Meiri skemmtun og meiri
draumóra. Meiri peninga og meira af tækifærum til að næla í þá. Ég var
orðinn leiður á að skemmta mér en samt hafði ég ekki fengið nægju mína.
Fatin gekk í áttina til mín, hvít eins og snjór í blóðrauðu ljósinu á
barnum. Hún tók eina minnisbókina mína, leit í hana og glotti.
Hún tautaði eitthvað óskiljanlegt, fór síðan aftur burt og hvarf á milli
þeirra sem voru að sparka út í loftið. Klukkan var þrjú að nóttu og ég
var þreyttur og taugatrekktur. Om Kalsoum var að syngja: "Svefn lengir
aldrei lífið, né styttist líf þitt við langa bið."
Svartur maður birtist. Hvítt á svörtu. Hann tók eina kompuna mína og hóf
að lesa upphátt: "Fullkomið frelsi á sér sorglega hlið." Hann lagði hana
frá sér. "Um hvað fjallar bókin?" spurði hann.
"Hún fjallar um mann sem skilur ekki þennan heim," sagði ég. "Hann særir
sjálfan sig og alla sem nærri honum koma."
Hann kinkaði kolli, lyfti glasinu og drakk. Að því loknu sagði hann: "Þú
ert brjálaður."
Ég horfði á Fatin skrifa í minnisbók. Á meðan reykti ég, drakk og
hugsaði um þetta með ilskóna. Ljósin slokknuðu. Kvenfólk veinaði. Þegar
ljós kviknaði aftur heyrðust bæði menn og konur tuldra eitthvað. Ég
keypti annan drykk handa Khemou. Hún gaf mér koss sem skildi eftir sætt
bragð í munninum á mér. Brún tunga hennar kitlaði mig. Hún var að borða
súkkulaði, og hlátur hennar var rauður í ljósinu frá barnum. Khemou gekk
burt og Fatin kom til mín. Hún rétti mér blátt pappírsblað. Á það hafði
hún skrifað: "Rachid, hvað veist þú um ástina? Þú eyðir meiri tíma í
ástarskrif en ástarleiki. Sá sem aldrei hefur rannsakað ást, nýtur
hennar betur en sá sem veit allt um hana. Ást er ekki vísindagrein. Ást
er tilfinning, tilfinning, tilfinning."
Miriam Makeba hóf að syngja Malasíu . Hún hefur hvíta rödd. Ég tók til
við að skrifa á sama bláa miðann: Fatin, þú ert rauða rekkjan mín, og ég
er svarta værðarvoðin þín. Ég er farinn að sjá þetta þannig.
Ég svipaðist um eftir Fatin. Munnurinn var svöðusár á andliti hennar og
útlendur sjómaður var að sleikja það. Hún hafði hægri handlegginn utan
um hann og hellti úr glasinu sínu á gólfið með vinstri hendinni. Khemou
kom og bauð mér varirnar eins og kirsuber. Ég keypti annan drykk handa
henni. Ég var svo ánægður með áhrifin af kossi hennar að ég fór einu
sinni enn að hugsa um að selja skóna. Hvað átti ég að setja upp hátt
verð fyrir þá? Englendingurinn var ekkert of góður til að borga milljón
franka* ef hann vildi eignast ilskó spámannsins. Hann hlaut hvort sem er
að vera bjáni, annars hefði hann ekki látið blekkjast af svona sögu. En
hvernig gat ég vitað nákvæmlega hversu heimskur hann væri? Það var hann
sem fyrst vakti máls á þessu, með sögunni um svarta markaðinn.
Fatin birtist, svört, ljós og hvít. Ég rétti henni bláan pappírsmiða.
Hún leit á mig og brosti. Ég hugsaði með mér að stelpur eins og hún væru
bara til vandræða. Litli munnurinn á henni leit nú út eins og sár sem
hafði gróið. Mér varð hugsað til indverska skáldsins Mirzah Asad Allah
Ghalef:
Þeim sem þorsti kvelur
er ég þurr vör.
Hún sækist eftir þeirri tegund ástar sem gerir hana óhamingjusama. Það
sem mér geðjast við hana er að hún trúir enn að það ætti að breyta
heiminum.
Khemou og Latifa tóku að æpa hvor á aðra eins og tveir kettir í áflogum,
meðan Miriam Makeba hélt áfram að syngja hvítri röddu. Khemou reif í
svart hárið á Latifu, sló hana niður og sparkaði í andlitið á henni.
