Háttvirtu herrar
mínir og frúr!
Ég ætla að byrja sögu
þessa á því, að segja
yður hver ég er. Ég
heiti Jón og er Jónsson.
Ég er bóndi hér í Nýja
Íslandi á bæ þeim, sem
heitir Strympa. Ef ég
lifi þangað til
miðvikudaginn í átjándu
viku sumars, þá verð ég
fimmtíu og fimm ára
gamall. Ég er fimm fet
og sjö þumlungar á hæð á
íslenzkum
sauðskinnsskóm. Það
situr ekki á mér að
greina neitt frá
atgjörvi mínu eða
líkamsburðum, þar sem ég
segi sjálfur frá, en ég
skal að eins geta þess,
að ég þótti með duglegri
mönnum, meðan ég var upp
á mitt hið bezta. Ég
hefi verið heilsugóður
alla æfi, L. S. G., nema
hvað ég er farinn að
þjást af gigt þessi
síðustu árin. Hún liggur
oftast í lærhnútunni
vinstra megin og hleypur
upp í öxlina, og vill
ekki láta undan, þó ég
sé að bera á mig bæði
arniku og skonkalýsi.
Ég býst varla við, að
þið hafið heyrt mín
getið, og þess vegna
hefi ég verið svona
fjölorður um sjálfan
mig. Hér í Nýja Íslandi
er sá bölvaður erill af
Jónum, að þó ég - eða
einhver þeirra - vinni
sér eitthvað sérstakt
til frægðar, þá festist
aldrei sú frægð við
hann; því enginn veit,
hver Jónanna það er, sem
frægðarverkið hafði
unnið. Ég skal að eins
geta þess, að til
aðgreiningar frá öðrum
samnöfnum mínum er ég
kallaður Jón á Strympu -
Jón gamli á Strympu,
segja strákarnir, þegar
þeir eru að tala. Það
væri reyndar rangt af
mér að segja, að ég væri
alveg óþekktur í hinum
menntaða heimi, því
nafnið mitt hefir einu
sinni birzt á prenti.
Það er í Þjóðólfi frá
1872 undir auglýsingu um
rauðskjóttan graðfola -
mestu þrifaskepnu - sem
ég hafði misst og var að
auglýsa eftir. Þar
stendur nafn mitt og
brenimark fullum stöfum:
- graðfolinn var reyndar
ekki brennimerktur, en
mér fannst myndarlegra
að auglýsa það samt -
Jón Jónsson, Litlu
Strympu 20. nóvember.
Brennim. Jón J. Ég
klippti auglýsinguna með
nafninu mínu úr blaðinu,
og hefi síðan haft hana
fyrir miða í Jónsbók, og
er hún við guðspjallið á
16. sunnudag eftir
Trinitatis. (Hinn
vatnssjúki).
Já, - ég gleymdi
nokkru. Ég sem sé kaupi
Lögberg og þar stendur
nafnið mitt á prenti á
lifrauðum miða framan á
blaðinu í hverri viku.
Mér þykir vænt um miðana
og hefi tekið þá af og
haldið þeim saman, og
Ásdís mín - það er konan
mín - hefir límt þá með
grautarlími á allar
bækur, sem ég á í eigu
minni. Afganginn geymi
ég í gömlu
pjátur-tóbaksdósunum
mínum, því ég er alveg
hættur að brúka þær,
síðan ég fékk pontuna
hjá Grími mínum
Einarssyni.
Ég gat þess áðan, að
konan mín héti Ásdís.
Hún er þremur árum eldri
en ég, og mesta
atgervis- og sómakona.
Hún er hálfdóttir
Þorsteins, sem lengi bjó
á Yxnaþúfu; sómamaður
mesti og búhöldur. Mig
hefir allt af furðað,
hvers vegna Sunnanfari
kemur ekki með mynd af
honum, því hann átti
afbragðs kú, og lagði
saman nytjar tvisvar á
ári. Ásdís mín var elzt
þeirra systra. Hún var
af dönsku kyni, undan
afbragðs nauti, og
sóttust allir bændur í
hreppnum, eftir að fá
kvígur undan henni. Ég
vissi aldrei, hvernig
það atvikaðist, að við
Ásdís mín fórum til
Ameríku. Hreppstjórinn -
mesti dánu- og
sóma-maður - lánaði
okkur þrjú hundruð
krónur sléttar, þegar
við fórum, og hefir
aldrei gengið eftir þeim
síðan.
