Sig dreymdi undarlegan draum
í nótt, mamma," sagði ég við hana, eitt sinn, þegar ég var í heimsókn.
Kannski var hann svona undarlegur, fyrir þær sakir, að ég var búin að
vera veik og með óráði.
Mér fannst ég vera komin í heimsókn til mömmu, og hjá henni í heimsókn
voru líka pabbi heitinn og móðuramma mín sáluga.
Amma sáluga sat í hægindastólnum næst litla glugganum í stofunni lengst
til vinstri, en pabbi heitinn sat innst til hægri í gamla
húsbóndastólnum sínum, við sólríka gluggann.
Hann leit afar vel út í draumnum og hafði aftur náð því sem hann átti
eftir af sínum æskuþokka, sem hann tapaði nokkrum mánuðum áður en hann
dó, úr krabbameini.
Hann var klæddur hvítum jakkafötum, líklega blöndu úr bómull og hör.
Útlit móðurömmu minnar, var hins vegar á annan veg. Hún sat þarna
kviknakin með sviðið hárið.
Í lifanda lífi var hún vön að fara í permanett reglulega og lagningu
einu sinni í viku. Ég man einkar vel eftir krossi, sem hún bar ætíð um
hálsinn. En nú bar hún nisti, sem hékk niður sviðna bringuna. Nistið var
úr einhvers konar málmi, og platan var sporöskjulöguð og voru greyptir í
hana tölustafirnir 666.
Mér fannst þessi skartgripur hæfa ömmu betur en krossinn, sem hún var
alltaf vön að bera á jarðvistardögum sínum.
Í draumnum var pabbi hinn kátasti og sló á létta strengi.
Í lifanda lífi fór það mjög fyrir brjóstið á ömmu, þegar pabbi sagði
brandara. Þá var hún vön að setja upp fyrirlitningarsvip. Þann sama og
hún setti svo oft upp gagnvart mér, þegar ég heimsótti hana sem barn,
ásamt hinum ömmustelpunum.
"Þú skalt ekki halda að þú sért greindur eða skemmtilegur. Þú sjálfur
verkamaðurinn," hreytti amma út úr sér, í draumnum. Henni fannst það
vera fyrir neðan virðingu mömmu, þegar hún tók upp á því að giftast
verkamanni, sjálf embættismannsdóttirin.
Ég fékk oft að heyra það hjá ömmu í gamla daga, að ég hefði ekki þá
reisn til að bera, sem einkenndi móðurættina. Ég væri öll í föðurættina,
verkamannsættina. Það gæti engin ímyndað sér að ég væri af
embættismannakyni, svona horuð og rindilsleg.
Nei, ég hafði ekki sama þokkann og hinar stelpurnar í móðurættinni. Ég
leið fyrir að hafa ekki það Habsborgarasvipmót, sem einkenndi
móðurættina, sem var útnefnd til að taka þátt í fegurðarsamkeppni. Og
þeir hjá fegurðarsamkeppninni, hlógu bara þegar ég sagðist harma það að
hafa ekki erft Habsborgarasvipmótið úr móðurættinni.
"Ég er sjálfsagt hvorki greindur né skemmtilegur," sagði pabbi í
draumnum, en eitt verður þú að viðurkenna, gamla embættismannsfrú, að ég
er betur klæddur í dag en þú ert núna.
Þó ég hafi hvorki erft greindina né fegurðina úr móðurættinni, þá gat ég
alltaf komið körlunum við gáfumannaborðið á "Kaffi Hressó", til að
hlæja. "Þú kannt að koma fyrir þig orði, stelpa," sagði eitt alþekkt
gáfumennið, einu sinni við mig og hló.
"Þú ert öll í föðurættina," var amma vön að segja í fyrirlitningartón.
"Þú getur sjálfsagt fundið þér eitthvert létt, einfalt starf í
framtíðinni, þar sem þarf lítillar greindar við. Hinar stelpurnar geta
hins vegar nýtt sér sína hæfileika." Ég vissi aldrei í hverju þeira
hæfileikar lægju. En teiknikennarinn minn sagði að ég væri afburða
teiknari, sagðist sjaldan hafa kynnst nemanda sem mér. Hvort það gátu
talist hæfileikar, gat ég aldrei vitað. Ég vissi bara að ömmu fannst mér
hæfa best verksmiðjuvinna.
"Þú varst vön að bera dýrustu ilmvötn í gamla daga, ekki vantaði það,
embættismannsfrú mín góð," sagði pabbi í draumnum og hló við. "Ekki
vantaði það að þú ilmaðir vel, en nú er af þér hin megnasta sviðalykt."
Ég veitti því athygli í draumnum, að amma var með þriðja stigs bruna,
vítt og breitt um kroppinn. Einkum á bringunni.
Tengdasonurinn og tengdamóðirin ætluðu seint að hætta að hreyta skít
hvort í annað.
Amma sat þarna forsælumegin í stofunni, en pabbi sólarmegin.
Loks gat mamma ekki orða bundist og sagði: "Ef þessum látum linnir ekki
verð ég að vísa öðru ykkar út."
Og það varð úr að hún vísaði ömmu á dyr. "Þú tókst rétta ákvörðun í
málinu, í þetta sinn, mamma," sagði ég. Sviðalyktin af gömlu konunni var
að gera út af við mig.
Þegar við mamma opnuðum dyrnar til að fleygja gömlu konunni út, tókum
við eftir þriðja stigs bruna á bakinu á henni. Og í slóðinni í snjónum
greindust engin spor eftir mannsfætur, heldur hófaför.
Hún gekk hröðum skrefum að hliðinu, og við fundum hvernig sviðalyktin
dofnaði eftir því sem hún fjarlægðist okkur. En í reiði sinni, þegar hún
skellti á eftir sér hliðinu, tókum við eftir því að hún var með hala,
því hún klemmdi hann í hliðinu.
Þrátt fyrir myrkrið sem skollið var á, sáum við að henni hafði
blessunarlega tekist að losa halann og fara sína leið.

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|