Latifa æpti og það blæddi úr nefinu á henni. Litirnir spunnust allir
saman í kollinum á mér. Fatin skildi bláa miðann eftir hjá mér og hljóp
til að skilja hinar tvær. Ég las áfram: Þú hefur rétt fyrir þér. Ég ber
fyrir þá hold mitt, en ég finn ekki fyrir því þegar þeir eta mig.
Vigon syngur með hvítri rödd: "Fyrir utan gluggann." Vigon syngur, og ég
hugsa um möndlutré í blóma, og um snjó, sem ég dái.
Khemou og Latifa komu út af snyrtingunni. Þær höfðu sæst líkt og tvær
smátelpur. Svo fóru þær að hlæja og dansa eins og ekkert hefði í
skorist. Ég sat þarna og reykti meðan ég réðist í huganum á hvern mann á
barnum sem ég kunni ekki við smettið á. Einn fékk spark, annar löðrung
og þessi þarna fyrir handan fékk kjaftshögg. Ég komst í betra skap af
því að horfa á sjálfan mig fara með þá að vild minni.
Á morgun sel ég skóna. Fatin fór framhjá aftur og ég spurði hana hvers
vegna Khemou og Latifa hefðu verið að rífast. Hún sagði að það væri
vegna þess að Khemou hefði sagt manninum, sem Latifa var að drekka með,
að hún væri með berkla.
"Er það satt?" spurði ég hana.
"Já," sagði hún. "En hún segir að það sé búið að lækna hana."
Englendingurinn og ég vorum heima hjá mér að borða couscous . Hann leit
á mig og sagði: "Þetta er besta couscous sem ég hef nokkru sinni
bragðað."
Öðru hverju skimaði hann út í hornið þar sem amma mín sat og laut höfði.
Ég sagði honum að þetta couscous hefði komið frá Mekka. "Frænka mín
sendir vænan slatta í hverjum mánuði."
Hann horfði undrandi á mig. "Það er alveg frábært."
Til þess að hann áttaði sig betur, bætti ég við: "Allt hér í húsinu er
frá Mekka. Við fáum meira að segja reykelsið sent mánaðarlega."
Við lukum við couscousið og byrjuðum á öðrum rétti, ofnbökuðu kjöti með
rúsínum og sterku kryddi. "Þetta heitir mrozeya ," sagði ég við hann.
Hann tuldraði eitthvað og sagði svo: "Mikið er þetta gott." Amma mín
laut enn höfði. Ég sá að Englendingurinn horfði á hana sitjandi þarna í
hvíta kuflinum sínum. Reykelsið og þögnin í herberginu gerðu hana enn
tilkomumeiri sjón. Hún lék hlutverk sitt vel. Litla, siðláta
þjónustustúlkan okkar bar fram te í silfurkatli. Hún var einnig klædd
drifhvítum kufli, og huldi líka andlit sitt. Hendur hennar voru málaðar
með henna-lit í margbrotnu mynstri, og svart hár hennar gljáði yfir
gríðarstórum eyrnalokkunum. Hún gerði engin mistök. Hún heilsaði
Englendingnum án þess að brosa, eins og ég hafði brýnt fyrir henni að
gera. Það fór henni vel að vera þungbúin á svip. Ég hafði aldrei séð
hana svona fallega.
Mintuteið með ambri í virtist falla Englendingnum vel í geð. "Þykir þér
teið gott?" spurði ég hann.
"Já, það er afar gott!"
Það ríkti þögn stundarkorn. Ég hugsaði með mér: Nú er kominn tími til að
nudda lampa Aladdíns. Ég reis á fætur, gekk til ömmu og hvíslaði í eyra
hennar. Ég sagði engin orð, gaf bara frá mér hljóð. Hún kinkaði kolli
hægt, án þess að líta upp. Þá lyfti ég hvíta púðanum og tók upp
gullbryddaða, græna silkislörið sem huldi þá.
Englendingurinn virti fyrir sér ilskóna sem orðnir voru litlausir af
elli. Hann rétti hægt fram höndina til að snerta leðrið. Síðan leit hann
á mig og skynjaði að ég vildi ekki að hann kæmi við þá.
"Guð minn góður! Þeir eru dásamlegir!"