Okkur Ásdísi minni
hefir allt af komið vel
saman, enda er gott að
lynda við mig. Hafi
okkur ætlað að verða
sundurorða, þá hefi ég
alténd slegið undan, því
það situr ekki á mér að
hafa á móti því, sem hún
segir. Ég man ekki
eftir, að hún hafi
reiðst mér nema einu
sinni: Það var fyrir
mörgum árum síðan, að ég
var nýbúinn að sá korni
í blett fyrir austan
fjósið - ég var þá ekki
búinn að læra þá réttu
búskaparaðferð hér - og
af því fuglinn var
vitlaus í það, þá setti
ég upp stóra krossrellu
til að fæla hann burt.
En hvað skeði? Þegar ég
kom heim, þá óð Ásdís
mín alveg upp á höfuð á
mér með þeim
úrhelli-skömmum, að ég
gat engu svarað. Hún
sagði, að ég hefði sett
upp þessa krossrellu til
að svívirða sig, því hún
Anna á Snyddu hefði
sagt, að kjafturinn á
henni Ásdísi á Strympu
gengi dag og nótt, eins
og krossrella, - alveg
eins og kross-rella, og
ef ég ekki tæki hana
niður strax, þá skyldi
ég ekki bragða mat í
heila viku. Það þoldi ég
ekki, því maturinn er
mér fyrir öllu. (Við
erum reyndar farin að
verða þurftarminni nú
upp á síðkastið, og er
það helzt þessi
kaffiögn, sem við getum
nærzt á). Ég tók
krossrelluna niður og
braut hana sundur.
Við Ásdís mín erum
búin að dvelja hér í
Nýja Íslandi í 20 ár.
Fyrstu árin var allgott
að vera hér, því þá voru
engir skattar og engin
sveitarstjórn, og ég var
búinn að koma mér upp
fjórum beljum og nokkrum
kindum. Svo átti ég
ýmislegt af öðru dóti og
laglegan snudda, sem var
brúkaður á bæjunum í
kring. Móður hans keypti
ég af Jóni mínum í
Fagrahvammi, ljómandi
skepnu og þreifst
ágætlega hjá okkur, enda
hirðir Ásdis mín kýr
betur en nokkur önnur
kona hér í kring, nema
hvað sá galli er á
henni, að hún er
þríspena. Svo vissi ég
ekki neitt um neitt,
fyrr en um sumarið, að
mér var sagt, að við
ættum að fara að gjalda
til sveitar, eins og
heima, handa fátækum og
til prests og skrifara.
Mér varð það fyrst fyrir
að grafast eftir, hvort
ekki væri hægt að segja
sig til sveitar, eins og
heima; en mér var svarað
því, að það væri
ómögulegt, og ef við
ekki borguðum skattinn,
þá yrði farið illa með
okkur. Svo um haustið
sendu þeir herrarnir
okkur skattmiða, og það
var ekki laust við að ég
yrði hræddur. Ég átti
nokkur cent útistandandi
fyrir lánið á tudda
mínum, og fékk þau, og
borgaði með þeim
skattinn. Við Ásdís mín
þorðum ekki annað, því
að við kunnum þá ekki
lagið á
sveitarstjórninni. Næsta
ár var skatturinn hærri,
og þó borgaði ég hann,
með því að selja
golsóttu ána mína, og
svo stútaði ég nokkrum
hænum og lagði inn hjá
bræðrum og fékk cent
fyrir.
