Engar flugur á Frank

Eftir John Lennon, úr bókinni: In his own write (1964)

 

Það voru engar flugur á Frank þennan morgun, en af hverju í ósköpunum ekki? Var hann ekki ábyrgur borgari sem átti konu og barn, eða hvað? Þetta var dæmigerður Franks morgun og með ákafa sem ekki er hægt að lýsa stökk hann inn í baðherbergið á vigtina. Sér til mikillar skeflingar komst hann að því að hann var orðinn tólf tommum hærri að þyngd! Hann gat ekki trúað þessu og blóðið steig honum til höfuðs og olli býsna miklum roða.

„Ég get ekki trúað þessari ótrúlegu staðreynd um líkama minn sem hefur ekki bætt á sig fitu síðan mamma ól mig við barnsburð. Já og þó ég ráfi gegnum dimman skúr mun ég ekki gefa neinum að eta. Hvaða stórkostlega ógæfa hefur valdið mér svo feitum búsifjum?“

Frank leit aftur niður á þessa skelfilegu sýn sem varð til þess að honum sortnaði fyrir augum af hræðilegum ótta. „Tólf tommum þyngri. Sjá! en ég er ekki feitari en bróðir minn Jósep, en faðir hans Axel er undan Karli - í gegnum Lárus, sem gat Artúr son Eiríks af ætt Rónalds og Apríl – umsjónarmenn Jakobs frá Newcastle sem hljóp í Madaline með líkum 2 á móti 1 á móti Silfurblómi (10-2) framhjá Hvaða-hvaða á 4 og kvart á pund!“

Hann stefndi niður miður sín og gallaður, með mikla byrði á herðunum, og barið andlit konu hans gat ekki einu sinni kreist fram bros á höfði aumingja Franks, sem hafði, eins og þú veist, engar flugur á sér.  Konan hans sem var fyrrverandi fegurðardís leit á hann með einkennilegum en kraftalegum svip.

„Hvað amar að þér Frank?“ spurði hún og  lyfti brúnum. „Þú virðist svekktur, ef ekki óformlegur,“ bætti hún við.

„Það er ekkert nema að ég er tólf tommum hærri að þyngd en ég var á sömu klukku í gær á þessum tíma – er ég ekki aumastur allra? Leggðu ekki á þig að yrða á mig eða ég gæti valdið þér banasári. Þessa þraut verð ég að ganga einn.“

„Heyr! Frank – þú hefur sært mig harkalega með svo alvarlegu tali – er þessi þunga byrði mér að kenna?“

Frank leit sorgmæddur á konu sína og gleymdi eitt andartak rótinni að raunum sínum. Hann gekk hægt en hægt í áttina að henni og tók höfuðið á sér í hendur sínar og barði hana með fáeinum snöggum höggum þannig að hún féll örend á jörðina.

„Hún ætti ekki að þurfa að horfa á mig svona,“ muldraði hann, „svona feitan og það á þrítugasta og öðrum afmælisdeginum sínum.“

Frank varð sjálfur að útbúa morgunmatinn sinn þennan morgun og líka morgnana þar á eftir.

Tveimur (eða var það þremur?) vikum seinna vaknaði Frank aftur og sá að það voru enn engar flugur á honum.

„Engar flugur á Frank kallinum“ hugsaði hann með sér, en honum til mikillar undrunar virtust vera fjölmargar flugur á konunni hans, sem lá enn á eldhúsgólfinu.

„Ég get ekki neitt brauðs og svoleiðis með hana liggjandi þarna á staðnum“ leyfði hann sér að hugsa en skrifaði um leið og hann talaði. „Ég verð að fara með hana heim þar sem henni verður vel tekið.“

Hann safnaði henni í lítinn poka (vegna þess að hún var bara 130 sentimetrar) og hélt áleiðis til raunverulegs heimilis hennar. Frank barði á dyrnar á húsi móður konu sinnar. Hún opnaði dyrnar.

„Ég kom með Maríu heim frú Sutherskill“ (hann gat aldrei kallað hana mömmu). Hann opnaði pokann og setti Maríu á þröskuldinn.

„Ég tek ekki í mál að hafa allar þessar flugur í mínum húsum“ hrópaði frú Sutherskill (sem var snyrtileg húsfreyja) og lokaði dyrunum. „Hún hefði að minnsta kosti getað boðið mér tebolla“ hugsaði Frank um leið og hann lyfti vandamálinu aftur upp á herðar sér.

 

Áður birtar smásögur og  hugleiðingar

Share on Facebook

 Deila á Facebook.

 

  

 Deila á Twitter
 

©SigfúsSig.Iceland@Internet.is