Ég huldi skóna aftur, en stóð kyrr um hríð til að leyfa honum að skoða
þá gegnum græna silkislæðuna. Ég sneri mér hægt og gætilega við og lét
púðann aftur á sinn stað eins og ég væri að leggja umbúðir við sár. Hann
leit á mig og starði síðan lengi í áttina að skónum. Þá áttaði hann sig
á að nú væri kominn tími til að fara, og stóð upp.
Við sátum á Café Central. Í þriðja sinn síðan við fórum heiman frá mér
sagði hann: "Er það þá ómögulegt?"
"Það er afskaplega erfitt," sagði ég. "Ég veit ekki hvernig ég ætti að
fara að því. Það var nógu erfitt að fá hana til að leyfa þér að líta á
þá. Þú getur verið viss um að þú ert eini kristni maðurinn sem nokkru
sinni hefur séð skóna. Og það mun enginn annar fá það heldur."
"Ég skil það," sagði hann. "En kannski getum við komist að samkomulagi."
"Ég skil það líka. En hvað get ég gert? Þessir skór eru líf og yndi ömmu
minnar. Ef hún kæmist að því að þeir væru horfnir, myndi hún missa vitið
eða fá hjartaslag. Mér þykir mjög vænt um hana, eins og gefur að skilja,
og ég virði það hvað henni er annt um þessa skó."
"Ég gef þér tíma til að hugsa málið," sagði hann. "En reyndu að telja
henni hughvarf."
"Já. En þegar þú hugleiðir hvað það var erfitt að fá hana til að leyfa
þér að líta á þá, geturðu ímyndað þér að það verður margfalt erfiðara að
telja henni hughvarf."
"Gerðu þitt besta," sagði hann.
Ég sagðist mundu gera það en byggist við að það kæmi ekki til greina.
Síðan sagði ég: "Heyrðu. Mér kemur ráð í hug. En aðeins með einu
skilyrði."
"Hvað er það?"
Ég hikaði andartak.
"Segðu mér það. Kannski getum við fundið leið."
"Þú yrðir að yfirgefa Tanger um leið og þú fengir skóna í hendurnar."
"Það væri allt í lagi," sagði hann, skilningsríkur. "Það er
prýðishugmynd."
"Og ég yrði að koma mér burt frá Tanger sjálfur og finna mér annan
dvalarstað. Ég gæti ekki komið til baka meðan amma mín væri enn á lífi."
"Nei."
"Ég gæti ekki verið hér áfram eftir að þeir væru horfnir."
"Ég skil það vel."
"Það eru þessir skór sem halda í henni lífinu, má segja."
"Já, já. Hvað viltu fá mikið fyrir þá?"
Ég leit á hann og rödd mín sagði: "Milljón franka."
"Ó! Nei!" hrópaði hann. "Það er mjög hátt verð."
"En þú færð dálítið sem er einstaklega fágætt. Ekkert safn á neitt í
líkingu við þá. Og ég mun iðrast gerða minna það sem eftir er ævinnar."
"Ég veit. Ég veit. En þetta er mikið fé. Ég skal borga þér hálfa
milljón. Ég get ekki borgað þér meira en það."
"Þú yrðir að borga meira en það," sagði ég við hann.
"Nei, ég get það ekki. Ég á það ekki til."
"Þú lætur mig fá heimilisfang þitt og ég skrifa þér þaðan sem ég sest
að, og þú getur sent mér afganginn seinna."
Við horfðum hvor á annan nokkrar sekúndur. Ég hugsaði með sjálfum mér:
Svona nú, segðu það, hr. Stewart.
"Gott og vel," sagði hann loksins.
Stórkostlegt, hr. Stewart, hugsaði ég.
"Hvar eigum við að hittast á morgun?" spurði ég hann.
Hann hugsaði sig um augnablik og sagði svo: "Ég skal bíða eftir þér í
anddyrinu á Hótel Minzah."
"Nei," sagði ég. "Fyrir utan hótelið, úti á götu. Og þú verður að hafa
farmiðann þinn meðferðis, svo að þú getir farið um leið og þú hefur
fengið ilskóna í hendurnar."
"Auðvitað."
"Klukkan hvað verður það?"
Meðan ég hikaði hugsaði ég: Svona nú, hr. Stewart, gerðu upp hug þinn.
"Klukkan þrjú."
Ég stóð á fætur, tók í höndina á honum og sagði: "Haltu þessu fyrir
sjálfan þig."
"Ég segi ekki orð."
"Ekki aðeins amma mín mun verða bálreið, heldur allir sem vita að hún á
þessa skó."