Ég vissi ekki hvernig
á því stóð, en á þessum
tveimur árum fækkuðu
gripirnir hjá okkur
talsvert. Hálfa var
kálflaus, svo við skárum
hana, og eitt af því,
sem sveitarstjórnin
gerði okkur til
bölvunar, var að gefa út
lög um, að tarfar mættu
ekki ganga lausir, svo
ég varð að farga tudda
mínum, og var hann
orðinn laglegur og
feitur, en ég hafði ekki
hey til að gefa honum
inni. Svo kom þistill í
garðinn, og við hættum
alveg að sá í hann, því
Grímur minn sagði okkur
Ásdísi minni, að það
gæti ekki sprottið í
þistiljörð, og það bezta
væri að girða vel í
kringum hann, svo hann
gæti sprottið í næði, og
það gerði ég. Gömlu
netin mín urðu ónýt, og
ég gat ekki fengið mér
önnur ný.
Svo þriðja árið var
skatturinn hærri en
áður, og efnahagur okkar
verri en áður, og þá var
það eitt sinn, þegar við
Ásdís mín vorum að
drekka kaffi, að hún
segir við mig:
„Með hverju ætlarð'
að borga skattinn í
haust , Jónsi?“
„Ég - ég veit ekki“,
sagði ég. „Ég sker hann
hrússa og legg hann inn
hjá bræðrum upp í
skattinn“.
„Og vera svo hrútlaus
eftir. Þú heldur
líklega, að ærnar fái
við sér sjálfar. Það er
rétt eftir öðru
búskaparlagi þínu. Ég
held það væri nær að
borga ekki skattinn,
eins og hann Grímur
gerði í fyrra, og hefir
ekki borið á, að hann
hafi verið hengdur enn
þá“.
„Þeir kann ske taka
af okkur beljuna, og
selja hana fyrir
skattinum“.
„Þú ert asni, Jón;
eins og þú hefir allt af
verið síðan ég giftist
þér. Ég er svo sem ekki
hrædd við þá herra, þó
þeir reiðist upp í
hástert. Grímur kom
hérna í dag að leita
ráða handa kúnni sinni,
og lét kálfinum sex
vikum fyrir tímann, og
segir að sveitarráðið
hafi leyft sér að vinna
af sér skattinn, því
hann geti ekki borgað í
brautinni. Og ætli það
hefði nú ekki verið nær
fyrir þig að gera skurð
úr djúpa kerinu, og
vinna af þér skattinn
ofan fyrir brautina. Það
gæti þó farið svo að þú
fengir tuggu úr því“.
„Kann ske þeir lofi
mér það, ef ég bið þá um
það“.
„Ekki, ef þú ert sá
heimskingi að borga. Ef
þú ekki borgar neitt, þá
færðu það, því hvað er
af okkur að hafa? Ég
held það væri líka nær
fyrir okkur að hafa
færri gripina, við
komumst einhvern veginn
af fyrir því, og það
verður ekkert tekið af
okkur, ef við eigum
ekkert til“.
Ég sá, að þetta var
satt. Það sat ekki á mér
að vera að hafa á móti
því, sem Ásdís mín
sagði. Ég borgaði engan
skatt það haust, enda
nefndi enginn það við
mig. Næsta ár kom á mig
tvöfaldur skattur, með
rentum, og þá var mér
ómögulegt að borga, þó
ég hefði viljað. Mér
hálflék hugur á að fá
skurð úr djúpa kerinu og
fram í vatnið, svo ég
fór og bað sveitarráðið
að lofa mér að vinna af
mér skattinn, og sagði
þeim frá, hvað bágar
væru orðnar ástæður
okkar Ásdísar minnar.
Þeir veittu mér það
strax, því þeir sáu, að
ég gat ekki borgað. Ég
gróf tuttugu faðma
langan skurð, tveggja
feta breiðan og eitt fet
á dýpt, og var að því í
átta daga. En hörð þótti
mér sú vinna, jafnvel þó
ég færi mér ekki mjög
hart, og ég hugsaði, að
ég skyldi ekki láta
sveitarráðið fara svo
með mig í annað sinn.
Næstu tvð ár borgaði
ég ekkert, bæði gat ég
það ekki, og svo sá ég
ekki til neins að vera
að því. Enginn nefndi
það á nafn, og Ásdís mín
sagði, að það væri
guðlaust að vera að
borga þann skatt ofan í
fjandann á þeim.
