem á seyði
væri. Eftir hádegið gerði afbragðsveður. Það komu fjölmargir gestir eins
og alltaf þegar veður og skyggni var gott. Sami svipurinn var á bróður
hans. Hann bar bakkana með teglösunum út á veröndina eins og
svefngengill og forðaðist að líta í augun á viðskiptavinunum. Í hvert
skipti sem einhver kom og gekk inn um vafningsviðarhliðið út á
veröndina, leit helst út fyrir að bróðir Alis ætlaði að hlaupa og
stökkva fram af brjóstvörninni. Eitt sinn þegar Ali sá hann reykja, tók
hann eftir að höndin skalf svo mikið að hann gat varla borið vindlinginn
að vörum sér. Hann leit snöggt í aðra átt svo að bróðir hans sæi ekki að
hann var að horfa á hann. Þegar kvöldbænakallið var hljóðnað og síðasti
vagninn hafði skrölt niður veginn, bar drengurinn borðin og stólana inn
fyrir og sópaði gólfið á veröndinni. Ali stóð í gættinni. Bróðir hans
sat á brjóstvörninni og horfði niður yfir ólífutrén í dvínandi birtunni.
Bærinn fyrir neðan sökk dýpra og dýpra í djúp skugganna milli hæðanna.
Bifreið kom eftir veginum og nam staðar. Ali sá höfuð bróður síns
rykkjast upp mót kvöldhimninum. Tveimur bílhurðum heyrðist skellt.
Bróðir hans reis á fætur, tók tvö hikandi skref og settist síðan niður
aftur. Ali færði sig innar í herbergið, fjær dyrunum. Það var enn næg
birta til að sjá að mennirnir tveir, sem gengu yfir veröndina, voru
lögregluþjónar. Án þess að smeygja sér í ilskóna, hljóp hann berfættur
gegnum bakherbergi kaffihússins yfir auða svæðið og inn í hitt húsið.
Hann lagðist á madressu sína móður og másandi. Drengurinn var inni í
eldhúsi að hafa til kvöldmatinn. Ali lá þarna lengi. Hann hugsaði ekki
um neitt en virti fyrir sér kóngulóarvefina í loftinu bærast fram og til
baka í gustinum. Honum virtist svo langur tími hafa liðið að hann hélt
að mennirnir tveir hlytu að hafa farið burt án þess að hann heyrði í
þeim. Hann læddist að dyrunum. Drengurinn var enn í eldhúsinu. Ali gekk
út. Krybburnar sungu allt um kring og tunglsljósið var blátt að sjá.
Hann heyrði raddir á veröndinni. Hann læddist hljóðlega inn í
bakherbergi kaffihússins og lagðist á mottuna. Lögreglumennirnir voru að
gera gys að bróður hans, en ekki góðlátlega. Raddir þeirra voru hrjúfar
og þeir hlógu of hátt. "Belgíumaður, hvorki meira né minna!" æpti annar
með uppgerðarundrun. "Hann hefur bara svifið af himnum ofan eins og
engill, bien s^ur, með barbitúrlyf í hendinni. Og enginn sá hann nema
þú." Ali tók andköf og stökk á fætur. Síðan lagðist hann ofurhægt niður
aftur, dró varla andann en hlustaði. "Enginn," sagði bróðir hans lágri
röddu. Það hljómaði eins og hann hefði hendurnar fyrir andlitinu. "Hann
sagði að hún myndi bara sofna." Þetta þótti þeim drepfyndið. "Það væri
synd að segja að hún hefði ekki gert það!" sagði annar þeirra loksins.
Nú varð raddblær þeirra höstugur og tónninn ruddalegur: "Allez, assez!
On se débine!" Þeir stóðu upp og kipptu honum líka á fætur. Meðan þeir
ýttu honum áleiðis að bifreiðinni, var bróðir hans enn að malda í móinn:
"Ég vissi það ekki. Hann sagði mér það ekki." Vélin var sett í gang,
þeir sneru bifreiðinni við og óku niður veginn. Brátt yfirgnæfði
krybbusöngurinn vélarhljóðið. Ali lá grafkyrr dágóða stund. En hann var
orðinn svangur og hélt því inn í húsið að borða kvöldmatinn sinn.
SMÁSAGA EFTIR
PAUL BOWLES
ÖRNÓLFUR
ÁRNASON ÞÝDDI
|
|
Deila
á Facebook. | |
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|