Ég gekk burt. Ég leit um öxl andartaki síðar og sá hann yfirgefa
kaffihúsið.
Hann beið eftir mér fyrir framan hótelið. Mér sýndist hann taugaspenntur
og hann starði stórum augum á pokann sem ég hafði meðferðis. Ég sá að
hann var með pakka í hendinni. Hálf milljón, hugsaði ég. Meiri skemmtun,
meiri tími til að finna upp á öðrum ámóta brögðum seinna. Litirnir á
barnum.
Ég benti honum að fylgja mér og nam ekki staðar fyrr en við vorum komnir
drjúgan spöl frá anddyri hótelsins. Við stóðum augliti til auglitis og
tókumst í hendur. Hann horfði á pokann minn og ég leit á pakkann sem
hann hafði í hendinni.
Ég opnaði pokann og hann snerti skóna sem snöggvast. Síðan tók hann við
pokanum af mér og ég við pakkanum af honum. Hann benti á kyrrstæða
bifreið og sagði: "Þetta er bíllinn sem á að aka mér út á flugvöll."
Ég hugsaði: Og í kvöld verð ég á Bar Messalínu.
Ég settist í sama hornið og venjulega. Ég reykti, drakk og keypti kossa
án þess að þrefa um verð. Ég er orðinn leiður á að skemmta mér. Leiður,
en þó ekki búinn að fá nægju mína. Ein kona er ekki nóg.
"Khemou er á spítalanum," sagði Fatin mér. "Og Latifa er á
lögreglustöðinni. Hún var full og lamdi Khemou í hausinn með flösku."
Ég spurði Fatin hverjar stelpurnar tvær væru sem sátu í horninu gegnt
mér. Hún sagði að þær væru báðar frá Dar el Beida. Hún tók upp eina
minnisbókina mína og arkaði á brott með hana. Ég veifaði til þeirrar
yngri. Hún spjallaði stundarkorn við vinkonu sína. Ég reykti og drakk og
beið eftir fyrsta kossi stúlku sem ég hafði aldrei áður snert.
Hún stóð upp og kom yfir til mín. Ég sá að það slakaði á spennunni í
litla andlitinu. Munnurinn á henni var eins og jarðarber. Hún byrjaði að
dreypa á drykknum sem ég keypti handa henni. Varir hennar glitruðu.
Munnurinn á henni opnaðist uppi í mér. Jarðarber gegnvott af gini og
toníki. Eva að eta kirsuber. Adam nálgast hana, en hún setur síðasta
berið upp í sig áður en hann getur náð til hennar. Þá nær hann síðasta
berinu milli vara hennar. Kirsuberið kenndi Evu að kyssa. Adam þekkir
nöfn á öllum fyrirbærum, en Eva þurfti að kenna honum að kyssa.
Tveir menn voru farnir að fljúgast á út af einni stúlkunni. Sá
lágvaxnari missti fótanna. Hinn sparkaði í hann þar til einhver togaði
hann aftur á bak.
Fatin lagði bláan miða fyrir framan mig. Ég var að drekka, reykja og eta
kirsuber úr nýja munninum smáa. Ég las það sem skrifað var á bláa
miðann: Ég er ekki sama manneskjan og ég var í gær. Ég veit það en get
ekki sagt það skýrt. Þú verður að reyna að skilja mig.
Nýja andlitið otaði fram tómu glasi sínu. Barþjónninn var upptekinn við
að rissa ferhyrninga á lítið, hvítt blað. "Gefðu henni annan drykk,"
sagði ég við hann. Vinkonan, sem setið hafði með henni, kom nú til
okkar. "Gefðu henni líka í glas," sagði ég.
Ég hugsaði með mér: Meiri kirsuber og mannakjöt. Meiri klækjabrögð og
meiri peninga. Ég fór að skrifa á bláa miðann hennar Fatin: Ég má alls
ekki reyna að skilja þig.
Morgunblaðið/Kristinn Ég opnaði pokann og hann snerti skóna sem
snöggvast. Síðan tók hann við pokanum af mér og ég við pakkanum af
honum. Hann benti á kyrrstæða bifreið og sagði: "Þetta er bíllinn sem á
að aka mér út á flugvöll."
Ég hugsaði: Og í kvöld verð ég á Bar Messalínu

|

|
Deila
á Facebook. |
|
|
Deila á Twitter
|
|
|
|
|