Svo safnaðist á okkur
þriggja ára skattur; ég
held það hafi verið
orðnir yfir 20 dollars.
Ég var alveg hættur að
fást nokkuð um þá skuld,
og lét mér standa á
sama, þó skattaseðlarnir
væru að koma. Þá var það
eitt sinn, að ég og
Ásdís mín vorum nýkomin
af netjum, að Grímur
minn Einarsson kom, og
meðan hann var að bíða
eftir volgum skólpsopa,
þá segir hann við mig
rétt si sona:
„ Heyrðu lapm“, sagði
Grímur, „hefir þú heyrt,
að sveitarráðið er að
kjósa prelát til að fara
um og taka lögtaki hjá
okkur í skattinn?“
Ég var að taka í
nefið og varð svo hverft
við, að ég missti niður
tóbakið, sem ég hafði á
handarbakinu. Ásdís mín
varð fyrri til svars, -
það stendur sjaldan
lengi á svörum hjá
henni:
„Þar eru þeir lifandi
komnir allir saman. Ætla
nú að fara að selja
undan okkur, eða hvað?
En hart þykir mér það,
ef þeir leika sér að því
að vaða inn í fjósið á
Strympu, meðan gamla
Ásdís er heil heilsu og
á fjórum fótum. Það er
þér, Jón, allt saman að
kenna. Þú gazt verið
búinn að skera Rindlu,
svo þeir gætu ekki tekið
hana. Og ef maður á
ekkert, þá hafa þeir
ekkert að taka. Skuldar
þú þeim nokkurn skatt,
Grímur?“
„Hja“, - segir
Grímur, „ég held ekki,
dí hitt í fyrra vann ég
hann af mér, og í fyrra
gáfu þeir mér hann upp.
Jú, ég líklega kem til
að skulda þeim skattinn
fyrir þetta árið, en, -
ég borga hann aldrei“.
Þetta sagði hann
íbygginn, og ég vissi að
hann meinti það. Grímur
er ekki alveg blár
innan, og þeir sanna
það, að þeir naga aldrei
feita hnútu hjá honum.
Svo nokkrum dögum
seinna vildi það til, að
ég var að fitja í
gullaugnanetsgarm, að
mér varð litið út um
glugga og sé ég hvar
hann kemur, svo sem
sjálfur
tollheimtumaðurinn
bersyndugi, eins og
guðspjallamaðurinn Sýrak
nefnir hann, og vissi ég
strax í hvaða erindum
hann mundi vera. Ég leit
til Ásdísar minnar og
segi ég si sona: „Ásdís
mín“, segi ég við Ásdísi
mína, „nú verður þú
að verða fyrir svörum,
en reyndu að sjá um, að
hann hafi ekki Rindlu
eða ána, við skulum
heldur skera þær og
éta“. „Þú hefðir átt að
hafa mannrænu í þér að
vera búinn að því“,
segir Ásdís mín, og svo
stendur hún í dyrunum,
þegar sá bersyndugi
kemur. Slík og þvílík
ósköp! Ég vissi fyrir
löngu, að Ásdísi minni
var liðugt um tungutak,
en annan eins
mælskustraum hafði ég
ekki haft hugmynd um.
Orðin - og þau orð -
runnu upp úr henni með
svo miklum hraða, að
skatta-innheimtumaðurinn
gat ekki komizt að til
að skjóta inn í orði á
rönd, hvað þá meira. Og
handleggirnir á henni
gengu eins og - eins og
- ja eins og krossrella,
og það þarf ekki að
orðlengja það, að hann
snautaði burt, og kom
ekki aftur. Ég brosti
með sjálfum mér yfir
ferð hans. Þeir leika
sér ekki að því, þeir
herrar, að vaða ofan í
Ásdísi mína, þó þeir
kann ske haldi það.
Við skárum Rindlu um
haustið, og lögðum ketið
inn fyrir jólin. Við
áttum eina kvígu, sem
átti að bera á þorranum,
og ég sá, að það var
innanskömm í henni, svo
hún gat ekki lifað. Ég
sá ekki til neins að
vera að mæða mig við að
hafa tvær kýr; við áttum
nógu erfitt án þess.
