Ég hef áhyggjur af dauðum kaktus. Upp á síðkastið hefur tilveran
verið áhyggjulaus. Mér líkar alltaf betur og betur í vinnunni og er
farinn að fá meira krefjandi verkefni þar. Á kvöldin skrepp ég í
ræktina, hitti ég vini mína, les bækur eða mála smávegis. Ég byrjaði
fyrst að fitla við vatnslitina fyrir nokkrum árum og upp á síðkastið
hefur sjálfstraustið farið vaxandi. Ég er mest að mála einhvers
konar stemmningsmyndir, ímyndað landslag í ólíkum litatónum og var
jafnvel farinn að gæla við tilhugsunina um að bæta nokkrum myndir
við seríuna og geta kannski haldið litla sýningu. Svo tók
kaktusfjandinn upp á því að blómstra og síðan hef ég ekkert getað
gert af viti.
Fyrsti kaktusinn kom inn í líf mitt þegar ég var 17 ára.
Auðvitað hafði ég séð kaktus áður, pabbi hefur til dæmis alltaf
verið með nokkra heima í stofu, en minn fyrsta kaktus keypti ég sem
sagt 17 ára. Við Sonja kynntumst þegar ég var á fyrsta ári í
menntaskóla og hún tæpu ári eldri. Hún var fyrsta kærastan mín og ég
sannfærðist fljótlega um að hún væri sú eina rétta. Við vorum
afskaplega ástfangin og ákváðum að fara að búa saman. Foreldrar
hennar og pabbi minn höfðu sínar efasemdir, en við létum okkur ekki
segjast. Við vissum að við höfðum fundið ástina og gátum ekki hugsað
okkur að búa sitt í hvoru lagi. Við fundum okkar fyrsta heimili í
Þingholtunum og fluttum inn í litla kjallaraholu í úrhellisrigningu
í byrjun september.
Um miðjan október flutti Sonja út og tók öll húsgögnin með sér.
Ég sat eftir í tómri íbúðinni á rúminu sem við höfðum keypt í
Rúmfatalagernum. Þetta rúm var það eina sem ég bar úr býtum eftir
skilnaðinn, fyrir utan leigusamning með þriggja mánaða
uppsagnarfresti. Eftir að hafa grátið mig í svefn í tæpa viku ákvað
ég að rífa mig upp á rassgatinu og horfast í augu við staðreyndir.
Mér var greinilega ætlað að lifa einn það sem eftir væri ævinnar og
eins gott að venjast þeim örlögum. Ég tók því strætisvagn í Blómaval
og keypti mér kaktus. Það þótti mér vera planta piparsveinsins,
holdgervingur einverunnar.
Eftir jólin hafði mér tekist að losa mig undan leigusamningnum og
flutti aftur heim til pabba. Þar bjó ég svo þar til ég kláraði
menntaskólann og flutti í aðra kjallaraholu. Sú var í vesturbænum og
þangað flutti ég með rúmið og tvo kaktusa.
Kaktus númer tvö var tileinkaður Vigdísi.
Samband okkar hafði ekki staðið nema í rúman mánuð, en það var
líklega stormasamasti mánuður sem ég hef upplifað síðan mamma dó.
Eftir að Vigdís hafði slitið sambandinu og því til staðfestingar
hellt yfir mig tvöföldum vodka í kók, fannst mér húmor í því að
kaupa annan kaktus. Í vesturbæinn fluttumst við því þrír, tveimur
mánuðum eftir vodkavígsluna, ég og kaktusarnir.
Síðan hef ég flutt nokkrum sinnum og kaktusunum hefur smám saman
fjölgað. Hvar sem ég hef búið hafa kaktusarnir skipað heiðurssæti.
Oftast á hillu í stofunni eða í eldhúsglugganum. Þeir eru hver af
sinni gerðinni í ólíkum blómapottum og alltaf raðað upp í tímaröð,
frá vinstri til hægri. Í síðustu viku voru þeir sex, en í dag
líklega ekki nema fimm.
Ég og kaktusarnir mínir höfðum það prýðilegt, lífið var
áhyggjulaust og ég var sáttur við mína vatnsliti.
Fyrir rúmum mánuði fórum við Gunni í bæinn að fá okkur steik og
kíkja í bjórkollu. Á þriðja bar rákumst við á Hafdísi og tvær af
vinkonum hennar. Þær vildu endilega bjóða okkur sæti og við létum
til leiðast, aðallega vegna þess að ég vissi að Gunni hefur lengi
verið að spá í aðra vinkonuna. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld og
þó að það hafi ekki "gerst neitt" kom okkur Hafdísi ótrúlega vel
saman. Ég hefði að minnsta kosti búist við því að þetta yrði
vandræðalegra, en við gátum sem betur fer hlegið að sjálfum okkur.
Þegar við kvöddumst ákváðum við að hringjast á og hittast, bara sem
vinir. Síðan höfum við tvisvar mælt okkur mót og farið á kaffihús og
þær vinkonurnar buðu okkur Gunna í humarveislu eitt kvöldið.
Nokkrum dögum eftir humarveisluna tók ég eftir því að kaktusinn
hennar Hafdísar, sá fjórði í röðinni, var að fara að blómstra.
Ég var lengi að átta mig á því hvað þetta væri, leit fyrst út
eins og grænn fingur sem stóð út úr kaktusnum. Fölgrænn með
einhverju brúnu á endanum sem minnti mest á laufin sem verða eftir á
krækiberjum þegar maður tínir þau. Mig grunaði að kannski væri þetta
einn af þessum kaktusum sem fjölga sér með afleggjurum sem detta svo
af. Það var samt einhvern vegin ekki trúleg skýring, svo ég fór að
fylgjast með gangi mála frá degi til dags. Sólarhring síðar var
græni fingurinn orðinn tæpir tíu sentimetrar og jafnvel stúdent af
fornmálabraut sá að kaktusinn væri að blómstra. Þegar blómið byrjaði
svo að opna sig var armurinn orðinn ívið lengri en kaktusinn var hár
og þegar ég vaknaði daginn eftir hafði opnað sig stórt rauðbleikt
blóm með daufri lykt af hunangi.
Ég á bágt með að trúa því hvað þetta gerðist hratt. Það er
eiginlega ofar mínum skilningi að svona stórt blóm geti vaxið út úr
ekki stærri kaktus. Blómið virkaði eins og eitthvað sem grætt hefði
verið á kaktusinn, það var svo gersamlega á skjön við öll eðlileg
stærðarhlutföll.
Morguninn eftir hafði blómið lokast og armurinn lyppast niður.
Núna er hann dottinn af kaktusnum og ég er nokkuð viss um að
kaktusinn er dauður. Skiljanlega get ég ekki tekið púls á honum, en
hann er farinn að grána og virkar einhvern vegin uppþornaður þannig
að ég held að næsta skref sé að gefa út dánarvottorð.
Ég er ekki örlagatrúar og ég er heldur ekkert að kippa mér upp
við það þótt ein planta drepist hjá mér, enda er ég nú einu sinni
piparsveinn. En samt...
Við Hafdís vorum búin að ákveða að fara saman á tónleika í kvöld.
Birt með
leifi höfundar.
Höf. :
Thorarinn Stefánsson
http://www.thorarinn.com/texts/kaktus

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|