Ég hefi fengið
skattseðil á hverju ári,
en ég skeyti þeim aldrei
að neinu. Skattskuld mín
er nú orðin yfir 40
dollara. Svo um daginn
varð ég skrambans
smeykur, því ég heyrði
sagt, að þeir ætluðu að
skera niður alla
skuldaþrjóta
sveitarinnar á einum
fundi, svo ég fór og
hitti Þórð minn í
Framnesi - frá Keitu í
Skagafirði, og segi ég
við hann: „Ætl' þú
vildir ekki, lapm, fara
norður á fundinn og
segja mér hvað þeir gera
þar, viðvíkjandi mér?“
„Hjú“, sagði Þórður
og þurkaði sér fyrir
neðan nefið á
treyjuerminni, „það er
velkomið að ég geri það,
góur“.
Hann fór. Þeir sátu
þar á fundi með
kollektunni og voru að
ráðstafa skuldaþrjótum
sveitarinnar. Þegar
röðin kom að mér, þá
segir hann:
„Jón gamli á Strympu
skuldar 41 dollar. Hvað
á að gera við hann?“
Þeir litu hver upp á
annan, og var eins og
hefði verið stungið upp
í þá heilum
sugfiskshaus.
„Hann Jón á Strympu“,
sögðu þeir, „það er ekki
til neins að gera neitt
við hann, nema að strika
hann algerlega út úr
bókum sveitarinnar. Það
er til skammar, að nöfn
slíkra manna sjáist þar,
og kerling hans
eitthvert hið versta
skass í allri sveitinni.
Við megum þakka fyrir,
ef við fáum ekki að vita
betur af þeim síðar, því
þau eru alveg hætt
nokkuð að bjarga sér“.
Ég kunni mér ekki
læti, þegar ég frétti
þetta. Satt að segja
hafði mér alltaf verið
hálfórótt út af
skattinum. En Ásdís mín
sagði, að sér stæði
alveg á sama; hún hefði
aldrei borgað hann hvort
sem var.
Svona þarf maður að
hafa það við þessa
sveitarbesefa. Maður
verður alveg að ganga
fram af þeim. Ég skal nú
að endingu geta þess, að
ég hefi ekki párað
þessar línur í þeim
tilgangi að verða
frægur, eða fá orð á mig
sem rithöfundur. En mér
fannst það vera
kristileg skylda mín að
láta meðbræður mína
vita, hvaða
búskaparaðferð er
heppilegust hér í Nýja
Íslandi, til þess að
geta átt góða daga og
losast við þessi
sveitar-meinvætti, hún
er nefnilega sú: að
eiga ekki neitt og gera
ekki neitt.
Svo nú er ég alveg
laus við sveitarráðið.
Ég lifi góðu lífi og á
einn gullaugnanetsgarm,
sem ég legg í vatnið,
þegar gott veður er.
Gripirnir eru þrír:
Búbót Ásdísar minnar,
(undan svarta bola
Þórðar míns) og Hringur
minn og Skakkhyrna.
Kindurnar eru fimm,
allar út af þeirri
golsóttu frá Jóni. Sex
hænur eigum við, og einn
hana (með tvöföldum
kambi) og höfum þau í
krubbu fyrir aftan rúmið
okkar á bak við stóna.
Við lifum ánægð með
þetta og kvíðum engu,
því Ásdís mín segir, að
meðan kaupmaðurinn láni
okkur, þá þurfum við
ekkert að óttast; en
þegar hann hætti því, þá
skuli sveitarráðið „fá
að vita af okkur betur“,
eins og þeir sögðu á
fundinum.
Að endingu vil ég
þakka yður, mínir
hávelbornu herrar og
frúr, fyrir að hafa
hlustað á sögu mína. Ef
þér ætlið yður að
setjast að hér neðra, þá
munuð þér aldrei iðrast
þess, þó þér hagnýtið
yður lærdóm þann, sem
hún hefir inni að halda.
Saga frá Nýja Íslandi
eftir Gunnstein Eyjólfsson

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|
|